Hæstiréttur íslands

Mál nr. 142/2014

A (Halldór Þ. Birgisson hrl.)
gegn
Tryggingamiðstöðinni hf. (Hjörleifur B. Kvaran hrl.)

Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Örorkubætur


 

Skaðabætur. Líkamstjón. Örorkubætur.

A krafði T hf. um bætur vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir er fjórhjól, sem hann ók, valt utan vegar. Ekki var deilt um bótaskyldu T hf. og hafði uppgjör farið fram með fyrirvara af hálfu A þar sem varanleg örorka var miðuð við lágmarkslaun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. A höfðaði síðan mál gegn T hf. og byggði á því að staðgreiðsluyfirlit hans síðustu þrjú árin fyrir slysið sýndu ekki rauntekjur hans á tímabilinu, enda hefði hann ekki skilað inn tekjuupplýsingum til skattyfirvalda vegna sjálfstæðs atvinnurekstrar. Talið var að A hefði ekki fært viðhlítandi sönnur á að tekjur hans á greindu tímabili hefðu verið hærri en staðgreiðsluyfirlit gáfu til kynna. Var T hf. því sýknað af kröfu A.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 25. febrúar 2014. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér aðallega 11.788.495 krónur, til vara 8.034.653 krónur, en að því frágengnu 7.408.576 krónur, í öllum tilvikum með 4,5% ársvöxtum frá 16. mars 2011 til 18. nóvember sama ár, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni greiðslu stefnda 28. nóvember 2011 að fjárhæð 3.631.999 krónur. Í öllum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. 

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Áfrýjandi hefur meðal annars lagt fram í Hæstarétti „yfirlit yfir tekjur og gjöld“ sín árin 2007 og 2008, sem löggiltur endurskoðandi kveðst hafa samið á grundvelli upplýsinga úr yfirlitum um bankareikninga hans. Skjöl þessi, sem fela í sér nýja málsástæðu áfrýjanda um fjárhæð tekna hans, breyta engu um að hann hefur ekki fært viðhlítandi sönnur á raunverulegar launatekjur sínar á þeim árum, sem taka ber mið af við útreikning skaðabóta honum til handa vegna varanlegrar örorku, sbr. 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, A, greiði stefnda, Tryggingamiðstöðinni hf., 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur föstudaginn 29. nóvember 2013.

                Mál þetta, sem var höfðað með stefnu birtri 1. mars 2013, var dómtekið 5. nóvember s.á. Stefnandi er A, […] og stefndi er Tryggingamiðstöðin hf. Síðumúla 24 í Reykjavík.

                Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi greiði honum 13.201.279 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 16. mars 2011 til 18. nóvember 2011, en frá þeim degi með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, til greiðsludags, allt að frádreginni greiðslu stefnda þann 28. nóvember 2011, að fjárhæð 3.631.999 krónur.

                Varakrafa stefnanda er sú að stefndi greiði honum 8.034.653 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 16. mars 2011 til 18. nóvember 2011, en frá þeim degi með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, til greiðsludags, allt að frádreginni greiðslu stefnda þann 28. nóvember 2011, að fjárhæð 3.631.999 krónur.

                Til þrautavara krefst stefnandi þess að stefndi greiði honum 7.408.576 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 16. mars 2011 til 18. nóvember 2011, en frá þeim degi með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, til greiðsludags, allt að frádreginni greiðslu stefnda þann 28. nóvember, að fjárhæð 3.631.999 krónur.

                Í öllum tilvikum krefst stefnandi greiðslu málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt mati dómsins ásamt virðisaukaskatti.

                Stefndi krefst þess að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu og að stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað að mati dómsins.

Atvik máls

               Stefnandi varð fyrir slysi þann 16. júní 2010 þegar hann ók fjórhjóli ásamt félögum sínum nærri Laugarvatni. Slysið bar að með þeim hætti að hann ók yfir ójöfnu, sem hann sá ekki vegna sólar, með þeim afleiðingum að honum fipaðist við aksturinn og missti stjórn á hjólinu. Hjólið valt einn og hálfan hring og varð stefnandi undir hjólinu. Fjórhjólið var tryggt hjá stefnda á slysdegi og var stefnandi því tryggður sem ökumaður þess samkvæmt 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. 

    Stefnandi hlaut áverka í baki og hálsi í slysinu. Hann leitaði á bráðamóttöku Landspítala háskólasjúkrahúss daginn eftir slysið og síðan til lækna nokkrum sinnum eftir það. Samkvæmt lokavottorði B bæklunarskurðlæknis frá 28. júní 2011 er ekki talið að stefnanda muni batna frekar eftir það tímamark. Í niðurstöðu matsgerðar læknanna C og D, dags. 14. október 2011, er talið að stefnandi hafi verið tímabundið óvinnufær frá 16. til 23. júní 2010 og á ný frá 1. nóvember 2010 til 16. mars 2011 og að þjáningabótatímabil sé það sama. Þá er ástand stefnanda talið hafa orðið stöðugt 16. mars 2011. Varanlegur miski er metinn 12 stig, varanleg örorka 15% og hefðbundin, varanleg læknisfræðileg örorka 12%.

