Hæstiréttur íslands

Mál nr. 216/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjárslit milli hjóna


Föstudaginn 5

 

Föstudaginn 5. maí 2006.

Nr. 216/2006.

M

(Lára V. Júlíusdóttir hrl.)

gegn

K

(Svein Sveinsson hrl.)

 

Kærumál. Fjárslit milli hjóna.

M og K fengu leyfi til skilnaðar að borði og sæng í apríl 2003 og gerðu af því tilefni fjárskiptasamning. Þau hófu sambúð að nýju í júní það ár, en slitu samvistir í janúar 2006. M krafðist þess meðal annars að þær eignir sem skipt hafði verið með samningi hjónanna kæmu ekki til skipta nú með vísan til 111. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Talið var að túlka yrði ákvæðið svo að verið væri, að því er fjárskipti varðar, að leggja endurnýjaða sambúð hjóna að jöfnu við stofnun hjúskapar í öðrum tilvikum þar sem reyndi á 1. mgr. 104. gr. hjúskaparlaga. Óumdeilt var að um það bil tvö og hálft ár liðu frá því að sambúð M og K tókst á ný þar til þau slitu samvistir á nýjan leik. Þá var ekki talið að M hefði sýnt fram á að önnur skilyrði sem nefnd væru í 1. mgr. 104. gr. væru uppfyllt. Var því talið að beita bæri meginreglu hjúskaparlaga um helmingaskipti við fjárskiptin.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. apríl 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. mars 2006, þar sem leyst var úr nánar tilgreindum ágreiningsefnum málsaðila í tengslum við fjárskipti milli þeirra vegna hjónaskilnaðar. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að við skipti á þeim eignum og skuldum sem voru til staðar þegar aðilar fengu leyfi til skilnaðar að borði og sæng í apríl 2003 verði byggt á fjárskiptasamningi þeirra frá sama tíma og komi þær eignir því ekki til skipta nú. Þá krefst hann þess að við skipti á þeim eignum og skuldum sem til hafi orðið eftir að aðilar hófu að nýju sambúð í júní 2003 verði vikið frá helmingaskiptum í samræmi við 104. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 þannig að hvort þeirra taki það sem þau komu með í búið á því tímabili. Hann krefst einnig kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar. Komist rétturinn að þeirri niðurstöðu að einungis komi til skipta þær eignir sem myndast hafi í hjónabandi aðila eftir brottfall skilnaðar að borði og sæng fellst hún á kröfu sóknaraðila um að vikið verði frá helmingaskiptum á þeim eignum og krefst þess þá að íbúð að [...], verði metin eign hennar. Jafnframt krefst hún þá helmingshlutdeildar í þeim hjúskapareignum sóknaraðila sem ekki komu til skipta árið 2003, svo sem áunnum lífeyrisréttindum hans í Lífeyrissjóði [...] og eftir atvikum eignarhlutdeild hans í séreignasjóði. Verði niðurstaðan sú að einungis komi til skipta þær eignir sem myndast hafi í hjónabandi aðila eftir brottfall skilnaðar að borði og sæng, krefst hún þess til þrautavara að beitt verði helmingaskiptareglu við skipti á þeim eignum og beri henni þá helmingur úr skírri hjúskapareign sóknaraðila. Í öllum tilvikum krefst hún kærumálskostnaðar.

Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði var samningur málsaðila um skilnaðarkjör, sem gerður hafði verið 28. febrúar 2003 og var samkvæmt 1. mgr. 44. gr. hjúskaparlaga skilyrði þess að skilnaður að borði og sæng yrði þá veittur, ekki meðal gagna málsins í héraði. Sóknaraðili hefur lagt samning þennan fyrir Hæstarétt. Í samningnum kemur fram um skiptingu eigna, að í hlut mannsins kom fyrirtækið [...]. Í hlut konunnar kom innbú hjónanna auk 366.489 króna, sem maðurinn skyldi greiða henni. Ekki eru aðrar eignir tilgreindar í samningnum.

Sóknaraðili reisir kröfu sína, um að eignir þær sem skipt var með samningi hjónanna 2003 skuli ekki koma til skipta nú, á 111. gr. hjúskaparlaga. Þar er að finna sérreglu um eignaskipti á milli hjóna, þegar svo stendur á að þau hafa fengið skilnað að borði og sæng, er leitt hefur til fjárskipta, en tekið saman aftur, en þá falla réttaráhrif skilnaðarins almennt niður samkvæmt síðari málslið 35. gr. laganna. Segir í 111. gr. að í slíku tilviki eigi við ákvæði 1. mgr. 104. gr. um eignir sem komið hafi í hlut maka við skiptin, og hann hefur flutt að nýju í hjúskapinn, komi til fjárskipta síðar milli hjónanna, eins og hér er raunin. Þetta ákvæði verður að túlka svo að verið sé, að því er fjárskipti varðar, að leggja endurnýjaða sambúð hjóna að jöfnu við stofnun hjúskapar í öðrum tilvikum, þar sem reynir á 1. mgr. 104. gr. laganna. Óumdeilt er að um það bil tvö og hálft ár liðu frá því sambúðin tókst á ný þar til málsaðilar slitu samvistir á nýjan leik. Sóknaraðili hefur ekki sýnt fram á að önnur skilyrði sem nefnd eru í 1. mgr. 104. gr. séu uppfyllt. Verður ekki fallist á að við svo búið séu efni til að taka kröfur hans til greina heldur beri að beita meginreglu hjúskaparlaga um helmingaskipti við fjárskiptin nú. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað verður staðfest.

