Hæstiréttur íslands

Mál nr. 32/2001


Lykilorð

  • Vinnuslys
  • Líkamstjón
  • Örorka
  • Skaðabætur
  • Sakarskipting


Fimmtudaginn 14

 

Fimmtudaginn 14. júní 2001.

Nr. 32/2001.

BGB-Snæfell ehf.

(Guðmundur Pétursson hrl.)

gegn

Össuri Willardssyni

(Stefán Geir Þórisson hrl.)

og gagnsök

 

Vinnuslys. Líkamstjón. Örorka. Skaðabætur. Sakarskipting.

Ö, sem var 17 ára gamall, varð fyrir slysi við vinnu í fiskverkunarhúsi B. Hugðist Ö loka vél, sem notuð var til að pressa skreiðarhausa, en hafði hönd sína á falsi vélarinnar og klemmdist hún þegar lokið kom niður. Eftir slysið krafðist Vinnueftirlitið breytinga á stjórnbúnaði pressunnar. Þótti sýnt að vélin hefði verið vanbúin, en breyting á búnaði hennar hefði orðið einföld og ódýr. Var slysið rakið til vanbúnaðar hennar. Ekki var talið að verkstjóri hefði haft sérstakt tilefni til að hafa hönd í bagga með framkvæmd verksins þar sem Ö hafði sjálfur frumkvæði að því að vinna við vélina í umrætt sinn. Ö hafði unnið alllengi í fiskverkuninni og áður við pressuna. Var talið að honum hefði mátt vera ljós sú hætta sem af vinnubrögðum hans stafaði. Var Ö því látinn bera helming tjóns síns sjálfur en B gert að bæta honum helming þess.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. janúar 2001. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að hún verði lækkuð og málskostnaður falli niður.

Héraðsdómi var gagnáfrýjað 10. apríl 2001. Gagnáfrýjandi krefst þess að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 5.338.542 krónur með 2% ársvöxtum frá 31. janúar 1996 til 9. desember 1999, en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst gagnáfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

I.

Gagnáfrýjandi varð fyrir slysi við vinnu sína í fiskverkunarhúsi aðaláfrýjanda 31. janúar 1996. Er slysið varð var hann 17 ára gamall og hafði starfað hjá aðaláfrýjanda frá 1. júní 1994. Slysið varð með þeim hætti að gagnáfrýjandi vann við að pressa skreiðarhausa í þar til gerðri vél. Fyllti hann kassalaga hólf pressunnar af skreiðarhausum að ofan og var þá lok pressunnar opið, en lokið lék á lömum og var því lyft og lokað með vökvatjakk. Hugðist hann loka pressunni með því að taka með vinstri hendi í handfang, sem stjórnar vökvatjakknum. Var hann með hægri höndina í falsinu og klemmdist þegar lokið kom niður. Við þetta skaddaðist hann á fjórum fingrum hægri handar. Gagnáfrýjandi kvaðst við skýrslugjöf hjá lögreglu skömmu eftir slysið vera vanur að vinna við pressuna, en í skýrslu fyrir dómi við aðalmeðferð málsins kvaðst hann ásamt öðrum hafa leyst þann mann af, er venjulega vann við pressuna, um tveggja til þriggja vikna skeið sumarið 1995. Þann dag, sem slysið varð, kvaðst gagnáfrýjandi hafa beðið vinnufélaga sinn að skipta við sig um starf og hafi slysið orðið er hann hugðist loka pressunni í fyrsta sinn eftir að hann tók við stjórn hennar. Slysið var þegar tilkynnt Vinnueftirliti ríkisins, sem gerði kröfur til breytinga á stjórnbúnaði pressunnar til að koma í veg fyrir slys af þessu tagi. Var þess meðal annars krafist að settur yrði svonefndur tveggja handa rofi á stjórntæki pressunnar þannig að stjórnandi hennar gæti ekki ræst lokunarbúnaðinn nema að beita til þess báðum höndum.