     Þann 18. október 2011 sendi lögmaður stefnanda kröfubréf til stefnda þar sem gerðar voru bótakröfur vegna slyssins á grundvelli fyrrnefndrar matsgerðar. Hljóðaði kröfufjárhæð vegna varanlegrar örorku upp á 12.960.643 kr. Við útreikning á varanlegri örorku studdist stefnandi við hámarkslaun, sbr. 4. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993 og er þar byggt á upplýsingum úr skýrslu skattrannsóknarstjóra til að meta hverjar tekjur stefnanda hafi verið á viðmiðunarárunum 2007-2008. Stefndi hafnar framsettu tekjuviðmiði og telur gögn málsins sýna að tekjur stefnanda hafi verið lægri en lágmarkstekjur samkvæmt 3. mgr. sömu greinar laganna. Byggir hann það á staðgreiðsluskilum stefnanda á þeim árum sem leggja á til grundvallar tekjuviðmiði. Í tölvuskeyti stefnda frá 28. nóvember s.á. kemur fram að hann mótmæli því að skýrsla skattrannsóknarstjóra sé sönnunargagn um hvaða launatekjur stefnandi hafi haft á viðmiðunarárunum.

    Umrædd skýrsla skattrannsóknarstjóra, sem er dagsett 22. janúar 2010, varðar rannsókn hans á bókhaldi og virðisaukaskattskilum stefnanda á árunum 2004-2008. Niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að vantalin virðisaukaskattskyld velta stefnanda á árunum 2004-2008 er talin nema 124.694.099 krónum og vantalinn virðisaukaskattur vera 30.550.055 krónur. Með dómi héraðsdóms Reykjavíkur 8. nóvember 2010 hlaut stefnandi dóm fyrir skattalagabrotin sem rannsókn skattrannsóknarstjóra laut að. Þann 28. nóvember 2011, ritaði lögmaður stefnanda undir uppgjör þar sem gerður var fyrirvari við tekjuviðmið við útreikning bóta vegna varanlegrar örorku.

Ágreiningur aðila um það hvaða tekjur beri að leggja til grundvallar útreikningi bóta stefnanda vegna varanlegrar örorku er tilefni málaferla þessara.

          Fyrir dómi gáfu skýrslu stefnandi málsins og E framkvæmdarstjóri tæknisviðs hjá Öryggismiðstöðinni.

Málsástæður og lagarök stefnanda

                 Stefnandi byggir á því að staðgreiðsluyfirlit hans fyrir tekjuárin 2007-2009 sýni ekki rauntekjur hans enda hafi hann ekki skilað inn tekjuupplýsingum til skattyfirvalda, vegna sjálfstæðs atvinnurekstrar, talið fram eða greitt virðisaukaskatt. Sýna því staðgreiðsluyfirlit engar tekjur stefnanda á viðmiðunarárum. Stefnandi telur þó rétt að árétta í þessu samhengi að ekki var skilað inn röngum upplýsingum til skattyfirvalda, heldur var upplýsingum ekki skilað inn yfirhöfuð.

                Þessi vanræksla stefnanda, á því að skila inn framtölum, varð tilefni þess að skattrannsóknarstjóri ríkisins hóf rannsókn þann 4. febrúar 2009 á bókhaldi og virðisaukaskattskilum stefnanda.

                Í skýrslutökum hjá skattrannsóknarstjóra komi fram að stefnandi hafi unnið sem verktaki á árunum 2004-2008 og hafi að mestu leyti unnið við uppsetningu öryggiskerfa, öryggisgæslu og dyravörslu. Helstu aðilar sem hann hafi unnið fyrir hafi verið Öryggismiðstöðin ehf. og Vörðuholt ehf. Þá komi fram í skýrslutökunum að bókhaldsmál hafi verið í ólestri hjá stefnanda. Rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins hafi lokið þann 11. desember 2009 og stefnanda send skýrsla hans. Stefnandi hafi engar athugasemdir gert við efni skýrslunnar og niðurstöður. Í niðurstöðukafla skýrslunnar segi m.a. orðrétt: „Niðurstöður rannsóknar á bókhaldi og virðisaukaskattsskilum [A], rekstrarárin 2004 til og með 2008 eru: Ekki hafa verið staðin skil á virðisaukaskattsskýrslum vegna uppgjörstímabila rekstraráranna 2004 til og með 2008, bókhald hefur ekki verið fært, varðveislu bókhaldsgagna er ábótavant, skattskyld velta er vanframtalinn og útskattur er vanframtalin.“ Þá komi m.a. fram í tölulegum niðurstöðum skýrslunnar að stefnandi hafi árið 2007 vantalið skattskylda veltu að fjárhæð 37.739.257 kr. og árið 2008 að fjárhæð 52.173.817 kr.

