Hæstiréttur íslands
Mál nr. 682/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Kyrrsetning
- Rannsókn
- Málshraði
|
Miðvikudaginn 25. janúar 2012. |
|
|
Nr. 682/2011. |
Sérstakur saksóknari (Arnþrúður Þórarinsdóttir saksóknari) gegn X (Reimar Pétursson hrl.) |
Kærumál. Kyrrsetning. Rannsókn. Málshraði.
X kærði úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu hans um að felldar yrðu úr gildi kyrrsetning sýslumanns á tilteknum eigum X og endurupptaka þeirrar ákvörðunar, sem fram fóru í tengslum við rannsókn á ætluðu lögbroti X. Í dómi Hæstaréttar kom fram að S hefði ekki gert það líklegt að ekki hefði mátt ljúka úrvinnslu gagna við rannsóknina á mun skemmri tíma en S hefði haft til þess, en tvö ár og rúmir tveir mánuðir voru þá liðnir frá því að Fjármálaeftirlitið kærði X til efnahagsbrotadeildar R. Hæstiréttur rakti efni 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Því næst sagði í dómi réttarins að með vísan til þess sem að framan væri rakið yrði að telja að dráttur á rannsókn ætlaðra brota X væri með þeim hætti að færi í bága við fyrrgreind ákvæði stjórnarskrár og laga. Voru ákvörðun sýslumanns og endurupptaka þeirrar ákvörðunar því felldar úr gildi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. desember 2011 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. desember 2011, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að felld yrði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 29. janúar 2010 um að kyrrsetja tilteknar eignir varnaraðila og endurupptaka þeirrar ákvörðunar 18. maí 2011. Kæruheimild er í k. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að felld verði úr gildi framangreind kyrrsetning 29. janúar 2010 og endurupptaka hennar 18. maí 2011. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og að varnaraðila verði gert að greiða málskostnað „ef til þess kemur að málskostnaður verði ákvarðaður.“
I
Þann 19. nóvember 2009 kærði Fjármálaeftirlitið til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra ætlað brot á lögum nr. 87/1992 um gjaldeyrismál og reglum settum á grundvelli þeirra. Tilefni kærunnar var tilkynning Seðlabanka Íslands 11. sama mánaðar sem varðaði grun um brot á fyrrnefndum lögum í samræmi við ákvæði 15. gr. a. laganna. Í kærunni kom fram að grunur beindist að sænska fyrirtækinu [...] vegna brota á lögunum á tímabilinu 25. mars til 5. október 2009. Fjórir nafngreindir Íslendingar, þeirra á meðal varnaraðili, væru einnig grunaðir um brot á lögunum vegna tengsla sinna við félagið, en þeir hefðu á nefndu tímabili fengið verulega fjármuni greidda frá félaginu inn á sína persónulegu reikninga hér á landi.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 28. janúar 2010 var að kröfu efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra heimiluð húsleit í húsnæði hjá [...] í Kópavogi og á heimilum þeirra fjögurra manna er rannsókn beindist að, þar á meðal varnaraðila. Varnaraðili var handtekinn daginn eftir og þann dag fór fram húsleit á heimili hans á grundvelli áðurnefnds úrskurðar. Þennan sama dag var tekin skýrsla af fjórmenningunum, þar á meðal varnaraðila. Samdægurs kyrrsetti sýslumaðurinn í Reykjavík að kröfu ríkislögreglustjóra eignarhlut varnaraðila í þremur fasteignum og innstæðu á tveimur bankareikningum hans til tryggingar kröfu að fjárhæð 42.610.000 krónur. Með samkomulagi aðila var kyrrsetningargerðin endurupptekin 18. maí 2011 og aflétt kyrrsetningu af tveimur þeirra fasteigna sem áður höfðu verið kyrrsettar, en þess í stað kyrrsett innstæða á tilteknum bankareikningi varnaraðila og eiginkonu hans og eignarhluti eiginkonu varnaraðila í tilgreindri fasteign. Skýrsla var tekin af einu vitni 18. febrúar 2010. Á tímabilinu frá 28. janúar til 30. apríl 2011 voru síðan teknar skýrslur af sjö vitnum. Eftir þetta hafa ekki bæst við rannsóknargögn í málinu, en í greinargerð sóknaraðila til Hæstaréttar og í bréfi hans til réttarins 6. janúar 2012, og upplýsinga- og stöðuskýrslum er fylgdu, er því lýst að fram hafi farið úrvinnsla á rafrænum gögnum, sem hald hafi verið lagt á við rannsóknina. Þeirri vinnu sé enn ekki lokið. Er því haldið fram að þessi úrvinnsla sé umfangsmikil og að rannsókn málsins hafi verið samfelld frá því að hún hófst.
II
Eins og að framan greinir barst efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra 19. nóvember 2009 kæra sú frá Fjármálaeftirlitinu, sem er tilefni rannsóknarinnar og kyrrsetningar á eigum varnaraðila, en síðan eru liðin tvö ár og rúmir tveir mánuðir. Í lok janúar 2010 greip sóknaraðili til nokkuð umfangsmikilla rannsóknaraðgerða og tryggingarráðstafana, en þeirra á meðal var beiðni um kyrrsetningu þá, sem er tilefni máls þessa. Í framhaldi af því var tekin skýrsla af einu vitni, en síðan hefur ekki verið aflað gagna í þágu rannsóknar málsins ef frá eru taldar skýrslur sem teknar voru af sjö mönnum snemma árs 2011. Enda þótt fallast megi á með sóknaraðila að gagnaöflun í þágu rannsóknar sakamáls geti ekki verið einhlítur mælikvarði á það hvort rannsókn ætlaðs efnahagsbrots sé fram haldið hefur sóknaraðili ekki gert það líklegt að ekki hafi verið unnt að ljúka úrvinnslu gagna á mun skemmri tíma en sóknaraðili hefur haft til þess.
Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar ber öllum réttur til að fá úrlausn um ákæru á hendur sér um refsiverða háttsemi með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli. Hliðstætt ákvæði er að finna í 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Samkvæmt 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 ber þeim sem rannsaka sakamál að hraða málsmeðferð eftir því sem kostur er. Þeim sem fyrir sök er hafður er því tryggður réttur til málsmeðferðar án óhæfilegs dráttar á öllum stigum. Sérstök þörf er á að hraða málsmeðferð þegar sakborningur sætir þvingunaraðgerðum eða öðrum íþyngjandi aðgerðum sem takmarka frelsi hans eða forræði yfir eignum sínum. Er sérstaklega tekið fram í 3. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 að þeir sem rannsaka sakamál skuli gæta þess að mönnum verði ekki gert meira tjón, óhagræði eða miski en óhjákvæmilegt er eftir því sem á stendur.
Í 3. mgr. 88. gr. laga nr. 88/2008 eru ákvæði um það hvenær kyrrsetning samkvæmt greininni fellur niður. Enda þótt dráttur á rannsókn máls sé ekki meðal þess sem þar er upp talið leiðir af framangreindum ákvæðum stjórnarskrár og laga um að hraða beri málsmeðferð að sakborningur geti átt réttmæta kröfu á því að aflétt sé þeim hömlum sem kyrrsetning leggur á stjórnarskrárvarinn rétt hans til að njóta forræðis yfir eigum sínum ef rannsókn dregst úr hófi. Með vísan til þess sem að framan er rakið verður að telja að dráttur á rannsókn ætlaðra brota varnaraðila sé með þeim hætti að í bága fari við fyrrgreind ákvæði stjórnarskrár og laga. Verður því felld úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 29. janúar 2010 um að kyrrsetja fyrrgreindar eigur varnaraðila og ákvörðun 18. maí 2011 um breytingu á fyrri ákvörðuninni.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Felld er úr gildi kyrrsetning sem sýslumaðurinn í Reykjavík framkvæmdi 29. janúar 2010 og 18. maí 2011 á tilteknum eignum varnaraðila, X.
Sóknaraðili, sérstakur saksóknari, greiði varnaraðila samtals 400.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. desember 2011.
Með kröfu, móttekinni 23. nóvember sl., krafðist sóknaraðili, X, [...], þess, að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að úr gildi skuli falla kyrrsetning sem fram fór í eignum hans hinn 29. janúar 2010 hjá Sýslumanninum í Reykjavík í máli nr. K-2/2010: Ríkislögreglustjóri gegn X, og endurupptaka hennar sem fram fór 18. maí 2011, og fól í sér breytingu á upphaflegu kyrrsetningunni. Auk þess krefst sóknaraðili þess að ríkissjóður greiði allan málskostnað sóknaraðila, að mati dómsins.
Varnaraðili, embætti sérstaks saksóknara, krefst þess að kröfu sóknaraðila, X, verði hafnað. Þá krefst varnaraðili þess að málskostnaður verði felldur á sóknaraðila, ef til þess komi að málskostnaður verði ákvarðaður.
Málið var þingfest 25. nóvember sl. og var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi hinn 7. desember 2011.
II
Hinn 19. nóvember 2009 barst efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra kæra frá Fjármálaeftirlitinu, þar sem kærð voru ætluð brot gegn lögum um gjaldeyrismál nr. 87/1992, og reglum settum á grundvelli þeirra laga. Með kærunni voru ætluð brot félagsins A B, X, C og D. Áður hafði E tilkynnt um umrædda ætlaða refsiverða háttsemi til Fjármálaeftirlitsins. Eftir sameiningu efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra og embættis sérstaks saksóknara hinn 1. september sl., sbr. lög nr. 82/2011, fór embætti sérstaks saksóknara, samkvæmt lögum nr. 135/2008, með rannsókn fyrrgreindra ætlaðra brota.
Varnaraðili kveður, að til rannsóknar sé ætluð refsiverð háttsemi kærða, X, á tímabilinu frá 25. mars 2009 til 5. október 2009, en kærði sé grunaður um að hafa, í félagi við aðra, framkvæmt eða valdið ólögmætum fjármagnshreyfingum til landsins á umræddu tímabili. Ætluð brot teljist varða við 3. gr., 1. mgr. og 5. mgr. bráðabirgðaákvæðis I, sbr. 16. gr. laga um gjaldeyrismál nr. 87/1992 ásamt síðari breytingum, sbr. 4. mgr. 1. gr., sbr. 13. gr. þágildandi reglna um gjaldeyrismál nr. 1130/2008.
Jafnframt sé til rannsóknar ætluð refsiverð háttsemi kærða á áðurgreindu tímabili, þ.e. 25. mars 2009 til 5. október 2009 þar sem kærði sé grunaður um að hafa í félagi við aðra haft milligöngu um gjaldeyrisviðskipti og verslað með erlendan gjaldeyri, án lögmætrar heimildar eða leyfis E. Á tímabilinu 25. mars 2009 til 13. júlí 2009, sé hin ætlaða refsiverða háttsemi talin varða við 1. mgr. 186. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en frá og með 14. júlí 2009 til 5. október 2009, sé háttsemin talin varða við 1. mgr. 8. gr. , sbr. 3. tl. 16. gr. laga um gjaldeyrismál nr. 87/1992, ásamt síðari breytingum.