II.

Ljóst er að skreiðarpressan, sem gagnáfrýjandi vann við, gat leitt af sér hættu á slysi, enda voru þungir hlutir á hreyfingu þegar hún var í notkun. Bar aðaláfrýjanda því að sjá til þess að vinnuaðstaða við hana væri þannig að úr þessari hættu væri dregið svo sem framast var kostur, þar á meðal með því að ganga þannig frá vélinni og stjórnbúnaði hennar að sem minnst hætta væri á að stjórnandi hennar kæmist óviljandi í snertingu við þá hluta hennar, sem á hreyfingu voru og hættu gátu skapað, sbr. 4. gr. reglna nr. 492/1987 um öryggisbúnað véla. Eins og að framan er rakið krafðist Vinnueftirlit ríkisins þess strax eftir slysið að stjórnbúnaði hennar yrði breytt þannig að á hann yrði settur svonefndur tveggja handa rofi. Verður ekki annað séð en sú breyting hafi verið tiltölulega einföld og ódýr. Verður að telja að rekja megi slysið til vanbúnaðar skreiðarpressunnar, þar sem hún var í notkun án slíks búnaðar þegar það varð. Í þessu sambandi er einnig til þess að líta að fram kemur í skýrslu Óskars Sveins Jónssonar, sem virðist hafa haft einhvers konar umsjón með pressunni af hálfu aðaláfrýjanda, að starfsmenn hans hafi fyrir slysið verið farnir að hyggja að einhverjum öryggisbúnaði við vélina, en skýrsla þessi var gefin fyrir lögreglu í tilefni máls þessa. Verður að leggja fébótaábyrgð á aðaláfrýjanda vegna þessa vanbúnaðar vélarinnar.

Þótt gagnáfrýjandi væri ungur að árum þegar slysið varð var hann búinn að vinna alllengi hjá fiskverkun aðaláfrýjanda og hafði áður unnið við skreiðarpressuna. Hann átti því að vera kunnugur stjórntökum við pressuna og vera ljós hætta sú, sem af því leiddi að hafa hönd í falsi pressunnar þegar hún var í gangi. Hlaut sú hætta að vera augljós hverjum manni. Þá ber til þess að líta að í umrætt sinn hóf hann störf við pressuna að eigin frumkvæði með því að skipta um starf við starfsfélaga sinn og var því ekki sérstakt tilefni eða tækifæri fyrir verkstjóra aðaláfrýjanda að hafa hönd í bagga með framkvæmd verksins. Gagnáfrýjandi sýndi því af sér talsvert gáleysi og verður einnig að bera ábyrgð á slysinu. Að öllu virtu verður niðurstaða málsins sú að aðaláfrýjandi skal bæta gagnáfrýjanda helming tjóns hans vegna slyssins, en helming skal gagnáfrýjandi bera sjálfur.

Ekki er í málinu ágreiningur um að miða þjáningabætur gagnáfrýjanda við þá niðurstöðu í álitsgerð læknanna Jónasar Hallgrímssonar og Leifs N. Dungal, að hann hafi verið rúmliggjandi í þrjá daga og veikur án þess að vera rúmliggjandi í sextán mánuði. Aðaláfrýjandi krefst þess hins vegar að nýtt verði heimild 2. málsliðar 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 til að víkja til lækkunar frá fjárhæðum þeim, sem kveðið er á um í 1. málslið 1. mgr. greinarinnar. Þar sem ekki hafa verið færð fram nein haldbær rök fyrir því að sérstök ástæða sé til að beita þessari heimild verður þeirri kröfu hafnað.

Ekki er ágreiningur um fjárhæð bóta fyrir varanlegan miska.

