Hæstiréttur íslands

Mál nr. 202/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kærufrestur
  • Frávísun frá Hæstarétti


                                      

Þriðjudaginn 9. apríl 2013.

Nr. 202/2013.

Tollstjóri

(Jóhanna Lára Guðbrandsdóttir fulltrúi)

gegn

Y

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)

Kærumál. Kærufrestur. Frávísun frá Hæstarétti.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu Y um að felld yrði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík um að kyrrsetja tiltekinn eignarhluta Y í fasteign að beiðni tollstjóra. Kæra Y barst ekki héraðsdómi fyrr en að liðnum kærufresti og var málinu því vísað frá Hæstarétti.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. mars 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. mars 2013, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að felld yrði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 15. október 2012 um að kyrrsetja eignarhluta hans í fasteigninni [...] í Reykjavík, fastanúmer [...] -[...] og [...]-[...]. Um kæruheimild vísar varnaraðili til 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Varnaraðili krefst þess að áðurgreind kyrrsetningargerð verði felld úr gildi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Að kröfu sóknaraðila kyrrsetti sýslumaðurinn í Reykjavík 15. október 2012 eignarhluta varnaraðila í fyrrgreindri fasteign til tryggingar væntanlegri skattkröfu á hendur honum vegna ætlaðra brota gegn lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Með bréfi 24. sama mánaðar var þess krafist á grundvelli 4. mgr. 41. gr. a laga nr. 50/1988, sbr. 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að héraðsdómur felldi kyrrsetninguna úr gildi. Þeirri kröfu var hafnað með hinum kærða úrskurði.

Samkvæmt 1. mgr. 41. gr. a laga nr. 50/1988, sbr. lög nr. 24/2011, er heimilt að krefjast kyrrsetningar hjá skattaðila og öðrum þeim, sem rökstuddur grunur um refsivert brot samkvæmt 40. gr. laganna beinist að, til tryggingar greiðslu væntanlegrar kröfu um virðisaukaskatt, fésekt og sakarkostnað í málum er sæta rannsókn hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins að nánar tilgreindum skilyrðum fullnægðum. Í 4. mgr. sömu greinar kemur fram að leggja má fyrir héraðsdóm ágreining um lögmæti kyrrsetningargerðar með sama hætti og greinir í 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008. Heimild til að kæra slíkan úrskurð til Hæstaréttar er í k. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 21. júní 2010 í máli nr. 372/2010 að því er varðar hliðstæða heimild í 113. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Samkvæmt 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008 er kærufrestur þrír sólarhringar frá því að kærandi fékk vitneskju um úrskurðinn. Verjandi varnaraðila var viðstaddur uppkvaðningu hins kærða úrskurðar 1. mars 2013. Kærufrestur var því liðinn þegar kæran barst héraðsdómi 14. sama mánaðar. Samkvæmt þessu verður málinu vísað frá Hæstarétti.

Krafa sóknaraðila um kærumálskostnað á sér ekki lagastoð og verður henni hafnað.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. mars 2013.

Mál þetta var þingfest 23. nóvember sl. og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 30. janúar sl. Sóknaraðili er Y, [...], Reykjavík en varnaraðili er Tollstjóri, Tryggvagötu 19, Reykjavík.

                Dómkröfur sóknaraðila eru þær að kyrrsetning sem Sýslumaðurinn í Reykjavík framkvæmdi hjá sóknaraðila í máli nr. K-31/2012, 15. október 2012, í fasteigninni [...], Reykjavík, fastanúmer [...]-[...] og [...]-[...], verði felld úr gildi með úrskurði. Þá krefst lögmaður sóknaraðila málsvarnarlauna úr ríkissjóði, en til vara málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

                Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað.

Málavextir

                Skattrannsóknarstjóri ríkisins hóf rannsókn 30. maí 2012 á meintum vanframtöldum virðisaukaskatti og offramtöldum innskatti vegna tilhæfulausra útgefinna sölureikninga [...] ehf., kt. [...]. Hinn 28. september sl. barst Tollstjóra tilkynning frá Skattrannsóknarstjóra ríkisins um rökstuddan grun um refsiverða háttsemi sóknaraðila vegna ætlaðra brota á skattalöggjöf.

