Hæstiréttur íslands

Mál nr. 514/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Aðildarhæfi
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
  • Sératkvæði


Föstudaginn 16

 

Föstudaginn 16. desember 2005.

Nr. 514/2005.

Skógræktarfélagið Hnúki

(Hilmar Magnússon hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Skarphéðinn Þórisson hrl.)

 

Kærumál. Aðildarhæfi. Frávísunarúrskurður héraðsdóms felldur úr gildi. Sératkvæði.

S höfðaði mál á hendur Í og krafðist bóta vegna haldlagningar á traktorsgröfu. Héraðsdómari taldi að S hefði ekki  aðildarhæfi að dómsmáli og var málinu vísað frá héraðsdómi af sjálfsdáðum. Í dómi Hæstaréttar var talið að frávísun héraðsdómara hefði verið réttmæt en fyrir Hæstarétt hefðu verið lögð ný gögn, sem  sýndu nægilega fram á að S væri almennt félag og uppfyllti sem slíkt skilyrði 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála til að geta verið aðili að málinu. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Guðrún Erlendsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. desember 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. nóvember 2005, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Hann krefst þess jafnframt að ákvörðun héraðsdómara um gjafsóknarlaun lögmanns hans verði breytt til hækkunar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi og varnaraðili dæmdur til að greiða kærumálskostnað án tillits til gjafsóknar, sem sóknaraðila hefur verið veitt í kærumáli þessu.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I.

Lögregla gerði leit á jörðinni Skarðsá í Dalabyggð 18. júní 2003 vegna gruns um undanskot eigna nafngreinds einkahlutafélags, en bú þess var tekið til gjaldþrotaskipta skömmu eftir að ætlað undanskot eigna þess varð. Lagði lögregla þá meðal annars hald á traktorsgröfu, sem talin var tilheyra þrotabúinu. Var hún fjarlægð af jörðinni, en skilað aftur síðar. Atvikum málsins er nánar lýst í hinum kærða úrskurði. Málatilbúnaður sóknaraðila er á því reistur að hann sé eigandi gröfunnar og hafi beðið tjón við það að vera sviptur umráðum hennar um tíma vegna aðgerða lögreglunnar.

Við meðferð málsins tók héraðsdómari af sjálfsdáðum til úrlausnar hvort sóknaraðili teldist geta notið aðildarhæfis að dómsmáli samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Kemur fram í forsendum hins kærða úrskurðar að af hálfu sóknaraðila sé haldið fram að hann sé almennt félag en ekki sjálfseignarstofnun og að lagt hafi verið fram í málinu ljósrit af umsókn til Hagstofu Íslands 30. nóvember 1989 um kennitölu fyrir félagið. Sé félagsins getið í fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra. Að öðru leyti liggi engin gögn fyrir um mörg atriði varðandi sóknaraðila, sem þó skipti máli, svo sem um stofnun hans, samþykktir, félagsform, stjórn og fleira. Til þess að um geti verið að ræða almennt félag, sem beri rétt og skyldu að landslögum, verði þó að gera kröfu til þess að um sé að ræða einhvers konar skipulagða samvinnu einstaklinga, sem stofnað hefur verið til í ákveðnum tilgangi. Félag verði óhjákvæmilega að styðjast við einhvers konar stofnsamþykkt eða ígildi hennar, þar sem kveðið sé á um eðli þessarar samvinnu, svo sem grunnskipulag hennar, stjórn og fyrirsvar. Þessari lágmarkskröfu sé ekki fullnægt í tilviki sóknaraðila og breyti þá engu þótt hann hafi verið skráður opinberri skráningu, fengið úthlutað kennitölu og átt athugasemdalaust í ýmsum lögskiptum bæði við einkaaðila og opinberar stofnanir. Taldi héraðsdómari að þessu virtu að sóknaraðili uppfyllti ekki skilyrði til að bera réttindi og skyldur að íslenskum rétti þannig að hann gæti verið aðili að dómsmáli, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Vísaði hann málinu við svo búið frá dómi.

II.

Við meðferð málsins hefur komið fram af hálfu sóknaraðila að formaður félagsins og annar nafngreindur maður hafi um sumarið 1989 keypt jörðina Hnúk í Dalabyggð. Hafi þeir ásamt eiginkonum sínum skömmu síðar stofnað sóknaraðila til að vinna að tilteknum markmiðum. Sóknaraðili hefur lagt fyrir Hæstarétt svokallaða „dag- og gestabók“, sem sögð er tilheyra jörðinni. Er sú skýring gefin að í hana hafi eigendurnir og aðrir í fjölskyldum þeirra skráð sitthvað viðvíkjandi jörðinni í heimsóknum þangað, auk þess sem gestir hafi ritað þar nöfn sín. Bókin sé jafnframt fundargerðabók fyrir sóknaraðila. Er sérstök athygli vakin á skráningu í þessa bók undir fyrirsögninni „29. sept. til 1. okt. 1989“, en fram kemur að þá daga hafi eigendurnir dvalið á jörðinni með fjölskyldum sínum. Er meðal annars skráð að fundur hafi þá verið haldinn í því skyni að „stofna formlegan félagsskap utan um skógræktina“. Segir síðan að samþykkt hafi verið „nokkuð stöðluð lög fyrir félagið“, sem þó kynnu að breytast síðar, „en þau hljóða þannig: Félagið heitir Skógræktarfélagið Hnúki og skal aðsetur og varnarþing þess vera að Hnúki, Fellsstrandarhreppi, Dalasýslu. Tilgangur félagsins er landgræðsla og skógrækt í Fellsstrandahreppi, Dalasýslu og e.t.v. víðar. Þátttaka í félaginu er öllum heimil með samþ. stjórnar. Stjórn félagsins er kosin á fundi og skal skipuð einum manni og öðrum til vara. Fundi skal halda eftir þörfum og ef félagsmenn óska. Stjórn félagsins fer með öll málefni félagsins. Þannig voru lögin samþykkt í stássstofunni að Hnúki anno 30. sept. 1989.“ Segir síðan að Sveinn Skúlason yrði í stjórn en Þórólfur Halldórsson varamaður. Þessi skráning í bókina er óundirrituð, en þó má ráða að stofnendur félagsins hafi verið tveir eigendur jarðarinnar og eiginkonur þeirra auk tveggja annarra nafngreindra manna. Í greinargerð sóknaraðila til Hæstaréttar segir loks að með stofnun félagsins hafi félagsmenn ekki tekið að sér ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum þess.