Fyrir Hæstarétti krafðist áfrýjandi þess að frá bótum til gagnáfrýjanda vegna varanlegrar örorku yrðu dregnar bætur, sem hann hefur fengið greiddar úr samningsbundinni slysatrygginu, sem aðaláfrýjandi keypti, að fjárhæð 620.900 krónur. Kveðst hann einnig hafa gert þessa kröfu við munnlegan flutning málsins fyrir héraðsdómi og hefur því ekki verið mótmælt af hálfu gagnáfrýjanda. Verður þessi greiðsla því dregin frá skaðabótakröfu aðaláfrýjanda samkvæmt 4. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993. Verður aðaláfrýjandi samkvæmt þessu dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda 2.358.821 krónu með vöxtum eins og í dómsorði greinir.

Aðaláfrýjandi verður dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Aðaláfrýjandi, BGB-Snæfell ehf., greiði gagnáfrýjanda, Össuri Willardssyni, 2.358.821 krónu með 2% ársvöxtum frá 31. janúar 1996 til 9. desember 1999, en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags.

Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda samtals 600.000 krónur í málskostnað í hérað og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 10. janúar 2001.

Mál þetta, sem dómtekið var þann 10. desember s.l., hefur Össur Willardsson, kt. 160878-3719, Svarfaðarbraut 30, Dalvík, höfðað hér fyrir dómi gegn BGB-Snæfelli ehf., kt. 591296-2729, Sjávargötu 6, Dalvík, með stefnu birtri þann 24. mars 2000.

Stefnandi gerir  þær dómkröfur, að stefnda greiði honum skaða- og miskabætur að fjárhæð kr. 5.338.542,- með 2 % vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50, 1993 frá 31. janúar 1996 til 9. desember 1999, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987, með síðari breytingum, frá þeim degi til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu ásamt virðisaukaskatti.

Stefnda gerir aðallega þær dómkröfur, að það verði sýknað, en til vara að stefnukröfur stefnanda verði lækkaðar.  Í aðalkröfu er þess krafist að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins, en í varakröfunni að málskostnaður verði felldur niður.

Af hálfu réttargæslustefnda eru ekki gerðar sjálfstæðar dómkröfur og jafnframt eru engar dómkröfur gerðar á hendur því.

Málsatvik munu vera þau, að þann 31. janúar 1996 varð stefnandi fyrir slysi við vinnu sína í fiskverkunarhúsi Blika hf., sem síðar sameinaðist öðru fyrirtæki undir heitinu BGB hf. Bliki-G.Ben., en heitir nú eftir aðra sameiningu BGB-Snæfell hf.  Nefndan dag vann stefnandi við að pressa þurrkaða skreiðarhausa í svokallaðri skreiðarpressuvél þegar hann lenti með fjóra fingur hægri handar í pressunni.  Pressan er þannig úr garði gerð, að á henni eru fjórar hliðar og þar af ein opnanleg.  Út um þá hlið eru hausarnir teknir eftir pressun.  Sett er í pressuna að ofan með lokið uppi en þegar búið er að fylla pressuna er henni lokað með vökvatjakki.  Þegar slysið varð var stefnandi búinn að fylla pressuna og stóð við handfang, sem stjórnar vökvatjakknum.  Notaði stefnandi vinstri hendi á handfangið en var með hægri hendina í falsinu með þeim afleiðingum að hendin klemmdist þegar lokið kom niður.  Hann lyfti lokinu þó strax er hann klemmdist, en engu að síður meiddist hann illa á fingrum hægri handar. 

Eftir að hafa fengið fyrstu hjálp á heilsugæslustöðinni á Dalvík var stefnandi fluttur í skyndi á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri þar sem framkvæmd var aðgerð á hendinni.  Alvarlegir áverkar reyndust vera á öllum fingrum hægri handar nema þumalfingri og voru þeir fingur allir brotnir auk yfirborðsáverka.  Gert var að sárunum með skurðaðgerð.  

