Hæstiréttur íslands

Mál nr. 128/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Litis pendens áhrif
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi


Mánudaginn 3. mars 2014.

Nr. 128/2014.

Hilda ehf.

(Bjarki Már Baxter hdl.)

gegn

Hurðarbaki ehf.

(Skúli Sveinsson, stjórnarformaður)

Kærumál. Litis pendens áhrif. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli H ehf. á hendur Hb ehf. var vísað frá dómi. Málið var höfðað af D hf. 10. febrúar 2013 sem framseldi síðar H ehf. allar kröfur á hendur Hb ehf. Hb ehf. hafði 24. júní 2013 höfðað mál á hendur D hf. þar sem þess var krafist að viðurkennt yrði að fjölmyntalán samkvæmt samningi aðila væri lánasamningur í íslenskum krónum bundinn ólögmætri gengistryggingu. Kröfu Hb ehf. var hafnað með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur og hafði honum verið áfrýjað til Hæstaréttar. Í dómi Hæstaréttar sagði m.a. að samkvæmt 4. mgr. 94. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála yrði ekki eftir þingfestingu máls krafist dóms um kröfur, sem þar væru gerðar, í öðru máli, en væri svo gert skyldi síðara málinu vísað frá dómi. Krafa H ehf. í málinu væri ekki sú sama og krafa sem Hb ehf. gerði á hendur D hf. í áðurgreindu máli. Fyrrgreint ákvæði gæti því ekki átt við um málið og breytti þar engu þótt Hb ehf. hafi í máli því er hann höfðaði á hendur D hf. reist kröfu sína á þeirri málsástæðu að umþrætt skuld hafi verið bundin ólögmætri gengistryggingu. Var hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. febrúar 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. febrúar 2014 þar sem máli Dróma hf. á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Til vara krefst hann þess að úrskurðurinn verði felldur úr gildi að því er varðar frávísun á kröfu sóknaraðila um staðfestingu á veðrétti og rétti til að fá gert fjárnám í fasteigninni Ármúla 15 í Reykjavík á grundvelli tryggingarbréfs 8. júlí 1998. Í báðum tilvikum krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Mál þetta höfðaði Drómi hf., en eftir uppkvaðningu hins kærða úrskurðar framseldi hann 10. febrúar 2014 sóknaraðila „allar kröfur á hendur Hurðarbaki ehf. ... og öll önnur réttindi, s.s. veðréttindi.“ Því til samræmis hefur sóknaraðili tekið við aðild að málinu fyrir Hæstarétti.

Varnaraðili höfðaði 24. júní 2013 mál á hendur Dróma hf. þar sem þess var krafist að viðurkennt yrði að „fjölmyntalán samkvæmt lánasamningi aðila ... 21. júlí 1998, upphaflega að fjárhæð kr. 15.000.000 ... sé lánasamningur í íslenskum krónum bundinn ólögmætri gengistryggingu.“ Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 17. janúar 2014 var þessari kröfu varnaraðila hafnað. Dóminum hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar.

Mál þetta var þingfest í héraði 10. október 2013. Í stefnu krafðist Drómi hf. þess að varnaraðili yrði dæmdur til greiðslu skuldar að fjárhæð 19.138.317 krónur auk þess sem staðfestur yrði 1. veðréttur í fasteigninni að Ármúla 15, Reykjavík, samkvæmt tryggingarbréfi 8. júlí 1998 og réttur „til að fá gert fjárnám í veðinu fyrir skuldinni auk dráttarvaxta og kostnaðar.“

Samkvæmt 4. mgr. 94. gr. laga nr. 91/1991 verður eftir þingfestingu máls ekki krafist dóms um þær kröfur, sem þar eru gerðar, í öðru máli, en sé svo gert skal síðara málinu vísað frá dómi. Krafa sóknaraðila í þessu máli er samkvæmt áðursögðu ekki sú sama og krafan, sem varnaraðili gerði á hendur Dróma hf. í máli sínu. Ákvæði 4. mgr. 94. gr. laga nr. 91/1991 getur því ekki átt við um mál þetta og breytir þar engu þótt varnaraðili hafi í máli því er hann höfðaði 24. júní 2013 reist kröfu sína á þeirri málsástæðu að umþrætt skuld hafi verið bundin ólögmætri gengistryggingu.

Samkvæmt framansögðu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Varnaraðili verður dæmdur til að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðili, Hurðarbak ehf., greiði sóknaraðila, Hildu ehf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. febrúar 2014.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi um frávísunarkröfu stefnda, hinn 8. janúar sl., var höfðað fyrir dómþinginu af Dróma hf., Lágmúla 6, Reykjavík, á hendur Hurðarbaki ehf., Ármúla 15, Reykjavík, með stefnu þingfestri 10. október 2013.

