Hæstiréttur íslands

Mál nr. 99/2016

Margrét Stefánsdóttir (Reimar Pétursson hrl.)
gegn
þrotabúi Ingvars Jónadabs Karlssonar (Guðjón Ármann Jónsson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Útivistardómur
  • Endurupptaka
  • Réttaráhrif dóms

Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu M um að felld yrðu niður réttaráhrif útivistardóms í máli þb. I á hendur henni þar til meðferð þess lyki á ný. Í dómi Hæstaréttar kom fram að heimild dómara í 1. mgr. 139. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála til að fella niður réttaráhrif upphaflegrar úrlausnar að einhverju leyti eða hluta væri undantekning frá þeirri meginreglu að dómur í héraði eða áritun stefnu í útvistarmáli haggaðist ekki af því að orðið væri við beiðni stefnda um endurupptöku þess. Var ekki talið að M hefði sýnt fram á að efni stæðu til annars en að umræddur dómur héldi óskertum réttaráhrifum þar til leyst yrði úr málinu á nýjan leik. Hinn kærði úrskurður var því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. febrúar 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. janúar 2016, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að felld yrðu niður réttaráhrif útivistardóms 2. september 2015 í máli varnaraðila á hendur henni þar til meðferð þess ljúki á ný. Kæruheimild er í r. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að réttaráhrif dómsins verði felld niður og varnaraðila gert að greiða sér kærumálskostnað.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Samkvæmt gögnum málsins var bú Ingvars Jónadabs Karlssonar tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 27. febrúar 2014, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 3. apríl sama ár í máli nr. 204/2014. Varnaraðili kveður kröfulýsingarfresti við gjaldþrotaskiptin hafa lokið 10. maí 2014 og lýstar kröfur numið samtals um 2.337.000.000 krónum. Á fyrsta skiptafundi í búinu 22. maí 2014 hafi ekki þótt horfur á að fram komnar eignir hrykkju fyrir kostnaði af skiptunum, en þó að gættu því að legið hafi þá fyrir að þrotamaðurinn hafi 28. janúar 2009 gert kaupmála við sóknaraðila vegna fyrirhugaðrar hjúskaparstofnunar þeirra og verulegar eignir hans verið gerðar þar að séreignum hennar. Varnaraðili kveður viðræður hafa farið fram við sóknaraðila um þessa ráðstöfun eftir lok kröfulýsingarfrests, en þær hafi ekki leitt til niðurstöðu og varnaraðili því ákveðið 1. október 2014 að höfða riftunarmál á hendur henni. Degi síðar hafi sóknaraðili og þrotamaðurinn flutt lögheimili sitt til Serbíu og varnaraðila ekki tekist að fá stefnu í málinu birta þar, en af þeim sökum hafi það verið gert í Lögbirtingablaði 21. nóvember 2014. Samkvæmt stefnunni krafðist varnaraðili riftunar á ráðstöfun þrotamannsins til sóknaraðila með kaupmálanum á tilgreindum eignarhlutum í 23 félögum, svo og á fimm tilteknum fasteignum, þremur bifreiðum og helmingshlut í einni fasteign. Varnaraðili krafðist þess jafnframt að sóknaraðila yrði gert að skila þessum eignum eða greiða að öðrum kosti 900.000.000 krónur með tilteknum vöxtum frá þeim degi sem kaupmálinn var gerður. Sóknaraðili sótti ekki þing við þingfestingu málsins 19. mars 2015 og var það dómtekið 26. sama mánaðar. Með úrskurði héraðsdóms 17. júlí 2015 var málinu vísað frá dómi, en sá úrskurður var felldur úr gildi með dómi Hæstaréttar 27. ágúst sama ár í máli nr. 495/2015. Í framhaldi af því var kveðinn upp dómur í málinu 2. september 2015, þar sem krafa varnaraðila um riftun fyrrnefndra ráðstafana var tekin til greina og sóknaraðila gert að skila honum eignunum sem um ræddi ásamt því að greiða 457.400 krónur í málskostnað. Samkvæmt kröfu sóknaraðila var málið endurupptekið 16. október 2015 eftir ákvæðum XXIII. kafla laga nr. 91/1991. Í greinargerð, sem hún lagði fram í héraði 12. nóvember sama ár, krafðist hún þess aðallega að málinu yrði vísað frá dómi en til vara sýknu af kröfum varnaraðila. Í greinargerðinni krafðist sóknaraðili þess jafnframt að réttaráhrif dómsins frá 2. september 2015 yrðu felld niður á grundvelli 1. mgr. 139. gr. laga nr. 91/1991. Héraðsdómur tók síðastgreinda kröfu ásamt kröfu sóknaraðila um frávísun málsins til munnlegs flutnings í þinghaldi 19. janúar 2016 og var þá þegar kveðinn upp úrskurður um að hafna frávísunarkröfunni, en til kröfunnar um að réttaráhrif dómsins yrðu felld niður var tekin afstaða með hinum kærða úrskurði 28. sama mánaðar.