                Að sögn varnaraðila hefur Skattrannsóknarstjóri ríkisins rökstuddan grun um að sóknaraðili hafi í störfum sínum sem stjórnarmaður [...] ehf. gerst sekur um refsiverða háttsemi samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, sbr. og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ætluð brot felist í því að staðin hafi verið skil á röngum virðisaukaskattsskýrslum í rekstri [...] ehf. vegna uppgjörstímabila á rekstrarárunum 2006 og 2007.

                Óeðlileg yfirfærsla eigna hafi átt sér stað á milli sóknaraðila og sonar hans, X, sem hafi verið stjórnarformaður [...] ehf. X hafi selt sóknaraðila fasteignina [...] í Reykjavík skömmu eftir að rannsókn skattrannsóknarstjóra á málefnum félagsins hafi byrjað. Ekki verði séð að nokkurt endurgjald hafi komið fyrir eignina. Fasteignin hafi verið auglýst til sölu á fasteignasölunni [...] þegar kyrrsetningargerðin hafi farið fram.

                Með kyrrsetningarbeiðni sem móttekin var hjá Sýslumanninum í Reykjavík 11. október 2012 krafðist varnaraðili kyrrsetningar í eignum sóknaraðila fyrir kröfum að fjárhæð 17.000.000 króna vegna væntanlegrar skattkröfu. Beiðnin var tekin fyrir hjá sýslumanni 15. október 2012 í máli nr. K-31/2012. Sóknaraðili var ekki boðaður í gerðina að ósk varnaraðila með þeim rökum að hætta væri talin á undanskoti eigna. Þó var farið að lögheimili sóknaraðila að [...], Reykjavík, en hann hittist ekki þar fyrir. Þá var farið að [...], Reykjavík, en sóknaraðili hittist ekki þar fyrir heldur. Fulltrúi sýslumanns hafði samband við sóknaraðila símleiðis og mun hafa upplýst hann um málsatvik og leiðbeint um leiðir til að varna gerðinni. Gerðinni lauk sama dag með kyrrsetningu í fasteigninni [...], Reykjavík, fastanúmer [...]-[...] og [...]-[...], að fjárhæð 17.000.000 króna. Krafa sóknaraðila um úrskurð dómsins var móttekin 25. október 2012.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

                Sóknaraðili byggir kröfu sína annars vegar á því að varnaraðili eigi ekki lögvarða kröfu á sóknaraðila enda engin krafa til staðar, algjör óvissa ríki um fjárhæð hinnar meintu kröfu og gjalddagi hennar sé ekki kominn. Sóknaraðili hafi hvorki verið dæmdur til greiðslu sektar né ákvörðuð sekt af þar til bærum yfirvöldum. Af því leiði að enginn gjalddagi á hinni meintu kröfu. Fjárhæð hinnar meintu kröfu sé ekki rökstudd í kyrrsetningarbeiðni varnaraðila.

Hins vegar byggir sóknaraðili á því að 1. og 2. mgr. 41. gr. a laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt geti ekki verið grundvöllur kyrrsetningar. Sóknaraðili mótmælir því að hann hafi gerst sekur um refsiverða háttsemi, hvað þá heldur háttsemi sem varði við 262. gr. almennra hegningarlaga. Rannsókn skattrannsóknarstjóra sé skammt á veg komin. Skýrsla hafi verið tekin af sóknaraðila hjá skattrannsóknarstjóra, en þar komi fram að sóknaraðili hafi enga aðkomu haft að rekstri þeirra félaga hverra skattskil séu til rannsóknar. Sóknaraðili hafi upplýst að hann hefði verið skráður meðstjórnandi í einu félaginu að nafninu til og í greiðasemi við son sinn, en hann hefði ekki haft neitt með daglegan rekstur félagsins að gera, aldrei setið stjórnarfundi og ekki vitað neitt um reksturinn. Samkvæmt 41. gr. a laga nr. 50/1988 verði grunur skattrannsóknarstjóra að vera rökstuddur. Engin rök séu færð fyrir því í kyrrsetningarbeiðni hvers vegna krafist sé kyrrsetningar hjá sóknaraðila fyrir meintri kröfu að fjárhæð 17.000.000 króna eða hvernig sú fjárhæð sé fundin út. Engin lýsing í kyrrsetningarbeiðni varnaraðila á hinum meintu brotum sóknaraðila. Af þeirri ástæðu hafni sóknaraðili því að rökstuddur grunur sé um refsiverða háttsemi.