Í máli þessu krefst stefnandi þess að hið stefnda félag, Hurðarbak ehf., verði dæmt til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 19.138.317 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu frá 21. apríl 2010 til greiðsludags.  Þá er þess krafist að hið stefnda félag verði dæmt til að þola staðfestingu á 1. veðrétti stefnanda í fasteigninni að Ármúla 15, Reykjavík, fastanúmer 201-2736, samkvæmt tryggingarbréfi útgefnu 8. júlí 1998, bundið vísitölu neysluverðs með grunnvísitölu 184,0 stig, fyrir framangreindri skuld stefnda, að fjárhæð 19. 138.317 krónur auk dráttarvaxta, og að staðfestur verði með dómi réttur stefnanda til að fá gert fjárnám í veðinu fyrir skuldinni auk dráttarvaxta og kostnaðar.  Stefnandi krefst og málskostnaðar úr hendi stefnda.  Byggir stefnandi greiðslukröfu sína á lánssamningi útgefnum 21. júlí 1998 og skilmálabreytingum gerðum  24. ágúst 1998, 21. júlí 2004, 4. febrúar 2005, og 2. mars 2009.  Þá byggir stefnandi kröfu sína um staðfestingu á veðrétti á tryggingarbréfi útgefnu 8. júlí 1998, að fjárhæð 15.000.000 króna. 

Stefndi krefst aðallega frávísunar, en til vara sýknu af kröfum stefnanda.  Þá krefst stefndi málskostnaðar í þessum þætti málsins.

Málið var flutt um frávísunarkröfu stefnda hinn 8. janúar sl. og tekið til úrskurðar þann dag, og er einungis sá þáttur málsins til meðferðar nú.

Ágreiningur máls þessa lýtur að greiðsluskyldu stefnda samkvæmt fyrrgreindum samningum aðila.   Greinir aðila á um hvort umræddir samningar séu um lán í erlendum myntum eða íslenskum krónum bundið ólögmætri gengistryggingu.

Mál þetta var höfðað með þingfestingu stefnu hinn 10. október 2013.  Áður, eða með stefnu áritaðri um birtingu hinn 24. júní 2013, höfðaði stefndi máls þessa mál á hendur stefnanda, um viðurkenningu á því að umræddir lánssamningar aðila væru íslensk lán bundin ólögmætri gengistryggingu.  Stefndi í því máli, Drómi hf., hélt uppi vörnum og krafðist sýknu, og byggði á því að lánin væru í erlendum gjaldmiðlum.  Dómur í því máli féll í héraði hinn 17. janúar sl., þar sem hafnað var viðurkenningarkröfu Hurðarbaks ehf.  Þeim dómi hefur nú verið áfrýjað til Hæstaréttar Íslands.  

Stefndi hefur krafist frávísunar málsins á þeim grunni að mál vegna sama sakarefnis sé þegar rekið fyrir dómstólunum og er mál þetta hafi verið þingfest hefði þegar verið ákveðin aðalmeðferð í fyrra málinu.  Ekki sé unnt í tveimur aðgreindum dómsmálum að fjalla um sömu dómkröfu á sama tíma.  Þingfestingu málsins fylgi svonefnd litis pendens áhrif, en samkvæmt 4. mgr. 94. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, leiði þau til þess að óheimilt sé að krefjast dóms í öðru máli um þá kröfu, sem mál hafi þegar verið þingfest um.  Ef nýtt mál sé þingfest um sama sakarefni að nokkru eða öllu leyti verði því vísað frá dómi án kröfu, að öllu leyti eða að hluta, allt eftir því sem skarist við eldra málið.  Þessara áhrifa af þingfestingu gæti eins lengi og málinu hafi ekki verið lokið.  Ef máli lýkur þannig með frávísun eða það er fellt niður standi þessi hindrun ekki lengur í vegi fyrir nýju máli um sömu kröfu.  Ljúki máli á hinn bóginn með dómi eða með öðrum hætti falli litis pendens áhrifin niður, en í þeirra stað hafi dómurinn res judicata áhrif samkvæmt 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991, sbr. dóm Hæstaréttar í málinu nr. 198/1972.  Ljóst megi vera að krafa stefnanda í máli þessu um að fá dóm fyrir greiðslu meintrar skuldar sé jafnframt viðurkenningardómur um að skuldabréfið sé lögmætt lán í erlendum gjaldeyri.  Því sé í grunninn um sömu dómkröfu að ræða, þó í öðrum búningi sé.  Beri því að vísa kröfu stefnanda frá á grundvelli 4. mgr. 94. gr. laga nr. 91/1991.  Stefnanda hefði verið unnt að gagnstefna kröfu sinni í hinu fyrra máli, en ekki gert innan þess tímafrests sem tilgreindur sé í 2. ml. 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991, en kröfurnar eigi rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings.  Með gagnstefnu og sameiningu málanna hefði stefnandi getað komist undan litis pendens áhrifum í máli þessu en hafi ekki nýtt sér það tækifæri.  Engin lagaheimild sé til staðar til að víkja frá fresti til gagnstefnu sem tilgreindur sé í fyrrgreindri 28. gr. laga nr. 91/1991, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar í málunum nr. 356/2000 og 483/2005.  Lagaheimild til að sameina málin sé því ekki fyrir hendi.  Af því leiði að stefnandi þessa máls verði að þola að málinu sé vísað frá í heild sinni, sbr. 4. mgr. 94. gr. laga nr. 91/1991.

