Hæstiréttur íslands

Mál nr. 316/2005


Lykilorð

  • Sjúkrahús
  • Læknir
  • Börn
  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 2

 

Fimmtudaginn 2. febrúar 2006.

Nr. 316/2005.

Margeir Þór Hauksson

(Guðmundur Kristjánsson hrl.)

 Ólafur Eiríksson hdl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

 

Sjúkrahús. Læknar. Börn. Skaðabætur. Líkamstjón. Gjafsókn.

S fæddist á fæðingardeild Landspítalans 10. september 1992 eftir 32ja vikna meðgöngu. Skömmu fyrir fæðinguna hafði móðir S þrívegis leitað til spítalans vegna blæðinga og blóðleitrar útferðar auk þess sem hún óttaðist að hún væri að missa legvatn. Eftir fæðinguna kom í ljós að S hafði orðið fyrir súrefnisskorti eða blóðflæðitruflunum sem leiddu til heilalömunar. Krafðist S bóta úr hendi Í og byggði á því að mistök hefðu verið gerð af hálfu starfsmanna spítalans við meðferð móður hans á síðustu dögum meðgöngu eða við fæðingu hans. Fyrir héraðsdómi voru staðhæfingar um mistök starfsmanna spítalans ekki reistar á sérfræðilegum gögnum. Með ítarlegri umfjöllun í héraðsdómi, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, var komist að þeirri niðurstöðu að vinnubrögð starfsmanna spítalans við þær skoðanir, sem fram fóru dagana fyrir fæðinguna, hefðu verið eðlileg og þær rannsóknir, sem þá voru gerðar, hefðu ekki gefið til kynna að legvatn hefði þá verið farið. Þá var í héraðsdómi talið að ekki hefðu verið gerð mistök við fæðinguna og að S hefði fengið alla þá umönnun og læknishjálp, sem unnt var að veita, eftir hana. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að niðurstöðu héraðsdóms hefði ekki verið hnekkt með matsgerð dómkvaddra manna eða á annan hátt og að S þyrfti að bera sönnunarbyrðina fyrir því að starfsmönnum spítalans hefði orðið á þau mistök, sem haldið væri fram af hans hálfu að gerð hefðu verið. Af þessum sökum varð að sýkna Í af kröfu S með vísan til forsendna héraðsdóms.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. júlí 2005. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér aðallega 37.472.578 krónur, en til vara 27.479.892 krónur, með nánar tilgreindum ársvöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 10. september 1997 til 1. júlí 2001, vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til 19. febrúar 2004, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. síðarnefndu laganna frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt á báðum dómstigum.

Stefndi krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

Eins og nánar greinir í héraðsdómi fæddist áfrýjandi á fæðingardeild Landspítalans 10. september 1997. Móðir hans, sem þá var á 32. viku meðgöngu, hafði leitað 6. sama mánaðar til kvennadeildar spítalans vegna blæðinga eða blóðleitrar útferðar og aftur þann 7. vegna ótta um að hún væri að missa legvatn. Bæði skiptin var hún skoðuð af lækni og voru gerðar á henni athuganir. Hinn 9. sama mánaðar fór hún að eigin frumkvæði í aukaskoðun hjá mæðraeftirliti spítalans og þá aftur vegna ótta um legvatnsleka, en í það sinn var hún skoðuð af ljósmóður. Að endingu kom hún á fæðingardeild eftir hádegi 10. september, en fæðingarhríðir voru þá hafnar. Fæddist áfrýjandi að kvöldi þess dags og var þá færður á vökudeild spítalans, þar sem hann dvaldist til 17. október 1997. Meðan á vist hans þar stóð voru gerðar á honum rannsóknir, sem leiddu í ljós að hann hafi orðið fyrir heilaskaða vegna súrefnisskorts eða blóðflæðitruflana og hafi það valdið heilalömun eða „cerebral palsy“. Af hálfu áfrýjanda er byggt á því að þetta verði rakið til mistaka starfsmanna Landspítalans við meðferð móður hans á síðustu dögum meðgöngu, sem að framan er getið, eða við fæðingu hans. Í málinu leitar áfrýjandi skaðabóta af þessum sökum, en fyrir Hæstarétti hefur hann fallið frá kröfu, sem gerð var fyrir héraðsdómi um bætur að fjárhæð 20.000.000 krónur vegna sjúkrakostnaðar og annars fjártjóns.

Fyrir héraðsdómi voru staðhæfingar áfrýjanda um mistök starfsmanna Landspítalans ekki reistar á sérfræðilegum gögnum. Í hinum áfrýjaða dómi, sem kveðinn var upp með sérfróðum meðdómsmönnum, var því hafnað með ítarlegri umfjöllun að um slík mistök hafi verið að ræða. Þeirri niðurstöðu hefur áfrýjandi ekki hnekkt með matsgerð dómkvaddra manna eða á annan hátt, en sönnunarbyrði verður hann að bera fyrir því að starfsmönnum spítalans hafi orðið á þau mistök, sem hann heldur fram. Af þessum sökum verður með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms að staðfesta niðurstöðu hans um annað en gjafsóknarkostnað áfrýjanda, en um gjafsóknarkostnað hans í héraði og fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því, sem í dómsorði segir.

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en gjafsóknarkostnað.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Margeirs Þórs Haukssonar, í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans á báðum dómstigum, samtals 1.200.000 krónur.

 

                                                                  

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. maí 2005.

Mál þetta, sem dómtekið var 8. apríl sl., var höfðað 1. apríl 2004 af Jóhönnu Margeirsdóttur, Skipholti 66, Reykjavík, vegna ólögráða sonar hennar, Margeirs Þórs Haukssonar, sama stað, á hendur íslenska ríkinu.

Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi greiði honum 57.472.578 krónur, en til vara 47.479.892 krónur. Þess er einnig krafist aðallega að stefndi greiði stefnanda vexti samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 af höfuðstól aðalkröfu eða varakröfu frá 10. september 1997 til 28. ágúst 2000 og dráttarvexti frá þeim degi til greiðsludags, en til vara er krafist vaxta samkvæmt sömu lagagrein frá sama upphafsdegi til 19. febrúar 2004 og dráttarvaxta frá þeim degi til greiðslu­dags. Stefnandi krefst máls­kostnaðar úr hendi stefnda eins og málið væri eigi gjafsóknarmál með hliðsjón af gjaldskrá lögmanns stefnanda að viðbættum virðis­auka­skatti, en stefnandi fékk gjafsókn 21. maí 2003.

Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins. Til vara er þess krafist að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og að máls­kostnaður verði látinn falla niður.

 

Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

Stefnandi fæddist 10. september 1997 á fæðingardeild Landspítalans eftir tæplega 32 vikna meðgöngu. Meðgangan var fyrsta meðganga móður. Hún var almennt hraust með enga sérstaka áhættuþætti m.t.t. meðgöngu og fæðingar nema hafði farið í keiluskurð á leghálsi 1995.

Móðir stefnanda leitaði til kvennadeildar spítalans að morgni 6. september að eigin sögn vegna smá blæðinga eða blóðleitrar útferðar. Fram kemur í gögnum málsins að sérfræðingur í kvensjúkdómum og fæðingarhjálp skoðaði hana og sá svo­litla blóðleita útferð en ekki sáust separ eða blæðingarstaðir á leghálsi sem var lítill eftir keiluskurð. Móðirin hafði enga verki og fósturhreyfingar voru góðar og fór hún heim eftir skoðun. Næsta dag leitaði hún aftur til kvenna­deildarinnar, en í gögnum málsins kemur fram að þá hafi verið grunur um farið leg­vatn. Deildarlæknir skoðaði hana og lýsir því þannig að ekki hafi verið sjáanlegt að vatn rynni, en þunnfljótandi útferð hafi verið í leggöngum. Tekið var strok í ræktun. Bráðabirgðaniðurstöður lágu fyrir 10. septem­ber og sýndu vöxt af Gardnerella og endanlegt svar 11. sama mánaðar sýndi vöxt af Gardnerella, blandaðri legganga flóru og eðlilega legganga flóru. Tekin var prufa með pinna sem hefði átt að litast ef um legvatn hefði verið að ræða en svo var ekki. Einnig var sýni skoðað í smásjá en þar komu engin einkenni fram um legvatn sem hefði átt að sjást af kristallamyndun.

Móðir stefnanda fór í mæðraskoðun 9. september, en þá skoðaði ljósmóðir hana. Ljósmóðirin mun hafa þreifað kviðinn/legið og mælt legbotnshæðina. Skráð er að móðirin hafi fundið enn einhvern „leka” en þó minna og hún hafi ekki fundið fyrir kláða eða lykt. Allt virtist eðlilegt og sagði ljósmóðirin móðurinni að þrýstingur gæfi til kynna að nóg legvatn væri í belgnum. Legbotnahæð var einnig mæld þennan dag og var eðlileg miðað við meðgöngulengd.

Móðir stefnanda kom á fæðingardeildina um klukkan 1425 miðvikudaginn 10. september vegna samdráttarverkja. Hún talaði um flensulík einkenni með vægum hita og að vatn hafi runnið frá sér. Við skoðun Hildar Harðardóttur læknis sást að legvatn var í leggöngum, sem hafði ekki sést áður, pinni litaðist og kristallar sáust við smásjárskoðun. Það var því ljóst að rof væri í belgjum.  Líkamshiti móður var 37.3˚C og á blóðprófi var CRP 91 sem bendir enn frekar til bólgusvars í líkamanum. Við ómskoðun sást lítið sem ekkert legvatn, barn var af þokkalegri stærð miðað við meðgöngulengd og barnið virtist rétt skapað, þar á meðal heili. Það var mat læknisins að legvatn væri farið við tæpar 32 vikur, lítið vatn væri eftir kringum barnið og sterkur grunur væri um sýkingu í fósturbelgjum. Fósturrit benti ekki til fósturstreitu og var ákveðið að stefna að fæðingu um leggöng með því framkalla hana með gjöf oxytocin sem hvetur samdrætti og gefa móður sýklalyf en ekki barkstera vegna sýkingarhættu. 

Fæðingin gekk greiðlega miðað við að móðir var frumbyrja og við 31-32 vikna meðgöngu og fæddist drengur klukkan 2135. Dýfa kom í rit klukkan 1630 sem jafnaði sig vel. Grunnlína hækkaði lítillega en var þó innan eðlilegra marka og breytileiki hélst góður.  Rétt fyrir fæðingu komu fram djúpar dýfur. Hiti móður hækkaði og var 38.3˚C klukkan 1840.

Stefnandi var í þokkalegu ástandi við fæðingu og fékk 5 í APGAR eftir 1 mínútu og 7 eftir 5 mínútur. Hins vegar átti stefnandi frá byrjun í öndunarerfiðleikum og var honum strax komið í hendur á barnalæknum á vökudeild. Þar var hann strax settur í öndunarvél og honum gefin sýklalyf. Fyrsta skráning á öndunarvélaraðstoð á vökudeild er klukkan 2150. Samkvæmt gögnum málsins er ljóst að stefnandi þurfti litla öndunarvélaraðstoð sem gekk áfallalaust og hægt var að ljúka henni u. þ. b. sólarhring síðar.

Við ómskoðun á heila stefnanda 24. september og 2. og 14. október 1997 sást víkkun á hliðarhólfum í heila og merki um ákveðinn heilasjúkdóm og heilalömun. Stefnandi hefur einkenni um skerta heilastarfsemi sem talin er stafa af blóðflæði­truflunum í heila og súrefnisskorti á meðgöngu eða í fæðingu.