Leitað var álits læknanna Jónasar Hallgrímssonar og Leifs N. Dungal á líkamstjóni stefnanda með tilliti til reglna skaðabótalaga nr. 50, 1993.  Vegna þeirrar álitsgerðar áttu læknarnir viðtal við stefnanda 30. september 1999.  Þá kom meðal annars fram, að núverandi ástand stefnanda væri eftirfarandi:  Stefnandi finni ekki fyrir neinum einkennum í þumalputta hægri handar.  Vísifingur hægri handar sé stífur við beygju og sé þar mikið kuldaóþol og skrýtnir verkir við stýfða liðinn, en stefnandi reyni að hlífa honum sem mest, því hann þvælist fyrir þegar unnið sé.  Í löngutöng sé ekki full réttigeta með eigin krafti og nái fingurinn ekki inn í lófann með fingurgóm þegar höndin sé kreppt.  Mikið kuldaóþol sé í fingrinum en litlir verkir.  Í baugfingri sé ekki full rétti- eða beygjugeta og sé fingurinn kraftlítill; þar fái stefnandi álagsverki og einnig verki án álags.  Í litlafingri sé ekki alveg full réttigeta en full beygjugeta.  Lítill trafali sé af litlafingrinum annað en kuldaóþol og einnig vilji hann beygjast óeðlilega inn í lófann í átt til þumalfingurs þegar stefnandi kreppi hnefann.  Dofi sé til hliðar á löngutöng og baugfingri.  Gripkraftur hægri handar sé mikið minnkaður og fínhreyfingar erfiðar vegna stirðleika.  Stefnandi hafi mikið kuldaóþol á áverkasvæðinu.

Töldu nefndir læknar tímabundið atvinnutjón stefnanda 100 % í 10 mánuði.  Skyldu þjáningabætur metnar á þann veg, að stefnandi hafi verið veikur í skilningi skaðabótalaga í 16 mánuði, þar af rúmliggjandi í 3 daga.  Varanlegan miska mátu læknarnir 25 % og varanlega örorku einnig 25 %.

Í kjölfar álitsgerðarinnar sendi lögmaður stefnanda réttargæslustefnda kröfubréf dags. 9. nóvember 1999, þar sem krafist var bóta að fjárhæð kr. 5.997.492,-, þ.e. stefnufjárhæð málsins.  Því bréfi var svarað með bréfi dags. 17. nóvember 1999 þar sem hafnað var bótaskyldu úr ábyrgðartryggingu stefnda hjá réttargæslustefnda, þar sem skaðabótaábyrgð væri ekki fyrir hendi.  Stefnandi sætti sig ekki við þessi málalok og höfðaði því mál þetta.

Stefnandi kveðst telja, að slysið megi bæði rekja til vanbúnaðar skreiðarpressunnar og gáleysis starfsmanna Blika hf.  Í skýrslu Vinnueftirlits ríkisins komi fram, að ekki sé svokallaður tveggja handa rofi við skreiðarpressu þá, sem olli slysinu, og þá hafi ekki heldur verið gerðar aðrar ráðstafanir til að fyrirbyggja klemmihættu við lok hennar.  Í skýrslu Vinnueftirlitsins, sem gerð hafi verið eftir slysið, séu gerðar kröfur um breytingar á stjórnbúnaði hennar svo koma megi í veg fyrir slys af þessu tagi.  Ef tveggja handa rofi hefði verið við pressuna hefðu starfsmenn, sem við hana unnu, ekki getað notað pressuna nema nota báður hendur til að virkja vökvatjakkinn, en allar líkur séu á því að slíkur útbúnaður hefði komið í veg fyrir slys af því tagi sem stefnandi varð fyrir.

Kveður stefnandi, að þegar metið sé hvort sök hafi verið til staðar hjá starfsmönnum Blika hf. þurfi að skoða nokkur atriði (merkt a-d í stefnu):

Í fyrsta lagi, hve mikil hætta hafi verið á að tjón hlytist af hegðun eða háttsemi þeirra.  Í tilviki stefnanda sé ljóst, að veruleg hætta hafi stafað af vélinni eins og hún var úr garði gerð fyrir 17 ára ungling og hafi lítið þurft út af að bera til þess að hætta yrði á stórtjóni.

