Hæstiréttur íslands
Mál nr. 164/2000
Lykilorð
- Akstur sviptur ökurétti
|
|
Fimmtudaginn 14. september 2000. |
|
Nr. 164/2000. |
Ákæruvaldið (Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari) gegn Ágústi Liljan Sigurðssyni (Sigurður Georgsson hrl.) |
Akstur án ökuréttar.
Á var ákærður fyrir akstur án ökuréttar. Var niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu og refsingu staðfest og Á dæmdur til fangelsisrefsingar, en um var að ræða margítrekað brot.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 7. apríl 2000 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst nú staðfestingar héraðsdóms.
Ákærði krefst þess að refsing verði milduð.
Málið var höfðað með ákæru 1. desember 1998, þar sem ákærða var gefið að sök að hafa brotið gegn nánar tilteknum ákvæðum umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum með því að hafa ekið bifreið ölvaður og sviptur ökurétti 4. nóvember sama árs. Var málið þingfest 11. desember 1998, en frestað vegna forfalla ákærða til 12. janúar 1999. Á dómþingi þann dag gekkst ákærði við að hafa ekið bifreið umrætt sinn sviptur ökurétti, en vefengdi hins vegar niðurstöðu öndunarsýnis um vínandamagn í blóði vegna þess að hann hafi neytt lyfja, sem áhrif gætu haft á hana. Var málinu frestað til nánari athugunar á þessu og ekki tekið fyrir á ný fyrr en 12. janúar 2000, en þann dag var á dómþingi lýst yfir af hálfu ákæruvalds að fallið væri frá sakargiftum um ölvunarakstur. Málið var síðan munnlega flutt í héraði 13. mars 2000 og hinn áfrýjaði dómur kveðinn upp sama dag.
Niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu ákærða verður staðfest. Er brot hans réttilega heimfært til refsiákvæða.
Ákærði hlaut frá árinu 1981 og þar til mál þetta var höfðað 30 refsidóma fyrir þjófnað, fjársvik, skjalafals, brot gegn 157. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, eignaspjöll, nytjastuld, umferðarlagabrot, brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni og brot gegn lögum um skotvopn, sprengiefni og skotelda, auk þess að gangast fjórum sinnum undir dómsátt fyrir brot gegn umferðarlögum, áfengislögum og almennum hegningarlögum. Með þessum dómum var ákærði sviptur ökurétti ævilangt á árunum 1983 og 1985, tvívegis 1989, þrívegis 1990 og tvívegis hvert áranna 1993, 1994 og 1997. Að þessu gættu er refsing ákærða hæfilega ákveðin með hinum áfrýjaða dómi.
Samkvæmt þessu verður héraðsdómur staðfestur. Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Ágúst Liljan Sigurðsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sigurðar Georgssonar hæstaréttarlögmanns, 30.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. mars 2000.
Málið er höfðað með ákæru lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettri 1. desember 1998 á hendur ákærða, Ágústi Liljan Sigurðssyni, kt. 021164-4889, Vesturgötu 18, Hafnarfirði, "fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreiðinni R-49770, aðfaranótt miðvikudagsins 4. nóvember 1998, undir áhrifum áfengis og sviptur ökurétti frá veitingahúsinu A Hansen í Hafnarfirði til Reykjavíkur, þar sem lögregla stöðvaði aksturinn á Miklubraut við Stakkahlíð.
Þetta telst varða við 1. sbr. 2. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50,1987, sbr. l. gr. laga nr. 48,1997 og 3. gr. laga nr. 57,1997.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. og 26. gr. laga nr. 44,1993 og 2. gr. laga nr. 23,1998".
Fallið hefur verið frá ákæru að því er varðar ölvun við akstur.
Málavextir.
Ákærði hefur skýlaust játað það brot sem hann er saksóttur fyrir. Hefur hann orðið sekur um athæfi það sem lýst er í ákærunni og réttilega er þar fært til refsiákvæða.
Ákærði hefur frá árinu 1981 hlotið 30 refsidóma fyrir þjófnað, fjársvik, skjalafals, brot gegn 157. gr. almennra hegningarlaga, nytjastuld, umferðarlagabrot og brot gegn fíkniefnalöggjöfinni. Þá hefur ákærði gengist undir 4 dómsáttir, aðallega fyrir umferðar- og áfengislagabrot, en síðasta dómsáttin er frá árinu 1987. Ákærði var dæmdur 16. nóvember 1994 í 1 árs fangelsi fyrir margítrekaða ölvun og réttindaleysi við akstur og var þá áréttuð ævilöng ökuréttindasvipting hans. Var sá dómur staðfestur með dómi Hæstaréttar 2. mars 1995. Áður hafði ákærði verið dæmdur til ævilangrar ökuleyfissviptingar sem hér segir: Árið 1983, 1985, 1989 (tvívegis), 1990 (þrívegis), 1993, 1994 (tvívegis). Þá var hann sakfelldur 10. mars 1995 fyrir brot gegn 179. gr. laga nr. 34,1964 um loftferðir, en ekki gerð refsing. Þann 20. júlí sl. hlaut hann reynslulausn á eftirstöðvum refsingar, 380 dögum. Með þjófnaðarbrotum sem hann var sakfelldur fyrir með dómi 10. mars sl. rauf hann skilorð framangreindrar reynslulausnar og voru eftirstöðvarnar dæmdar með þeim dómi, en þá var hann dæmdur í 18 mánaða fangelsi. Þá var ákærði dæmdur í 10 mánaða fangelsi í júní 1997 fyrir ýmisleg umferðarlagabrot, þar með talið réttindaleysi við akstur. Loks var honum tvisvar gerð 30 daga fangelsisvist í hegningarauka 1997 og í febrúar 1998 fyrir
réttindaleysi við akstur. Brot ákærða nú er margítrekað og þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 3 mánuði.
Dæma ber ákærða til þess að greiða verjanda sínum, Sigurði Georgssyni hrl., 30.000 krónur í málsvarnarlaun en annan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun til verjandans, 30.000 krónur, skal greiða úr ríkissjóði.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
Dómsorð:
Ákærði, Ágúst Liljan Sigurðsson, sæti fangelsi í 3 mánuði.
Ákærði greiði verjanda sínum, Sigurði Georgssyni hrl., 30.000 krónur í málsvarnarlaun. Úr ríkissjóði greiðist annar sakarkostnaður, þar með talin 30.000 króna málsvarnarlaun til verjandans.