Hæstiréttur íslands

Mál nr. 142/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Mánudaginn 28

 

Mánudaginn 28. apríl 2003.

Nr. 142/2003.

Mýrargata 26 ehf.

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

gegn

Sparisjóði Kópavogs

(Jóhann H. Níelsson hrl.)

 

Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Kærður var úrskurður héraðsdóms, þar sem máli M á hendur S var vísað frá dómi. Þóttu þeir annmarkar vera á málatilbúnaði M að taka bæri til greina kröfu S um frávísun málsins, með vísan til e. og f. liðar 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. apríl 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 28. mars 2003, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hnekkt og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnislegrar úrlausnar. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Mýrargata 26 ehf., greiði varnaraðila, Sparisjóði Kópavogs, 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 28. mars 2003.

                Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar um frávísunarkröfu stefnda 28. f.m., er höfðað 7. nóvember 2002.

                Stefnandi er Mýrargata 26 ehf., Mýragötu 26, Reykjavík.

                Stefndi er Sparisjóður Kópavogs, Hlíðarsmára 19, Kópavogi.

                Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða honum 24.480.744 krónur ásamt dráttarvöxtum frá 31. desember 1998 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda.

                Stefndi hefur aðallega krafist þess að málinu verði vísað frá dómi. Til vara krefst hann sýknu af kröfum stefnanda, en að því frágengnu að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda.

                Stefnandi gerir þá kröfu að frávísunarkröfu stefnda verði hafnað. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda vegna þessa þáttar málsins.

I.

                Mál þetta á rót sína að rekja til þess að 18. desember 1998 gaf stefnandi út skuldabréf til stefnda að fjárhæð 25.000.000 krónur. Til tryggingar á greiðslu veðskuldarinnar var stefnda sett að veði með 6. veðrétti fasteign stefnanda að Mýrargötu 26 í Reykjavík. Stefndi ráðstafaði söluandvirði veðskuldabréfsins, 24.480.744 krónum inn á tékkareikning Desember ehf. hjá stefnda 30. desember 1998, en stefnandi var á þessum tíma í eigu þess félags og Hömru ehf. Hinn 23. nóvember sama árs hafði Desember ehf. gefið út tryggingarbréf til stefnda. Átti það að standa til tryggingar skilvísri greiðslu á skuldum sem félagið þá eða síðar kynni að standa í við stefnda allt að fjárhæð 25.000.000 krónur auk verðbóta á þá fjárhæð, dráttarvaxta og kostnaðar. Með tryggingarbréfinu var stefnda sett að veði með 4. veðrétti framangreind fasteign stefnda. Af hálfu stefnanda er því haldið fram að við það hafi verið miðað þá er stefndi keypti veðskuldabréfið af stefnanda að andvirði þess yrði ráðstafað til greiðslu á þeim skuldum Desember ehf. sem tryggðar væru með tryggingarbréfinu frá 23. nóvember 1998 og að því yrði í kjölfarið létt af eigninni. Af hálfu stefnda er því hins vegar haldið fram að hann hafi ekki skuldbundið sig til að aflétta tryggingarbréfinu og að andvirði skuldabréfsins hafi í samræmi við það sem um hafi verið talað verið ráðstafað til lækkunar á yfirdráttarskuld Desember ehf. við stefnda. Í inngangskafla stefnu, þar sem ágreiningsefni aðila er lýst í hnotskurn, kveðst stefnandi höfða málið á þeim grundvelli að ráðstöfun stefnda á andvirði skuldabréfsins hafi ekki verið í samræmi við fyrirmæli stefnanda og að stefndi hafi ekki aflétt tryggingarbréfinu af fasteign félagsins. Krefji stefnandi því stefnda „um endurgreiðslu söluandvirðis veðskuldabréfsins auk dráttarvaxta og kostnaðar“.

                Fasteignin Mýrargata 26 í Reykjavík var seld nauðungarsölu 5. nóvember 2001 fyrir 103.000.000 krónur og var stefndi kaupandi hennar. Samkvæmt frumvarpi til úthlutunar á söluverði komu 2.642.708 krónur upp í kröfu stefnda samkvæmt tryggingarbréfinu á 4. veðrétti, en að öðru leyti gekk söluverðið til greiðslu á rétthærri veðkröfum og sölulaunum, sbr. 3. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 7. gr. laga nr. 88/1991 um aukatekjur ríkissjóðs.

