Hæstiréttur íslands
Mál nr. 476/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Fjárslit
- Opinber skipti
- Óvígð sambúð
|
|
Föstudaginn 2. september 2011. |
|
Nr. 476/2011.
|
K (Sveinn Jónatansson hdl.) gegn M (Ingimar Ingimarsson hrl.) |
Kærumál. Fjárslit. Opinber skipti. Óvígð sambúð.
K kærði úrskurð héraðsdóms þar sem kveðið var á um að opinber skipti til fjárslita milli hennar og M skyldu fara fram. Aðila greindi meðal annars á um hvort fullnægt væri skilyrðum 100. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. til að unnt væri að krefjast opinberra skipta til fjárslita milli þeirra. Þá greindi aðila á um hvort skilyrði væru að öðru leyti til þess að fram færu opinber skipti til fjárslita milli þeirra. Í dómi Hæstaréttar sagði að með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar mætti staðfesta þá niðurstöðu að skilyrði 100. gr. laga nr. 20/1991 um tveggja ára samfellda sambúð væri uppfyllt í málinu. Í dóminum sagði því næst að af 109. gr. laga nr. 20/1991 yrði ráðið að opinber skipti til fjárslita færu ekki fram nema minnst annar aðilanna ætti eignir umfram skuldir, sbr. dóm Hæstaréttar 29. ágúst 2005 í máli nr. 261/2005 sem birtur væri í dómasafni þess árs á bls. 2841. Þá sagði í dóminum að óumdeilt virtist að við lok sambúðar aðila hefðu ýmsar nánar tilgreindar eignir ýmist verið þinglýstar eða skráðar á nafn K. Samkvæmt gögnum málsins hefði M á hinn bóginn á umræddu tímamarki ekki átt neinar eignir sem einhverju gætu skipt. Því næst sagði í dómi Hæstaréttar að ljóst væri, meðal annars af tölvupósti sem farið hefði milli aðila í kjölfar sambúðarslitanna, að ágreiningslaust væri milli þeirra að áhvílandi veðskuldir á fasteignum sem skráðar væru á K væru töluvert hærri en verðmæti þeirra. Þá bæru gögn málsins með sér að hið sama ætti við um aðrar nánar tilgreindar eignir K. Að öllu þessu virtu hefði M ekki sýnt fram á að verðmæti fyrrgreindra eigna K hefði verið meira en skuldir hennar, en með því að M hefði krafist opinberra skipta yrði hann að sýna fram á að skilyrði til þess væru uppfyllt. Var kröfu M því hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Greta Baldursdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. júlí 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. ágúst sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. júlí 2011, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að fram færu opinber skipti til fjárslita milli hans og sóknaraðila vegna slita á óvígðri sambúð þeirra. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðila um opinber skipti verði hafnað. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 15. ágúst 2011. Hann krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði staðfestur um annað en málskostnað, sem sóknaraðila verði gert að greiða sér ásamt kærumálskostnaði. Til vara krefst varnaraðili þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sóknaraðili dæmd til að greiða kærumálskostnað.
Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði bjuggu aðilar saman í um tíu ár með hléum. Ber aðilum ekki saman um hvenær þau hófu sambúð en af gögnum málsins má ráða að það hafi verið eigi síðar en á árinu 1998 og henni hafi lokið í október 2008. Greinir aðila meðal annars á um það hvort sambúð þeirra hafi á umræddu tímabili varað samfleytt í að minnsta kosti tvö ár þannig að fullnægt sé skilyrðum 100. gr. laga nr. 20/1991 til að unnt sé að krefjast opinberra skipta til fjárslita milli þeirra. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður að líta svo á að það skilyrði sé hér uppfyllt.
Ágreiningur í máli þessu snýst jafnframt um það hvort skilyrði séu að öðru leyti til þess að fram fari opinber skipti til fjárslita milli aðila. Samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 20/1991 skal við skipti greina milli eigna sem tilheyra hvorum aðila fyrir sig og eigna sem tilheyra þeim í sameiningu. Eins skal farið með skuldir hvors um sig og þær skuldir sem beinast að þeim báðum. Í 2. mgr. sömu lagagreinar segir að þegar ákveðið er hvað hvor aðili eigi að fá í sinn hlut og ef sammæli verða ekki um aðra skipan skuli leggja saman varðandi hvorn þeirra fyrir sig verðmæti eigna sem tilheyra honum einum og verðmæti hlutdeildar hans í því sem hann á í sameign með gagnaðilanum. Frá þessari heildareign hvors um sig skuli síðan dregin fjárhæð skulda sem beinast að hvorum þeirra, ásamt hlutdeild hvors í sameiginlegum skuldum. Þá segir í 3. mgr. ákvæðisins að hvor aðili um sig eigi aðeins rétt á að fá eignir í sinn hlut móti skuldum sínum að því marki sem eignir hans sjálfs, þar á meðal hlutdeild í sameign, hrökkvi fyrir skuldum hans. Að því leyti sem eignir aðilans nægja ekki fyrir skuldum hans verði á hinn bóginn ekki tekið tillit til skuldanna sem umfram eru nema aðilar ákveði annað. Af þessu er ljóst að opinber skipti til fjárslita fara ekki fram nema minnst annar aðilanna eigi eignir umfram skuldir, sbr. dóm Hæstaréttar 29. ágúst 2005 í máli nr. 261/2005 sem birtur er í dómasafni þess árs á bls. 2841.
Samkvæmt 104. gr. laga nr. 20/1991 koma aðeins til skipta þær eignir og þau réttindi aðilanna sem tilheyrðu þeim þegar óvígðri sambúð var slitið auk þess sem til skipta skulu koma arður, vextir og annars konar tekjur sem hafa fengist síðan af þeim eignum og réttindum. Með sama hætti skal aðeins tekið tillit til skulda aðilanna sem höfðu stofnast og voru ekki greiddar á því tímamarki.
Óumdeilt virðist í málinu að við lok sambúðar aðilanna hafi eftirfarandi eignir ýmist verið þinglýstar eða skráðar á nafn sóknaraðila: Einbýlishús að [...] og [...] að [...] í Reykjavík, lóð að [...], traktorsgrafa, leigð samkvæmt samningi um fjármögnunarleigu, bifreiðir með skráningarnúmeri [...] af gerðinni [...] og hjólhýsi með skráningarnúmeri [...]. Þá liggur fyrir að á framangreindum fasteignum í [...]hvíldu miklar skuldir, svo og að tekin hafi verið lán til kaupa traktorsgröfu, bifreiða og hjólhýsis, en allar þessar skuldir hafi verið á nafni sóknaraðila. Samkvæmt gögnum málsins mun varnaraðili á hinn bóginn ekki hafa átt neinar eignir sem einhverju geta skipt.
Þótt í málinu liggi ekki fyrir óyggjandi gögn um verðmæti ofangreindra eigna eða útreikningur á stöðu skulda á því tímamarki sem sambúð aðila var slitið er ljóst, meðal annars af tölvupósti sem fór milli aðila í kjölfar sambúðarslitanna, að ágreiningslaust var milli þeirra að áhvílandi veðskuldir á fasteignum væru töluvert hærri en verðmæti þeirra. Þá bera gögn málsins með sér að lán vegna kaupa á bifreiðum, hjólhýsi og traktorsgröfu voru mun hærri en verðmæti þeirra, auk þess sem skuldir vegna yfirdráttar á bankareikningum og af greiðslukortum voru töluverðar. Að öllu þessu gættu hefur varnaraðili ekki sýnt fram á að verðmæti fyrrgreindra eigna sóknaraðila hafi verið meira en skuldir hennar, en með því að varnaraðili hefur krafist opinberra skipta verður hann að sýna fram á að skilyrði til þess séu uppfyllt.
Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Kröfu varnaraðila, M, um opinber skipti til fjárslita milli hans og sóknaraðila, K, er hafnað.
Varnaraðili greiði sóknaraðila samtals 500.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. júlí 2011.
Með beiðni móttekinni í Héraðsdómi Reykjavíkur, 7. febrúar 2011, krafðist sóknaraðili, M, kt. [...], þess að fram færu opinber skipti til fjárslita milli hans og varnaraðila, K, kt. [...], vegna slita á óvígðri sambúð.
Við þingfestingu málsins, 14. mars sl., mótmælti varnaraðili kröfu sóknaraðila og var þá þegar þingfest þetta ágreiningsmál.
Til viðbótar kröfu sóknaraðila um opinber skipti krefst hann þess að varnaraðili verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að viðbættum virðisaukaskatti.
Varnaraðili krefst sýknu af öllum kröfum sóknaraðila og að hafnað verði kröfu hans um að fram fari opinber skipti til fjárslita milli málsaðila vegna slita á óvígðri sambúð.
Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Málavextir
Málsaðilar sjá samband sitt frá nokkuð fjarlægum sjónarhólum en eru þó sammála um það að þau hafi kynnst á árinu 1997.
Að sögn sóknaraðila hófst samband þeirra 17. ágúst 1997 og 17. október það ár hafi þau hafið sambúð á þáverandi heimili varnaraðila að Álfheimum í Reykjavík. Á sambúðartímanum hafi sóknaraðili starfað sjálfstætt sem trésmiður en varnaraðili hjá fyrirtæki í eigu [...]. Á meðan þau bjuggu að Álfheimum hafi sóknaraðili gert þá íbúð upp og sett þar upp nýjar eldhús- og baðinnréttingar til að auka verðmæti hennar. Með kaupsamningi, dags. [...] 1998, hafi málsaðilar keypt einbýlishús í Nökkvavogi, Reykjavík, og hafi þau flutt inn í húsið sama dag. Einnig þann dag hafi varnaraðili selt íbúð sína að Álfheimum. Þar sem sóknaraðili hafi á þessum tíma verið á vanskilaskrá hafi varnaraðili verið skráð þinglýstur eigandi hússins og af sömu ástæðu hafi allar eignir, sem málsaðilar eignuðust á sambúðartíma sínum, verið skráðar á nafn varnaraðila. Lóð hússins að Nökkvavogi hafi aðilar fengið afhenta nokkru fyrir afhendingu hússins en sóknaraðili hafi þurft aðstöðu til smíði sumarhúsa sem hann hafi svo haft til sýnis á lóðinni. Varnaraðili hafi verið treg til kaupanna en sóknaraðili hafi sannfært hana um að þau réðu við afborganir áhvílandi lána með því að leigja út kjallara hússins. Sóknaraðili hafi lagt til efni og vinnu við að breyta tveggja herbergja íbúð í kjallara í þriggja herbergja íbúð og hafi einnig standsett aðra tveggja herbergja íbúð í kjallaranum. Hafi þessar íbúðir í kjallaranum síðan verið leigðar út.
Málsaðilar hafi búið saman að Nökkvavogi til loka árs 2004. Á heimilinu hafi einnig búið þrjár dætur varnaraðila, sem hafi verið sex, tíu og fjórtán ára þegar sambúð aðila hófst. Hafi sú elsta verið flutt að heiman áður en aðilar fluttu haustið 2004 að [...] og sú næstelsta hafi flutt á meðan þau bjuggu að [...]. Við upphaf sambúðar aðila hafi sóknaraðili átt þrjú börn, son á fyrsta aldursári, tíu ára dóttur og tvítugan son. Hafi tvö yngstu börnin dvalið á heimili aðila þegar sóknaraðili naut umgengni við þau en gott samkomulag hafi verið milli sóknaraðila og fyrrverandi sambýliskonu hans varðandi umgengni við börnin.
Á lóð hússins að Nökkvavogi hafi sóknaraðili smíðað og haft til sýnis lítil sumarhús sem setja megi á einkalóðir eða hjólhýsasvæði, eins og framlögð frétt [...] í júní 1998 sýni. Hann hafi fengið samþykki Reykjavíkurborgar fyrir atvinnustarfsemi á lóðinni, eins og sjá megi af afgreiðslu byggingarfulltrúans í Reykjavík í ágúst 1999.
Málsaðilar hafi keypt sumarbústaðarland að [...] í Kjós að því er sóknaraðila minnir 2001. Í byrjun þess árs hafi sambúð aðila verið stirð og hafi sóknaraðili flutt tímabundið út af heimilinu í tvo og hálfan mánuð, á tímabilinu janúar til mars 2001. Á því tímabili hafi hann átt náin kynni eitt sinn við aðra konu, sem hafi orðið þunguð og eignast barn síðar sama ár. Sóknaraðili hafi ekki verið í frekara sambandi við hana.
Á árinu 2003 hafi sóknaraðili flutt smíði sumarhúsanna að [...] við Vesturlandsveg en Húsasmiðjan eigi það svæði. Hafi sóknaraðili, á árunum 2003 og 2004, gert upp einbýlishús úr timbri sem standi á lóðinni. Hafi málsaðilar flutt í það hús haustið 2004. Formlegur leigusamningur málsaðila við Húsasmiðjuna hafi hins vegar ekki verið gerður fyrr en 21. febrúar 2005. Nýr leigusamningur hafi svo verið gerður 27. október 2006. Eins og fyrri leigusamningurinn sýni hafi sóknaraðili haldið áfram að gera upp húsið. Hafi leigugreiðslur verið skuldfærðar á viðskiptareikning hans hjá Húsasmiðjunni. Eftir að málsaðilar fluttu að [...] hafi þau leigt út hæðina að Nökkvavogi í Reykjavík.
Hinn 13. desember 2005 hafi málsaðilar keypt af syni sóknaraðila tveggja herbergja íbúð á 3. hæð í húsi að Skipasundi í Reykjavík. Hafi verið greitt fyrir íbúðina með því að yfirtaka veðskuld áhvílandi á 1. veðrétti og taka lán frá Íslandsbanka sem hvíli á 1. veðrétti á húsinu að Nökkvavogi. Íbúðin að Skipasundi hafi verið leigð út.
Árið 2006 hafi sóknaraðili útbúið tveggja herbergja íbúð í bílskúrnum að Nökkvavogi. Þar hafi hvorki verið raflagnir né vatn og frárennsli. Sú vinna hafi tekið um tvo mánuði og hafi íbúðin í bílskúrnum í kjölfarið verið leigð út.
Á meðan málsaðilar hafi búið að [...] hafi þau leigt út hluta þeirrar lóðar til [...] sem hafi síðar sameinast [...]. Leigutekjur vegna þessa, eins og allar aðrar leigutekjur aðila, hafi runnið inn á reikninga varnaraðila.
Málsaðilar hafi öll sumur ferðast um Ísland í tjaldi eða tjaldvagni ásamt félögum sínum í ferðaklúbbi. Hafi þau farið saman til [...] einu sinni á ári í janúar og febrúar á árunum 2003 til 2008 og dvalið þar saman frá þremur upp í sjö vikur.
Frá árinu 2003 hafi sóknaraðili nær alfarið starfað fyrir Húsasmiðjuna við smíði sumarhúsa og framleiðslu stöpla. Hafi öll efniskaup vegna reksturs sóknaraðila farið í gegnum viðskiptareikning hans hjá Húsasmiðjunni auk þess sem húsaleiga vegna leigu hússins að [...] hafi verið skuldfærð á viðskiptareikning hans. Hafi útgefnir reikningar sóknaraðila verið skuldajafnaðir á viðskiptareikningnum. Vegna verktöku sóknaraðila fyrir Húsasmiðjuna hafi viðskiptaskuld á árinu 2008 verið breytt í skuldabréfalán að fjárhæð 2.030.000 krónur áhvílandi á fimmta veðrétti á húsinu að Nökkvavogi. Jafnframt hafi verið útbúið tryggingarbréf að fjárhæð 3.500.000 krónur sem hvíli á öðrum veðrétti á íbúðinni að Skipasundi.