Í öðru lagi þurfi að skoða hve mikið tjón væri sennilegt að af háttsemi hlytist.  Augljóst sé að tjón af völdum skreiðarpressunar hafi getað orðið mjög mikið þar sem afl hennar sé mikið og hún þess eðlis, að geta tekið af starfsmönnum útlimi ef ekki væri sérlega varlega farið.

Í þriðja lagi beri að líta til þess, hversu auðvelt/erfitt sé fyrir tjónvald að gera sér grein fyrir hættunni á tjóni.  Í tilviki stefnanda hafi verkstjóra og eigendum fyrirtækisins átt að vera ljóst, að skreiðarpressan væri hættuleg vél og því nauðsynlegt að gera allar tiltækar ráðstafanir varðandi búnað hennar til að draga úr hættu á slysi, þ.á m. að sjá til þess að unglingar, sem ynnu við vélina, fengju viðeigandi leiðbeiningar.

Í fjórða og síðasta lagi beri við matið að horfa til þess, hvaða ráðstafanir hefði verið unnt að gera til að koma í veg fyrir tjón.  Fram komi í skýrslu Vinnueftirlitsins, að til hafi verið búnaður sem hægt hafi verið með litlum tilkostnaði að setja á vélina, sem stórlega og nánast alfarið hefði komið í veg fyrir slys af þessu tagi (tveggja handa rofi).  Einnig hafi fyrirsvarsmönnum Blika hf. verið tiltækar aðrar ráðstafanir til að minnka hættu frá vélinni.  Nú muni vélinni hafa verið breytt til að koma í veg fyrir slys af því tagi, sem stefnandi hafi orðið fyrir.

Þegar slysið hafi orðið hafi stefnandi verið aðeins 17 ára að aldri.  Það sé alkunna að unglingar hafi ekki sama jafnlyndi og eldra fólk; augnabliks ærslagangur og óaðgæsluleysi sé algengur hjá unglingum, sem hafi ekki jafn þroskaða athyglisgáfu og séu ekki jafnmeðvitaðir um hættueiginleika í umhverfinu eins og fullorðnir.  Telja verði hæpið, að unglingur sem sé að stíga sín fyrstu spor á vinnumarkaðinum hafi umsjón yfir vél sem sé hættuleg og þarfnist þess að full aðgát sé höfð við þegar unnið sé við hana og það án þess að gefa honum fyrirfram ítarlegar aðvörunarleiðbeiningar.  Einnig verði að telja það gálausa hegðun af hálfu verkstjóra, að hafa ekki verið til staðar á meðan skreiðarpressan var í notkun, en verkstjóri hafi verið fjarverandi þegar slysið varð.  Augljóst sé að aðrar kröfur séu gerðar til verkstjóra þegar verk sé hættulítið, en þegar verk sé unnið við hættulegar aðstæður.

Stefnandi kveður að hvað sem öðru líði sæti mat á bótaábyrgð stefnda strangari mælikvarða en almennt gerist og gengur þar sem um sé að ræða hættulegan starfa, en skreiðarhausapressan geti hæglega valdið þeim miklum skaða, sem við hana vinni.

Kveður stefnandi kröfu um þjáningabætur grundvallast á niðurstöðu matsgerðar læknanna Jónasar Hallgrímssonar og Leifs N. Dungal og það geri einnig krafan um bætur fyrir varanlegan miska.

Við útreikning kröfu um bætur fyrir varanlega örorku sé miðað við meðaltekjur iðnaðarmanna á slysdegi.  Sé það gert með vísan til verulega ungs aldurs tjónþola, sem ekki hafi á slysdegi haft viðmiðunarhæfa tekjureynslu, sbr. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50, 1993.