Eins og fram kemur í gögnum málsins er stefnandi hreyfihamlaður vegna þessa, en hann getur ekki stjórnað hreyfingum og þarf ýmis hjálpartæki. Hann þarf mikla umönnun og aðstoð við allar daglegar athafnir. Í örorkumatsgerð Jónasar Hallgríms-sonar læknis 21. október 2003 kemur meðal annars fram að stefnandi sé nánast hjálparvana líkamlega til allra athafna daglegs lífs, en hann geti hvorki gengið né setið nema með stuðningi. Færni handa hans sé mikið skert. Hjálpartæki gagnist honum ekki í framtíðinni nema á mjög takmarkaðan hátt. Andlegir hæfileikar hans virtust mikið skertir og vafasamt að hann komi til með að njóta þeirra nema að mjög takmörkuðu leyti í mannlegum samskiptum og í námi. Ekki verði séð að hann muni nokkurn tímann geta komist til launaðra starfa og hann komi til með að vera háður öðrum í flestu tilliti. Varanlegur miski stefnanda er í matsgerðinni talinn vera 90% og varanleg örorka 100%.

Af stefnanda hálfu er því haldið fram að tjón hans verði rakið til mistaka starfs­manna stefnda á Landspítalanum. Móðir hans hafi ekki fengið þá umönnum og aðhlynningu sem hún hafi þurft á að halda, en ekki hafi verið brugðist rétt við þegar hún leitaði til starfsmanna spítalans. Ekki hafi heldur verið brugðist rétt við þegar stefnandi fæddist, hvorki í fæðingunni sjálfri né eftir hana, þegar stefnandi hafi þurft viðeigandi læknismeðhöndlun sem hann hafi ekki fengið.

Af stefnda hálfu er því mótmælt að nokkur mistök hafi verið gerð sem varði bóta­ábyrgð. Auk þess séu lýsingar stefnanda á þeirri háttsemi sem hann telji hafa leitt til bótaskyldu allt of almennar og ónákvæmar til þess að unnt verði að byggja á þeim sem bótagrundvelli. Stefndi hafnar því bótaskyldu.    

 

Málsástæður og lagarök stefnanda

Af stefnanda hálfu er málsatvikum lýst þannig að móðir stefnanda hafi orðið þunguð snemma í febrúar 1997. Á meðgöngunni hafi hún farið reglulega í mæðra­skoðun á kvennadeild Landspítalans og hafi allt verið eðlilegt. Hún hefði farið í meðal­stóran keiluskurð árið 1995 á Landspítalanum og hafi skurðurinn verið eini áhættu­þátturinn við fæðinguna. Upplýsingar um hann hafi verið fyrir hendi á deildinni.

Stefnandi hafi fæðst 10. september 1997 á fæðingardeild Landspítalans eftir tæplega 32 vikna meðgöngu. Eftir fæðinguna hafi komið í ljós að hann hefði orðið fyrir súrefnisskorti og sé hann síðan alger öryrki vegna spastiskrar lömunar. Hann hafi verið á vökudeild spítalans vegna þessa frá fæðingu til 17. október sama ár. Þá hafi hann verið útskrifaður en hann var áfram til eftirlits á göngudeild vökudeildar­innar.

Móðir stefnanda hafi fyrst leitað til kvennadeildar spítalans að morgni 6. september vegna smáblæðingar og blóðleitrar útferðar, en hún hafi talið að legvatnið væri að fara. Hún hafi verið sett í svonefndan mónitor og skoðuð af tveimur læknum um klukkan 730. Þeir hafi gert lítið úr þessu og sagt að annar læknir kæmi á vakt klukkan 800 og myndi hann setja hana í „sónar”. Við komu hans, sem hafi verið loks klukkan 930, hafi hins vegar ekki orðið af því, heldur hafi hann skoðað og þreifað leghálsinn. Hann hafi ekki séð orsökina fyrir hinni blóðleitu útferð og hafi sent móður­ina heim. 

Móðir stefnanda hafi farið aftur á spítalann um hádegisbil daginn eftir þar sem hún hafi talið legvatnið vera að fara hægt og rólega. Aftur hafi hún verið sett í „mónitorinn” og ljósmóðir eða hjúkrunarfræðingur hafi sagt henni að alltaf væri hætta, sem fylgdi skoðun eins og þeirri sem gerð var deginum áður, ef leghálsinn væri slappur. Sérstak­lega hafi mátt búast við því vegna aðgerðar á leghálsi árið 1995, en hún auki líkur á fyrirburafæðingu. Aðstoðar­læknir hafi svo komið, skoðað hana og tekið sýni. Ekkert legvatn hafi komið á því augnabliki og hafi hún verið send heim með þeirri skýringu að þetta væri svo mikil og þunn útferð. Fyrir­spurn hennar um hvort útferðin gæti verið svo mikil að það dropaði niður hafi ljósmóðirin svarað játandi. Hún hafi hins vegar enga þörf séð á að kanna eða láta rannsaka tengsl útferðarinnar og slapps legháls. 

Móðir stefnanda hafi pantað aukaskoðun hjá mæðraeftirliti spítalans og farið í hana 9. september 1997, en þá hafi hún enn haft áhyggjur af legvatnsleka. Hún hafi verið rannsökuð og hafi þá meðal annars verið ýtt á kúluna og hafi rannsakandinn sagt nóg legvatn vera til staðar. Aðstoðarlæknir hafi verið kallaður til. Hann hafi sagt að hann gæti skoðað hana en sama kæmi örugglega út úr því og úr fyrri skoðun. Hún hafi farið heim við svo búið og tekið því mjög rólega allan daginn. Morguninn eftir hafi hún vaknað við beinverki og með hita og fljótlega hafi fæðingarhríðar hafist.  Hún hafi því farið þennan dag um klukkan 1430 á spítalann í fjórða sinn og hafi þá loks fengist staðfest að legvatnið var allt farið og einnig hafi verið komin sýking í blóðið. Stefnandi hafi ekki verið tekinn með keisaraskurði þótt svo væri komið heldur hafi hann fæðst með „venjulegum” hætti klukkan 2135 um kvöldið. 

Með bréfi 21. apríl 1998 hafi móðir stefnanda komið á framfæri við landlækni kvörtun vegna sjúkraþjónustu og læknismeðferðar við fæðingu stefnanda. Land­læknis­embættið hafi með bréfi 7. desember sama ár tilkynnt að athugun þess á málinu væri lokið. Álit sérfræðings, sem hafi farið yfir málið, sé á þá leið að honum virtist sem farið hefði verið „eftir öllum venjulegum viðteknum reglum og fyrir­mælum í sambandi við fyrirburafæðingar og farið legvatn”. Sjúkdómurinn „periven­tri­culer leukomalacia” sé af völdum súrefnisskorts sem gæti hafa byrjað löngu fyrir fæðingu. Fósturrit í fæðingunni telji hann innan eðlilegra marka að undantekinni einni dýfu klukkan 1650, sem hafi jafnast fljótt, og nokkru hröðum hjart­slætti síðar, sem hann telji að geti hafa stafað af hita­hækkun hjá konunni. Að áliti hans hafi ekki verið um neinar grófar sjúklegar breytingar á hjartsláttarriti að ræða, sem á þeim tíma hafi gefið tilefni til frekari aðgerða. Niðurstaða embættisins hafi verið sú að fötlun stefnanda stafi af heilasjúkdómi sem komið hafi í kjölfar súrefnisskorts. Ekki sé hægt að fullyrða hvenær sá skaði varð, en að áliti sérfræðings embættisins hafi tilhlýðilega verið staðið að aðgerðum í sambandi við fæðinguna. 

Af stefnanda hálfu sé vísað til greinargerðar Reynis Tómasar Geirssonar próf­essors og forstöðulæknis kvennadeildar Landspítalans sem samin hafi verið í tilefni af kvörtun móður stefnanda 14. maí 1999 til nefndar um ágreiningsmál samkvæmt lögum nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu. Þar segi að hún hafi komið í skoðun á kvenna­deildina 6. september 1997, „sem var laugardagur”. Lýsi Þórður Óskarsson sérfræðingur skoðun svo að móðirin hafi ekki haft verki. Fósturhjartsláttarrit hafi verið eðlilegt og “reaktíft”. Læknirinn hafi gert venjubundna skoðun um leggöng og lýsi svolítilli blóðlitaðri útferð, en ekki sæjust separ eða blæðingastaðir. Móðirin hafi síðan farið heim. Ekki hafi samkvæmt þessu þótt ástæða til frekari aðgerða, þar sem einkenni hafi verið lítil og ekki annað að sjá en framangreint. Í greinargerðinni komi enn fremur fram að móðirin hafi komið aftur næsta dag og hafi þá verið skoðuð af lækni „vegna gruns um farið legvatn”. Skoðuninni hafi læknirinn lýst þannig að ekki rynni legvatn, en þunnfljótandi útferð væri í leggöngum. Strok hafi verið tekið af útferðinni í ræktun og jafnframt hafi verið settur upp legvatnspinni, sem sé næmur fyrir sýrustigsbreytingum, þar sem legvatn hafi annað sýrustig en venjuleg útferð úr leggöngum, en litur pinnans hafi ekkert breyst. Tekið hafi verið strok á smásjárgler, sem látið er þorna til þess að skoða hvort kristallamyndun verði í sýninu, en það gerist við legvatnsleka. Slík myndun hafi ekki sést og grunur um legvatnslekann hafi því ekki fengist staðfestur. Því hafi væntanlega verið talið að ekki væri nein ástæða til frekari aðgerða.

Í greinargerðinni segi síðan að móðirin hafi næst verið skoðuð á göngudeild 9. september af ljósmóður sem hafi annast hana í mæðraskoðuninni. Allt hafi þá verið talið eðlilegt, m.a. legbotnshæð, sem hafi mælst 31 cm, sem svari til rúmra 31 viku meðgöngulengdar. Bendi það til þess að legvatn hafi annað hvort ekki verið farið eða að leki hafi aðeins tekið til hluta legvatnsins. Hafi ljósmóðirin skrifað að móðirin væri enn með einhvern „leka” í gegnum leggöng en þó minni og engin einkenni hafi virst vera til staðar. Þá segi í greinargerðinni að 7. september hefði verið tekið strok úr leggöngum í bakteríuræktun og hafi þar fundist Gardnerella vaginalis og blandaðar loftfælnar bakteríur, en einnig eðlileg vaginal flóra. Ekki sé víst að þessi skoðun hafi legið fyrir við skoðunina 9. september. Í greinargerðinni segi síðan svo:  „Þannig var fram til 9. september, að mati þriggja reyndra heilbrigðisstarfsmanna, ekki nein örugg vísbending um legvatnsleka, eins og þá var unnt að staðfesta það með þeim venjubundnu skoðunum sem til þess eru ætlaðar.”

Læknirinn greini síðan frá því að 10. september hafi móðirin komið á fæðinga­deildina klukkan 1425 vegna verkja á fimm mínútna fresti sem augljóslega hafi verið samdráttarverkir. Við komuna hafi fundist spenna á leginu og um tvær mínútur hafi verið milli samdrátta. Móðirin hafi talið sig vera með flensueinkenni, en líkamshiti hennar hafi verið 37,3˚C og púls nokkuð hraður en blóðþrýstingur eðlilegur. Aðstoðar­lækni hafi verið gert viðvart og hafi hann gert athugasemd um að hún „hefði komið 7. september vegna gruns um farið vatn, en þá hafi ekki verið hægt að stað­festa það”. Við skoðun hafi komið í ljós legvatnspollur í leggöngum og leg­vatns­pinni hafi litast svartur sem merki um að legvatnið væri líklega farið. Blóð­rannsóknir hafi sýnt merki um sýkingu. Stuttu síðar hafi sérfræð­ingur skoðað móðurina. Hjartsláttar­rit af fóstrinu hafi sýnt eðlilega grunnlínu og eðlilegan breytileika, en ekki hraðanir. Óm­skoðun þessa læknis hafi sýnt að nær ekkert legvatn hafi verið til staðar og fósturvöxtur hafi verið aðeins undir meðallagi. Skoðun á heilavef og höfði hafi ekki leitt neitt óeðlilegt í ljós. Ákveðið hafi verið að hafa móðurina fastandi, fylgjast með barninu í síritun, gefa henni vökva og koma fæðingu af stað með því að hvetja sóttina með hormóninu oxytocin. Ekkert hafi mælt gegn fæðingu um leggöng sem sé í til­vikum sem þessum viðurkennd og hefðbundin meðferð. Við keisaraskurð þurfi að fara inn í sýkta vefi sem geti verið hættulegt fyrir móðurina. Með tilliti til heilsu­fars hennar hafi fæðing verið betra úrræði en keisaraskurður og fæðingin eigi ekki að breyta neinu fyrir barnið.