Varnaraðili kveður að rökstuddur grunur sé um að kærði hafi sjálfur, og/eða gegnum félagið A, hagnast gífurlega á hinni ætluðu refsiverðu háttsemi og hafi verið talin hætta á að eignum yrði skotið undan eða þær myndu glatast eða rýrna til muna. Því hafi verið krafist kyrrsetningar á eignum kærða á grundvelli 88. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Hafi því verið krafist að kyrrsettar yrðu eignir fyrir kröfum að fjárhæð 42.610.000 krónur.
Hinn 28. janúar 2010 var uppkveðinn úrskurður í Héraðsdómi Reykjavíkur, þar sem heimiluð var húsleit hjá kærðu á heimilum þeirra og öðrum stöðum, svo sem í bifreiðum.
Hinn 29. janúar 2010 framkvæmdi efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra húsleitir og handtökur og haldlagðir voru munir sem fundust við húsleitina.
Krafa um kyrrsetninguna var tekin fyrir hjá Sýslumanninum í Reykjavík hinn 29. janúar 2010 og féllst sýslumaður á að krafan næði fram að ganga, gegn mótmælum kærða.
Eftirgreindar eignir kærða voru kyrrsettar:
1. [...], Reykjavík, fastanúmer [...], eignarhluti kærða.
2. [...], Garðabæ, fastanúmer [...], eignarhluti kærða.
3. [...], [...], fastanúmer [...], eignarhluti kærða.
4. Bankareikningur í Arion banka hf., númer [...].
5. Bankareikningur í Íslandsbanka hf., númer [...].
Í kjölfar beiðni frá kærða hinn 9. febrúar 2010 til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra, var kyrrsetningargerð [...] endurupptekin af Sýslumanninum í Reykjavík hinn 18. maí 2010. Með þeirri endurupptöku var kyrrsetning felld niður á fasteignunum, sem tilgreindar eru hér að framan í lið 1. og 2. Að ábendingu kærða var síðan kyrrsett fyrir kröfum efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra öll innstæða á bankareikningi í eigu kærða í Arion banka nr. [...]. Auk þess, að ábendingu eiginkonu kærða, F var eignarhluti hennar í fasteigninni [...], [...], fastanúmer [...] kyrrsettur með sömu gerð.
Með bréfi til Ríkislögreglustjóra, dagsettu 14. júní 2011, krafðist sóknaraðili þess að kyrrsetningunni yrði aflétt. Ríkislögreglustjóri hafnaði þeirri beiðni með bréfi, dagsettu 4. júlí 2011.
III
Sóknaraðili byggir kröfu sína á því, að hann sé saklaus af þeim sakargiftum sem á hann séu bornar, en samkvæmt kyrrsetningarbeiðni Ríkislögreglustjóra til Sýslumannsins í Reykjavík, sé hann borinn þeim sökum að hafa brotið gegn 8. gr. laga um gjaldeyrismál og 4. mgr. 1. gr. reglna nr. 1130/2008, um gjaldeyrismál, sbr. 1. mgr. bráðabirgðarákvæðis I í lögum um gjaldeyrismál. Staða hans sé því óvenjuleg, þar eð lagagrundvöllur sem rannsóknin hvíli á sé ófullnægjandi. Af þeim sökum geti skilyrði 88. gr. laga um meðferð sakamála fyrir kyrrsetningu eigna ekki átt við í máli hans.
Í 8. gr. laga um gjaldeyrismál segi að óheimilt sé „að hafa milligöngu um gjaldeyrisviðskipti hér á landi nema hafa til þess heimild í lögum eða samkvæmt ákvæðum í alþjóðlegum samningum sem Ísland sé aðili að eða fengið til þess leyfi frá E“. Í kæru Fjármálaeftirlitsins til Ríkislögreglustjóra, dagsettri 19. nóvember 2009, lýsi eftirlitið því að hin meinta „milliganga“ hafi átt sér stað með „inn-og útflæði“ á reikningum sænsks félags, A. Af þessu leiði að sóknaraðili geti aldrei hafa haft með höndum milligöngu í skilningi 8. gr. Þar komi einungis til greina A sem sé sjálfstæður lögaðili. Sóknaraðila verði því ekki refsað fyrir brot sem A sé sakað um að hafa framið. Í kröfu Ríkislögreglustjóra um kyrrsetningu og kæru Fjármálaeftirlitsins sé ekki skýrt með neinum hætti hvernig meint „tengsl“ sóknaraðila við A geti varðað refsiábyrgð. Mótmælir sóknaraðili því að þau tengsl geti undir einhverjum kringumstæðum leitt til refsiábyrgðar.
Sóknaraðili kveður að færslurnar sem A hafi framkvæmt hér á landi hafi ekki falið í sér neina tilfærslu á gjaldeyri í skilningi laga um gjaldeyrismál. Hér á landi hafi einungis verið millifærðar íslenskar krónur á milli íslenskra bankareikninga. Viðskiptin hafi fallið utan gildissviðs laga um gjaldeyrismál.. Sóknaraðili mótmælir því og að A hafi brotið gegn ákvæðinu, enda hafi hvorki A,, né menn á þess vegum, haft nokkuð það með höndum sem gæti talist „milliganga hér á landi“ í skilningi 8. gr. Öllum viðskiptum A hafi verið ráðið til lykta utan íslenskrar lögsögu og fyrir liggi að milligangan hafi t.d. verið heimil í Svíþjóð. Um það megi vísa til niðurstöðu Stokkholms Tingsrett frá 8. febrúar 2010. A hafi aldrei verslað við almenning á Íslandi með erlendan gjaldeyri. Þess vegna bendi ekkert til að lög hafi verið brotin.
