Hæstiréttur íslands

Mál nr. 328/2005


Lykilorð

  • Eignardómsmál
  • Fasteign
  • Leigusamningur
  • Erfðafesta
  • Hefð


Fimmtudaginn 9

 

Fimmtudaginn 9. febrúar 2006.

Nr. 328/2005.

Ræktunarmiðstöðin sf.

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.

 Þórey S. Þórðardóttir hdl.)

gegn

íslenska ríkinu og

(Skarphéðinn Þórisson hrl.

 Björn Jóhannesson hdl.)

Hveragerðisbæ

(Guðjón Ólafur Jónsson hrl.

 Eyvindur G. Gunnarsson hdl.)

 

Eignardómsmál. Fasteign. Leigusamningur. Erfðafesta. Hefð.

R krafðist þess að viðurkennt yrði að hún væri eigandi að tiltekinni landspildu í Hveragerði. Óumdeilt var að 3. nóvember 1928 keypti M land úr jörðinni V og að úr þeirri landareign fékk S tvær spildur 17. maí 1929, aðra að gjöf og hina leigða á erfðafestu til 75 ára. Með útgáfu skuldabréfs 19. maí 1931 setti M landið að veði og var talið að veðið hefði tekið til eignarréttar að þeirri spildu sem seld hafði verið S á leigu. Bankinn B fékk uppboðsafsal fyrir landinu 11. júlí 1938 og var talið að þar með hefði eignarréttur að þeirri spildu sem leigð hafði verið S færst í hendur hans. B afsalaði síðan landinu til Í, en milli Í og H var deila um hvort sá síðarnefndi hefði fengið afsal fyrir landinu frá Í á árinu 1967. Þar sem að land það sem krafa R um eignarrétt laut að var úr spildunni sem S hafði fengið leigða á erfðafestu til 75 ára og með vísan til 3. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905 var ekki talið að þeir, sem leiddu rétt sinn frá S, gætu borið því við gegn andmælum Í og H að umráð þeirra yfir landinu á gildistíma leigusamningsins hefði veitt þeim eignarrétt að því á grundvelli hefðar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. júlí 2005. Hann krefst þess að viðurkennt verði að hann sé eigandi landspildu í Hveragerði, sem sýnd er á uppdrætti sem birtur var með héraðsdómsstefnu, en hún er afmörkuð með hnitum á eftirfarandi hátt: Frá punkti A 393315.8 N 390295.3 í punkt A 393280.7 N 390317.0, þaðan í punkt A 393255.6 N 390275.0, þaðan í punkt A 393320.7 N 390234.4, þaðan í punkt A 393343.6 N 390246.6, þaðan í punkt A 393337.7 N 390256.9, þaðan í punkt A 393318.1 N 390271.5 og þaðan í punkt A 393323.9 N 390281.2, en þaðan í þann punkt, sem fyrst var getið. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Samkvæmt gögnum málsins var Mjólkurbú Ölfusinga stofnað 22. júní 1928. Félagið gerði samning 3. nóvember sama ár um kaup á landi úr jörðinni Vorsabæ, sem þá var í Ölfushreppi, en er nú innan marka stefnda Hveragerðisbæjar. Í samningnum var merkjum landsins lýst, en stærð þess hefur verið talin um 60 hektarar. Afsal fyrir landinu var ritað á sama skjal og var það afhent til þinglýsingar 25. september 1929.

Úr þessari landareign ráðstafaði félagið 17. maí 1929 tveimur samliggjandi spildum til Sigurðar Sigurðssonar, annars vegar með gjafabréfi, sem tók til 1,685 hektara syðst í henni og að austurmörkum hennar við Varmá, og hins vegar með samningi, þar sem 1,73 hektarar voru leigðir á erfðafestu til 75 ára, en sú spilda lá vestan við þá fyrrnefndu. Skjöl um þessar ráðstafanir voru afhent til þinglýsingar 24. ágúst 1929. Þessar spildur fengu í einu lagi heitið Fagrihvammur og var það land frá öndverðu sérgreint í þinglýsingabók. Við það bættust síðan tvær spildur austan við upphaflega landið með leigusamningum, sem Sigurður gerði við stefnda íslenska ríkið 2. nóvember 1932 og 14. júlí 1934, en þeir tóku til samtals 4,65 hektara lands austan við Varmá og voru afhentir til þinglýsingar 9. ágúst 1934. Þá keypti Sigurður að auki landspildu, sem var 5,8 hektarar að stærð, úr jörðinni Vorsabæ 8. september 1934. Afsal fyrir þessari spildu, sem lá að suðurmörkum upphaflegs lands Fagrahvamms og að Varmá í austri, var afhent til þinglýsingar 17. desember 1934.

Samkvæmt gögnum, sem áfrýjandi hefur lagt fyrir Hæstarétt, gaf Mjólkurbú Ölfusinga út skuldabréf til Viðlagasjóðs 19. maí 1931, þar sem sett var að veði „lóð mjólkurbúsins í Hveragerði í Ölveshreppi í Árnessýslu, að stærð um 60 ha, með aðalhúsi, íbúðar og geymsluhúsi, hálfri rafmagnsstöð, hveravirkjun og öllum mannvirkjum, sem þar eru nú, eða síðar kunna að verða gerð þar, og eru eign vor, með endurbótum og viðaukum, með nýrækt og girðingum, með vélum og öllum tækjum og með öllu, sem eign þessari fylgir og fylgja ber að engu undanskildu.“ Á grundvelli þessa skuldabréfs krafðist Búnaðarbanki Íslands 8. október 1937 nauðungaruppboðs á veðinu. Að undangenginni auglýsingu 25. apríl 1938, þar sem eigninni var lýst á sama hátt og í skuldabréfinu, var uppboð haldið 21. júní og 9. júlí sama ár. Búnaðarbanki Íslands varð þar hæstbjóðandi og krafðist útlagningar sem ófullnægður veðhafi. Bankinn fékk uppboðsafsal fyrir eigninni 11. júlí 1938 og var henni þar enn lýst á sama hátt og í skuldabréfinu. Sama dag seldi bankinn Kaupfélagi Árnesinga og Mjólkurbúi Flóamanna eignina, en afsal fyrir henni var gefið út 13. september 1938 og afhent til þinglýsingar 22. sama mánaðar. Á félagsfundi í Mjólkurbúi Ölfusinga 17. júlí 1938 mun hafa verið kosin skilanefnd til að slíta félaginu. Í málinu liggja ekki fyrir gögn um framkvæmd slitanna, en óumdeilt er að starfsemi félagsins hafi lokið á þessum tíma.

Kaupfélag Árnesinga og Mjólkurbú Flóamanna gáfu út afsal 15. september 1944 til stefnda íslenska ríkisins fyrir framangreindri eign, eins og félögin „eignuðust hana með afsali frá Búnaðarbanka Íslands dags. 13/9 ´38“. Á grundvelli laga nr. 23/1966 um heimild handa ríkisstjórninni til að selja Hveragerðishreppi hluta úr landi ríkisjarðarinnar Vorsabæjar og um eignarnámsheimild á lóðum og erfðafesturéttindum gaf stefndi íslenska ríkið út afsal 12. maí 1967 til Hveragerðishrepps fyrir öllu landi „jarðarinnar Vorsabæjar, sem liggur neðan (austan) Hamarsins og línu frá Litla-Hamri skemmstu leið í Varmá.“ Um nánari afmörkun landsins var vísað til uppdráttar, sem fylgdi afsalinu, en upphaflega var hann gerður sem fylgiskjal með frumvarpi til fyrrnefndra laga. Samkvæmt uppdrættinum var sá hluti Fagrahvamms, sem var vestan Varmár, innan merkja landsins, sem afsalað var. Á uppdrættinum var dregin lína, sem táknaði „mörk lóða í einkaeign“, utan um þá hluta Fagrahvamms, sem Sigurður Sigurðsson hafði eignast með áðurnefndu gjafabréfi 17. maí 1929 og afsali 8. september 1934, en sá hluti landsins, sem hann fékk á erfðafestu með samningnum 17. maí 1929, var á hinn bóginn ekki merktur á fyrrgreindan hátt á uppdrættinum.

Eftir andlát Sigurðar Sigurðssonar tóku tvö af börnum hans, Helga og Ingimar, Fagrahvamm að arfi, en Ingimar fékk afsal 11. október 1946 fyrir hlut Helgu og öðlaðist þar með einn réttindi yfir öllu landinu. Á sama ári mun Ingimar hafa ásamt öðrum stofnað Fagrahvamm hf. og afsalaði hann til félagsins 17. október 1946 tveimur hekturum úr landinu ásamt gróðurhúsum og öðrum mannvirkjum. Á árunum eftir þetta ráðstafaði Ingimar meira af landi úr Fagrahvammi. Meðal annars gaf hann út afsal 12. september 1958 fyrir nánar tilgreindri lóð, sem eftir gögnum málsins var úr þeim hluta Fagrahvamms, sem átti rætur að rekja til leigusamnings Sigurðar Sigurðssonar við Mjólkurbú Ölfusinga 17. maí 1929, en í afsalinu tiltók Ingimar að lóðin væri „erfðafestuland mitt“. Í yfirlýsingu 14. maí 1962, sem gerð var vegna breytinga á auðkennum sömu lóðar, var áréttað að Ingimar hafi með afsalinu selt „erfðafestuland sitt“. Sama dag gaf hann út afsal fyrir tveimur lóðum úr sama hluta Fagrahvamms, sem alls voru 5.868 m2 að stærð. Þar var tekið fram að hann væri „núverandi leiguréttarhafi samkvæmt erfðafestusamningi, sem faðir minn, Sigurður Sigurðsson búnaðarmálastjóri gerði við Mjólkurbú Flóamanna 17. maí 1929 (þingl. 19.7.1930) um spildu í Hveragerði, 1.73 ha. að stærð“, en með afsalinu væri hann að framselja að hluta rétt sinn samkvæmt samningnum. Í afsalinu var kveðið á um það að Ingimar myndi áfram greiða leigu vegna lóðanna „til eiganda landsins, sem nú er ríkissjóður.“ Einnig liggur fyrir bréf landbúnaðarráðuneytisins 14. maí 1962, þar sem þessi ráðstöfun Ingimars var samþykkt og veitt heimild til að reisa mannvirki á lóðunum, en tekið var fram að leigusali teldi sér ekki skylt að kaupa eignir leigutaka við lok leigutíma. Þá gaf Ingimar út afsal 30. nóvember 1968 til Hveragerðishrepps fyrir tveimur spildum úr Fagrahvammi, samtals 8.357,6 m2 að stærð, en þær voru að hluta úr landinu, sem Sigurður gerði leigusamning um 17. maí 1929, að hluta úr því, sem hann eignaðist með gjafabréfi sama dag, og að hluta úr landinu, sem hann keypti 8. september 1934. Í afsalinu var tekið fram að „hluti framan greinds lands er erfðafestuland, enda þótt það sé ekki tilgreint sérstaklega.“

Samkvæmt gögnum málsins lést Ingimar Sigurðsson 15. desember 1990. Eftir að einkaskiptum var lokið á dánarbúi hans gerðu erfingjar skiptayfirlýsingu 11. september 1991, sem tók til Fagrahvamms. Þar var kveðið á um að tilteknir hlutar landsins kæmu í hlut einstakra erfingja, en síðan sagt: „Allt annað land Fagrahvamms, Hveragerði, ásamt mannvirkjum þeim sem á því standa er og verður eign hlutafélagsins Garðyrkjustöðvarinnar í Fagrahvammi h.f.“ Yfirlýsingu þessari fylgdi uppdráttur, sem sýndi nánar hvernig landinu hafði verið skipt.

Með kaupsamningi 31. ágúst 2000 seldi Fagrihvammur ehf. áfrýjanda hluta af því landi Fagrahvamms, sem taldist vera í eigu félagsins samkvæmt því, sem fram kom í áðurgreindri skiptayfirlýsingu. Tók kaupsamningurinn nánar tiltekið til spildu, sem var 22.681 m2 að stærð og afmörkuð á sérstökum uppdrætti. Afsal var gefið út 20. desember 2000 fyrir spildu þessari og var það áritað um samþykki af jarðanefnd, svo og af stefnda Hveragerðisbæ um að fallið væri frá forkaupsrétti. Í framhaldi af þessu leitaði seljandinn eftir því við landbúnaðarráðuneytið 22. desember 2000 að staðfest yrðu þau landskipti á Fagrahvammi, sem fælust afsalinu. Að undangenginni gagnaöflun kynnti ráðuneytið seljandanum 15. júní 2001 að það teldi fram komið að hluti landsins, sem afsalið tók til, væri á erfðafestu samkvæmt leigusamningi Sigurðar Sigurðssonar við Mjólkurbú Ölfusinga 17. maí 1929, en miðað við það yrði ekki unnt að staðfesta landskiptin. Innan frests, sem ráðuneytið veitti Fagrahvammi ehf. til að tjá sig um þetta, tilkynntu félagið og áfrýjandi að framangreint erindi væri dregið til baka „í óbreyttri mynd“. Gerðu þeir síðan samkomulag 16. janúar 2003, sem fól meðal annars í sér að áfrýjandi myndi ekki bera fyrir sig vanheimild Fagrahvamms ehf. að þeim hluta hins selda lands, sem hér um ræðir. Með stefnu 23. júní 2003 höfðaði áfrýjandi síðan mál þetta sem eignardómsmál samkvæmt ákvæðum XVIII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála til viðurkenningar á eignarrétti sínum að hluta af landinu, sem Fagrihvammur ehf. afsalaði honum 20. desember 2000. Nánar tiltekið er þetta sá hluti hins selda lands, sem óumdeilt er í málinu að hafi upphaflega fallið undir leigusamninginn frá 17. maí 1929, en áfrýjandi ber því við að þeir, sem hann leiði rétt sinn frá, hafi unnið eignarrétt að spildunni fyrir hefð. Stefndu létu einir málið til sín taka og hafa krafist þess að hafnað verði viðurkenningu á eignarrétti áfrýjanda.

II.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um að fullnægt hafi verið skilyrðum fyrir því að mál þetta væri höfðað af áfrýjanda sem eignardómsmál.

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi reisti áfrýjandi kröfu sína einkum á því við munnlegan flutning málsins í héraði að veðréttur samkvæmt fyrrnefndu skuldabréfi, sem Mjólkurbú Ölfusinga gaf út til Viðlagasjóðs 19. maí 1931, hafi ekki náð til landspildunnar, sem Sigurður Sigurðsson fékk á erfðafestu til 75 ára með leigusamningi við félagið 17. maí 1929. Eignarrétti að þeirri spildu hafi því ekki verið ráðstafað við nauðungaruppboð á eignum félagsins í júlí 1938, sem fór fram á grundvelli skuldabréfsins, auk þess sem Búnaðarbanki Íslands hefði ekki getað fengið þennan hluta landsins lagðan sér út við uppboðið sem ófullnægður veðhafi. Vegna þessa og með því að Mjólkurbúi Ölfusinga hafi síðan verið slitið hafi Sigurður og þeir, sem leiddu rétt sinn frá honum, farið í fullan hefðartíma með umráð spildunnar, sem enginn var lengur eigandi að. Á þessu byggir áfrýjandi einnig fyrir Hæstarétti.