Þá greini forstöðulæknirinn frá því að hann hafi farið í gegnum hjartsláttarrit barnsins frá 6. til 10. september og sé ekki hægt að segja að þau séu óeðlileg. Engin breyting sé á milli þessara tímapunkta og þar af leiðandi ekki sjáanleg nein streita hjá barninu miðað við það sem vænta mátti 6. september þegar móðirin hafi komið fyrst. Ritið hafi síðan haldist alveg eðlilegt í fæðingunni nema hvað aðeins hafi herst á hjartslættinum eftir að gangsetningartilraun byrjaði og ein allstór dýfa hafi virst vera til staðar stuttu eftir að ritunin hófst en hjartslátturinn eðlilegur eftir það. Dýfan hafi staðið í um 13 mínútur. Um 25 mínútum áður en barnið fæddist hafi farið að bera á breytilegum dýfum og 15 mínútum áður hafi farið að bera á nokkuð hraðari hjartslætti. Síðasti lesanlegi hluti ritsins sé klukkan 230 eða fimm mínútum áður en barnið fæddist og „virðist þá sá hluti vera innan eðlilegra marka, þótt erfitt sé að túlka það.” Jón Hilmar Alfreðsson sérfræðingur hafi skoðað móðurina um klukkan 1900. Höfuð barnsins hafi staðið vel niður en líkamshiti hafði hækkað í 38,3 gráður sem skýri að nokkru hvers vegna hjartslátturinn var aðeins hraðari, en þó með góðum breytileika áfram. Þá hafi verið rætt við barnalækna og ákveðið að halda áfram með fæðinguna eins og til hafði staðið. Rafskaut hafi verið sett á koll barnsins klukkan 2040 til að fylgjast með hjartslætti þess. I. stig fæðingarinnar hafi staðið yfir tæpar sjö klukku­stundir, sem geti ekki talist óhóflega langt, og II. stig fæðingarinnar hafi aðeins tekið 20 mínútur. Undir lok fæðingarinnar hafi ljósmóðir lýst hjartsláttar­dýfum í hríðunum, sem hafi jafnað sig vel á milli, og hafi móðirin fengið súrefnisgjöf. Þetta hafi verið eðlilegur framgangsmáti í fæðingu af þessu tagi. Líkamshiti móðurinnar hafi dottið niður nær strax eftir fæðinguna, en sýkingin í leg­holi og leg­vöðvanum hafi lagast að nokkrum tíma liðnum svo sem vænta mátti.

Stefnandi vísi til þess sem fram komi í áliti forstöðulæknisins í sömu greinargerð um að móðirin virtist hafa fengið fullnægjandi skoðun á meðgöngunni og einnig, þegar hún leitaði til sjúkrahússins 6. og 7. september. Ekki hafi þá verið ástæða til að framkvæma ómskoðun, þegar klínísk skoðun staðfesti ekki grun um legvatnsleka og legstærð hafi verið eðlileg. Slímkennd útferð, oft vökvakennd, sé algeng í meðgöngu án þess að nokkuð sé að. Keiluskurður hefði getað gefið aðvörun um að líklegra væri en ella að fyrirburafæðing gæti orðið eða að legvatn gæti lekið eftir sýkingu eða belgjarof, en við skoðun hafi ekkert bent til slíks. Öllum hafi verið fullljóst 6. september að móðirin hafði farið í keiluskurð og að þessi hætta vofði yfir. Um athugasemdir hennar varðandi skoðun á göngudeildinni 9. september sé erfitt að dæma, en læknirinn telji fullvíst að ljósmóðirin hefði látið skoða hana betur ef henni hefði fundist vera ástæða til samkvæmt skoðun þá. Eftir að móðirin kom inn á deildina hafi meðhöndlun verið í einu og öllu eins og eðlilegt var.  Í bréfi barnalækna varðandi stefnanda 19. nóvember 1997 komi fram að hann hafi haft respiratoriska acidosa (öndunarblóðsýringu) í byrjun eftir að hann fæddist og það sé merki um tiltölulegan vægan súrefnisskort alveg í lok fæðingarinnar eins og sjá megi af þeim hlutum hjartsláttarritsins sem til eru og dæma megi af lýsingu ljósmóður í fæðing­unni. Mjög ólíklegt sé að slíkur skortur, sem sé aðeins hlutfallslegur, geti valdið nokkrum bráðum eða varanlegum skaða. Stefnandi hafi verið meðhöndlaður með til­liti til þessa og sýkingar strax eftir fæðinguna. Fæðing með keisaraskurði hafi ekki komið til greina við þessar aðstæður, enda ekki vanalegt að slíkt sé gert. Vandleg skoðun Hildar Harðardóttur læknis á fóstrinu hafi ekki sýnt neitt athugavert, einkum ekki á heilavef. Á kvennadeildinni sé allt gert til að reyna að viðhafa fagleg vinnubrögð og tryggja að barnið komi í heiminn í sem bestu ástandi. Telji læknirinn að ekkert bendi til þess að hér hafi verið brugðið út af viðurkenndum stöðlum varðandi meðferð móður­innar í fæðingunni og m.t.t. hagsmuna hins ófædda barns fyrir og meðan á fæðingunni stóð. Með öllu sé óvíst hvort það hefði breytt nokkru um meðferð eða framgang málsins þó með vissu hefði uppgötvast fyrr að legvatn hafi verið farið. Slíkt hefði í mesta lagi getað orðið 4 dögum fyrr, en þar sem konan hafi þá verið verkjalaus og ekki með nein augljós sýkingareinkenni, hefði verið beðið átekta.  Eini munurinn hefði verið sá að konan hefði sennilega samkvæmt venju hér á deildinni verið innlögð á Kvennadeild Landspítalans. Engar rannsóknir bendi hins vegar til þess að slík innlögn bæti útkomu þungana svo neinu nemi. Þegar verkir  byrjuðu og hiti kom til hefði fæðingin verið hvött með sama hætti og gert var og sýklalyf gefin. Ekki hafi verið ástæða til að gera keisaraskurð. Ólíklegt verði að teljast að væg respíratorisk blóðsýring hafi orsakað spastíska lömun barnsins.

Í kvörtun til nefndar um ágreiningsmál um heilbrigðisþjónustu hafi móðir stefnanda gert þá kröfu að nefndin mæti hvort heilsutjón stefnanda mætti rekja til rangrar meðferðar, mistaka eða dráttar á viðeigandi meðferð eða einhvers annars, sem viðkomandi sjúkrastofnun bæri ábyrgð á. Niðurstaða nefndarinnar hafi verið sú að hugsanlega hefði mátt skoða móðurina betur þegar hún leitaði í þriðja sinn á spítal­ann og kvartaði yfir leka um leggöng. Nefndin hafi þó ekki talið unnt að full­yrða að bein tengsl væru á milli þess tjóns sem barnið varð fyrir og þess að legvatn var farið fyrir fæðinguna. Nefndin hafi enn fremur talið ekkert í fram­komnum gögnum benda til að starfsfólki spítalans hafi orðið á mistök við fæðingu stefnanda og „fellst ekki á þá skoðun að eðlilegt hafi verið að framkvæma keisaraskurð við þessar aðstæður”. 

Sama kvöld og stefnandi fæddist hafi verið beðið um rannsókn á öndunarfærum hans vegna öndunarörðugleika. Í umsögn sinni daginn eftir segi Einar H. Jónmunds­son m.a. að þétting sé í hægri lungnatoppi aðlægt miðmæti, sennilega samfall á lungna­vef og dálítið gróft niður frá hægra lungnahliði, sennilega léleg loftfylling. Striklaga þéttingar séu út frá vinstra lungnahliði en lungað vel loftfyllt þar fyrir utan. Í samantekt sinni 10. september 1997 á sjúkrasögu stefnanda segi Herbert Eiríksson að stefnandi hafi verið lagður inn „með öndunarörðugleika, farið vatn í 4 sólarhringa og móðir komin með hita”.

Ómskoðun hafi farið fram á heila stefnanda 2. október 1997. Þá hafi sést ofanvert og hliðlægt við aðalhluta hliðarheilahólfa ómsnauðir flekkir, sá stærsti allt að 0,5 cm að stærð. Rannsakandinn, Sigurður V. Sigurjónsson, segi í umsögn sinni að sennilega sé um hvítefnissjúkdóm/gisnun að ræða, líklega breytingar af völdum súrefnisskorts.

Við skoðun Péturs Lúðvíkssonar á stefnanda 10. október sama ár hafi komið fram að vægt víð heilahólf og hvítefnisbreytingar umhverfis þau bendi til hvítefnis­sjúkdóms umhverfis heilahólfin með vefjatapi og þar með nokkurri áhættu á tauga­fræðilegum eftirköstum, t.d. síkrampa tvílömun. Álit hans sé að líklegar orsakir þessara breytinga séu blóðflæðistruflanir í tengslum við streituástand fyrir og kringum fæðingu, og að merki um brátt nýrna-pípludrep og hugsanlega einnig hratt batnandi vanöndun á fyrstu sólarhringum tengist þessu.

Í bréfi sínu til landlæknisembættisins 20. júlí 1998 segi Hörður Bergsteinsson læknir að orsakir breytinganna á heila stefnanda séu taldar blóðflæðitruflanir í sambandi við stress ástand fyrir og/eða í kringum fæðinguna. Í niðurlagi bréfsins segi að það komi „hins vegar fram í læknabréfi og okkar gögnum að við teljum orsökina fyrir periventricular malaciu og þar með hans klínisku einkennum vera súrefnisskort sem að hefur átt sér stað fyrir eða í fæðingu”.

Jónas Hallgrímsson læknir hafi verið beðinn um álit sitt á örorku stefnanda, „sem hann býr við, og gögn benda til að rekja megi til súrefnisskorts”. Í matsgerð 21. októ­ber 2003 sé það niðurstaða hans að varanlegur miski stefnanda vegna þessa sé 90% og varanleg örorka 100%. Móðir stefnanda, sem fari ein með forsjá hans, reki framan­greind örkuml og örorku hans til sakar starfsmanna spítalans, sem komið hafi að málinu, en stefndi beri ábyrgðina sem vinnuveitandi þeirra. Hún hafi leitað eftir afstöðu ríkislögmanns til bótaskyldu vegna þessa með bréfi 28. júlí 2000, en með bréfi hans 25. september s.á. hafi henni verið hafnað. Sú afstaða hafi verið áréttuð 23. janúar 2004.