Jafnframt verði að mótmæla því að A hafi yfirleitt haft með höndum nokkuð það sem geti talist milliganga í skilningi ákvæðisins. Hér verði að hafa í huga að hugtakið „milliganga“ í 8. gr. laganna hafi tiltölulega þrönga skírskotun. Ef litið yrði svo á að ákvæðið í reglugerð 679/1994, um gjaldeyrismál, rýmkuðu þetta hugtak skorti fyrir því lagastoð. Tilvísun Fjármálaeftirlitsins til þessarar reglugerðar hafi því enga þýðingu í því sakamáli sem hér sé til skoðunar.
Einnig bendir sóknaraðili á að brot gegn ákvæðum 8. gr. hafi ekki varðað refsingu fyrr en eftir setningu laga nr. 73/2009, sem tekið hafi gildi 14. júlí 2009. Fram að þeim tíma hafi brot gegn ákvæðinu ekki verið refsinæm. Enginn hinna kærðu hafi setið í stjórn A eftir þann tíma.
Í 4. mgr. 1. gr. reglna um gjaldeyrismál nr. 1130/2008, sem E hafi gefið út, segi:
„Gjaldeyrisviðskipti vegna fjármagnshreyfinga skv. 1. mgr. bráðabirgðaákvæðis laga um gjaldeyrismál, með síðari breytingum, á milli landa með úttektum af reikningum í íslenskum kröfum í fjármálafyrirtækjum hér á landi eða E eru óheimil.“
Sóknaraðili telur að hann geti aldrei talist hafa gerst brotlegur við þetta ákvæði reglna um gjaldeyrismál. Hér kæmi fyrirtækið A eitt til greina. Sóknaraðili mótmælir því einnig að A hafi brotið gegn fyrrgreindu ákvæði, þar sem A hafi ekki framkvæmt neinar millifærslur „á milli landa“. A hafi eingöngu millifært fjármuni á milli íslenskra banka og engar fjármagnshreyfingar hafi átt sér stað frá Íslandi. Þegar af þeirri ástæðu geti A ekki hafa brotið gegn ákvæðinu. Þar við bætist svo að A hafi eingöngu átt viðskipti við erlenda aðila, sem enn frekar komi í veg fyrir að A geti hafa brotið gegn ákvæðinu.
Þá verði að hafa í huga að í reglunum sé vísað til „bráðabirgðaákvæðis“, en ekki tilgreint hvort um sé að ræða bráðabirgðaákvæði I eða bráðabirgðaákvæði II. Í kyrrsetningarbeiðninni og kæru Fjármálaeftirlitsins sé talið að hér sé átt við bráðabirgðaákvæði I án þess að fyrir því séu færð rök. Sóknaraðili mótmælir þessu og bendir á að hér geti allt eins verið átt við bráðabirgðaákvæði II en vafalaust sé að A hafi ekki framkvæmt millifærslur sem geti fallið undir það ákvæði.
Sóknaraðili telur og að reglur þær sem E hafi gefið út séu með öllu marklausar enda hafi E enga heimild haft til útgáfu þeirra. Í bráðabirgðaákvæði I komi fram að reglur á grundvelli ákvæðisins verði aðeins settar „að fengnu samþykki viðskiptaráðherra“. Hvergi verði séð í Stjórnartíðindum að slíkt samþykki hafi verið fengið og teljist því reglurnar marklausar í heild sinni. Hér megi og vísa til 8. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað og 29. gr. stjórnarskrárinnar.
Sóknaraðili byggir og á því að í reglunum geti aldrei falist refsiheimild. Vísar hann í þeim efnum til 5. mgr. bráðabirgðarákvæðis I. Þar komi hvergi fram að brot gegn reglum, settum með stoð í ákvæðinu, varði refsingu, heldur séu aðeins brot gegn ákvæðinu sjálfu lýst refsinæm. Þar fyrir utan leiði af ákvæði 69. gr. stjórnarskrárinnar að óheimilt sé að framselja undirsettum stjórnvöldum vald til að setja reglur sem varðað geti refsingu hvort sem það er gert með eða án samþykkis ráðherra, í því felist sjálfstæður annmarki á reglunum sem refsiheimild.
Sóknaraðili vísar og til þess að hafa verði í huga skuldbindingar Íslands samkvæmt EES samningnum, sbr. lög nr. 2/1993, einkum 31. gr. samningsins. Í því ákvæði felist réttur til að stofna félög í öðrum ríkjum EES og reka þau með þeim skilyrðum sem gildi að landslögum um ríkisborgara þess ríkis þar sem staðfestan sé fengin. Af því leiði að öllum ríkisborgurum á EES svæðinu sé heimilt að stofna félög í Svíþjóð sem mættu þar eiga viðskipti með íslenskar krónur.
Hér hátti því svo til að A hafi stundað viðskipti sem séu öllum öðrum sænskum félögum heimil. Af hálfu ríkislögreglustjóra hafi því verið haldið fram að meint tengsl sóknaraðila við A, valdi því að A megi ekki eiga í þessum viðskiptum vegna 8. gr. laga um gjaldeyrismál. Þessar staðhæfingar ríkislögreglustjóra standist ekki því af þeim myndi leiða brot á staðfesturétti A samkvæmt ákvæðum EES samningsins.