Óumdeilt er í málinu að landið, sem Mjólkurbú Ölfusinga keypti úr jörðinni Vorsabæ 3. nóvember 1928, hafi í heild verið um 60 hektarar að stærð. Úr þessu landi fékk Sigurður Sigurðsson tvær spildur 17. maí 1929, aðra að gjöf og hina á leigu. Áfrýjandi hefur meðal annars vísað til þess að skjöl vegna þessara réttinda Sigurðar hafi verið afhent til þinglýsingar fyrr en afsal eigenda Vorsabæjar til Mjólkurbús Ölfusinga, en af þeim sökum, svo og vegna þess hvernig háttað var færslum í þinglýsingabók þegar Fagrihvammur var þar gerður að sérstakri fasteign, megi líta svo á að sú eign hafi orðið til með því að henni hafi verið skipt út úr landi Vorsabæjar, en ekki út úr landinu, sem félagið keypti. Um þetta er til þess að líta að Sigurður leiddi rétt sinn yfir spildunum frá Mjólkurbúi Ölfusinga samkvæmt hljóðan gjafabréfsins og leigusamningsins frá 17. maí 1929, en átti engin lögskipti um það við eigendur Vorsabæjar. Getur engu breytt um þennan uppruna réttinda Sigurðar í hvaða röð einstökum skjölum var þinglýst eða hvernig upplýsingar voru skráðar um þau í þinglýsingabók. Verður því að leggja til grundvallar að spildan, sem Sigurður fékk á erfðafestu, hafi við gerð leigumálans verið hluti af landareign Mjólkurbús Ölfusinga. Í skuldabréfinu, sem félagið gaf út til Viðlagasjóðs 19. maí 1931, var fasteigninni, sem þar var sett að veði, lýst eins og áður greinir á þann hátt að hún væri um 60 hektarar að stærð og tæki veðrétturinn meðal annars til alls þess, sem „eign þessari fylgir og fylgja ber að engu undanskildu.“ Af þessu orðalagi verður ekki ályktað að veðinu hafi ekki verið ætlað að taka til eignarréttar að spildunni, sem seld hafði verið Sigurði á leigu úr þessu landi til ákveðins tíma, en hvorki þurfti atbeina leigutakans til að veðsetja hana né var þörf á að geta veðréttindanna í færslum varðandi Fagrahvamm í þinglýsingabók. Í uppboðsafsali fyrir eignum Mjólkurbús Ölfusinga, sem sýslumaðurinn í Árnessýslu gaf út sem héraðsdómari til Búnaðarbanka Íslands 11. júlí 1938, var hinu selda lýst á sama hátt og í framangreindu veðskuldabréfi. Samkvæmt framansögðu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður að staðfesta þá niðurstöðu hans að eignarréttur að landspildunni, sem Sigurður tók á leigu með samningnum 17. maí 1929, hafi færst í hendur Búnaðarbanka Íslands með uppboðsafsalinu, en í máli þessu getur ekki komið til endurskoðunar sú dómsathöfn uppboðshaldarans að leggja bankanum hið selda út sem ófullnægðum veðhafa.

Óumdeilt er að stefndi íslenska ríkið eignaðist með afsali 15. september 1944 sama land og Búnaðarbanki Íslands hafði fengið útlagt á uppboðinu. Telur þessi stefndi sig enn eiganda að þeim hluta landsins, sem leigusamningurinn var gerður um 17. maí 1929. Því andmælir stefndi Hveragerðisbær, sem heldur fram að hann hafi eignast þetta land úr hendi ríkisins með áðurnefndu afsali 12. maí 1967. Í máli þessu verður ekki leyst úr ágreiningi milli stefndu um hvor þeirra getur nú leitt frá Mjólkurbúi Ölfusinga eignarrétt að landinu, sem leigusamningurinn frá 17. maí 1929 var gerður um. Að virtum gögnum málsins og með því að aðrir en stefndu létu ekki eignardómsstefnu áfrýjanda til sín taka verður á hinn bóginn að líta svo á að þeir hafi hagsmuni af að varna því að krafa hans verði tekin til greina.

Landið, sem krafa áfrýjanda um eignarrétt lýtur að, er úr spildu, sem Sigurður Sigurðsson fékk leigða á erfðafestu til 75 ára frá fardögum 1929 að telja. Leigusamningi var þinglýst eins og áður greinir. Vegna þessa og með vísan til 3. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905 um hefð geta þeir, sem leitt hafa rétt sinn frá Sigurði, ekki borið því við að umráð þeirra yfir landinu á gildistíma leigusamningsins hafi veitt þeim eignarrétt að því á grundvelli hefðar. Samkvæmt þessu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.

Dæma verður áfrýjanda til að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Ræktunarmiðstöðin sf., greiði stefndu, íslenska ríkinu og Hveragerðisbæ, hvorum fyrir sig 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

                                                                                                        

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 22. apríl 2005.

Mál þetta var höfðað með eignardómsstefnu útgefinni 23. júní 2003 og birtri fyrir lögmönnum varnaraðila 27. júní og 9. júlí 2003 og í 101. tbl. 96. árgangs Lögbirtingarblaðs, sem kom út 23. júlí 2003. Málið var dómtekið 15. apríl sl. Stefnandi málsins er Ræktunarmiðstöðin sf., kt. 520989-1619, Heiðmörk 68, Hveragerði.

             Til varna hafa tekið ríkislögmaður f.h. íslenska ríkisins, kt. 540269-6459, Hverfisgötu 6, Reykjavík og Hveragerðisbær, kt. 650169-4849, Sunnumörk 2, Hveragerði.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru að viðurkennt verði að stefnandi sé eigandi alls þess lands sem lýst er á meðfylgjandi uppdrætti og birtur er með stefnu þessari. Landið er afmarkað af eftirfarandi hnitum:

Nafn                 A-hnit              N-hnit

L2                     393315,8          390295,3

L3                     393280,7          390317,0

L4                     393255,6          390275,0

L5                     393320,7          390234,4         

L6                     393319,9          390233,2

L7                     393343,6          390246,6

L8                     393337,7          390256,9

L9                     393318,1          390271,5

L10                   393323,9          390281,2

Einnig er krafist málskostnaðar.

             Endanlegar kröfur íslenska ríkisins eru aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi, en til vara að hafnað verði dómkröfum stefnanda um viðurkenningu á eignarrétti á því landi sem hann gerir tilkall til. Jafnframt er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati réttarins.

             Endanlegar dómkröfur Hveragerðisbæjar eru aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi, en til vara að synjað verði kröfu stefnanda um viðurkenningu þess að hann sé eigandi lands þess sem krafa hans lýtur að. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

             Ágreiningslaust er að land það sem hér er deilt um afmarkist af þeim hnitum sem lýst er í dómkröfu stefnanda.

             Frávísunarkrafa stefndu kom fram við munnlegan málflutning.

Eignardómsstefna.

Stefnandi byggir á því að 31. ágúst 2000 hafi verið gerður kaupsamningur milli stefnanda og Fagrahvamms ehf., kt. 521069-4319, Fagrahvammi, Hveragerði. Samkvæmt þessum kaupsamningi hafi stefnandi keypt 22.681 m² landspildu úr landi Fagrahvamms samkvæmt viðfestum uppdrætti, dags. 15. ágúst 2000. Um afmörkun landspildu þessarar vísar hann til uppdráttar (dskj. nr. 11). Í kaupsamningnum hafi falist að hluti af landi seljanda yrði lagður til stefnanda og þar með færu fram landskipti. Sala þessi hafi fallið undir ákvæði jarðalaga um forkaupsrétt og 12. september 2000 hafi stefnandi sent bréf til Hveragerðisbæjar og spurst fyrir um hvort bærinn myndi nýta sér forkaupsrétt. Hinn 20. desember 2000 hafi verið gefið út afsal og hafi bærinn fallið frá forkaupsrétti. Hinn 22. desember 2000 hafi seljandi óskað eftir staðfestingu landbúnaðarráðuneytisins á eignaskiptum á landi þessu. Hinn 2. janúar 2001 hafi Bændasamtök Íslands lýst því yfir að þau gerðu enga athugasemd við landskiptin, sbr. 12. gr. jarðalaga nr. 65/1976. En með bréfi 12. febrúar 2001 hafi landbúnaðarráðuneytið óskað eftir því við seljanda að hann léti í té gögn um eignarhald seljanda á landi því sem hann var að selja.

Hinn 30. maí 2001 hafi landbúnaðarráðuneytið ritað Verkfræðistofu Suðurlands ehf. bréf og hafi fylgt því m.a. eftirtalin gögn:

1.                    1.    Yfirlýsing, dagsett 17. maí 1929, þar sem Mjólkurbú Ölfusinga gefur Sigurði Sigurðssyni búnaðarmálastjóra landspildu sem liggur í suðausturhorni lands þess sem Mjólkurbúsfélagið átti við Varmá í Ölfusi. Afmörkun landspildunnar er nánar lýst í yfirlýsingunni (dskj. nr. 3).

2.                    2.     Yfirlýsing, dagsett 17. maí 1929, þar sem Mjólkurbú Ölfusinga leigir Sigurði Sigurðssyni á erfðafestu til 75 ára landspildu sem liggur vestur af landspildu þeirri sem gefin var Sigurði Sigurðssyni með framangreindri yfirlýsingu. Afmörkun landspildunnar er nánar lýst í þessari yfirlýsingu (dskj. nr. 4).

3.                    3.     Afsal til Sigurðar Sigurðssonar búnaðarmálastjóra, dagsett 8. september 1934, þar sem Jón Ögmundsson, bóndi í Vorsabæ, og Gísli Björnsson innheimtumaður í Reykjavík selja og afsala til Sigurðar Sigurðssonar, búnaðarmálastjóra landspildu, er afmörkun landspildunnar nánar lýst í afsalinu (dskj. nr. 5).

Verkfræðistofa Suðurlands hafi svarað bréfi landbúnaðarráðuneytisins 12. júní 2001 og hafi fylgt uppdráttur. Ráðuneytið hafi farið yfir þessi nýju gögn og síðan gert grein fyrir því að að svo komnu máli gæti það ekki staðfest landskiptin, því verið væri að selja úr leigulandi samkvæmt samningi frá 17. maí 1929, þingl. nr. 119-1929. Hinn 9. september 2001 árituðu stefnandi og seljandi yfirlýsingu um að þeir drægju erindið frá 22. desember 2000 til baka „í óbreyttri mynd.“ Hinn 18. febrúar 2002 hafi samt sem áður tekið gildi nýtt deiliskipulag, í samræmi við umræddan kaupsamning milli stefnanda og Fagrahvamms ehf.

Það hafi komið algjörlega flatt upp á stefnanda, þegar í ljós hafi komið að seljandi hefði ekki þinglýstar heimildir fyrir öllu því landi sem hann seldi. Hafi verið brugðið á það ráð að gera sérstakt samkomulag ef til þess kæmi að um vanheimild væri að ræða. Í því fólst að kaupandi bæri ekki fyrir sig vanheimildina, en tæki við þeim réttindum sem seljandi ætti til landskikans, hvort sem það væru efnislega fullkomin eignarréttindi eða aðeins erfðafesturéttindi. Stefnandi sé því réttur aðili að máli þessu sóknarmegin.

Stefnandi telur rétt að rekja hvernig seljandi, hlutafélagið Fagrihvammur h/f, sé kominn að umræddu landi.

Eina skriflega heimildin sem stefnandi hafi fundið sé skiptayfirlýsing frá 1991. Þar sé um að ræða skipti á dánarbúi Ingimars Sigurðssonar, fd. 2. mars 1910. Í skiptayfirlýsingu þessari komi fram að land, sem þar er merkt nr. 1 og 5 á viðfestum uppdrætti, sé og hafi verið eign hlutafélagsins. Muni félagið hafa nýtt land þetta án skýrrar eignarheimildar í a.m.k. meira en 20 ár, áður en það seldi stefnanda landið. Stefnanda hafi ekki tekist að fá frekari botn í hvernig Fagrihvammur h/f hafi orðið eigandi landspildunnar en það muni hafa komið flatt upp á forsvarsmenn Fagrahvamms h/f að vafi léki á grunneignarréttinum.

Stefnandi kveður hlutafélagið hafa verið stofnað árið 1946. Stofnendurnir hafi verið fimm, þau Guðrún Björnsdóttir, Ingimar Sigurðsson, Emilía Friðriksdóttir, Ragna Sigurðardóttir og Þráinn Sigurðsson.

Eftir því sem stefnandi komist næst sé saga þessa lands sú að það hafi upphaflega verið í eigu Mjólkurbús Ölfusinga. Hinn 17. maí 1929 hafi stjórn mjólkurbúsins leigt Sigurði Sigurðssyni búnaðarmálastjóra á erfðafestu til 75 ára, miklu stærra land eða 1,73 ha eða 17.300 m². Hafi það verið leigt til garð-, tún- og trjáræktar. Hinn 14. maí 1962 muni Ingimar Sigurðsson hafa talið sig leiguréttarhafa samkvæmt erfðafestusamningi sem faðir hans, Sigurður Sigurðsson búnaðarmálastjóri, hafði gert við “Mjólkurbú Flóamanna sic”. Hann hafi framselt erfðafesturétt sinn til Þráins Sigurðssonar og Guðrúnar Björnsdóttur fyrir landi sem nú standi á Reykjamörk 15 og Reykjamörk 17, Hveragerði. Í afsali þessu staðhæfi hann að ríkissjóður sé þáverandi grunneigandi. Landbúnaðarráðuneytið virðist hafa samþykkt gjörning þennan sem leigusali.

Enn á ný hafi verið afsalað til Hveragerðishrepps úr landinu á “svæði því, sem gatan Reykjamörk á að liggja um og þar fyrir vestan þannig að vesturmörk Fagrahvamms verða meðfram götunni Reykjamörk.” Í afsalinu, dagsettu 30. nóvember 1968, hafi verið tekið fram að hluti greinds lands sé erfðafestuland. Með afsali þessu hafi fylgt uppdráttur en engin tilraun gerð til að hafa samband við grunneigandann. Virðist hafa verið litið svo á að allar heimildir til ráðstöfunar væru komnar í hendur Ingimars og því í reynd grunneignarrétturinn. Afsali þessu hafi verið þinglýst og hafi Hveragerðisbær tekið við þessu. Það næsta sem hafi gerst, að því er vitað sé, sé að erfingjar Ingimars Sigurðssonar staðhæfi að „Garðyrkjustöðin í Fagrahvammi h/f sé og hafi verið eigandi þessa lands.“ Vísar stefnandi þar til framangreindrar skiptayfirlýsingar frá árinu 1991.

Stefnandi byggir kröfu sína um eignardóm vegna hinnar tilgreindu landspildu á því, að hann og áður Fagrihvammur ehf. (áður hf.) hafi haft óslitið eignarhald á umræddu landi samanlagt a.m.k. síðustu 20 árin. Þar að auki geti stefnandi til viðbótar byggt á undanfarandi eignarhaldi Ingimars Sigurðssonar, enda hafi hann, a.m.k. þegar hann gerði afsalið árið 1968, verið hættur að nýta landið í skjóli erfðafestusamningsins og hann dottinn upp fyrir án þess að um nokkurt óráðvandlegt athæfi hefði verið að ræða. Sé því byggt á því að stefnandi sé orðinn eigandi landsins fyrir óslitið hefðarhald sitt á grundvelli eignarhalds síns og þeirra sem á undan honum komu og vísist um þetta til 1. mgr. 2. gr. hefðarlaga nr. 46/1905. Ekki verði séð að 3. mgr. 2. gr. geti átt við um eignarhaldið a.m.k. síðastliðin 20 ár. Sjá og 3. gr. sömu laga. Telur stefnandi sig eiga fullkominn rétt til eignarinnar samkvæmt 6. gr. hefðarlaga og þurfi því að fá skilríki fyrir eignarrétti sínum. Hugsanlegur afnotaréttur einhvers í skjóli erfðafestusamningsins sé niður fallinn, sbr. 2. mgr. 6. gr.

Að því er varðar réttarfarsatriði tekur stefnandi fram að dómkrafan lúti að því að krefjast eignardóms yfir tilteknu afmörkuðu landi. Stefnandi staðhæfir að þetta land sé nákvæmlega það land sem hafi verið hefðað. Þar sem land þetta hafi ekki verið afmarkað með nákvæmni í þinglýsingabókum, vakni sú spurning hvort krafa í eignardómsmáli megi vera svo víð að hún raunverulega marki landamæri gagnvart aðliggjandi löndum. Rétt hafi þótt að birta stefnu þessa sérstaklega fyrir þinglýstum eigendum aðliggjandi landa og lóða. Ekki verði betur séð en að merkin séu í samræmi við það sem eigendur aðliggjandi landa hafi sjálfir byggt á og haldið fram.