Stefnandi byggi á því að viðkomandi starfsmönnum spítalans hafi orðið á mistök við fæðingu stefnanda, aðdraganda hennar frá 6. september 1997 og eftirmeðferð með athöfnum sínum og aðgerðum sem og aðgerðarleysi sem leitt hafi til hins alvar­lega heilsutjóns stefnanda. Því sé einnig haldið fram og á því byggt að sönnunar­byrðin sé öfug, þ.e. að stefnda beri að sýna fram á að umræddir starfsmenn spítalans hafi í öllu, frá 6. september 1997 þar til heilaskaði stefnanda varð staðreyndur, framkvæmt starfa sinn eins og þeim hafi framast verið unnt og til var ætlast og beitt full­nægjandi aðferðum í hvívetna. Honum beri jafnframt að sýna fram á að allur nauð­syn­legur og fullnægjandi aðbúnaður hafi verið til staðar. Sönnunar­byrðina fyrir því að skaðinn og tjónið hefðu orðið þó að engin mistök hefðu verið gerð beri að leggja á stefnda.

Athafnir starfsmannanna hafi verið flausturslegar og ófullnægjandi og ákvarðanir þeirra ómarkvissar og rangar. Þeir hafi brugðist starfsskyldum sínum. Fyrir vikið sé af þeirra hálfu ekki hægt að fullyrða að framangreindur heilaskaði stefnanda hafi verið óumflýjanlegur. 

1. Fyrir 6. september 1997 hafi legið fyrir vitneskja um að hætta gat verið á ótímabærri fæðingu stefnanda. Tilefni komu móður hans á fæðingadeildina hefði þess vegna átt að kalla á og fram allt önnur og betri vinnubrögð og verklag, en þá var beitt. Full ástæða hafi verið fyrir starfsmennina að vera vel á verði og haga sér samkvæmt því með viðeigandi ráðstöfunum og meðferð til þess að minnka líkur á heilsutjóni stefnanda í stað þess að gera lítið úr hlutunum og senda hana heim. Þarna hafi þeim orðið á alvarleg mistök. 

2. Það sama gildi um endurkomur hennar 7. og 9. september. Umkvörtunum hennar og vandamálum hafi verið tekið með léttúð, skeytingarleysi og vanvirðingu í stað alvöru, ábyrgðar og réttrar meðhöndlunar. Fyrir vikið hafi hún fyllst kvíða, ótta, óöryggi og annarri vanlíðan í stað þess að geta treyst því fullkomlega að hljóta þá bestu viðeigandi umönnun og meðferð sem völ hafi verið á. Þessir annmarkar og mis­tök hafi aukið áhættuna á þeim skaða sem stefnandi varð fyrir. 

3. Sama hafi komið skýrlega í ljós þegar móðir stefnanda leitaði til spítalans 10. september 1997 vegna samdráttarverkja og lasleika. Miðað við forsögu hennar hafi fæðingarhjálpin og læknismeðferðin þá einkennst af streitu, ónákvæmni og andvara­leysi í stað yfirvegunar, vandvirkni og réttrar meðhöndlunar. Dýfan, sem varð á hjartsláttarritinu skömmu eftir að taka þess hófst, hafi átt að vera áminning og hvatning til viðkomandi um að bregðast skjótt við með viðeigandi aðgerðum. Það hafi brugðist þá sem fyrr og allt þetta hafi eðlilega haft mikil áhrif á móður stefnanda og þá ekki síður á hann sjálfan, heilsu hans og velfarnað. 

4. Þá hafi skort, af óskýrðum ástæðum, mikilsverðar upplýsingar af sírita af síðustu fimm mínútunum fyrir fæðinguna og sé því ekkert þá vitað um ástand stefnanda. Þetta kunni að hafa verið afdrifaríkar mínútur fyrir hann. Stefndi beri hallann af þessum upplýsingaskorti. Sama gildi um hvers kyns vanfærslur í sjúkra­skrár í umrætt sinn, hverju nafni sem nefnist. Öll slík vanræksla sé á ábyrgð stefnda.

5. Ekki hafi verið staðið að meðhöndlun stefnanda og umönnun eftir fæðinguna með réttum og fullnægjandi hætti miðað við ástand hans, þegar hann kom í heiminn. Ekki sé unnt að útiloka að stefnandi hafi þá orðið fyrir hinum afdrifaríka súrefnis­skorti.

Stefndi geti samkvæmt framanrituðu ekki sýnt fram á að rétt og/eða fullnægjandi vinnubrögð hafi verið viðhöfð eða réttri og/eða viðhlítandi meðferð beitt. Bótaskylda hans sé því tvímælalaust til staðar.

Lagarök stefnanda séu almennar reglur skaðabótaréttar um sök og húsbónda- og vinnuveitendaábyrgð. Dómkröfur sínar byggi stefnandi og á skaðabótalögum nr. 50/1993, sbr. lög nr. 42/1996. Stefnandi sundurliði bótakröfu sína í aðalkröfu þannig:

 

1.         Sjúkrakostnaður og annað fjártjón

samkvæmt 1. gr. skaðabótalaga                   20.000.000 króna

 

2.         Miskabætur með 50% álagi samkvæmt 4. gr.

sömu laga miðað við lánskjaravísitölu

í apríl 2004, 4555 stig.                        7.494.516 krónur

       

3.         Örorkubætur samkvæmt þágildandi 8. gr. laganna         29.978.062 krónur

                 Samtals         57.472.578 krónur.

                       

Sjúkrakostnað og annan kostnað skýri stefnandi þannig að hann þurfi stöðugrar umönnunar, sem móðir hans hafi veitt frá upphafi, en fyrir vikið hafi hún ekki getað stundað launaða atvinnu. Hún hafi helgað sig meðferð hans og kappkostað að hann fengi og fái þá bestu faglegu umönnun, sérkennslu, þjálfun og endurhæfingu, sem völ sé á. Húsnæði þeirra mæðginanna hafi að nokkru verið breytt og lagað að þörfum hans, getu og þroska. Kostnaður vegna alls þessa sé alls ekki ofáætlaður nema síður sé með 20.000.000 króna. Varakrafa stefnanda sé miðuð við að örorkubæturnar samkvæmt 8. gr. skaðabótalaga séu fjórfaldar miskabætur án 50% álagsins. Nemi þær þá 19.985.376 krónum í stað 29.978.062 krónum. Að öðru leyti sé þessi kröfugerð óbreytt tölulega og samtala hennar því 47.479.892 krónur.

Aðalkrafa stefnanda um vexti frá 10. september 1997 til 28. ágúst 2000 byggðist á 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987. Aðalkrafan um dráttarvexti frá síðastnefndum degi til 1. júlí 2001 byggðist á 3. kafla sömu laga og 3. kafla laga um vexti og verð­tryggingu nr. 38/2001 frá 1. júlí 2001. Á upphafsdegi dráttar­vaxtanna, 28. ágúst 2000, hafi mánuður verið liðinn frá áðurnefndu bréfi til ríkislögmanns, þar sem tilkynnt hafi verið af hálfu stefnanda að skaðabótakrafa yrði höfð uppi. Varakrafa stefnanda um vexti frá 10. september 1997 til 19. febrúar 2004 og dráttarvaxtakrafan frá þeim degi byggðist á sömu lögum. Þessi krafa taki mið af því að þann dag hafi mánuður verið liðinn frá bréfi stefnanda til ríkislögmanns, þar sem hann hafi áréttað bótakröfu sína og sundurliðað hana tölulega. Krafan um málskostnað sé byggð á 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt á málskostnaðinn sé gerð samkvæmt lögum nr. 50/1988.

 

Málsástæður og lagarök stefnda

Af hálfu stefnda er vísað til þess að mæðraskoðun á Kvennadeild Landspítala við sex vikna og 13 vikna meðgöngu hafi verið eðlileg. Allar venjulegar blóð- og þvagrannsóknir við fyrstu komu hafi verið eðlilegar. Skoðun við 18-19 vikna óm­skoðun hafi verið eðlileg, fylgja á framvegg og ekki lágsæt. Þessar skoðanir hafi verið gerðar af reyndu starfsfólki Landspítalans. Móðir stefnanda hafi komið til skoðunar 21. júlí 1997, gengin 26 vikur, og hafi allt verið eðlilegt, en hún hafi þá verið skoðuð af sérfróðum lækni og ljósmóður. Aftur hafi hún komið í skoðun 18. ágúst við rúmlega 28 vikur og hafi þá allt verið eðlilegt. Þannig hafi verið um að ræða eðlilega tíðni skoðana hjá heilbrigðri konu, en eini áhættuþátturinn, sem um hafi verið að ræða, hafi verið keiluskurður.

Þegar móðir stefnanda kom í skoðun 6. september sama ár á kvennadeild, þá gengin 31 viku og 1 dag samkvæmt ómskoðun, hafi hún verið skoðuð af reyndum lækni. Hann hafi lýst athugun sinni svo að hún hafi ekki haft verki og hafi hreyfingar verið eðlilegar, framveggsfylgja, sem ekki hafi verið lágsæt, hafði sést við ómskoðun og fósturhjartsláttarrit hafi verið eðlilegt og reaktíft. Læknirinn hafi gert venjubundna skoðun um leggöng og hann hafi lýsti svolítilli blóðlitaðri útferð, en að ekki sæjust separ eða blæðingastaðir. Leghálsinn hafi verið lítill eftir keiluskurð. Ekki hafi verið talin ástæða til frekari aðgerða þar sem um lítil einkenni hafi verið að ræða og hafi móðirin verið send heim. Engin gögn væru um að læknar hafi áformað að hún yrði sett í sónar þennan dag, enda hafi það ekki verið niðurstaða læknisins, sem meðhöndlaði hana, og engin ástæða hafi verið til þess við þessar aðstæður.

Daginn eftir hafi móðir stefnanda komið og þá hafi hún verið skoðuð af reyndum deildarlækni á kvennadeild. Skoðunin hafi verið vegna gruns um að legvatn væri farið. Gerð hafi verið skoðun um leggöng og lýsi læknirinn henni þannig að ekki rynni legvatn en þunnfljótandi útferð væri í leggöngum. Tekið hafi verið strok úr útferðinni í ræktun. Læknirinn hafi notað legvatnspinna til að gera greinarmun á legvatni og venjulegri útferð, en litur pinnans hafi ekki breyst og þannig hafi ekki komið svörun um farið legvatn. Þá hafi verið tekið strok á smásjárgler til að skoða hvort kristallamyndun yrði í sýninu, en það varð ekki og því ekki staðfestur grunur um legvatnsleka. Þannig hafi ekki verið talin ástæða til frekari aðgerða. Hvergi sé stoð fyrir því að hætta hafi fylgt þeirri skoðun sem fram fór daginn áður. Þá hafi engin þörf verið til að rannsaka tengsl útferðarinnar og slapps legháls sem ekki sé vitað að hafi verið fyrir hendi. Hvergi hafi komið fram að rætt hafi verið um mikinn leka umrætt sinn. Fullyrðingar af hálfu stefnanda um þetta eigi sér því enga stoð.

Allt hafi verið eðlilegt er móðirin kom næst til skoðunar 9. september s.á. hjá þeirri ljósmóður sem hafi séð hana í mæðraskoðuninni. Legbotnshæð hafi bent til þess að legvatn hafi annað hvort ekki verið farið eða að leki hefði aðeins tekið til hluta legvatnsins. Þannig hafi verið merki um eðlilegt legvatnsmagn. Skráð hafi verið að hún hefði enn verið með einhvern leka um leggöng, en þó minna og engin einkenni, svo sem kláði eða vond lykt, virtust til staðar. Niðurstöður úr rannsóknum á sýnum, sem tekin voru 7. september, hafi sennilegt legið fyrir við skoðunina 9. september þar sem ekki hafi verið gerð athugasemd við hana.

Þannig hafi á þessum tíma ekki verið nein örugg vísbending um legvatnsleka að mati þriggja sérfræðinga eins og þá hafi verið unnt að staðfesta með venjubundnum skoðunum. Í öllum tilvikum hafi verið beitt þeim aðferðum sem eðlilegar gátu talist og viðurkenndar.