II.

                Í stefnu er um málavexti vísað til þess að stefnandi hafi keypt fasteignina að Mýrargötu 26 í Reykjavík í apríl 1998 með það að markmiði að gera hana upp og breyta henni í skrifstofuhúsnæði. Í nóvember 1998 hafi félagið veitt Desember ehf. veðleyfi fyrir framangreindu tryggingarbréfi útgefnu 23. sama mánaðar. Mánuði síðar hafi verið ákveðið að losa tryggingarbréfið af fasteigninni. Hafi stefnandi í því skyni gefið út skuldabréf til stefnda að fjárhæð 25.000.000 krónur og hafi það verið tryggt með 6. veðrétti í fasteign félagsins. Söluandvirði skuldabréfsins hafi stefndi átt að ráðstafa með þeim hætti sem stefnandi heldur fram og áður er rakið. Að því loknu hafi verið við það miðað að tryggingarbréfinu yrði aflýst. Þetta hafi ekki gengið eftir heldur hafi stefndi ráðstafað andvirðinu inn á reikning Desember ehf. án þess að aflétta tryggingarbréfinu. Þessu næst segir svo í stefnu: „Þáverandi framkvæmdastjóri stefnanda, Sigurður Gunnarsson, [...] sem einnig var framkvæmdastjóri og annar eigandi Desember ehf. lagði fram við afgreiðslu lánsins skjal [...] sem hann kallaði „Endurrit úr fundargerðabók stjórnar Mýrargötu 26“. Skv. þessu endurriti átti andvirði hins selda skuldabréfs skv. samþykkt hluthafafundar stefnanda að renna til Desember ehf. sem lán, er greiða skyldi árið eftir. Forsenda fyrir þessari lánveitingu skv. „endurritinu“ var að stefndi breytti skilmálum tryggingarbréfsins á 4. veðrétti í fasteigninni Mýrargata 26 þannig að það færi á aftasta veðrétt og að stefnandi yrði skráður skuldari á því og það afhent stefnanda til síðari nota.“ Í stefnu er því haldið fram að þetta endurrit sé hreinn tilbúningur, án tengingar við raunverulega atburði. Af hálfu stefnanda hafi verið settar fram athugasemdir gagnvart stefnda vegna ráðstöfunar hans á andvirði veðskuldabréfsins og framgangi málsins að öðru leyti. Stefnandi hafi hins vegar verið í viðskiptum hjá stefnda og því reynt að hafa við samráð við hann um afléttingu tryggingarbréfsins. Hafi verið unnið að málinu í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu á stefnanda og Hömru ehf. Þessu næst er í stefnu lýst tilraunum stefnanda og þáverandi lögmanns félagsins til að fá tryggingarbréfinu aflýst. Þær hafi engan árangur borið. Hin veðsetta fasteign hafi síðan verið seld nauðungarsölu 5. nóvember 2001. Hafi stefndi þá lýst fjórum kröfum í söluandvirðið, það er samkvæmt veðbréfum á 4., 5., 6. og 7 veðrétti, samtals að fjárhæð 127.896.020 krónur. Fasteignin hafi síðan verið seld áfram frjálsri sölu fyrir umtalsvert hærra verð en nemi samanlögðu uppboðsandvirði og kröfum stefnda.