Stefndi byggir frávísunarkröfu sína einnig á því að málatilbúnaður stefnanda sé vanreifaður.  Enginn útreikningur liggi fyrir um fjárhæð kröfu ef lánið telst vera ólögmætt gengistryggt lán.  Kröfugerð stefnanda sé þar með ekki sett fram með svo skýrum og glöggum hætti sem gera megi kröfu til á grundvelli 80. gr. laga nr. 91/1991.

Stefndi krefst og frávísunar á grundvelli 80. gr. laga nr. 91/1991, þó svo að lán til hans yrði talið lögmætt erlent lán, á grundvelli þess að stefnandi hafi ekki lagt fram fullnægjandi sundurliðun og forsendur kröfugerðar, þá sérstaklega með tilliti til innborgana, höfuðstóls, vaxta, vaxtatímabils og fjárhæð dráttarvaxta, ef slíkir vextir eru inni í fjárhæð kröfunnar.

Stefnandi mótmælti frávísun málsins og krafðist málskostnaðar í þessum þætti málsins.  Til vara krafðist hann þess að aðeins yrði vísað frá fjárkröfu hans, en viðurkenningarkrafa vegna veðréttar yrði tekin til efnismeðferðar.

II

Dómkröfur máls þessa lúta að sama ágreiningsefni og til úrlausnar er fyrir dómstólunum milli sömu aðila, þ.e. um það hvort umdeildir lánssamningar aðila séu um lán í erlendri mynt eða ólögmætt lán í íslenskum krónum.  Dómkröfur stefnanda máls þessa á hendur stefnda hefði mátt hafa uppi með gagnsök í máli sem stefndi, Hurðarbak ehf., höfðaði á hendur stefnanda, Dróma hf., 24. júní 2013, sbr. 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991.  Stefnandi neytti hins vegar ekki þess kosts og gerði ekki reka að málshöfðun um kröfur sínar fyrr en að liðnum fresti samkvæmt nefndu lagaákvæði til að koma að gagnsök til sjálfstæðs dóms.  Samkvæmt b-lið 1. mgr. 30. gr. laga nr. 91/1991 getur dómari að ósk annars eða beggja aðila ákveðið að sameina tvö einkamál ef unnt hefði verið að höfða annað þeirra sem gagnsök í hinu.  Með 2. mgr. 30. gr. sömu laga er hins vegar girt fyrir það að mál verði sameinuð gegn mótmælum aðila ef það varðaði frávísun eftir kröfu hans að höfða mál þannig í öndverðu.  Ef stefnandi hefði höfðað gagnsök í hinu fyrra máli með fyrrnefndri stefnu 10. október 2013, í stað þess að höfða sjálfstætt mál, hefði óumflýjanlega orðið að vísa þeirri gagnsök frá dómi vegna ákvæðis síðari málsliðar 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991, án tillits til þess hvort stefnandi gerði um það kröfu.  Úr ágreiningi máls þessa verður ekki leyst nema með því að leysa úr því fyrst hvort samningar þeir sem stefnandi krefur stefnda um greiðslu á, séu í erlendri mynt eða í íslenskum krónum bundnir ólögmætri gengistryggingu.   Sá ágreiningur aðila er enn fyrir dómstólum.  Með því að svo er getur stefnandi ekki höfðað mál um sama ágreining og því verður, þegar af þeirri ástæðu, á grundvelli 4. mgr. 94. gr. laga nr. 91/1991, að vísa máli þessu frá dómi í heild sinni, enda er nauðsynlegt að leysa úr ágreiningi um fjárkröfuna til viðurkenningar á veðrétti fyrir tildæmdri fjárhæð. 

Eftir þessari niðurstöðu ber að úrskurða stefnanda til þess að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 200.000 krónur.

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Máli þessu er vísað frá dómi.

Stefnandi, Drómi hf., greiði stefnda, Hurðarbaki ehf., 200.000 krónur í málskostnað.