Sóknaraðili telur einnig að reglur um gjaldeyrismál nr. 1130/2008, að svo miklu leyti sem þær feli í sér takmarkanir á fjármagnsflutningum, standist ekki ákvæði 40. gr. EES samningsins. Ef skilningur Ríkislögreglustjóra á þeim reyndist réttur væri ljóst að gengið væri mun lengra til heftingar á fjármagnsflutningum en nokkra heimild sé að finna fyrir í EES samningnum. Skorti því lagagrundvöll í málinu.
Í 2. mgr. 88. gr. laga nr. 88/2008, sé gerð sérstök undanþága frá almennum reglum um kyrrsetningu fjármuna til hagsbóta fyrir ákæruvaldið. M.a. sé gerð undanþága frá almennri kröfu 36. gr. laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl., um að réttarstefna sé gefin út til staðfestingar á kyrrsetningu innan viku frá lokum gerðar. Af hálfu sóknaraðila sé þó talið að þessi undanþága feli hvorki í sér takmarkalausa heimild til rannsakenda að draga rannsókn mála né fyrir saksóknara að fresta ákvörðun um framhald mála. Telur sóknaraðili að þegar kyrrsetning hafi farið fram beri rannsakendum að hraða meðferð mála alveg sérstaklega, til að takmarka eins og unnt sé þá alvarlegu réttarfarsskerðingu sem felist í gerðinni. Þetta leiði af ákvæðum 70. gr. stjórnarskrárinnar, 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 2. mgr. 53. gr. laga um meðferð sakamála. Í þessu sambandi megi einnig vísa til 3. mgr. 53. gr. sakamálalaga sem kveði á um að þeir sem rannsaki mál skuli gæta þess að mönnum verði ekki gert meira tjón, óhagræði eða miski en óhjákvæmilegt sé eftir því sem á standi. Hafi rannsakendur brotið gegn þessari meginreglu um hraða málsmeðferð. Liðin séu meira en tvö og hálft ár frá kæru Fjármálaeftirlitsins til lögreglu og enginn framgangur hafi orðið í rannsókn málsins svo séð verði. Af gögnum málsins megi ráða að skýrslur hafi verið teknar af sakborningum hinn 29. janúar 2010 og svo hafi verið tekin ein vitnaskýrsla 18. febrúar 2010. Þá hafi bæst við í málinu átta skýrslur sem hafi verið teknar á tímabilinu frá 28. janúar 2011 til 30. mars 2011. Ekki verði séð að neitt annað markvert hafi verið gert í rannsókn málsins. Þetta sé þvert á reglur ríkissaksóknara RS:5/2009 um hámarkstíma meðferðar efnahagsbrota hjá lögreglu og ákærendum, en þar komi fram að í þeim tilvikum sem rannsókn máls dragist skuli þess gætt að unnið sé stöðugt að málinu.
Sóknaraðili mótmælir að sæta því að rannsókn málsins taki svo langan tíma sem raun sé. Sá dráttur sem nú þegar sé orðinn á meðferð málsins teljist alvarlegt brot á meginreglum réttarfars um eðlilegan málshraða. Séu því ekki forsendur fyrir áframhaldandi kyrrsetningu eigna sóknaraðila samkvæmt 88. gr. laga nr. 88/2008.
Sóknaraðili byggir og á því að rannsókn málsins og upphafsaðgerðir af hálfu saksóknara efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra, G, hafi falið í sér brot á hlutlægnisskyldu ákæruvaldsins, samkvæmt 3. og 4. mgr. 18. gr. laga um meðferð sakamála. Þá hafi falist í þeim brot af hálfu ákæruvaldsins, forstjóra Fjármálaeftirlitsins og fulltrúa E á meginreglu 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, þess efnis að menn teljist saklausir þar til sekt þeirra sé sönnuð. Þetta sé grundvallarregla sem beri sérstaklega að virða, enda nauðsynlegt að skapa traust almennings á störfum lögreglu og ákæruvalds og tiltrú um að ætíð sé gætt fyllstu hlutlægni. Í þeim tilvikum, þar sem ákærendur séu að skýra frá upphafsrannsókn máls beri þeim að sýna sérstaka aðgæslu enda ljóst að hlutleysi þeirra kunni annars með réttu að verða dregið í efa. Þessi sjónarmið hafi ekki verið virt í umfjöllun um málið. Fyrrgreindur saksóknari hafi boðað til blaðamannafundar 29. janúar 2010, en fundinn hafi setið, auk hans, H, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, og I, fulltrúi E. Á fundinum hafi málið verið kynnt og sakargiftir raktar. Þar hafi bæði I og G fullyrt að um brot væri að ræða. Kærðu, C og D, hafi fundið að þessu í erindi til ríkissaksóknara, dagsettu 23. mars 2010, en ríkissaksóknari hafi ekki séð ástæðu til aðgerða vegna þessa og komi það fram í bréfi hans frá 10. maí 2010. Byggir sóknaraðili á því að rannsókn, sem þannig sé markaður farvegur í upphafi, geti aldrei orðið grundvöllur áfellis í sakamáli, eins og atvikum sé háttað. Í því fælust alvarleg brot á réttindum sóknaraðila. Þegar af þeirri ástæðu skorti skilyrði til að viðhalda kyrrsetningunni.
