Hæstiréttur íslands
Mál nr. 388/2002
Lykilorð
- Eignarréttur
- Eignarnám
- Fyrning
|
|
Fimmtudaginn 20. mars 2003. |
|
Nr. 388/2002. |
Ísak Þór Þorkelsson Guðmundur Þorkelsson dánarbú Antons Ísakssonar Bjarney Kristín Viggósdóttir Jóhannes Viggósson Málfríður Ólína Viggósdóttir dánarbú Ísaks Þóris Viggóssonar Magnús Ingjaldsson Brynhildur Ingjaldsdóttir og dánarbú Þórunnar Ingjaldsdóttur (Helgi Jóhannesson hrl.) gegn Landssíma Íslands hf. og Kópavogsbæ til réttargæslu (Andri Árnason hrl.) og gagnsök |
Eignarréttur. Eignarnám. Fyrning.
Afkomendur eigenda jarðarinnar Fífuhvamms kröfðust þess aðallega að viðurkenndur yrði eignarréttur þeirra á spildu úr jörðinni þar sem eignarnám hefði aldrei farið fram með fullnægjandi hætti, til vara að eignarnám Póst- og símamálastjórnarinnar á sömu eign yrði dæmt ógilt og til þrautavara að L hf. yrði dæmt til að greiða þeim fyrir spilduna. L hf. krafðist hins vegar viðurkenningar á eignarrétti sínum á umræddri spildu. Fallist var á það með héraðsdómi að ósannað væri að L hf. hefði greitt fyrir landspilduna en hann lét ekki þinglýsa eignarheimild sinni. Hins vegar yrði að telja sannað að L hf. hafi tekið við umráðum spildunnar 1946 eða 1947 og greitt af henni skatta og skyldur síðan. Hann hafi girt landið, reist þar fjarskiptavirki og byggt hús vegna starfseminnar. Þá virtust eigendur Fífuhvamms samkvæmt ýmsum skjölum málsins hafa viðurkennt eignarnámið auk þess sem 52 ár höfðu liðið þar til þau sneru sér til L hf. með fyrirspurn um eignarheimild hans að landsspildunni. Þegar allt framangreint væri virt væri hvorki unnt að líta svo á að eignarnámið hefði aldrei farið fram né að landið hefði ekki verið nýtt. Þá væri krafa um bætur vegna eignarnámsins fallin niður fyrir fyrningu, sbr. 4. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skylda og annarra kröfuréttinda. Var því ekki fallist á kröfur afkomenda eigenda jarðarinnar en krafa L hf. hins vegar tekin til greina þar sem talið var ljóst að við eignarnámið hefði eignarrétturinn á spildunni færst yfir til Póst- og símamálastjórnarinnar þótt ekki nyti við þinglýstrar eignarheimildar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Pétur Kr. Hafstein.
Aðaláfrýjendur skutu máli þessu til Hæstaréttar 22. ágúst 2002. Þeir krefjast þess aðallega, að viðurkenndur verði með dómi eignarréttur þeirra á 51,5077 hektara spildu úr jörðinni Fífuhvammi, Kópavogi, sem Póst- og símamálastjórnin „hugðist taka eignarnámi“ í október 1945 og metin var af yfirmatsmönnum 21. desember 1946. Verði ekki fallist á aðalkröfu krefjast þeir þess, að eignarnám Póst- og símamálastjórnarinnar frá því í október 1945 á spildu úr landi Fífuhvamms verði dæmt ógilt. Til þrautavara krefjast þeir þess, að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að greiða þeim 262.100.000 krónur fyrir framangreinda spildu með dráttarvöxtum frá 28. júní 2001 til greiðsludags. Í öllum tilvikum krefjast aðaláfrýjendur þess, að gagnáfrýjandi greiði þeim málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði málinu 29. október 2002. Hann krefst sýknu af öllum kröfum aðaláfrýjenda og að viðurkenndur verði með dómi eignarréttur sinn á 51,5077 hektara spildu úr landi Fífuhvamms í Kópavogi, sem afmörkuð er á uppdrætti bæjarverkfræðingsins í Kópavogi 21. nóvember 1988, sbr. héraðsdómskjal nr. 24 („Eignarnám 4. febrúar 1947. Stærð í lögsögu Kópavogs: 51,5077 ha.“), þegar hlutafélaginu Landssíma Íslands var skipt á hluthafafundi samkvæmt 133. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög, hinn 10. september 2001. Þá krefst hann málskostnaðar in solidum úr hendi aðaláfrýjenda í héraði og fyrir Hæstarétti.
I.
Eins og rakið er í héraðsdómi krafðist Póst- og símamálastjórnin eignarnáms á meðal annars þrætulandi Vífilsstaða og Fífuhvamms á árinu 1945, með heimild í 17. gr. þágildandi laga um fjarskipti nr. 30/1941. Samkvæmt yfirmatsgerð 21. desember 1946 var verð landsins metið 44.000 krónur. Aðaláfrýjendur máls þessa eru afkomendur þáverandi eigenda Fífuhvamms. Þeir halda því fram, að eignarnám þetta hafi aldrei farið fram með fullnægjandi hætti, þar sem bæturnar hafi aldrei verið greiddar og eignarheimild eignarnema aldrei verið þinglýst. Séu þeir því réttir eigendur landspildunnar, en ágreiningslaust er, að hún er 51,5077 ha að stærð og liggur öll í landi Kópavogskaupstaðar. Verði ekki á þetta fallist krefjast aðaláfrýjendur þess, að eignarnámið verði dæmt ógilt, þar sem engin greiðsla hafi verið innt af hendi auk þess sem eignarnemi hafi ekki nýtt landspilduna nema að afar litlu leyti undir starfsemi sína. Til þrautavara krefjast þeir þess, að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að greiða raunverulegt verðgildi landspildunnar miðað við að hún væri seld á frjálsum markaði, sbr. matsgerð 1. nóvember 2001.
Fallist er á það með héraðsdómi, að ósannað sé, að gagnáfrýjandi hafi greitt fyrir landspilduna og hann lét ekki þinglýsa eignarheimild sinni. Hins vegar verður að telja sannað, að gagnáfrýjandi tók við umráðum spildunnar 1946 eða 1947 og hefur greitt af henni skatta og skyldur síðan. Hann girti landið, reisti þar fjarskiptavirki og byggði hús vegna starfseminnar, án þess að umráðatökunni væri nokkru sinni mótmælt. Samkvæmt ýmsum skjölum málsins virðast eigendur Fífuhvamms hafa viðurkennt eignarnámið, sbr. skiptagjörð erfingja eigenda Fífuhvamms 25. október 1962, og afsal eigenda Fífuhvamms til Kópavogskaupstaðar 22. ágúst 1980. Það er fyrst með bréfi lögmanns síns 30. júní 1999 sem áfrýjendur snúa sér til stefnda með fyrirspurn um eignarheimild hans að landspildunni, en þá voru liðin rúm 52 ár frá yfirmatsgerðinni 21. desember 1946. Þegar allt framangreint er virt er ekki unnt að líta svo á, að eignarnámið hafi aldrei farið fram, þótt ósannað sé að greiðslan hafi verið innt af hendi. Aðalkrafa aðaláfrýjenda verður því ekki tekin til greina.
