Hæstiréttur íslands

Mál nr. 224/2015


Lykilorð

  • Hjúskapur
  • Lögskilnaður


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 29. október 2015

Nr. 224/2015.

M

(Þyrí Steingrímsdóttir hrl.)

gegn

K

(sjálf)

Hjúskapur. Lögskilnaður.

Í hinum áfrýjaða dómi héraðsdóms var kröfu M um lögskilnað frá K hafnað þar sem ekki hafði verið leitað sátta með málsaðilum, svo sem skylt væri samkvæmt 2. mgr. 42. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Með vísan til sáttavottorðs prests, sem M lagði fram við meðferð málsins fyrir Hæstarétti, var talið að skilyrðum 42. gr. laganna, einkum 6. mgr. hennar, væri fullnægt. Var því fallist á kröfu M.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. mars 2015 og krefst þess að sér verði veittur lögskilnaður frá stefndu. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst sýknu af kröfu áfrýjanda. Þá krefst hún þess að sér verði veittur lögskilnaður frá áfrýjanda „á skilnaðarskilmálum og skilnaðarkjörum“ eins og kveðið er á um í drögum að samningi sem hún hefur lagt fyrir Hæstarétt.

Krafa stefndu um að lögskilnaður verði veittur á grundvelli breyttra skilnaðarkjara, sem lýst er í framangreindu skjali, er ekki meðal þeirra sem dæmt verður um í hjúskaparmáli sem þessu, sbr. 113. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Verður kröfunni því vísað frá héraðsdómi.

Mál þetta höfðar áfrýjandi í því skyni að honum verði veittur lögskilnaður frá stefndu. Hún hefur ekki andmælt þeirri kröfu, en telur að það eigi þó ekki að gera á grundvelli þeirra skilmála sem ákveðnir voru í tengslum við skilnað þeirra að borði og sæng. Héraðsdómur hafnaði kröfu áfrýjanda. Var sú niðurstaða reist á því að héraðsdómara bæri samkvæmt 3. mgr. 117. gr. hjúskaparlaga að gæta óhjákvæmilegra lagaskilyrða við úrlausn málsins og með því að ekki hefði verið leitað sátta með málsaðilum, svo sem skylt væri samkvæmt 2. mgr. 42. gr. laganna, yrði stefnda sýknuð af kröfu áfrýjanda um lögskilnað. 

Áfrýjandi hefur með bréfi 5. júní 2015 lagt fyrir Hæstarétt sáttavottorð prests frá 26. maí sama ár þar sem fram kemur að sátta hafi árangurslaust verið leitað með aðilum málsins. Í 6. mgr. 42. gr. hjúskaparlaga er mælt fyrir um að sáttatilraun prests skuli að jafnaði fara fram á síðustu sex mánuðum áður en mál er höfðað eða sett fram krafa um skilnað að borði og sæng eða lögskilnað fyrir sýslumanni, en í síðasta lagi áður en skilnaður er veittur. Samkvæmt framansögðu liggur nú fyrir sáttavottorð prests sem fullnægir skilyrðum 42. gr. laganna. Verður því fallist á kröfu áfrýjanda um lögskilnað.

Ákvörðun héraðsdóms um skyldu til greiðslu málskostnaðar verður staðfest. Við ákvörðun málskostnaðarins er tekið tillit til þess að stefnda flutti mál sitt sjálf þar fyrir dómi og hefur haft nokkurn kostnað af því að halda uppi vörnum. Verður fjárhæð málskostnaðarins staðfest.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómsorð:

Kröfu stefndu, K, um að henni verði veittur lögskilnaður frá áfrýjanda, M, á skilnaðarkjörum sem kveðið er á um í drögum að samningi sem hún hefur lagt fyrir Hæstarétt, er vísað frá héraðsdómi.

Áfrýjanda, M, er veittur lögskilnaður frá stefndu, K.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Suðurlands mánudaginn 16. mars 2015

Mál þetta er höfðað með stefnu birtri 9. október 2014.