                Í kjölfar rannsóknar skattrannsóknarstjóra hafi lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu gefið út ákæru á hendur stefnanda, eða þann 22. október 2010, fyrir „meiri háttar brot gegn skatta- og bókhaldslögum, framin í sjálfstæðri atvinnustarfsemi“. Stefnandi hafi játað brot sín skýlaust fyrir dómi. Í dómi héraðsdóms, sem ekki hafi verið áfrýjað til Hæstaréttar, var talið að hæfileg refsing stefnanda væri níu mánaða fangelsi en framkvæmd hennar frestað og ákveðið að hún skyldi falla niður að liðnum tveimur árum frá dómsuppsögu að telja, héldi stefnandi almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. Þá hafi stefnandi verið dæmdur til þess að greiða 91.650.162 kr. í sekt og kæmi sex mánaða fangelsi í stað sektarinnar greiddist hún ekki innan fjögurra vikna frá dómsbirtingu.

                Í ljósi þeirra opinberu gagna sem liggi fyrir frá skattrannsóknarstjóra, sem sýna án efa að tekjur stefnanda á árunum 2007-2008 hafi verið mjög háar, sé að mati stefnanda algjörlega ótækt að miða við lágmarkstekjur í skilningi 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna við uppgjör bóta vegna varanlegrar örorku.

                Enda þótt skattframtal sé algengasta gagnið til að sanna árstekjur sé af og frá að tjónþolar séu eingöngu bundnir af þeim til að sýna fram á árstekjur sínar. Slíka kröfu sé hvergi að finna í skaðabótalögum. Að mati stefnanda leiki ekki nokkur vafi á að því að skýra beri 1. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993 svo að átt sé við raunverulegar launatekjur en ekki framtaldar launatekjur. Ekki sé því unnt að einskorða sönnunarfærslu um launatekjur við skattframtöl eða staðgreiðsluyfirlit. Uppgjör skaðabóta til stefnanda sé einkaréttarlegt uppgjör milli hans og stefnda á tjóni hins fyrrnefnda. Sé það uppgjör með öllu óháð uppgjöri stefnanda á sköttum til ríkis og sveitarfélaga, sem reist er á reglum opinbers réttar. Stefnanda sé því frjálst að sanna launatekjur sínar með öðrum hætti en skattframtölum.

                Fyrir liggi skýrsla skattrannsóknarstjóra, sem hafi verið unnin eftir upplýsingum um greiðslur þriðja aðila til stefnanda, og verði því vart deilt um það að tekjuskráning skattrannsóknarstjóra sé rétt. Hún sé því afar sterkt og þýðingarmikið sönnunargagn um árstekjur stefnanda enda hafi skýrslan að geyma reikninga, sem stefnandi hafi gefið út í eigin nafni á hendur þriðja aðila, sem og niðurstöður um vantaldar tekjur. Skýrslan sýni svo ekki verður um villst að tekjur stefnanda á árunum 2007-2008 hafi verið langt umfram hámarkstekjur í skilningi 4. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna. Enda þótt tekjuár 2009 sýni lágar tekjur þá breyti það engu um meðaltal áranna þriggja þar sem tekjurnar eru í öllum tilvikum hærri en fyrrnefndar hámarkstekjur.

                Aðalkrafa stefnanda sé því á því reist að leggja eigi 4. mgr. 7. gr. til grundvallar útreikningi bóta með þessum hætti:

4.500.000 x (7175/3282) x 8,946 x 15%                                                             kr.  13.201.279

Innborgun stefnda þann 28. nóvember 2011 (örorka)                                       kr.    3.520.474

Innborgun stefnda þann 28. nóvember 2011 (vextir)                                        kr.       111.516

                                                                                                     Samtals:               kr.    9.569.289

 

                Útreikningurinn taki mið af matsgerð læknanna C og D, dags. 14. október 2011. Samkvæmt henni hafi stöðugleikadagur stefnanda verið 16. mars 2011 og varanleg örorka 15%. Útreikningurinn taki mið af 4. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og séu hámarkslaunin uppreiknuð í samræmi við lánskjaravísitölu á stöðugleikadegi (7175 stig). Stefnandi hafi verið 46 ára og 94 daga gamall á stöðugleikadegi og stuðull hans því 8,946.

                Krafist sé 4,5% vaxta skv. 16. gr. laga nr. 50/1993 frá 16. mars 2011 (stöðugleikadegi) til 18. nóvember 2011 (mánuði eftir dagsetningu kröfubréfs), en dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðsludags að frádregnum greiðslum stefnda þann 28. nóvember 2011.