                Samkvæmt þeim kafla stefnu sem ber yfirskrftina málsástæður og lagarök kveðst stefnandi byggja kröfugerð sína á hendur stefnda á því að í ráðstöfun hans á andvirði umrædds veðskuldabréfs hafi falist ólögmæt ráðstöfun á fjármunum stefnanda „sem skapi stefnanda endurkröfurétt með dráttarvöxtum frá þeim tíma sem hin ólögmæta ráðstöfun var gerð“. Sé þar byggt á almennum reglum samninga- og kröfuréttar, svo og á almennu skaðabótareglunni. Ljóst sé að með því að ráðstafa andvirði skuldabréfsins inn á reikning Desember ehf. án þess að aflétta tryggingarbréfinu hafi stefndi brotið gegn skýrum fyrirmælum stefnanda og valdið félaginu tjóni sem nemi söluandvirði bréfsins. Stefnda hafi verið ljóst eða mátt vera ljóst að sú ráðstöfun framkvæmdastjóra stefnanda að taka lán í nafni stefnanda og ráðstafa því inn á reikning annars félags í sinni eigu væri á skjön við þá meginreglu hlutafélagaréttar að hluthafar geti ekki með neins konar ályktunum knúið fram greiðslur úr sjóðum félagsins til handa sjálfum sér svo lögmætt sé nema í samræmi við þær reglur sem sé að finna í 73. – 79. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Þá telji stefnandi það mjög skýrt að jafnvel þó svo væri að beiðni um ofangreinda ráðstöfun hafi komið frá þáverandi framkvæmdastjóra stefnanda hafi sá gerningur hans að ráðstafa 25.000.000 krónum af ráðstöfunarfé stefnanda inn á viðskiptareikning annars lögaðila, þeim aðila fullkomlega til hagsbóta, verið þess eðlis annars vegar að framkvæmdastjórinn hefði með því farið út fyrir umboð sitt og hins vegar að starfsmönnum stefnda hafi verið eða mátt vera það ljóst. Þá kveðst stefnandi ennfremur byggja á því að með ráðstöfun sinni hafi stefndi brotið gegn góðum starfsháttum og tíðkanlegum starfsreglum. Ljóst sé að starfsmenn banka og sparisjóða megi ekki millifæra fjármuni af reikningi eins aðila yfir á reikning annars nema samkvæmt skriflegri beiðni. Hafi áðurnefnd fundargerð legið til grundvallar þeirri millifærslu sem hér um ræðir sé ljóst að stefndi hafi sniðgengið skýr skrifleg fyrirmæli. Hafi þessi fundargerð ekki legið ráðstöfun stefnda til grundvallar sé ekki að sjá að nein skrifleg fyrirmæli hafi legið fyrir. Sú ráðstöfun að leysa tryggingarbréfið af hólmi með veðskuldabréfinu hafi verið liður í fjárhagslegri endurskipulagningu og fjármögnun stefnanda. Með því hafi stefnandi átt að vera laus undan veðkröfu sem kynni að verða leitað fullnustu á án fyrirvara, en veðskuldabréfið hafi verið til 15 ára. Veðsetningar-hlutfall fasteignarinnar fyrir útgáfu veðskuldabréfsins hafi verið 50% miðað við fyrirliggjandi verðmat. Með veðskuldabréfinu hafi veðsetningarhlutfallið orðið 65%. Við aflýsingu tryggingarbréfsins hefði veðsetningarhlutfallið aftur orðið 50% og því fullt tækifæri miðað við þá stöðu að fjármagna framkvæmdir og greiðslu áhvílandi lána með útgáfu og sölu á nýjum veðskuldabréfum. Allar slíkar áætlanir hafi strandað á hinu óaflýsta tryggingarbréfi. Ljóst sé að stefnandi hefði aldrei ráðstafað andvirði veðskuldabréfsins frá 18. desember 1998 með þeim hætti sem raun varð á nema að aflétting tryggingarbréfsins væri þá jafnframt tryggð. Að öðrum kosti hafi stefnandi hæglega getað komið veðskuldabréfinu í verð hjá annarri lánastofnun og notað andvirði þess til að fjármagna starfsemi sína.

III.