III.

Að framan var lýst þeim ástæðum, sem leiddu til þess að málinu var vísað frá héraðsdómi, en vegna vanreifunar um hæfi sóknaraðila til að geta verið aðili að dómsmáli verður sú niðurstaða héraðsdómara ekki vefengd. Með gagnaöflun sinni fyrir Hæstarétti hefur sóknaraðili leitast við að bæta úr þessu. Má fallast á að fundargerð, sem getið var að framan, geti talist ígildi einhvers konar stofnsamþykktar fyrir sóknaraðila. Er þannig nægilega fram komið að sóknaraðili uppfylli skilyrði samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 til að geta verið aðili að málinu. Verður hinn kærði úrskurður samkvæmt því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnisúrlausnar.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af þessum þætti málsins í héraði og fyrir Hæstarétti. Ákvörðun um gjafsóknarlaun bíður endanlegs dóms í héraði að öðru leyti en því að gjafsóknarkostnaður sóknaraðila fyrir Hæstarétti verður ákveðinn eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, Skógræktarfélagsins Hnúka, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, 125.000 krónur.

 

                                                                                               

Sératkvæði

Jóns Steinars Gunnlaugssonar

Ég er sammála meirihluta dómenda um niðurstöðu málsins en tel að forsendur fyrir henni í III. kafla atkvæðis þeirra ættu að vera svofelldar:

Stofnun almennra félaga er ekki formbundin að íslenskum rétti. Þannig er ekkert því til fyrirstöðu að menn stofni með munnlegu samkomulagi félög, sem geta átt réttindi og borið skyldur að landslögum sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Bendir dómaframkvæmd til þess að það eitt nægi til aðildarhæfis ópersónulegs aðila, að tveir eða fleiri menn hafi ákveðið að gefa einhverju markmiði sínu eða áhugamáli sérstakt nafn, án þess að slík ákvörðun þurfi að vera staðfest skriflega.

Í héraði lagði sóknaraðili fram skjal sem hafði að geyma umsókn til fyrirtækjaskrár Hagstofu Íslands 30. nóvember 1989, þar sem fram koma margvíslegar upplýsingar um hann, meðal annars um nafn, heimilisfang, tilgang, fjóra nafngreinda einstaklinga sem sagðir voru standa að honum og um „ábyrgðarmann“. Er hér um að ræða upplýsingar sem teljast meira en fullnægjandi til þess að héraðsdómara hafi borið að fallast á að sóknaraðili nyti aðildarhæfis samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Verður hinn kærði úrskurður samkvæmt þessu felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnisúrlausnar.

Ég er sammála úrlausn meirihluta dómenda um kærumálskostnað og gjafsóknarkostnað sóknaraðila fyrir Hæstarétti.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. nóvember 2005.

Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 15. mars 2005 og dómtekið 14. nóvember sl. Stefnandi er Hnúki, skógræktarfélag, Flókagötu 67, Reykjavík. Stefndi er fjármálaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins, Arnarhváli, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu 3.032.270 króna ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 18. júní 2003 til greiðsludags. Hann krefst einnig málskostnaðar, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

Stefndi krefst sýknu auk málskostnaðar.

Í tilefni af upplýsingum sem fram komu í aðilaskýrslu fyrirsvarsmanns stefnanda  við aðalmeðferð málsins 14. nóvember sl. beindi dómari því til stefnanda, með vísan til 2. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, að afla gagna um félagsform stefnanda eða færa fram nánari skýringar á því, allt í þeim tilgangi að upplýsa um aðildarhæfi stefnanda. Af hálfu stefnanda voru lögð fram af þessu tilefni gögn um skráningu stefnanda í fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra. Var því lýst yfir af hálfu stefnanda við þetta tækifæri að þessi gögn fælu í sér fullnægjandi skýringar á því atriði sem dómari óskaði upplýsinga um og var ekki óskað eftir fresti til að afla frekari gagna í þessum tilgangi. Með hliðsjón af því að lögmaður stefnanda lýsti sig reiðubúinn að flytja málið þegar í stað og ekki voru gerðar athugasemdir af hálfu stefnda fór fram munnlegur málflutningur og var málið dómtekið að málflutningi loknum, eins og áður greinir.