Stefnandi telur ljóst vera af framansögðu að hann sé réttur eigandi umrædds lands en skorti formleg skilríki fyrir því. Ekkert liggi fyrir um hver hugsanlegur grunneigandi gæti hafa verið, en Mjólkurbú Ölfusinga hafi verið lagt niður í lok fjórða áratugarins. Samkvæmt ritinu „Flóabúið,“ sem sé saga Mjólkurbús Flóamanna í 60 ár eftir Sigurgrím Jónsson, Jón Guðmundsson og Pál Lýðsson, útgefið á Selfossi 1989, muni síðasti fundur Mjólkurbúsins hafa verið haldinn 17. júní 1938 og þá samþykkt svohljóðandi tillaga: „Fundurinn ályktar að leysa upp Mjólkurbú Ölfusinga að loknum skuldaskilum og felur mönnum er til þess verða kjörnir á fundinum að ráðstafa eignum þess og skuldum.“ Í þessu riti er staðhæft að fasteignir félagsins hafi verið keyptar af Mjólkurbúi Flóamanna og Kaupfélagi Árnesinga og seljandi hafi verið Búnaðarbankinn.

Ekki hafi fengist botn í það hvernig íslenska ríkið ætti mögulega að hafa orðið eigandi.

Með vísan til þess að enginn finnist sem sé bær til að veita hefðanda hina formlegu heimild landsins séu engin önnur ráð til en að fá útgefna eignardómsstefnu. Hins vegar muni hún verða birt sérstaklega þeim sem í stefnu þessari hafa verið nefndir til sögunnar sem mögulegir eigendur. Hinn 14. ágúst sl. hafi lögmaður stefnanda sent landbúnaðarráðuneytinu bréf og beðið um, á grundvelli upplýsingalaga, öll gögn sem til væru um þessa spildu og getið þess að sér hefði „verið tjáð að ríkið sé orðið eigandi að þessari spildu en undirrituðum er ekki ljóst með hvaða hætti það á að hafa gerst.“ Ráðuneytið hafi af þessu tilefni sent gögn en hvorki haldið fram eignarrétti sínum né sent nein skilríki sem gætu bent til hans, hvað þá gögn sem sýndu að ríkið hefði formlega heimild til að afsala landinu.

Komi fram aðili sem sé til þess bær að gefa út heimildarskjal, sé áskilinn réttur til þess að fá málið tekið til almennrar meðferðar.

Með vísan til alls þessa sé engin önnur leið fær en að höfða eignardómsmál sbr. 122. gr. eml. enda enginn bær aðili sem geti gefið út heimildarskjal. Nauðsynlegt sé að birta stefnu þessa í Lögbirtingablaði þar sem hún beinist að ótilteknum aðila, sbr. c-lið 1. mgr. 89. gr. eml.

Stefnandi vísar til jarðalaga nr. 65/1976, einkum 12. gr. Einnig vísar hann til hefðarlaga nr. 46/1905, einkum 2. gr., 3. gr. og 6. gr. Um varnarþing vísar stefnandi til 2. mgr. 122. gr. sbr. 2. mgr. 120. gr. eml.

Um formhlið málsins

Til varna í málinu tóku íslenska ríkið og Hveragerðisbær. Töluverð gagnaöflun fór fram eftir þingfestingu, einkum af hálfu ríkisins. Engin vitni voru leidd fyrir dóminn við aðalmeðferð málsins. Að lokinni málflutningsræðu lögmanns stefnanda kröfðust lögmenn beggja varnaraðila þess að málinu yrði vísað frá dómi, en það var engu að síður einnig flutt um efnisþáttinn.

Lögmenn varnaraðila rökstuddu frávísunarkröfu sína með því, að í málflutningsræðu sinni hefði lögmaður stefnanda sett fram nýja og flókna málsástæðu sem kollvarpaði grundvelli málsins og gæfi tilefni til frekari rannsóknar og gagnaöflunar. Varnaraðilar kváðu stefnanda byggja kröfu sína í stefnu á því að eignarhald á landinu hefði unnist fyrir hefð og væri hér því um nýja málsástæðu að ræða. Til vara kröfðust þeir þess að málsástæða þessi fengi ekki komist að.

Málsástæða þessi laut að því að uppboðsafsal dagsett 11. júlí 1938, sem ríkislögmaður hafði lagt fram og byggði fullyrðingu um eignarhald sitt á, hefði ekki tekið til þeirrar landspildu sem Mjólkurbú Ölfusinga hafði áður leigt Sigurði Sigurðssyni á erfðafestu vegna þess að eignir Mjólkurbús Ölfusinga hefðu verið lagðar Búnaðarbanka Íslands út sem ófullnægðum veðhafa. Vísaði stefnandi til ljósrits úr veðmálabók vegna eignarinnar Mjólkurbú Ölfusinga þar sem fram kemur að eignin sé veðsett til tryggingar láni frá Viðlagasjóði árið 1931, og benti á að þessarar veðsetningar væri ekki getið á blaði eignarinnar Fagrahvamms í veðmálabók. Taldi hann þetta sýna að veðið hefði ekki tekið til þeirrar landspildu sem leigð var Sigurði Sigurðssyni á erfðafestu árið 1929. Hélt hann því fram að ófullnægður veðhafi hefði því ekki getað fengið þá spildu útlagða sér. Réttur til útlagningar tæki einungis til þess sem veðsett væri og gögn málsins bæru ekki með sér að þessi spilda hafi verið veðsett. Uppboðsafsalið sannaði því ekki að eignarréttur á spildunni hefði færst yfir til Búnaðarbanka Íslands. Vísaði lögmaðurinn almennt til þinglýsingar- og uppboðslaga er þá voru í gildi og til þess að skráningar í veðmálabók hefðu verið gerðar af hliðsettum dómara.

             Lögmaður stefnanda mótmælti frávísunarkröfu varnaraðila og hélt því fram, að hér hefði ekki verið um nýja málsástæðu að ræða heldur hafi hann verið að bregðast við málsástæðum sem varnaraðilar hafi sett fram í greinargerðum sínum. Hann hafi í stefnu sett fram þá málsástæðu að eigandi þeirrar landspildu sem um er deilt væri „gufaður upp“ og að enginn virtist eiga tilkall til landsins samkvæmt þinglýstum heimildum eftir að Mjólkurbú Ölfusinga hefði verið lagt niður. Hann kvaðst hafa verið að rökstyðja, að ekki væri hald í þeirri málsástæðu stefndu, að þeir leiddu rétt af uppboðsafsalinu frá 9. júlí 1938, því með því afsali hafi þessum réttindum ekki verið ráðstafað.

Af þessu tilefni þótti rétt eftir dómtöku málsins að endurupptaka það í því skyni gefa aðilum kost á að fjalla frekar um það ágreiningsefni, hvort Búnaðarbanki Íslands hefði fengið spildu þá til eignar, sem Sigurður Sigurðsson tók á erfðaleigu til 75 ára 17. maí 1929, með uppboðsafsali fyrir eignum Mjólkurbús Ölfusinga 9. júlí árið 1938.

Fallast verður á það með stefnanda að líta megi á málflutning hans sem viðbrögð við vörnum sem fram höfðu komið í málinu, og sérstaklega því að íslenska ríkið hafi eignast umdeilt land í kjölfar greinds nauðungaruppboðs. Lögmaður stefnanda bjó þessari málsástæðu sinni flókna umgjörð við aðalmeðferð málsins, en það eitt og sér telst ekki ástæða til frávísunar. Þar sem varnaraðilum hefur verið gefinn kostur á að skoða greint atriði nánar og tjá sig um það í samræmi við 104. gr. laga nr. 91/1991, og þar sem frekar þykir vera um lögfræðilega túlkun að ræða en atriði sem sannað verður eða afsannað með frekari gagnaöflun, er ekki fallist á það með varnaraðilum að með þessari málsástæðu hafi stefnandi gjörbreytt grundvelli málsins þannig að vísa beri því frá dómi. Er kröfu þeirra um að málinu verði vísað frá dómi af þessari ástæðu hafnað.

             Ekki hefur verið talið heimilt að höfða eignardómsmál ef hugsanlegir rétthafar eru þekktir, sbr. til dæmis dóma hæstaréttar í málum nr. 206/2000, 372/2000 og 115/2003. Verður eignardómsmáli ekki vikið til venjulegrar meðferðar á síðari stigum vegna þeirra sérstöku áhrifa sem útgáfa eignardómsstefnu hefur. Eins og málatilbúnaði stefnanda er háttað, en stefna var sérstaklega birt fyrir varnaraðilum jafnframt því að vera birt í Lögbirtingarblaði, þykir rétt að fjalla ex officio um það hvort mál þetta uppfylli skilyrði til að vera rekið sem eignardómsmál.

             Fyrir útgáfu eignardómsstefnu hafði stefnandi sett sig í samband við báða varnaraðila þessa máls án þess að á því stigi kæmi fram skýr fullyrðing um eignarrétt yfir landinu af þeirra hálfu. Hvergerðisbær hafði fallið frá forkaupsrétti vegna kaupa stefnanda á spildu úr landi Fagrahvamms samkvæmt afsali útgefnu 20. desember 2000. Landbúnaðarráðuneytið óskaði eftir því að framvísað yrði gögnum um eignarhald seljanda á landinu, þegar leitað var eftir staðfestingu þess á eignaskiptunum. Með bréfi dagsettu 15. júní 2001 hafnaði ráðuneytið staðfestingunni. Í bréfinu segir að þau gögn sem borist hafi frá Garðyrkjustöðinni Fagrahvammi ehf. hafi ekki verið fullnægjandi til þess að hægt hefði verið að taka afstöðu til erindisins. Ráðuneytið hafi því sjálft aflað gagna og þá hafi komið í ljós að hluti þess lands sem Garðyrkjustöðin Fagrihvammur ehf. hafi selt stefnanda, samkvæmt afsali dagsettu 20. desember 2000, hafi verið úr landi sem Mjólkurbú Ölfusinga hafi leigt Sigurði Sigurðssyni á erfðafestu til 75 ára 17. maí 1929. Af þessari ástæðu gæti ráðuneytið ekki staðfest þau landskipti sem fram komi í afsalinu. Er gefinn kostur á að gera athugasemd áður en endanleg ákvörðun verði tekin. Var erindið þá dregið til baka. Ekki er sagt að ríkið telji til eignarréttar yfir greindu landi. Með bréfi dagsettu 14. ágúst 2002 til jarðadeildar landbúnaðarráðuneytisins óskaði lögmaður stefnanda eftir öllum gögnum sem til væru í ráðuneytinu um þessa landspildu. Síðan segir í bréfi lögmannsins: „M.a. hefur mér verið tjáð að ríkið sé orðið eigandi þessari (sic) spildu en undirrituðum er ekki ljóst með hvaða hætti það á að hafa gerst.“ Var erindi þetta ítrekað 2. september sama ár. Með bréfi dagsettu 13. sama mánaðar sendi ráðuneytið „þau gögn er varða Fagrahvamm, Hveragerði sem talin eru eiga við erindi yðar“. Ekki kemur fram hvaða gögn þetta eru.

Það er fyrst undir rekstri málsins, að því er virðist, sem saga eignarhaldsins skýrist og það verður ljóst að deilt er m.a. um það hvort íslenska ríkið hafi eignast þetta land árið 1938. Stefnandi heldur því einnig fram að réttur samkvæmt greindum erfðafestusamningi hafi „dottið upp fyrir“ þar sem ekkert liggi fyrir um hver hugsanlegur grunneigandi gæti hafa verið eftir að Mjólkurbú Ölfusinga var lagt niður í lok fjórða áratugarins. Þá hefur komið fram undir rekstri málsins að varnaraðilar deila einnig innbyrðis um eignarhald að þessu landi. Þegar allt þetta er virt þykir verða að fallast á að stefna hafi mátt máli þessu sem eignardómsmáli samkvæmt XVIII. kafla laga nr. 91/1991.

             Verður nú fjallað um efnisþátt málsins.

Málsatvikalýsing varnaraðila íslenska ríkisins

            Í greinargerð íslenska ríkisins er ítarlega rakin forsaga málsins, eignarheimildir, eignarafsöl og leigusamningar að hinni umdeildu landspildu. Ber þessari lýsingu fyllilega saman við framlögð skjöl. Þykir mikilvægt fyrir skýrleika sakir að taka þennan kafla hér upp að mestu:

A)  Kaup Mjólkurbús Ölfusinga á landi úr jörðinni Vorsabæ í Ölfushreppi (nú Hveragerði) með kaupsamningi og afsali dags. 3. nóvember 1928.

Forsaga þessa máls og málsatvik að öðru leyti eru þau að Mjólkurbú Ölfusinga var stofnað á árinu 1928 og var tilkynning um það birt í Lögbirtingablaðinu 13. desember 1928, sbr. meðfylgjandi ljósrit úr firmaskrá embættis sýslumannsins á Selfossi dags. 2. júní 2003. Hinn 3. nóvember 1928 var gerður kaupsamningur þar sem Mjólkurfélag Ölfusinga keypti land úr jörðinni Vorsabæ í Ölfushreppi af þeim Boga A.J. Þórðarsyni og Gísla Björnssyni og var afsal fyrir landspildunni gefið út sama dag. Afmörkun landspildunnar er lýst í áðurnefndum kaupsamningi með svofelldum hætti:

„Úr Baðstofuhver í Reykjalandi er dregin bein lína um vörðu er hlaðin hefir verið 100-eitt hundrað metra fyrir neðan núverandi fjárhús frá Vorsabæ sem standa undir hamrinum og heldur sú lína áfram í beinu framhaldi þar til hún sker þjóðveginn, verður markalínan, að þessu leyti, frá þeim stað er hún sker Varmá og að punkti á línunni er liggur 150-eitt hundrað og fimmtíu metra frá þjóðveginum, frá þeim punkti hugsast dregin lína í annan punkt er liggur í nýja Reykjafossveginn (Gríluveginn) 150-eitt hundrað og fimmtíu metra frá þjóðveginum.

Frá þeim punkti á Reykjafossveginum liggur merkjalínan að öðrum punkti á veginum er liggur 86-áttatíu og sex metra fjær þjóðveginum, úr þeim punkti er dregin lína vinkilrétt og er á lengd 120-eitt hundrað og tuttugu metrar, frá endapunkti þeirrar línu er dregin lína niður á þjóðveginn sem mælst hefur 211-tvö hundruð og ellefu metrar og liggur jafnhliða Reykjafossveginum. Þaðan ræður svo þjóðvegurinn niður að sýsluveginum upp að Reykjafossi, síðan ræður bein lína frá þeim punkti er sýsluvegurinn sker þjóðveginn og í snös sem liggur fyrir neðan hverinn við ána, gagnvart Reykjalæk þar sem hann fellur í Varmá og loks ræður Varmá þangað sem línan úr Baðstofuhver sker ána. Undanskilið í landspildunni er svokölluð sýslulóð með tilheyrandi vatnsrjettindum, sem ekki tilheyrir seljendum og sem þinglesið sölubrjef liggur fyrir um en vatnsrjettindi þau er hinu selda landi tilheyrir í Varmá--- fylgir með í sölunni.“

Kaupsamningnum ásamt afsalinu var þinglýst á manntalsþingi 25. september 1929, sbr. þinglnr. 127/1929. Landamerkjum jarðarinnar Vorsabæjar í Ölfushreppi í heild er hins vegar lýst í landamerkjalýsingu dags. 25. maí 1890, sbr. þinglnr. 287.

B)    Gjafaafsal Mjólkurbús Ölfusinga til Sigurðar Sigurðssonar, búnaðarmálastjóra dags. 17. maí 1929.