Vaxtakröfu kveður stefnandi vera í samræmi við 16. gr. skaðabótalaga, en upphafstími dráttvarvaxtakröfu, 9. desember 1999, sé með vísan til 15. gr. vaxtalaga nr. 25, 1987, en á þeim degi hafi verið liðinn mánuður frá því að stefnandi sendi réttargæslustefnda kröfubréf dags. 9. nóvember 1999.  Hafi dráttarvaxtakrafan verið boðuð í niðurlagi bréfsins.

Aðild stefnda kveður stefnandi byggja á, að stefnda hafi tekið við öllum réttindum og skyldum Blika hf., vinnuveitanda stefnanda á slysdegi.  Réttargæsluaðild Tryggingamiðstöðvarinnar hf. byggist á því, að Bliki hf. hafi á slysdegi haft gilda ábyrgðartryggingu hjá félaginu.

Mál þetta kveður stefnandi vera höfðað fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra með vísan til 33. gr. laga nr. 91, 1991, um meðferð einkamála.

Um ábyrgð stefnda kveðst stefnandi vísa til almennra reglna skaðabótaréttarins, einkum sakarreglunnar og reglunnar um vinnuveitandaábyrgð.  Um vaxtakröfu vísist til 16. gr. skaðabótalaga nr. 50, 1993 og um dráttarvaxtakröfu vísist til III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987.  Að endingu kveðst stefnandi um málskostnaðarkröfu vísa til laga um meðferð einkamála nr. 91, 1991, einkum 1. mgr. 130. gr. þeirra.

Stefnda kveðst hafna þeim málsástæðum sem að framan eru raktar og stefnandi byggir kröfur sínar á.  Kveðst stefnda benda á, að skreiðarpressa sú, sem um ræði í málinu, hafði verið í notkun hjá stefnda um langan tíma og engar athugasemdir hefðu verið gerðar við öryggisbúnað eða annan búnað pressunar af hálfu Vinnueftirlits ríkisins.  Engu breyti að mati stefnda þó Vinnueftirlitið hafi krafist þess eftir slysið, að rofabúnaði pressunnar yrði breytt til að útiloka samskonar slys.  Kveður stefnda í þessu sem öðru vera auðvelt að vera vitur eftir á og hægt að benda á að öryggisbúnaður ætti að vera einhvern veginn öðruvísi en hann hafi verið, en kjarni málsins sé, að ekki hafi verið gerðar athugasemdir af hálfu Vinnueftirlitsins við vinnuvélina eins og hún hafi verið.  Því sé útilokað að meta það sem saknæma vanrækslu af hálfu stefnda, að búnaður hennar hafi verið eins og raun bar vitni.

Hvað gáleysið varði verði ekki séð, að vangaveltur stefnanda undir stafliðum a-d í stefnu hafi nokkuð með bótaskyldu í málinu að gera, enda sé þar fyrst og fremst um að ræða almenn sjónarmið varðandi sakarmat.

Þá kveðst stefnda benda á, að það hafi tíðkast um langan aldur á Íslandi að unglingar ynnu frá 16 ára aldri sem fullgildir verkamenn og fengju laun samkvæmt því.  Þeir hafi stundað vinnu á ýmsum vinnustöðum og auðvitað séu ávallt einhverjar hættur þar til staðar og því miður útilokað að koma í veg fyrir að slys verði.  Aðalatriðið í málinu sé hins vegar sú staðreynd, að stefnandi hafði unnið við pressuna lengi þegar óhappið varð og hafi hann verið orðinn vanur henni.  Verði að ætla að stefnandi hafi fyllilega gert sér grein fyrir þeim hættum sem falist hafi í notkun pressunnar, enda ættu þær að blasa við hverjum sem við hana vinni.