I.

Málsatvik

Atvik málsins eru að meginstefnu ágreiningslaus.

Hinn 18. júní 2003 fór fram á vegum ríkislögreglustjóra leit á jörðinni Skarðsá í Dalabyggð samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 16. sama mánaðar. Eigandi jarðarinnar var Unnsteinn Eggertsson, en á jörðinni var jafnframt rekin útgerð á vegum Salthólma ehf. og starfaði Unnsteinn hjá því félagi á þessum tíma, ef marka má skýrslu hans fyrir dómi. Samkvæmt forsendum í leitarúrskurði héraðsdóms lá fyrir rök­studdur grunur um að nefndur Unnsteinn hefði komið undan eignum í eigu Kraftvaka ehf. og Kvarða-Afls ehf. sem hann hafði áður verið í fyrirsvari fyrir, en félögin höfðu verið tekin til gjaldþrotaskipta 9. janúar og 12. mars 2003. Segir í forsendunum að grunur liggi fyrir um að komið hafi verið undan munum, svo sem verkfærum, vinnuvélum og skrifstofu- og tölvubúnaði. Var talið að með þessu kynni Unnsteinn að hafa gerst sekur um brot gegn 247. og 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og bæri því með vísan til 1. mgr. 90. gr., sbr. 89. gr. laga nr. 19/1991 að heimila leit á jörðinni.

Við umrædda leit var lagt hald á ýmislegt lausafé sem talið var vera í eigu fyrrnefndra félaga. Meðal annars var lagt hald á traktorsgröfu af gerðinni JCB sem Kraftvaki ehf. mun hafa selt Kvarða-Afli ehf. 1. júlí 2002. Samkvæmt gögnum málsins hafði Kvarði-Afl ehf. selt stefnanda gröfuna 26. janúar 2003 og kaupverðið verið 510.450 krónur. Samkvæmt framburði fyrirsvarsmanns stefnanda, Sveins Skúlasonar, og Unnsteins Eggertssonar fyrir dómi var kaupverðið greitt með tékka sem framseldur var til Löglistar ehf. sem er fyrirtæki í eigu Sveins Skúlasonar. Í málinu liggur fyrir tilkynning um eigendaskipti að gröfunni árituð um móttöku hjá Vinnueftirlitinu 17. febrúar 2003. Í málinu liggur jafnframt fyrir ljósrit greiðslukvittunar dagsett 26. janúar 2003 og ljósrit tékka að fjárhæð 510.450 krónur. Þá var lagt fram við upphaf aðalmeðferðar málsins ljósrit reiknings Kvarða-Afls ehf. vegna viðskiptanna og er reikningurinn dagsettur er 6. febrúar 2003. Er jafnframt áritað á reikninginn að hann hafi verið greiddur 6. febrúar 2003.

Í stefnu kemur fram að fulltrúa ríkislögreglustjóra hafi ítrekað verið gerð grein fyrir því að umrædd traktorsgrafa væri eign stefnanda, en ekki Unnsteins Eggertssonar. Bera gögn málsins með sér að þann dag sem leitin fór fram hafi fulltrúa ríkislögreglustjóra verið send gögn um skráningu vélarinnar á nafn stefnanda og gögn um kaup stefnanda á vélinni frá Kvarða-Afli ehf. Þá er ágreiningslaust að fyrirsvarsmaður stefnanda hafði margoft samband við fulltrúa ríkislögreglustjóra eftir að hald hafði verið lagt á vélina, í þeim tilgangi að fá haldlagningu aflétt.

Eftir að hald hafði verið lagt á gröfuna var henni ekið um 40 km á Þurranes í Dalasýslu á vegum lögreglunnar. Var hún geymd þar á vegum lögreglunnar allt þar til haldi var aflétt af vélinni 29. ágúst 2003. Þá var vélin afhent Kristjáni Ólafssyni hrl., skiptastjóra þrotabúa Kraftvaka ehf. og Kvarða-Afls ehf. Samkvæmt því sem fram kemur í stefnu upplýsti fulltrúi ríkislögreglustjóra fyrirsvarsmann stefnanda í rafskeyti 4. september 2003 um afhendingu gröfunnar til skiptastjóra. Með bréfi 16. sama mánaðar féllst skiptastjóri á að afhenda stefnanda vélina. Samkvæmt því sem fram kom í skýrslu Sveins Skúlasonar fyrir dómi fóru tveir menn á hans vegum, þar á meðal Unnsteinn Eggertsson, og náðu í vélina að Þurranesi og óku henni til baka að Skarðsá. Með bréfi 30. september 2004 tilkynnti ríkislögreglustjóri Sveini Skúlasyni, fyrirsvarsmanni stefnanda, að mál lögreglunnar gegn Unnsteini Eggertssyni hefði verið fellt niður.