Stefnandi er M, kt. [...], [...], [...].

Stefnda er K, kt. [...], [...], [...].

Dómkröfur stefnanda eru að honum verði með dómi veitt leyfi til lögskilnaðar frá stefndu. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu að viðbættum virðisaukaskatti.

Stefnda krefst þess að kröfu stefnanda um lögskilnað verði frestað uns ný gögn í málinu verði könnuð. Þá krefst stefnda þess að krafa stefnanda um málskostnað verði felld niður. Stefnda krefst þess að stefnandi endurgreiði kostnað skiptastjóra. Þá krefst stefnda þess að stefnandi endurgreiði vinnutap stefnda við meðferð málsins. Þá gerir stefnda kröfu um að stefnandi endurgreiði greiðslu og lögfræðikostnað við lán hjá LÍN.

Málið var dómtekið að lokinni aðalmeðferð sem fór fram mánudaginn 16. febrúar 2015.

Málavextir

Þann 4. október 2013 veitti sýslumaðurinn í [...] aðilum málsins skilnað að borði og sæng á grundvelli 34. gr. laga nr. 31/1993, sbr. 2. mgr. 41. gr. laganna, að ósk stefndu. Stefnandi samþykkti kröfuna.

Segir í leyfisbréfi til skilnaðar að borði og sæng að sáttatilraunir sem hafi farið fram lögum samkvæmt hafi reynst árangurslausar. Segir að aðilum sé veittur skilnaður að borði og sæng með þeim skilmálum sem þau hafi orðið ásátt um, sem séu að þau fari áfram sameiginlega með forsjá [...]. Segir að börnin eigi lögheimili hjá stefndu. Stefnandi greiði með þeim tvöfalt meðlag frá 1. mars 2013 til 18 ára aldurs. Þá kemur fram í skilnaðarleyfinu að ágreiningur sé um fjárskipti og fari fram opinber skipti til fjárslita sbr. úrskurð Héraðsdóms Reykjaness uppkveðinn [...] júní 2013. Þá segir að framfærslu- og makalífeyrir fari skv. úrskurði sýslumanns 3. október 2013.

Ekkert liggur fyrir um að við skilnað að borði og sæng hafi verið gerður fyrirvari um breytt skilnaðarkjör og skilnaðarskilmála, hvorki varðandi börn né fjármál, þegar og ef til lögskilnaðar kæmi.

Í stefnu segir að skiptum hafi lokið í júlí 2014.

Þann 18. mars 2014 undirritaði stefnandi beiðni um lögskilnað á grundvelli 1. mgr. 36. gr. laga nr. 31/1993, með vísun til þess að hann og stefnda hefðu ekki búið saman frá skilnaði að borði og sæng. Var í beiðni gengið út frá sömu skilmálum og ákveðnir voru við skilnað að borði og sæng. Var þetta sent þáverandi lögmanni stefndu, en ekki vildi stefnda undirrita beiðnina. Liggur m.a. fyrir í gögnum málsins tölvupóstur frá stefndu, dags. 28. júlí 2014, þar sem segir að hún muni undirrita lögskilnað ef stefnandi samþykki að hún fái fulla forsjá yfir [...], en ella verði ekki skrifað undir fyrr en umgengnissamningur sé klár. Þá liggur fyrir tölvupóstur frá stefndu þar sem segir að henni sé það jafnmikið kappsmál að ljúka skilnaðinum, en enn séu nokkrir hlutir sem þurfi að ganga frá til að hún geri það, þannig að hún skrifi ekki undir lögskilnað strax.

Ekki vildi stefnandi samþykkja breytingar sem stefnda vildi gera á skilnaðarkjörum og liggur fyrir um það tölvupóstur frá lögmanni hans 26. september 2014, þar sem m.a. sagði að hann myndi í október 2014 fara fram á lögskilnað á sama grundvelli og skilnaður að borði og sæng hafi verið veittur.