                Í greinargerð er það rakið að einkahlutafélagið Mýrargata 26 hafi verið stofnað 14. mars 1998 af Desember ehf. og Hömru ehf. Framkvæmdastjóri hafi verið ráðinn Sigurður Gunnarsson, sem jafnframt hafi verið framkvæmdastjóri Desember ehf. Með kaupsamningi 1. apríl 1998 hafi stefnandi keypt fasteignina Mýrargötu 26 í Reykjavík fyrir 78.850.000 krónur. Desember ehf. og Hamra ehf. hafi á þessum tíma verið í viðskiptum hjá stefnda. Þegar líða tók á árið 1998 hafi verið orðið fullljóst að fjárhags- og framkvæmdaáætlanir Desember ehf. myndu ekki ganga eftir vegna vanáætlaðs kostnaðar af húsbyggingarframkvæmdum sem það hafði með höndum og tafa á afhendingu og frágangi sem leitt hafi til þess að kaupendur hafi haldið eftir greiðslum. Hafi greiðslu- og tryggingastaða félagsins gagnvart stefnda verið farin að þrengjast verulega og um haustið hafi vantað um það bil 50.000.000 krónur upp á að tryggingar félagsins hjá stefnda teldust viðunandi. Hafi fyrirgreiðsla til handa félaginu verið komin vel umfram það sem viðmiðanir stefnda sögðu til um. Þegar óskað hafi verið eftir úrbótum hafi félagið boðið stefnda veð í fasteigninni að Mýrargötu 26. Hafi tillögur félagsins gengið út á að það myndi gefa út tryggingarbréf til stefnda að fjárhæð 25.000.000 krónur, en að auki myndi andvirði 25.000.000 króna veðskuldabréfs sem stefnandi hefði í hyggju að gefa út renna til félagsins. Með þessu yrði heildarskuldbinding Desember ehf. gagnvart stefnda innan viðmiðunarmarka. Heldur stefndi því fram að fasteignin Mýrargata 26 hafi verið notuð sem veð í þágu beggja eigenda félagsins, það er Desember ehf. og Hömru ehf. Er í greinargerð lýst atvikum sem að þessu lúta. Hinn 18. desember 1998 hafi stefnandi síðan gefið út til stefnda veðskuldabréf að fjárhæð 25.000.000 krónur , tryggt með 6. veðrétti í fasteigninni að Mýrargötu 26. Stefndi hafi keypt bréfið 30. desember 1998 og í samræmi við beiðni ráðstafað andvirði þess daginn eftir inn á tékkareikning Desember ehf. til lækkunar á yfirdráttarskuld félagsins við stefnda. Hafi á þessum tíma legið fyrir um það samþykkt í stjórn stefnanda að félagið tæki 25.000.000 krónur að láni og lánaði Desember ehf. Mótmælir stefndi því alfarið að það hafi verið skilyrði fyrir framangreindri ráðstöfun á andvirði veðskuldabréfsins að samhliða yrði aflétt tryggingarbréfi á 4. veðrétti.

                Af hálfu stefnda er því haldið fram að fjárhagsstaða Desember ehf. og Hömru ehf. hafi enn farið versnandi á árinu 1999. Viðskipti félaganna hafi ekki gengið sem skyldi og þau tapað umtalsverðu fé. Jafnframt hafi farið að bera á vaxandi ágreiningi á milli eigenda félaganna. Er í greinargerð lýst atvikum sem lúta að þessu og tilraunum til að leysa fjárhagsvandræði félaganna, meðal annars með frekari aðkomu stefnda að málinu. Er þar meðal annars greint frá því að í bréfi Hömru ehf. til stefnda 7. október 1999 hafi verið gert ráð fyrir því að umrætt tryggingarbréf Desember ehf. myndi hvíli áfram á fasteigninni Mýrargötu 26 á eftir nýju láni sem þá hafi verið leitað eftir hjá stefnda. Ekki hafi þó á þessum tíma komið til frekari lánafyrirgreiðsla af hálfu stefnda. Gegn útgáfu tryggingarbréfs að fjárhæð 20.000.000 krónur 22. febrúar 2000 hafi stefndi hins vegar ákveðið að veita stefnanda aukna fyrirgreiðslu, en það hafi verið tryggt með 7. veðrétti í fasteigninni Mýrargötu 26. Þrátt fyrir þessa fyrirgreiðslu hafi fjárhagur stefnanda og eigenda félagsins stöðugt haldið áfram að versna. Hafi farið svo að Desember ehf. hafi verið úrskurðað gjaldþrota 18. september 2001 og Hamra ehf. 12. apríl 2002. Þá hafi stefnanda með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 29. maí 2001 verið veitt greiðslustöðvun til 18. júní sama árs. Heimild til greiðslustöðvunar hafi síðan verið framlengd til 10. október 2001. Nauðungarsala á fasteigninni Mýrargötu 26, sem stefndi hafði óskað eftir 22. mars 2001, hafi frestast af þessum sökum. Tilraunir til að koma í veg fyrir nauðungarsölu á eigninni hafi hins vegar farið út um þúfur og hafi hún verið seld nauðungarsölu 5. nóvember 2001. Hafi stefndi lýst kröfum í söluandvirði eignarinnar samtals að fjárhæð 127.896.020 krónur, en einungis hafi fengist 2.642.708 krónur upp í þær.