Kveðst stefnda leggja á það áherslu, að eftir stefnanda sé haft í lögregluskýrslu að slysið hafi verið eins og hvert annað óhapp.  Hann hafi einungis verið með hægri hendina þar sem hún hafi ekki átt að vera og því hafi slysið orðið.  Að mati stefnda segi þetta allt sem segja þurfi.  Stefnandi hafi haft atburðarásina algerlega í hendi sér, þekkt hætturnar og getað, með eðlilegum og sjálfsögðum öryggisráðstöfunum, komið í veg fyrir slysið og verði hann því sjálfur að bera ábyrgð á tjóni sínu.

Stefnda kveður það sem að framan sé rakið vera haft eftir stefnanda og taki af vafa um að leiðbeiningum hafi að einhverju leyti verið ábótavant.

Þá kröfu stefnanda, að nærvera verkstjóra hafi verið nauðsynleg þegar umrædd pressa hafi verið í notkun, kveður stefnda ekki raunhæfa og því hljóti henni að verða hafnað, enda verði ekki séð að það hvort verkstjóri var á staðnum eða ekki hefði breytt nokkru um slys stefnanda, enda atburðarásinni algerlega stjórnað af stefnanda sjálfum.

Stefnda kveður rétt að ítreka það, að útilokað sé að sjá fyrir allar þær hættur sem kunni að leynast á vinnustað eins og hjá stefnda, en ef fallist yrði á kröfur og málsástæður stefnanda í málinu, megi í raun segja að verið væri að innleiða hlutlæga ábyrgð vinnuveitanda á slysum eins og hér um ræði og slíkt hafi að minnsta kosti ekki verið raunin hingað til í íslenskum rétti.

Varakröfu um lækkun kveður stefnda á því byggða, að fari svo að dómurinn telji bótaskyldu vera fyrir hendi, þá telji stefnda engan vafa á því leika, að stefnandi hljóti að bera megin hluta tjónsins sjálfur vegna augljósrar eigin sakar, sbr. það sem áður hefur verið rakið um atvik að slysinu.

Stefnda kveðst um þjáningabætur benda á lokamálslið 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga, þar sem krafa stefnanda sé hærri en kr. 200.000,-, en stefnda telji að eins og mál þetta sé í pottinn búið sé eðlilegt að miða við lægri grunntölu en gert sé í kröfugerð stefnanda.

 

Í upphafi aðalflutnings fór dómari ásamt lögmönnum aðila á vettvang og skoðaði skreiðarpressu þá, sem stefnandi vann við, er hann slasaðist. 

Skýrslu fyrir dómi gaf, auk stefnanda, Sigurður Þorleifsson, en hann var, er atvik máls gerðust, verkstjóri hjá Blika hf.

 

Í skýrslu Vinnueftirlits ríkisins dags. 31. janúar 1996, vegna slyss stefnanda, kemur fram, að Vinnueftirlitið hafi í kjölfar slyssins gert kröfur um breytingar á stjórnbúnaði skreiðarpressunnar til að koma í veg fyrir slys af því tagi, sem henti stefnanda.  Er ágreiningslaust, að pressan var búin svonefndum tveggja handa rofa í kjölfar slyssins.

Ljóst er að framanlýstar breytingar á skreiðarpressunni fyrirbyggja að slys, líkt og henti stefnanda, geti orðið við notkun pressunnar.  Liggur ekki annað fyrir í málinu, en umræddar breytingar hafi verið einfaldar og án verulegs kostnaðar eða fyrirhafnar fyrir stefnda.  Er það álit dómsins með vísan til þessa, að stefnda hafi borið, þegar er skreiðarpressan var tekin í notkun í atvinnurekstri félagsins, að gera umræddar ráðstafanir eða aðrar þær ráðstafanir, sem minnkað hefðu til muna eða útilokað þá augljósu hættu sem var á að hendur starfsmanna klemmdust  við notkun pressunnar.  Var þetta sérstaklega brýnt í ljósi þess, að gera mátti ráð fyrir alvarlegum meiðslum, klemmdust hendur starfsmanna undir loki pressunnar.  Meint athugasemdaleysi Vinnueftirlits ríkisins fyrir slysið þykir í þessu sambandi ekki hafa neina þýðingu.  Er það því niðurstaða dómsins, að stefnda beri skaðabótaábyrgð á áðurlýstu tjóni stefnanda.