                Vilji svo ólíklega til að ekki verði fallist á aðalkröfu stefnanda er þess til vara- og þrautavara krafist að beitt verði 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/10993 við mat á launum við útreikning bóta vegna varanlegrar örorku. Skilyrði greinarinnar séu augljóslega fyrir hendi enda voru aðstæður stefnanda á viðmiðunarárum mjög óvenjulegar og einsýnt að lágmarkstekjur, sem stefndi vill styðjast við, gefa með engu móti rétta mynd af framtíðartekjum stefnanda og því tekjutjóni sem stefnandi verður fyrir vegna slyssins í framtíðinni.

                Þá beri enn fremur að líta til þess að skilyrði 2. mgr. 7. gr. hafi verið rýmkuð verulega með gildistöku laga nr. 37/1999 en í fyrrnefndum athugasemdum með 6. gr. í frumvarpi til laganna segi enn fremur: „Þá er gerð tillaga um að 2. mgr. 7. gr. verði rýmkuð þannig að mati verði beitt í þeim tilvikum þegar viðmiðun við síðustu þrjú tekjuár fyrir slys þykir af einhverjum ástæðum ekki réttmæt.“ Stefnandi telji ekki nokkurn vafa leika á því að skilyrði 2. mgr. 7. gr. séu fyrir hendi í máli þessu enda er ákvæðinu einmitt ætlað að taka til tilvika sem þessara, þ.e. upplýsingar samkvæmt staðgreiðsluyfirlitum gefi ekki rétta mynd af rauntekjum tjónþola. Í þessu samhengi sé vísað til  skýrslu skattrannsóknarstjóra en hún staðfesti augljóslega að tekjur stefnanda voru í reynd mjög háar á viðmiðunarárunum enda þótt þær hafi ekki verið taldar fram.

                Varakrafa stefnanda sé reist á meðaltekjum iðnaðarmanna enda liggur fyrir að stefnandi sé menntaður iðnaðarmaður. Stefnandi sé lærður […] og hafi meistararéttindi í iðngrein sinni. Þá hafi hann líka unnið í iðn sinni á viðmiðunarárum fyrir slys. Í málinu liggi fyrir staðfesting Öryggismiðstöðvarinnar um launagreiðslur til stefnanda á árunum 2007 til 2009. Umræddar greiðslur voru til komnar vegna vinnu stefnanda við uppsetningu á öryggiskerfum sem stefnandi innti af hendi í ljósi sérfræðiþekkingar sinnar og menntunar sem iðnaðarmanns á þessu sviði.

                Í ljósi þessa blasi við að styðjast eigi við meðaltekjur iðnaðarmanna á árinu 2010, þ.e. slysári, samkvæmt gögnum frá Hagstofu Íslands, sbr. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga Sundurliðast varakrafa stefnanda með eftirfarandi hætti:

(462.000 x 12 x 1,08) x 8,946 x 15%                                                   kr.    8.034.653

Innborgun stefnda þann 28. nóvember 2011 (örorka)                       kr.    3.520.474

Innborgun stefnda þann 28. nóvember 2011 (vextir)                        kr.       111.516

                                                                                                     Samtals:               kr.    4.402.663

 

                Útreikningurinn taki mið af matsgerð læknanna C og D, dags. 14. október 2011. Samkvæmt henni sé stöðugleikadagur 16. mars 2011 og varanleg örorka 15%. Útreikningurinn taki mið af meðaltekjum iðnaðarmanna að viðbættu lífeyrisframlagi atvinnurekanda (8%). Stefnandi hafi verið 46 ára og 94 daga gamall á stöðugleikadegi og stuðull hans því 8,946.

                Krafist sé 4,5% vaxta skv. 16. gr. laga nr. 50/1993 frá 16. mars 2011 (stöðugleikadegi) til 18. nóvember 2011 (mánuði eftir dagsetningu kröfubréfs), en dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðsludags að frádregnum greiðslum stefnda þann 28. nóvember 2011.

                Þrautavarakrafa stefnanda er reist á meðaltekjum einstaklinga er starfa við gæslu-, eftirlits- og björgunarstörf á árinu 2010, samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar, að viðbættu lífeyrisframlagi atvinnurekanda. Í málinu liggi fyrir, eins og fram kemur í matsgerð, skýrslu skattrannsóknarstjóra og staðfestingu Öryggismiðstöðvarinnar ehf., að stefnandi hafi á viðmiðunarárunum unnið sem verktaki við að setja upp öryggiskerfi og við öryggisgæslu. Af þeim sökum sé nærtækast að styðjast við meðaltekjur þeirrar starfsstéttar við ákvörðun launa í skilningi 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna vegna varanlegrar örorku. Sundurliðist varakrafa stefnanda með eftirfarandi hætti