Í kæru sóknaraðila til Hæstaréttar eru þau rök einkum færð fyrir dómkröfu hennar að það skipti hana miklu að réttaráhrif dómsins verði felld niður, því hann hafi beinst „að safni eigna“ hennar. Hún verði „að geta tekið ákvarðanir sem hluthafi um rekstur þeirra félaga sem um teflir og skipulagt efnahag sinn eftir því sem vindar blása í efnahagslífinu“, en vegna dómsins eigi hún þess ekki kost og „geti hlotist af því varanlegur skaði.“ Um þetta verður að gæta að því að sú meginregla gildir samkvæmt XXIII. kafla laga nr. 91/1991 að dómur í héraði eða áritun stefnu í útivistarmáli haggist ekki af því að orðið sé við beiðni stefnda um endurupptöku þess. Heimild dómara í 1. mgr. 139. gr. laganna til að kveða samkvæmt kröfu stefnda á um að réttaráhrif upphaflegrar úrlausnar falli niður að einhverju leyti eða öllu þar til máli lýkur á ný í héraði er þannig undantekning frá þeirri meginreglu. Samkvæmt hljóðan ákvæðisins skal dómari meta eftir atvikum hvort eða að hvaða leyti efni séu til að beita þessari heimild. Standi réttaráhrif dómsins frá 2. september 2015 óröskuð af endurupptöku málsins nýtur varnaraðili heimildar til aðfarar samkvæmt honum, sbr. 2. mgr. 139. gr. laga nr. 91/1991. Ef varnaraðili neytti hennar og dómurinn yrði síðar felldur úr gildi bæri hann fébótaábyrgð á tjóni af þeim sökum, sbr. 96. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili hefur ekki leitt að því líkur að hagsmunum hennar sé ekki nægilega borgið á þann hátt. Eins og atvikum er að öðru leyti háttað í máli þessu hefur sóknaraðili ekki fært haldbær rök fyrir því að efni séu til annars en að dómurinn 2. september 2015 haldi óskertum réttaráhrifum þar til leyst verður úr málinu á nýjan leik. Hinn kærði úrskurður verður því staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Margrét Stefánsdóttir, greiði varnaraðila, þrotabúi Ingvars Jónadabs Karlssonar, 400.000 krónur í kærumálskostnað.

                                                                 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. janúar 2016.

Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 21. nóvember 2014 í Lögbirtingablaðinu af Þrotabúi Ingvars Jónadabs Karlssonar, [...], Reykjavík, á hendur Margréti Stefánsdóttur, [...], Reykjavík.

Í þessum þætti málsins eru gerðar eftirfarandi kröfur:

Sóknaraðili, Margrét Stefánsdóttir, krefst þess að dómari úrskurði um að réttaráhrif dóms í málinu frá 2. september 2015 falli niður að öllu leyti þar til meðferð málsins lýkur og að málskostnaður bíði efnisdóms.

Varnaraðili, þb. Ingvars Jónadabs Karlssonar, mótmælir þeirri kröfu sóknaraðila um að réttaráhrif dómsins verði felld niður og telur að þau haldi þar til önnur dómsniðurstaða liggur fyrir og að málskostnaður bíði efnisdóms.