Málsaðilar hafi búið saman að [...] frá haustinu 2004 þar til sambúð þeirra lauk 10. október 2008 þegar varnaraðili hafi flutt út af heimilinu. Hafi hún áður, eða um miðjan júlí 2008, flutt af heimilinu en hjúskaparráðgjafi, sem þau leituðu þá til, hafi mælt með því að þau byggju hvort á sínum staðnum í einhvern tíma. Hafi samband þeirra verið erfitt þá um sumarið. Rekstur sóknaraðila hafi þá gengið illa þar sem eftirspurn eftir sumarhúsum hafi hrunið. Hafi skuld sóknaraðila við Húsasmiðjuna á viðskiptareikningi þá numið um 5.000.000 króna með vöxtum. Sú skuld hafi verið til viðbótar skuld samkvæmt skuldabréfi við Húsasmiðjuna, upphaflega að fjárhæð 2.030.000 krónur. Hinn 10. október 2008 hafi sambandi málsaðila lokið og hafi varnaraðili þá flutt mestan hluta innbús aðila frá [...] yfir í Nökkvavog.
Sumarið 2009 hafi sóknaraðila tekist að selja sumarhús, sem hann hafði byggt sumarið áður, og hafi greiðslurnar gengið inn á skuld hans við Húsasmiðjuna. Fram komi í yfirliti frá Húsasmiðjunni að eftirstöðvar skuldarinnar 31. júlí 2009 hafi numið 310.904 krónum. Varnaraðili hafi sagt upp ábyrgðum sínum hjá Húsasmiðjunni sem hafi haft þær afleiðingar að sóknaraðili gat ekki lengur tekið út af reikningi sínum þar þar sem hann hafði engar tryggingar. Þessi afturköllun ábyrgða hafi kippt stoðunum undan rekstri sóknaraðila.
Í kjölfar sambúðarslita hafi ekki náðst samkomulag milli aðila um skipti þeirra eigna sem til urðu á sambúðartíma. Því sé sóknaraðila nauðugur sá kostur að krefjast opinberra skipta til að koma fram uppgjöri vegna kröfu sinnar um hlutdeild í eignum sem til urðu á sambúðartíma.
Að sögn varnaraðila bjó sóknaraðili, þegar þau kynntust, hjá foreldrum sínum að Rjúpufelli, Reykjavík, þar sem hann átti lögheimili og eigi enn. Varnaraðili hafi átt íbúð að Álfheimum, sem hún hafi keypt sér fyrir þá fjármuni, sem hún hafði fengið við skilnað við fyrrverandi eiginmann sinn, auk þess sem fyrrverandi mágur hennar hafi aðstoðað hana fjárhagslega við kaupin. Sóknaraðili hafi verið gjaldþrota þegar þau kynntust og hafi ekkert átt. Hann hafi því mjög fljótlega farið að ýta á það að hann flytti inn til hennar þar sem honum líkaði illa að þurfa að búa inni á foreldrum sínum. Hafi svo farið að sóknaraðili bjó ýmist hjá varnaraðila eða hjá foreldrum sínum fyrstu mánuðina en flutti síðan inn til varnaraðila í byrjun árs 1998. Hann hafi ekki komið með annað en fötin sín í poka og miklar skuldir á bakinu. Sóknaraðili, sem hafi haft mjög litlar tekjur á þessum tíma, hafi ekki greitt neina leigu fyrir að búa í íbúð varnaraðila. Hann hafi ekki heldur tekið þátt í rekstri heimilisins á þessum tíma þar sem hann hafi notað alla þá fjármuni sem hann vann sér inn til að greiða af lánum sínum sem vinir og vandamenn hafi verið í ábyrgð fyrir.
Fljótlega eftir að málsaðilar kynntust hafi sóknaraðili aðstoðað varnaraðila við að setja nýjar innréttingar á bað og í eldhús. Hafi varnaraðili greitt útlagðan kostnað en á móti vinnu sóknaraðila hafi varnaraðili greitt eitt og annað fyrir hann, þar á meðal utanlandsferð sumarið 1998 auk þess sem sóknaraðili hafi ekki greitt fyrir fæði og húsnæði á þeim tíma sem hann hafi búið hjá varnaraðila. Hafi varnaraðili litið svo á að það hallaði engan veginn á sóknaraðila hvað varðaði hans framlag til heimilishalds enda hafi sóknaraðili ekki gert neina kröfu um sérstaka greiðslu fyrir þessa aðstoð. Burtséð frá því hafi aldrei verið samið um að sóknaraðili eignaðist hlut í íbúð varnaraðila fyrir þessa aðstoð enda hafi slíkt aldrei komið til umræðu. Varnaraðila hafi verið mjög mikilvægt að tryggja sér og dætrum sínum öruggt húsaskjól og hafi ekki hvarflað að henni að blanda sóknaraðila í húsnæðismál sín. Hafi það sérstaklega átt við vegna fjárhagsstöðu sóknaraðila auk þess sem lítil reynsla hafi verið komin á samband þeirra. Síðar hafi átt eftir að koma í ljós að sambandið var stormasamt og slitnaði reglulega upp úr því þannig að sóknaraðili flutti út af heimili varnaraðila. Hafi sambúð aðila aldrei varað lengur en rúmt ár í senn.
Þegar aðilar kynntust hafi varnaraðili verið farin að líta í kringum sig eftir nýrra og stærra húsnæði enda hafi verið farið að þrengja að henni og dætrum hennar í íbúðinni að Álfheimum. Hafi varnaraðili skoðað ýmsa kosti í þessum efnum og eðlilega hafi sóknaraðili fylgst með því og látið sínar skoðanir í ljós. Það hafi hins vegar aldrei komið til greina að varnaraðili færi út í að kaupa eign með sóknaraðila af þeim ástæðum sem áður voru nefndar auk þess sem sóknaraðili hafi ekki haft neina fjármuni til að leggja í slík kaup. Á endanum hafi varnaraðili ákveðið að kaupa fasteignina að Nökkvavogi, en það hús hafi verið með séríbúð og aukaherbergi í kjallara. Eignina hafi varnaraðili keypt án nokkurs atbeina eða fjárframlaga frá sóknaraðila Kaupin hafi alfarið verið fjármögnuð af varnaraðila. Varnaraðili, sem ætíð hafi verið ábyrg í sínum fjármálum, hafi bætt við sig lánum við kaupin á húsinu en hafi á móti fengið leigutekjur af íbúð í kjallara þess sem hafi verið í útleigu þegar húsið var keypt.
Varnaraðili hafi séð möguleika á því að breyta aukaherbergi í kjallara hússins að Nökkvavogi í litla stúdíóíbúð. Í framhaldi af kaupum hennar á húsinu hafi varnaraðili ákveðið að ráðast í þessar breytingar og hafi samið við sóknaraðila um að hann aðstoðaði við þær. Sem endurgjald fyrir þessa aðstoð hafi sóknaraðili átt að fá afnot af bílskúr og lóð undir starfsemi sína og félaga síns við smíði sumarhúsa og fleira. Sóknaraðili hafi ekki gert frekari kröfur um greiðslur fyrir aðstoð sína. Aldrei hafi komið til tals að hann fengi eignarhlut í fasteigninni fyrir aðstoðina. Hefði slíkt komið til umræðu hefði verið gerður um slíka ráðstöfun skriflegur samningur en það hafi aldrei komið til greina enda hafi varnaraðli hvorki þurft atbeina sóknaraðila til þess að kaupa húsið né til að standsetja það. Hefði sóknaraðili ekki tekið að sér að aðstoða við lagfæringar eignarinnar hefði verið leitað til utanaðkomandi fagaðila til þess.
