Hæstiréttur íslands
Mál nr. 190/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slitameðferð
- EFTA-dómstóllinn
- Ráðgefandi álit
- Evrópska efnahagssvæðið
- Frávísun frá Hæstarétti að hluta
- Kæruheimild
|
|
Föstudaginn 27. apríl 2012. |
|
Nr. 190/2012.
|
CIG og Co. Conseq Invest plc. Conseq Investment Management AS CVI GVF (Lux) Master S.a.r.l. Fondo Latinoamericano de Reservas (F.L.A.R.) GLG European Distressed Fund GLG Market Neutral Fund ING Life Insurance and Annuity ING USA Annuity and Life Insurance Co. LMN Finance Ltd. Lyxor / Third Point Fund Limited Monumental Life Insurance Company National Bank of Egypt (UK) Limited Ohio National Life Assurance Company Reliastar Life Insurance Company Security Life of Denver Insurance Sun Life Assurance Company of Canada Third Point Partners LP (US) Third Point Offshore Master Fund LP Third Point Partners Qualified LP Third Point Ultra Master Fund LP (Cayman) Värde Fund LP Värde Fund V-B LP Värde Fund VI-A LP Värde Fund VII-B LP The Värde Fund VIII LP The Värde Fund IX LP / The Värde Fund IX-A LP Värde Investment Partners LP og Värde Investment Partners (Offshore) Master LP (Ragnar Aðalsteinsson hrl.) gegn N.V. Electriciteits Produktiemaatschappij Zuid Nederland (Andri Árnason hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slitameðferð. EFTA-dómstóllinn. Ráðgefandi álit. Evrópska efnahagssvæðið. Frávísun máls frá Hæstarétti að hluta. Kæruheimild.
C og fleiri kærðu úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var aðalkröfu þeirra um öflun ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um nánar tilgreind atriði varðandi skýringu á 1. mgr. 1. gr. tilskipunar nr. 94/19/EB um innlánatryggingakerfi, sem og varakröfu þeirra um að meðferð málsins yrði frestað. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um synjun á kröfu C og fleiri um öflun ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins, enda þóttu þeir ekki hafa sýnt fram á að svör EFTA-dómstólsins við spurningum þeirra hefðu þýðingu við úrlausn um kröfur þeirra í málinu. Þá vísaði Hæstiréttur kröfu um frestun málsins frá réttinum þar sem heimild skorti til að kæra þann þátt úrskurðarins.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 13. mars 2012 sem barst héraðsdómi þann dag og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. febrúar 2012, þar sem hafnað var kröfum sóknaraðila um að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins og að málinu yrði frestað þar til birt hefði verið ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins, sem ákveðið var að leita eftir með úrskurði Hæstaréttar 15. desember 2011 í máli nr. 169/2011. Um kæruheimild vísa sóknaraðilar til 3. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið, og 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess aðallega að leitað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á nánar tilgreindum álitaefnum, en til vara að málinu verði frestað þar til ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins, sem leitað var eftir með úrskurði Hæstaréttar í máli nr. 169/2011, hefur verið birt. Þá krefjast sóknaraðilar málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar um höfnun kröfu sóknaraðila um að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í málinu. Einnig krefst hann þess að vísað verði frá Hæstarétti kröfu sóknaraðila um að málinu verði frestað þar til birt hefur verið ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins, sem leitað var eftir með úrskurði Hæstaréttar í máli nr. 169/2011. Til vara krefst hann þess að hafnað verði áðurgreindri kröfu sóknaraðila um að málinu verði frestað. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
I
Forsaga máls þessa er sú að í september og október 2008 áttu sér stað miklar hræringar á fjármálamörkuðum erlendis, sem höfðu mikil áhrif á starfsemi íslenskra fjármálafyrirtækja. Fór svo að þrír stærstu viðskiptabankar landsins reyndust ófærir um að takast á við þann vanda sem að þeim steðjaði fyrstu dagana í október 2008. Meðal annars í tilefni þessa samþykkti Alþingi að kvöldi 6. október 2008 frumvarp er varð að lögum nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Með 5. gr. laganna, sem varð 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, var Fjármálaeftirlitinu veitt heimild til að taka yfir vald hluthafafundar fjármálafyrirtækis í því skyni að taka ákvarðanir um nauðsynlegar aðgerðir, meðal annars heimild til að takmarka ákvörðunarvald stjórnar, víkja stjórn frá að hluta til eða í heild sinni, taka yfir eignir, réttindi og skyldur fjármálafyrirtækis í heild eða að hluta eða ráðstafa slíku fyrirtæki í heild eða að hluta, meðal annars með samruna þess við annað fyrirtæki.