                Auk málsatvika svo sem þau horfa við stefnda samkvæmt framansögðu er hér vert að geta þess að í greinargerð er gerð grein fyrir efni bréfs sem er á meðal gagna málsins og stefnandi ritaði stefnda 30. nóvember 2000. Í bréfinu er því lýst yfir af hálfu stefnanda að veðskuldabréfinu, sem mál þetta er sprottið af, hafi verið „ætlað að koma í stað tryggingarbréfs sömu fjárhæðar“ sem tryggt hafi verið með 4. veðrétti í fasteigninni Mýrargötu 26. Hafi þáverandi framkvæmdastjóra verið falið að annast það. Skuldabréfið hafi verið selt stefnda án þess að tryggingarbréfinu hafi jafnframt verið aflýst. Þessu næst segir svo í þessu bréfi stefnanda: „Stjórn Mýrargötu 26 ehf. gekk lengi eftir því að Desember ehf. leysti sín mál og léti aflétta tryggingarbréfinu án árangurs. Á miðju ári 2000 var endanlega ritað undir kaupsamning [...] milli Hamra ehf. og Desember ehf. um kaup fyrrnefnda félagsins á öllum hlutum þess síðara í Mýrargötu 26 ehf. Hluti kaupverðs var greiddur með yfirtöku skuldar samkvæmt framangreindu skuldabréfi að fjárhæð kr. 25.000.000. Greiðandi bréfsins er því Mýrargata 26 ehf. Eftir stendur að Sigurður Gunnarsson þáverandi framkvæmdastjóri Mýrargötu 26 ehf. og Desember ehf. fylgdi ekki eftir stjórnarsamþykkt Mýrargötu 26 ehf. um að framangreindu tryggingarbréfi yrði aflétt samhliða sölu á skuldabréfinu. Stjórn Mýrargötu 26 ehf. er því nauðugur sá kostur að leita réttar síns gagnvart Desember ehf. og Sigurði Gunnarssyni með aðstoð lögmanns. Vegna fyrirhugaðrar lögsóknar er þess farið á leit við Sparisjóð Kópavogs að látnar verði í té allar upplýsingar og gögn er varða framangreindar gerðir, að því marki sem [reglur] leyfa.“ Undir bréfið rita tveir stjórnarmenn stefnanda.

Aðalkröfu sína um frávísun málsins byggir stefndi á því að kröfugerð og málatilbúnaður stefnanda sé svo óljós að fari í bága við meginreglu einkamálaréttarfars um skýran og glöggan málatilbúnað og ljósa kröfugerð, sbr. og 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

                Í fyrsta lagi sé byggt á því að málsgrundvöllur sé óljós og af málatilbúnaði stefnanda verði ekki ráðið hvort um sé að ræða endurkröfu stefnanda samkvæmt reglum kröfuréttar eða skaðabótakröfu og þá eftir atvikum innan eða utan samninga. Í upphafi stefnu sé því lýst að stefnandi krefji stefnda um endurgreiðslu söluandvirðis veðskuldabréfs. Í kafla stefnunnar um málsástæður og lagarök byggi stefnandi á því að meint ólögmæt ráðstöfun stefnda á fjármunum stefnanda skapi endurkröfurétt. Vísi stefnandi þar bæði til reglna samninga- og kröfuréttar og almennu skaðabótareglunnar.  Næst vísi stefnandi til þess að stefndi hafi brotið gegn skýrum fyrirmælum stefnanda og þar með valdið honum tjóni sem nemi andvirði skuldabréfsins. Síðar í stefnunni sé því hins vegar haldið fram að þáverandi framkvæmdastjóri stefnanda hafi farið út fyrir umboð sitt og stefndi hafi verið grandsamur um það. Sé í því sambandi vísað til 52. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög og virðist því þar með haldið fram að hinn meinti gerningur framkvæmdastjórans hafi verið óskuldbindandi fyrir stefnanda sem leiði til endurkröfuréttar á hendur stefnda. Þá sé í stefnu vísað til þeirrar meintu háttsemi þáverandi framkvæmdastjóra stefnanda að taka lán í nafni stefnanda án þess að skýrt sé hvernig sú fullyrðing komi heim og saman við umþrætt skuldabréf. Þá sé ennfremur óútskýrt af hálfu stefnanda hvernig ákvæði 73.-79. gr. laga nr. 138/1994, sem stefnandi vísi til, eða meint vitneskja stefnda um meinta háttsemi þáverandi framkvæmdastjóra stefnanda í andstöðu við þau ákvæði, eigi að leiða til endurkröfu og/eða bótaréttar stefnanda á hendur stefnda.

