Hæstiréttur íslands

Mál nr. 485/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Málskostnaðartrygging


Föstudaginn 1

 

Föstudaginn 1. nóvember 2002.

Nr. 485/2002.

Þrotabú Prisma-Prentbæjar ehf.

(Bjarni S. Ásgeirsson hrl.)

gegn

Sparisjóði Hafnarfjarðar

(Valgarður Sigurðsson hrl.)

 

Kærumál. Málskostnaðartrygging.

S krafðist málskostnaðar í máli sem P höfðaði á hendur S. Þegar litið var til stöðu hugsanlegrar málskostnaðarkröfu S í þrotabú P og með hliðsjón af umfangi málsins var talið að framlagðar tryggingar nægðu ekki til tryggingar á greiðslu málskostnaðar sem kynni að verða felldur á búið. Var því staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að S hafi leitt að því fullnægjandi líkur að P kynni að vera ófær um greiðslu málskostnaðar og því bæri að fallast á kröfu hans um málskostnaðartryggingu.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. október 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 9. október 2002, þar sem sóknaraðila var gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar að fjárhæð 500.000 krónur í máli, sem hann höfðaði gegn varnaraðila. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að sér verði ekki gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar, en til vara að hún verði lægri fjárhæðar en ákveðið var í héraði. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt, sem í dómsorði greinir.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af kærumáli þessu, en ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað getur ekki komið til endurskoðunar að kröfu varnaraðila, sem kærði ekki úrskurðinn fyrir sitt leyti.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur að öðru leyti en því að frestur sóknaraðila, þrotabús Prisma-Prentbæjar ehf., til að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sínu á hendur varnaraðila, Sparisjóði Hafnarfjarðar, skal vera tvær vikur frá uppsögu þessa dóms.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

  

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 9. október 2002.

 

Mál þetta var þingfest í Héraðsdómi Reykjaness 4. september 2002. 

Stefnandi er þrotabú Prisma-Prentbæjar ehf., kt. 501297-2599, Reykjavíkurvegi 60, Hafnarfirði.

   Stefndi er Sparisjóður Hafnarfjarðar, kt. 610269-5599, Strandgötu 8-10, Hafnarfirði.

   Mál þetta snýst um riftunarkröfu stefnanda á hendur stefnda vegna greiðslna sem reiddar hafi verið af hendi beint til stefnda í tengslum við sölu stefnanda á rekstri sínum til Prisma ehf. áður en bú hans var tekið til gjaldþrotaskipta.

   Við þingfestingu málsins 4. september sl. gerði stefndi kröfu til þess að stefnanda yrði gert að setja málskostnaðartryggingu á grundvelli b.liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991.  Þann 2. október sl. var málið tekið til úrskurðar um þennan þátt að fram komnum greinargerðum aðila. 

Stefndi gerir kröfu til þess að sér verði sett málskostnaðartrygging að fjárhæð 2.200.000 krónur eða að annari lægri fjárhæð að mati réttarins og að sér verði dæmdur málskostnaður í þessum þætti málsins.

   Stefnandi krefst þess að aðallega að kröfu stefnda verði hafnað, en til vara að trygging verði mun lægri en stefndi krefst.  Einnig krefst hann málskostnaðar.

I.

   Stefndi styður dómkröfur sínar við það að stefnandi sé þrotabú og eigi engar eignir.  Þessu hafi skiptastjóri sjálfur lýst yfir við fyrirtöku málsins í héraðsdómi.  Lýstar kröfur í búið séu 84.105.045 krónur og þar af séu forgangskröfur að fjárhæð 18.969.218 krónur.  Það sé því ljóst að þrotabúið geti ekki greitt þann málskostnað sem stefnda kunni að verða tildæmdur falli málið þrotabúinu í óhag. 