Fyrrgreint lagaákvæði heimilaði Fjármálaeftirlitinu einnig að framselja öll réttindi að því marki sem nauðsynlegt væri í slíkum tilfellum. Þá var stofnuninni heimilað, samhliða því sem ákvörðun væri tekin um að víkja stjórn fjármálafyrirtækis frá, að skipa því fimm manna skilanefnd sem fara skyldi með allar heimildir stjórnar samkvæmt ákvæðum hlutafélagalaga. Í 6. gr. laganna var bætt við nýrri 1. mgr. í 103. gr. laga nr. 161/2002, svohljóðandi: „Við skipti á búi fjármálafyrirtækis njóta kröfur vegna innstæðna, samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, rétthæðar skv. 1. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.“
II
Fjármálaeftirlitið beitti 7. október 2008 valdi sínu samkvæmt 100. gr. a. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, og tók yfir vald hluthafafundar í Landsbanka Íslands hf. Jafnframt var stjórn bankans vikið frá og honum skipuð skilanefnd. Stofnaður var nýr banki á grunni þess fallna, sem bar heiti eldri bankans með viðbótinni „Nýi“ fremst í nafninu. Fjárhagslegur grundvöllur nýja bankans var einkum lagður með flutningi eigna til hans úr eldri bankanum, en einnig með fjárveitingu úr ríkissjóði. Á móti því tók nýi bankinn yfir tilteknar skuldbindingar þess eldri, en það voru fyrst og fremst innlán í bankanum hér á landi.
Um sama leyti greip Fjármálaeftirlitið til sambærilegra aðgerða gagnvart Glitni banka hf. og Kaupþingi banka hf. Í framhaldinu var Landsbanka Íslands hf. veitt heimild til greiðslustöðvunar með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 5. desember 2008. Með lögum nr. 44/2009, þar sem breytt var nokkrum ákvæðum laga nr. 161/2002, var bankinn tekinn til slita og skyldi upphaf þeirra miðast við 22. apríl 2009 er lögin öðluðust gildi. Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði 29. sama mánaðar slitastjórn sem annast meðferð krafna á hendur bankanum og gaf hún út innköllun til skuldheimtumanna félagsins 30. apríl 2009. Kröfulýsingarfresti lauk 30. október sama ár. Fjölmargir lýstu kröfum af því tilefni og eru málsaðilar á meðal þeirra.
III
Varnaraðili er hollenskt hlutafélag um rekstur kjarnorkuvers, kolakynts orkuvers og vindmyllusvæðis í bænum Borssele í Hollandi og átti samkvæmt gögnum málsins fjármuni hjá Landsbanka Íslands hf. sumarið og haustið 2008. Þau lögskipti gerðust með þeim hætti að varnaraðili greiddi til Landsbanka Íslands hf. 15.000.000 evrur 25. júní 2008 og 10.000.000 evrur 25. júlí sama ár. Samningar um viðskiptin komust á fyrir milligöngu miðlarans Wallich & Matthes. Meðal gagna málsins eru staðfestingarskjöl frá 24. júní 2008 og 22. júlí sama ár um innlegg (domestic depot) sem miðlarinn sendi varnaraðila. Í þeim kemur fram að staðfest séu viðskipti frá viðkomandi degi, þar sem miðlarinn hafi gert fyrir varnaraðila innleggsviðskipti gegn tilteknum skilyrðum.
Í fyrri staðfestingunni var tekið fram að tilvísunarnúmer væri 033044, sá sem tæki við peningum (geldneemster) væri Landsbanki Íslands hf. í Amsterdam, sá sem léti af hendi peninga (geldgeefster) væri varnaraðili, fjárhæð (bedrag) væri 15.000.000 evrur, vextir (rente) næmu 5,3500000% á ári, vaxtaútreikningur (renteberekening) væri act/360, lánstími (looptijd) væri 25. júní 2008 til 25. nóvember sama ár eða 153 dagar, vaxtafjárhæð (rente bedrag) væri 341.062,50 evrur, endurgreiðsla (terugbetaling) yrði til Rabobank, söluþóknun (provisie) væri 1.275 evrur og yrði hún sett á mánaðarreikning.