Aðdragandi rannsóknarinnar og framkvæmd hennar hafi frá upphafi byggst á alvarlegum trúnaðarbrotum I hdl., sem veitt hafi kærðu lögfræðilega ráðgjöf í tengslum við það mál sem sé til rannsóknar, en á þeim tíma hafi I m.a. gegnt störfum lögmanns hjá J fjárfestingabanka hf., í krafti undanþáguheimildar í 1. tl. 12. gr. lögmannalaga nr. 77/1998. Af undanþáguheimildinni leiði að henni hafi verið óheimilt að veita öðrum en vinnuveitanda sínum þjónustu sem lögmaður. Gegn þessu ákvæði hafi hún brotið með þeirri ráðgjöf sem hún hafi veitt sóknaraðila. Af því leiði að I hafi verið bundin þagnarskyldu við sóknaraðila um hans málefni. Jafnframt hafi henni verið skylt að taka ekki að sér málefni sem kynnu að rekast á hagsmuni sóknaraðila, sbr. 22. gr. lögmannalaga. Henni hafi og verið óheimilt að nýta sér upplýsingar, sem henni hafði verið trúað fyrir af sóknaraðila og öðrum kærðu til hagsbóta fyrir varnaraðila, sem og að láta í té gögn sem hún hafði fengið í hendur við þá ráðgjöf. I hafi, stuttu eftir að hún hafi veitt sóknaraðila ráðgjöf, hafið störf hjá E og með því hafi hún brotið freklega gegn trúnaði við sóknaraðila, tilkynnt um grun um lögbrot hans fyrir hönd E til Fjármálaeftirlitsins með bréfi, dagsettu 11. nóvember 2009, lýst síðar yfir sekt hans á blaðamannafundi þegar málið hófst og síðan borið vitni hjá lögreglu vegna málsins. Í þessu felist brot á trúnaðarskyldum lögmanns og engin atvik virðist fyrir hendi sem geti afsakað þetta. Rannsókn sem byggist á slíkum grunni geti aldrei orðið grundvöllur sakfellingar í opinberu máli, sbr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Áframhaldandi kyrrsetning eigna sóknaraðila fái því ekki staðist.
IV
Varnaraðili byggir kröfu sína á því að kærði sæti rannsókn vegna ætlaðra brota á lögum um gjaldeyrismál. Skilyrði til að beita 88. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, séu þau að hætta sé á að eignum verði skotið undan eða glatist eða rýrni að mun. Almennt verði að telja að þegar fyrir liggi að krafa kunni að verða sett fram um upptöku ávinnings í dómsmáli eða það geti mögulega komið til þess að kærði þurfi að greiða sekt eða sakarkostnað, sé til staðar hætta á því að eignum verði skotið undan eða þær glatist eða rýrni að mun. Varnaraðili telji að hætta sé á að kærði komi undan eignum og að það kunni að verða erfitt að sækja á hendur honum kröfu um upptöku ávinnings og/eða greiðslu sektar og sakarkostnaðar ef engin trygging er til staðar. Eigi þau sjónarmið jafnt við um það tímamark þegar krafist hafi verið kyrrsetningar í málinu og þá stöðu sem uppi sé við rannsókn málsins í dag. Kyrrsetning lúti framangreindum efnislegum skilyrðum, bæði um það hvort hún sé gerð og um það hvort henni verði viðhaldið. Í 3. mgr. 88. gr. sakamálalaga komi fram þær ástæður sem valdi því að kyrrsetning falli niður.
Varnaraðili byggir á því, að þær málsástæður sóknaraðila, að hann geti ekki talist hafa brotið gegn þeim lagaákvæðum sem um ræði og lagagrundvöllur rannsóknarinnar sem rannsóknin hvíli á sé ófullnægjandi, falli utan þess sem að lögum verði teflt fram til stuðnings kröfu samkvæmt 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008. Samkvæmt framangreindu lagaákvæði megi leggja fyrir héraðsdóm ágreining um lögmæti rannsóknarathafna lögreglu eða ákæranda, enn fremur ágreining um réttindi sakbornings, verjanda hans eða lögmanns, þar á meðal kröfu þeirra um tilteknar rannsóknaraðgerðir, ellegar réttindi brotaþola, réttargæslumanns hans eða lögmanns. Í greininni séu ekki tiltekin fleiri tilvik eða efnisatriði, sérstök eða almenn eðlis, sem borin verði undir héraðsdóm á grundvelli hennar.
XV. kafli laga nr. 88/2008, fjalli, samkvæmt yfirskrift sinni, um meðferð sakamála fyrir dómi. Í athugasemdum með XV. kafla í frumvarpi sem orðið hafi að sakamálalögum, komi fram að rannsóknarmál í skilningi kaflans séu fyrst og fremst dómsmál sem komi til út af kröfum lögreglu eða ákæranda um heimild til nánar tiltekinna rannsóknaraðgerða en einnig þegar lögð séu fyrir dómara ágreiningsatriði, m.a. ágreiningur um lögmæti rannsóknarathafna.
Samkvæmt 102. gr. sakamálalaga, og lögskýringargögnum með sömu lagagrein, verði að líta svo á að löggjafinn hafi þar markað ramma fyrir þau ágreiningsefni sem borin verði undir dóm á þessum grundvelli. Einnig verði þá að líta til þess að ákvæði XV. kafla laga nr. 88/2008, um málsmeðferð, feli í sér mörg og mikilvæg afbrigði frá almennri meðferð sakamála fyrir dómi eftir lögunum, sbr. XXV. kafla sakamálalaga, m.a. um umfang gagnaöflunar, sönnunarfærslu og málflutning.