Varakröfu sína um ógildingu eignarnámsins byggja aðaláfrýjendur á því, að greiðsla hafi ekki farið fram og landið ekki verið nýtt undir starfsemi gagnáfrýjanda nema að litlu leyti. Magnús Skarphéðinsson Waage verkfræðingur, sem hefur verið starfsmaður gagnáfrýjanda frá 1964 og unnið við fjarskiptamannvirkin á Rjúpnahæð frá 1996 bar fyrir dómi, að það væri orðið verulega þrengt að loftnetum á Rjúpnahæðinni þar sem þeim hefði fjölgað mjög. Spurður um það, hve mikill hluti landspildunnar á Rjúpnahæð fari undir fjarskiptamannvirki og verndarsvæði, svaraði hann því til, að þeir væru alveg komnir á ýtrustu mörk. Garðar Guðjónsson, sem starfaði hjá gagnáfrýjanda á Rjúpnahæð frá 1947 til 1995, bar fyrir dómi, að byrjað hefði verið að byggja stöðvarhús 1952 og eftir því sem árin liðu hefðu alltaf bæst við fleiri fjarskiptamannvirki. Hvorugur þessara manna minntist þess, að eigendur Fífuhvamms hefðu hreyft athugasemdum við það, að spildan hefði verið girt, sem líklega hefði verið 1951 eða 1952. Ólafur Árnason, starfsmaður gagnáfrýjanda, bar fyrir dómi, að á meiri hluta landspildunnar á Rjúpnahæð séu fjarskiptamannvirki og verndarsvæði þeirra og að hans mati sé hún alveg að verða fullnýtt. Samkvæmt framangreindu er ekki fallist á að landið hafi ekki verið nýtt. Með hliðsjón af þessu og því, sem að framan er rakið um aðalkröfuna, verður ekki fallist á varakröfu aðaláfrýjenda.
Þrautavarakrafa aðaláfrýjenda um greiðslu bóta að fjárhæð 262.100.000 krónur er byggð á niðurstöðu dómkvaddra matsmanna 1. nóvember 2001 um markaðsvirði landspildunnar. Eins og að framan greinir hefur verið komist að þeirri niðurstöðu, að landspildan hafi verið tekin eignarnámi í samræmi við yfirmatsgerðina 21. desember 1946, þar sem verðmæti hennar var metið 44.000 krónur. Ósannað er, að þær bætur hafi verið greiddar en aðaláfrýjendur hafa aldrei gert reka að innheimtu þeirra. Krafa um bætur vegna eignarnámsins er fallin niður fyrir fyrningu, sbr. 4. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda.
Samkvæmt framansögðu er fallist á niðurstöðu héraðsdóms og gagnáfrýjandi sýknaður af öllum kröfum aðaláfrýjenda.
II.
Í gagnsök krefst gagnáfrýjandi þess, að viðurkenndur verði eignarréttur hans á framangreindri landspildu miðað við 10. september 2001, þegar Landssíma Íslands hf. var skipt á hluthafafundi.
Eins og að framan greinir hefur verið komist að þeirri niðurstöðu, að eignarnám hafi farið fram á landspildunni, sbr. yfirmatsgerð 21. desember 1946. Þótt ekki njóti við þinglýstrar eignarheimildar er ljóst, að við eignarnámið færðist eignarrétturinn á spildunni yfir til Póst- og símamálastjórnarinnar. Er krafa gagnáfrýjanda því tekin til greina og eignarréttur hans yfir landspildunni viðurkenndur miðað við 10. september 2001.
Samkvæmt framansögðu skal héraðsdómur vera óraskaður um annað en málskostnað, sem dæmist eins og í dómsorði segir. Í dómsorði héraðsdóms hefur fallið niður sú breyting, sem gagnáfrýjandi gerði á kröfugerð sinni við upphaf aðalmeðferðar í héraði, að eignarréttur hans yrði viðurkenndur miðað við 10. september 2001, þegar Landssíma Íslands hf. var skipt á hluthafafundi, eins og áður greinir.
Aðaláfrýjendur greiði gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Gagnáfrýjandi, Landssími Íslands hf., skal vera sýkn af kröfum aðaláfrýjenda, Ísaks Þórs Þorkelssonar, Guðmundar Þorkelssonar, dánarbús Antons Ísakssonar, Bjarneyjar Kristínar Viggósdóttur, Jóhannesar Viggóssonar, Málfríðar Ólínu Viggósdóttur, dánarbús Ísaks Þóris Viggóssonar, Magnúsar Ingjaldssonar, Brynhildar Ingjaldsdóttur og dánarbús Þórunnar Ingjaldsdóttur.
Viðurkenndur er eignarréttur gagnáfrýjanda á 51,5077 ha spildu úr landi Fífuhvamms, Kópavogi, sem afmörkuð er á uppdrætti bæjarverkfræðingsins í Kópavogi 21. nóvember 1988 („Eignarnám 4. febrúar 1947. Stærð í lögsögu Kópavogs: 51,5077 ha.“), þegar Landssíma Íslands hf. var skipt á hluthafafundi hinn 10. september 2001.
Aðaláfrýjendur greiði gagnáfrýjanda in solidum samtals 600.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. júní 2002.
Mál þetta, sem dómtekið var 16. maí sl., var höfðað með stefnu, áritaðri um birtingu 22. og 26. júní 2001.
Stefnendur eru Ísak Þ. Þorkelsson, kt. 280932-4859, Skólagerði 14, Kópavogi, Guðmundur Þorkelsson, kt. 101035-4689, Jöfralind 18, Kópavogi, Margrét Guðmundsdóttir, kt. 300617-4259, v. db. Antons Ísakssonar, kr. 231215-3289, Bjarney Viggósdóttir, kt. 020334-4019, Meistaravöllum 31, Reykjavík, Jóhannes Viggósson, kt. 161039-4979, Eskihvammi 2, Kópavogi, Málfríður Ólína Viggósdóttir, kt. 240543-7619, db. Ísaks Þóris Viggósssonar, kt. 311235-4009, Magnús Ingjaldsson, kt. 111042-4039, Heiðvangi 6, Hafnarfirði, Brynhildur Ingjaldsdóttir, kt. 200737-2029, Reynimel 92, Reykjavík, og Ragnar M. Magnússon, kt. 090925-4749, Stekkjarflöt 21, Garðabæ v. db. Þórunnar Ingjaldsdóttur, kt. 090833-4489.
Stefndi er Landssími Íslands hf., kt. 500269-6779, Thorvaldsensstræti 4, Reykjavík.
Réttargæslustefndi er Kópavogsbær, kt. 700169-3759, Fannborg 2, Kópavogi.
Með gagnstefnu, áritaðri um birtingu 25. júlí 2001, þingfestri 27. sept. 2001, höfðaði Landssími Íslands hf. gagnsök á hendur öllum stefnendum. Gagnsökin var sameinuð aðalsökinni.