Móðir stefnanda hafi komið á Fæðingardeild Landspítalans 10. september 1997 klukkan 1425 vegna verkja. Hún hafi þá verið gengin 31 viku og 5 daga. Í greinargerð yfirlæknis kvennadeildar sé komu hennar og aðgerðum lýst. Hún hafi talið sig hafa flensueinkenni en líkamshiti hafi verið 37,3 gráður og púls nokkuð hraður. Aðstoðarlækni hafi verið gert viðvart. Við skoðun hafi komið í ljós legvatnspollur í leggöngum og strok tekið í ræktun. Settur hafi verið upp legvatnspinni, sem hafi gefið merki um að legvatn væri líklega farið, en það hefði ekki verið unnt að stað­festa áður. Blóðrannsóknir hafi sýnt merki um sýkingu. Sérfræðingur hafi einnig komið til, en hann hafi farið yfir sögu móðurinnar og skoðaði hana. Legháls hafi virst að mestu lokaður og hjartsláttarrit hafi sýnt eðlilegan breytileika, en ekki hraðanir. Ritið hafi talist eðlilegt. Ómskoðun síðar, sem sérfræðingur hafi gert, hafi sýnt að nær ekkert legvatn hafi verið til staðar og fósturvöxtur hafi aðeins verið undir meðallagi. Skoðuð hafi verið sérstaklega innri líffæri stefnanda en sérfræðingurinn, sem hafi sérstaka reynslu af meðhöndlun áhættumeðgangna og í ómskoðunum, hafi tekið fram að skoðun á heilavef og höfði hafi verið alveg eðlileg. Hjartsláttarrit sem tekin hafi verið 6., 7., 9. og 10. september hafi þannig ekki verið óeðlileg og engin sjáanleg streita á barninu.

Lögð hafi verið áhersla á að ekkert hafi verið talið mæla gegn fæðingu um leggöng. Ákveðið hafi verið að hafa móðurina fastandi, fylgst yrði með barninu í síritun, móður yrði gefinn vökvi og fæðingu komið af stað með því að hvetja sóttina með oxytocins gjöf. Ekki hafi verið gefnir barksterar vegna sýkingarhættu, en gefin sýklalyf. Ekkert hafi komið fram sem gefið hafi tilefni til annars inngrips svo sem keisaraskurðar, en engin streita hafi fundist hjá stefnanda.

Í fæðingunni hafi ritið haldist eðlilegt utan þess að aðeins hafi herst á hjartslættinum á næstu klukkutímum eftir að gangsetningartilraun byrjaði og ein stór dýfa virtist til staðar stuttu eftir að ritun hófst. Eftir það hafi hjartsláttur verið eðlilegur. Dýfan hafi staðið í 13 mínútur en jafnað sig. Um 25 mínútum áður en stefnandi fæddist hafi farið að bera á breytilegum dýfum og síðan stundarfjórðungi áður en hann fæddist hafi farið að bera á hraðari hjartslætti. Síðasta ritunin áður en stefnandi fæddist um klukkan 2130 hafi verið innan eðlilegra marka og hafi hann síðan fæðst um fimm mínútum síðar.

Í gögnum komi einnig fram að sérfræðingur hefði skoðað móðurina um klukkan 19. Höfuð barnsins hafi staðið vel niður en líkamshiti hafði hækkað í 38,8 gráður, sem skýri að nokkru hraðari hjartslátt, sem þó hafi verið með góðum breytileika. Rætt hafi verið við barnalækna og ákveðið að halda áfram fæðingunni. Móðirin hafi fengið verkjalyf og rafskaut hafi verið sett á klukkan 2040 til að fylgjast með hjartslætti. Útvíkkun hafi lokið klukkan 2115 og hafi fyrsta stig fæðingarinnar ekki verið talið óhóflega langt. Annað stig hafi verið um 20 mínútur. Ljósmóðir hafi lýst hjartsláttar­dýfum undir lok fæðingarinnar sem hafi jafnað sig vel á milli og hafi móðirin fengið súrefnisgjöf. Gangur fæðingarinnar hafi því verið eðlilegur. Fylgjufæðing hafi verið eðlileg og eftirlit með fæðingunni og móðurinni eftir hana eðlileg. Sýking hafi svarað sýklagjöf vel og hafi móðirin jafnað sig hratt og vel.

Stefnandi hafi fæðst um klukkan 2135 umræddan dag. Hann hafi tekið vel við sér, hafi haft apgargildi 5 eftir 1. mínútu og 7 eftir 5 mínútur. Hann hafi strax verið færður á vökudeild þar sem barnalæknar hafi tekið við honum og meðhöndlað hann vegna öndunarerfiðleika. Hann hafi meðal annars verið settur í öndunarvél og á sýkla­lyf. Hann hafi verið til meðhöndlunar dagana á eftir. Hann virtist jafna sig vel á öndunarerfiðleikum og hafi verið extuberaður, en sýklagjöf haldið áfram.

Málatilbúnaður í stefnu geymi almennar fullyrðingar sem ekki séu rökstuddar að marki. Þessi framsetning geri stefnda erfitt fyrir við að meta hvar í ferlinu sé rétt að bera niður og hversu stóran hluta þess beri að útlista. Stefndi mótmæli einhliða frásögnum móður stefnanda um tilsvör starfsmanna stefnda sem ekki eigi sér stoð í gögnum málsins og sé ætlað að vera stefnda í óhag. Það sé rangt að læknar eða ljósmæður hafi gert lítið úr lýsingum móður stefnanda. Þvert á móti hafi starfsfólk spítalans rannsakað allt það sem tilefni gafst til með viðurkenndum aðferðum og brugðist rétt við.

Stefnandi byggi á því að starfsmönnum Landspítala hafi orðið á mistök við fæðingu stefnanda, aðdraganda hennar frá 6. september 1997 og eftirmeðferð með athöfnum sínum og aðgerðum sem og athafnaleysi. Í stefnu sé því haldið fram að mistök hafi valdið hinu alvarlega heilsutjóni stefnanda. Einnig að öll sönnunarbyrði í málinu sé öfug þannig að stefndi verði að sanna að starfsmenn hans hafi staðið tilhlýðilega að verki með fullnægjandi aðferðum og aðbúnaði. Byggt sé á því í stefnu að stefndi beri einnig sönnunarbyrði fyrir því að skaðinn og tjónið hefði orðið þótt engin mistök hefðu verið gerð. Frekari málsástæður fyrir dómkröfum stefnanda séu síðan raktar í fimm liðum, en þær séu í algeru ósamræmi við undanfarandi lýsingu málavaxta. Stefndi mótmæli málatilbúnaði stefnanda og kröfum á honum reistum. Engri saknæmri eða ólögmætri háttsemi sé til að dreifa af hálfu starfsmanna stefnda. Þá sé því mótmælt sem röngu og ósönnuðu að heilsutjón stefnanda sé um að kenna háttsemi starfsmanna stefnda. Hvergi hafi verið til að dreifa saknæmum eða ólög­mætum mistökum af þeirra hálfu sem geti orðið grundvöllur bótaábyrgðar.

Málavaxtalýsing í stefnu hafi að verulegu leyti verið unnin upp úr samantekt Reynis Tómasar Geirssonar yfirlæknis og prófessors og lýst sé álitum lækna sem komið hafi að meðhöndlun stefnanda og vegna kvartana móður hans til landlæknis. Einnig sé greint frá áliti landlæknis og nefndar um ágreiningsmál samkvæmt lögum nr. 97/1990. Málsástæður í stefnu séu almenns efnis en hvergi sé að marki reynt að gagnrýna meðhöndlun móður stefnanda eða meðhöndlun hans með læknisfræði­legum eða efnislegum rökum. Þar séu aðeins fullyrðingar, sem á köflum séu ómál­efnalegar, en í öllum tilvikum órökstuddar og haldlausar.

Af hálfu stefnanda sé byggt á því að athafnir starfsmanna hafi verið „flausturs­legar og ófullnægjandi og ákvarðanir þeirra ómarkvissar og rangar“ auk þess sem þeir hafi brugðist starfsskyldum sínum. Starfsmenn hafi átt að viðhafa „önnur og betri vinnubrögð“, þeim hafi orðið á „alvarleg mistök“, vandamálum móðurinnar hafi verið tekið af „léttúð, skeytingarleysi og vanvirðingu í stað alvöru, ábyrgðar og réttrar meðhöndlunar“. Einnig sé því borið við að fæðingar­hjálpin og læknis­meðferðin hafi einkennst af „streitu, ónákvæmni og andvaraleysi í stað yfirvegunar, vandvirkni og réttrar meðhöndlunar“. Í þessu sambandi sé nefnd „dýfan“ sem hafi orðið á hjartsláttarritinu skömmu eftir að taka þess hófst og að hún hefði átt að verða „áminning og hvatning til viðkomandi um að bregðast skjótt við með viðeigandi aðgerðum“, en það hafi brugðist og haft áhrif á móður stefnanda og hann sjálfan, heilsu hans og velfarnað. Öllum fullyrðingum þessa efnis mótmæli stefndi. Ekkert sé nánar rökstutt hvað stefnandi telji að gera hefði átt og fullyrðingar þessar séu ekki studdar sönnun, læknisfræðilegum rökum eða gögnum. Engin gögn liggi fyrir til sönnunar fullyrðingum af hálfu stefnanda um að starfsfólki stefnda hafi orðið á saknæm mistök með aðgerðum eða aðgerðarleysi. Beri móðir stefnanda fyrir hans hönd alla sönnunarbyrði um þessar fullyrðingar, en slík sönnun hafi hvergi komið fram. Þegar af þessum ástæðum sé krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda.

Er móðir stefnanda kom á kvennadeild 6. og 7. september 1997 hafi hún fengið full­nægjandi skoðun eins og í meðgöngunni fyrr. Ekki hafi verið ástæða til að gera ómskoðun í umrædd skipti þegar klínísk skoðun var gerð bæði af sérfræðingi og reyndum aðstoðarlækni sem ekki hafi staðfest grun um legvatnsleka og legstærð hafi verið eðlileg. Slímkennd, vökvakennd útferð sé algeng í meðgöngu án þess að nokkuð sé að. Ekki hafi verið sjáanlegt að vatn rynni, þótt þunnfljótandi útferð væri. Strok hafi verið tekið í ræktun sem hafi aðeins sýnt eðlilegra vaginal flóru. Indikator pinni fyrir legvatni hafi verið settur upp en hann hafi ekki litast svartur eins og hann hefði átt að gera ef legvatn var farið. Smásjárskoðun hafi ekki sýnt einkenni um kristallamyndun. Þannig hafi verið leitað eins vandlega og unnt var með klínískri skoðun að því hvort legvatn væri farið en enginn ákveðinn grunur hafi komið fram fyrir því. Skoðun á göngudeild 9. september hafi einnig verið fullnægjandi. Fyrir liggi sérfræðileg álit á því að erfitt sé að dæma um legvatnsleka með ómskoðun, einkum þegar um lítinn leka sé að ræða. Engin stoð sé fyrir því að móðirin hafi kvartað um kvíða, ótta eða þess háttar vanlíðan og ekki fái staðist að slíkt hafi aukið hættuna á skaða stefnanda.