Embætti sérstaks saksóknara telur að taka verði mið af framangreindu þegar metið sé úr hvaða málsástæðum verði leyst í máli á grundvelli 102. laga nr. 88/2008.
Kyrrsetning sé rannsóknarúrræði og fari fram á grundvelli 88. gr. laga nr. 88/2002. Eðli máls samkvæmt verði að styðja kröfu um ógildingu kyrrsetningar við málsástæður sem standi í efnislegu samhengi við kyrrsetninguna. Telja verði málsástæður kærða um óljósan lagagrundvöll ekki vera í samræmi við kröfu í málinu um lögmæti kyrrsetningar. Ekki verði séð hvernig það tengist áðurgreindum skilyrðum 88. gr. laga nr. 88/2008.
Rannsókn þess sakamáls sem hafi verið grundvöllur kyrrsetningarinnar sé ekki lokið. Málsástæður og rökstuðningur kærða að þessu leyti feli nær allar í sér atriði er varði efnishlið málsins og sönnunarfærslu, þ.e. hvort kærði hafi gerst sekur eða getað gerst sekur um hina ætluðu refsiverðu háttsemi sem til rannsóknar sé. Um slíkan ágreining verði fjallað ef til þess komi að gefin verði út ákæra að rannsókn lokinni og málið fer í almenna meðferð fyrir dómi, samkvæmt XXV. kafla laga nr. 88/2008.
Efnislegar málsástæður af þessum toga um sakarefni sem til rannsóknar sé hjá lögreglu falli utan þess sem fram verði fært í máli sem rekið sé á grundvelli 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008, um lögmæti kyrrsetningar við rannsóknina. Nægi þar að vísa til þess sem áður hafi verið sagt um þann lögákveðna ramma sem slíkum málatilbúnaði sé markaður og leiddur verði bæði af skýru orðalagi lagagreinarinnar sjálfrar og lögskýringargögnum.
Til rannsóknar sé ætlað umfangsmikið efnahagsbrot, sem varði ætlaða skipulagða og kerfisbundna háttsemi sem nái yfir 6-7 mánaða tímabil. Rannsóknin varði viðskipti fyrir verulegar fjárhæðir og um sé að ræða mörg hundruð rannsóknartilvik. Við rannsóknina hafi farið fram húsleitir þar sem haldlögð hafi verið gögn, auk þess sem gagna hafi verið aflað með öðrum hætti. Yfirferð og úrvinnsla haldlagðra gagna hafi verið tímafrek hvort sem um hafi verið að ræða skjöl eða gögn á tölvutæku formi. Skýrslur hafi verið teknar af sakborningum og vitnum og rannsóknin hafi útheimt samskipti við erlend yfirvöld, þar sem hin ætlaða refsiverða háttsemi nái til fleiri landa en Íslands.
Í fyrirmælum Ríkissaksóknara frá 27. mars 2009, númer 5/2009, sé fjallað um hámarkstíma meðferðar brota í tilteknum málaflokkum, þ.á m. efnahagsbrota hjá lögreglu og ákærendum. Í fyrirmælunum sé vísað til málshraðareglunnar, sem tryggð sé sérstaklega í 70. gr. stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu. Í fyrirmælunum sé farið yfir það að við rannsókn efnahagsbrota liggi fyrir meira af skriflegum sönnunargögnum en í öðrum málaflokkum, sem fyrirmælin fjalli um. Meginreglurnar varðandi efnahagsbrot sem settar séu
fram í fyrirmælunum séu að rannsókn skuli hefjast sem fyrst og eigi síðar en 6 mánuðum eftir að kæra berist. Þá skuli rannsókn lokið innan tveggja ára, nema sérstakar ástæður komi í veg fyrir það sem séu þær að mál teljist umfangsmikið eða þegar afla þurfi gagna erlendis frá. Í þeim tilvikum skuli þess þó gætt að unnið sé stöðugt að málinu. Mikilvægast sé hins vegar að unnið sé að rannsókn þessara mála með eðlilegum hraða og að ekki myndist óútskýrðar eyður í rannsókninni.
Rannsókn þess máls sem hér sé til umfjöllunar hafi farið fram í samræmi við framangreind fyrirmæli. Þannig hafi upphafsaðgerðir í málinu farið fram rúmum tveimur mánuðum eftir að kæra hafi borist, en ljóst sé að mikil undirbúningsvinna hafi farið fram áður en unnt hafi verið að hefja rannsóknina með þeim hætti sem gert hafi verið. Þá hafi rannsókn málsins verið fram haldið með samfelldum hætti frá því tímamarki þegar rannsókn hafi hafist. Rannsókn málsins standi enn yfir, eins og áður greini. Hið ætlaða brot, sem til rannsóknar sé, sé umfangsmikið og hafi þurft að afla gagna erlendis frá, en slíkt sé nefnt sem dæmi í fyrirmælum Ríkissaksóknara um atriði sem skýrt geti að rannsókn efnahagsbrota sé ekki lokið innan tveggja ára. Með vísan til umfangs rannsóknarinnar sé hafnað fullyrðingum kærða í málinu, að óhæfilegur dráttur sé á málsmeðferð, sem réttlætt geti það að kyrrsetning verði úr gildi felld.