Samkvæmt síðari staðfestingunni var tilvísunarnúmer 033779, sá sem tæki við peningum (geldneemster) væri Landsbanki Íslands hf. í Amsterdam, sá sem léti af hendi peninga (geldgeefster) væri varnaraðili, fjárhæð (bedrag) væri 10.000.000 evrur, vextir (rente) næmu 5,2600000% á ári, vaxtaútreikningur (renteberekening) væri act/360, lánstími (looptijd) væri 25. júlí 2008 til 27. október sama ár eða 94 dagar, vaxtafjárhæð (rente bedrag) væri 137.344,44 evrur, greiðsla (betaling) bærist frá Fortis Bank N.V., endurgreiðsla (terugbetaling) yrði til Rabobank, söluþóknun (provisie) væri 522,22 evrur og yrði hún sett á mánaðarreikning.
IV
Varnaraðili krafðist þess fyrir slitastjórn að höfuðstóll kröfu hans vegna fyrrnefndra viðskipta, að fjárhæð samtals 25.000.000 evrur, að viðbættum nánar tilgreindum vöxtum og áföllnum kostnaði, yrði viðurkenndur sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Að loknum kröfulýsingarfresti lýsti slitastjórn afstöðu sinni til einstakra krafna. Eins og fram kemur í gögnum málsins samþykkti hún höfuðstól kröfu varnaraðila sem forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 sem og samningsvexti á samningstímabilinu, samtals 478.406,94 evrur, að frádreginni greiðslu frá hollenska seðlabankanum De Nederlandsche Bank N.V. að fjárhæð 20.887 evrur. Varnaraðili mótmælti þessari afstöðu slitastjórnar og krafðist þess að krafan yrði viðurkennd að fullu eins og henni hafði verið lýst. Sóknaraðilar mótmæltu afstöðu slitastjórnar um viðurkenningu kröfunnar í réttindaröð samkvæmt áðurnefndu lagaákvæði. Fyrir slitastjórn var eftir það reynt án árangurs að jafna ágreininginn. Við svo búið beindi hún málinu til Héraðsdóms Reykjavíkur samkvæmt 2. mgr. 120. gr., sbr. 171. gr., laga nr. 21/1991.
V
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði fór lögmaður sóknaraðila fram á það í þinghaldi 19. janúar 2012, með vísan til laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið, að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um eftirfarandi atriði:
„1. Geta fjármunir sem aðilinn A afhendir bankanum B og B ber að endurgreiða A á fyrirfram umsömdum degi ásamt fyrirfram ákveðnum vöxtum sem sérstaklega hefur verið samið um, talist innstæða í skilningi 1. mgr. 1. gr. tilskipunar nr. 94/19/EB um innlánatryggingakerfi, þótt: fjármunirnir hafi hjá B ekki verið lagðir inn á sérstakan reikning á nafni A; og/eða B hafi ekki gefið út reikningsyfirlit til A; og/eða A hafi ekki haft nein bein samskipti við B heldur einungis átt samskipti í gegnum peningamarkaðsmiðlara (e. money market broker); og/eða fjármunirnir hafi ekki verið færðir sem innstæða í bókum A?
2. Skiptir máli þegar fyrstu spurningunni er svarað hvort:
a. aðili A sé einkaréttarlegt félag af þeirri stærð að honum er ekki heimilt að semja styttan efnahagsreikning samkvæmt 11. gr. fjórðu tilskipunar ráðsins (78/660/EBE) frá 25. júlí 1978 sem er byggð á g-lið 3. mgr. 54. gr. sáttmálans, um ársreikninga félaga af tiltekinni gerð?