Skoðun með tilliti til legvatns hafi verið fullnægjandi fyrir 10. september og þann dag einnig en þá hafi móðirin sjálf talið að legvatnið væri ekki farið. Móðirin hafi ekki komið þann dag vegna gruns um legvatnsleka. Hún hafi verið með samdráttar­verki og taldi sig hafa flensueinkenni en hiti hafi verið 37,3˚C. Sérfræðingur hafi þá talið að líklega væri ekkert legvatn til staðar, eins og ráða hafi mátt af stroki. Miðað við skoðun á útliti fósturs, einkanlega heilavef, hafi sérfræðingur talið allt eðlilegt. Nýtt strok hafi verið tekið þar sem aðeins hafi sést eðlileg vaginal flóra. Móðirin hafi verið höfð fastandi og gefið sýklalyf, en síðan skipt yfir í „Augmentin gjöf“. Belgjarof hafi síðan verið staðfest. Þannig hafi verið um fullnægjandi skoðun að ræða, fyrst vegna tiltölulega lítilla einkenna en þegar þau urðu meiri hafi ástandið strax verið greint og viðeigandi meðferð veitt. Sónarskoðun fyrr hefði hvorki verið nauðsynleg né líkleg til árangurs, enda klínísk skoðun nægjanleg.

Stefndi mótmæli því að dýfa á hjartslætti, sem varð skömmu eftir að ritun hófst, hafi átt að vera áminning og hvatning til starfsmanna stefnda um að bregðast skjótt við, en að það hafi brugðist sem haft hafi afleiðingar fyrir heilsu móður stefnanda og hann. Einnig mótmæli hann þeirri tilgátu í málatilbúnaði stefnanda að skort hafi mikilsverðar upplýsingar af sírita síðustu fimm mínútur fyrir fæðinguna og þar sem ekkert hafi þá verið vitað um líðan hans kunni þetta að hafa haft afdrifaríkar afleiðingar. Ekki séu þessar tilgátur rökstuddar nánar og mótmæli stefndi þeim. Engin ástæða sé til að ætla að á þessum tíma hafi nokkuð komið fram sem hafi gefið tilefni til frekara inngrips eða aðgerða. Enn fremur mótmæli stefndi að sjúkraskrár hafi ekki verið færðar en hvergi hafi komið fram að skráningum í þær hafi verið ábótavant. Málsástæður þessar séu því með öllu haldlausar og órökstuddar.

Enginn fræðilegur grundvöllur sé fyrir því að síðustu fimm mínútur fyrir fæðingu stefnanda kunni að hafa verið afdrifaríkar. Engin sú breyting hafi getað orðið á fimm mínútum sem hefði getað valdið skaða stefnanda. Fæðingar­rit sýni að fæðingin sjálf hafi gengið hratt og vel fyrir sig og hafi í engu tekið óeðlilega langan tíma. Annað stig fæðingarinnar hafi aðeins verið 15 mínútur. Engin sjáanleg streita hafi verið merkjanleg 10. september. Ritið hafi haldist eðlilegt í fæðingunni utan þess að aðeins hafi herst á hjartslættinum á næstu klukkutímum eftir að gangsetningartilraun byrjaði og ein allstór dýfa hafi reynst til staðar stuttu eftir að ritunin hófst, en hjartsláttur hafi jafnað sig og verið eðlilegur eftir það. Þannig hafi dýfan ekki gefið tilefni til frekari aðgerða eða inngrips. Um 25 mínútum áður en að stefandi fæddist hafi farið að bera á breytilegum dýfum og síðan stundarfjórðungi áður en hann fæddist hafi farið að bera á nokkuð hraðari hjartslætti. Síðasti hluti ritsins, sem sé læsilegur, hafi verið innan eðlilegra marka. Fyrsta stig fæðingarinnar hafi ekki verið óhóflega langt og annað stig hafi verið stutt. Ljósmóðir hafi lýst undir lok fæðingarinnar hjartsláttardýfum í fæðingunni sem hafi jafnað sig vel á milli og móðirin hafi fengið súrefnisgjöf. Stefndi telji þetta eðlilegan framgangsmáta í fæðingunni og ekki óeðlilega staðið að fæðingarhjálp. Fylgjufæðing hafi verið eðlileg og eftirlit með móðurinni eftir fæðinguna með eðlilegum hætti. Sýking í legholi hafi lagast á eðlilegum tíma og líkamshiti hafi dottið niður nær strax eftir fæðinguna. Af eðlilegum ástæðum séu rit ekki eins nákvæm rétt undir lok fæðingar og breytingar á hjartslætti þá fullkomlega eðlilegar. Engar grófar sjúklegar breytingar hafi verið á hjartsláttarritinu sem gefið hafi tilefni til frekari aðgerða.

Undir fimmta lið byggi stefnandi á því að „ekki hafi verið staðið að meðhöndlun hans og umönnun eftir fæðinguna með réttum og fullnægjandi hætti miðað við ástand hans, þegar hann kom í heiminn“. Sett sé fram sú tilgáta að ekki sé unnt að útiloka að stefnandi hafi þá orðið fyrir hinum afdrifaríka súrefnisskorti. Stefndi mótmæli þessum málsástæðum stefnanda sem röngum og órökstuddum, en þær séu engum sér­fræði­legum rökum eða gögnum studdar. Fyrir liggi í málinu að barnalæknar hafi tekið við stefnanda strax eftir fæðingu og hann hafi verið fluttur á vökudeild. Þar hafi stefnandi verið í öndunarvél og hafi vel verið fylgst með öllum lífsmörkum allan tímann. Samkvæmt gögnum málsins hafi hann fengið viðhlítandi læknishjálp, reglu­legt eftirlit og eðlilega hjúkrun.

Réttilega hafi verið staðið að meðgöngueftirliti, mæðra­skoðun og annarri læknis­hjálp gagnvart móður stefnanda allan tímann og við fæðingu stefnanda og stefnandi hafi fengið tilhlýðilega læknishjálp í samræmi við viðurkenndar aðferðir og þekkingu. Fyrir liggi í málinu álit landlæknis þar sem niðurstaðan hafi verið á þann veg að fötlun stefnanda sé talin stafa af heilasjúkdómi sem komið hafi í kjölfar súrefnis­skorts. Ekki sé hægt að fullyrða hvenær sá skaði hafi orðið, en niðurstaða landlæknis, studd áliti sérfræðings, hafi verið sú að tilhlýðilega hafi verið staðið að aðgerðum í sambandi við fæðinguna. Samkvæmt áliti sérfræðings hafi verið farið eftir öllum venjulegum viðteknum reglum og fyrirmælum í sambandi við fyrirbura­fæðingar og farið legvatn. Fósturrit í fæðingunni hafi verið innan eðlilegra marka að undantekinni einni dýfu klukkan 1650, sem hafi jafnað sig fljótt og nokkuð hröðum hjartslætti síðar, sem stafa kunni af hitahækkun hjá móður. Í álitinu sé síðan tekið fram að engar grófar, sjúklegar breytingar á hjartsláttarriti hafi komið fram sem á þeim tíma hafi gefið tilefni til frekari aðgerða. Álit sérfræðingsins frá 27. nóvember 1998 liggi fyrir í málinu auk viðbótar frá 22. júní 1999. Í hinu fyrrnefnda segi að það einasta sem svolítið sé óvíst í sambandi við meðferð konunnar sé það að ekki hafi tekist að sýna fram á að legvatn væri farið fjórum dögum fyrir komu. Álit hans hafi engu að síður verið á þá lund að þeir sem skoðað hefðu móðurina áður en hún kom inn 10. september 1997 hefðu beitt þeim aðferðum sem eðlilegar máttu teljast.

Fyrir liggi einnig álitsgerð nefndar um ágreiningsmál samkvæmt lögum nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu í tilefni af kvörtun móður stefnanda. Nefndin hafi talið að hugsanlega hefði mátt skoða álitsbeiðanda betur þegar hún leitaði í þriðja sinn á spítalann og kvartaði yfir leka um leggöng. Engu að síður hafi stefndi sýnt fram á og stutt álitum sérfræðinga að skoðun öll skiptin hafi verið fullnægjandi og í samræmi við viðurkenndar aðferðir. Nefndin hafi ekki talið unnt að fullyrða að bein tengsl væru milli þess tjóns, sem stefnandi varð fyrir, og þess að legvatn var farið fyrir fæðinguna. Hún hafi talið að ekkert í framkomnum gögnum benti til þess að starfsfólki spítalans hefðu orðið á mistök við fæðingu stefnanda og hafi ekki fallist á að eðlilegt hefði verið að framkvæma keisaraskurð við þessar aðstæður.

Hvergi sé komið fram að orsakir fötlunar og skaða stefnanda sé að finna í hátterni starfsmanna stefnda og engin sönnun komin fram um það. Sérfræðingur hafi gefið það álit að sjúkdómurinn (periventriculer leukomalacia) sé vegna súrefnisskorts (asphyxia) og þær orsakir gætu hafa byrjað löngu fyrir fæðingu. Af þeim ástæðum hafi hann talið vonlaust að svara því hvort stefnanda hefði vegnað betur ef gripið hefði verið fyrr inn í fæðingarferlið. Í áliti landlæknis hafi ekki verið talið hægt að fullyrða hvenær skaði stefnanda hafi komið til. Í áliti nefndar um ágreiningsmál hafi verið lagt til grundvallar að ekki yrði fullyrt um það hvenær stefnandi hefði á með­göngu eða við fæðingu orðið fyrir súrefnisskaða.

Í áliti yfirlæknis hafi verið vísað til álits barnalækna um það að stefnandi hefði haft merki um tiltölulega vægan súrefnisskort alveg í lok fæðingarinnar. Slíkur skortur, sem aðeins sé hlutfallslegur, geti mjög ólíklega hafa valdið nokkrum bráðum eða varanlegum skaða. Stefnandi hafi verið meðhöndlaður með tilliti til þessa og sýkingarinnar strax eftir fæðinguna. Fæðing með keisaraskurði hefði ekki komið til greina við þessar aðstæður. Nákvæm skoðun sérfræðings á fóstrinu þegar móðirin kom hafi ekkert athugavert sýnt, einkum ekki á heilavef.

Móðir stefnanda beri fyrir hans hönd ótvírætt sönnunarbyrði fyrir því að bóta­skilyrðum sé fullnægt, þ.á m. fyrir ætlaðri sök og ólögmætri háttsemi starfsmanna stefnda, orsakatengslum og sennilegri afleiðingu. Ekkert í málinu gefi tilefni til þess að vikið sé frá almennum reglum þess efnis að sönnunarbyrðin hvíli á tjónþola.

Meiri líkur séu til þess að skaði stefnanda hafi komið til fyrir komu móður hans 6. til 9. september og þannig einnig fyrir fæðingu. Verði ekki á það fallist sé allt að einu ljóst og stutt sérfræðilegum álitum að vonlaust sé að tímasetja orsakir skaðans, en stefnandi hafi verið fyrirburi. Engin tengsl séu milli athafna starfsfólks stefnda og skaða stefnanda og vonlaust að svara því hvort einhverjar annars konar aðferðir hefðu breytt einhverju, en af hálfu stefnanda hafi ekki verið bent á hverjar þær hefðu átt að vera. Á öllum stigum hafi verið beitt tilhlýðilegum og réttum aðferðum. Engar líkur eru á að það hefði breytt nokkru um meðferð eða framgang málsins þótt með vissu hefði uppgötvast fyrr að legvatn var farið. Hefði slíkt í mesta lagi getað orðið fjórum dögum fyrr, en þar sem móðirin var þá verkjalaus og ekki með nein augljós sýkingarmerki hefði verið beðið átekta. Eini munurinn samkvæmt áliti yfirlæknis kvennadeildar hefði verið sá að móðirin hefði sennilega verið innlögð á kvennadeild spítalans. Engar rannsóknir bendi til þess að slík innlögn bæti útkomu þungana svo neinu nemi. Þegar verkir byrjuðu og hiti kom til hefði fæðingin verið hvött með sama hætti og gert var og sýklalyf gefin. Ekki hafi verið ástæða til að gera keisaraskurð og hefði það verið óeðlilegt, meðal annars vegna sýkingarinnar.