Ítrekað komi fram í lögskýringargögnum að beita eigi framangreindum sérreglum laga nr. 50/1988 af varfærni, sérstaklega þegar í hlut eigi aðili sem ekki sjálfur til rannsóknar en geti hugsanlega borið ábyrgð á skattgreiðslum.

Kyrrsetning varnaraðila hjá sóknaraðila brjóti þannig í bága við 69., 70., 71. og 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Krafa um úrskurð héraðsdóms byggist á 4. mgr. 41. gr. a laga nr. 50/1988, sbr. 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Krafa sóknaraðila um málskostnað styðst við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Málsástæður og lagarök varnaraðila

                Varnaraðili byggir á því að umrædd kyrrsetningargerð hafi farið fram á grundvelli 1. mgr. 41. gr. a laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt en ekki á grundvelli 5. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Heimild 1. mgr. 41. gr. a laga nr. 50/1988 sé sama eðlis og 88. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og sé því rýmri en almenn heimild til kyrrsetningar samkvæmt 5. gr. laga nr. 31/1990.

                Ákvæði 1. mgr. 41. gr. a laga nr. 50/1988 heimili að eignir gerðarþola séu kyrrsettar til að tryggja greiðslu væntanlegrar skattkröfu, fésektar og sakarkostnaðar. Ákvæðið áskilji ekki að endanleg ákvörðun um skattkröfu eða sekt liggi fyrir. Tilgangur ákvæðisins sé að tryggja kröfu á meðan málið sé í rannsókn og ekki sé hægt að beita öðrum aðferðum fullnusturéttarfars til að tryggja greiðslu kröfunnar. Vegna hins langa málsmeðferðartíma og sérstaks eðlis brotanna sé veruleg hætta á undanskoti eigna. Eina eign sóknaraðila, fasteignin að [...], Reykjavík, hafi verið í sölumeðferð hjá fasteignasölu þegar kyrrsetningargerðin hafi farið fram og því hafi mikil hætta verið á eignarýrnun.

                Hin væntanlega krafa sé lögvarin þar sem hún byggist á lögum nr. 50/1988. Skattrannsóknarstjóri ríkisins tilkynni varnaraðila aðeins um lágmarksfjárhæð sem talið sé víst að tryggja verði með kyrrsetningu. Skattrannsóknarstjóri fari mjög varlega í þetta mat og láti sóknaraðila njóta alls vafa við ákvörðun um fjárhæð.

                Sóknaraðili hafi verið stjórnarmaður félags sem sæti rannsókn vegna alvarlegra brota á lögum nr. 50/1988 eins og fram komi í tilkynningu skattrannsóknarstjóra til varnaraðila. Sóknaraðili beri ábyrgð sem stjórnarmaður samkvæmt 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög ásamt því að bera refsiábyrgð samkvæmt skýrri dómaframkvæmd. Kyrrsetningargerð því réttilega beint að sóknaraðila.

                Loks andmælir varnaraðili fullyrðingum sóknaraðila um að kyrrsetningin feli í sér brot á stjórnarskrárvörðum réttindum hans.

Niðurstaða

                Samkvæmt 1. mgr. 41. gr. a laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt er heimilt, til tryggingar greiðslu væntanlegrar kröfu um virðisaukaskatt, fésekt og sakarkostnað í málum er sæta rannsókn hjá Skattrannsóknarstjóra ríkisins, að krefjast kyrrsetningar hjá skattaðila og öðrum þeim sem rökstuddur grunur um refsiverða háttsemi samkvæmt 40. gr. sömu laga beinist að ef hætta þykir á að eignum verði ella skotið undan eða þær glatist eða rýrni að mun, enda megi ætla að meint refsiverð háttsemi varði við 262. gr. almennra hegningarlaga. Fram kemur í 2. mgr. sömu greinar að tollstjóri annist rekstur mála samkvæmt 1. mgr. og skuli skattrannsóknarstjóri ríkisins tilkynna tollstjóra um mál þar sem hann telur að rannsókn hans muni leiða til þess að virðisaukaskattur skattaðila verði hækkaður eða honum eða öðrum þeim sem grunur um refsiverða háttsemi samkvæmt 40. gr. sömu laga beinist að verði gerð fésekt. Þá kemur fram í sömu málsgrein að um framkvæmd og gildi kyrrsetningar fari sem um kyrrsetningu fjármuna almennt sé að ræða, með þeim undantekningum að tryggingu þurfi ekki að setja, mál þurfi ekki að höfða til staðfestingar á kyrrsetningu og gjöld skuli ekki greiða fyrir ráðstafanirnar. Tekið er fram í 4. mgr. sömu greinar að leggja megi fyrir héraðsdóm ágreining um lögmæti kyrrsetningargerðar með sama hætti og greinir í 2. mgr. 102. gr. laga um meðferð sakamála.