Endanlegar dómkröfur aðalstefnanda í aðalsök og gagnsök:
Aðalkrafa:
Að viðurkenndur verði með dómi eignarréttur stefnenda á 51,5077 ha. spildu úr jörðinni Fífuhvammi sem stefndi hugðist taka eignarnámi í október 1945 og metinn var af yfirmatsmönnum skv. mati, dags. 21. desember 1946.
Varakrafa:
Verði ekki fallist á aðalkröfu er þess krafist að eignarnám Póst- og símamálastjórnarinnar frá því október 1945 á spildu úr landi Fífuhvamms í Kópavogi verði dæmt ógilt.
Þrautavarakrafa:
Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnendum 262.100.000 kr. fyrir 51,5077 ha. spildu úr landi Fífuhvamms með dráttarvöxtum frá 28. júní 2001 til greiðsludags.
Í öllum tilvikum er þess krafist að stefndi greiði stefnendum málskostnað að mati réttarins auk virðisaukaskatts á málskostnaðinn.
Í gagnsök er þess krafist að dómkröfum gagnstefnanda í gagnsök verði hafnað og að gagnstefndu verði dæmdur málskostnaður úr hendi gagnstefnanda að mati réttarins.
Dómkröfur aðalstefnda í aðalsök og gagnsök:
Að aðalstefndi verði sýknaður af öllum dómkröfum aðalstefnenda.
Í gagnsök er þess krafist að viðurkenndur verði með dómi eignarréttur gagnstefnanda á 51,5077 ha. spildu úr landi Fífuhvamms, Kópavogi, sem afmörkuð er á uppdrætti bæjarverkfræðingsins í Kópavogi, dags. 21. nóvember 1988, sbr. dskj. nr. 24 ("Eignarnám 4. febrúar 1947, stærð í lögsögu Kópavogs: 51,5077 ha."), þegar hlutafélaginu Landssíma Íslands hf. var skipt á hluthafafundi skv. 133. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög, hinn 10. september 2001.
Í báðum tilvikum er gerð krafa um að aðalstefnendum og gagnstefndu verði in solidum gert að greiða aðalstefnda og gagnstefnanda málskostnað að skaðlausu að mati dómsins, eða skv. framlögðum málskostnaðarreikningi.
Ekki eru gerðar sérstakar kröfur á hendur réttargæslustefnda. Af hálfu þessa stefnda eru ekki gerðar kröfur.
Í stefnu er gerð svofelld grein fyrir aðild að málinu:
Stefnendur séu afkomendur hjónanna Ísaks Bjarnasonar og Þórunnar Kristjánsdóttur, fyrrum eigenda jarðarinnar Fífuhvamms í Kópavogi. Þau Ísak og Þórunn hafi átt sjö börn, Guðríði, Guðmund Kristin, Bergþóru Rannveigu, Kristján Steindór, Ingjald, Rebekku og Anton Ísaksbörn. Þau Guðríður, Guðmundur Kristinn og Kristján Steindór hafi framselt systkinum sínum eignarhlut sinn í Fífuhvammi og því séu það afkomendur hinna fjögurra systkinanna sem standa að málsókn þessari.
Málavextir
Með bréfi, dags. 12. október 1945, var Þórunni Kristjánsdóttur tilkynnt að Póst- og símamálastjórnin hefði krafist eignarnáms á nokkurri landspildu í nánd við útvarpsstöðina á Vatnsendahæð og jafnramt að Theodór B. Líndal hrl. og Björn Birnir hreppsstjóri hefðu verið útnefndir til að meta landið sem að hluta tilheyrði Fífuhvammi. Var Þórunni gefinn kostur á að gæta hagsmuna sinna við matið. Matsgerð framangreindra matsmanna, dags. í ágúst 1946, hefur að sögn ekki fundist.
Þann 21. des. 1946 skiluðu þeir Jón Ásbjörnsson, Ari Arnalds og Þórður Eyjólfsson yfirmatsgerð. Yfirmatsmenn mátu verð eignarnumins lands úr jörðinni Vatnsenda 69,68 ha. að stærð ásamt kostnaði við réttargæslu á 101.411,92 kr. Í yfirmatsgjörðinni kemur fram að annar hluti hins eignarnumda lands væri þrætuland milli Fífuhvamms og Vífilsstaða. Við yfirmatið kom Guðni Guðnason hdl. fram af hálfu eigenda Fífuhvamms en Björn Konráðsson ráðsmaður af hálfu eigenda Víffilsstaða. Fyrirsvarsmenn þessir voru því samþykkir að allt hið eignarnumda land utan jarðarinnar Vatnsenda væri metið í einu lagi. Yfirmatsmenn mátu verð landsins, sem tekið var eigarnámi úr landi Vífilsstaða og þrætulandi Vífilsstaða og Fífuhvamms, ásamt kostnaði við réttargæslu eigenda, 44.000 kr.
Stefnendur halda því fram að framangreindar eignarnámsbætur hafi aldrei verið greiddar þáverandi eigendum jarðarinnar Fífuhvamms né erfingjum þeirra. Stefndi hefur ekki sýnt fram á að greiðsla hafi verið innt af hendi. Í framhaldi af yfirmatinu frá 1946 voru útbúin afsöl vegna hinna eignarnumdu hluta úr Vatnsendalandi en slíkt var ekki gert vegna eignarhlutans úr Fífuhvammi.
Af hálfu stefnenda er því mótmælt að greiðsla fyrir landið hafi verið innt af hendi með neinum hætti, hvorki með deponeringu né öðru. Eigendur Fífuhvamms hafi ávallt verið ósáttir við eignarnámið og því hafi ekki verið gerður sérstakur reki að því að innheimta matsfjárhæðina fyrr en þegar fyrir liggi að bjóða út hlutafé í Landssíma Íslands hf., m.a. til almennings.
Ljóst sé af skiptagerð, dags. 25. október 1962, vegna skipta á dánarbúi þeirra Þórunnar Kristjánsdóttur og Ísaks Bjarnasonar að þá hafi bæturnar verið ógreiddar. Í skiptagerðinni segir m.a.: "Til skipta kemur:
Jörðin Fífuhvammur í Kópavogskaupstað með húsum og mannvirkjum og rétti til bótakröfu vegna eignarnáms á landspildu undir Útvarpsstöð ríkisins á Vatnsendahæð, sjá yfirmatsgerð, dags. 21. des. 1946, en deila er um, hvort hluti af því landi, sem tekið var eignarnámi, sé úr Fífuhvammslandi. ---"
Ástæða þess að bætur voru ákveðnar í einu lagi til Fífuhvamms og Vífilsstaða við eignarnámið hafi verið að áður en til þess kom hafi staðið deilur milli eigenda Fífuhvamms og Vífilsstaða um landamerki milli jarðanna. Þeim deilum hafi lokið með sátt í merkjadómi Gullbringu- og Kjósarsýslu á dómþingi 1. júní 1923. Brigður muni hafa verið bornar á þá sátt er matsmálið var tekið fyrir á árinu 1946.