(426.000 x 12 x 1,08) x 8,946 x 15%                                                   kr.    7.408.576

Innborgun stefnda þann 28. nóvember 2011 (örorka)                       kr.    3.520.474

Innborgun stefnda þann 28. nóvember 2011 (vextir)                        kr.       111.516

                                                                                                     Samtals:               kr.    3.776.586

                Útreikningurinn taki mið af matsgerð læknanna C og D, dags. 14. október 2011. Samkvæmt henni hafi stöðugleikadagur stefnanda verið 16. mars 2011 og varanleg örorka 15%. Útreikningurinn taki mið af meðaltekjum einstaklinga er starfa við gæslu-, eftirlits- og björgunarstörf, sbr. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna, að viðbættu lífeyrisframlagi atvinnurekanda (8%). Stefnandi hafi verið 46 ára og 94 daga gamall á stöðugleikadegi og stuðull hans því 8,946.

                Krafist sé 4,5% vaxta skv. 16. gr. skaðabótalaganna frá 16. mars 2011 (stöðugleikadegi) til 18. nóvember 2011 (mánuði eftir dagsetningu kröfubréfs), en dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðsludags að frádregnum greiðslum stefnda þann 28. nóvember 2011.

                Kröfur stefnanda styðjast við skaðabótalög nr. 50/1993, með síðari breytingum, einkum 2. og 4. mgr. 7. gr.

                Um vaxtakröfuna vísar stefnandi sérstaklega til 16. gr. skaðabótalaga og um dráttarvaxtakröfuna til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

                Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr. þeirra. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili skv. lögum nr. 50/1988 og beri því nauðsyn til að tekið verði tillit til skattsins við ákvörðun málskostnaðar.

 Málsástæður og lagarök stefnda

                Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að stefnandi hafi þegar fengið fullnaðargreiðslu skaðabóta á grundvelli skaðabótalaganna nr. 50/1993. Ágreiningslaust sé að stefnandi hafi fengið fullar þjáningarbætur samkvæmt 3. gr. laganna og fyrir varanlegan miska samkvæmt 4. gr. þeirra. Þá sé ágreiningslaust að varanleg örorka samkvæmt 5. gr. skaðabótalaganna hafi verið metin 15%. Ágreiningurinn sé hins vegar um hvort bætur fyrir varanlega örorku skuli reiknaðar samkvæmt 1., 2., 3. eða 4. mgr. 7 gr. laganna.

                Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. skuli árslaun til ákvörðunar bóta fyrir varanlega örorku teljast vera meðalatvinnutekjur tjónþola að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag er tjón varð, leiðrétt samkvæmt launavísitölu til þess tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við. Í samræmi við þetta lagaákvæði bar stefnanda að sýna fram á launatekjur sínar árin 2007, 2008 og 2009. Framlögð gögn af hálfu stefnanda bera með sér að hann hafi stundað vinnu öll þessi ár en af skýrslu skattrannsóknarstjóra og dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 8. nóvember 2010 í máli nr. S-707/2010 megi ráða að hann hafi starfað við öryggisgæslu og dyravörslu á árunum 2007 og 2008. Einu upplýsingarnar sem liggi fyrir um launatekjur stefnanda sé að finna á sundurliðunarfærslum ríkiskattstjóra fyrir þau ár sem hér skipta máli, þ.e. 2007, 2008 og 2009. Færslur þessar sýni að stefnandi hafði engar launatekjur árin 2007 og 2008. Á árinu 2009 hafi stefnandi haft 1.200.000 kr. launatekjur. Til samanburðar megi sjá að tekjur hans á árinu 2010 hafi verið 1.010.000 kr. Við uppgjör tjóns stefnanda hafi engar aðrar staðfestar upplýsingar um launatekjur stefnanda legið fyrir vegna umræddra viðmiðunarára. Uppgjör skaðabóta hafi því farið fram á grundvelli 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga sem kveði á um að ekki skuli miða við lægri árslaun en tilgreind eru í töflu sem tekur mið af aldri tjónþola.

                Stefndi hafi því í öllu farið eftir ákvæðum skaðabótalaganna við uppgjör slysabóta stefnanda og eigi hann engar frekari kröfur á hendur stefnda vegna umrædds slyss. Því ber að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í dómsmáli þessu.

                Hér á eftir verður fjallað sérstaklega um kröfugerð stefnanda.