Embætti sérstaks saksóknara mótmælir því að brotin hafi verið hlutlægnisskylda 3. og 4. mgr. 18. gr. laga nr. 88/2008, 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar eða 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Varnaraðili telur að röksemdir sóknaraðila varðandi trúnaðarbrot geti ekki haft áhrif á lögmæti þeirrar kyrrsetningar, sem ágreiningur sé um.
V
Hinn 28. janúar 2010 krafðist Ríkislögreglustjóri kyrrsetningar í eignum sóknaraðila til tryggingar kröfu að fjárhæð 42.610.000 krónur vegna greiðslu sakarkostnaðar, sekta og upptöku ávinnings, vegna ætlaðra brota sóknaraðila gegn 8. gr. laga um gjaldeyrismál nr. 87/1992 og 4. mgr. 1. gr. reglna nr. 1130/2008, um gjaldeyrismál, sbr. 1. mgr. bráðabirgðaákvæðis I í lögum um gjaldeyrismál. Forsenda beiðninnar var að talin var hætta á að eignir myndu glatast, þeim yrði skotið undan eða þær rýrna að mun. Hinn 29. janúar 2010 kyrrsetti Sýslumaðurinn í Reykjavík nánar tilgreindar fasteignir og bankareikninga í eigu sóknaraðila. Hinn 18. maí 2011 krafðist Ríkislögreglustjóri, að beiðni sóknaraðila, að fyrrgreind kyrrsetningargerð yrði endurupptekin. Sama dag varð Sýslumaðurinn í Reykjavík við þeirri beiðni og felldi niður kyrrsetningu í nánar tilgreindum fasteignum í eigu sóknaraðila, en kyrrsetti í þeirra stað nánar tilgreinda eign í eigu eiginkonu sóknaraðila, að ábendingu hennar og með samþykki varnaraðila. Rannsókn vegna ætlaðra brota sóknaraðila er ekki enn lokið.
Sóknaraðili byggir á því að málið á hendur honum, sem til rannsóknar sé, styðjist ekki við fullnægjandi lagagrundvöll sem og á því að vítaverður dráttur hafi verið á rannsókn málsins. Einnig hafi verið brotnar reglur um hlutlægni ákæruvalds og réttindi sóknaraðila um að teljast saklaus uns sekt sé sönnuð. Þá fari rannsókn málsins fram í skugga alvarlegra trúnaðarbrota gagnvart sóknaraðila. Af þessum sökum geti kyrrsetning eigna sóknaraðila ekki verið heimil samkvæmt 88. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála.
Brot gegn 8. gr. laga nr. 87/1992 varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum hvort sem þau eru framin af ásetningi eða gáleysi, sbr. 16. gr. og 16. gr. a. laganna, sbr. lög nr. 73/2009. Hið ætlaða brotaandlag er talið nema rúmum 40 milljónum króna.
Kyrrsetning samkvæmt 88. gr. laga nr. 88/2008 er þvingunaraðgerð í þágu meðferðar sakamáls og hefur það markmið að tryggja fjármuni til greiðslu sektar, sakarkostnaðar og upptöku ávinnings, sem aflað hefur verið með broti. Kyrrsetning til tryggingar upptöku ætlaðs ávinnings af broti telst og til rannsóknaraðgerða, samkvæmt XII. kafla laga nr. 88/2008. Samkvæmt 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008 verður því borinn undir héraðsdóm ágreiningur um lögmæti kyrrsetningarinnar. Skilyrði kyrrsetningar samkvæmt ákvæðinu er að hætta þyki á að eignum verði annars skotið undan eða þær glatist eða rýrni að mun. Við mat á því hvort til staðar séu þau skilyrði sem ákvæði 1. mgr. 88. gr. laga nr. 88/2008 tilgreinir ber einnig að líta til refsiramma hins ætlaða brots, sem og fjárhæðar kröfunnar sem um er að ræða. Við úrlausn um lögmæti kyrrsetningarinnar verður hins vegar ekki skorið úr um það í ágreiningsmáli á grundvelli 102. gr. laga nr. 88/2008, hvort einhver þau atriði við rannsókn málsins eða lagasetningu leiði til þess að lagaskilyrði skorti til að sakfella kærða. Fyrir liggur að til rannsóknar er ætlað brot á lögum um gjaldeyrismál, sem getur varðað refsingu samkvæmt þeim lögum, sbr. lög nr. 73/2009, sem gildi tóku 14. júlí 2009. Þá liggur fyrir að um umfangsmiklar fjárhæðir er að ræða. Með vísan til framangreinds þykir því fullnægt skilyrðum ákvæðisins fyrir lögmæti kyrrsetningargerðar Sýslumannsins í Reykjavík 29. janúar 2010 og 18. maí 2011.
Samkvæmt 2. mgr. 88. gr. laga nr. 88/2008, fellur kyrrsetning niður ef ákærði hefur verið sýknaður með endanlegum dómi af greiðslu sektar og sakarkostnaðar eða upptaka ávinnings hefur ekki verið dæmd. Sama á við ef saksókn hefur verið felld niður eða rannsókn leiðir ekki til saksóknar. Með vísan til þess að rannsókn málsins er ekki enn lokið eru ekki skilyrði til að fella kyrrsetninguna niður.
Verður því kröfum sóknaraðila, um að fella úr gildi fyrrgreinda kyrrsetningargerð, hafnað.
Málskostnaður verður ekki dæmdur.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Hafnað er kröfum sóknaraðila, X, um að fella úr gildi kyrrsetningu sem fram fór í eignum hans hinn 29. janúar 2010 hjá Sýslumanninum í Reykjavík, og endurupptöku hennar hinn 18. maí 2011.