Stefndi mótmæli bótakröfum stefnanda sérstaklega. Í örorkumati Jónasar Hallgrímssonar læknis sé tekið fram að matið lúti ekki að ástæðum fötlunar stefnanda, hvort um saknæma háttsemi hafi verið að ræða eða hvort bótaskilyrði séu uppfyllt.

Stefndi mótmæli kröfulið stefnanda um sjúkrakostnað og annað fjártjón að fjárhæð 20.000.000 króna. Þessi liður sé órökstuddur og án nokkurra sönnunargagna. Þá sé óljóst hverjum þessi liður sé ætlaður en þar sé blandað saman óljóst hags­munum móður stefnanda og hans. Rökstuðningur í stefnu virtist eiga við um ætlaðan tekjumissi móður, en einungis sé krafist bóta til handa stefnanda og engar sjálfstæðar kröfur gerðar af hálfu móður hans og verði ekki séð að hún eigi sóknaraðild að málinu. Kröfum sem varði hagsmuni móðurinnar sé mótmælt samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Meðferð stefnanda hafi verið kostuð af almannafé og muni svo verða að miklu leyti lögum samkvæmt, sbr. einkum lög um almannatryggingar og félagslega aðstoð nr. 116 og 117/1993. Einnig njóti stefnandi réttar samkvæmt lögum um málefni fatlaðra. Engra gagna njóti við um kostnað vegna breytinga á húsnæði og sé þeim kröfulið því mótmælt í heild sinni.

Stefndi mótmæli einnig kröfum um miskabætur. Kæmi til bótaskyldu ættu við ákvæði skaðabótalaga nr. 50/1993 eins og þau hafi verið fyrir breytingu með lögum nr. 37/1999, en breytingalögin gildi einungis um tjón sem orðið hafi eftir gildistöku  laganna 1. maí 1999, sbr. 15. gr. breytingalaganna. Engin stoð sé því fyrir að beita heimildar­ákvæði 3. mgr. 4. gr. skaðabótalaga eins og þeim hafi verið breytt með lögum nr. 37/1999. Þótt það ákvæði kæmi til álita hafi enginn rökstuðningur verið færður fram á hvaða grundvelli beita ætti ákvæðinu, þ.e. að „sérstaklega standi á“.

Stefndi mótmæli einnig þeim lið sem nefndur sé „örorkubætur samkvæmt þágild­andi 8. gr. laganna“ að fjárhæð 29.978.062 krónur sem röngum og órök­studdum. Fjár­hæðin sé augljóslega reiknuð sem fjórfaldar þær miskabætur að fjárhæð 7.494.516 krónur sem krafist sé ranglega sé miðað við áðurgildandi skaðabótalög. Umræddur kröfuliður vegna örorkubóta sé því að sama skapi rangur og án stoðar í þágildandi skaðabótalögum, meðal annars vegna þess að ranglega hafi verið tekið inn í útreikninginn 50% álag án lagastoðar. Hvað sem líði lagaskilum þessum og þótt fallist yrði á beitingu álags vegna varanlegs miska nái sú heimild ekki til að auka við bætur vegna varanlegrar örorku á grundvelli 8. gr. skaðabótalaga fyrir gildistöku laga nr. 37/1999.

Varakröfum stefnanda sé mótmælt með sömu rökum og framan greini að breyttu breytanda.

Til stuðnings varakröfu stefnda um stórfellda lækkun sé byggt á öllum framan­greindum málsástæðum til stuðnings sýknukröfu, þ.á m. mótmælum við fjárkröfum sérstaklega. Komi til bótaskyldu beri að lækka bætur þannig að stefndi yrði ekki gerður bótaábyrgur fyrir öðrum skaða en ótvírætt mætti með lögfullri sönnun rekja til sakar starfsmanna stefnda. Af hálfu stefnda sé vaxta- og dráttarvaxtakröfum mótmælt sem ódómhæfum þar sem vaxtaviðmiðanir vanti í kröfugerð. Dráttarvaxtakröfu sé sérstaklega mótmælt, einkum upphafstíma þeirra, sbr. 15. gr. eldri vaxtalaga nr. 25/1987 og 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Verði ekki miðað við annað en dómsuppkvaðningu í fyrsta lagi, en þótt töluleg kröfugerð hafi fyrst komið fram við málshöfðun feli hún á engan hátt í sér fullnægjandi upplýsingar eða rökstuðning sem byggjandi væri á.

Til stuðnings kröfum stefnda um málskostnað sé vísað í öllum tilvikum til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

Niðurstaða

Óumdeilt er að heilaskaði stefnanda verður rakinn til súrefnisskorts og/eða blóð­flæði­truflana í heila á meðgöngutímanum eða í fæðingunni, sem leitt hefur til ástands stefnanda í dag, sem kallast CP (cerbral palsy, á íslensku heilalömun samkvæmt Íðorðasafni lækna). Um er að ræða heilaskemmd hjá nýbura, sem rekja má til minnkaðs súrefnis­flæðis. Skemmdin í sjálfu sér hvorki eykst né minnkar eftir að skaðinn er skeður, en afleiðingar hans koma æ betur í ljós eftir því sem einstaklingurinn eldist og stækkar.

Við úrlausn málsins verður að líta til þess að einn aðal áhættuþáttur fyrir CP er að fæðast fyrir 32 vikna meðgöngu. Áhættan eykst einnig þegar fæðingarþyngd er undir 10% að meðalþyngd nýbura miðað við sömu meðgöngulengd. Einnig er ljóst að sýking hjá móður og barni eru áhættuþættir. Fyrri keiluskurður þrefaldar áhættu á fyrirburafæðingu. Súrefnisskortur, sem getur stafað af lækkuðu súrefnismagni í blóði, minnkaðs flæðis af full súrefnismettuðu blóði, eða hvoru tveggja, einn sér hjá frumum leiðir til frumudauða. Minnkað súrefni í blóði fósturs getur komið til vegna minnkaðs súrefnisflutnings til og yfir fylgju eða hindrun á blóðfæði til fósturs um naflastreng. Truflanir á blóðflæði til líffæra eða svæða í líffærum getur leitt til súrefnisskorts á takmörkuðum svæðum, t.d. ef blóðþrýstingur fellur. Vefjasvæði eru mismundi næm fyrir blóðrásartruflunum vegna uppbyggingu æðakerfisins. Einnig eru frumur misnæmar fyrir súrefnisskorti, þ.e. hversu vel þær geta aðlagað efniskipti sín að minnkuðu súrefni. Heilavefur er sérlega háður súrefni og viss svæði í heila eru næmari en önnur fyrir blóðrásartruflunum sem skýrir að ekki skemmist allur heilavefur á sama hátt við súrefnissnauð. Svæði kringum heilahólfin, þar sem taugabrautir frá heilaberki til búksins og útlima liggja, eru sérlega næm að þessu leyti og skýrir sú lega þeirra samband CP stefnanda og “periventriculer” hvítefnis­sjúkdóms, sem aftur er afleiðing súrefnisskortsins.  Seinni tíma rannsóknaraðferðir hafa gert kleift að stundum er hægt að segja til um hvort slík skemmd hafi orðið en ekki hvenær hún varð. Ómskoðun Hildar Harðardóttur læknis á þunga móður stefnanda 10. september 1997 leiddi ekki í ljós neina slíka skemmd á heila stefnanda, en útilokar þó ekki að hún hafi þegar getað verið til staðar. Mál þetta snýst um það hvort mögulegt hafi verið að koma í veg fyrir að stefnandi hlyti þann heilaskaða, sem tíminn hefur leitt í ljós að hann hefur orðið fyrir, en af stefnanda hálfu er byggt á því að ekki hafi verið brugðist rétt við vandamálum, sem lýst hefur verið af hálfu málsaðila og rakin eru hér að framan, þegar móðir stefnanda leitaði til kvennadeildar Landspítalans 6., 7. og 9. september 1997 svo og í fæðingu og eftir hana.

Í gögnum málsins eru ítarlegar lýsingar á því hvernig læknismeðferð og öðrum aðgerðum var háttað af hálfu starfsmanna Landspítalans gagnvart stefnanda og móður hans. Þar kemur fram hver vandamálin voru hverju sinni í sambandi við meðgöngu, fæðingu og meðhöndlun stefnanda eftir fæðinguna svo og hvernig starfsmennirnir brugðust við þeim. Dómurinn telur að ekki verði litið svo á að skrán­ingum af hálfu starfsmanna spítalans hafi verið áfátt, enda koma fram í þeim allar upplýsingar sem unnt hefur verið að afla og skrásetja um atvikin sem hér skipta máli.

Í fyrstu komu móðurinnar 6. september var umkvörtunarefnið smávægileg blóð­leit útferð. Í stefnu er því haldið fram að þá hafi verið kominn fram grunur um leg­vatns­leka en það er hvergi staðfest í gögnum málsins og þá ekki heldur með framburði móðurinnar fyrir dóminum. Hefðbundin skoðun þennan dag leiddi ekkert óeðlilegt í ljós og hún gaf heldur ekkert tilefni til annarra aðgerða en skoðunar. Algengt er að þungaðar konur leiti á fæðingardeildir vegna blæðinga eða blóðleitrar útferðar. Slíkt getur verið merki um fylgjulos, fyrirsætafylgju, byrjandi fæðingu með opnun á leghálsi, sepa á leghálsi, illkynja sjúkdóm eða blæðingu frá annars eðlilegum leghálsi með ectropion, þ.e. viðkvæmri húð innan á leghálsi sem verpist út á hann. Góð saga og skoðun er því mikilvæg. Saga móðurinnar benti ekki til fæð­ingar og hreyfingar voru góðar. Skoðunarlæknir bendir á að fyrri ómskoðun hafi ekki sýnt fyrirsæta fylgju. Ekki voru merki um fylgjulos og mónitorrit benti til að barninu liði vel og þar hefðu sést samdrættir hefðu þeir verið til staðar. Við leggangaskoðun sást lítill legháls eftir keiluskurð en ekki separ eða blæðingarstaður. Því verður það að teljast eðlileg og venjuleg ráðstöfun læknis við þessar aðstæður að senda sjúkling heim. Næsta dag kom móðir stefnanda aftur á kvennadeildina, eins og rakið hefur verið, og voru þá gerðar allar viðeigandi rannsóknir með tilliti til þess að hugsanlega hefði legvatn farið. Þær rannsóknir gáfu ekkert slíkt til kynna.