Með afsali, dags. 22. ágúst 1980, seldu þáverandi eigendur Fífuhvamms Kópavogsbæ jörðina "að frádregnu landi Smárahvamms og landi Landsíma Íslands, samanber þó dómsátt dags. 1. júní 1923 um landamerki milli Fífuhvamms og Vífilsstaða, en seljendur bera brigður á lagagildi sáttar þessarar", eins og það var orðað í afsalinu. Í sölunni voru að auki undanskildar nokkrar spildur úr Fífuhvammslandi.
Með yfirlýsingu landbúnaðarráðherra f.h. jarðadeildar landbúnaðar-ráðuneytisins og heilbrigðis- og tryggingráðherra f.h. ríkisspítalanna, dags. 10. janúar 1985, féllust umráðamenn Vífilsstaða í Garðabæ á samning bæjarstjóra Garðabæjar og Kópavogskaupstaðar um breytingu á mörkum kaupstaðanna, dags. 18. maí 1983. Stefnendur telja ljóst af þessari sátt að hin eignarnumda spilda sem tilheyrði Fífuhvammi og tilheyrir Kópavogskaupstað sé 51,5077 ha. að stærð og fallast á að við það sé miðað.
Af hálfu stefnenda er því haldið fram að einungis lítill hlut af þessum 51,5077 ha. lands hafi verið nýttur fyrir mannvirki stefnda. Að mestu leyti sé um að ræða land á Rjúpnahæð sem halli til norðurs með miklu útsýni yfir Reykjavík, Esjuna og Seltjarnarnes.
Málsástæður og rökstuðningur aðalstefnenda í aðalsök og gagnsök
Aðalkrafa stefnenda er á því byggð að eignarnámið hafi í raun aldrei farið fram með fullnægjandi hætti þar sem greiðsla hafi aldrei verið innt af hendi fyrir landið né frá eignayfirfærslunni gengið með afsali frá landeigendum til eignarnema svo sem nauðsynlegt hefði verið til að fullkomna eignarnámið og gert hafi verið af hálfu eigenda Vatnsenda á sínum tíma. Þannig hafi forsendur fyrir eignarnáms-meðferðinni brostið. Stefndi hafi því í raun fallið frá eignarnáminu. Stefndi sé ekki enn í dag þinglýstur eigandi spildunnar.
Eignarrétturinn sé friðhelgur og sérstaklega verndaður í stjórnarskránni. Öllum takmörkunum á þessum rétti verði að beita með mikilli varúð, sérstaklega þegar um er að ræða að svipta menn eignarrétti þeirra. Eignarnám sé aðgerð sem ströng skilyrði séu fyrir að beitt sé. Forsenda þess að eignarnámi megi beita sé m.a. að fullt verð komi fyrir hið eignarnumda. Þetta grundvallarskilyrði skorti í málinu og hljóti stefnendur því að vera eigendur landspildu þeirrar sem málið varðar.
Eignarnemi hafi ekki þinglýst yfirmatsgerðinni sem eignarheimild. Þannig hafi ekkert verið gert eftir að yfirmatið var framkvæmt sem styðji það að eignarnámið hafi í raun fari fram með fullkomnum hætti. Stefndi hafi þannig ekki getað fært sönnur á eignarrétt sinn yfir landspildu stefnenda, hvorki með gögnum um greiðslu bóta, né afsali.
Varakrafa:
Verði ekki fallist á það sjónarmið stefnenda að eignarnámið hafi í raun aldrei farið fram er til vara gerð sú krafa að eignarnámið verði dæmt ógilt. Þessu til stuðnings benda stefnendur á það sem fram hafi komið, þ.e. að stefndi hafi aldrei innt greiðslu af hendi fyrir hið eignarnumda.
Þá hafi stefndi ekki nýtt umrædda spildu nema að afar litlu leyti undir starfsemi sína og því ekki að sjá hagsmuni hans af umráðum yfir henni. Stefnendur byggja á því að skv. 17. gr. þágildandi fjarskiptalaga hafi Póst- og símamálastjórninni verið heimilt að taka lönd eignarnámi í sambandi við lagningu eða rekstur fjarskiptavirkja ríkisins. Í því tilfelli sem hér sé til umfjöllunar hafi hins vegar ekki nema mjög óverulegur hluti af 51,5077 ha. spildu stefnenda verið nýttur undir mannvirki stefnda og því hafi komið í ljós að skilyrði eignarnámsins hvað spildu stefnenda varðar hafi ekki verið fyrir hendi. Í þessu sambandi er einnig vísað til 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 þar sem segi að engan megi skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji og fullt verði komi fyrir. Í þessu máli hafi aldrei verið nein almenningsþörf fyrir því að taka spilduna eignarnámi, enda hafi hún ekki verið nýtt undir mannvirki stefnda.
Hafi stefndi haft einhverja þörf fyrir afnot af landspildunni sem málið fjallar um sé augljóst að sú þörf sé ekki lengur fyrir hendi auk þess sem hún hafi aldrei verið það, hvað langstærstan hluta landsins varðar.
Þrautavarakrafa:
Hvað þessa kröfu varðar er á því byggt að verðmat það sem fyrir liggi og sé frá árinu 1946 gefi ekki raunhæfa mynd af verðmæti landsins nú, jafnvel þótt sú fjárhæð væri framreiknuð til dagsins í dag. Spildan sé nú eftirsóknarvert byggingarsvæði meðan hún hafi einungis verið talin hentug til beitarafnota auk þess sem að einhverju leyti hefði mátt leigja hana undir sumarbústaði á þeim tíma sem verðmati á henni fór fram. Ljóst sé að það samræmist ekki grundvallarreglum um friðhelgi eignarréttarins að stefndi, sem þá hafi verið hefðbundin ríkisstofnun, geti í krafti lagaheimildar um eignarnám öðlast eignarrétt á svo verðmætum löndum nú án þess að greiða fyrir það fullt verð m.v. þann tíma sem greiðsla er innt af hendi.
Fjárhæð þrautavarakröfu miðist við mat dómkvaddra matsmanna.
Um rökstuðning fyrir kröfum stefnenda er vísað til stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, einkum 72. gr. Þá er vísað til grundvallarreglna eignaréttarins um friðhelgi eignaréttarins og meginreglna samninga- og kröfuréttar um brostnar forsendur og skuldbindingagildi samninga. Þá er vísað til laga nr. 30/1941 um fjarskipti, einkum 17. gr. Einnig er vísað til laga nr. 61/1917 um framkvæmd eignarnáms og laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.
Varðandi málskostnaðarkröfu er vísað til 130. gr. laga nr. 91/1991.
Í gagnsök er því haldið fram að af hálfu ríkisins hafi sú vinnuregla gilt um varðveislu bókhaldsgagna að öll slík skjöl séu varðveitt ótímabundið og hafi svo verið alla tíð. Þrátt fyrir það hafi gagnstefnanda ekki tekist að finna gögn er sýni fram á að Póst- og símamálastjórnin hafi í raun greitt eignarnámsbætur fyrir hið umþrætta land. Í yfirlýsingu, dags. 10. janúar 1985, sem undirrituð sé af þáverandi heilbrigðis- og tryggingaráðherra og landbúnaðarráðherra, megi ljóst vera að eigendur Fífuhvamms hafi þá aldrei móttekið greiðslu fyrir landið.