                Ákvæði 1. mgr. 41. gr. a laga nr. 50/1988 er sérstök regla um kyrrsetningu sem heimilar yfirvöldum að krefjast kyrrsetningar eigna í afmörkuðum tilvikum að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Í samræmi við almennar lögskýringarreglur verður að líta svo á að ákvæðið sé sérregla sem gangi framar almennu kyrrsetningarheimildinni í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Það rennir styrkari stoðum undir þessa ályktun að í lokamálslið 2. mgr. 41. gr. a er tekið fram að um ,,framkvæmd og gildi kyrrsetningar“ en ekki skilyrði kyrrsetningar fari sem um kyrrsetningu fjármuna almennt með þeim undantekningum sem þar greinir.

Það kemur fram í 1. mgr. 41. gr. a laga nr. 50/1988 að heimilt sé að krefjast kyrrsetningar ,,til tryggingar greiðslu væntanlegrar kröfu“. Ákvæðinu var bætt við lög nr. 50/1988 með 2. gr. laga nr. 24/2011. Í athugasemdum við frumvarp sem varð að þeim lögum kemur fram að frumvarpinu sé ætlað að veita skattyfirvöldum heimild til að krefjast kyrrsetningar á eignum aðila sem séu til rannsóknar vegna brota á m.a. lögum um virðisaukaskatt. Heimildinni sé ætlað að bregðast við hættu á undanskoti eigna meðan rannsókn stendur yfir en málsmeðferðartími vegna þessara brota geti orðið mjög langur og því aukin hætta á því að þeir aðilar sem rannsókn sæti reyni að koma sér undan greiðslum skatta og mögulegra fésekta með því að færa eignir sínar í hendur öðrum eða koma þeim undan með öðrum hætti. Gert sé ráð fyrir að heimilt sé að beita kyrrsetningu gagnvart skattaðilanum sjálfum og öðrum þeim er grunur um refsiverða háttsemi beinist að og kunni þar af leiðandi að verða gert að greiða fésekt vegna refsiverðra brota. Fyrirsvarsmenn lögaðila beri refsiábyrgð vegna brota sem séu framin í rekstri lögaðila og því muni kyrrsetningarheimild þessa frumvarps einnig ná til þeirra. Rökstuddur grunur um stórfelld skattalagabrot verði að vera til staðar svo að unnt sé að beita kyrrsetningu samkvæmt frumvarpinu. Almennar reglur um kyrrsetningu samkvæmt lögum nr. 31/1990 gildi um kyrrsetningu samkvæmt greininni eftir því sem við eigi, til dæmis við mat á því hvað geti verið andlag kyrrsetningargerðar. Þó sé gert ráð fyrir að reglur um tryggingu fyrir kyrrsetningu, málshöfðun og lögboðin gjöld vegna ráðstafananna taki ekki til kyrrsetningar tollstjóra.