Með gjafaafsali dags. 17. maí 1929 gaf Mjólkurbú Ölfusinga Sigurði Sigurðssyni, þáverandi búnaðarmálastjóra landspildu úr áðurnefndu landi sem mjólkurbúið hafði keypt úr jörðinni Vorsabæ í Ölfushreppi með áðurnefndum kaupsamningi og afsali dags. 3. nóvember 1928, sbr. og meðfylgjandi ljósrit, þinglnr. 118/1929. Afmörkun þeirrar landspildu var lýst í gjafaafsalinu með svofelldum hætti:

„Vér undirritaðir stjórnarnefndarmenn Mjólkurbús Ölfusinga, lýsum því hérmeð yfir fyrir hönd mjólkurbúsfélagsins, að vér gefum hérmeð hr. búnaðarmálastjóra Sigurði Sigurðssyni, landspildu, er liggur í suðausturhorni lands þess, er mjólkurbúsfélagið á við Varmá í Ölfusi. Landspilda þessi er gefin Sig. Sigurðssyni til fullrar eignar og umráða með öllum gögnum og gæðum, þar með talinn jarðhiti og vatns- og veiðiréttindi í Varmá, fyrir spildunni. Landspilda þessi myndar óreglulegan trapea. Suðurhliðin er lína sem dregin er frá snösinni gagnvart Reykjalæk og stefnir að vegamótunum þar sem þjóð- og sýsluvegur mætast. Lína þessi er 170 metrar. Frá endapunkti þessarar línu er dregin vinkilrétt lína að norðurhlið spildunnar. Sú lína er 133 m. Hin breiddin er 140 m. Lengd norðurhliðarinnar er 70 m. Svo takmarkast merki spildunnar af Varmá. Annars sýnir viðfestur uppdráttur stærð og lögun spildunnar, sem alls er 1,685 ha. að flatarmáli.“

Sigurður Sigurðsson, búnaðarmálastjóri var afi Sigurðar Ingimarssonar en eiginkona þess síðarnefnda, Guðrún Jóhannesdóttir, 070638-3049 er fyrirsvarsmaður Garðyrkjustöðvarinnar Fagrahvamms ehf., seljanda samkvæmt kaupsamningi dags. 31. ágúst 2000 og afsali dags. 20. desember sama ár sem síðar verður gerð grein fyrir, sbr. útprentun úr fyrirtækjaskrá Hagstofu Íslands sem stefndi hefur lagt fram í málinu.

C)   Leigusamningur Mjólkurbús Ölfusinga við Sigurð Sigurðsson, búnaðarmálastjóra um land á erfðafestu til 75 ára dags. 17. maí 1929.

Með leigusamningi dags. sama dag, 17. maí 1929, leigði Mjólkurbú Ölfusinga Sigurði Sigurðssyni, búnaðarmálastjóra á erfðafestu til 75 ára jafnframt aðra landspildu úr þessu sama landi sem Mjólkurbú Ölfusinga hafði keypt úr jörðinni Vorsabæ í Ölfushreppi með áðurnefndum kaupsamningi og afsali dags. 3. nóvember 1928, sbr. meðfylgjandi ljósrit, þinglnr. 119/1929. Í erfðafestusamningnum dags. 17. maí 1929 kemur fram að hin leigða landspilda liggi að þeirri landspildu sem Mjólkurbú Ölfusinga gaf Sigurði Sigurðssyni með áðurnefndu gjafaafsali. Afmörkun og staðsetningu landspildunnar er ekki lýst í leigusamningnum með vísan til örnefna eða annarra auðkenna að öðru leyti en því að í erfðafestusamningnum segir m.a.:

„Hin leigða landspilda er 1,73 ha. að flatarmáli og liggur vestur af landsspildu þeirri, sem Sig. Sigurðsson hefir fengið til eignar. Annars sýnir viðfestur uppdráttur stærð og lögun landspildunnar.”

D)   Afsal Jóns Ögmundssonar og Gísla Björnssonar til Sigurðar Sigurðssonar, búnaðarmálastjóra, dags. 8. apríl 1934.

Með afsali dags. 8. september 1934 seldu tveir landeigendur, þeir Jón Ögmundsson, bóndi í Vorsabæ og Gísli Björnsson, innheimtumaður, til heimilis að Laugavegi 80 í Reykjavík Sigurði Sigurðssyni, búnaðarmálastjóra aðra landspildu sem liggur að því landi sem leigt var honum á erfðafestu með áðurnefndum samningi dags. 17. maí 1929. Stærð þessarar landspildu var 5,8 hektarar og er afmörkun hennar lýst í afsalinu með svofelldum hætti:

„Land þetta takmarkast að norðan af girðingu um Fagrahvamm í Ölvesi, frá Varmá 300 metra löng vestur, þaðan bein lína suður í framhaldi af vesturlandamerkjum Fagrahvamms, 200 metra löng, þaðan beinlína 280 metra löng, austur til Varmár, samhliða við suðurhlið spildunnar. Stærð þessa lands er alls 5,8 ha samkvæmt uppdrætti dagsettum 8. sept. 1934 undirritaður af Pálma Einarss.“

Uppdrættir þeir sem fylgdu áðurnefndum leigusamningi um erfðafestu dags. 17. maí 1929, gjafaafsalinu dags. sama dag og afsali dags. 8. september 1934 hafa ekki fundist hjá embætti sýslumannsins á Selfossi en ágreiningslaust er í máli þessu að þarna er um að ræða sama land og Fagrihvammur ehf. áformaði að selja Ræktunarmiðstöðinni sf. með kaupsamningi dags. 31. ágúst 2000 og afsali dags. 20. desember sama ár, þ.e. land samkvæmt kaupsamningnum og afsalinu er úr öllum þremur framangreindum landspildum eins og fram kemur hér síðar, m.a. landspildu samkvæmt leigusamningi um erfðafestu til 75 ára dags. 17. maí 1929, sbr. umfjöllun í lið C. Í ritinu Árnesingur IV, útg. af Sögufélagi Árnesinga 1996, á bls. 19 er sýndur uppdráttur af landi Mjólkurbús Ölfusinga í Hveragerði. Þar kemur m.a. fram, að reitur 8 á uppdrættinum er land það sem Mjólkurbú Ölfusinga gaf Sigurði Sigurðssyni, búnaðarmálastjóra með gjafaafsali dags. 17. maí 1929. Reitur 13 er land það sem Jón Ögmundsson og Gísli Björnsson seldu Sigurði Sigurðssyni, búnaðarmálastjóra með afsali dags. 8. september 1934 en ómerktur reitur sem liggur að báðum fyrrnefndu landspildunum er land það sem leigt var Sigurði Sigurðssyni, búnaðarmálastjóra með samningi dags. 17. maí 1929. Einnig vísast til uppdráttar Fjarhitunar ódags. sem fylgdi afsali Ingimars Sigurðssonar til Hveragerðishrepps, dags. 30. nóvember 1968, sem sýnir þetta sama land og vikið verður að hér síðar, sbr. liður N). Ennfremur er landið sýnt á uppdrætti sem merktur er Hveragerði, dags. í apríl 1965, undirritaður „Ól. Ásgeirsson.“ Þá er umrætt land sýnt á uppdrætti sem samþykktur var af Hveragerðisbæ 10. mars 1994 og staðfestur var af umhverfisráðuneyti 19. maí 1994.

E)    Stofnun garðyrkjubýlisins Fagrahvamms.

Sigurður Sigurðsson, búnaðarmálastjóri stofnaði garðyrkjubýli sem hann nefndi Fagrahvamm á áðurnefndum þremur landspildum sem hann fékk með gjafaafsali dags. 17. maí 1929, leigusamningi um erfðafestu til 75 ára dags. sama dag og afsali dags. 8. september 1934 án þess að gera nokkurn greinarmun á því að hluti landsins var eignarland hans en hluti þess leiguland á erfðafestu til 75 ára.

F)    Leigusamningar dómsmálaráðherra við Sigurð Sigurðsson, búnaðarmálastjóra dags. 2. nóvember 1932 og 14. júlí 1934.

Með samningi dags. 2. nóvember 1932 leigði dómsmálaráðherra f.h. íslenska ríkisins Sigurði Sigurðssyni, búnaðarmálastjóra 1,05 hektara lóð úr landi Reykja í Ölfusi á erfðafestu til 75 ára sem staðsett er norðan Varmár gegnt Fagrahvammi. Með samningi dags. 14. júlí 1934 leigði dómsmálaráðherra Sigurði Sigurðssyni einnig á erfðafestu til 75 ára aðra 3,6 hektara lóð úr landi Reykja í Ölfusi sem er einnig staðsett norðan Varmár gegnt Fagrahvammi og liggur að fyrrnefndu lóðinni. Báðum samningunum var þinglýst við embætti sýslumannsins á Selfossi en þær landspildur eru utan við það land sem krafist er eignardóms fyrir í máli þessu.

G)   Kaup ríkissjóðs Íslands á landi úr Vorsabæ í Ölfushreppi með afsali dags. 1. ágúst 1936.

Með afsali dags. 1. ágúst 1936 seldi Bogi A.J. Þórðarson ríkissjóði Íslands land úr jörðinni Vorsabæ í Ölfushreppi en um var að ræða þann hluta landsins sem liggur austan og suðaustan Varmár, ásamt öllum gögnum og gæðum. Það land er einnig utan við landspildu þá sem krafist er eignardóms fyrir í máli þessu.

H)   Nauðungarsala á eignum Mjólkurbús Ölfusinga í Hveragerði, sbr. uppboðsafsal dags. 11. júlí 1938 og kaup Kaupfélags Árnesinga og Mjólkurbús Flóamanna á sömu eignum, sbr. kaupsamningur dags. 11. júlí 1938 og afsal dags. 13. september 1938.

Á árinu 1938 voru allar eignir Mjólkurbús Ölfusinga í Hveragerði sem þá voru einnig í Ölfushreppi seldar á nauðungaruppboði og fékk Búnaðarbanki Íslands þær útlagðar sem ófullnægður veðhafi með uppboðsafsali dags. 11. júlí 1938, þ.m.t. land það sem Mjólkurbú Ölfusinga keypti úr Vorsabæ á árinu 1928 og land það sem mjólkurbúið hafði þá leigt Sigurði Sigurðssyni, búnaðarmálastjóra á erfðafestu til 75 ára með samningi dags. 17. maí 1929. Með kaupsamningi dags. 11. júlí 1938 og afsali dags. 13. september 1938 seldi Búnaðarbankinn Kaupfélagi Árnesinga og Mjólkurbúi Flóamanna áðurnefnt land í Hveragerði. Mjólkurbú Ölfusinga hætti starfsemi sinni sama ár en samkvæmt upplýsingum frá firmaskrá sýslumannsins á Selfossi var það aldrei tilkynnt til firmaskrárinnar. Þá er vakin athygli á að umrætt landsvæði sem þarna var selt er sagt vera í Hveragerði enda þótt Vorsabær hafi þá tilheyrt Ölfushreppi þar sem Hveragerði sem stendur á Vorsabæjarlandi var á þeim tíma hluti af Ölfushreppi og varð ekki til sem sjálfstætt sveitarfélag fyrr en árið 1946.

I)     Kaup ríkissjóðs Íslands á landi Mjólkurbús Ölfusinga í Hveragerði með afsali dags. 15. september 1944.

Með lögum nr. 42/1942 um heimild til að taka eignarnámi nokkur lönd á hverasvæði í Ölfusi var ríkisstjórninni heimilað að taka eignarnámi þann hluta jarðarinnar Vorsabæjar í Ölfushreppi sem ekki var eign ríkisins. Ekki kom til þess að eignarnám yrði framkvæmt á landinu en með afsali dags. 15. september 1944 seldu Kaupfélag Árnesinga og Mjólkurbú Flóamanna ríkissjóði Íslands það land úr Vorsabæ í Ölfusi sem áður hafði verið eign Mjólkurbús Ölfusinga og sem kaupfélagið og mjólkurbúið höfðu keypt af Búnaðarbanka Íslands með áðurnefndum kaupsamningi dags. 11. júlí 1938 og afsali dags. 13. september 1938, þ.m.t. það land sem um er deilt í máli þessu. Undanskilið sölunni voru hús Kaupfélags Árnesinga og Mjólkurbús Flóamanna á spildunni (áður hús Mjólkurbús Ölfusinga) og lóð umhverfis húsin. Um þessi viðskipti svo og áðurnefnd kaup Kaupfélags Árnesinga og Mjólkurbús Flóamanna á eignum Mjólkurbús Ölfusinga er m.a. fjallað í ritunum Flóabúið eftir Pál Lýðsson, Jón Guðmundsson og Steingrím Jónsson útg. 1989 bls. 93-94 og Baráttan við fjallið eftir Erling Brynjólfsson útg. 1990 bls. 112-113 og 193-194.

J)    Skipti á dánarbúi Sigurðar Sigurðssonar, búnaðarmálastjóra og eiginkonu hans á árunum 1939 og 1946.

Við skipti á dánarbúi Þóru Sigurðardóttur, eiginkonu Sigurðar Sigurðssonar, búnaðarmálastjóra varð sonur hans Ingimar Sigurðsson eigandi að ½ hluta Fagrahvamms í Ölfusi en ¼ hluti Fagrahvamms kom í hlut systur hans, Helgu Sigurðardóttur. Í skiptayfirlýsingu dags. 14. september 1939 kemur einungis fram að eignin Fagrihvammur í Hveragerði skiptist með þessum hætti milli erfingja án þess að gerð hafi verið grein fyrir hvernig umráðum yfir landi Fagrahvamms var háttað að öðru leyti og að hluti þess var eignarland en hluti þess leiguland á erfðafestu til 75 ára. Eins og áður hefur komið fram var býlið Fagrihvammur í Hveragerði stofnað á eignarlandi sem Sigurður Sigurðsson fékk með gjafaafsali dags. 17. maí 1929, leigulandi sem hann fékk á erfðafestu til 75 ára með samningi dags. sama dag og eignarlandi sem hann keypti með afsali dags. 8. september 1934, sbr. umfjöllun í lið E. Skiptayfirlýsingin var móttekin til þinglýsingar 3. nóvember 1939 og var þinglýst á manntalsþingi 14. júní 1940.

Sigurður Sigurðsson lést á árinu 1940 og fóru skipti á dánarbúi hans fram á árinu 1946 en með skiptagerð sem gerð var á skiptafundi 9. október 1946 fékk Ingimar Sigurðsson í sinn hlut ¼ hluta Fagrahvamms í Ölfusi án þess að þar væri tekið fram hvort landið væri eignarland eða tilheyrði því leigulandi sem Sigurður Sigurðsson fékk á erfðafestu til 75 ára með áðurnefndum samningi dags. 17. maí 1929. Ingimar Sigurðsson hafði áður fengið ½ hluta Fagrahvamms við skipti á dánarbúi móður sinnar, Þóru Sigurðardóttur eins og áður hefur komið fram, án þess að þar væri heldur sérstaklega tekið fram hvort það land Fagrahvamms var eignarland eða erfðafestuland. Með afsali dags. 11. október 1946 afsalaði Helga Sigurðardóttir til bróður síns, Ingimars Sigurðssonar ¼ hluta í jörðinni Fagrahvammi í Ölfusi sem kom í hennar hlut við arfskipti eftir móður hennar á árinu 1939, sbr. umfjöllun hér að framan, að undanskilinni 5550 m² lóð og 1/10 í hitaréttindum, en landspildan og hitaréttindin féllu til Ingimars Sigurðssonar og tveggja systkina hans, Rögnu Sigurðardóttur og Páls Sigurðssonar við andlát Helgu, sbr. yfirlýsing dags. 13. desember 1962. Við andlát Rögnu og Páls skiptu Ingimar Sigurðsson og ekkja Páls, Sigurbjörg H. Jóhannesdóttir þeirri landspildu og tilheyrandi réttindum á milli sín, sbr. yfirlýsing dags. 15. desember 1983.

K)   Afsal Ingimars Sigurðssonar á landi til Fagrahvamms hf. dags. 17. október 1946.

Með afsali dags. 17. október 1946 afsalaði Ingimar Sigurðsson til Garðyrkjustöðvarinnar Fagrahvamms hf. tveimur hekturum lands úr eigninni „Fagrahvammi“ í Hveragerði ásamt mannvirkjum en landspildurnar voru sýndar á meðfylgjandi uppdrætti.

L)    Afsal Ingimars Sigurðssonar á erfðafesturéttindum til Guðrúnar Björnsdóttur og Þráins Sigurðssonar dags. 12. september 1958 og 14. maí 1962.