Samkvæmt gögnum málsins voru tildrög framangreindrar rannsóknaraðgerða lögreglunnar kvörtun Kristjáns Ólafssonar hrl., skiptastjóra þrotabúa Kraftvaka ehf. og Kvarða-Afls ehf. Í málinu liggur fyrir greinargerð skiptastjórans 6. febrúar 2003 um ráðstafanir eigna á vegum Kraftvaka ehf. þar sem m.a. kemur fram að 1. júlí 2002 hafi töluverðar eignir verið yfirfærðar frá félaginu til Kvarða-Afls ehf. Samkvæmt framburði skiptastjórans fyrir dómi er líklegt að umrædd grafa hafi verið seld Kvarða-Afli ehf. á þessum tíma, en engin skjöl liggi fyrir um hvernig grafan fluttist frá Kraftvaka ehf. til Kvarða-Afls ehf. Í leitarúrskurði héraðsdóms 16. júní 2003 kemur fram að skiptastjóri hafi óskað eftir rannsókn lögreglu 27. mars 2003. Afrit af þeirri beiðni skiptastjóra hefur þó ekki verið lagt fram í málinu. Hins vegar liggur fyrir í málinu bréf Lögreglustjórans í Reykjavík þar sem beiðni skiptastjóra um rannsókn er framsend ríkislögreglustjóra. Kemur fram í beiðninni að beiðni skiptastjóra sé frá 9. maí 2003 en afrit þeirrar beiðni hefur heldur ekki verið lagt fram í málinu. Í skýrslu sinni fyrir dómi bar umræddur skiptastjóri, Kristján Ólafsson hrl., að athuganir hans sem skiptastjóra hefðu leitt í ljós að eignir Kraftvaka ehf., þ. á m. bókhald félagsins, hefðu verið færðar yfir á nafn Kvarða-Afls ehf. og þær fluttar úr húsakynnum Kraftvaka ehf. Þá hefði hann fengið upplýsingar frá ónafngreindum manni um að þessum eignum hefði verið komið fyrir á ýmsum stöðum, þ. á m. á fyrrnefndri jörð Unnsteins í Dalasýslu. Hafi þetta verið ástæðan fyrir beiðni hans um lögreglurannsókn. Hann upplýsti fyrir dómi að ekki hefði komið til þess að þrotabúið krefðist riftunar á ráðstöfun Kraftvaka ehf. á umræddri gröfu til stefnanda eða greiðslu á umræddri skuld Löglistar ehf. með gröfunni.

Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslu fyrir dómi Sveinn Skúlason, fyrir­svars­maður stefnanda, Kristján Ólafsson hrl., Hjalti Pálmason fyrrverandi fulltrúi ríkis­lögreglu­stjóra og Unnsteinn Eggertsson. Í skýrslu þess síðastnefnda kom fram að Salthólmi ehf. hefði haft umrædda gröfu á leigu á þeim tíma sem leitin og hald­lagningin fór fram. Hafi verið um það samið að skrifaðir yrðu tímar á vélina eftir því sem hún væri í notkun. Enginn skriflegur samningur hafi verið gerður um vélina og ekkert hafi legið fyrir um í hversu marga tíma hafi átt að nota hana eða hvert tímagjald hefði átt að vera. Aðspurður sagði Unnsteinn að ekki hefði verið um það samið að grafan væri nýtt 8 klst. á dag fimm daga vikunnar. Í skýrslu Hjalta Pálmasonar kom fram að meginástæða haldlagningar gröfunnar hefði verið grunur um að umráð hennar að Skarðsá væru tilkomin með refsiverðum hætti og því væri nauðsynlegt að leggja hald á hana í þeim tilgangi að koma henni til rétts eiganda. Að öðru leyti er ekki ástæða til að rekja skýrslur við aðalmeðferð málsins sérstaklega.

II.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi vísar til þess að ríkislögreglustjóri hafi tekið umrædda vinnuvél í vörslu sína fullkomlega meðvitaður um að vélin væri eign stefnanda og þrátt fyrir ítrekaðar viðvaranir um ólögmæti aðgerðar sinnar hafi hann daufheyrst við ábendingum og aðvörunum um að verið væri að brjóta á eignar- og umráðarétti stefnanda. Jafnvel þótt ljóst væri að umrædd vinnuvél færi hvergi á næstunni úr þeirri vinnu sem hún var leigð til og vegna reksturs stefnanda hafi ríkislögreglustjóri samt sem áður ákveðið að leggja hald á vélina án nægilegs tilefnis, en sú aðgerð hafi eingöngu verið til þess fallin að valda stefnanda fjártjóni auk verulegra óþæginda eins og síðar hafi verið staðfest. 

Í ljós hafi komið að mál það, sem ríkislögreglustjórinn grundvallaði aðgerðir sínar á, hafi verið fellt niður og því hvorki fyrr né síðar verið nokkurt tilefni til hinnar framangreindu tilefnislausu aðgerðar. Þá hafi vélinni hvorki verið skilað aftur til eiganda síns af haldlagningaraðila, svo sem honum bar lögum samkvæmt, né honum tilkynnt um ráðstöfun vélarinnar eða lok málsins fyrr en eftir því var gengið. Liggi þannig fyrir að stefnandi hafi að ófyrirsynju sætt ólögmætri aðgerð af hálfu ríkislögreglustjóra er hafi valdið honum miklu tjóni. Ríkislögreglustjóra hafi borið að flýta rannsókn sinni til að staðreyna réttmæti haldlagningar, þar sem um skráða eign þriðja aðila var að ræða sem notuð var í atvinnurekstri hans, en stefnandi sé skógræktarfélag og grundvallaðist starf félagsins m.a. á því að geta notað umrædda gröfu. Ekki sé að sjá í gögnum máls að ríkislögreglustjóri hafi gætt að þessu atriði. Hafi hann dregið rannsóknina án nokkurs tilefnis og í raun aldrei hafið eiginlega rannsókn gagnvart stefnanda og þannig stuðlað að því að tjón stefnanda varð enn umfangsmeira en ella. Ríkislögreglustjóra hafi með sama hætti borið að aflétta haldlagningu um leið og skilyrði voru til þess, en það hafi í síðasta lagi verið þegar fyrirsvarsmaður stefnanda hafði skömmu eftir haldlagningu lagt fram nauðsynleg gögn er sönnuðu eignarhald hans á gröfunni. Hafi engar skýringar komið fram hjá ríkislögreglustjóra hvers vegna haldlagning stóð yfir í jafn langan tíma og raun varð á og af hverju eign stefnanda var afhent Kristjáni Ólafssyni hrl. skiptastjóra til vörslu og geymslu, en sönnunarbyrðina um það beri stefndi.