Samkvæmt þessu er ljóst að hægt er að krefjast kyrrsetningar meðan mál er til rannsóknar, jafnvel þó að rannsókn sé á frumstigi. Rannsókn skattrannsóknarstjóra beinist að skattskilum [...] ehf. og eru ætluð brot talin felast í því að skilað hafi verið röngum virðisaukaskattsskýrslum í rekstri félagsins vegna uppgjörstímabila á rekstrarárunum 2006 til 2007. Samkvæmt gögnum málsins var sóknaraðili stjórnarmaður félagsins á þeim tíma. Samkvæmt 1. mgr. og fyrri málslið 3. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög skal félagsstjórn fara með málefni félagsins, annast um að skipulag félags og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi og annast um að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna félagsins. Samkvæmt 6. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 skal hver sá sem af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi lætur skattyfirvöldum í té rangar eða villandi upplýsingar eða gögn varðandi virðisaukaskattsskýrslur annarra aðila eða aðstoðar við ranga eða villandi skýrslugjöf til skattyfirvalda sæta þeirri refsingu er segir í 1. mgr. greinarinnar. Staðfest hefur verið í dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands að stjórnarmaður getur borið refsiábyrgð á skattskilum lögaðila, jafnvel þótt stjórnarmaður hafi í reynd ekki haft aðkomu að rekstri félagsins, sbr. dóm réttarins í máli nr. 242/1999 sem birtur er í dómasafni réttarins 1999, bls. 3633. Hæstiréttur hefur ítrekað þessa túlkun, m.a. í málum nr. 226/2010, 362/2011, 413/2011 og 418/2011. Er því heimild til þess í 1. mgr. 41. gr. a laga nr. 50/1988 að krefjast kyrrsetningar hjá sóknaraðila. Fram kemur í bréfi skattrannsóknarstjóra til varnaraðila frá 28. september sl. að ætlaður vanframtalinn og offramtalinn virðisaukaskattur á virðisaukaskattsskýrslum félagsins á rekstrarárunum 2006 til 2007 nemi samtals 18.390.220 krónum. Eins og kemur fram í bréfi skattrannsóknarstjóra og kyrrsetningarbeiðni tollstjóra liggur því fyrir rökstuddur grunur um að sóknaraðili hafi gerst sekur um refsiverða háttsemi samkvæmt 6. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þá liggur fyrir samkvæmt gögnum máls að eftir að rannsókn skattrannsóknarstjóra hófst gaf sonur sóknaraðila, X, út tvö afsöl 15. ágúst 2012 til sóknaraðila fyrir fasteign sinni að [...] í Reykjavík, en áður hafði eignin verið auglýst til sölu með auglýsingu sem birtist á vefsvæðinu mbl.is/fasteignir [...] 2012. Verður því að líta svo á að hætta sé á að eignum verði skotið undan eða þær glatist eða rýrni að mun. Samkvæmt þessu eru skilyrði kyrrsetningar samkvæmt 1. mgr. 41. gr. a laga nr. 50/1988 uppfyllt.

Hér að framan hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að skilyrði kyrrsetningar samkvæmt 1. mgr. 41. gr. a laga nr. 50/1988 séu uppfyllt. Fer það ekki í bága við stjórnarskrárvarin réttindi sóknaraðila eins og hann byggir á. Er þessi málsástæða sóknaraðila því haldlaus.

Samkvæmt öllu framangreindu verður hafnað kröfu sóknaraðila um að kyrrsetning sem Sýslumaðurinn í Reykjavík framkvæmdi hjá sóknaraðila í máli nr. K-31/2012, 15. október 2012, verði felld úr gildi.

                Varnaraðili krafðist ekki málskostnaðar og verður málskostnaður því ekki úrskurðaður úr hendi sóknaraðila.

                Lögmaður sóknaraðila krafðist málsvarnarlauna úr ríkissjóði við munnlegan flutning málsins, sem skipaður verjandi hans við rannsókn málsins hjá skattrannsóknarstjóra. Krafa um kyrrsetningu þessa er byggð á 1. mgr. 41. gr. a laga nr. 50/1988, eins og fyrr er rakið. Það ákvæði tekur mið af 88. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, þar sem lögreglu er fengin heimild til kyrrsetningar eigna, eins og tekið er fram í athugasemdum við frumvarp sem varð að lögum nr. 24/2011. Mál þetta er lagt fyrir dóminn samkvæmt heimild í 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 4. mgr. 41. gr. a laga nr. 50/1988. Það þykir þó mega leiða af ákvæðum 38. gr. laga nr. 88/2008 að lögmanni sóknaraðila verða ekki ákvörðuð málsvarnarlaun af dómara við meðferð máls þessa og er þeirri kröfu hafnað. Til vara krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila, en þar sem kröfu sóknaraðila hefur verið hafnað verður málskostnaður ekki úrskurðaður honum úr hendi varnaraðila.

                Eggert Óskarsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

                Hafnað er kröfu sóknaraðila, Y, um að kyrrsetning sem Sýslumaðurinn í Reykjavík framkvæmdi hjá sóknaraðila í máli nr. K-31/2012, 15. október 2012, í fasteigninni [...], Reykjavík, fastanúmer [...]-[...] og [...]-[...], verði felld úr gildi.

                Málskostnaður úrskurðast ekki.