Án þess að læknisfræðileg rök liggi fyrir því heldur stefnandi því fram að ómskoðun hefði átt að fara fram vegna gruns um legvatnsleka við komu 6. septem­ber. Þó grunur hefði verið um legvatnsleka þann dag og daginn eftir getur ómskoðun ekki skorið úr um hvort legvatnsleki sé til staðar eða ekki. Ómskoðun getur sýnt hvort legvatn er eðli­legt, mikið eða lítið. Ef legvatn er lítið er legvatnsleki ein möguleg skýring en þá eru önnur merki um lekann til staðar. Því er mikilvægast að taka góða sjúkrasögu og gera leggangaskoðun. Saga um vatnsgusur, sem leka niður læri, er mikilvægt einkenni. Aðspurð fyrir dómi sagði móðir stefnanda  að „lekinn” hefði ekki komið í gusum heldur hafi smá vætlað niður en þó verið meira en raki. Þessa lýsingu telja hinir sérfróðu meðdómsmenn ekki veita tilefni til að vekja sterkan grun um leka. Sá læknir sem skoðaði móður stefnanda beitti öllum þremur aðferðum sem tiltækar eru til að kanna legvatnsleka, þ.e. skoðaði hvort pollur sæist, notaði sýrustigspinna, sem hefði átt að litast við breytt sýrustig samfara legvatnsleka, og strauk vökva/útferð á gler í leit að kristöllum í smásjá. Skoðunin var því mjög vönduð og ekkert var hægt að gera frekar til að leita eftir legvatnsleka. Þar með er ekki fallist á þau rök stefnanda að ef allt hefði verið reynt þá hefði legvatnslekinn komið í ljós eða að læknir hafi ekki sýnt vandvirkni og þar með vanrækslu þennan dag. Skoðunarlæknir taldi að um útferð væri að ræða. Hér ber að hafa í huga að út­ferð í leggöngum er oft mjög mikil á meðgöngu og alls ekki er fátítt að konur leiti til fæðingalækna vegna þessa og óttist legvatnsleka. Sjaldnast er nokkuð sértækt gert við þessari útferð enda gagnast sýklalyf illa eða ekki. Það að móðir stefnanda hafði farið í keiluskurð breytir í engu hvaða úrræðum hefði átt að beita við þessar aðstæður. Tekin var ræktun þar sem sást Gardnerella og blanda af loftfirrðum bakteríum ásamt eðlilegri leggangaflóru. Þetta eru vel þekktir sýklar í leggöngum og geta verið merki um svokallaða legganga sýklun, en hins vegar er ekki sannað að meðferð með sýklalyfjum minnki líkur á fyrirburafæðingum sem þessu ástandi eru samfara. Það er athyglisvert í þessu ljósi að ræktun tekin 10. september sýndi hins vegar aðeins eðlilega legganga flóru. Það er álit hinna sérfróðu meðdómsmanna að ekki hafi verið þörf á að kanna nánar ástand móðurinnar eða stefnanda, enda er ekkert sem bendir til þess að það hafi þá verið á nokkurn hátt alvarlegt. Mjög ólíklegt verður að telja að legvatnið hafi verið farið þá enda er ekkert sem bendir til að svo hafi verið.

Þegar móðirin kom í mæðraskoðun 9. september kannaði ljósmóðir hvort legvatn væri enn til staðar. Þrýstingur og legbotnshæð bentu til að nóg væri af legvatni og legbotnshæð svaraði til 31 vikna meðgöngu. Ekki verður séð af gögnum málsins að ástæða hafi verið til að bregðast við á annan hátt en gert var þessa daga eða að annmarkar eða mistök hafi átt sér stað varðandi umönnun og meðferð sem móður stefnanda var veitt af þessu tilefni á Landspítalanum. Hinum sérfróðu meðdóms­mönnum þykir engu breyta í því sambandi þótt nefnd um ágreiningsmál samkvæmt lögum nr. 97/1990 hafi talið að hugsanlega hefði mátt skoða móðurina betur 9. september. Telja verður að þar sé um persónubundið álit að ræða sem ekki er byggt á því að það hefði átt að gera samkvæmt venju eða almennum vinnureglum sem beitt sé við slíkar aðstæður.

Þegar móðirin kom á kvennadeildina 10. september um klukkan 1425 hafði hún hita og var með fæðingarhríðir. Hún hefur lýst atvikum þannig að hún hafi vaknað þann dag með hita og beinverki og fljótlega hafi hún fengið fæðingarverki. Á deildinni voru strax gerðar viðeigandi rannsóknir og var að mati dómsins réttilega brugðist við niðurstöðum þeirra. Móðirin fékk viðeigandi lyf vegna sýkingar sem hinir sérfróðu meðdómsmenn telja að hafi verið hárrétt viðbrögð. Þeir telja hins vegar að ekkert verði fullyrt um hvort sýking hafi komið því til leiðar að legvatnið fór eða hverjar voru ástæður þess að fæðingin fór af stað fyrir eðlilegan meðgöngutíma. Keiluskurður þrefaldar líkur á fyrirburafæðingum en hins vegar er ekki sannað að sértækar forvarnaráðstafanir svo sem sýklalyfjagjöf eða leghálssaumur minnki þær líkur. Því verður að telja að brugðist hafi verið á viðeigandi hátt við þeim vanda­málum sem upp komu eins og gert hafði verið fram að þessu. Þar sem móðir stefnanda var með sannanlega farið vatn, samdrætti og merki um sýkingu í belgjum var það að mati dómsins rétt ákvörðun vegna hættu á útbreiðslu sýkingar að ljúka skyldi meðgöngu. Þótt komið hafi fram merki í blóði um bólgusvar (hækkað CRP) þá hefur það væntanlega verið vegna sýkingar í belgjunum nálægt leghálsinum. Hvort barnið var sýkt er erfitt að meta en engin merki eru um slíkt af ritinu að dæma, þ.e. ekki hraður hjartsláttur. Því verður að telja að sjálfsagt hafi verið að reyna framköllun fæðingar. Eftir fæðinguna voru merki um öndunar­erfiðleika hjá barninu, en legvatn kemst auðveldlega í lungu fyrir fæðingu. Samkvæmt gögnum málsins var bólgu­svörun hjá barninu strax eftir fæðingu mjög lítil, eða CRP 16, sem ekki er hægt að túlka sem afgerandi sönnun sýkingar þótt það kunni að vekja slíkan grun. Þar sem barnið sýndi ekki merki um streitu eða sýkingu er keisaraskurður hættulegri móður við þessar aðstæður en fæðing um leggöng. Það var því rétt ákvörðun að flýta fyrir fæðingu með oxytocin sídreypi, en dómurinn telur að hvorki hafi verið um aðra betri kosti að ræða miðað við þessar aðstæður né að við hafi átt að beita öðrum úrræðum en gert var og hér hefur verið lýst.

Fæðingin gekk eðlilega fyrir sig. Barnalæknum á vökudeild var gert aðvart þegar hraðari hjartsláttur mældist hjá stefnanda. Hinir sérfróðu meðdómsmenn telja að dýfur á hjartsláttarrita hafi ekki gefið tilefni til annarra viðbragða eða aðgerða en þeirra sem beitt var. Slíkar dýfur sjást oft í fæðingu án þess að fram komi skaði hjá barninu. Telja verður að ekki hafi verið tilefni til að gera keisaraskurð vegna þessarar dýfu enda lagaðist ritið og var eðlilegt með góðum breytileika, hröðunum og barnið virðist hafa hreyft sig vel en hreyfingar eru merki um góða líðan og gefa ekki til kynna súrefnisskort. Upplýsingar sem ekki tókst að greina af sírita af síðustu fimm mínútunum fyrir fæðinguna hefðu heldur ekki á nokkurn hátt breytt einhverju hvað varðar aðgerðir eða athafnir starfsmannanna, sem komu að fæðingunni, en telja verð­ur að atburðarásin hefði á þeim tíma ekki orðið önnur þótt þessar upplýsingar hefðu leg­ið fyrir. Þegar atvik málsins eru virt verður að telja að ekki hafi verið rétt að grípa inn í ferlið, sem fór af stað með ótímabærum fæðingarhríðum, með öðrum hætti en gert var. Dómurinn fellst því ekki á þá málsástæðu stefnanda að ekki hafi verið brugð­ist rétt við aðstæðum í fæðingunni.

Þá verður að telja að eftir fæðinguna hafi stefnandi fengið alla viðeigandi um­önnun og læknishjálp sem unnt var að veita við þessar aðstæður. Honum var strax komið í hendur á barnalæknum á vökudeild og var meðhöndlun stefnanda þar á allan hátt eðlileg og eins og við er að búast við aðstæður sem þessar. Hvergi kemur fram í gögnum málsins að stefnandi hafi verið í alvarlegum öndunarörðugleikum. Hann var strax settur í öndunarvél og fylgst var með honum í samræmi við hefðbundnar venjur sem byggðar eru á langri reynslu í meðhöndlun fyrirbura. Orðalag barnalæknis við innlögn í samantekt aftan við sjúkrasögu og skoðun 10. september “farið legvatn í 4 sólarhringa” er ekki unnt að túlka sem óyggjandi vitnisburð um að legvatn hefði farið fyrir fjórum sólarhringum. Farið legvatn merkir yfirleitt að allt eða a.m.k. meiri hluti legvatns sé runninn, en legvatnsleki merkir að rof, oftast lítið, hefur orðið á fósturbelgjum og eitthvað af legvatni seytlar. Slíkt eykur hættu á sýkingu hjá barni sem þarf þó ekki að vera til staðar. Fremur ber að líta á þetta sem vinnugreiningu læknisins, þ.e.a.s. að hann geri ráð fyrir verstu hugsanlegu möguleikum og með­höndli samkvæmt því. Fyrsta skráning í öndunarvél klukkan 2150, 15 mínútum eftir að barnið fæðist, sýnir að súrefnismettun var 98%. Um svipað leyti, klukkan 2149, eru mæld blóðgös og sýnir margumtalaða öndunarblóðsýringu með lækkuðum pH í blóði, hlutaþrýstingi á súrefni nálægt eðlilegum mörkum en hækkaðan hlutaþrýsting á koltvísýrlingi og tvíkarbonati svo sem við er að búast. Næsta skráning er um 50 mínútum síðar, en þá er vélin að rétta af sýringuna. Síðari skráningar sýna að vélaraðstoð var auðveld og tiltölulega létt enda var hægt að ljúka henni um sólarhring síðar.

Af gögnum málsins er ljóst að stefnandi hefur sjúkdóm sem rekja má til þess að súrefnisskortur hefur orðið á umræddum svæðum í heila stefnanda í fósturlífi og/eða við eða strax eftir fæðingu. Hins vegar er ekki hægt að segja til um það með hvaða hætti eða hvenær hann varð. Súrefnismettun í blóði stefnanda eftir fæðingu mældist alltaf eðlileg. Sú öndunarblóðsýring sem áður hefur verið gert grein fyrir er afleiðing vægrar vanöndunar stefnanda á þessum tíma. Við henni var brugðist á réttan hátt og af henni verður hvorki dregin sú ályktun að mistök hafi verið gerð við framgang fæðingar hans né að hún sé orsök heilalömunar stefnanda.

Dómurinn telur að af gögnum málsins megi skýrlega ráða svo og þeim forsendum sem hér hafa verið raktar að öllum hefðbundnum aðferðum hafi verið fylgt við læknisfræðilegar aðgerðir og aðra meðhöndlun sem stefnandi og móðir hans fengu á Landspítalanum í umræddu tilviki. Verður því ekki fallist á að tjón stefnanda verði rakið til mistaka eða annarra saknæmra athafna eða athafnaleysis starfsmanna Land­spítalans er þeir veittu stefnanda og móður hans læknismeðhöndlun og aðra aðstoð í sambandi við meðgöngu, fæðingu og meðhöndlun stefnanda eftir fæðinguna eins og hér hefur verið haldið fram. Skilyrði bótaskyldu eru því ekki fyrir hendi og ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu.

Rétt þykir með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála að málskostnaður falli niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, sem þykir hæfilega ákveðinn 679.000 krónur, þar með talin málsvarnarlaun lögmanns hans, Guðmundar Kristjánssonar hrl., sem þykja hæfilega ákveðin 600.000 krónur án virðisaukaskatts, en útlagður kostnaður er vegna þingfestingar 3.500 krónur, birtinga 4.500 krónur og matsgerðar 71.000 krónur, samtals 79.000 krónur.

Dóminn kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari ásamt meðdóms­mönnunum Alexander Smárasyni fæðingalækni og Magnúsi Stefánssyni barnalækni.

 

DÓMSORÐ:

       Stefnda, íslenska ríkið, er sýknað af kröfum stefnanda, Margeirs Þórs Haukssonar, í máli þessu.

       Málskostnaður fellur niður.

       Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, samtals 679.000 krónur, þar með talin málsvarnarlaun lögmanns hans, Guðmundar Kristjánssonar hrl., 600.000 krónur.