Upplýst er í málinu, að stefnandi hafði einhverja reynslu af notkun skreiðarpressunnar er umrætt slys átti sér stað.  Þá mátti honum vera ljós sú klemmihætta, sem stafaði af notkun pressunnar.  Er það niðurstaða dómsins með vísan til þessa, að stefnandi hafi sýnt af sér gáleysi er hann lagði hægri hönd sína í fals skreiðarpressunnar um leið og hann lét lok hennar síga.  Við mat á gáleysi stefnanda þykir þó mega líta til ungs aldurs hans og reynsluleysis á slysdegi.  Þykir hæfilegt að stefnandi beri 1/3  hluta tjóns síns sjálfur vegna eigin sakar.

Stefnandi hefur sundurliðað dómkröfur sínar á eftirfarandi hátt:

1.  Bætur fyrir þjáningu skv. 3. gr.

   3 x 1.520 og 477 x 820“                                                       395.700,-

2.  Bætur fyrir varanlegan miska, 4. gr. skbl.

     4.690.000 x 25 %“                                                                 1.172.500,-

3.  Bætur fyrir varanlega örorku 5.-7. gr. skbl.

     1.695.900,- x 6 %                                                                  = 101.754,-

     1.797.654,- x 3440/3848

     2.010.849,- x 7,5 x 25 %                                                       “3.770.342,-

Samtals                                                                                          5.338.542,-

Stefnandi byggir kröfu sína um þjáningabætur á matsgerð læknanna Jónasar Hallgrímssonar og Leifs N. Dungal dags. 14. október 1999.  Í matsgerðinni vísa læknarnir m.a. til vottorðs Þorvaldar Ingvarssonar bæklunarlæknis við bæklunardeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri dags. 6. janúar 1999 hvað varðar óvinnufærni stefnanda.

Þykir verða að byggja á ofannefndri matsgerð við ákvörðun þjáningabóta til handa stefnanda, enda hefur stefnda ekki gert nokkra tilraun til að hnekkja henni efnislega.  Með vísan til þessa og að stefnda hefur ekki fært fyrir því rök, að atvik séu hér með svo sérstökum hætti, að efni séu til að beita heimild í lokamálslið 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga nr. 50, 1993, til lækkunar á kröfum stefnanda um þjáningabætur, þykir í samræmi við áðurnefnda matsgerð verða að dæma stefnanda þjáningabætur í þá 3 daga, sem hann var rúmfastur, en í 477 daga, sem hann var veikur án þess að vera rúmliggjandi.  Þjáningabætur stefnanda þykja því réttilega ákvarðaðar kr. 395.700,-.

Þar sem stefnda hefur ekki mótmælt kröfugerð stefnanda tölulega á annan hátt en þegar hefur verið vikið að, þykir með vísan til niðurstöðu dómsins hér að framan, verða að dæma stefnda til að greiða stefnanda 2/3 hluta tjóns hans, þ.e. 5.338.542 x 2/3 = kr. 4.003.906,- með 2% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50, 1993, frá 31. janúar 1996 til 9. desember 1999, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987, með síðari breytingum, frá þeim degi til greiðsludags

Rétt þykir, með vísan til úrslita málsins, að stefnda greiði stefnanda kr. 600.000,- í málskostnað og er virðisaukaskattur innifalinn í þeirri fjárhæð.

Dóm þennan kveður upp Freyr Ófeigsson, dómstjóri.

D Ó M S O R Ð :

Stefnda, BGB-Snæfell ehf., greiði stefnanda, Össuri Willardssyni, kr. 3.559.028,- með 2% ársvöxtum frá 31. janúar 1996 til 9. desember 1999, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987, frá þeim degi til greiðsludags og kr. 600.000,- í málskostnað.