Rétt þykir að kærumálskostnaður falli niður.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. mars 2006.

I

Málið barst dóminum 19. janúar sl.  Það var þingfest 10. febrúar sl. og tekið til úrskurðar 15. mars sl.

Sóknaraðili er M, [...], Reykjavík.

Varnaraðili er K, [...], Reykjavík.

Sóknaraðili krefst þess að við skipti á þeim eignum og skuldum sem voru til staðar

þegar aðilar fengu leyfi til skilnaðar að borði og sæng í apríl 2003 verði byggt á fjár­skipta­samningi aðila frá í apríl 2003 og komi þær eignir því ekki til skipta nú með vísan til 111. gr. laga nr. 31/1993.  Við skipti á þeim eignum og skuldum sem til hafa orðið eftir að aðilar hófu að nýju sambúð í júní 2003 verði beitt “skáskiptareglu” 104. gr. laga nr. 31/1993  þannig að hvort hjóna um sig taki það sem þau komu með í búið á því tímabili.

Varnaraðili “krefst þess að hún verði sýknuð af báðum kröfum sóknaraðila.  Hún gerir aðallega þær kröfur að fjárskiptin taki til heildareigna hvors hjóna um sig og krefst hún helmings úr skírri hjúskapareign sóknaraðila.  Til vara krefst hún þess, komist rétt­ur­inn að þeirri niðurstöðu að aðeins komi til skipta þær eignir sem myndast hafa í hjóna­bandi aðila eftir brottfall skilnaðar að borði og sæng, þá fellst hún á kröfur sóknaraðila um skáskipti á þeim eignum sem myndast hafa eftir þann tíma og krefst þess að íbúðin að [...], Reykjavík, verði metin hennar eign.  Jafnframt krefst gerðarþoli helmingshlutdeildar í þeim hjúskapareignum gerðarbeiðanda sem ekki komu til skipta á árinu 2003 svo sem áunnum lífeyrisréttindum gerðarbeiðanda í Lífeyrissjóði verkfræðinga og eftir atvikum eignarhlutdeild hans í séreignasjóði.  Til þrautavara krefst hún þess, verði niðurstaðan sú að aðeins komi til skipta þær eignir sem myndast hafa í hjónabandi aðila eftir brottfall skilnaðar að borði og sæng, að beitt verði skiptum á grundvelli helm­inga­skipta­reglna hjúskaparlaganna og krefst hún helmings úr skírri hjúskapareign sóknaraðila í þeim eignum sem myndast hafa eftir þann tíma.”  Þá er krafist málskostnaðar. 

Upphaflega hafði sóknaraðili krafist þess að bú hans og varnaraðila yrði tekið til opin­berra skipta til fjárslita þeirra á milli.  Síðar varð samkomulag með aðilum um að leggja ágreining sinn fyrir dóminn með heimild í 2. mgr. 125. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.  Féll sóknaraðili þá frá kröfu um opinber skipti.

II

Málavextir eru þeir að aðilar gengu í hjónaband [...] apríl 1997 eftir að hafa búið saman frá árinu 1992.  Þeir fengu skilnað að borði og sæng [...] apríl 2003, en hófu sam­búð að nýju í júní það ár.  Í janúar á þessu ári slitu þau samvistir er sóknaraðili flutti af heim­ilinu. 

Meðal gagna málsins er endurrit úr hjónaskilnaðarbók frá 7. júlí 2005.  Varnaraðili mætti þá hjá sýslumanni og er haft eftir henni að hún dragi “til baka kröfu sín um lög­skilnað á grundvelli 1. mgr. 36. gr. hjúskaparlaga, en í stað þess gera kröfu um skilnað að borði og sæng á grundvelli 33. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993.  Hún kveðst ekki hafa áttað sig á því er hún mætti hjá sýslumanninum í Reykjavík þann 11. maí sl. að hjónaband þeirra hafi raknað við á ný, þar sem þau hafi tekið aftur upp samvistir í júní 2003 og séu að slíta samvistir nú í júlímánuði.”  Sóknaraðili mætti ekki hjá sýslumanni, þrátt fyrir boðanir, og í nóvember sl. vísaði sýslumaður málinu frá sér.