Varnaraðili hafi búið að Nökkvavogi fram til ársloka 2004. Hafi sóknaraðili búið hjá henni á þeim tíma þegar þau voru saman en eins og áður segi hafi samband þeirra verið þannig að oft slitnaði upp úr því á þessum tíma og þannig hafi það verið allan tímann frá 1998-2008. Þau fluttust saman að [...] við Vesturlandsveg í árslok 2004.
Varnaraðili hafi keypt sumarbústaðarlóð að [...] í Kjós að því er hana minnir árið 2003 en endanlega hafi verið gengið frá kaupunum á árinu 2007.
Varnaraðili kveðst hafa keypt fasteignina að Skipasundi, Reykjavík, í lok árs 2005. Hafi hún fjármagnað kaupin alfarið sjálf með því að yfirtaka áhvílandi lán og taka lán með veði í húsinu að Nökkvavogi til þess að greiða eftirstöðvar kaupverðs. Hafi varnaraðili leigt þá íbúð út og hafi litið á kaupin sem fjárfestingu til framtíðar sem myndi smám saman greiða sig upp. Sóknaraðili hafi ekki tekið neinn þátt í kaupunum eða greiðslu kaupverðs.
Á árinu 2006 hafi varnaraðili ákveðið að breyta bílskúr að Nökkvavogi í íbúð. Hafi sóknaraðili aðstoðað hana við það verk. Hafi hann ekki áskilið sér neina þóknun fyrir það og hafi aldrei gert kröfu vegna þess enda hafi varnaraðili á þessum tíma greitt stóran hluta af framfærslu beggja með launum sínum, þeim leigutekjum sem hún hafi haft af eigninni og með lánum sem hún hafi tekið með því að veðsetja eignina. Aldrei hafi verið rætt um að sóknaraðili fengi hlutdeild í eigninni vegna þessarar aðstoðar enda hefði það ekki komið til greina.
Á árinu 2006 hafi sóknaraðili innréttað bílskúr í eigu barnsmóður sinnar fyrir dóttur sína. Hafi sóknaraðili með þessu viljað styrkja dóttur sína bæði með vinnuframlagi auk þess sem hann hafi greitt henni 500.000 krónur til að standa straum af kostnaði við breytingarnar. Varnaraðila skildist á þessum tíma að umræddur bílskúr ætti að verða eign dótturinnar.
Á meðan samband aðila stóð hafi varnaraðili tekið á sig ábyrgðir gagnvart Húsasmiðjunni fyrir sóknaraðila vegna atvinnu hans að fjárhæð 3,5 milljónir króna í formi tryggingarbréfs sem þinglýst var á íbúðina að Skipasundi. Jafnframt hafi varnaraðili, 2008, veitt veð í húsinu að Nökkvavogi fyrir 2.030.000 króna skuldabréfi til Húsasmiðjunnar sem sóknaraðili hafi verið greiðandi að. Áður hafi hún veðsett húsið að Nökkvavogi fyrir skuldabréfi til Húsasmiðjunnar að fjárhæð 1.015.000 krónur en andvirði þess hafi verið ráðstafað inn á reikning sóknaraðila 30. september 2003 eins og framlögð gögn sýni. Allt hafi þetta verið gert vegna mikils þrýstings frá sóknaraðila sem hafi þurft á þessum ábyrgðum og greiðslum að halda til að geta haldið áfram atvinnustarfsemi sinni. Varnaraðili hafi áfram borið þessar ábyrgðir í rúmt ár eftir að sambandi aðila lauk endanlega en sóknaraðili hafi þá ítrekað lofað að koma ábyrgðunum af henni. Öllum fullyrðingum sóknaraðila um að varnaraðili hafi spillt fyrir atvinnustarfsemi hans með því að segja upp umræddum ábyrgðum er mótmælt enda hafi varnaraðili viðhaldið umræddri ábyrgð langt umfram það sem eðlilegt og sanngjarnt gat talist og hafi sóknaraðili borið fulla ábyrgð á því að útvega nýjar ábyrgðir fyrir atvinnurekstri sínum.
Að áeggjan sóknaraðila hafi varnaraðili keypt ýmiskonar lausafé, á þeim tíma sem þau voru í sambandi, og tekið á sig miklar skuldbindingar vegna þess. Þegar sambandinu hafi endanlega lokið um mitt ár 2008 hafi varnaraðili setið uppi með bílalán, fasteignalán, yfirdrátt, skuldir á kreditkortum og fleira sem nam háum fjárhæðum. Þegar hún hafi leitað eftir því við sóknaraðila, í byrjun árs 2009, að hann tæki þátt í að ganga frá þessum málum þá hafi hann vísað því frá sér og borið því við að hann hefði nóg með sjálfan sig vegna slæmrar heilsu. Hafi skuldir og ábyrgðir varnaraðila þá numið 80 milljónum króna. Hafi varnaraðili setið uppi með þessar skuldir og ábyrgðir og hafi ein þurft að leysa þau gríðarlegu vandamál sem þeim hafi fylgt. Hafi ítrekað verið óskað eftir því við sóknaraðila að hann tæki á sig lán vegna [...] skurðgröfu [...],[...]dráttarvélar [...], Chevrolet Silverado [...]og Fendt hjólhýsis [...] og að hann fengi umrædd tæki yfir á sitt nafn en þau hafi fyrst og fremst verið keypt vegna vinnu hans og vegna hans helsta áhugamáls, ferðalaga. Þessu hafi sóknaraðili ekki sinnt heldur látið varnaraðila um að kljást við þau vandamál sem fylgdu lánum vegna kaupa á tækjunum. Þá þegar hefði sóknaraðili tekið ýmiskonar lausafé til sín sem málsaðilar hafi keypt á meðan samband þeirra varði en meðal þess hafi verið bílakerra, fimm manna bátur með mótor, 20 m2 skemma, 20 m2 gámur, 200 m2 tjald til að smíða sumarhús í, heitur rafmagnspottur, ný húsgögn að verðmæti 800.000 krónur, verkfæri að verðmæti 2-3 milljónir króna, 2 stillansar, nokkur fullbúin bjálkahús, steypuhrærivél, steypumót, flekar, einangraðir til að byggja 200 m2 skemmu sem sóknaraðili hafi nú byggt.
Jafnframt hafi sóknaraðila verið boðið að taka yfir íbúðina að Skipasundi gegn því að aflétta því láni, sem hvíldi á húsinu að Nökkvavogi, vegna kaupa á Skipasundi.
Varnaraðili hafi því ein þurft að berjast við að koma sér út úr þeim skuldum sem hún hafi verið komin í. Á tímabili hafi litið út fyrir að vonlaust yrði að leysa fjárhagserfiðleika hennar sem virtust óyfirstíganlegir. Til dæmis hafi bílalán staðið í rúmum 20 milljónum króna þegar þau voru hæst. Með miklu baráttuþreki og þrautseigju hafi varnaraðili hins vegar yfirstigið þessi vandamál. Hún hafi selt sumarhúsalóðina að [...] og hafi greitt upp yfirdrátt og kreditkortaskuldir. Hún hafi selt ökutækin og hjólhýsið og náð að mestu að losna við þau lán eftir að þau höfðu verið endurreiknuð en eftir standi um það bil 500.000 króna skuld vegna eins ökutækis. Þá sé ótalið það tjón sem varnaraðili hafi orðið fyrir vegna þeirra afborgana sem þurfti að greiða þar til viðkomandi eignir seldust. Hún sitji eftir með lán á Nökkvavogi og Skipasundi sem nemi um 110% af verðmæti eignanna. Hafi varnaraðili ekki efni á að búa í þeim í dag heldur leigi þær að fullu út en búi sjálf í leiguíbúð í Kópavogi. Samningar hafi verið gerðir við Húsasmiðjuna um að greiða tvær milljónir króna sem fullnaðargreiðslu vegna veðskuldabréfsins á Nökkvavogi og tryggingarbréfsins á Skipasundi og hafi sú greiðsla verið innt af hendi. Á meðan á þessu stóð hafi sóknaraðili getað leyft sér að fara í sumarfrí til Spánar og virðist ekki hafa haft miklar áhyggjur af þeim vandamálum sem hann skildi varnaraðila eftir með við sambandsslitin.