Gagnstefndu hafna því alfarið að gagnstefnandi geti öðlast rétt yfir hinu umþrætta landi á grundvelli hefðar. Póst- og símamálastjórnin hafi hafið nýtingu landsins án heimildar og án þess að greiða fyrir landið og því geti hefð ekki stofnast með vísan til laga nr. 46/1905 um hefð, einkum 2. gr. Í besta falli megi segja að Póst- og símamálastjórnin hafi fengið landið til láns undir starfsemi sína, þar sem ekki hafi verið hlutast til um að þeir flyttu starfsemi af spildunni af hálfu eigenda Fífuhvamms, en slík umráð geti ekki heimilað hefð. Hvernig gagnstefnandi hafi nýtt spilduna skipti engu í þessu sambandi.
Gagnstefndu hafna því áliti gagnstefnanda að krafa gagnstefndu sé fyrnd. Orðalag í skiptagerð, sem vitnað er til í gagnstefnu og orðalag í afsali frá 22. ágúst 1980, styðji svo ekki verði um villst sjónarmið gagnstefndu í málinu enda ljóst af þessum gögnum að gagnstefnandi hafi aldrei gengið frá sínum málum gagnvart eigendum Fífuhvamms og því hafi hann ekki öðlast þann rétt yfir hinni umþrættu landspildu sem hann haldi fram.
Að öðru leyti eru kröfur í gagnsök studdar með vísan til málsástæðna og lagaraka í aðalsök.
Málsástæður og rökstuðningur aðalstefnda í aðalsök og gagnsök
Aðalstefndi hafnar alfarið sjónarmiðum stefnenda um að eignarnámið hafi í raun aldrei farið fram. Sýknukrafan er á því reist að fullkomið eignarnám hafi átt sér stað á landspildunni með eignarnámsgerð sem fram hafi farið á árunum 1945-1946 og lokið með yfirmatsgerð, dags. 21. desember 1946, og umráðatöku stefnda á landinu áður eða um það leyti. Eignarnámið hafi farið fram á grundvelli 17. gr. þágildandi laga um fjarskipti nr. 30/1941. Í kjölfar eignarnámsins hafi að vísu ekki verið aflað formlegrar eignaryfirlýsingar. Ekki verði litið svo á að eignaryfirfærsla á grundvelli eignarnáms sé háð útgáfu sérstakrar yfirlýsingar af hálfu eignarnámsþola. Eignarnámið hafi verið byggt á stjórnvaldsákvörðun sem ekki hafi verið hnekkt. Í kjölfar stjórnvaldsákvörðunarinnar sem reist hafi verið á tilvísuðum lögum um fjarskipti, sbr. þágildandi 67. gr. stjórnarskrárinnar, hafi landið verið metið til fjár í samræmi við þágildandi ákvæði laga um framkvæmd eignarnáms, nr. 61/1917. Með vísan til framanritaðs verði ekki séð að stefnendur hafi gert líklegt að fallið hafi verið frá eignarnámi á spildunni.
Þeirri fullyrðingu stefnenda að eignarnámið hafi ekki farið fram þar sem eignarnámsbætur hafi ekki verið greiddar er mótmælt. Af hálfu stefnda sé lagt til grundvallar að eignarnámsbætur hafi verið greiddar eignarnámsþolum við umráðatökuna. Þó svo að ekki liggi fyrir kvittun fyrir móttöku eignarnámsbótanna verði stefndi nú, um 54 árum síðar, ekki látinn bera halla af því að halda ekki til haga kvittun fyrir greiðslu bótanna enda standi engar lagareglur til slíkrar vörsluskyldu. Sönnunarbyrði fyrir fullyrðingum í stefnu um að greiðsla hafi ekki verið innt af hendi hvíli því óskipt á stefnendum sjálfum. Framgangur eignarnámsins, yfirmatsgerðin og umráð stefnda á landinu, bendi afdráttarlaust til þess að eignarnámsbætur hafi verið inntar af hendi með þeim hætti sem aðilar hafi komið sér saman um eða orðið ásáttir um. Einungis lítill hluti bókhaldsgagna stefnda hafi verið varðveittur, þ.e. svokölluð höfuðbók (aðalbók) en fylgiskjöl hafi ekki verið varðveitt. Höfuðbókin útloki t.d. ekki að greiðslan hafi verið færð með öðrum bókhaldsliðum, t.d. framkvæmdaliðum. Þó svo að stefnda hafi ekki tekist að finna kvittunina útiloki það ekki að greiðsla hafi verið innt af hendi, annaðhvort beint til eigenda eða t.d. í fríðu eða með geymslugreiðslu. Kröfu um greiðslu eignarnámsbóta kunni einnig að hafa verið lokið með eftirgjöf kröfunnar.
Það valdi ekki ógildi eignarnáms þótt ekki hafi verið gengið frá afsali til stefnda í kjölfar matsgerðarinnar. Lög um framkvæmd eignarnáms nr. 61/1917 hafi ekki gert ráð fyrir útgáfu afsals í þessu sambandi. Á þeim tíma sem landið var eignarnumið hafi yfirmatsgerð þótt vera nægileg eignarheimild og hafi verið lögð til grundvallar þinglýsingu eignarréttinda. Í því sambandi er m.a. vísað til yfirmatsgjörðar, dags. 21. des. 1934, vegna eignarnáms stefnda á jörðinni Gufunesi,
Þegar það kom í ljós að yfirmatsgerð hafði ekki verið þinglýst vegna eignarnáms á spildu úr landi Fífuhvamms hafi verið gefin út yfirlýsing til þinglýsingar 19. apríl 2001. Ástæða þess að gengið var frá sérstöku afsali í kjölfar eignarnáms á spildu úr jörðinni Vatnsenda hafi ugglaust verið sú að þar hafi aðilar verið ásáttir um kaup stefnda á landinu en leitað til matsnefndar til að meta sanngjarnt verð fyrir landspilduna.
Með vísan til þess sem að framan er ritað er þeim málsástæðum stefnenda að fallið hafi verið frá eignarnáminu eða að forsendur þess hafi brostið hafnað. Eignarnámið hafi verið staðfest í verki með formlegri umráðatöku landspildunnar í kjölfar matsgerðarinnar. Sú umráðataka hafi farið fram með fullu samþykki þáverandi eigenda Fífuhvamms. Umráðatakan bendi fráleitt til þess að fallið hafi verið frá eignarnáminu eða að forsendur þess hafi á einhvern hátt brostið. Stefnendur hafi heldur ekki sýnt fram á að eignarnáminu hafi nokkru sinni verið andmælt af hálfu eigenda Fífuhvamms. Þáverandi eigendur spildunnar hafi notið lögmannsaðstoðar við matsgerðina og megi ætla að sú lögmannsaðstoð hafi einnig náð til réttarvörslu við eignarnámið sem slíkt. Eigendurnir hafi notið lögmannsaðstoðar á síðari stigum vegna málefna jarðarinnar.