I

Eins og máli þessu er háttað þykir nauðsynlegt að gera í stuttu máli grein fyrir framgangi þess til dagsins í dag.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 27. febrúar 2014 var bú Ingvars Jónadabs Karlssonar tekið til gjaldþrotaskipta. Úrskurður þessi var staðfestur með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 204/2014. Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði Guðjón Ármann Jónsson hrl. skiptastjóra.

Auglýsing um innköllun til kröfuhafa var fyrst birt í Lögbirtingarblaðinu 10. mars 2014 og lauk kröfulýsingarfresti 10. maí 2014. Fyrsti skiptafundur til umfjöllunar um lýstar kröfur var haldinn 22. maí 2014. Heildarfjárhæð lýstra krafna var rúmlega 2.300 milljónir króna.

Samkvæmt gögnum málsins ráðstafaði þrotamaður eignum sínum til núverandi eiginkonu sinnar með kaupmála er gerður var 28. janúar 2009. Skiptastjóri telur að þessar ráðstafanir séu riftanlegar með vísan til XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Skiptastjóri kveður að óformlegar viðræður, tilkynningar og tilraunir til samninga um framangreindar ráðstafanir hafi farið fram gagnvart stefndu allt til 1. október 2014 að endanleg ákvörðun um riftun kaupmálans hafi verið tekin á skiptafundi. Ingvar Jónadab og sóknaraðili voru skráð til heimilis að Vesturhlíð 9, Reykjavík, en hinn 2. október 2014 skráðu þau sig til heimilis í Serbíu.

Þegar almennri riftunaráskorun til sóknaraðila var ekki svarað ákvað skiptastjóri að höfða mál þetta gegn henni og var hafist handa við að reyna að birta stefnuna fyrir sóknaraðila á uppgefnu heimilisfangi í Serbíu. Eftir mikla eftirgrennslan kom í ljós að hvorki hún né nefnt heimilisfang fannst í Serbíu, samanber framlögð gögn. Því varð ekki af stefnubirtingunni.

   Skiptastjóri lét einnig birta stefnuna í Lögbirtingablaðinu, fyrst 7. nóvember 2014, sem ekki var þingfest fyrir dómi, og síðan aftur 21. nóvember 2014 með því að málið yrði tekið fyrir 19. mars 2015 í Héraðsdómi Reykjavíkur. Ekki var sótt þing af hálfu sóknaraðila. Var málið því dæmt með vísan til 1. mgr. 96. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála. Með úrskurði héraðsdóms 17. júlí 2015 var málinu vísað frá dómi á þeirri forsendu að málshöfðunarfrestir væru liðnir. Með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 495/2015 var hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Hinn 2. september 2015 var kveðinn upp dómur og kröfur þb. Ingvars Jónadabs Karlssonar teknar til greina.

Sóknaraðili málsins krafðist þess að málið yrði endurupptekið og var það gert með bókun í þingbók 16. október 2015.

II

Þegar mál er endurupptekið samkvæmt ákvæðum laga nr. 91/1991 er öll efnishlið málsins tekin til skoðunar og dóms að nýju. Skiptastjóri hefur upplýst að Margrét Stefánsdóttir ásamt þrotamanni hafi þær eignir sem mál þetta varðar í sinni umsjá. Þá hefur skiptastjóri upplýst, þó ekki liggi fyrir gögn um það í málinu, að hann hafi þinglýst dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 2. september sl. á eignirnar og tilkynnt stjórnum hlutafélaganna um hann.

Þegar litið er til alls aðdraganda málsins, samanber hér að framan, sem og þess að sóknaraðili, Margrét, ásamt þrotamanni, hafa eignirnar í sinni umsjá, þykja ekki efni til þess að verða við kröfu hennar um að réttaráhrif dóms í málinu frá 2. september 2015 falli niður að öllu leyti þar til meðferð málsins lýkur og er henni hafnað.

Ákvörðun málskostnaðar bíður efnisdóms.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Hafnað er kröfu Margrétar Stefánsdóttur um að felld verði niður réttaráhrif dóms í málinu frá 2. september 2015 að öllu leyti þar til meðferð máls þessa lýkur.

Ákvörðun málskostnaðar bíður efnisdóms.