Í málinu liggur fyrir tölvupóstur stefndu til dómstjóra Héraðsdóms Reykjaness, dagsettur 2. desember, að því er ætla verður árið 2014, þar sem farið er fram á að opinber skipti verði endurupptekin þar sem hún hafi fengið upplýsingar um eignir stefnanda sem hún hafi ekki vitað um þegar skiptin hafi farið fram.

Þá liggur fyrir afrit úrskurðarorðs sýslumannsins í [...], ódagsett, þar sem kveðið er á um umgengni stefnanda við [...] aðila málsins. Með þessu fylgir afrit af kæru stefndu, dags. 3. desember 2014, til innanríkisráðuneytisins skv. 78. gr. barnalaga nr. 76/2003, þar sem farið er fram á að tilteknar breytingar verði gerðar á úrskurðinum.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi vísar til þess að skv. 2. mgr. 36. gr. laga nr. 31/1993 eigi stefnandi rétt til lögskilnaðar þegar eitt ár sé liðið frá því að leyfi til skilnaðar að borði og sæng hafi verið veitt. Ítrekað hafi verið leitað eftir samþykki stefndu fyrir lögskilnaði en því hafi ávallt verið hafnað. Hafi stefnda borið fyrir sig að hún vilji sjá breytingar á skilnaðarkjörum varðandi forsjá barna, meðlagsgreiðslur o.fl. Þessu hafi stefnandi hafnað enda enginn fyrirvari verið gerður um að önnur kjör skyldu gilda við lögskilnað en hafi gilt við skilnað að borði og sæng, sbr. 45. gr. laga nr. 31/1993. Ekki hafi aðilar tekið upp samvistir eftir skilnað að borði og sæng og séu því öll lagaskilyrði til lögskilnaðar uppfyllt.

Kveður stefnandi að málið sé höfðað eftir 2. mgr. 41. gr. laga nr. 31/1993 þar sem stefnda hafi neitað að láta málið til sín taka og sé því ekki sammæli um lögskilnaðinn.

Kröfu sína um málskostnað kveðst stefnandi byggja á XXI. kafla laga nr. 91/1991, einkum 130. gr. Kröfu um virðisaukaskatt kveðst stefnandi byggja á lögum nr. 50/1988 og sé stefnandi ekki virðisaukaskattskyldur og því nauðsyn að fá skattinn dæmdan úr hendi stefndu.

Málsástæður og lagarök stefndu

Í greinargerð sinni kveðst stefnda á [...] hjúskaparárum sínum með stefnanda hafa mátt þola fjárhagslegt og andlegt ofbeldi, sem hún sé nú að vinna í og sé hún að styrkjast. Það sé ekki gott að takast á við andlegt ofbeldi og það að vera skammtaðir peningar. Sé stefnandi byrjaður á þessu gagnvart [...] sínum og sé því brýnt að breyta forsjá barnanna.

Hvað varðar opinber skipti og LÍN kveðst stefnda vísa til þess að þáverandi lögmaður hennar hafi samþykkt að greiða þriðjung af „skiptunum“ án þess að ráðfæra sig við stefndu og þó að skiptastjóri hafi merkt við að stefnandi greiði allan kostnað. Byggi hún kröfu sína um endurgreiðslu á þessu.

Varðandi LÍN þá hafi greiðsla hennar farið í innheimtu þar sem stefnandi hafi séð alfarið um fjármál heimilisins og ekki tilkynnt stefndu um að hann hafi ekki greitt þá greiðslu þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir stefndu til að fá að vera með í ráðum í þeim efnum. Kveðst því stefnda fara fram á að stefnandi endurgreiði þann kostnað að fullu þar sem þau hafi enn verið í hjónabandi er sú greiðsla hafi ekki verið innt af hendi.

Þá kveðst stefnda gera kröfur um málskostnað sem hafi verið umfram gjafsókn og vinnutap sem hljótist af því að afla gagna og mæta í dómsal vegna málsins.

Óskar stefnda þess að henni verði ekki hegnt fyrir illa unnið verk þáverandi lögmanns síns og fáfræði í lögfræði, en sökum aðstæðna sinna hafi hún ekki efni á að leita sér lögfræðiaðstoðar.