Sóknaraðili heldur því fram að þrátt fyrir að aðilar hafi hafið sambúð að nýju í júní 2003 þá hafi hann ekki flutt lögheimili sitt á sameiginlegt heimili aðila og hann hafi haldið áfram að greiða meðlag með börnum þeirra og geri enn.  Þá heldur sóknaraðili því og fram að við skilnaðinn í apríl 2003 hafi verið gerður samningur um eignaskipti.  Samn­ingur þessi er ekki meðal gagna málsins, en varnaraðili hefur ekki mótmælt tilvist hans.

Af hálfu varnaraðila er gerð sú athugasemd að það hafi verið ákvörðun sóknaraðila að þau yrðu skráð með sitt hvort lögheimilið til að fá hærri barna- og vaxtabætur og eins til að greiða lægri leikskólagjöld.  Hið rétta sé hins vegar að þau hafi búið saman í hjóna­bandi og rekið heimilið sameiginlega allt þar til í janúar síðastliðnum.

III

Sóknaraðili byggir á því að við skilnað aðila í apríl 2003 hafi verið gerður samningur um fjárskipti og geti því ekki aðrar eignir komið til skipta nú en þær sem myndast hafa eftir þann tíma, sbr. 111. gr. hjúskaparlaga.  Þess vegna falli þær eignir utan skipta nú sem skipt var áður og einungis sé þörf á að skipta þeim eignum sem mynduðust meðan á síðari sam­búðartíma stóð.  Við þau skipti krefst sóknaraðili þess að vikið verði frá helm­inga­skipta­reglunni, sbr. 104. gr. hjúskaparlaga.  Aðilar hafi ekki ætlað að taka upp fjárfélag að nýju þegar þau hófu sambúð aftur og eigi því hvort um sig að taka þá muni er það kom með í búið meðan á seinni sambúðinni stóð.  Það sem hann hafi keypt á þessu tímabili sé hans eign.

Varnaraðili byggir aðallega á því að samkvæmt meginreglu hjúskaparlaga skuli við fjár­skipti milli hjóna vegna skilnaðar beita helmingaskiptareglunni, enda eigi und­an­tekn­ingar frá henni ekki við.  Skilnaður aðila að borði og sæng í apríl 2003 hafi fallið niður er þau hófu aftur sambúð í júní sama ár, sbr. 35. gr. laganna.  Hjónabandið hafi þá raknað við, enda hafi þau búið saman sem hjón þar til í janúar á þessu ári.  Réttaráhrif skiln­að­arins, þar með talin fjárskiptin, hafi því aldrei orðið virk og af því leiði að 111. gr. eigi ekki við. 

IV

Við aðalmeðferð málsins lagði lögmaður varnaraðila fram kröfugerð á sérstöku dóm­skjali og er hún tekin upp hér að framan.  Lögmaður sóknaraðila mótmælti kröfugerð lög­manns varnaraðila, þar sem kröfur þær sem þar komi fram séu of seint fram komnar. Taldi lögmaðurinn að kröfur í greinargerð væru kröfur varnaraðila í málinu.  Í munn­legum flutningi kom fram hjá lögmanni varnaraðila að hann hefði ekki uppi nýja og breytta kröfugerð í málinu, heldur hefði hann við flutning málsins kosið að taka kröfur sínar saman á einu skjali í stað þess að í greinargerð væru þær vafðar inn í málsútlistun hans.

Athugun á greinargerð lögmanns varnaraðila leiðir í ljós að kröfur hennar, sem raktar voru hér að framan, koma fram í greinargerð hennar þótt ekki sé það á þann skipulega hátt í upphafi sem lög gera ráð fyrir, sbr. d lið 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einka­mála.  Ekki er því um nýja kröfugerð að ræða og þurfa mótmæli lögmanns sóknaraðila þar af leiðandi ekki frekari umfjöllunar við.

Það er upplýst í málinu að aðilar skildu að borði og sæng [...] apríl 2003, en tóku upp sam­búð aftur í júní sama ár.  Við það féllu niður réttaráhrif skilnaðarins, sbr. 35. gr. hjú­skap­arlaga.  Engu breytir um þetta þótt sóknaraðili hafi haldið skráðu lögheimili annars staðar, enda er því ómótmælt að hann hafi búið og haldið heimili með varnaraðila allt þar til í janúar á þessu ári.  Þegar aðilar hófu sambúð að nýju verður ekki annað séð af gögnum málsins en þau hafi endurreist sameiginlegt fjárfélag sitt og þar með hafi fallið úr gildi samningur þeirra um eignaskipti er þau gerðu við skilnaðinn.  Samkvæmt þessu  verður að hafna kröfum sóknaraðila.  Jafnframt er úrskurðað að við fjárskipti milli aðila skuli beitt helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga.

Málskostnaður skal falla niður.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð

Kröfum sóknaraðila, M, er hafnað og skal við fjárskipti vegna skiln­aðar hans við varnaraðila, K, beitt helmingaskiptareglu hjú­skap­ar­laga.

Málskostnaður fellur niður.