   Kveður stefndi stefnanda hafa sönnunarbyrði fyrir gjaldfærni þrotabúsins þrátt fyrir yfirlýst eignaleysi  Af hálfu hans hafi ekki komið fram nein gögn sem styðji það að þrotabúið eða kröfuhafar þess hafi getu eða séu reiðubúnir til þess að standa undir þeim kostnaði sem af máli þessu kunni að hljótast.  Framlagðar yfirlýsingar bendi í raun til hins gagnstæða.  Þar lýsi tveir kröfuhafa í þrotabúið sig reiðubúna til þess að ábyrgjast þann kostnað sem þrotabúið kunni að hafa af þessu máli og máli á hendur Prisma ehf., annar samtals í báðum málum að fjárhæð 500.000 krónur og hinn að fjárhæð 500.000 til 700.000 krónur í máli á hendur Sparisjóði Hafnarfjarðar.  Báðum þessum tryggingaryfirlýsingum sé beint til skiptastjóra og séu til tryggingar kostnaði hans og þóknun af málarekstri tilgreindra mála og geti á engan hátt talist málskostnaðartrygging til handa stefnda í skilningi 133. gr. einkamálalaga.  Hafi lögmaður stefnanda, skiptastjóri þrotabúsins, lýst sig samþykkan þessum skilningi við fyrirtöku málsins 11. september sl. og sé það því ágreiningslaust með aðilum.

II.

   Stefnandi byggir á því að fullt tilefni sé til málshöfðunar af sinni hálfu.  Fyrir liggi í málinu að enginn ágreiningur sé um greiðslu hinna umstefndu fjármuna inn á bankareikninga stefnanda hjá stefnda og jafnframt að enginn ágreiningur sé varðandi það að umræddar greiðslur séu til komnar vegna sölu á rekstri stefnanda til þriðja aðila, þar sem í kaupsamningi sé kveðið á um að eftirstöðvar skuli greiddar með skuldabréfi gefnu út beint til Sparisjóðs Hafnarfjarðar.

   Stefnandi byggir og á því að sé ekki fullt tilefni til málshöfðunar á grundvelli riftunnar þeirra gerninga, þá sé ljóst að þrotabúið sé ekki eignalaust, því þá eigi þrotabúið ógreiddar eftirstöðvar kaupverðs rekstrarins frá kaupanda.  Ekki liggi fyrir annað en að sá aðili sé að fullu gjaldfær.

   Stefnandi kveðst fallast á að í vissum tilvikum geti verið eðlilegt að stefndi fái sér úrskurðaða tryggingu fyrir málskostnaði, en vísar jafnframt til greinargerðar með 133. gr. laga nr. 91/1991, en þar segi að málskostnaðartryggingu gagnvart ógreiðslufærum aðilum sé ætlað að vera úrræði gegn „tilefnislausri eða tilgangslítilli málsókn“.  Um sé að ræða heimild, en ekki fortakslausan rétt.  Í dómum Hæstaréttar hafi mat á þessum aðstæðum verið látið ráða hvort krafa um málskostnaðartryggingu hafi verið tekin til greina.  Sé það mat stefnanda að tilefni málshöfðunar liggi fyrir með skýrum hætti í máli þessu.                            

Stefnandi vísar til þess að í máli þessu liggi fyrir yfirlýsingar frá Tollstjóranum í Reykjavík og Ábyrgðasjóði launa, sem hafi verið sendar í samræmi við beiðni skiptastjóra.  Afar óvenjulegt muni vera að báðir þessir opinberu aðilar gefi í sama máli slíkar yfirlýsingar, en grundvöllur þeirra hafi verið bréf skiptastjóra þar sem málavöxtum hafi verið lýst í máli þessu og orðið hafi verið við beiðni skiptastjóra að því marki sem óskað hafi verið.  Að baki afstöðu þessarra kröfuhafa liggi því í senn mat á kröfum málsins og einnig skýr vilji til að standa að málshöfðun þessari.  Ekki eigi að leika vafi á greiðslugetu þeirra aðila. 