Forsendur og niðurstaða

Mál þetta snýst um það hvort fullnægt sé lagaskilyrðum fyrir því að stefnanda verði veittur lögskilnaður frá stefndu.

Lagaákvæði um hjónaskilnaði er að finna í VI. kafla hjúskaparlaga nr. 31/1993.

Segir í 1. mgr. 36. gr. laganna að nú séu hjón á einu máli um að leita lögskilnaðar og sé hann þá kræfur að liðnum 6 mánuðum frá því að leyfi var gefið út til skilnaðar að borði og sæng, eða dómur gekk, en þó með þeim fyrirvara að hjón hafi ekki tekið upp samvistir á ný sbr. 35. gr. laganna.

Þá segir í 2. mgr. 36. gr. laganna að hvor maki um sig eigi rétt á lögskilnaði eftir að eitt ár er liðið frá því að leyfi var veitt til skilnaðar að borði og sæng eða dómur gekk, en þó með sama fyrirvara um endurnýjaðar samvistir sbr. 35. gr. laganna. Á þessu byggir stefnandi mál sitt og er óumdeilt í málinu að við höfðun þessa máls var fullnægt skilyrðinu um að meira en eitt ár væri liðið frá útgáfu leyfis til skilnaðar að borði og sæng. Jafnframt hefur ekki komið fram í málinu að aðilar hafi tekið upp samvistir á ný sbr. 35. gr. laga nr. 31/1993. Er skilyrðum 2. mgr. 36. gr. laganna þannig fullnægt að þessu leyti.

Stefnda hefur í málinu fært fram málsástæður sínar sem lúta einkum að því að breytt verði skipan forsjár dætra aðila málsins, sem og að endurupptekin verði fjárskipti þeirra, en ráða má af málatilbúnaði hennar að hún telji sig hafa borið skarðan hlut frá borði.

Í 1. og 2. mgr. 44. gr. laganna segir að áður en skilnaður er veittur skuli annað tveggja vera samkomulag milli hjóna um fjárskipti eða opinber skipti hafin vegna fjárslita. Þá segir að ágreiningur foreldra um forsjá og framfærslueyri komi ekki í veg fyrir að skilnaður verði veittur að kröfu annars hjóna, að öðrum skilyrðum fullnægðum.

Í málinu liggur það fyrir að opinber skipti til fjárslita eru ekki aðeins hafin milli aðila málsins, heldur er þeim og lokið, en ekki liggur fyrir að þau hafi verið endurupptekin. Þá er þess að geta að við skilnað að borði og sæng var ekki ágreiningur um forsjá barna aðila og hefur ekki komið fram að ágreiningur um hana sé til úrlausnar.

Þá segir í 1. mgr. 45. gr. laga nr. 31/1993 að þeir skilnaðarskilmálar sem hjón hafa komið sér saman um eða hafa verið ákveðnir á annan hátt við skilnað að borði og sæng, skuli einnig gilda eftir að lögskilnaður er fenginn, nema annars hafi verið getið þegar skilnaður að borði og sæng var veittur. Fyrir liggur í þessu máli að engir slíkir fyrirvarar voru gerðir og kemur hvergi fram að þess hafi verið getið við skilnað að borði og sæng, að aðrir skilmálar skyldu gilda við lögskilnað.

Samkvæmt framansögðu geta málsástæður stefndu ekki komið í veg fyrir að kröfur stefnanda megi ná fram að ganga.

Í XV. kafla laga nr. 31/1993 er fjallað um og gerð grein fyrir þeim reglum sem gilda skuli um réttarfar í hjúskaparmálum. Í 3. mgr. 117. gr. laganna segir að dómari gæti óhjákvæmilegra lagaskilyrða við úrlausn hjúskaparmáls.