Með afsali dags. 12. september 1958 afsalaði Ingimar Sigurðsson til Guðrúnar Björnsdóttur erfðafesturéttindum sínum að hluta þess lands sem leigt var Sigurði Sigurðssyni, búnaðarmálastjóra með áðurnefndum samningi dags. 17. maí 1929, þ.e. land tilheyrandi lóðinni Þórsmörk 11 í Hveragerði. Ekki verður séð að íslenska ríkið hafi samþykkt þetta framsal á erfðafesturéttindunum, en eins og áður segir hafði ríkissjóður Íslands eignast landið með afsali dags. 15. september 1944. Með afsali dags. sama dag afsalaði Garðyrkjustöðin Fagrihvammur hf. aftur til Ingimars Sigurðssonar 1,1 hektara lóð sem var hluti úr landi sem hann hafði áður afsalað til Garðyrkjustöðvarinnar Fagrahvamms hf., sbr. afsal dags. 17. október 1946.

Með afsali dags. 14. maí 1962 framseldi Ingimar Sigurðsson erfðafesturétt sinn að tveimur lóðum úr áðurnefndu landi til Þráins Sigurðssonar og Guðrúnar Björnsdóttur þar sem nú er Reykjamörk 15 og 17. Lóðirnar voru úr landspildu þeirri sem Mjólkurbú Ölfusinga hafði leigt Sigurði Sigurðssyni, búnaðarmálastjóra á erfðafestu með samningi dags. 17. maí 1929. Í afsalinu segir m.a.:

„Ég undirritaður, Ingimar Sigurðsson, Fagrahvammi, Hveragerði, núverandi leiguréttarhafi samkvæmt erfðafestusamningi, sem faðir minn Sigurður Sigurðsson, búnaðarmálastjóri gerði við Mjólkurbú Flóamanna (sic) 17. maí 1929 (þingl. 19.7.1930) um spildu í Hveragerði, 1,73 ha. að stærð, framsel hér með rétt minn samkvæmt samningnum að tveim spildum samtals 5868 fermetrar að stærð, sem hér segir:

1.            Ég framsel Þráni Sigurðssyni, Reykjamörk 17, Hveragerði, rétt minn til lóðarinnar nr. 17 við Reykjamörk, sem nú mælist 1224 fermetrar að stærð. Þar með er úr gildi fallinn lóðarleigusamningur okkar Þráins, dags. 15. október 1956.

2.            Ég framsel nefndum Þráni Sigurðssyni og frú Guðrúnu Björnsdóttur, Reykjamörk 15, Hveragerði, rétt minn til spildu, 4644, fermetrar að stærð, andspænis ofangreindri lóð við Reykjamörk.

Ársleigu vegna ofangreindra spildna 5868/17300 af kr. 42.00 eða kr. 14.25 greiði ég hér eftir sem hingað til til eiganda landsins, sem nú er ríkissjóður. ...“

Með bréfi dags. 14. maí 1962 samþykkti landbúnaðarráðuneytið að framangreind réttindi samkvæmt erfðafestusamningi dags. 17. maí 1929 sem voru upphaflega veitt Sigurði Sigurðssyni, búnaðarmálastjóra yrðu framseld til Guðrúnar Björnsdóttur og Þráins Sigurðssonar. Hér var að sjálfsögðu einungis um að ræða samþykki fyrir að Ingimar Sigurðsson gæti framselt sömu réttindi og hann hafði sjálfur samkvæmt erfðafestusamningnum dags. 17. maí 1929, þ.e. erfðafesturéttindi til 75 ára en ekki var gert ráð fyrir að hann væri að framselja eignarrétt að landinu.

M)   Sala ríkissjóðs Íslands á landi úr Vorsabæ í Hveragerði með afsali dags. 12. maí 1967.

Með lögum nr. 23/1966 um heimild ríkisstjórnarinnar til að selja Hveragerðishreppi hluta úr landi ríkisjarðarinnar Vorsabæjar í Ölfushreppi var ríkisstjórninni heimilað að selja Hveragerðishreppi allt það land Vorsabæjar sem liggur neðan (austan) Hamarsins og línu frá Litla-Hamri. Þá var Hveragerðisbæ með lögunum sérstaklega heimilað að taka eignarnámi lóðir í einkaeign og erfðafesturéttindi úr landi jarðarinnar Vorsabæjar innan áðurnefndra takmarka.

Með afsali dags. 12. maí 1967 og samkvæmt heimild í áðurnefndum lögum nr. 23/1966 seldi landbúnaðarráðherra f.h. íslenska ríkisins Hveragerðishreppi allt land jarðarinnar Vorsabæjar, sem liggur neðan (austan) hamarsins og línu frá Litla-Hamri skemmstu leið í Varmá. Í afsalinu segir m.a.: „Þeir einstaklingar og félög, sem fengið hafa lóðir og landspildur á leigu úr hinu selda landi halda rétti sínum samkvæmt leigusamningum.“

N)   Sala Ingimars Sigurðssonar á landi til Hveragerðishrepps með afsali dags. 30. nóvember 1968.

Hveragerðishreppur keypti einnig á sama tíma tvær landspildur af Ingimar Sigurðssyni með afsali dags. 30. nóvember 1968. Í afsalinu segir m.a.: „Stærri spildan liggur á svæði því, sem gatan Reykjamörk á að liggja um og þar fyrir vestan, þannig að vesturmörk Fagrahvamms verða meðfram götunni Reykjamörk. Minni spildan er norðan megin götunnar Heiðmarkar. Báðar spildurnar eru sýndar á viðfestum uppdrætti og eru að stærð 1603,1m2 við Heiðmörk og 6754,5m2 við Reykjamörk, samtals 8357,6m2.“ Á uppdrætti sem unninn var af Fjarhitun ódags. og fylgdi þessu afsali sést að stærri landspildan var að mestu úr því landi sem leigt var Sigurði Sigurðssyni, búnaðarmálastjóra með leigusamningi dags. 17. maí 1929 en einnig úr því landi sem Sigurði Sigurðssyni var gefið með gjafaafsali dags. sama dag, þ.e. lóðirnar standa þar sem í dag er Reykjamörk 15 og 17 og hluti af grunnskólalóð. Minni landspildan var hins vegar úr því landi sem Sigurður Sigurðsson keypti af Jóni Ögmundssyni og Gísla Björnssyni með afsali dags. 8. september 1934. Jafnframt sagði í afsalinu: „Tekið skal fram að hluti framangreinds lands er erfðafestuland þótt það sé ekki tilgreint sérstaklega.“ Af framangreindum ummælum sést að Ingimar Sigurðssyni var fullkunnugt um að réttindi hans til lands samkvæmt leigusamningi dags. 17. maí 1929 voru einungis erfðafesturéttindi en ekki eignarréttur. Jafnframt vekur athygli að Ingimar Sigurðsson var áður búinn að framselja þessi sömu erfðafesturéttindi sín að landi Reykjamerkur 15 og 17 til Þráins Sigurðssonar og Guðrúnar Björnsdóttur, sbr. áðurnefnt afsal dags. 14. maí 1962 og afla samþykkis landbúnaðarráðuneytisins fyrir framsali erfðafesturéttindanna, sbr. bréf landbúnaðarráðuneytisins um samþykki fyrir framsali erfðafesturéttindanna dags. sama dag. Íslenska ríkið átti hins vegar ekki aðild að þessari sölu landsins til Hveragerðishrepps og hefur aldrei samþykkt hana. Í tilefni af sölunni var einungis aflað samþykkis Búnaðarbanka Íslands fyrir að umræddar landspildur yrðu leystar úr veðböndum, sbr. meðfylgjandi ljósrit af veðbandslausn dags. 29. nóvember 1968. Á meðfylgjandi ljósriti af ársreikningi Hveragerðishrepps dags. 31. desember 1969 kemur fram að áðurnefnt land hefur verið eignfært í efnahagsreikningi hreppsins. Þá sést af þessum viðskiptum að ekki hefur verið gert ráð fyrir að umrædd landspilda sem leigð var Sigurði Sigurðssyni á erfðafestu með samningi dags. 17. maí 1929 fylgdi með í kaupunum þegar ríkissjóður Íslands seldi Hveragerðishreppi land Vorsabæjar neðan Hamars með afsali dags. 12. maí 1967 eins og gerð verður grein fyrir í III. kafla hér á eftir.

O)   Sala ríkissjóðs Íslands til Hveragerðishrepps á landi ofan við “Hamarinn”. með kaupsamningi og afsali dags. 9. september 1986 og makaskiptaafsal sömu aðila dags. 30. apríl 1996.

Með kaupsamningi dags. 9. september 1986 seldi íslenska ríkið Hveragerðishreppi allt land ríkisins innan marka Hveragerðishrepps. Í kaupsamningnum er landinu lýst svo að þar sé átt við 167 hektara land sem var upphaflega úr jörðinni Vorsabæ og liggi ofan (vestan) við “Hamarinn”. Þá er því lýst hvernig landið skiptist í fjögur svæði en af þeim lýsingum sem fram koma í kaupsamningnum og uppdrætti um legu og afmörkun landsins er ljóst að þar er ekki átt við það land sem leigt var Sigurði Sigurðssyni á erfðafestu með áðurnefndum leigusamningi dags. 17. maí 1929. Með makaskiptaafsali við Hveragerðisbæ dags. 30. apríl 1996 fékk ríkið 43,5 hektara af áðurnefndu landi til baka en eins og áður segir er ljóst að framangreind sala og makaskipti hafa ekki þýðingu fyrir niðurstöðu þessa máls.

P)    Skipti á dánarbúi Ingimars Sigurðssonar, sbr. skiptayfirlýsing dags. 11. september 1991.

Hinn 15. desember 1990 lést Ingimar Sigurðsson og var skiptum á dánarbúi hans lokið á árinu 1991. Með skiptayfirlýsingu dags. 11. september 1991 skiptu börn hans og aðrir afkomendur landi Fagrahvamms í Hveragerði án tillits til þess hvort einstakir hlutar landsins voru eignarland eða erfðafestuland. Í skiptayfirlýsingunni er gert ráð fyrir að það erfðafestuland sem krafist er eignardóms um í máli þessu og leigt var Sigurði Sigurðssyni, búnaðarmálastjóra á erfðafestu til 75 ára með samningi dags. 17. maí 1929, sbr. reitur nr. 5 á uppdrætti dags. 15. apríl 1991 er fylgdi skiptayfirlýsingunni komi í hlut Garðyrkjustöðvarinnar í Fagrahvammi hf. Nánar tiltekið var um að ræða það af landinu sem eftir var en Ingimar Sigurðsson hafði áður afsalað hluta af erfðafestulandinu til Hveragerðisbæjar með afsali dags. 30. nóvember 1968, sbr. umfjöllun í lið N) og þar áður hafði hann afsalað erfðafesturéttindum að sama landi að mestu til Þráins Sigurðssonar og Guðrúnar Björnsdóttur með samningi dags. 14. maí 1962 eins og áður hefur verið gerð grein fyrir. Erfðafesturéttindi erfast til erfingja á meðan erfðafestusamningur er í gildi. Ljóst er að ráðstöfun á erfðafestulandinu samkvæmt skiptagerðinni dags. 11. september 1991 og áðurnefndum afsalsgerningum gat aðeins falið í sér ráðstöfun á erfðafesturéttindum til erfingja Ingimars Sigurðssonar þar sem hann átti ekki önnur réttindi yfir landinu áður en hann lést. Garðyrkjustöðin í Fagrahvammi ehf. var ekki lögerfingi Ingimars Sigurðssonar samkvæmt 1. gr. erfðalaga nr. 8/1962 og verður ekki annað séð en að Sigurður Ingimarsson hafi framselt erfðafesturéttindi að landinu sem koma áttu í hans hlut til Garðyrkjustöðvarinnar Fagrahvamms ehf. en eiginkona Sigurðar Ingimarssonar, Guðrún Jóhannesdóttir, kt. 070638-3049 er fyrirsvarsmaður Garðyrkjustöðvarinnar Fagrahvamms ehf. Ekki var leitað eftir atbeina eða samþykki ríkisins fyrir að landinu yrði skipt með þeim hætti sem gert var með skiptayfirlýsingunni dags. 11. september 1991, hvorki sem eiganda né samkvæmt 3. mgr. 12. gr. jarðalaga nr. 65/1976 og heldur ekki fyrir sölunni á árinu 1968 en framsal erfðafesturéttindanna fór fram með samþykki íslenska ríkisins á árinu 1962, sbr. umfjöllun í lið L. Einnig fékk Garðyrkjustöðin Fagrihvammur ehf. samkvæmt skiptagerðinni dags. 11. september 1991 hluta þess lands sem Sigurður Sigurðsson, búnaðarmálastjóri hafði keypt af Jóni Ögmundssyni bónda í Vorsabæ og Gísla Björnssyni innheimtumanni með áðurnefndu afsali dags. 8. september 1934, sbr. umfjöllun í lið D sem merkt er nr. 1 á áðurnefndum uppdrætti dags. 15. apríl 1991 er fylgdi skiptayfirlýsingunni. Dætur Ingimars Sigurðssonar, þær Gerður Ingimarsdóttir, Þóra Ingimarsdóttir og Sigrún Ingimarsdóttir fengu hins vegar einnig landspildu úr því landi sem Sigurður Sigurðsson keypti af Jóni Ögmundssyni og Gísla Björnssyni með afsali dags. 8. september 1934 sem merkt er nr. 7 á áðurnefndum uppdrætti dags. 15. apríl 1991 sem fylgdi skiptayfirlýsingunni og seldu þær síðar þá landspildu til Hveragerðisbæjar með kaupsamningi og afsali dags. 31. október 1994 en það hefur ekki þýðingu fyrir niðurstöðu þessa máls.

Q)   Kaupsamningur milli Garðyrkjustöðvarinnar Fagrahvamms ehf. og Ræktunarmiðstöðvarinnar sf. dags. 31. ágúst 2000, sbr. og afsal dags. 20. desember 2000.

Með kaupsamningi dags. 31. ágúst 2000 og afsali dags. 20. desember sama ár áformaði Garðyrkjustöðin Fagrihvammur ehf. að selja Ræktunarmiðstöðinni sf. land úr Fagrahvammi í Hveragerði sem var 22.681m2 og var tilgreint á meðfylgjandi uppdrætti dags. 15. ágúst 2000. Hér skal þess getið að í þinglýsingabókum embættis sýslumannsins á Selfossi finnast engar eignarheimildir Garðyrkjustöðvarinnar Fagrahvamms ehf. að því landi sem áformað var að selja. Umrætt land sem selja átti á árinu 2000 féll til Garðyrkjustöðvarinnar Fagrahvamms ehf. eftir andlát Ingimars Sigurðssonar samkvæmt áðurnefndri skiptayfirlýsingu dags. 11. september 1991 sem hafði eingöngu að geyma yfirfærslu á erfðafesturéttindum að umræddu leigulandi til erfingja og liggja engin gögn fyrir um að það hafi síðar orðið eign Garðyrkjustöðvarinnar Fagrahvamms ehf. Hveragerðisbær samþykkti áformaða sölu samkvæmt áðurnefndum kaupsamningi dags. 31. ágúst 2000 og afsali dags. 20. desember sama ár og féll frá forkaupsrétti að landinu með áritun á afsalið, sbr. 6. gr. og 30. gr. jarðalaga nr. 65/1976 og jarðanefnd Árnessýslu samþykkti söluna einnig með áritun á afsalið. … .“ Síðan er lýst samskiptum landbúnaðarráðuneytisins og aðila framangreinds kaupsamnings og er sú lýsing í stórum dráttum í samræmi við það sem fram kemur í stefnu og þegar hefur verið rakið, að öðru leyti en því að lögð er á það áhersla að staðfesting ráðherra á skipulagi geti ekki breytt eignarheimildum. Með auglýsingu umhverfisráðuneytisins dags. 25. janúar 2002 sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. auglýsing nr. 103/2002 var aðalskipulagi Hveragerðis breytt, þ.m.t. því landssvæði sem áformað var að selja samkvæmt áðurnefndum kaupsamningi dagsettum 31. ágúst 2000 og afsali dagsettu 20. desember sama ár, en það breytir engu um eignarrétt að umræddu landi eða niðurstöðu þessa máls.