Stefnandi kveður og nauðsynlegt að leiðrétta rangfærslur og mistúlkanir í greinargerð stefnda.  Í greinargerðinn segi að að skiptastjóri hafi „sönnunarbyrðina fyrir gjaldfærni þrotabúsins“.  Ljóst sé að ef stefnandi væri gjaldfær aðili þá væri hann ekki þrotabú og því ágreiningslaust að stefnandi sé sem slíkur ógjaldfær aðili.  Í þessu felist þó ekki nauðsynlega vangeta til greiðslu málskostnaðar.  Ef þau sjónarmið stefnda ættu við væri þar með girt fyrir að þrotabú gætu höfðað mál yfirleitt.  Í greinargerð stefnda komi fram ummæli þess efnis að af hálfu stefnanda hafi ekki komið fram nein gögn sem styðji það að þrotabúið erða kröfuhafar þess hafi getu til eða séu reiðubúnir til að standa undir þeim kostnaði sem af máli þessu kunni að hljótast.  Kveður stefnandi þessi ummæli afar óeðlileg með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum, einkum framlögðum fundargerðum skiptafunda og fyrrgreindum yfirlýsingum um greiðslu málskostnaðar.  Þvert á móti hafi kröfuhafar, auk yfirlýsingar Tollstjóra og Ábyrgðarsjóðs launa, þegar lagt fram ábyrgð á nauðsynlegri vinnu við gagnaöflun sem gert hafi kleyft að höfða hið umstefnda mál, sbr. umfjöllun á skiptafundum, sbr. t.d. dómskjal nr. 20. 

Því er ennfremur mótmælt af hálfu stefnanda að fyrirliggjandi yfirlýsingar Tollstjórans í Reykjavík og Ábyrgðarsjóðs launa geti ekki falið í sér málskostnaðartryggingu í skilningi 133. gr. laga nr. 91/1991.  Ennfremur er því mótmælt að lögmaður stefnanda hafi fallist á þann skilning stefnda í þinghaldi þann 11. september sl.  Kveður stefndi að ummmæli sín í nefndu þinghaldi hafi verið skýrt þess eðlis að yfirlýsingarnar gerðu sérstaka tryggingu fyrir málskostnaði með öllu óþarfa.

Stefnandi mótmælir því að gefnar hafi verið sérstakar yfirlýsingar varðandi eignaleysi þrotabúsins og kveður mikilvægt að hafa í huga að teljist stefnandi eignalaus þá sé það eingöngu vegna þeirra ráðstafana sem krafist sé riftunar á í máli þessu.

III.

Bú stefnanda var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness þann 26. október 2001.  Skiptabeiðandi var Sýslumaðurinn í Hafnarfirði. 

Í málatilbúnaði aðila er ágreiningslaust að yfirlýsingar þær um ábyrgð sem fyrir liggja í málinu stafi frá kröfuhöfum sem lýst hafi kröfum í þrotabúið.  Verður því við það miðað að yfirlýsing Tollstjórans í Reykjavík sé gerð í nafni skiptabeiðanda, Sýslumannsins í Hafnarfirði, enda ber efni hennar það með sér.  Einnig verður við það miðað að Ábyrgðarsjóður launa fari með forræði þeirra krafna í þrotabúið sem hann hefur ábyrgst í samræmi við fyrirmæli 16. gr. laga nr. 53/1993.  Verður því við það miðað að fyrrgreindir aðilar séu kröfuhafar í þrotabúið í skilningi 155. gr. laga nr. 21/1991.

Í b.lið 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála kemur fram að stefndi í máli geti krafist málskostnaðartryggingar úr hendi stefnanda ef leiða má líkur að því að hann sé ófær um greiðslu málskostnaðar.  Ákvæði þetta er undantekningarákvæði og hvílir sönnunarbyrði varðandi ógjaldfærni á stefnda, sbr. m.a. Hrd. 1994:1376.  Í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 91/1991 er ákvæði þetta meðal annars rökstutt með þeim hætti að því sé ætlað að koma í veg fyrir tilefnis- eða tilgangslausar málssóknir af hendi ógjaldfærra aðila.  Stefndi hefur í málatilbúnaði sínum ekki vikið að því að þessi sjónarmið eigi við í máli því sem hér liggur fyrir.  Byggir stefndi á því að stefnandi sé eignalaus og því ófær um að greiða málskostnað. Í máli þessu liggur fyrir að stefnandi er þrotabú.  Ekki er fallist á að það eitt og sér leiði líkur að því, eins og stefndi heldur fram, að stefnandi sé ófær til greiðslu málskostnaðar.  Verður þar að hafa í huga að málskostnaður sem falla kynni á þrotabúið með dómi í máli þessu nyti forgangs við úthlutun úr búinu samkvæmt 110. gr. laga nr. 21/1991.  Einnig liggja fyrir í málinu yfirlýsingar, annars vegar frá Ábyrgðasjóði launa og hins vegar frá Tollstjóranum í Reykjavík um það að viðkomandi aðilar ábyrgist greiðslu kostnaðar við málareksturinn að tilgreindu hámarki.  Af gögnum málsins má sjá að umræddar ábyrgðaryfirlýsingar eru gefnar í tilefni af þeirri málssókn sem hér liggur fyrir.  Kemur og fram að yfirlýsingar þessar eru gefnar í ljósi fyrirmæla 155. gr. laga nr. 21/1991 þar sem mælt er fyrir um skyldu skiptastjóra í þrotabúi til að leita eftir ábyrgðum skiptabeiðanda eða annars kröfuhafa á málskostnaði áður en málsókn er ákveðin, ef ljóst þyki að búið eigi ekki eignir umfram það sem þurfi til greiðslu krafna samkvæmt 109. gr. og 1. og 2. tl. 110. gr. Skiptastjóri hefur metið þessar tryggingar fullnægjandi.