Í ljósi þessara málsatvika sé óskiljanlegt að sóknaraðili setji nú fram kröfur á hendur varnaraðila og telji sig eiga eitthvert tilkall til eigna hennar. Fyrir það fyrsta eigi varnaraðili ekki neina hreina eign þar sem skuldir hennar nemi hærri fjárhæð en verðmæti eigna. Í öðru lagi hafi varnaraðili greitt milljónir vegna þeirra ábyrgða sem hún gekkst í fyrir sóknaraðila, vegna starfsemi hans, og eigi hún endurkröfurétt á hann vegna þeirra. Því sé alfarið mótmælt sem röngu og ósönnuðu að þær greiðslur sem varnaraðili hafi greitt Húsasmiðjunni hafi verið vegna efniskostnaðar vegna breytinga og viðhalds á fasteignum varnaraðila
Vissulega hafi málsaðilar notað fjármuni sína til sameiginlegra þarfa, keypt ýmiskonar lausafé og farið reglulega í dýr ferðalög. Allan þann tíma sem samband aðila varði hafi varnaraðili haft hærri tekjur en sóknaraðili auk þess sem hún hafi fengið leigutekjur, meðlög og barnabætur. Þar við bættist að eftir því sem markaðsverðmæti hússins að Nökkvavogi hafi vaxið hafi sífellt verið tekin fleiri og fleiri lán. Hafi hluti af andvirði þeirra verið notað til að greiða fyrir viðhald og endurbætur á húsi varnaraðila að Nökkvavogi en það sem eftir var hafi farið í neyslu aðila og kaup á ýmiskonar lausafé, en samtals hafi verið tekin lán á eignina að fjárhæð um það bil 15 milljónir króna til viðbótar þeim 10 milljónum króna sem notaðar voru til að fjármagna kaupin á eigninni. Til að bæta gráu ofan á svart hafi stórum hluta lánanna verið breytt í gengistryggð lán sem síðar hafi vaxið mikið og hafi að lokum leitt til þess að eignarhluti varnaraðila sé uppurinn og hafi hún þannig tapað þeim fjármunum sem hún hafi upphaflega lagt í kaupin á húsinu að Nökkvavogi. Framlag varnaraðila til samneyslu þeirra hafi verið mun hærra en sóknaraðila. Þrátt fyrir þetta hafi sóknaraðili fengið í sinn hlut við sambandsslitin nánast öll þau verðmæti sem ekki voru veðsett, eins og áður sé rakið.
Verði fallist á að opinber skipti fari fram til fjárslita milli aðila krefst varnaraðili þess að allar eignir sem keyptar voru á þeim tíma sem samband aðila varði komi undir skiptin, þar með talið veðskuldabréf sem sóknaraðili eigi og fékk í sinn hlut með veði í fasteign foreldra hans að Rjúpufelli, Reykjavík, á grundvelli samnings hans við foreldra sína. Málavaxtalýsingu sóknaraðila er mótmælt að því leyti sem hún er í ósamræmi við framangreinda málavaxtalýsingu.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili byggir kröfu sína á því að hann og varnaraðili hafi sannanlega búið í óvígðri sambúð í skilningi 100. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. frá 17. október 1997 til 10. október 2008, eða í tæp ellefu ár. Á þeim tíma hafi myndast eignir bús þeirra sem séu meðal annars einbýlishús að Nökkvavogi, íbúð að Skipasundi, sumarbústaðarland að [...] í Kjós, hjólhýsi Fendt 2007, Veneri skurðgrafa, Case 685 dráttarvél, Chevrolet Silverado, árg. 2007 og Dodge Dakota, árg. 2000. Allar þessar eignir hafi verið og séu skráðar á nafn varnaraðila.
Sóknaraðili byggir á því að það sé talin óvígð sambúð þegar karl og kona búi saman sem hjón, án þess að hafa gengið í hjúskap. Stofnun og slit séu ekki formbundin heldur verði að horfa til atvika hverju sinni við mat á því hvort sambandið sé þannig að það teljist óvígð sambúð.
Hvað varðar upphaf, lok og tímalengd sambúðar aðila þá bendir sóknaraðili á nokkrar staðreyndir. Í frétt í Morgunblaðinu í júní 1998 sé greint frá sumarhúsasmíði hans og að sumarhúsin séu til sýnis á lóð hússins að Nökkvavogi. Í tilkynningu um útför bróður varnaraðila í [...] í september 1998 sé sóknaraðili tilgreindur sem sambýlismaður varnaraðila. Sóknaraðili hafi fengið formlegt leyfi byggingarfulltrúans í Reykjavík til smíði sumarhúsa á lóð hússins að Nökkvavogi í ágúst 1999. Systir varnaraðila hafi sent sóknaraðila símskeyti vegna andláts systur hans og hafi það verið sent á heimili hans að Nökkvavogi í október 1999. Málsaðilar hafi báðir haft líftryggingu hjá Okkar líftryggingum hf. Bótaþegi líftryggingar sóknaraðila hafi verið varnaraðili eins og staðfesting frá Okkar líftryggingum hf., dags. 14. mars 2011, beri með sér og sóknaraðili hafi verið bótaþegi líftryggingar varnaraðila. Heimilistryggingar málsaðila hafi í sambúð þeirra verið á nafni varnaraðila. Hafi þær tryggingar einnig gilt fyrir sóknaraðila, eins og sjá megi af yfirliti frá Tryggingamiðstöðinni dags. 28. ágúst 2008. Sóknaraðili hafi aldrei búið á heimili foreldra sinna að Rjúpufelli á meðan aðilar voru í sambúð. Yngstu börn sóknaraðila hafi ætíð verið á sameiginlegu heimili þeirra þegar sóknaraðili naut umgengni við þau og þau hafi ferðast með málsaðilum um landið á sumrin. Sóknaraðili hafi haft GSM-símanúmer sitt skráð í Nökkvavogi árin 2004 til 2009. Í skriflegum leigusamningum um [...] séu málsaðilar skráðir leigjendur, eins og leigusamningar frá árunum 2005 og 2006 sýni. Þau hafi haldið upp á tíu ára afmæli sambands síns með [...], eins og sjá megi af framlögðum ljósmyndum. Þau hafi bæði átt samskipti við fasteignasalann sem annaðist sölu á húsinu að Nökkvavogi. Það hafi verið samhugur og samvinna aðila sem réði því að þau festu kaup á húsinu. Það hafi einnig verið samhugur og samvinna þeirra sem réði því að þau festu kaup á sumarbústaðarlandi, fellihýsi og íbúð að Skipasundi, Reykjavík.
Sóknaraðili bendir einnig á að framlögð tölvupóstsamskipti þeirra á tímabilinu 24. febrúar til 2. nóvember 2009 beri með sér að sambúð þeirra hafi varað lengi. Af málavaxtalýsingu í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Húsasmiðjunnar hf. gegn varnaraðila megi sjá að undir rekstri þess máls hafi sambúðartími aðila verið óumdeildur.