                Við framangreint bætist að í stefnu sé hvergi vikið að því hvernig það geti komið heim og saman að stefnandi sem sé útgefandi umrædds skuldabréfs og hafi ekki greitt krónu af því til stefnda telji sig nú mörgum árum eftir útgáfu þess og þrátt fyrir skuld sína við stefnda eiga rétt á að fá andvirði bréfsins, sem hann skuldi stefnda sjálfur, greitt til sín. Hefði eins og mál þetta liggi fyrir verið sérstök ástæða til að reifa það sérstaklega.

                Samkvæmt framansögðu kveður stefndi að lýsing málsástæðna og samhengi þeirra sé svo óskýrt að verulegum annmörkum sé háð fyrir stefnda að átta sig á hver málsgrundvöllur stefnanda sé í raun og veru. Sé málatilbúnaður stefnanda að þessu leyti í andstöðu við e og f liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.

                Auk framangreindra atriða er til stuðnings frávísunarkröfu stefnda vísað til þess, að dráttarvaxtakrafa stefnanda sé óljós. Í málinu krefji stefnandi stefnda um dráttarvexti frá 31. desember 1998. Ekki sé tilgreint hversu hárra dráttarvaxta sé krafist eða samkvæmt hvaða lögum eða lagagreinum. Þá sé heldur ekki gerð grein fyrir til hvaða tíma dráttarvaxta sé krafist. Sé vaxtakrafa stefnanda því verulega vanreifuð og í augljósri andstöðu við d og f liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.

                Samkvæmt framansögðu kveður stefndi skorta mjög á að málatilbúnaður stefnanda uppfylli meginreglur einkamálaréttarfars um glöggan og skýran málatilbúnað, sbr. d-, e- og f-lið 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála. Hái þetta mjög vörnum stefnda. Sé kröfugerð stefnanda, lýsing málsatvika og málsástæðna og samhengi þeirra og málatilbúnaður stefnanda í heild svo óljós og óskýr að ekki verði hjá því komist að vísa máli þessu frá dómi sökum vanreifunar.

                Í greinargerð eru málsástæður stefnda fyrir sýknukröfu ítarlega raktar. Þykir ekki vera þörf á því að gera grein fyrir þeim við úrlausn um frávísunarkröfu stefnda.

IV.

                Svo sem fram er komið gaf stefnandi út skuldabréf til stefnda 18. desember 1998 sem tryggt var með veði í fasteign félagsins að Mýrargötu 26 í Reykjavík. Var andvirði skuldabréfsins, 24.480.744 krónum, ráðstafað inn á reikning Desember ehf. hjá stefnda. Dómkröfu sína í málinu grundvallar stefnandi á því, að það hafi verið forsenda fyrir þeirri ráðstöfun að andvirði skuldabréfsins gengi til greiðslu á þeim skuldum Desember ehf. sem tryggðar væru með veði í þessari sömu fasteign stefnanda samkvæmt tryggingarbréfi sem Desember ehf. hafði gefið út til stefnda 23. nóvember 1998 og að tryggingarbréfinu yrði í kjölfarið létt af eigninni. Þetta hafi hins vegar ekki gengið eftir. Hafi stefndi með aðkomu sinni að málinu farið gegn „skýrum fyrirmælum stefnanda og [valdið] stefnanda tjóni sem [nemi] söluandvirði skuldabréfsins“. Eru hin tilvitnuðu orð tekin upp úr þeim kafla stefnu sem ber yfirskriftina málsástæður og lagarök. Þar segir ennfremur að um hafi verið að ræða ólögmæta ráðstöfun stefnda á fjármunum stefnanda, „sem skapi stefnanda endurkröfurétt með dráttarvöxtum frá þeim tíma sem hin ólögmæta ráðstöfun var gerð“, svo og að byggt sé á „almennum reglum samninga- og kröfuréttar, sem og á almennu skaðabótareglunni“. Að auki er í þessum kafla stefnunnar tiltekið að stefnda hafi verið ljóst eða mátt vera ljóst „að sú ráðstöfun framkvæmdastjóra stefnanda að taka lán í nafni stefnanda og ráðstafa því inn á reikning annars félags í sinni eigu væri á skjön við þá meginreglu hlutafélagaréttar að hluthafar geti ekki með neins konar ályktunum knúið fram greiðslur úr sjóðum félagsins til handa sjálfum sér, svo lögmætt sé, nema í samræmi við [...] reglur 73.-79. gr. l. 138/1994 um einkahlutafélög [...]“.