Fallist er á það með stefnanda að ábyrgðaryfirlýsingar þessar standi til fullnustu málskostnaði sem stefnandi yrði dæmdur til að greiða ef hann tapaði málinu.  Má lesa þetta meðal annars út úr Hrd. 1996:3435. 

Þrátt fyrir það sem að framan greinir verður að hafa það í huga að málskostnaði stefnanda yrði skipað undir 2. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991 en málskostnaði sem stefnda yrði dæmdur yrði skipað undir 3. tl. sömu lagagreinar.  Leiðir þetta til þess að kostnaður búsins af málarekstrinum yrði greiddur á undan dæmdum málskostnaði til handa stefnda.

Kröfuhafar hafa í ábyrgðaryfirlýsingum sínum kosið að takmarka ábyrgð sína við tilgreinda fjárhæð,  skiptabeiðandi við 700.000 krónur og Ábyrgðarsjóður launa við 500.000 krónur vegna fyrirliggjandi máls og máls gegn Prisma ehf.

Í 155. gr. laga nr. 21/1991 er ekki gert ráð fyrir að skiptabeiðandi eða eftir atvikum annar kröfuhafi, takmarki ábyrgð sína vegna málskostnaðar með þeim hætti sem fyrir liggur í máli þessu.  Þykir dómnum þó varhugavert að fullyrða að það sé viðkomandi aðilum óheimilt.  Liggur þá fyrir dóminum að ákvarða hvort fyrirliggjandi trygging sé fullnægjandi.  Verður þá einnig að hafa það í huga að samkvæmt gögnum málsins stóð val kröfuhafa á milli þess að skiptastjóri lyki skiptum á grundvelli 155. gr. laga nr. 21/1991 eða hæfist handa við málarekstur þennan.  Bendir það eindregið til þess að engar eignir séu í búinu. 

Þegar litið er til þess sem að framan er rakið um stöðu hugsanlegrar málskostnaðarkröfu stefnda í þrotabú stefnanda og eins með hliðsjón af umfangi málsins er það mat dómsins að framlagðar tryggingar nægi ekki til tryggingar á greiðslu málskostnaðar sem kynni að verða felldur á búið.  Er það því niðurstaða dómsins að eins og hér stendur á hafi stefndi leitt að því fullnægjandi líkur að stefnandi kunni að vera ófær um greiðslu málskostnaðar og að því beri að fallast á kröfu hans um málskostnaðartryggingu.  Að virtum framangreindum sjónarmiðum þykir málskostnaðartrygging hæfilega ákveðin 500.000 krónur sem stefnanda ber að leggja fram í formi peningagreiðslu, bankabókar eða bankaábyrgðar innan tveggja vikna frá uppsögu úrskurðar þessa. 

   Ákörðun málskostnaðar bíður efnisdóms í málinu.

Málið verður tekið fyrir að nýju þann 23. október nk. á reglulegu dómþingi.

Sveinn Sigurkarlsson, héraðsdómari, kveður úrskurðinn upp.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Stefnandi, þrotabú Prisma-Prentbæjar ehf., skal setja málskostnaðartryggingu að fjárhæð 500.000 krónur í máli sínu gegn stefnda, Sparisjóði Hafnarfjarðar og ber honum að reiða hana af hendi í formi peningagreiðslu, bankabókar eða bankatryggingar, innan tveggja vikna frá uppsögu úrskurðar þessa.

Ákvörðun málskostnaðar bíður efnisdóms í málinu.