Stefnandi telur að beinn kostnaður stefnanda af aðför ríkislögreglustjóra sé vegna tekjutaps fyrir skert útlán vinnuvélar, ferða- og flutningskostnaður, en félagið hafi ekki getað haldið áfram þeim verkum er fyrir lágu sumarið 2003 eins og til stóð. Afleiðingarnar hafi verið þær að fresta þurfti gróðursetningu fjölmargra plantna um eitt ár. Stefnandi hafi á engan hátt verið valdur að eða stuðlað að því að hann sætti þeim aðgerðum sem ríkislögreglustjóri beitti og telja verði fullkomlega óforsvaranlegar og gagnrýniverðar svo og eftirfarandi athafnir hans.

Þar sem stefnandi hafi saklaus verið dreginn inn í rannsókn ríkislögreglustjóra, vegna gálausra og óforsvaranlegra vinnubragða rannsóknaraðila, telur stefnandi að leggja beri ábyrgð á fjártjóni á ríkissjóð sbr. ákvæði í lögum um meðferð opinberra mála nr. 19/1991. Stefnandi, og í raun félagsmenn stefnanda, hafi orðið saklausir þolendur að grófri aðför vegna hinna gálausu athafna ríkislögreglustjórans, sem og af langvarandi sinnuleysi um að ljúka málinu gagnvart stefnanda, sem hafi orðið að ganga stíft á eftir rannsóknaraðilum til þess að fá niðurstöðu um afdrif málsins. Gerir stefnandi því ítrustu kröfur til skaðabóta úr hendi stefnda og reisir kröfur sínar á almennum reglum skaðabótaréttarins og ákvæðum XXI. kafla laga nr. 19/1991, einkum greinum 175. og 176. 

Stefnandi sundurliðar stefnukröfu sína með eftirfarandi hætti:

1. Útseldur tími vinnuvélar (án vsk.) 536 klst. x 4.500.-

kr. 2.412.000.-

2. Flutningur vélar til og frá Þurranesi 2 x 40 km á kr. 112.-

 kr.        8.960.-

3. Laun tveggja manna vegna flutnings á vél til baka

     frá Þurranesi 8 klst. x 1.500.-

kr.      12.000.-

4. Akstur til að sækja vél að Þurranesi 2 x 40 km á kr. 62.-

kr.        4.960.-

5. Virðisaukaskattur á tl. 1– 2 og 4

kr.    594.350.-

____________________________________________________________

           Samtals

kr. 3.032.270.-

 

Samkvæmt stefnu miðast tímafjöldi við útleigu gröfunnar í 8 klst. hvern virkan dag, en tímagjald að fjárhæð 4.500 krónur sé almennt viðmiðunargjald gröfu af þeirri gerð sem haldlögð var.

III.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi  vísar til þess að félagið Kraftvaki ehf hafi verið undir stjórn og í eigu Unnsteins Eggertssonar. Bú félagsins hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði héraðsdóms 9. janúar 2003. Skömmu eftir að bú Kraftvaka ehf. hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta hafi skiptastjóri farið á starfsstöð félagsins. Hafi þá komið í ljós að húsnæðið var nánast tómt og öll verðmæti á burt. Í ljós hafi komið að allar eigur félagsins höfðu verið seldar Kvarða-Afli ehf. sem var félag í eigu Unnsteins og sonar hans Eggerts.  Síðar hafi komið í ljós að þeir feðgar höfðu „keypt“ eigur Kraftvaka ehf. þannig að viðskiptafærðar voru kr. 50.000 á hvorn um sig í bókhaldi félagsins til lækkunar á inneign þeirra hjá félaginu. Þetta hafi komið fram á handskrifuðu blaði sem fannst löngu síðar, en sé þó dagsett 1. júlí 2002.  Sama dag hafi verið færðar frá Kraftvaka ehf. yfir á Kvarða-Afl ehf. mikla eignir, eða að andvirði kr. 3.650.000 með samningi. Ekki virðist hafa verið tekið tillit í þeim samningi til verksamnings við Framkvæmdasýslu ríkisins vegna endurbyggingar Þjóðminjasafns, en þar hafi Kraftvaki ehf. verið verktaki. Ekki virðist hafa verið framkvæmt hlutlægt mat á eignum. Öðrum hluthöfum virðist ekki hafa verið tilkynnt um söluna og eignayfirfærsluna.