                Verði talið að ráðstöfun stefnda á andvirði umrædds veðskuldabréfs hafi verið í andstöðu við það sem um hafi verið rætt á milli málsaðila eða að hún hafi af öðrum ástæðum verið ólögmæt kynni stefnandi að eiga kröfu um skaðabætur á hendi stefnda, en með vísan til þess sem rakið er hér að framan verður ekki annað séð en að fjárkrafa stefnanda sé öðrum þræði á því byggð að um skaðabótakröfu sé að ræða. Í málinu krefur stefnandi stefnda um söluandvirði skuldabréfsins. Þeirri staðhæfingu stefnda að stefnandi hafi ekkert greitt af skuldabréfinu hefur ekki verið andmælt. Í stefnu eða málatilbúnaði stefnanda að öðru leyti er á engan hátt leitast við að skýra að stefnandi eigi engu að síður rétt til skaðabóta úr hendi stefnda sem nemi söluandvirði skuldabréfsins. Málsgrundvöllur stefnanda sýnist að þessu frágengnu byggður á því að hann eigi, hvað sem rétti til skaðabóta líður, kröfu til þess að stefndi inni af hendi til hans greiðslu sem samsvari andvirði skuldabréfsins og að um sé að ræða „endurkröfurétt“. Í stefnu er þessu tvennu, það er kröfu um skaðabætur og „endurgreiðslu“, teflt fram með óskýrum og mótsagnarkenndum hætti og langt í frá á þann veg sem gerð er krafa til samkvæmt e- og f-lið 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Að því viðbættu, sem áður er rakið, er í inngangskafla stefnu, þar ágreiningsefni málsins er lýst í hnotskurn, vikið að því að í málinu sé stefndi krafinn um „endurgreiðslu“ söluandvirðis veðskuldabréfsins. Þá er það svo að af hálfu stefnanda er annars vegar á því byggt að hin umdeilda ráðstöfun á andvirði skuldabréfsins hafi verið andstæð skýrum fyrirmælum stefnanda, en á hinn bóginn að starfsmönnum stefnda hafi átt að vera ljóst að þáverandi framkvæmdastjóri stefnanda væri að fara út fyrir umboð sitt þegar hann gaf þeim fyrirmæli um ráðstöfun fjárins. Er ekki skýrt hvernig þetta tvennt geti farið saman og ekki hvað síst þegar litið er til efnis bréfs sem tveir stjórnarmenn stefnanda rituðu stefnda 30. nóvember 2000, en efni þess er rakið í kafla III hér að framan.

                Stefndi innti af hendi 30. desember 1998 greiðslu vegna kaupa á umræddu veðskuldabréfi af stefnanda. Hafi sú greiðsla og umsamdar aðgerðir stefnda í tengslum við hana misfarist vegna atvika sem stefndi ber ábyrgð á kann, svo sem áður greinir, að hafa stofnast skaðabótaskylda gagnvart stefnanda vegna tjóns sem hann hafi orðið fyrir af þessum sökum. Málið hefur ekki verið lagt fyrir dóminn með þeim hætti að leyst verði úr því á þessum grunni. Að þessu frágengnu er vandséð að stefnandi geti átt kröfu til þess að stefnda verði að nýju gert að inna andvirði skuldabréfsins af hendi, en engin grein gerð fyrir því í stefnu og málatilbúnaði stefnanda hvaða rök geti staðið til þess að greiðsluskylda verði í ljósi þessa felld á stefnda. Á greiðsluskyldu stefnanda samkvæmt skuldabréfinu gæti hins vegar eftir atvikum reynt kjósi stefndi að beina kröfu samkvæmt því að félaginu og þrátt fyrir nauðungarsölu á hinni veðsettu fasteign þess, enda gæti stefnandi þá teflt fram öllum þeim vörnum sem lúta að lögskiptum að baki skuldabréfinu, sbr. dóm Hæstaréttar frá 31. mars 2000 í máli nr. 88/2000.

                Með vísan til þess sem nú hefur verið rakið eru slíkir annmarkar á málatilbúnaði stefnanda að taka ber til greina kröfu stefnda um frávísun málsins.

                Eftir framangreindum málsúrslitum og með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 150.000 krónur.

Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

                Máli þessu er vísað frá dómi.

                Stefnandi, Mýrargata 26 ehf., greiði stefnda, Sparisjóði Kópavogs, 150.000 krónur í málskostnað.