Í 2. mgr. 42. gr. laga nr. 31/1993, sem er í þeim hluta laganna sem fjallar um sáttaumleitan vegna hjónaskilnaða, segir að skylt sé að leita um sættir með hjónum sem eiga ósjálfráða barn, annað eða bæði, er þau hafa forsjá fyrir. Frá þessu er í 2. ml. 2. mgr. 42. gr. gerð sú undantekning að ekki eigi þetta þó við ef hjón krefjast sameiginlega lögskilnaðar að undangengnum skilnaði að borði og sæng, sbr. 1. mgr. 36. gr. laganna. Í 4. mgr. 42. gr. laganna segir að prestar eða löggiltir forstöðumenn trúfélaga og lífsskoðunarfélaga eða einstaklingar sem starfa í umboði forstöðumanns skráðs trúfélags eða lífsskoðunarfélags og fengið hafa löggildingu ráðuneytisins leiti um sættir. Sé annað eða bæði hjóna utan trúfélaga og ekki í skráðu lífsskoðunarfélagi, eða hvort heyrir til sínu trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi þá geti sýslumaður eða dómari eftir því hvar mál er til meðferðar leitað um sættir. Jafnframt segir í 6. mgr. 42. gr. laganna að sáttatilraun skuli að jafnaði hafa farið fram á síðustu sex mánuðum áður en mál er höfðað eða sett fram krafa um skilnað að borði og sæng eða lögskilnað fyrir sýslumanni, en í síðasta lagi áður en skilnaður er veittur.

Í þessu máli liggur ekkert fyrir um að sáttatilraunir hafi farið fram milli aðila máls þessa, að öðru leyti en því að í leyfisbréfi vegna skilnaðar að borði og sæng, sem veittur var rösku ári áður en mál þetta var höfðað, segir að sáttatilraunir hafi farið fram. Aðilar málsins eiga saman [...] börn, sem eru fædd á árunum [...]. Var því skylt að leita um sættir með þeim sbr. 2. mgr. 42. gr. laga nr. 31/1993. Getur ekki breytt þessu að sáttatilraunir hafi farið fram áður en skilnaður að borði og sæng var veittur, enda ljóst af orðalagi síðastnefnds ákvæðis að gert er ráð fyrir að sættir séu reyndar áður en lögskilnaður er veittur, nema hjón krefjist sameiginlega lögskilnaðar að undangengnum skilnaði að borði og sæng skv. 1. mgr. 36. gr., en hér hagar ekki svo til að hjón krefjist sameiginlega lögskilnaðar. Þá er ljóst að við höfðun máls þessa var liðið mun lengra en 6 mánuðir frá sáttatilraun sem gerð var áður en skilnaður var veittur að borði og sæng, sbr. 6. mgr. 42. gr. laganna.

Samkvæmt framansögðu eru ekki uppfyllt lagaskilyrði til þess að stefnanda verði veitt leyfi til lögskilnaðar frá stefndu og verður kröfu hans því hafnað.

Stefnda hefur í greinargerð sinni haft uppi kröfur um endurgreiðslu kostnaðar skiptastjóra, sem og endurgreiðslu og lögfræðikostnað vegna láns hjá LÍN. Kröfur þessar eru óljósar og ekki með tilteknum fjárhæðum. Þá er kröfugerð þessi í andstöðu við ákvæði 28. gr. laga nr. 91/1991 og er ekki unnt að leggja dóm á kröfurnar.

Stefnda hefur gert kröfu um málskostnað og kveðst hafa orðið fyrir vinnutapi vegna málsins, sem hún kveður nema kr. 100.000, en stefnandi hefur mótmælt þessu. Ljóst er að stefnda hefur þurft að eyða vinnu og tíma til að sinna máli þessu og þykir rétt að dæma henni málskostnað úr hendi stefnanda, sbr. 130. gr. laga nr. 91/1991, og þykir hann hæfilegur kr. 100.000.

Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð :

Kröfu stefnanda, M, um að verða veitt leyfi til lögskilnaðar frá stefndu, K, er hafnað. 

Stefnandi greiði stefndu kr. 100.000 í málskostnað.