Hæstiréttur íslands
Mál nr. 498/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 3. september 2009. |
|
Nr. 498/2009. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu(Jón H. B. Snorrason saksóknari) gegn X (Setfán Karl Kristjánsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Sératkvæði.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sbr. og 7. mgr. 29. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. september 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. september 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 4. september 2009 klukkan 16 og sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sératkvæði
Jóns Steinars Gunnlaugssonar
Varnaraðili hefur játað aðild sína að innbroti aðfararnótt 1. september 2009 í söluturninn Skalla að Hraunbæ 102, Reykjavík. Við yfirheyrslu hjá sóknaraðila sama dag kvaðst varnaraðili hafa komið til Íslands þremur dögum fyrr. Sá framburður er í samræmi við framburð þeirra sem hann var í félagi við þegar brotist var inn í söluturninn. Af hálfu sóknaraðila hefur ekki verið gefin skýring á því, hvort þetta hafi sérstaklega verið kannað með öðru en nefndum yfirheyrslum. Í greinargerð af hálfu varnaraðila fyrir Hæstarétti kemur fram að hann hafi boðist til að fara með lögreglu í húsnæði að Blesugróf í Reykjavík, þar sem hann kvaðst hafa dvalist eftir að hann kom til landsins, til að finna og afhenda skilríki sín.
Eins og atvikum málsins er háttað getur ekki að svo stöddu talist vera fyrir hendi rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi 8. ágúst 2009 tekið þátt í innbroti að Þ, Reykjavík sem sóknaraðili rannsakar. Þátttaka varnaraðila í innbrotinu í fyrrnefndan söluturn er viðurkennd og gefur ekki tilefni til gæsluvarðhalds yfir honum. Samkvæmt þessu tel ég að ekki séu uppfyllt skilyrði a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála til gæsluvarðhalds varnaraðila. Því beri að fella hinn kærða úrskurð úr gildi.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur árið 2009, þriðjudaginn 1. september.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, fd. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 4. september kl. 16:00. Þá er gerð krafa um að kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur
Í greinargerð lögreglu kemur fram að síðastliðna nótt hafi fjarskiptamiðstöð lögreglunnar borist tilkynning um yfirstandandi innbrot í söluturninum Skalla, Hraunbæ 102, Reykjavík. Er lögregla kom á vettvang hafi tilkynnandi vitni í málinu tekið á móti þeim og lýst því hvernig hann sá þrjá menn koma út úr versluninni og hlaupa í burtu. Skömmu síðar hafi lögregla stöðvað för bifreiðarinnar Y, en kærði hafi verið farþegi bifreiðarinnar. Við leit í farangursrými bifreiðarinnar hafi fundist 363 pakkar af sígarettum og vindlum. Hafi kærði viðurkennt að hafa farið ásamt þremur félögum sínum að versluninni og brotist þar inn og stolið 363 sígarettu- og vindlapökkum.
Kærði hafi við skýrslutöku hjá lögreglu gefið upp að hann heiti X og að fæðingardagur hans sé [...] og að hann dvelji að Z. Kvað hann að þar væri að finna vegabréfið hans og að hann gisti þar hjá félögum sínum. Lögregla hafi farið að Z, til að reyna að staðreyna framangreindar upplýsingar. Engin persónuskilríki í eigu X hafi fundist í húsnæðinu. Þá hafi hvorugur þeirra sem dvelji að Z staðfest að kærði, X, dvelji þar.
Við húsleit að Z hafi fundist þýfi úr innbroti að Þ Reykjavík, frá því 8. ágúst sl. Sé rannsókn þess máls skammt á veg komin og frá handtöku kærða í nótt hafi ekki gefist tími til þess að bera innbrotið undir kærða.
Kærði segist hafa komið til landsins fyrir þremur dögum síðan. Hafi lögregla enga haldbæra staðfestingu á því að það sé rétt, að hann segi til um rétt nafn og hvar hann dvelji.
Kveðst lögregla telja að ef kærði verði látinn laus muni hann eiga þess kost að torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að tala við samverkamenn sína og reyna að hafa áhrif á þeirra framburð. Lögregla telji það brýnt fyrir framgang málsins að fallist verði á framkomna kröfu um gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna svo unnt sé að staðreyna hver kærði sé, hver dvalarstaður hans sé og mögulegan þátt hans í innbrotinu að Þ
Sakarefni málsins sé talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot gegn ákvæðinu geti varðað fangelsi allt að 6 árum ef sök sannist og við 7. mgr. 29. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002. Um heimild til gæsluvarðhalds vísar lögreglan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Um heimild til einangrunar á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur er vísað til b-liðar 1. mgr. 99. gr. sömu laga.
Með vísan til þess sem fram kemur í greinargerð lögreglustjóra og þess sem rannsóknargögn bera með sér er fallist á að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið verknað sem varðað geti fangelsisrefsingu. Þá hefur kærði ekki framvísað persónuskilríkjum til að sýna fram á hver hann er, en lögregla fann ekki persónuskilríki í eigu kærða í Z, Reykjavík, þrátt fyrir að kærði hafi upplýst lögreglu um að þau væru þar að finna.
Rannsókn málsins er á frumstigi og er fallist á að kærði geti torveldað rannsókn málsins með því að koma undan sönnunargögnum eða hafa áhrif á vitni eða samseka, gangi hann laus. Þá hefur ekki tekist að færa sönnur á hvort kærði er sá sem hann segist vera. Þegar litið er til alls framanritaðs telur dómurinn að uppfyllt séu skilyrði a liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. og 7. mgr. 29. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga. Er því fallist á kröfu lögreglustjóra um gæsluvarðhald eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði. Þá er með sömu rökum fallist á að kærði sæti einangrun skv. b. lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.
Greta Baldursdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 4. september nk. kl. 16. Hann skal sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.