                Aðalkrafa stefnanda er krafa um skaðabætur að fjárhæð 13.201.279 kr. með 4,5% ársvöxtum frá 16. mars 2011 til 18. nóvember 2011 en frá þeim degi með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu til greiðsludags, allt að frádreginni greiðslu stefnda þann 28. nóvember 2001 að fjárhæð  3.631.999 kr. Stefnandi krefst þess að skaðabæturnar verði gerðar upp á grundvelli 4. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna sem kveður á um hámarksárslaun sem miða skuli við. Þessa kröfu styður stefnandi þeim rökum að hann hafi sætt rannsókn hjá skattrannsóknarstjóra, sem hafi komist að þeirri niðurstöðu að stefnandi hafi á árunum 2004 til 2008 stundað atvinnustarfsemi og hvorki staðið skil á virðisaukaskattskýrslum né staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var af starfsemi stefnanda þessi ár. Enn fremur að stefnandi hafi fyrir héraðsdómi játað þau brot sem hann var þar saksóttur fyrir. Með þessu telur stefnandi sig sýna fram á að hann hafi í raun haft tekjur umfram hámarksviðmið skaðabótalaganna. Þessari málsástæðu ber alfarið að hafna.

                Virðisaukaskattskyld velta stefnanda á viðmiðunarárunum segi ekkert til um launatekjur hans þau sömu ár. Dómur yfir stefnanda vegna meiri háttar brota á skatta- og bókhaldslögum geti ekki verið sönnunargagn um hvaða launatekjur eða hreinar tekjur af atvinnustarfsemi stefnandi hafði á umræddu tímabili. Til þess að finna mætti tekjur stefnanda af atvinnustarfsemi hans umrædd ár þyrfti allur bókfærður kostnaður og gjöld að liggja fyrir af starfseminni svo sjá megi hvort hún hafi verið rekin með hagnaði eða tapi. Af fyrirliggjandi gögnum megi ráða að stefnandi hafi engar tekjur haft viðmiðunarárin 2007 og 2008 og óverulegar tekjur árið 2009. Þá taki skýrsla skattrannsóknarstjóra og dómur héraðsdóms ekki til viðmiðunarársins 2009 og er vegna þess árs einungis hægt að byggja á upplýsingum frá Ríkisskattstjóra sem sýna að tekjur stefnanda á því ári hafi verið 1.200.000 kr. Í ljósi alls framangreinds ber að hafna aðalkröfu stefnanda.

                Varakrafa stefnanda er krafa um skaðabætur að fjárhæð 8.034.653 kr. með 4,5% ársvöxtum frá 16. mars 2011 til 18. nóvember 2011 en frá þeim degi með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu til greiðsludags, allt að frádreginni greiðslu stefnda þann 28. nóvember 2001 að fjárhæð 3.631.999 kr. Varakröfu sína byggir stefnandi á 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna þar sem kveðið er á um að árslaun skuli metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi og ætla megi að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola.

                Stefndi byggir á því að stefnandi þurfi að færa sönnur á að óvenjulegar aðstæður hafi verið fyrir hendi hjá honum síðustu þrjú almanaksár fyrir tjónsatvik og að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur hans.

                Tekjuleysi stefnanda verði með engu móti heimfært undir óvenjulegar aðstæður. Í skýringum með frumvarpi til breytinga á skaðabótalögum sbr. lög 37/1999 sé hugtakið óvenjulegar aðstæður skýrt sem t.d. breytingar á tekjum eða atvinnuhögum. Í riti sínu, Skaðbótaréttur, Reykjavík 2005, bls. 685-686, nefni höfundurinn Viðar Már Matthíasson, í dæmaskyni yfir óvenjulegar aðstæður að tjónþoli hafi tekið sér ólaunað leyfi hluta af þeim tíma, sem notaður er til viðmiðunar, t.d. annað foreldri, sem kýs að vera heima hjá ungu barni, eða tjónþoli sem eytt hefur tíma í að endurmennta sig, til þess að búa sig undir annað starf. Þá gæti komið til tímabundið atvinnuleysi, veikindi o.fl.

                Stefnandi byggir útreikning varakröfu sinnar á meðaltekjum iðnaðarmanna á árinu 2010, enda liggi fyrir að stefnandi sé menntaður iðnaðarmaður. Menntun stefnanda sem […] verði alls ekki borin saman við hefðbundið iðnnám. Iðnnám sé margra ára nám, bóklegt og verklegt. Það sé stundað í sérhæfðum skólum og nemendur útskrifist sem fagmenn hver á sínu sviði. Iðnnámið veiti síðan rétt til frekara náms á meistarastigi. Fyrir liggi að stefnandi hafi sótt […] í um þrjár vikur eða 120 kennslustundir á árinu 1991. Þessu námskeiði eða menntun á sviði […] verður ekki líkt við hefðbundið iðnnám og ber að hafna varakröfu stefnanda um að útreikningur skaðabótanna taki mið af meðaltekjum iðnaðarmanna. Þá beri að hafa í huga að stefnandi, sem var eigin atvinnurekandi, miði við laun launþega og eigi sá samanburður engan veginn við. Í ljósi alls framangreinds ber að hafna varakröfu stefnanda.