Sóknaraðili vísar til þess að það hafi einnig verið talið hugtaksskilyrði að með sambúðarfólki hafi myndast einhvers konar fjárhagsleg samstaða á sambúðartímanum en það sé forsenda fjárskipta á milli sambúðarfólks að fjárhagur þeirra sé ekki algerlega aðskilinn. Vegna þessa áréttar sóknaraðili að á þeim eignum, sem urðu til á sambúðartíma aðila, hvíli veð vegna reksturs sóknaraðila. Einnig vísar hann til yfirlits á reikningum sóknaraðila frá árunum 2000 til 2008 þar sem fram komi meðal annars millifærslur á reikning varnaraðila hjá Íslandsbanka og millifærslur varnaraðila inn á reikning sóknaraðila. Millifærslur af reikningi sóknaraðila til varnaraðila nemi yfir 20.000.000 króna. Enn fremur hafi brunatryggingar vegna smíði sóknaraðila á sumarhúsum verið á nafni varnaraðila. Jafnframt hafi sóknaraðili verið prókúruhafi á reikningum varnaraðila á meðan þau voru í sambúð. Þá vísar sóknaraðili til þess að allur efniskostnaður vegna vinnu hans á eignum aðila, hvort tveggja endurbætur og viðhald, hafi farið í gegnum viðskiptareikning hans hjá Húsasmiðjunni. Sóknaraðili byggi á því að mikil fjárhagsleg samstaða hafi verið með aðilum, sem staðfest sé með framlögðum gögnum.
Af öllu ofangreindu telur sóknaraðili ótvírætt að málsaðilar hafi strax við upphaf búsetu sinnar í október 1997 tekið upp óvígða sambúð í skilningi laga. Þau hafi ruglað saman reytum, rætt framtíðaráform sín og séð saman um uppeldi barna. Þau hafi farið saman í ferðalög innanlands og utan, haldið saman jól og áramót og farið saman á mannamót. Þau hafi unnið saman og verið samtaka varðandi eignakaup og hafi það verið von þeirra að útleiga eigna myndi tryggja þeim áhyggjulaust ævikvöld. Hafi þau búið saman sem hjón væru.
Sóknaraðili byggir málssókn sína á almennum reglum samninga- og kröfuréttar. Hann vísar til reglna sifjaréttar um búskipti, einkum dómvenju um skipti eigna sambúðarfólks. Krafa sóknaraðila um opinber skipti til fjárslita byggir á 100. gr. laga nr. 20/1991. Kröfu um málflutningsþóknun styður sóknaraðili við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 129. og 130. gr. laganna. Hann krefst þess að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til gagnaöflunar vegna fram kominna mótmæla varnaraðila.
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili byggir kröfur sínar á því að ekki sé fullnægt skilyrðum 100. gr. laga nr. 20/1991 fyrir því að bú fólks í óvígðri sambúð sé tekið til skipta. Í ákvæðinu segi að með óvígðri sambúð sé í lögunum átt við sambúð tveggja einstaklinga, sem skráð sé í þjóðskrá eða ráða megi af öðrum ótvíræðum gögnum, enda eigi sambúðarfólk barn saman eða von á barni saman eða hafi búið saman samfleytt í að minnsta kosti tvö ár.
Varnaraðili vísar til þess að sambúð málsaðila hafi ekki verið skráð í þjóðskrá. Sóknaraðili hafi átt lögheimili að Rjúpufelli, allan þann tíma sem samband þeirra stóð og sé lögheimili hans enn skráð þar.
Engin ótvíræð gögn hafi verið lögð fram um samband aðila sem sýni að þau hafi verið í sambúð samfleytt í að minnsta kosti tvö ár. Hið rétta sé að aðilar hafi verið í sambandi sem hafi verið þess eðlis að þau slitu því reglulega og byrjuðu síðan saman aftur allt fram til ársins 2008 þegar sambandi þeirra hafi endanlega verið lokið. Samband þeirra hafi því aldrei náð því að vera óslitið í að minnsta kosti tvö ár eins og áskilið sé í lögunum. Erfitt sé að henda reiður á því nákvæmlega hve oft þau slitu sambandinu en unnt sé að styðja það með gögnum og vitnisburði vitna að þau hafi að minnsta kosti slitið sambandi sínu árlega.
Um mitt ár 1999 hafi slitnað upp úr sambandinu. Sóknaraðili hafi þá fengið að búa í minni íbúðinni í Nökkvavoginum á meðan hann væri að finna sér annað húsnæði. Hafi leigutaki í íbúðinni flutt út nokkru áður en leigusamningur hans rann út 1. júlí 1999. Málsaðilar hafi tekið saman aftur nokkrum vikum síðar eða í júlí/ágúst sama ár. Í mars 2000 hafi málsaðilar hætt saman og sóknaraðili flutt til bróður síns í Garðabæ. Hann hafi aðstoðað samstarfsmann varnaraðila, sem staðfesti að málsaðilar hafi verið hætt saman á þessum tíma. Málsaðilar hafi tekið þráðinn upp að nýju nokkrum vikum síðar. Í september 2000 hafi varnaraðili farið í vísindaferð með samstarfsfólki sínu og hafi þá aftur slitið sambandi sínu við sóknaraðila eins og samstarfsmenn hennar geti staðfest. Aðilar tóku saman aftur nokkrum vikum síðar.
Í febrúar 2001 hafi sóknaraðili flutt út og í íbúð í Kópavogi. Á þeim tíma hafi hann kynnst annarri konu sem hann eignaðist barn með. Í byrjun júní sama ár byrja aðilar aftur saman. Í ágúst 2002 hafi málsaðilar hætt saman og stuttu síðar hafi sóknaraðili farið einn til Mallorca og komið þaðan með erlenda konu. Í október sama ár hafi varnaraðili farið ein á árshátíð vinnustaðar síns og hafi þá ekki verið í sambandi við sóknaraðila. Í júlí 2003 hafi málsaðilum lent illilega saman í útilegu fyrir framan fjölda fólks sem hafi endað með því að sóknaraðili dró varnaraðila á hárinu í bíl þeirra. Í kjölfar þess hafi aðilar hætt saman og sóknaraðili fari af heimilinu og geti dætur varnaraðila staðfest það. Aðilar tóku síðan saman aftur 2-3 vikum síðar.
Í nóvember 2004 hafi sóknaraðili vísað tveimur elstu dætrum varnaraðila af heimili aðila en þau hafi þá stuttu áður flutt að [...]. Hafi þær flutt til föður síns og hafi lögheimili dætranna verið flutt þangað 14. apríl 2005. Eftir þetta hafi sambúð aðila verið stormasöm. Þau hafi hins vegar farið í ferð til Taílands sem hafi verið pöntuð löngu áður. Samkomulag þeirra í ferðinni hafi verið mjög slæmt meðal annars vegna þess sem gengið hefði á varðandi dætur varnaraðila. Stuttu eftir að þau komu heim, í febrúar 2005, slitu aðilar sambandinu og flutti varnaraðili þá til dætra sinna sem þá bjuggu í kjallaraíbúð hjá föður sínum. Geta dæturnar og faðir þeirra og fyrrverandi eiginmaður varnaraðila staðfest þetta. Tóku aðilar aftur saman nokkrum vikum síðar.
Um mánaðamót maí og júní 2006 hafi málsaðilar slitið sambandi sínu og hafi sóknaraðili þá flutt af heimilinu og búið á gistiheimili og fleiri stöðum. Tóku aðilar aftur saman nokkrum vikum síðar. Í maí 2007 hafi málsaðilar slitið sambandinu. Það hafi lagst þungt á varnaraðila og hafi hún farið á heilsuhælið í Hveragerði til þess að ná sér og reyna að finna leiðir til þess að komast endanlega út úr sambandi sem hafi verið að gera út af við hana. Enn einu sinni hafi þau ákveðið að láta reyna á samband sitt og flutti varnaraðili til sóknaraðila stuttu eftir að hún kom frá Hveragerði. Hinn 20. maí 2008 slitu aðilar sambandi sínu og flutti sóknaraðili í hjólhýsi sem aðilar áttu. Stuttu síðar hafi hann verið kominn með nýja konu upp á arminn sem hann hafi tekið með sér í útilegu með sameiginlegum vinum aðila í júní sama ár. Samband sóknaraðila og hennar muni hafa staðið frá því í maí og fram í júlí þetta ár. Sé hún tilbúin til þess að staðfesta þetta. Flutti varnaraðili endanlega frá [...] helgina 5. júlí það ár.
