Hæstiréttur íslands
Mál nr. 400/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Lögræði
|
|
Föstudaginn 9. september 2005. |
|
Nr. 400/2005. |
Y(Eva B. Helgadóttir hdl.) gegn Reykjavíkurborg (Gunnar Eydal hrl.) |
Kærumál. Lögræði.
Fallist var á kröfu um að Y yrði svipt sjálfræði í tvö ár þar sem sýnt þótti að hún gæti ekki ráðið sjálf persónulegum högum sínum vegna geðsjúkdóms.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. ágúst 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. september 2005. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. ágúst 2005 þar sem sóknaraðili var svipt sjálfræði í tvö ár. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að sjálfræðissvipting verði til sex mánaða. Þá krefst hún þóknunar til handa skipuðum verjanda sínum.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Evu B. Helgadóttur héraðsdómslögmanns, 60.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. ágúst 2005.
Með beiðni dagsettri 5. ágúst sl. hefur velferðarsvið Reykjavíkurborgar krafist þess að Y, [kt.], verði svipt sjálfræði með vísan til a liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Í þinghaldi 23. ágúst sl. var kröfu sóknaraðila breytt á þann veg að krafist var tímabundinnar sjálfræðissviptingar varnaraðila í tvö ár, sbr. 1. mgr. 5. gr. sömu laga.
Við rekstur málsins fyrir dóminum var varnaraðila skipaður verjandi úr hópi starfandi lögmanna. Af hálfu varnaraðila var tímabundnu sjálfræðissviptingarkröfunni mótmælt og þess krafist að henni yrði hafnað en til vara var þess krafist að sjálfræðissviptingunni yrði markaður skemmsti tími sem gert er ráð fyrir í 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga, þ.e. 6 mánuðir. Þá krafðist verjandi þóknunar sér til handa samkvæmt ákvæðum lögræðislaga.
Krafa sóknaraðila er byggð á því að varnaraðili hafi átt við alvarlega geðröskun að stríða og þarfnist læknismeðferðar. Á síðustu tuttugu árum hafi varnaraðili margoft verið lögð inn til meðferðar á geðdeildum og hafi hún verið svipt sjálfræði tímabundið í 6 mánuði á síðasta ári en nú síðast hafi hún verið nauðungarvistuð 19. júlí sl. eftir að hafa hætt forðasprautumeðferð og verið ögrandi við fólk.
Sóknaraðili vísar að öðru leyti til læknisvottorðs Kjartans J. Kjartanssonar, geðlæknis, sem liggur frammi í málinu. Þar kemur fram að varnaraðili eigi sér tuttugu ára sögu um geðklofasjúkdóm og hafi vegna hans verið lögð inn á geðdeild í tugi skipta. Frá ársbyrjun 2003 hafi varnaraðili verið lögð inn 12 sinnum og hafi á síðasta ári verið svipt sjálfræði í sex mánuði. Innlagnir hafi orðið tíðari á síðustu sex árum og á sama tíma hafi veikindi varnaraðila verið erfiðari og oft hafi verið um að ræða geðrofseinkenni, sjálfsvígshótanir og uppákomur tengdar skemmdarverkum eða ofbeldi. Í mars og apríl sl. hafi varnaraðili verið nauðungarvistuð og í framhaldi af því hefði hún átt að njóta aðstoðar vettvangsteymis en endurteknar tilraunir teymisins til að aðstoða hana hefðu reynst árangurslausar. Varnaraðili hefði aftur verið nauðungarvistuð á geðdeild 19. júlí sl. eftir að hafa hætt á forðasprautum og m.a. verið ögrandi við fólk. Kemur fram í vottorðinu að auk geðrofseinkenna með aðsóknarhugmyndum og mikilli tortryggni, þjáist varnaraðili einnig vegna tíðra reiðikasta og hafi hún einangrast mjög síðustu ár. Þá hafi meðferðarheldni varnaraðila verið léleg. Er það niðurstaða læknisins að afar ólíklegt sé að varnaraðili nái áframhaldandi bata eða sýni meðferðarheldni nema til komi lengri tímabundin sjálfræðissvipting og mælir með því að sviptingin vari í tvö ár.
Dómari málsins fékk Þórð Sigmundsson, geðlækni og yfirlækni, til að meta heilsu og hagi varnaraðila. Fram kemur í vottorði hans dags. 22. ágúst sl. að hann hafi af þessu tilefni kynnt sér sjúkraskrá varnaraðila, rætt við meðferðaraðila hennar og einnig tekið viðtal við varnaraðila og gert á henni geðskoðun þann 18. ágúst sl. Í vottorði yfirlæknisins kemur fram að varnaraðili sé haldin geðklofa og hafi sjúkdómurinn versnað á liðnum árum, geðrofseinkenni séu meira áberandi og þá hafi félagsleg staða hennar versnað. Sjúkdómsinnsæi varnaraðila sé takmarkað. Telur yfirlæknirinn að til þess að tryggja meðferðarheldni og fyrirbyggja endurteknar innlagnir á geðdeild þurfi varnaraðili að vera í stöðugu eftirliti hjá læknum og hjúkrunarfræðingum. Endurskoða þurfi lyfjameðferð til að ná betri tökum á sjúkdómnum og sé vettvangsteymi geðsviðs best til þess fallið að aðstoða varnaraðila. Meðferðaraðilar hafi hins vegar ekki treyst til þess að sinna henni nema hún sé svipt sjálfræði tímabundið svo hægt sé að byggja upp meðferðarsamband. Telur yfirlæknirinn að tímabundin sjálfræðissvipting í allt að tvö ár sé óhjákvæmileg og nauðsynleg.
Ljóst er af framlögðum gögnum að varnaraðili er haldin geðklofasjúkdómi. Varnaraðili hefur takmarkað sjúkdómsinnsæi en dómurinn telur sýnt að varnaraðili stríðir við alvarlegan geðsjúkdóm og er fallist á það með sóknaraðila að brýna nauðsyn beri til að varnaraðili njóti læknismeðferðar. Ljóst er af gögnum málsins að reynt hefur verið að aðstoða varnaraðila með ýmsum hætti undanfarin ár án þess að ásættanlegur árangur næðist. Veikindi varnaraðila og skortur á sjúkdómsinnsæi leiðir til þess að svipta verður hana sjálfræði með vísan til a liðar 4. gr. lögræðislaga. Af gögnum málsins sýnist fullreynt að marka sjálfræðissviptingunni skemmri tíma en tvö ár og verður krafa sóknaraðila því tekin til greina, sbr. heimild í 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga.
Kostnaður af máli þessu greiðist úr ríkissjóði eins og í úrskurðarorði segir.
Arnfríður Einarsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Y, [kt.], er svipt sjálfræði tímabundið í 2 ár.
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Evu Bryndísar Helgadóttur hdl., 90.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.