Varakröfu stefnenda um að eignarnámið verði lýst ógilt er mótmælt með sömu rökum og hér hafa verið rakin.
Málsástæðu stefnenda, sem byggð er á því að stefndi hafi ekki nýtt spilduna nema að afar litlu leyti undir starfsemi sína og því hafi ekki verið skilyrði til að krefjast eignarnáms, sbr. 17. gr. þágildandi fjarskiptalaga, er mótmælt af hálfu stefnda. Stefndi hafi nýtt landið í Rjúpnahlíð til fulls frá því að hann tók við því um 1945-6. Rjúpnahlíðarlandið sé allt gjörnýtt og ekki nokkur blettur laus til þess að setja þar niður loftnet. Í stórum hluta landsins hafi verið komið fyrir svonefndum jarðnetum sem grafin séu í jörðu en eigi að auka virkni svæðisins sem fjarskiptasvæðis. Fullyrðingar stefnenda um að eingöngu mjög óverulegur hluti landspildunnar sé nýttur af stefnda eigi því ekki við nokkur rök að styðjast.
Stefnda sé og hafi verið nauðsynlegt að vernda fjarskiptavirki sín fyrir utanaðkomandi truflunum, t.d. frá nálægri byggð eða iðnaðarsvæðum, ásamt því að sporna gegn því að reistar séu óæskilegar byggingar, t.d. með truflandi starfsemi það nærri fjarskiptabúnaðinum eða það hátt í loft upp að starfræksla hans valdi truflunum og óþægindum.
Í bréfi Póst- og símamálastofnunar til Fasteignamats ríkisins þann 15. júlí 1972 sé óskað eftir því að eignir á Rjúpnahæð verði endurmetnar til lækkunar. Skýringin var sú að landsvæðið væri "einkum ætlað að vera óbyggt og án allra venjulegra nytja og hvers konar mannvirkja eða vélvædds atvinnurekstrar, til að fyrirbyggja truflandi áhrif á hina geysinákvæmu og mikilvægu starfsemi sem þar á sér stað á sviði fjarskiptaþjónustu."
Kröfum stefnenda um greiðslu eignarnámsbóta þar sem slíkar bætur hafi ekki verið inntar af hendi við eignarnámið er mótmælt. Verði svo talið að eignarnámsbætur hafi ekki verið greiddar og sú krafa ekki gefin upp verði að telja bótakröfur stefnenda fyrndar, sbr. niðurlagsákvæði 4. gr. laga nr. 14/1905, en skaðabótakröfur, sem og kröfur um greiðslu kaupverðs fasteigna fyrnist á 10 árum. Við þær aðstæður verði einnig að telja að þáverandi eigendur Fífuhvamms hafi aldrei gert ráðstafanir til að innheimta bæturnar og hafi því að auki sýnt af sér mikið tómlæti sem stefnendur verði að bera halla af. Fyrningar- og tómlætissjónarmið séu því í vegi að unnt sé að krefja stefnda nú um eignarnámsbætur að liðnum 43 árum frá því að eignarnámið hafi farið fram. Upphaf fyrningarfrests teljist vera dagsetning yfirmatsgerðar, 21. des. 1946, en til vara megi miða við dagsetningu skiptagerðar frá 25. okt. 1962. Í skiptagerðinni sé því lýst yfir að til eigna dánarbús þáverandi eigenda Fífuhvammsjarðarinnar skuli telja "rétt[] til bótakröfu vegna eignarnáms á landspildu undir Útvarpsstöð ríkisins á Vatnsendahæð, sjá yfirmatsgerð, dags. 21. des. 1946."
Ekki sé útilokað að þáverandi eigendur Fífuhvamms hafi af ráðnum hug látið hjá líða að innheimta eignarnámsbætur. Þann frjálsa vilja þeirra verði þá að virða og leiði lagareglur til þess að stefnendur teljist bundin við þá ráðstöfun þeirra sem þau leiða rétt sinn frá.
Varðandi fjárhæð þrautavarakröfu telur stefndi fráleitt hægt að meta fjárhæð eignarnámsbóta út frá verðgildi landsins nú sem lóða undir íbúðabyggð enda engin lagaskilyrði fyrir slíkri kröfugerð. Með engu móti sé hægt að meta spilduna sem land undir íbúðabyggð. Landið sé fullnýtt af stefnda undir fjarskiptamannvirki. Lega landsins sé auk þess yfir hæstu byggðamörkum. Gildandi aðalskipulag Kópavogsbæjar byggi af þeim sökum á því að Rjúpnahlíð sé að mestu leyti opið svæði til sérstakra nota.
Jafnframt er á því byggt af hálfu stefnda, sbr. gagnstefnu í málinu, að hann hafi öðlast fullan eignarrétt að framangreindri spildu fyrir hefð, sbr. lög nr. 46/1905. Stefndi hafi í góðri trú haft full umráð og óslitið eignarhald á umræddri spildu til fjarskiptastarfsemi sinnar, afmarkað hana og notað undir fjarskiptavirki og sem verndar- og frísvæði fyrir fjarskiptaþjónustu, auk þess sem stefndi hafi greitt alla skatta og skyldur af landspildunni allt frá því að eignarnámið fór fram 1945-6. Skilyrði um 20 ára eignarhald sé því fullnægt, sbr. ákvæði laga nr. 46/1905. Þá hafi spildan athugasemdalaust verið talin eign Landssíma Íslands í uppdráttum og auglýstu skipulagi Kópavogskaupstaðar og í fasteignaskrá Fasteignamats ríksins. Í samningi milli bæjarstjórna Garðabæjar og Kópavogskaupstaðar, dags. 18. maí 1983, sé m.a. rætt um eignarland stefnda við mörk Vífilstaða- og Fífuhvammslands.
Þáverandi eigendur landspildunnar hafi viðurkennt í orði og verki að öllu leyti eignarhald stefnda á landi þessu. Um það er annars vegar vísað til skiptagerðar, dags. 25. okt. 1962, og hins vegar til afsals, dags. 22. ágúst 1980. Í fyrrnefnda skjalinu, skiptagerðinni, sé því lýst yfir, að til eigna dánarbús þáverandi eigenda Fífuhvammsjarðarinnar skuli telja "rétt [] til bótakröfu vegna eignarnáms á landspildu undir útvarpsstöð ríkisins á Vatnsendahæð, sjá yfirmatsgerð, dags. 21. des. 1946." Í þessu felist ótvírætt að eingöngu sé gert tilkall til greiðslu bótakröfu, en eignarréttur sé talinn Landssíma Íslands. Í síðarnefnda skjalinu sé eignarréttur stefnda einnig viðurkenndur með neikvæðri eignaryfirlýsingu, þ.e. þar lýsi þáverandi eigendur jarðarinnar Fífuhvamms því yfir, við afmörkun jarðarinnar við sölu til Kópavogskaupstaðar, að jörðinni tilheyri ekki "land[] Landssíma Íslands", sbr. þó dómsátt um landamerki milli Fifuhvamms og Vífilstaða, sem hafi ekki áhrif í þessu sambandi. Uppdráttur Bæjarverkfræðings Kópavogs af Fífuhvammslandinu þann 20. ágúst 1980 hafi fylgt með afsalinu og skv. honum tilheyri landið Landssíma Íslands. Hvorki í afsalinu né á uppdrættinum sé gerður neins konar fyrirvari þar sem bornar séu brigður á að landið sé eign stefnda. Afsalsgjafar og eigendur Fífuhvamms hafi því augljóslega viðurkennt eignarrétt stefnda á landinu.