Varnaraðili telur þetta ekki endanlegt yfirlit yfir þau tímabil þegar aðilar voru saman og hvenær ekki en það gefi hugmynd um það hvers eðlis sambandið var og hvað gekk á í því. Mestu skipti að þetta yfirlit sýni að málsaðilar hafi aldrei búið saman í tvö ár eins og áskilið sé í 100. gr. laga nr. 20/1991. Skilyrðum laganna sé því ekki fullnægt og því beri að hafna kröfum sóknaraðila.
Kröfur varnaraðila byggja jafnframt á því að eðli málsins samkvæmt þurfi að vera til eignir til þess að skipta til þess að skipti geti farið fram. Þegar hafi verið gerð grein fyrir því að ekki hafi verið neinar eignir hjá varnaraðila við sambandsslit heldur hafi eignastaða hennar verið neikvæð og sé í dag í besta falli á núlli. Einu eignirnar hafi verið það lausafé sem sóknaraðili tók með sér við sambandsslitin en varnaraðili hafi ekki haft áhuga á því að eltast við þær. Samkvæmt þessu sé ekki fullnægt því grundvallarskilyrði að til staðar sé bú til að skipta og því beri að hafna kröfu sóknaraðila enda sé fráleitt að samþykkja kröfu um opinber skipti á búi, sem ekkert er, til þess eins að láta skipti fara fram þótt fyrirsjáanlegt sé að skiptum verði væntanlega strax lokið á „búinu“ sem eignalausu.
Krafa varnaraðila um virðisaukaskatt ofan á málskostnað byggir á því að varnaraðili sé ekki virðisaukaskattskyld og fái því virðisaukaskatt ekki endurgreiddan og beri að taka tillit til þess við ákvörðun um málskostnað.
Málatilbúnaði og málsástæðum sóknaraðila er mótmælt sem röngum, ósönnuðum og tilefnislausum. Því er sérstaklega mótmælt að aðilar hafi verið í óvígðri sambúð í skilningi 100. gr. laga nr. 20/1991. Jafnframt er því mótmælt að sameiginlegar eignir hafi myndast með þeim hætti sem lýst er í greinargerð sóknaraðila.
Rökstuðningi í 15 liðum í greinargerð sóknaraðila fyrir upphafi, lokum og tímalengd meintrar óvígðar sambúðar aðila sé öllum mótmælt á þeim grundvelli að þeir, hvorki einir sér né allir saman, sýni fram á, með þeim hætti sem áskilið er í 100. gr. laga nr. 20/1991, að aðilar hafi verið í óvígðri sambúð í skilningi laganna. Lögin geri strangar kröfur til þeirra gagna sem ætlað sé að sanna tímalengd sambúðar eins og orðalag ákvæðisins um „ótvíræð“ gögn beri með sér. Samkvæmt þessu verði jafnframt að ætla að sá sem vilji byggja kröfu um skipti á ákvæðinu hafi sönnunarbyrðina fyrir því að skilyrðum ákvæðisins sé fullnægt. Varnaraðili telur framlögð gögn sóknaraðila og rökstuðning haldlausan til sönnunar þess hvort málsaðilar hafi verið í sambandi, hvernig það hafi verið og hversu lengi það hafi varað.
Að sögn varnaraðila er óumdeilt að fjármál aðila sköruðust að einhverju leyti eins og oft vilji verða hjá fólki sem er í sambandi. Ástæða þess hve mikið þau sköruðust á vissum tímum hafi verið sú að sóknaraðili hafi verið gjaldþrota og hafi því ekki getað fengið ávísanahefti, kreditkort eða önnur kort eða reikninga sem hægt var að taka lán út á. Hafi sóknaraðili því notað reikninga og kort frá varnaraðila og millifært síðan á milli þeirra reikninga og þeirra innleggsreikninga sem hann átti. Þetta hafi leitt til þess að töluverð velta hafi verið á milli reikninga aðila. Jafnframt þurfi að stemma af þá reikninga, sem lagðir séu fram, til þess að lesa megi rétt úr þeim enda megi víða sjá innborganir á móti útborgunum auk þess sem varnaraðili leggi oft inn á reikninga sóknaraðila. Sem dæmi um notkun á reikningum aðila megi nefna að allar greiðslur sóknaraðila fyrir steypu, sem hafi verið aðalhráefni sóknaraðila við framleiðslu sína, hafi farið um reikninga varnaraðila. Komi til opinberra skipta muni verða gerð rækileg grein fyrir því hvernig þessi velta hafi verið og hvernig umræddum fjármunum og greiðslum hafi verið ráðstafað. Þótt einhver fjárhagsleg samstaða hafi verið með málsaðilum á einhverjum tímum verði hvorki af því ályktað að skilyrðum 100. gr. laga nr. 20/1991 hafi verið fullnægt né að sambúð hafi verið óslitin.
Niðurstaða
Ágreiningur þessa máls lýtur að því hvort fram skuli fara opinber skipti til fjárslita milli sóknaraðila og varnaraðila. Sóknaraðili byggir kröfu sína á 100. gr. laga nr. 20/1991 um opinber skipti á dánarbúum o.fl. Ákvæðinu var breytt með lögum nr. 65/2010. Sambandi málsaðila lauk á árinu 2008 og því verður, við úrlausn þessa máls, ákvæðið lagt til grundvallar, eins og það var á þeim tíma.
Ef karl og kona slíta óvígðri sambúð eftir að hafa búið saman samfleytt í að minnsta kosti tvö ár eða búið saman skemmri tíma og annaðhvort eignast barn eða konan er þunguð af völdum karlsins getur annað þeirra eða þau bæði krafist opinberra skipta til fjárslita milli þeirra. Sama gildir um sambúðarslit einstaklinga af sama kyni.
Enn sem komið er, er ekki í íslenskum rétti algild skilgreining á hugtakinu óvígð sambúð. Til þess að sambúð fólks falli undir hugtakið óvígð sambúð hefur í fræðum verið miðað við að fólk hafi sameiginlegan bústað og fjárhagslega samstöðu auk þess sem samband á sameiginlegu heimili með samtvinnaðan fjárhag þarf að hafa staðið í ákveðinn lágmarkstíma. Skilgreiningar í lögum eru mismunandi. Í sumum er skráning í þjóðskrá eitt skilyrða þess að óvígð sambúð hafi þau réttaráhrif sem lagaákvæðið veitir, önnur setja sameiginlegt lögheimili sem skilyrði án þess að tilgreina skráningu sérstaklega.
Í 100. gr. laga nr. 20/1991 var það hvorki gert að skilyrði fyrir því að sambúðarfólk gæti krafist opinberra skipta til fjárslita sín í milli að þau hefðu skráð sambúðina í þjóðskrá eða hefðu sameiginlegt lögheimili. Með þeirri breytingu sem var gerð á ákvæðinu með lögum nr. 65/2010, til þess að færa efni ákvæðisins að þróun samfélagsins, var útfært nánar með hvaða hætti fólk gæti sannað óvígða sambúð. Annars vegar með því að skrá sambúðina í þjóðskrá en slíkt verður ekki gert nema sambúðarfólk hafi sama lögheimili, sbr. 3. mgr. 7. gr. laga um lögheimili nr. 21/1990, sbr. 1. gr. laga nr. 65/2006 og 11. gr. laga nr. 65/2010 og hins vegar með öðrum ótvíræðum gögnum. Þrátt fyrir að skráning lögheimilis geti verið eitt þeirra gagna er hvorki í ákvæðinu né frumvarpi til breytingar á því tekið fram að lögheimilisskráning skuli vera meðal þeirra ótvíræðu gagna sem sannað geta sambúð.