Málsástæður íslenska ríkisins

Íslenska ríkið heldur því fram að lýsing málsatvika, eins og hún hefur hér verið rakin, leiði það í ljós að stefnandi sé ekki eigandi þess lands sem hann hefur krafist að verða dæmdur eigandi að í eignardómsstefnu máls þessa. Einnig sé ljóst að viðsemjandi stefnanda, Garðyrkjustöðin Fagrihvammur ehf., hafi aldrei átt eignarrétt að umræddu landi og hafi því ekki getað selt það þegar kaupsamningur dagsettur 31. ágúst 2000 var gerður um landið, sbr. og afsal dagsett 20. desember sama ár. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi Sigurður Ingimarsson tekið við erfðafesturéttindum að umræddu landi samkvæmt leigusamningi dagsettum 17. maí 1929 sem upphaflega hafi verið gerður við afa hans, Sigurð Sigurðsson, búnaðarmálastjóra. Þann rétt virðist hann hafa framselt til Garðyrkjustöðvarinnar Fagrahvamms ehf. Sigurður Ingimarsson eða Garðyrkjustöðin Fagrihvammur ehf. hafi einungis umráð yfir landinu á grundvelli samnings um erfðafestu til 75 ára sem sé í eðli sínu einungis leigusamningur og veiti samningsaðila einungis tímabundin afnot af umræddu landi en gildistími samningsins renni út 17. maí 2004. Framsal Sigurðar Ingimarssonar á erfðafesturéttindum að landinu til Garðyrkjustöðvarinnar Fagrahvamms ehf., samkvæmt skiptagerð dagsettri 11. september 1991 breyti engu um eignarrétt að landinu. Sigurður Ingimarsson hafi ekki getað framselt Garðyrkjustöðinni Fagrahvammi ehf. meiri réttindi en hann átti sjálfur, þ.e. tilgreind erfðafesturéttindi. Eins og áður hafi komið fram sé eiginkona Sigurðar Ingimarssonar fyrirsvarsmaður Garðyrkjustöðvarinnar Fagrahvamms ehf. Stefnandi hafi ekki lagt fram eignarheimildir fyrir umræddu landi eða gögn sem styðji kröfur hans um að honum verði dæmdur eignarréttur að greindu leigulandi. Málatilbúnaður stefnanda í eignardómsmáli þessu sé einungis byggður á ágiskunum eða getgátum um að þar sem stefnandi hafi engin gögn fundið um eignarrétt annarra aðila að landinu hljóti stefnandi að hafa á einhverju óskilgreindu tímabili orðið eigandi landsins þrátt fyrir áðurnefndan leigusamning sem dagsettur er 17. maí 1929. Í eignardómsstefnunni sé því haldið fram að umræddur leigusamningur hljóti að hafa „dottið upp fyrir“ á einhverju óskilgreindu tímabili af ókunnum ástæðum. Þessi fullyrðing sé fráleit og stefnandi hljóti að vita betur. Sama eigi við um þær getgátur í stefnu, að erfðafestusamningurinn frá 17. maí 1929 hafi fallið niður við sölu á tveimur landspildum með afsali Ingimars Sigurðssonar til Hveragerðisbæjar dagsettu 30. nóvember 1968. Stefndi sem sé sannanlega eigandi landsins hafi enga vitneskju haft um þessi viðskipti, eins og áður hafi verið gerð grein fyrir. Auk þess komi fram í áðurnefndu afsali dagsettu 30. nóvember 1968 að hluti af umræddum landspildum sé á erfðafestulandi og hafi seljandi því ekki verið grandlaus um vanheimild sína. Afkomendur Ingimars Sigurðssonar eða viðsemjendur þeirra fái því ekki aukinn rétt á grundvelli fyrri viðskipta með umræddar landspildur. Þá hafi Ingimar Sigurðsson sex árum áður eða á árinu 1962 framselt erfðafesturéttindi að þessu sama landi til Þráins Sigurðssonar og Guðrúnar Björnsdóttur.

Varnaraðili telur sig eiganda að því landi sem stefnandi krefst eignarhalds á í dómsmáli þessu. Ríkissjóður Íslands hafi keypt umrætt land af Kaupfélagi Árnesinga og Mjólkurbúi Flóamanna með afsali dagsettu 15. september 1944 og hafi ekki selt það eftir þann tíma. Eftir að Hveragerðishreppur keypti af íslenska ríkinu land Vorsabæjar í Ölfushreppi neðan Hamars með afsali dagsettu 12. maí 1967 hafi hreppurinn einnig keypt eða talið sig kaupa af Ingimari Sigurðssyni með afsali dagsettu 30. nóvember 1968 áður tilgreindan hluta af því landi sem leigt var Sigurði Sigurðssyni, búnaðarmálastjóra með samningi dagsettum 17. maí 1929, þ.e. tvær landspildur, Reykjamörk 15 og 17 að viðbættri landspildu undir grunnskólalóð. Íslenska ríkið hafi enga vitneskju haft um þau viðskipti enda þótt það væri eigandi landsins og kunna þau að vera ógildanleg vegna vanheimildar seljanda. Hins vegar vilji stefndi benda á, að í afsali Ingimars Sigurðssonar til Hveragerðisbæjar segir m.a.: „Tekið skal fram að hluti framangreinds lands er erfðafestuland þótt það sé ekki tilgreint sérstaklega.“ Af framangreindum viðskiptum sjáist jafnframt að Hveragerðishreppur hafi ekki litið svo á að það erfðafestuland sem leigt var Sigurði Sigurðssyni, búnaðarmálastjóra með samningi dagsettum 17. maí 1929 hafi fylgt með í kaupunum þegar íslenska ríkið seldi Hveragerðishreppi land Vorsabæjar neðan Hamars með áðurnefndu afsali dagsettu 12. maí 1967 enda þótt það hafi ekki verið sérstaklega undanskilið í afsalinu, sbr. umfjöllun í lið M). Í þessu sambandi bendir ríkið einnig á að Hveragerðisbær hafi samþykkt sölu á umræddu erfðafestulandi samkvæmt áðurnefndum kaupsamningi dagsettum 31. ágúst 2000 milli Garðyrkjustöðvarinnar Fagrahvamms ehf. og Ræktunarmiðstöðvarinnar sf., sbr. og afsal dagsett 20. desember sama ár, og hafi fallið frá forkaupsrétti að landinu, sbr. 6. gr. og 30. gr. jarðalaga nr. 65/1976. Renni það enn frekari stoðum undir að Hveragerðisbær hafi ekki talið að þetta land fylgdi með í kaupunum samkvæmt áðurnefndu afsali dagsettu 12. maí 1967 og heldur ekki síðari samningum milli íslenska ríkisins og Hveragerðisbæjar. Þá hafi lög nr. 23/1966 verið þannig úr garði gerð að annars vegar hafi ríkissjóði verið heimilað að selja umrætt land og hins vegar hafi verið gert ráð fyrir heimild Hveragerðishrepps til að taka eignarnámi einstakar landspildur sem m.a. erfðafesturéttindi giltu um en samkvæmt því verði ekki séð að söluheimildin ein og sér hafi falið í sér heimild til að selja landspildur á umræddu landi sem háðar voru erfðafestusamningum.

Ennfremur byggir stefndi á því, að stefnandi, eða þeir sem hann leiðir rétt sinn til, hafi ekki getað öðlast eignarrétt að því landi sem leigt var á erfðafestu með samningi dagsettum 17. maí 1929 fyrir hefð samkvæmt ákvæðum laga nr. 46/1905 um hefð. Eins og áður sé komið fram hafi umráð stefnanda verið byggð á leigusamningi um erfðafestu til 75 ára sem gerður var 17. maí 1929 en gildistími samningsins renni samkvæmt því út 17. maí 2004. Í 3. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905 um hefð komi fram að ekki sé unnt að vinna hefð ef umráð grundvallast á samningi um veð, lán eða leigu. Leigutími samkvæmt áðurnefndum samningi um erfðafestu dagsettum 17. maí 1929 hafi ekki verið liðinn. Stefndi mótmælir því, að samningurinn hafi fallið úr gildi fyrir meira en 20 árum. Umráð stefnanda yfir umræddu landi, þá og einnig nú, séu alfarið byggð á samningi um erfðafestu til 75 ára. Af því leiði að stefnandi geti ekki hafa öðlast eignarrétt fyrir hefð að því landi sem erfðafestusamningurinn dagsettur 17. maí 1929 nái yfir og geti stefnandi því ekki byggt kröfur sínar á ákvæðum laga nr. 46/1905. Einnig sé það grundvallarskilyrði fyrir hefð að hefðandi hafi farið með eign eins og hann ætti að henni eignarrétt en það sé ekki unnt þegar umráð hans séu einungis byggð á samningi um afnotarétt eins og gildi um erfðafestusamning dagsettan 17. maí 1929. Ennfremur bendir stefndi á að það hafi fyrst verið í áðurnefndri skiptayfirlýsingu dagsettri 11. september 1991, fyrir rúmum 12 árum, sem gert hafi verið ráð fyrir að framangreint erfðafestuland kæmi í hlut Garðyrkjustöðvarinnar Fagrahvamms ehf., en samkvæmt því sé útilokað að Garðyrkjustöðin Fagrihvammur ehf. geti hafa öðlast eignarrétt að landinu fyrir hefð. Þá sé það grundvallarskilyrði hefðar að hefðandi hafi verið í góðri trú um rétt sinn, en þar sem stefnandi byggi umráðarétt sinn á þinglýstum samningi um afnotarétt, erfðafestu til 75 ára sem renni út 17. maí 2004, sé augljóst að ekki hafi verið um það að ræða í máli þessu.

Stefndi ítrekar að hann sé réttur eigandi að umræddu landi og að eignarréttur ríkisins sé byggður á afsali fyrir umræddu landi frá Kaupfélagi Árnesinga og Mjólkurbúi Flóamanna dagsettu 15. september 1944. Staðhæfingar í stefnu þess efnis að sá eignarréttur hljóti að vera fallinn niður séu fráleitar og geti ekki orðið grundvöllur að niðurstöðu í máli þessu.

Í bréfi Sigurðar Ingimarssonar f.h. Ræktunarmiðstöðvarinnar sf. til landbúnaðarráðuneytisins dagsettu 22. desember 2000 hafi verið óskað eftir að ráðuneytið staðfesti landskipti samkvæmt 3. mgr. 12. gr. jarðalaga nr. 65/1976 með síðari breytingum samkvæmt kaupsamningi dagsettum 31. ágúst og afsali dagsettu 20. desember 2000. Land það sem áformað var að selja samkvæmt áðurnefndum kaupsamningi og afsali hafi náð yfir hluta þess lands sem leigt var Sigurði Sigurðssyni, búnaðarmálastjóra, á erfðafestu með yfirlýsingu dagsettri 17. maí 1929, sbr. þinglnr. 119/1929. Kröfugerð stefnanda í máli þessu miðist hins vegar einnig við annan hluta af því landi sem leigt var Sigurði Sigurðssyni, búnaðarmálastjóra, með áðurnefndri yfirlýsingu. Teikning sú sem fylgi eignardómsstefnunni sýni því ekki aðeins það land sem áformað var að selja með áðurnefndum kaupsamningi dagsettum 31. ágúst og afsali dagsettu 20. desember 2000 heldur einnig viðbótarlandspildu sem nái yfir hluta lands sem á fyrirliggjandi uppdrætti sé merkt sem Reykjamörk 22, Hveragerði. Um þessa viðbótarlandspildu sem nái yfir hluta af lóðinni Reykjamörk 22 í Hveragerði gildi öll sömu sjónarmið af hálfu ráðuneytisins og gildi um áðurnefnt land sem áformað hafi verið að selja en þessi hluti spildunnar sé einnig hluti af því landi sem leigt hafi verið Sigurði Sigurðssyni, búnaðarmálastjóra með leigusamningi dagsettum 17. maí 1929.

Með vísan til framanritaðs sé ljóst að íslenska ríkið sé eigandi þess lands sem Ræktunarmiðstöðin sf. hafi krafist eignardóms fyrir í málinu. Í samræmi við það sé öllum kröfum stefnanda um viðurkenningu eignarréttar yfir tilgreindu landi í máli þessu hafnað.

Málsástæður Hveragerðisbæjar

Hveragerðisbær krefst þess að stefnanda verði synjað um eignardóm fyrir því landi sem aðalkrafa hans lýtur að og merkt er B í uppdrætti með stefnu. Telur Hveragerðisbær sig vera réttan eiganda að umræddu landi. Er lýsing hans á málavöxtum í samræmi við það sem þegar hefur verið rakið.

Af hálfu Hveragerðisbæjar er því haldið fram að bærinn sé réttur og löglegur eigandi þess lands sem um ræðir. Land þetta sé samkvæmt uppdrætti sem stefnandi hefur lagt fram með stefnu hluti af landspildu þeirri sem Sigurður Sigurðsson tók á leigu á erfðafestu til 75 ára til tún-, garð- og trjáræktar hinn 17. maí 1929 og merkt er nr. 2 á uppdrætti á dskj. 20, og nr. 10 á dskj. 52 og 72. Leigusali hafi verið Mjólkurbú Ölfusinga sem eignast hafði landið hinn 3. nóvember 1928.

Búnaðarbanki Íslands hafi eignast landspilduna þegar hún var lögð bankanum út á nauðungaruppboði hinn 9. júlí 1938. Bankinn hafi selt landspilduna Kaupfélagi Árnesinga og Mjólkurbúi Flóamanna hinn 11. júlí 1938. Ríkissjóður hafi síðan eignast spilduna hinn 15. september 1944. Umrætt land hafi svo verið selt Hveragerðishreppi hinn 12. maí 1967 að fenginni heimild í lögum nr. 23/1966. Sé það land sem um sé deilt í þessu máli hluti af því landsvæði. Í afsalsbréfi til Hveragerðishrepps hafi verið tilgreint, að þeir sem fengið hefðu lóðir og landspildur á leigu úr hinu selda landi skyldu halda rétti sínum samkvæmt samningum þar um.

Að mati Hveragerðisbæjar sé enginn vafi á að umrætt erfðafestuland hafi verið hluti af því landsvæði sem stefndi hafi keypt af íslenska ríkinu hinn 12. maí 1967. Vísist þar um til uppdráttar sem fylgt hafi afsalsbréfi landbúnaðarráðherra. Á uppdrættinum komi fram að hann sé gerður sem fylgiskjal með frumvarpi til laga um heimild handa ríkisstjórninni til þess að selja stefnda þann hluta lands ríkisjarðarinnar sem auðkenndur sé á uppdrættinum. Þar sé afmarkað allt land Vorsabæjar neðan eða austan Hamarins og línu frá Litla-Hamri skemmstu leið í Varmá. Engar lóðir eða landspildur séu þar undanþegnar fremur en í afsalinu sjálfu. Þá hafi stefndi Hveragerðisbær með kaupsamningi, dagsettum 9. september 1986, keypt allt land ríkisins innan marka sveitarfélagsins. Sé það allt ofan eða vestan við Hamarinn. Þar sé hvergi getið um landspildur neðan og austan við Hamarinn og því sé ljóst að ríkið hafi ekki talið sig eiga þar neitt land.

Stefndi Hveragerðisbær hafi ekki selt, afsalað eða ráðstafað öðrum til eignar því landsvæði sem hann keypti af íslenska ríkinu hinn 12. maí 1967, þ.m.t. margumrætt erfðafestuland, hvorki í heild né hluta. Fullyrðingum stefnanda og stefnda ríkisins um annað sé vísað á bug. Þvert á móti hafi Hveragerðisbær keypt upp þau réttindi sem aðrir hafi átt, m.a. af Ingimari Sigurðssyni og erfingjum hans. Með afsali, dagsettu 30. nóvember 1968, hafi Ingimar Sigurðsson afsalað tveimur landspildum úr landi Fagrahvamms í Hveragerðishreppi til Hveragerðishrepps. Hafi önnur spildan verið 1603,1m² við Heiðmörk og hin 6.754,5m² við Reykjamörk. Samkvæmt viðfestum uppdrætti sé stærri spildan hluti af því landi sem Sigurður Sigurðsson hafi tekið á leigu. Tekið sé fram í afsali að hluti landsins sé erfðafestuland. Deginum áður hafi landspildurnar verið leystar úr veðböndum.