Í gagnsök byggir gagnstefnandi á því að með eignarnámsgerð sem fram fór á árunum 1945-1946, sbr. yfirmatsgerð, dags. 21. desember 1946, og með umráðatöku landsins, áður eða um það leyti, hafi gagnstefnandi orðið eigandi að spildu úr jörðinni Fífuhvammi, sem telst vera 51,5077 ha. að stærð. Af hálfu aðalstefnenda séu brigður bornar á eignarrétt gagnstefnanda og því haldið fram að atvik hafi verið með þeim hætti að fallið hafi verið frá eignarráminu. Gagnstefnandi telur að þegar svo stendur á sem hér greinir og þar sem ekki var aflað formlegrar eignarheimildar í kjölfar eignarnámsins, annarrar en yfirmatsgerðar, eigi hann lögvarinn rétt á að krefjast þess að eignarréttur hans verði staðfestur og viðurkenndur með dómi og að skilyrði til að hafa kröfurnar uppi í gagnsakarmáli séu uppfyllt, sbr. 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991.
Gagnstefnandi byggir kröfu sína um staðfestingu og viðurkenningu eignarréttar á því að hann hafi með eignarnámsgerð sem byggði á heimild í þágildandi 17. gr. laga um fjarskipti nr. 30/1941, sbr. yfirmatsgerð, dags. 21. des. 1946, öðlast eignarrétt að ofangreindri spildu úr landi Fífuhvamms og að formleg umráðataka landsins í kjölfar matsgerðarinnar hafi átt sér stað með fullu samþykki þáverandi eigenda Fífuhvamms. Ætla verði að eignarnámsbætur hafi verið greiddar eignarnámsþolum við umráðatökuna. Þó svo að ekki liggi fyrir kvittun fyrir móttöku eignarnámsbótanna verði gagnstefnandi nú, u.þ.b. 55 árum síðar, ekki látinn bera halla af því að halda ekki til haga kvittun fyrir greiðslu bótanna, enda standi engar lagareglur til slíkrar vörsluskyldu. Framgangur eignarnámsins, yfirmatsgerðin og umráð gagnstefnanda á landinu bendi afdráttarlaust til þess að eignarréttur að landinu hafi flust til gagnstefnanda eigi síðar en í kjölfar útgáfu yfirmatsgerðarinnar hinn 21. desember 1946 (eða þá hinn 4. febrúar 1947, sbr. dskj. 24).
Jafnframt er á því byggt af hálfu gagnstefnanda að hann hafi öðlast fullan eignarrétt að framangreindri spildu fyrir hefð, sbr. lög nr. 46/1905. Gagnstefnandi byggir á því að hann hafi í góðri trú haft full umráð og óslitið eignarhald á umræddri spildu til fjarskiptastarfsemi sinnar, afmarkað hana og notað undir fjarskiptavirki og sem verndar- og frísvæði fyrir fjarskiptaþjónustu auk þess sem gagnstefnandi hafi greitt alla skatta og skyldur af landspildunni allt frá eignarnáminu 1945-6. Skilyrði um 20 ára eignarhald sé því fullnægt. Þá hafi spildan athugasemdalaust verið talin eign Landssíma Íslands á uppdráttum og í auglýstu skipulagi Kópavogskaupstaðar og í fasteignaskrá Fasteignamats ríkisins.
Af hálfu gagnstefnanda er einnig á því byggt að þáverandi eigendur landspildunnar hafi í orði og verki viðurkennt að öllu leyti eignarhald gagnstefnanda á landi þessu. Um það er vísað annars vegar til skiptagerðarinnar frá 25. okt. 1962 og afsals frá 22. ágúst 1980. Í skiptagerðinni sé því lýst yfir að til eigna dánarbús þáverandi eigenda Fífuhvammsjarðarinnar skuli telja "rétt[] til bótakröfu vegna eignarnáms á landspildu undir Útvarpsstöð ríkisins á Vatnsendahæð, sjá yfirmatsgerð, dags. 21. des. 1946". Í þessu felist ótvírætt að eingöngu sé gert tilkall til greiðslu bótakröfu en að eignarréttur sé talinn Landssíma Íslands. Í síðar tilnefnda skjalinu sé eignarréttur gagnstefnanda einnig viðurkenndur með neikvæðri eignaryfirlýsingu, þ.e. þar lýsa þáverandi eigendur jarðarinnar Fífuhvamms því yfir við afmörkun jarðarinnar við sölu til Kópavogskaupstaðar að jörðinni tilheyri ekki "land[] Landssíma Íslands", sbr. þó dómsátt um landamerki milli Fífuhvamms og Vífilstaða, sem ekki geti talist hafa áhrif í þessu sambandi.
Verði talið ósannað að eignarnámsbætur hafi verið inntar af hendi, sbr. greinargerð í aðalsök, verði að byggja á því gagnstefnandi hafi þá ekki verið krafinn um greiðslu eignarnámsbóta við eignayfirfærsluna og umráðatökuna og að bótakrafan sé því nú fyrnd, sbr. lög nr. 14/1905. Álitamál um hvort eignarnámsbætur hafi verið inntar af hendi geti því ekki haft áhrif á kröfu gagnstefnanda um viðurkenningu eignarréttar síns. Ekki sé útilokað að þáverandi eigendur Fífuhvamms hafi af ráðnum hug látið hjá líða að innheimta eignarnámsbætur. Þann frjálsa vilja þeirri verði þá að virða og leiði lagareglur til þess að gagnstefndu teljist bundin við þá ráðstöfun þeirra sem þau leiða rétt sinn frá.
Gagnstefnandi vísar til almennra reglna eignar- og kröfuréttar, laga nr. 61/1917 um framkvæmd eignarnáms og fjarskiptalaga nr. 30/1941, sbr. og lög nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um heimild til gagnstefnu er vísað til 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991.
Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslu fyrir dómi matsmennirnir Freyr Jóhannesson tæknifræðingur og Jón Guðmundsson fasteignasali, Þórólfur Beck hrl., fyrrum bæjarlögmaður Kópavogskaupstaðar, stefnandinn Magnús Ingjaldsson, Magnús Skarphéðinsson Waage rafmagnsverkfræðingur, starfsmaður stefnda, Ólafur Árnason símamaður, starfsmaður stefnda, Garðar Guðjónsson, fyrrverandi starfsmaður stefnda,
Niðurstaða
Aðalkrafa stefnenda er á því byggð að eignarnámið hafi í raun aldrei farið fram með fullnægjandi hætti.
