Hæstiréttur íslands

Nr. 2018-136

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
Gunnari Magnúsi Halldórssyni Diego (Bjarni Hauksson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Höfundarréttur
  • Hugbúnaður
  • Fyrning
  • Skilorð
  • Upptaka
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Með beiðni 18. maí 2018 leitar Gunnar Magnús Halldórsson Diego leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 20. apríl 2018 í málinu nr. 76/2018: Ákæruvaldið gegn Gunnari Magnúsi Halldórssyni Diego, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr., 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákæruvaldið telur ekki efni til að fallast á beiðnina.

Með framangreindum dómi Landsréttar var leyfisbeiðandi sakfelldur fyrir brot gegn 2. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 54. gr., höfundalaga nr. 73/1972 með því að hafa gert ólögmæt eintök af tveimur þáttum úr íslenskri þáttaröð sem nutu höfundaréttarverndar og birt hópi fólks á veraldarvefnum án heimildar rétthafa. Var refsing hans ákveðin fangelsi í 30 daga en fullnustu refsingarinnar var frestað skilorðsbundið í tvö ár frá uppkvaðningu héraðsdóms. Þá var honum jafnframt gert að sæta upptöku fartölvu sem sannað þótti að notuð hefði verið við „framningu brotsins“.  Telur leyfisbeiðandi að skilyrðum 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 fyrir veitingu áfrýjunarleyfis sé fullnægt í málinu. Dómur Landsréttar hafi verið rangur að efni til þar sem honum hafi verið ákvörðuð of þung refsing með hliðsjón af dómafordæmum. Að auki varði málið mikilvæga hagsmuni, en hefði honum verið gert að greiða sekt í málinu hefði sök hans verið talin fyrnd, sbr. 1. tölulið 1. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að áfrýjun lúti að atriði sem hafi verulega almenna þýðingu eða af öðrum ástæðum sé mjög mikilvægt að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild  3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Er beiðninni því hafnað.