Samkvæmt framansögðu sé Hveragerðisbær ótvírætt réttur og löglegur eigandi þess lands sem stefnandi krefjist nú að viðurkenndur verði eignarréttur sinn að. Verði því að synja um eignardóm í máli þessu.

Stefndi kveður Ingimar Sigurðsson aldrei hafa orðið eiganda umþrætts lands. Svo sem fyrr greini sé land það, sem stefnandi krefjist viðurkenningar á eignarrétti sínum að, hluti af landspildu þeirri sem leigð hafi verið Sigurði Sigurðssyni á erfðafestu til 75 ára 17. maí 1929. Engin gögn hafi verið lögð fram af hálfu stefnanda sem bendi til þess að Ingimar Sigurðsson hafi orðið eigandi að landi þessu. Af gögnum málsins verði ekki annað ráðið en að honum hafi þvert á móti verið ljóst að um erfðafestuland væri að ræða sem leigt hafði verið föður hans og að hann hafi síðar tekið við réttindum samkvæmt leigusamningnum.

Hinn 12. september 1958 hafi Ingimar ráðstafað hluta af erfðafestulandi sínu til Guðrúnar Björnsdóttur, og sé ítrekað í yfirlýsingu, dagsettri 14. maí 1962, að um sé að ræða erfðafestuland. Í afsali, dagsettu sama dag, tiltaki Ingimar að hann sé leiguréttarhafi samkvæmt erfðafestusamningi frá 17. maí 1929 og framselji rétt sinn samkvæmt þeim samningi að tveimur spildum, annars vegar til Þráins Sigurðssonar og hins vegar til Þráins Sigurðssonar og Guðrúnar Björnsdóttur. Kveðst hann sjálfur munu greiða „hér eftir sem hingað til“ eiganda landsins, sem þá hafi verið ríkissjóður, ársleigu vegna spildnanna. Í afsali Ingimars frá 30. nóvember 1968 til stefnda Hveragerðisbæjar sé tekið fram að hluti af því landi sem þar sé rætt um sé erfðafestuland. Í árslok 1969 sé tilgreint á efnahagsreikningi stefnda Hveragerðisbæjar hluti Vorsabæjar og hluti Fagrahvamms sérstaklega.

Samkvæmt framansögðu sé ljóst að Ingimar hafi aldrei litið sjálfur svo á að hann væri eigandi þess lands sem faðir hans hafði tekið á leigu til erfðafestu og hafi haft fulla vitneskju um að einungis væri um að ræða erfðafesturéttindi. Að því leyti sem fyrrgreindir gerningar og aðrir hafi snert erfðafestulandið hafi því aðeins verið um að ræða framsal á slíkum réttindum en ekki eignarrétti.

             Því er haldið fram að engin gögn hafi komið fram er sýni fram á ráðstöfun réttar yfir landspildunni til Garðyrkjustöðvarinnar í Fagrahvammi hf. fyrr en árið 1991.

Stefnandi byggi meintan eignarrétt sinn að því landi sem málið snýst um á því að hann og áður Fagrihvammur ehf. hafi haft óslitið eignarhald af landinu a.m.k. síðustu 20 árin. Engin gögn hafi verið lögð fram af hálfu stefnanda sem sýni fram á að einkahlutafélag með heitinu Fagrihvammur ehf. hafi eignast umþrætt land eða komið fram sem eigandi þess í einhvern tíma. Sömu sögu sé að segja af einkahlutafélaginu Garðyrkjustöðinni Fagrihvammur ehf., sem tilgreint sé sem seljandi á kaupsamningi.

Í stefnu segi jafnframt að Fagrihvammur hf. hafi verið stofnað árið 1946 af Ingimari Sigurðssyni og fleirum. Segi þar ranglega að í skiptayfirlýsingu frá 1991 komi fram að land það sem merkt sé nr. 1 og 5 á uppdrætti með yfirlýsingunni sé og hafi verið eign þess hlutafélags. Í umræddri yfirlýsingu sé vísað til Garðyrkjustöðvarinnar í Fagrahvammi hf. í þessum efnum.

Ekki sé í stefnu gerð grein fyrir tengslum félaganna Fagrahvamms hf., Fagrahvamms ehf., Garðyrkjustöðvarinnar í Fagrahvammi hf. og Garðyrkjustöðvarinnar Fagrahvamms ehf. sem tilgreind eru í stefnu og framlögðum gögnum stefnanda. Stefnda sé ómögulegt að átta sig á því hvort um eitt og sama félagið sé að ræða eða fleiri og hvernig stefnandi telji meintu óslitnu eignarhaldi þeirra hafa verið háttað.

Með skiptayfirlýsingu, dagsettri 11. september 1991, sé landi skipt eftir Ingimar Sigurðsson og konu hans. Hluta landsins, merkt á uppdrætti nr. 1 og 5, sé þar ráðstafað til Garðyrkjustöðvarinnar í Fagrahvammi hf. Land það, sem stefnandi krefjist nú viðurkenningar á eignarrétti að, virðist liggja á þeim tveimur spildum, að langmestu leyti á spildu nr. 5, sbr. uppdrátt dagsettum 15. apríl 1991, og að hluta utan þess. Algerlega sé ósannað að hlutafélag þetta eða annað hafi fengið ráðstafað einhverjum réttindum yfir erfðafestulandinu fyrir þetta tímamark og sé því sérstaklega mótmælt.

Skiptayfirlýsing skapi ekki rýmri heimildir en arfláti hafi haft. Réttindi samkvæmt erfðafestusamningi erfist til erfingja á meðan erfðafestusamningur sé í gildi. Ráðstöfun með skiptayfirlýsingu, dagsettri 11. september 1991, á landi sem erfðafestusamningur taki til, hafi því aðeins getað falið í sér ráðstöfun á erfðafesturéttindum til erfingja Ingimars Sigurðssonar, sem áður hafi notið réttindanna. Erfingjar Ingimars hafi því ekki öðlast meiri rétt til erfðafestulandsins en Ingimar hafi sjálfur átt og allra síst beinan eignarrétt að því. Þeir hafi heldur ekki getað ráðstafað meiri réttindum en þeir hafi sjálfir átt. Líta verði svo á að erfingjar Ingimars hafi með yfirlýsingunni ráðstafað réttindum að hluta erfðafestulandsins til Garðyrkjustöðvarinnar í Fagrahvammi hf. 

Stefndi heldur því fram að um vanheimild Garðyrkjustöðvarinnar Fagrahvamms ehf. sé að ræða. Eins og fyrr sé rakið hafi Garðyrkjustöðin Fagrihvammur ehf. selt stefnanda alls 22.681 m² landspildu með kaupsamningi, dagsettum 31. ágúst 2000. Landið sé afmarkað á uppdrætti (dskj. 11). Hluti þeirrar spildu sé augljóslega hluti af því landi sem Sigurður Sigurðsson hafi tekið á leigu til erfðafestu 17. maí 1929. Sá hluti landsins hafi verið og sé eign stefnda Hveragerðisbæjar og sé hluti af því landi sem stefndi hafi keypt af meðstefnda, íslenska ríkinu 12. maí 1967. Ljóst sé að Garðyrkjustöðin í Fagrahvammi ehf. og/eða Garðyrkjustöðin Fagrihvammur ehf. hafi aldrei átt eignarrétt að þeim hluta landsins og því ekki getað selt það. Seljandi eignarinnar hafi því ekki haft neina heimild til að selja þann hluta landspildunnar til stefnanda.

Garðyrkjustöðin Fagrihvammur ehf. hafi gefið út afsal fyrir spildunni 20. desember 2000. Það sé áritað af hálfu stefnda Hveragerðisbæjar um að forkaupsrétti sé hafnað. Ekkert tilefni sé til að skilja þá áritun öðruvísi en að fallið sé frá forkaupsrétti að þeim hluta hinnar seldu spildu sem ekki hafi verið undirorpin eignarrétti stefnda Hveragerðisbæjar. Í árituninni felist ekkert afsal Hveragerðisbæjar á eignarrétti sínum að jörðinni eða viðurkenning á beinum eignarrétti annarra. Sé fullyrðingum þar að lútandi sérstaklega mótmælt.

Ráðstöfun erfingja Ingimars Sigurðssonar, eins eða fleiri, á þeim hluta lands, sem áður hafi verið í eigu föður þeirra, og hafi upphaflega verið leigt afa þeirra á erfðafestu, geti samkvæmt framansögðu ekki falist í öðru en ráðstöfun á réttindum samkvæmt erfðafestusamningi þeim sem afi þeirra, Sigurður Sigurðsson, hafi gert 17. maí 1929. Í samningnum hafi falist tímabundin réttindi til afnota af landinu, þ.e. í 75 ár. Hafi samningurinn því runnið út hinn 17. maí 2004.

Hveragerðisbær kveður stefnanda ekki hafa öðlast eignarrétt fyrir hefð. Því sé mótmælt að stefnandi eða þeir sem hann leiði meintan eignarrétt sinn frá hafi fyrir hefð öðlast eignarrétt að þeim hluta hinnar seldu landspildu, sem tilheyri þeirri landspildu sem Sigurður Sigurðsson hafi tekið á leigu 17. maí 1929. Umráð stefnanda og þeirra sem hann leiði rétt sinn af byggist á þeim leigusamningi sem gilda skyldi í 75 ár. Ekki sé hægt að vinna hefð ef umráð byggist á leigusamningi, sbr. 3. mgr. 2. gr. laga um hefð nr. 46/1905.

Þá sé og skilyrði, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905, að eignarhald sé óslitið í 20 ár. Garðyrkjustöðin í Fagrahvammi hf. hafi sannanlega fyrst fengið umráð yfir margnefndum hluta spildunnar með skiptayfirlýsingu, dagsettri 11. september 1991, þ.e. eftir lát Ingimars Sigurðssonar. Engin gögn hafi verið lögð fram um meintan eignar- eða umráðarétt félagsins fyrir þann tíma. Eins og fyrr sé rakið sé ekkert sem bendi til annars en að Ingimar, sem hafi látist 15. desember 1990, hafi alla tíð farið með land það sem faðir hans tók á leigu 17. maí 1929 sem slíkt, þ.e. erfðafestuland. Ekkert gefi til kynna að hann hafi talið sig eiga þann hluta þeirrar landspildu sem stefnandi kveðst hafa keypt og tilheyrt hafi greindu erfðafestulandi. Sé því á engan hátt hægt að líta svo að stefnandi hafi eignast það land sem mál þetta snýst um fyrir hefð.

Til stuðnings kröfu sinni vísar Hveragerðisbær til framlagðra skjala, einkum afsals frá 12. maí 1967, varðandi eignarrétt sinn að hinu umþrætta landi. Um erfðafestu vísast til leigusamnings frá 17. maí 1929. Jafnframt er vísað til meginreglna samninga- og kröfuréttar um skuldbindingagildi samninga. Um hefð vísast til laga þar um nr. 46/1905. Kröfu sína um málskostnað styður stefndi við 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála. Um virðisaukaskatt vísast til laga þar um nr. 50/1988 en stefndi sé ekki virðisaukaskattskyldur.

Niðurstaða

             Landspilda sú sem deilt er um eignarrétt að í máli þessu markast af þeim hnitum sem greind eru í dómkröfu, er þetta ágreiningslaust. Stefnandi heldur því fram að ekki liggi fyrir hver grunneigandi sé að þessari landspildu, engin þinglýst eignarheimild finnist að henni og hafi veð það sem var forsenda uppboðs á eignum Mjólkurbús Ölfusinga árið 1938 ekki tekið til þessarar spildu. Hafi sá sem stefnandi leiði rétt sinn frá unnið eignarhald á henni fyrir hefð.

Ágreiningslaust er að Mjólkurbú Ölfusinga keypti landspildu úr landi jarðarinnar Vorsabæ 3. nóvember 1928 af Boga A. Þórðarsyni og Gísla Björnssyni og að umdeild spilda er hluti af því landi sem þar var keypt af Mjólkurbúi Ölfusinga. Skjal þetta var þinglesið 25. september 1929. Hinn 19. júlí 1930 var eignin Mjólkurbú Ölfusinga skráð á sérstakt blað í veðmálabókum á grundvelli afsalsins frá 3. nóvember 1928 og skilgreint sem ca. 60 ha spilda úr Vorsabæjarlandi.

Ennfremur er óumdeilt að 17. maí 1929 leigði Mjólkurbú Ölfusinga Sigurði Sigurðssyni, búnaðarmálastjóra, á erfðafestu til 75 ára 1,73 ha úr því landi sem Mjólkurbúið hafði keypt 3. nóvember 1928 úr landi Vorsabæjar, og sama dag gaf Mjólkurbúið Sigurði aðra spildu, 1,685 ha að stærð, sem liggur samhliða og austan við þá spildu sem leigð var. Í framangreindum leigusamningi frá 17. maí 1929 er meðal skilmála að landið sé leigt til tún-, garð og trjáræktar, en ekki til annarra afnota og að byggingar megi ekki gera á leigulandinu nema fengið sé sérstakt leyfi mjólkurbússtjórnarinnar til þess, sbr. 3. tl. Var leigutaka gert að rækta upp fimmtahluta landsins árlega og skyldi landið fullræktað á fimm árum, ella hefði leigutaki fyrirgert erfðafesturétti sínum á landinu, sbr. 5. tl. Bæði gjafabréfið og leigusamningurinn voru þinglesin 24. ágúst 1929.

Eignin Fagrihvammur er skráð í veðmálabækur 19. júlí 1930 og eru grunnheimildir framangreindar tvær landspildur, gjafabréfið og erfðafestusamningurinn frá 17. maí 1929. Hinn 8. september 1934 keypti Sigurður Sigurðsson 5,8 ha lands suðvestan við þær tvær spildur sem að framan er getið og segir svo í því afsali: „Við undirritaðir eigendur að landspildu við Varmá í Ölvesi, er liggur austan (sic) við land Mjólkurbús Ölvesinga og Fagrahvamms vestan Varmár“. Skjal þetta er þinglesið 17. desember 1934, en ekki verður séð að þessi spilda sé færð á blað Fagrahvamms í veðmálabók. Sigurður Sigurðsson leigði auk þessa tvær landspildur á erfðafestu til 75 ára sem eru staðsettar handan Varmár, gegnt Fagrahvammi, aðra 2. nóvember 1932 og hina 14. júlí 1934, þeirra beggja er getið á blaði Fagrahvamms í veðmálabók.

             Allar þessar spildur voru samliggjandi og þykir ljóst að þær hafi saman myndað eign Sigurðar Sigurðssonar, sem hann nefndi Fagrahvamm. Hér er einungis deilt um spildu úr þeim hluta Fagrahvammslandsins sem Sigurður Sigurðsson leigði á erfðafestu 17. maí 1929 og þá var eign Mjólkurbús Ölfusinga.

Hinn 9. júlí 1938 fór fram uppboð á eignum Mjólkurbúsins og féllu þær í hlut Búnaðarbanka Íslands sem ófullnægðum veðhafa. Með uppboðsafsali dagsettu 11. júlí 1938, gerir sýslumaðurinn í Árnessýslu eftirfarandi kunnugt:

Á nauðungaruppboði sem haldið var á fasteign og tækjum Mjólkurbús Ölfusinga í Hveragerði þann 9. þ.m. krafðist uppboðsbeiðandi, Búnaðarbanki Íslands, að sér yrði sem ófullnægðum veðhafa lögð út fasteignin með fylgifé fyrir frumboðið, kr. 100.000.oo – eitt hundrað þúsund krónur oo/1oo -. Fyrir því er eftirtöldum eignum Mjólkurbús Ölfusinga í Hveragerði hér með afsalað til Búnaðarbanka Íslands í Reykjavík: Lóð, að stærð um 60 ha., með aðalhúsi, íbúðar- og geymsluhúsi, hálfri rafmagnsstöð, hveravirkjun og öllum mannvirkjum, sem þar eru nú og eru eign Mjólkurbúsins, með endurbótum og viðaukum, með nýrækt og girðingum, með vélum öllum og tækjum og með öllu, sem eignum þessum fylgir og fylgja ber að engu undanskildu. Afsal þetta gengur að öllu leyti í gildi þegar í stað.“

Ekki þykir vafi leika á því að land það sem afsalað er með uppboðsafsali þessu: „Lóð, að stærð um 60 ha“ er sama land og Mjólkurbúið keypti 3. nóvember 1928 og skilgreint er í veðmálabók sem um 60 ha landspilda. Enginn fyrirvari er gerður um 1,73 ha spildu sem leigð hafði verið Sigurði Sigurðssyni á erfðafestu úr því landi. Sérstaklega er tilgreint að endurbætur og ræktun fylgi, hús og vélar og allt „sem eignum þessum fylgir og fylgja ber að engu undanskildu“. Ljóst má vera að hér er allt land Mjólkurbúsins selt og þar með sá hluti þess sem öðrum var leigður. Níu ár voru liðin af leigutímanum þegar þetta átti sér stað og ekkert sem hefur komið fram í málinu bendir til þess að breyting hafi orðið á þeim samningi.