Þar sem sameiginlegt lögheimili sambúðarfólks eða skráning sambúðar þeirra í þjóðskrá voru ekki tilgreind sem skilyrði í 100. gr. laga nr. 20/1991 fram til 27. júní 2010, þykir það ekki hafa þýðingu vegna þess ágreinings sem er hér til úrlausnar að málsaðilar höfðu ekki sama lögheimili og höfðu ekki skráð sambúð sína í þjóðskrá.
Eins og áður segir eru tvö ár lágmarkstími sambúðar samkvæmt ákvæðinu. Sóknaraðili byggir á því að sambúð málsaðila hafi verið samfelld frá 17. október 1997 til 10. október 2010 en varnaraðili byggir á því að samband þeirra hafi aldrei varað óslitið í að minnsta kosti tvö ár eins og áskilið er í lögunum.
Málsaðilar gáfu skýrslu fyrir dómi svo og 31 vitni. Meirihluti þeirra er nátengdur málsaðilum fjölskyldu- eða vinaböndum. Í grófum dráttum má segja að vitnin hafi sagt tvær allólíkar sögur af því hvernig þeim kom samband málsaðila fyrir sjónir og hvað hvor hópur um sig taldi sig vita um sambandið. Við mat á sönnunargildi þessara vitnisburða verður að líta til tengsla vitnanna og málsaðila.
Af því sem er komið fram í málinu verður miðað við að frá upphafi árs 1998 hafi málsaðilar verið í óvígðri sambúð í skilningi 100. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl. eins og ákvæðið var þegar sambúð málsaðila var slitið. Framlögð gögn sýna að sóknaraðili hefur, frá árinu 1993, ekki skráð lögheimili sitt á dvalarstað sínum á hverjum tíma heldur á heimili foreldra sinna. Hins vegar er óumdeilt að hann bjó með varnaraðila og dætrum hennar fyrst að Álfheimum, síðan að Nökkvavogi og síðast að [...] og á þessum stöðum dvöldu börn hans þegar þau nutu umgengnisréttar við hann. Verður að líta svo á að á öllum þessum stöðum hafi verið sameiginlegt heimili málsaðila.
Af skjallegum merkjum óvígðrar sambúðar má nefna að málsaðilar höfðu gagnkvæma líftryggingu frá mars 1999 til júní 2009 og jafnframt gilti heimilistrygging varnaraðila um sóknaraðila. Þau voru bæði leigutakar að húsinu að [...] frá lokum árs 2004 og fram til þess að sambandi þeirra lauk. Þetta ásamt öðrum framlögðum gögnum færir einnig sönnur fyrir því að fjárhagur málsaðila hafi verið nægilega samtvinnaður til þess að uppfyllt séu skilyrði hugtaksins óvígðrar sambúðar. Nægilega þykir komið fram í skýrslum málsaðila og yfirlýsingum lögmanna þeirra fyrir dómi að sambandinu hafi endanlega lokið 10. október 2008.
Að mati dómsins nægir ekki til sambúðarslita að annar hvor aðilinn eða báðir segi einhverjum að sambandinu sé lokið. Hugur og athafnir verða að fylgja máli. Það nægir ekki heldur að annar hvor aðilinn fái að gista hjá vini eða ættingja í nokkrar nætur, jafnvel tvær til þrjár vikur, þegar alltaf er snúið heim aftur. Eitthvað afdrifaríkara verður að marka sambúðarslitin eins og til dæmis að annar hvor taki alla sína persónulegu muni af sameiginlegu heimili og komi sér varanlega fyrir annars staðar.
Þrátt fyrir að ósætti virðist reglulega hafa komið upp á milli málsaðila og þrátt fyrir að málsaðilar, annað eða bæði, kunni að hafa sagt sínum nánustu frá því að þau hafi slitið sambandi sínu stendur eftir að sambandið var alltaf tekið upp að nýju þannig að ekki er að sjá að hugur og athafnir hafi fylgt máli. Að mati dómsins hafa í þessu máli ekki verið færðar sönnur á raunveruleg sambandsslit nema í einu tilviki, árið 2001 þegar sóknaraðili flutti út af heimilinu í janúar 2001 og tók á leigu íbúð í Kópavogi. Að mati dómsins stóð óvígð sambúð málsaðila í skilningi 100. gr. laga nr. 20/1991 óslitið frá því að þau tóku saman að nýju vorið 2001 og fram til 10. október 2008.
Varnaraðili byggir í öðru lagi á því að ekki geti farið fram opinber skipti til fjárslita milli sambúðarfólks nema fyrir hendi sé hrein eign. Þar sem skuldir, sem hvíli á varnaraðila, nemi hærri fjárhæðum en verðmæti þeirra eigna, sem hún sé skráð eigandi að, geti ekki farið fram opinber skipti til fjárslita milli hennar og sóknaraðila. Ekki er hægt að fallast á slík rök enda skal samkvæmt 104. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. skipta bæði eignum og skuldum sem stofnast á sambúðar- eða hjúskapartíma.
Varnaraðili byggir í þriðja lagi á því að réttur sóknaraðila til að krefjast opinberra skipta sé fallinn niður vegna tómlætis. Sambúð málsaðila lauk 10. október 2008. Ríflega einu og hálfu ári síðar, 27. maí 2010, sendi lögmaður sóknaraðila varnaraðila bréf og gerði tillögu að fjárskiptum vegna sambúðarslita þeirra. Með bréfi 29. júní 2010 tilkynnti lögmaður sóknaraðila þáverandi lögmanni varnaraðila að sóknaraðili myndi krefjast opinberra skipta og 7. febrúar 2011 barst héraðsdómi beiðni sóknaraðila um opinber skipti til fjárslita milli málsaðila.
Þrátt fyrir að sóknaraðili hefði að ósekju mátt setja kröfu sína um opinber skipti til fjárslita milli hans og varnaraðila fram í dómi fyrr þykir dráttur hans á því að setja kröfuna fram ekki svo verulegur að réttur hans til þess sé fallinn niður vegna tómlætis, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 621/2006, enda hafði sóknaraðili áður reynt að fá varnaraðila til samninga um fjárslitin með bréfi 27. maí 2010.
Varnaraðili byggir í fjórða lagi á því að samningur hafi komist á milli aðila, strax í framhaldi af sambúðarslitunum, um hvaða eignir ættu að falla í hlut hvors þeirra um sig. Þessa málsástæðu sína byggir varnaraðili á framlögðum tölvuskeytum milli málsaðila. Í þessum tölvuskeytum ber margt á góma en meðal annars ræða málsaðilar hvort þeirra geti greitt hversu mikið af hvaða eign og hvaða eignir skuli selja til að greiða hvaða skuldir. Þrátt fyrir að í lögum séu ekki gerðar sérstakar kröfur um form samnings við lok óvígðrar sambúðar, og mögulega megi sjá úr framlögðum tölvuskeytum vísbendingar um afar grófar hugmyndir þeirra að eignaskiptum, verður ekki litið svo á að með þeim hafi komist á samningur um fjárslit málsaðila. Kröfu sóknaraðila verður því ekki hafnað af þeim sökum.
Þegar litið er til þess hvernig þetta mál er vaxið og með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. þykir rétt að hvor málsaðili um sig beri sinn kostnað af málinu.
Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Opinber skipti til fjárslita milli sóknaraðila, M, og varnaraðila, K, skulu fara fram.
Málskostnaður milli aðila fellur niður.