Í febrúar 2003 hafi skiptastjóri skipað nýja stjórn í Kvarða-Afli ehf. í krafti þess að hann hefði yfir að ráða öllu hlutafé þess félags. Í ljós hafi komið að félagið var eignalaust og hafi það verið tekið til gjaldþrotaskipta 12. mars 2003.

Hinn 17. febrúar 2003 hafi verið framvísað tilkynningu um eigendaskipti vinnuvélarinnar EH-0604 sem sé gömul traktorsgrafa af JCB gerð. Hafi kaupsamningur verið sagður gerður 26. janúar 2003 og Kvarði-Afl ehf. seljandi og stefnandi þessa máls, Hnúki, skógræktarfélag, sagður vera kaupandi. Áður hafði vinnuvélin verið yfirfærð frá Kraftvaka ehf. til Kvarða-Afls ehf. með áðurgreindum samningi sem dagsettur var 1. júlí 2002.

Unnsteinn Eggertsson hafi verið grunaður um að hafa komið ýmsum eignum búsins undan skiptum. Grunur hafi leikið á að hann hefði komið eignum Kraftvaka ehf. fyrir m.a. að býlinu Skarðsá, en um þetta hafði skiptastjóri fengið upplýsingar frá ónafngreindum manni. Hinn 27. mars 2003 hafi skiptastjóri farið fram á það við lögreglu að hafin yrði rannsókn lögreglu á ætluðum undanskotum eigna úr þrotabúum beggja félaganna. Hafi rannsóknarbeiðnin verið send lögreglustjóranum í Reykjavík, sem framsendi hana til embættis ríkislögreglustjóra. Að mati skiptastjóra hafi verið ástæða til að rannsaka möguleg undanskot eigna o.fl. þ.m.t. „samning“ um sölu á téðri vinnuvél.

Tilefni rannsóknaraðgerða lögreglu, sem m.a. leiddu til þess að lagt var hald á umrædda vinnuvél, hafi þannig verið upplýsingar frá skiptastjóra þrotabúa þeirra tveggja fyrirtækja sem höfðu verið skráðir eigendur vélarinnar á undan stefnanda.  Lögregla hafi talið að umrædd vinnuvél, sem þrotamaður hafði ráðstafað til stefnanda, væri ein af þeim eignum sem kynni að hafa verið komið undan skiptum. Hafi lögregla byggt á rökstuddri beiðni skiptastjóra um opinbera rannsókn. Vísar stefndi í þessu sambandi til þess að fallist hafi verið á að fyrir hendi væri rökstuddur grunur um refsiverða háttsemi, sbr. úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur 16. júní 2003, þar sem heimiluð var leit á jörðinni Skarðsá og í fleiri úrskurðum sem kveðnir voru upp sama dag vegna sama máls. Stefndi fullyrðir að ekki hafi komið á óvart þegar umrædd vinnuvél hafi fundist við leit á Skarðsá og hald hafi verið lagt á hana. Hafi leitin og haldlagningin verið byggðar á úrskurði héraðsdóms og fyllilega lögmætar. Hafi verið byggt á og farið að viðeigandi ákvæðum sem fjalla um leit, haldlagningu og annan framgang rannsóknar, en meðal hlutverka lögreglu sé að veita aðstoð við að ná vörslum eigna sem tilheyra þrotabúum og aðstoða þannig skiptastjóra eftir föngum. Auk þessa beri lögreglu að rannsaka ætluð brot vegna gjaldþrota. 

Stefndi telur að hvorki sé að sjá að stefnandi né Unnsteinn Eggertsson, né nokkur annar sem hagsmuni kynni að hafa haft, hafi hirt um að bera haldlagninguna undir héraðsdóm eins og heimildir stóðu þó til sbr. 75. og 79. gr. laga um meðferð opinberra mála nr.  19/1991. Verði stefnandi að bera hallann af þessu.

Stefndi vísar til þess að umfangsmikil rannsókn hafi farið fram á ætluðum brotum og verið ófært að skila umræddri vinnuvél meðan svo var ástatt, enda ekki ljóst þá hver yrðu afdrif málsins og vélarinnar. Hafi verið ljóst að vélin kynni að vera andlag auðgunarbrots sem verið var að rannsaka. Vélin hafi verið haldlögð um rúmlega tveggja mánaða skeið og verði það að teljast skammur tími þegar um sé að tefla viðamikla rannsókn á umfangsmiklum og flóknum ætluðum auðgunarbrotum. Í því efni verði að líta til þess að málið hafi ekki aðeins verið rannsakað með tilliti til umræddrar vinnuvélar, heldur hafi mun víðtækari ætluð brot verið rannsökuð. 

Hinn 27. ágúst 2003, eða rúmum 2 mánuðum eftir að hald var lagt á vélina, hafi haldinu verið aflétt og vinnuvélin afhent til skiptastjóra. Hafi fyrirsvarsmanni stefnanda, Sveini Skúlasyni, verið tilkynnt um þetta með tölvupósti 4. september 2003.  Þá hafi hins vegar ekki verið lokið rannsókn sjálfs sakamálsins en tekin hafi verið ákvörðun um niðurfellingu þess í september 2004. Stefndi vísar til þess að sá tími sem leið frá afléttingu haldsins og þar til vélin hafi verið komin í hendur stefnanda hafi ekki verið á forræði lögreglu.