             Stefnandi heldur því fram að vegna orðanna í uppboðsafsalinu „krafðist uppboðsbeiðandi, Búnaðarbanki Íslands, að sér yrði sem ófullnægðum veðhafa lögð út fasteignin með fylgifé fyrir frumboðið“ sé ósannað að umdeild spilda hafi fylgt með við afsalið. Engar nánari upplýsingar eða gögn liggja fyrir um greinda veðsetningu eða aðra kröfuhafa. Á blað Mjólkurbús Ölfusinga í veðmálabók er ekki skráð athugasemd varðandi leigulandið. Stefnandi hefur ekki fært fram neinar sannanir fyrir því að veðið hafi ekki átt að taka til spildu þeirrar sem Sigurður leigði af Mjólkurbúinu. Hefur hann sönnunarbyrði fyrir því. Orðalag uppboðsafsalsins um andlag þess sem er selt er afdráttarlaust. Ekki er vitað til þess að athugasemd hafi áður komið fram vegna uppboðsafsalsins, en rétt tæp 65 ár voru liðin frá útgáfu þess þegar stefna var útgefin. Síðari lögskipti hafa byggt á þessum grunni. Útgáfa uppboðsafsals var á þeim tíma dómsathöfn og er það lagt til grundvallar í þessu máli. Ekki er tilefni til að leggja dýpri merkingu í orðalagið „ófullnægðum veðhafa“ en að Búnaðarbankinn hafi verið hæstbjóðandi, hafi ekki fengið greiðslu á kröfu sinni að fullu, og hafi krafist útlagningar.

             Sama dag og uppboðsafsalið var gefið út, 11. júlí 1938, keyptu Kaupfélag Árnesinga og Mjólkurbú Flóamanna af Búnaðarbanka Íslands þær eignir sem Búnaðarbankinn hafði fengið útlagðar á nauðungaruppboðinu. Við skilgreiningu á eigninni er m.a. talin upp lóð að stærð ca. 60 ha og vísað til uppboðsafsals dagsetts sama dag. Afsal var gefið út 13. september 1938 og það þinglesið 22. sama mánaðar.

Hinn 14. september 1939 er gefin út yfirlýsing í tilefni af skiptum dánarbús Þóru Sigurðardóttur, konu Sigurðar Sigurðssonar, búnaðarmálastjóra, sem fram hafa farið 4. maí sama ár, og kemur þar fram að „með nánar tilteknum skilyrðum“ komi hálf eignin Fagrihvammur í Ölfusi í hlut Ingimars Sigurðssonar og fjórðungur í hlut Helgu Sigurðardóttur, en að öðru leyti er eignin óskipt. Skiptayfirlýsingin sjálf og tilgreind skilyrði eru ókunn. Ekkert er framkomið sem gefur vísbendingu um það að þessi skipti stangist á við umdeildan erfðafestusamning.

             Með afsali dagsettu 15. september 1944 seldu og afsöluðu Kaupfélag Árnesinga og Mjólkurbú Flóamanna ríkissjóði Íslands landspildu „eins og umbjóðendur mínir eignuðust hana með afsali frá Búnaðarbanka Íslands dags. 13/9 ’38 … .“ Í sölunni var undanskilin afgirt lóð undir og umhverfis hús seljenda sem og mannvirki. Síðar í afsalinu segir: „Lóðargjöld af öllum leigulóðum á landinu falla til kaupanda frá afsalsdegi, svo og öll hitagjöld og leiga eftir önnur fríðindi landsins, sem áður hafa fallið til seljanda.“ Skjal þetta var þinglesið 20. september 1944. Með þessu afsali og því sem að framan er rakið þykir upplýst á fullnægjandi hátt að ríkissjóður hafi þar með orðið eigandi þess lands, sem leigt var Sigurði Sigurðssyni á erfðafestu til 75 ára hinn 17. maí 1929.

             Við skipti á búi Sigurðar Sigurðssonar 9. september 1946 kom óskilgreindur fjórðungur til viðbótar af eigninni Fagrahvammi í hlut Ingimars Sigurðssonar og sama ár afsalaði Helga Sigurðardóttir til hans sínum fjórðungi að undanskilinni landspildu við Varmá, sem er utan þess svæðis sem hér er deilt um.

Hinn 17. október 1946 afsalaði Ingimar Sigurðsson 2 ha lands til Garðyrkjustöðvarinnar í Fagrahvammi hf. með gróðurhúsum. Uppdrátt þann sem sagður er fylgja afsali er ekki að finna í dómskjölum. Hinn 12. september 1958 afsalaði Garðyrkjustöðin 1.1 ha úr þessu landi til baka til Ingimars. Ekki er á það minnst í afsali að um sé að ræða land sem falli undir erfðafestusamning og með hliðsjón af öðrum löggerningum sem Ingimar Sigurðsson gaf út eru líkur fyrir því að svo hafi ekki verið. Því hefur ekki verið haldið fram að þetta land hafi legið á þeirri spildu sem erfðafestusamningurinn tók til, en hafi svo verið gat Ingimar Sigurðsson ekki afsalað meiri rétti en hann sjálfur átti. Samkvæmt yfirlýsingu í stefnu var Fagrihvammur hf. stofnað þetta ár og var Ingimar Sigurðsson sjálfur einn fimm stofnenda.

Hinn 12. september 1958 afsalaði Ingimar Sigurðsson Guðrúnu Björnsdóttur þeim hluta lóðar að Þórsmörk 11 (síðar Reykjmörk 15), Hveragerði, sem lá inni á landi því sem Sigurður Sigurðsson leigði árið 1929 og er tekið fram í afsalinu að um erfðafestuland sé að ræða. Með yfirlýsingu vegna nafnbreytingar 14. maí 1962 útgefinni af Ingimar Sigurðssyni og Guðrúnu Björnsdóttur er ítrekað að hluti lóðar sé erfðafestuland.

Hinn 14. maí 1962 afsalaði Ingimar Sigurðsson tveimur spildum úr lóðinni sem Sigurður Sigurðsson hafði tekið á leigu árið 1929, annars vegar til Þráins Sigurðssonar og Guðrúnar Björnsdóttur vegna Reykjamarkar 15 og hins vegar Þráni Sigurðssyni vegna Reykjamarkar 17, Hveragerði. Skýrt kemur fram í skjalinu að spildurnar séu úr framangreindu landi: „núverandi leiguréttarhafi samkvæmt erfðafestusamningi, sem faðir minn Sigurður Sigurðsson, búnaðarmálastjóri gerði við Mjólkurbú Flóamanna (svo) 17. maí 1929 (þingl. 19.7.1930) um spildu í Hveragerði, 1,73 ha. að stærð“. Einnig er tilgreint að leiga verði áfram greidd „til eiganda landsins, sem nú er ríkissjóður“. Landbúnaðarráðuneytið samþykkti gerninginn sem leigusali 14. maí 1962 og heimilaði að reistar yrðu byggingar á lóðunum. Ljóst er af þessu að þegar þessir samningar eru gerðir gengur Ingimar Sigurðsson út frá því að ríkissjóður sé eigandi landsins og að hann hafi tekið við erfðafestusamningnum að föður sínum látnum. 

Meðal málsskjala er uppdráttur sem gerður var í tilefni af lögum nr. 23/1966 um heimild ríkisstjórnarinnar til að selja Hveragerðishreppi hluta úr landi ríkisjarðarinnar Vorsabæjar í Ölfushreppi. Uppdrátturinn er dagsettur í apríl 1965. Á þessum uppdrætti er m.a. tilgreind spilda merkt nr. 10. Í skýringartexta kemur fram að Ingimar Sigurðsson er leigjandi spildu nr. 10, hún er 1.73 ha að stærð, og leigutími er til ársins 2004. Er þessi spilda staðsett á sama svæði og hið umþrætta erfðafestuland er sýnt á öðrum uppdráttum í málsskjölum.

Með afsali dagsettu 12. maí 1967 og samkvæmt heimild í framangreindum lögum seldi landbúnaðarráðherra Hveragerðishreppi „allt það land jarðarinnar Vorsabæjar, sem liggur neðan (austan) Hamarsins og línu frá Litla-Hamri skemmstu leið í Varmá.“ Í afsalinu er tekið fram að þeir „einstaklingar og félög, sem fengið hafa lóðir og landspildur á leigu úr hinu selda landi halda rétti sínum samkvæmt leigusamningum.“

Hinn 30. nóvember 1968 seldi Ingimar Sigurðsson Hveragerðishreppi tvær landspildur úr landi Fagrahvamms, lá önnur þeirra á hluta þess lands sem áður var annars vegar leigt og hins vegar gefið Sigurði Sigurðssyni árið 1929, og samhliða þeirri spildu sem nú er umþrætt í máli þessu. Í afsalinu segir: „Tekið skal fram, að hluti framan greinds lands er erfðafestuland, enda þótt það sé ekki tilgreint sérstaklega.“ Ljóst má vera að Hveragerðisbær er hér að kaupa af Ingimar Sigurðssyni eignarland og ennfremur að yfirtaka eða leysa til sín erfðafesturéttindi. Varnaraðilar íslenska ríkið og Hveragerðisbær deila nú innbyrðis um eignarrétt að sama landi og því sem stefnandi krefst að sér verði dæmdur eignarréttur að. Snýst deilan um það hvort erfðafestulandið fylgdi með öðru landi við sölu samkvæmt afsali 12. maí 1967. Svo sem íslenska ríkið vekur athygli á í greinargerð sinni, virðist hér að hluta vera um sama land að ræða og Ingimar Sigurðsson hafði áður afsalað til Þráins Sigurðssonar og Guðrúnar Björnsdóttur.

Með vísan til alls þess sem hér að framan hefur verið rakið er það niðurstaða dómsins að landspildan sem Sigurður Sigurðsson leigði á erfðafestu til 75 ára hinn 17. maí 1929 hafi verið hluti þess lands Mjólkurbús Ölfusinga sem Búnaðarbanki Íslands eignaðist á nauðungaruppboði árið 1938. Sannað þykir að það land hafi síðar verið selt íslenska ríkinu 15. september 1944. Deilt er um hvort landbúnaðarráðherra hafi selt Hveragerðisbæ þann hluta landsins sem leigður var á erfðafestu 12. maí 1967. Í þessu máli verður ekki tekin afstaða til þeirrar deilu.

Liggur þá fyrir að taka afstöðu til þeirrar málsástæðu stefnanda hvort Ingimar Sigurðsson og erfingjar hans hafa unnið eignarrétt á þessari landspildu fyrir hefð.

Gerður var skýr skriflegur samningur við Sigurð Sigurðsson 17. maí 1929 um að hann leigði á erfðafestu til 75 ára greinda landspildu. Var samningur þessi önnur tveggja þinglýstra grunnheimilda þeirrar eignar Sigurðar Sigurðssonar sem hann nefndi Fagrahvamm og er þannig skráð á blað eignarinnar Fagrahvamms í veðmálabók. Sannað er með þeim skjölum sem hér að framan er vísað til að Ingimar Sigurðsson gerði sér fulla grein fyrir því að faðir hans hafði aðeins átt leigurétt til lands þessa, og að Ingimar vissi hvaða hluti lands Fagrahvamms þetta var. Réttur Ingimars Sigurðssonar til landsins byggðist á sömu heimild. Ingimar Sigurðsson lést 15. desember 1990. Ekkert sem fram hefur komið í málinu gefur ástæðu til að ætla að breyting hafi orðið á grunnheimild hans til landsins og skuldbinding samkvæmt henni hafi fallið niður. Stefnandi hefur vísað til þess að ekki hafi verið greidd leiga af landinu í langan tíma, en ekki hefur verið gerð grein fyrir því um hvaða tímabil er að ræða og engin gögn hafa komið fram í málinu sem styðja eða afsanna þessa fullyrðingu. Það eitt og sér að leigugjald er ekki greitt leiðir ekki til þess að réttmætur eigandi glati eignarrétti sínum að hinu leigða.

Í skiptayfirlýsingu erfingja Ingimars Sigurðssonar, dagsettri 11. september 1991, sem og í kaupsamningi til stefnanda þessa máls dagsettum 31. ágúst 2000 er þess látið ógetið að greint land sé erfðafestuland. Við búskiptin öðluðust erfingjar ekki betri rétt en arfláti hafði átt. Samkvæmt 3. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905 um hefð verður eignaréttur ekki unninn að landi með hefð ef umráð viðkomandi byggjast á leigusamningi. Umráð erfingjanna yfir hinu umdeilda landi byggðist á títtnefndum leigusamningi Sigurðar Sigurðssonar frá 17. maí 1929. Í málinu eru engin gögn sem styðja þá fullyrðingu stefnanda að erfingjunum hafi verið ókunnugt um erfðafestusamninginn, enginn þeirra var leiddur fyrir dóminn. Jafnvel þótt svo hafi verið gátu þeir ekki ráðstafað til þriðja manns meiri rétti en þeir sjálfir áttu.

Jafnvel þó að gert væri ráð fyrir því, að erfingjar Ingimars Sigurðssonar hafi verið í góðri trú varðandi eignarrétt sinn að umræddri landspildu og hafi nýtt landið sem slíkt, getur upphaf hefðarhalds ekki miðast við fyrri tíma en andlát Ingimars. Í skiptayfirlýsingunni frá 11. september 1991 segir að allt það land sem ekki var sérstaklega tilgreint ásamt mannvirkjum á því sé og hafi verið eign hlutafélagsins Garðyrkjustöðvarinnar í Fagrahvammi. Er hin umdeilda spilda á þessu landi. Ekki er nánar útskýrt með hvaða hætti félagið eignaðist þetta land. Samkvæmt stefnu var það stofnað árið 1946, m.a. af Ingimar Sigurðssyni, en ekki er gerð grein fyrir síðari breytingum á félagsformi og stjórn. Eign félagsins virðist ekki skráð á sérstakt blað í veðmálabókum.

Upplýst telst hvernig eignarhaldi að landspildunni var háttað, eigendur Fagrahvamms byggðu heimild sína frá upphafi á erfðafestusamningi til 75 ára gerðum 17. maí 1929. Samningur þessi kemur í veg fyrir að eignarréttur hafi myndast fyrir hefð, sbr. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905. Ennfremur hefðu aðstæður slíkar, sem almennt eru taldar geta orðið grundvöllur hefðar, í fyrsta lagi getað komið upp eftir andlát Ingimars Sigurðssonar í desember 1990. Ekki er fullnaður hefðartími, 20 ár, liðinn frá þeim tímamörkum, sbr. 1. mgr. 2.gr. laga nr. 46/1905. Auk þess er ósannað að erfingum Ingimars hafi verið ókunnugt um að landið væri erfðafestuland. Af þessum ástæðum er hafnað kröfu stefnanda um að viðurkennt verði að hann sé eigandi þess lands sem lýst er í stefnu.

             Eins og atvikum er háttað þykir rétt að hver aðili beri sinn kostnað af málinu.

             Dóminn kveður upp Hjördís Hákonardóttir dómstjóri.

D ó m s o r ð

             Hafnað er kröfu varnaraðila um að málinu verði vísað frá dómi.

Hafnað er kröfu stefnanda um að viðurkenndur verði eignarréttur yfir landi því sem hann tilgreinir í stefnu.

             Málskostnaður fellur niður.