Þá er Póst- og símamálastjórnin krafðist eignarnáms á hluta úr Vatnsendalandi, hluta úr Vífilsstaðalandi og þrætulandi Vífilsstaða og Fífuhvamms, en þar á meðal var spilda sú sem er grundvöllur máls þessa, var heimild í 17. gr. þágildandi laga um fjarskipti nr. 30/1941 til eignarnáms á landi vegna starfsemi fjarskiptavirkja ríkisins. Eignarnám þetta var byggt á stjórnvaldsákvörðun sem ekki var hnekkt og studdist við lagaheimild, sbr. þágildandi 67. gr. stjórnarskrárinnar, en samkvæmt þeirri grein skyldi fullt verð koma fyrir það land sem látið var af hendi. Verð landsins var metið í samræmi við þágildandi ákvæði laga um framkvæmd eignarnáms nr. 61/1917. Yfirmatsgjörð er dags. 21. des. 1946.
Í skjölum málsins kemur fram að eignarnemi greiddi fyrir landsspilduna úr landi Vatnsenda og þinglýsti eignarheimild.
Stefndi hefur ekki sýnt fram á að hann hafi nokkru sinni greitt fyrir landsspilduna úr landi Fífuhvamms og ekki lét stefndi þinglýsa eignarheimild sinni. Samkvæmt 11. gr. laga nr. 61/1917 skyldi endurgjald fyrir eignarnumið land greitt sem fyrst eftir að upphæðin hafði verið ákveðin.
Sé það svo að stefndi hafi ekki greitt fyrir landið þá er óupplýst hvers vegna. En í stefnu segir m.a. að eigendur Fífuhvamms hafi ávallt verið ósáttir við eignarnámið og því hafi ekki verið gerður sérstakur reki að því að innheimta matsfjárhæðina fyrr en nú þegar fyrir liggi að bjóða út hlutafé í stefnda, m.a. til almennings.
Þegar til þess er litið að eignarnemi tók þegar við umráðum landsins, girti landið, lét reisa þar fjarskiptavirki og byggði hús vegna starfseminnar, án þess að séð verði að umráðatökunni hafi nokkru sinni verið mótmælt, þá verður ekki á það fallist með stefnendum, að það, að ósannað er að greiðsla hafi verið innt af hendi, valdi því að líta beri svo á að eignarnámið hafi í raun aldrei farið fram með fullnægjandi hætti eða að forsendur fyrir eignarnáminu hafi brostið. Hér er og á það að líta að í ýmsum skjölum málsins svo sem skiptagjörð erfingja eigenda Fífuhvamms, dags. 25. okt. 1962, og afsali eigenda Fífuhvamms á jörðinni Fífuhvammi til Kópavogskaupstaðar, dags. 22. ágúst 1980, virðast eigendur Fífuhvamms hafa viðurkennt eignarnámið
Ekki skiptir máli við niðurstöðu máls þessa að yfirmatsgerðinni var ekki þinglýst sem eignarheimild að hinni eignarnumdu spildu.
Varakrafa stefnenda um ógildingu eignarnámsins er á því byggð í fyrsta lagi að stefndi hafi ekki innt af hendi greiðslu fyrir hið eignarnumda. Varðandi þetta atriði vísast til þess sem að framan var rakið um ósannaða greiðslu stefnda og ástæðu þess.
Í öðru lagi er varakrafa stefnenda á því byggð að stefndi hafi ekki nýtt umrædda spildu nema að afar litlu leyti undir starfsemi sína. Þegar litið er til þess sem fram kemur í skjölum málsins og við skýrslutöku í málinu um nýtingu stefnda á landspildunni, þá verður að telja að sýnt hafi verið nægilega fram á að landið hafi, eftir umráðatöku stefnda, verið tekið til notkunar í eðlilegu samræmi við tilgang eignarnámsins undir fjarskiptamannvirki eða sem verndar- og öryggissvæði þeim tengt. Verður því ekki á það fallist með stefnendum að landið hafi ekki verið nýtt til þeirra þarfa sem ákvörðun um eignarnám var réttlætt með.
Þrautavarakrafa stefnenda er byggð á niðurstöðu dómkvaddra matsmanna varðandi verðmæti landsspildunnar og rökstudd með því að verðmat það sem fyrir liggur frá árinu 1946 gefi ekki raunhæfa mynd af verðmæti landsins nú, jafnvel þótt sú fjárhæð væri framreiknuð til dagsins í dag.
Hafi stefndi ekki greitt eigendum Fífuhvamms eignarnámsbætur í samræmi við yfirmatsgjörðina frá 21. des. 1946 þá er krafa um bætur vegna eignarnámsins niðurfallin fyrir fyrningu samkvæmt 4. gr. laga nr. 14/1905.
Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið er stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnenda í málinu.
Gagnstefnandi hefur haft full umráð og not hins umdeilda lands allt frá dagsetningu yfirmatsgerðarinnar 21. des. 1946 eða fyrr. Ekkert er fram komið um athugasemdir eigenda Fífuhvamms vegna umráða gagnstefnanda á landinu. Þvert á móti teljast eigendur Fífuhvamms hafa viðurkennt umráð gagnstefnanda, m.a. í áðurnefndri skiptagerð frá 25. okt. 1962 og afsali frá 22. ágúst 1980. Skilyrði 1. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905 um 20 ára eignarhald er því fullnægt, enda hefur ekki verið sýnt fram á að 2. eða 3. mgr. tilvitnaðrar greinar eigi við um atvik máls þessa.
Krafa gagnstefnanda er því tekin til greina.
Eftir þessari niðurstöðu ber samkvæmt 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að dæma stefnendur til greiðslu málskostnaðar í aðalsök og gagnsök. Eftir atvikum telst hæfilegt að stefnendur greiði stefnda 500.000 kr. í málskostnað.
Auður Þorbergsdóttir héraðsdómari dæmir málið.
D ó m s o r ð:
Stefndi, Landssími Íslands hf., skal vera sýkn af kröfum stefnenda, Ísaks Þórs Þorkelssonar, Guðmundar Þorkelssonar, Margrétar Guðmundsdóttur v. dánarbús Antons Ísakssonar, Bjarneyjar Kristínar Viggósdóttur, Jóhannesar Viggóssonar, Málfríðar Ólínu Viggósdóttur, dánarbús Ísaks Þóris Viggóssonar, Magnúsar Ingjaldssonar, Brynhildar Ingjaldsdóttur og Ragnars Magnússonar v. dánarbús Þórunnar Ingjaldsdóttur.
Viðurkenndur er eignarréttur gagnstefnanda, Landssíma Íslands hf., á 51,5077 ha. spildu úr landi Fífuhvamms, Kópavogi, sem afmörkuð er á uppdrætti bæjarverkfræðingsins í Kópavogi, dags. 21. nóvember 1988, sbr. dskj. nr. 24, ("eignarnám 4. febr. 1947, stærð í lögsögu Kópavogs 51,5077").
Stefnendur greiði stefnda in solidum 500.000 kr. í málskostnað.