                Þrautavarakrafa stefnanda er krafa um skaðabætur að fjárhæð 7.408.576 kr. með 4,5% ársvöxtum frá 16. mars 2011 til 18. nóvember 2011 en frá þeim degi með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu til greiðsludags, allt að frádreginni greiðslu stefnda þann 28. nóvember 2001 að fjárhæð 3.631.999 kr. Þrautavarakröfu sína byggir stefnandi einnig á 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna þar sem kveðið er á um að árslaun skuli metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi og ætla megi að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola.

                Stefnandi þarf að færa sönnur á að óvenjulegar aðstæður hafi verið fyrir hendi hjá honum síðustu þrjú almanaksár fyrir tjónsatvik og að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur hans. Tekjuleysi stefnanda verði með engu móti heimfært undir óvenjulegar aðstæður í skilningi 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna.

                Stefnandi byggir útreikning þrautavarakröfu sinnar á meðaltekjum einstaklinga sem starfa við gæslu-, eftirlits- og björgunarstörf á árinu 2010. Það viðmið eigi engan veginn við í ljósi þess að stefnandi var eigin atvinnurekandi en ekki launþegi.

                Stefndi vísar máli sínu til stuðnings til skaðabótalaga nr. 50/1993, sem og meginreglna skaðabótaréttarins og almennra reglna kröfuréttar. Enn fremur vísar hann til umferðarlaga nr. 50/1987. Málskostnaðarkrafa stefndu byggist á 130. gr., sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Niðurstaða

                Í máli þessu er ekki ágreiningur um að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni og eigi af þeim sökum rétt á bótum úr lögboðinni ökumannstryggingu fjórhjólsins sem hann ók á slysdegi, en það var tryggt hjá stefnda. Þá liggur fyrir matsgerð læknanna C og D, dags. 14. október 2011, um afleiðingar slyssins. Að mati þeirra er varanleg örorka stefnda 15% og er ekki deilt um þá niðurstöðu.

                Ágreiningur aðila lýtur einvörðungu að því hvaða tekjuviðmið beri að nota við útreikninga á bótum stefnanda vegna varanlegrar örorku. Í 6. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 segir að slíkar bætur skuli meta til fjárhæðar. Við það mat skuli leggja til grundvallar örorkustig skv. 5. gr. laganna, aldursstuðul sem kveðið er á um í greininni og árslaun tjónþola samkvæmt 7. gr. laganna. Í 7. gr. er nánar kveðið á um það hvernig árslaunaviðmiðið skuli fundið. Meginreglan er sú að leggja skal til grundvallar meðalatvinnutekjur tjónþola þrjú síðustu almanaksárin áður en hann varð fyrir tjóni, að meðtöldu framlagi vinnuveitanda í lífeyrissjóð. Í máli þessu er tímabilið sem miða á við samkvæmt framangreindu tekjur áranna 2007-2009. Frá þessari reglu eru þrjár undantekningar sem koma fram í 2. til 4. mgr. greinarinnar. Við óvanalegar aðstæður og þegar ætla má að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola, er heimilt að meta árslaunin sérstaklega samkvæmt 2. mgr. 7. gr. Í 3. mgr. er kveðið á um að bætur skuli þó aldrei vera lægri en tiltekin fjárhæð sem er mismunandi eftir aldri tjónþola. Loks er í 4. gr. kveðið á um hámarkslaun sem miða skuli við. Allar fjárhæðir í greininni breytast í takt við verðlag. Tekjur skv. 1. mgr. eru uppreiknaðar miðað við breytingar á launavísitölu en fjárhæðir í 3. og 4. mgr. 7. gr. taka breytingum miðað við lánskjaravísitölu samkvæmt 15. sbr. 29. gr. laganna.

                Stefndi greiddi stefnanda bætur í nóvember 2011 og miðaði við lágmarkslaun sem tilgreind eru í 3. mgr. 7. gr. Byggir hann á því að ekki liggi fyrir upplýsingar um að stefnandi hafi haft hærri tekur á viðmiðunartímabilinu.