Stefndi mótmælir því sem ósönnuðu að útgerðarfélagið Salthólmi ehf. hafi á þessum tíma haft vélina á leigu. Um þetta njóti ekki við neinna gagna, hvorki um leigugjald né annað.  Þá er mótmælt fullyrðingum um að á umræddum tíma hafi verið ljóst að vélin væri í ákveðnum verkum og myndi hvergi fara. Mótmælt er fullyrðingum í stefnu um að skilyrðislaust beri að skila haldlögðum munum til þess sem munurinn hafi verið hjá við haldlagninguna og sé skráður sem haldlagningarþoli.  Lögreglu sé rétt að skila munum til þess sem eigi til þeirra tilkall. Mótmælt er fullyrðingum um að lögreglu hafi borið að hraða rannsókn sérstaklega af tillitssemi við stefnanda vegna atvinnurekstrar. Lögreglu hafi borið að rannsaka málið án ástæðulauss dráttar, svo sem gert var. Ekki hafi hvílt á lögreglu sérstök skylda að hraða sérstaklega þeim þætti sem laut að margnefndri vinnuvél.

Samkvæmt framangreindu telur stefndi að stefnandi hafi ekki sýnt fram á neinar athafnir eða athafnaleysi lögreglu eða annarra starfsmanna stefnda sem geti leitt til bótaskyldu stefnda.  Stefnandi hafi enn fremur ekki látið reyna á úrræði laga nr. 21/1991 viðvíkjandi ábyrgð skiptastjóra eða úrræði 27. gr. laga um dómstóla nr. 15/1998 viðvíkjandi ábyrgð héraðsdómara. Telur stefndi að úrskurður héraðsdómara um leit verði ekki endurmetin í nýju dómsmáli.

Stefndi byggir einnig á því, verði ekki fallist á kröfu um sýknu, að kröfur stefnanda séu ósannaðar og of háar. Sé allt málið vanreifað af hálfu stefnanda um það sem lúti að meintu tjóni. Þannig sé fyrsti liður bótakröfu ekki studdur neinum gögnum. Annar liður bótakröfunnar sé ekki skiljanlegur m.t.t. þess að lögregla hafi séð um flutning vélarinnar.  Þriðji liður sé of hár og sé ekki stutt rökum hvers vegna þurft hafi tvo menn og heilan vinnudag í þetta viðvik.  Hið sama sé að segja um fjórða liðinn.  Þá er einnig mótmælt fimmta lið kröfunnar. Fullyrðingum í stefnu um að fresta hafi þurft gróðursetningu fjölmargra plantna um eitt ár er mótmælt og vakin athygli á því að í sundurliðun tjónsins sé ekkert að finna sem eigi við þessa lýsingu. Þá er vakin athygli á því að stefnandi virðist ekki hafa sinnt þeirri skyldu sinni að takmarka tjón sitt, t.d. með því að leigja aðra vél.

Af hálfu stefnda er vísað til laga um meðferð opinberra mála, einkum ákvæða X. og XI. kafla, laga um gjaldþrotaskipti, lögreglulaga og ákvæða annarra laga sem greind eru. Sérstaklega er vísað til þess að ekki séu uppfyllt skilyrði bótareglna XXI. kafla laga nr. 19/1991 og annarra ákvæða sem stefnandi vísi til. Í því efni er bent á að stefnandi hafi ekki verið sakborningur í málinu. Þá er vísað til þess að hafi stefnandi átt bótakröfu gegn stefnda þá kunni hún að vera fyrnd skv. ákvæðum 181. gr. laga um meðferð opinberra mála, en ekki sé óeðlilegt að líta til þess tímamarks þegar haldi var aflétt.  

IV.

Niðurstaða

Við upphaf aðalmeðferðar málsins 14. nóvember sl. var upplýst af hálfu stefnanda að fyrirsvarsmaður hans væri Sveinn Skúlason, en ekki Erna Valsdóttir, líkt og fram kemur í stefnu. Við sama tækifæri var lagt fram af hálfu stefnanda endurrit úr fyrirtækjaskrá þjóðskrár Hagstofu Íslands ásamt ljósriti af umsókn um kennitölu 30. nóvember 1989. Var af hálfu lögmanns stefnanda gerð sú athugasemd við hið framlagða dómskjal að stefnandi væri almennt félag, en ekki sjálfseignarstofnun líkt og hugsanlega mætti ráða af skjalinu.

Í aðilaskýrslu sinni fyrir dómi við aðalmeðferð málsins skýrði nefndur Sveinn Skúlason frá því að hann hefði verið forráðamaður stefnanda frá upphafi, en Erna Valsdóttir hefði séð um fjármál stefnanda og væri með prókúruumboð vegna tékkheftis. Engar kosningar hefðu farið fram um forráðamann stefnanda enda væri stefnandi ekki svo formlegt félag. Engin formleg stjórn væri í félaginu og engar skriflegar samþykktir hefðu verið gerðar fyrir félagið, enda hefði ekki verið gerð krafa um slíkt þegar félagið var stofnað árið 1989. Þá kom fram í skýrslu hans að engin skrá væri til yfir félagsmenn stefnanda, en fyrir lægi að félagsmenn væru í dag aðallega meðlimir í fjölskyldu Sveins. Aðspurður um tiltæk gögn, þar sem fram kæmu þær samþykktir og reglur sem stefnandi reisti starfsemi sína á, sagði Sveinn að til væru dagbókarfærslur vegna funda félagsins.