                Til grundvallar úrlausn málsins er sú meginregla sem fram kemur í 1. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993 að tekjuviðmið í útreikningi bóta skuli miða við raunverulegar tekjur tjónþola á tilteknu tímabili, þ.e. á síðustu þremur almanaksárum fyrir slysdag. Samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar hvílir sönnunarbyrðin á umfangi tjóns á tjónþola. Af framangreindu leiðir að það stendur stefnanda sem tjónþola nær en stefnda að afla gagna um raunverulegar tekjur sínar á viðmiðunarárum. Þau gögn um tekjur stefnanda sem hann leggur fram í málinu til stuðnings aðalkröfu sinni eru fyrst og fremst skýrsla Skattrannsóknarstjóra ríkisins frá 22. janúar 2010 vegna rannsóknar á bókhaldi og virðisaukaskattskilum stefnanda rekstrarárin 2004-2008. Niðurstaða skattrannsóknarstjóra er sú að stefnandi hafi ekki staðið skil á virðisaukaskattskýrslum á umræddum árum, hvorki fært bókhald né geymt bókhaldsgögn og látið undir höfuð leggjast að telja fram veltu eða standa skil á virðisaukaskatti. Nemur vantalin velta fyrir árið 2007 liðlega 37,7 milljónum króna og liðlega 52 milljónum fyrir árið 2008. Þá er vangoldinn virðisaukaskattur talinn nema tæplega 9.244.000 krónum fyrir árið 2007 og um 12.783.000 krónum fyrir árið 2008. Stefnandi játaði skýlaust brot sitt og hlaut refsidóm fyrir meiri háttar brot gegn ákvæðum virðisaukaskattslaga nr. 50/1988 sbr. 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

                Þótt skýrsla Skattrannsóknarstjóra varpi ljósi á veltu í atvinnustarfsemi stefnanda á ákveðnu árabili verða af henni ekki dregnar neinar áreiðanlegar ályktanir um launatekjur stefnanda á sama tímabili. Önnur gögn málsins, þ.á.m. yfirlýsing Öryggismiðstöðvarinnar um verktakagreiðslur til fyrirtækis stefnanda, veita heldur ekki nema litlar vísbendingar um það atriði. Í málinu eru lögð fram gögn frá skattstjóra um staðgreiðsluskil stefnanda árin 2007 til 2010. Af þeim gögnum má ráða að stefnandi hafi ekki staðið skil á staðgreiðslu skatts af launum áranna 2007 og 2008 en árið 2009 hafi hann skilað staðgreiðslu af launum sem nemi 1.200.000 kr. og árið 2010 af launum sem nemi liðlega einni milljón króna. Staðgreiðsluskil segja ekki annað en það hve mikilli staðgreiðslu skattaðili skilar af tekjum sínum. Í málinu hafa ekki verið lagðir fram launaseðlar, skattskýrslur, ákvarðanir skattstjóra um álagningu tekjuskatts á viðmiðunarárunum, eða önnur gögn sem varpað geta ljósi á raunverulegar heildartekjur stefnanda á umræddu tímabili. Svo sem að framan er rakið stendur það stefnanda nær að varpa ljósi á þetta atriði og verður hann að bera hallann af því að hafa ekki lagt fram fullnægjandi upplýsingar um tekjur sínar. Stefnandi hefur því ekki sýnt fram á að tekjur hans á viðmiðunartímabili hafi numið hærri fjárhæð en hámarksviðmið 4. mgr. 7. gr. kveður á um. Því er kröfu hans um að leggja viðmið 4. mgr. til grundvallar útreikningi bóta til hans hafnað.

                Varakrafa og þrautavarakrafa stefnanda byggja á því að aðstæður séu óvenjulegar og því sé heimilt, á grundvelli 2. mgr. 7. gr. að ákvarða tekjur hans eftir gögnum frá Hagstofu Íslands um meðaltekjur tiltekinna starfshópa. Svo sem að framan er rakið hefur stefnandi ekki lagt fram fullnægjandi gögn um tekjur á viðmiðunartímabili og ekkert hefur komið fram í málinu um að honum hafi ekki verið kleift að afla þeirra. Hins vegar er ekki ágreiningur um að stefnandi stundaði atvinnu og hafði laun á umræddu tímabili og ekkert óvanalegt við atvinnuþátttöku hans á þessum tíma. Undir þessum kringumstæðum kemur ekki til álita að beita 2. mgr. 7. gr. til að ákvarða laun tjónþola. Skorti á upplýsingum um laun, sem er á færi stefnanda að bæta úr, verður ekki jafnað til óvanalegra aðstæðna í skilningi greinarinnar. Þegar af þeirri ástæðu er því hafnað að notast megi með meðaltekjur tiltekinna starfstétta til grundvallar bótaútreikningi, svo sem varakrafa og þrautavarakrafa hans byggja á.

                Stefndi hefur við útreikning bóta stefnanda lagt til grundvallar ákvæði 3. mgr. 7. gr., þar sem kveðið er á um lágmarkslaun sem miða ber við. Svo sem að framan er rakið eru ekki skilyrði til að fallast á að miðað verði við aðrar aðferðir sem kveðið er á um í 7. gr. Stefnda er því rétt að reikna bætur stefnanda með þeim hætti sem hann hefur gert.

                Að virtu því sem að framan greinir verður stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 330.000 kr.

                Ingibjörg Þorsteinsdóttir kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð:

                Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., er sýkn af kröfum stefnanda, A. Stefnandi greiði stefnda 330.000 kr. í málskostnað.