Með vísan til 2. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 og í ljósi þeirra upplýsinga sem fram komu um stefnanda í framangreindri aðilaskýrslu beindi dómari því til lögmanns stefnanda að afla gagna um félagsform stefnanda eða færa fram nánari skýringar á því, allt í þeim tilgangi að upplýsa um aðildarhæfi stefnanda. Eins og áður greinir var af hálfu stefnanda lagt fram af þessu tilefni nýtt ljósrit af umsókn stefnanda um kennitölu 30. nóvember 1989 ásamt útprentun úr fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra.

Samkvæmt þessu liggja nú fyrir í málinu tvö ljósrit af umsókn stefnanda um kennitölu, bæði dagsett 30. nóvember 1989. Eru þessi ljósrit sama efnis og eins í útliti að því frátöldu að á því ljósriti sem síðar var lagt fram koma fram upplýsingar um hverjir standa að félaginu og undirskriftir þeirra. Eru þar taldir upp fjórir nafngreindir menn, þar á meðal þau Sveinn Skúlason og Erna Valsdóttir.

Samkvæmt framangreindu liggur fyrir að sótt var um kennitölu fyrir stefnanda 30. nóvember 1989 og þá jafnframt færðar fram upplýsingar um heimili stefnanda, tilgang hans, aðstandendur og ábyrgðarmann. Í málinu liggja hins vegar engin gögn fyrir um stofnun stefnanda, samþykktir hans eða félagsform, t.d. hvort hann er í raun almennt félag eða félag með ótakmarkaðri ábyrgð félagsmanna. Þá liggur ekkert fyrir um stjórn stefnanda og hvort og með hvaða hætti nefndur Sveinn Skúlason er til þess bær að vera í fyrirsvari fyrir stefnanda og ráðstafa hagsmunum hans. Verður að skilja viðbrögð stefnda við ábendingu dómara við aðalmeðferð málsins á þá leið að engar frekari upplýsingar séu fyrir hendi um þessi atriði en þegar hafa komið fram í málinu.

Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 getur aðili dómsmáls verið hver sá einstaklingur, félag eða stofnun sem getur átt réttindi eða borið skyldur að landslögum. Samkvæmt umræddri reglu fer ekki á milli mála að svonefnd almenn félög geta verið aðilar að dómsmáli.  Ræður ekki úrslitum í því sambandi hvort slíkt félag hefur orðið til með formlegum hætti, t.d. með skriflegri stofnsamþykkt, eða hvort það hefur verið skráð opinberri skráningu. Til þess að um geti verið að ræða almennt félag, sem borið getur rétt og skyldu að landslögum, verður þó að gera kröfu til þess að um sé að ræða einhverskonar skipulagða samvinnu einstaklinga sem stofnað hefur verið til í ákveðnum tilgangi. Leiðir af þessu að félag verður óhjákvæmilega að styðjast við einhvers konar stofnsamþykkt, eða a.m.k. ígildi stofnsamþykktar, þar sem kveðið er á um eðli þessarar samvinnu svo og grunnskipulag hennar, t.d. stjórn og fyrirsvar.

Það er álit dómara að í máli því sem hér um ræðir sé framangreindri lágmarkskröfu ekki fullnægt með tilliti til stefnda. Getur það ekki haggað þessari niðurstöðu þótt stefnandi hafi verið skráður opinberri skráningu, fengið úthlutað kennitölu og virðist hafa athugasemdalaust átt í ýmsum lögskiptum við einkaaðila og hið opinbera í eigin nafni. Verður því ekki talið að stefnandi fullnægi skilyrðum til þess að bera réttindi og skyldur að íslenskum rétti þannig að hann geti verið aðili að dómsmáli, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Ekki kemur til greina að líta svo á að sóknaraðilar málsins séu í raun þeir einstaklingar sem standa að stefnanda, enda er allsendis óljóst um það hverjir þessir einstaklingar eru og hvaða afstöðu þeir hafa til kröfugerðar í málinu. Verður málinu af þessum sökum sjálfkrafa vísað frá dómi.

Í ljósi framangreindrar niðurstöðu er óhjákvæmilegt að stefndi beri sinn eigin kostnað af málinu. Gjafsóknarkostnaður, þar með talin þóknun lögmanns stefnanda, Hilmars Magnússonar hrl., sem þykir, með hliðsjón af framlögðu málskostnaðaryfirliti, hæfilega ákveðin 435.750 krónur greiðist úr ríkissjóði. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Samkvæmt þessu nemur gjafsóknarkostnaður í málinu í heild 439.650 krónum.

Af hálfu stefnanda flutti málið Hilmar Magnússon hrl.

Af hálfu stefnda flutti málið Sigurður Gísli Gíslason hdl.

Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Máli þessu er vísað frá dómi.

Stefndi, íslenska ríkið, beri sjálft kostnað sinn af málinu.

Gjafsóknarkostnaður, þar með talin þóknun Hilmars Magnússonar hrl. að fjárhæð 435.750 krónur, greiðist úr ríkissjóði.