b. heimaríki bankans B hefur nýtt heimild í 2. mgr. 7. gr. tilskipunar 94/19/EB um innlánatryggingakerfi, sbr. 14. tl. I. viðauka tilskipunarinnar, til að undanþiggja innstæður félaga af þeirri stærð að þeim er ekki heimilt að semja styttan efnahagsreikning samkvæmt 11. gr. fjórðu tilskipunar ráðsins (78/660/EBE) frá 25. júlí 1978 sem er byggð á g-lið 3. mgr. 54. gr. sáttmálans, um ársreikninga félaga af tiltekinni gerð, innstæðutryggingavernd?“
Fyrir Hæstarétti hafa sóknaraðilar bætt eftirfarandi lið c. við spurningu nr. 2:
„c. bankinn B hefur greitt af fjármununum iðgjald í Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta?“
VI
Þær spurningar, sem sóknaraðilar telja rétt að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um, varða skýringu á hugtakinu innstæða í 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, en þar segir: „Með innstæðu skv. 1. mgr. er átt við innstæðu sem tilkomin er vegna innláns eða millifærslu í hefðbundinni almennri bankastarfsemi og viðskiptabanka eða sparisjóði ber að endurgreiða samkvæmt skilmálum er gilda samkvæmt lögum eða samningum. Tryggingin nær hins vegar ekki til skuldabréfa, víxla eða annarra krafna sem útgefnar eru af viðskiptabanka eða sparisjóði í formi verðbréfa.“ Lög nr. 98/1999 voru einkum sett í því skyni að fullnægja þjóðréttarlegum skuldbindingum Íslands samkvæmt EES-samningnum, sbr. tilskipanir 94/19/EB um innlánatryggingakerfi og 97/9/EB um tryggingakerfi fyrir fjárfesta.
Með dómi Hæstaréttar 28. október 2011 í máli nr. 311/2011 og dómum réttarins í sex öðrum málum, sem dæmd voru sama dag, var tekin afstaða til krafna sem lýst var við slit Landsbanka Íslands hf. vegna viðskipta er samkvæmt gögnum málsins virðast bera sömu einkenni og rakin voru hér að framan um viðskipti varnaraðila við sama banka. Gögn málsins bera því ekki annað með sér en að málin séu sambærileg að þessu leyti. Sóknaraðilar byggja á því að sá greinarmunur sé engu að síður á málunum að varnaraðili sé ekki opinber aðili heldur einkarekið fyrirtæki. Ekki verður fallist á að þetta sjónarmið hafi þýðingu, sbr. dóm Hæstaréttar 28. október 2011 í máli nr. 310/2011. Eins og mál þetta liggur fyrir réttinum hafa sóknaraðilar ekki sýnt fram á að svör EFTA-dómstólsins við framangreindum spurningum hafi þýðingu við úrlausn um kröfur þeirra í málinu. Að þessu virtu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest sú niðurstaða hans að synja aðalkröfu sóknaraðila um að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á framangreindum atriðum.
Með hinum kærða úrskurði var hafnað varakröfu sóknaraðila um að máli þessu yrði frestað þar til ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins, sem leitað var eftir með úrskurði Hæstaréttar 15. desember 2011 í máli nr. 169/2011, hefur verið birt. Með gagnályktun frá h. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 verður úrskurður um það efni ekki kærður til Hæstaréttar. Varakröfu sóknaraðila verður því vísað frá Hæstarétti.
Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnaðar verður staðfest.
Sóknaraðilum verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur um synjun á kröfu sóknaraðila, CIG og Co., Conseq Invest plc., Conseq Investment Management AS, CVI GVF (Lux) Master S.a.r.l., Fondo Latinoamericano de Reservas (F.L.A.R.), GLG European Distressed Fund, GLG Market Neutral Fund, ING Life Insurance and Annuity, ING USA Annuity and Life Insurance Co., LMN Finance Ltd., Lyxor / Third Point Fund Limited, Monumental Life Insurance Company, National Bank of Egypt (UK) Limited, Ohio National Life Assurance Company, Reliastar Life Insurance Company, Security Life of Denver Insurance, Sun Life Assurance Company of Canada, Third Point Partners LP (US), Third Point Offshore Master Fund LP, Third Point Partners Qualified LP, Third Point Ultra Master Fund LP (Cayman), Värde Fund LP, Värde Fund V-B LP, Värde Fund VI-A LP, Värde Fund VII-B LP, The Värde Fund VIII LP, The Värde Fund IX LP / The Värde Fund IX-A LP, Värde Investment Partners LP og Värde Investment Partners (Offshore) Master LP, um að aflað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um skýringu á 1. mgr. 1. gr. tilskipunar nr. 94/19/EB um innlánatryggingakerfi.
Kröfu sóknaraðila um frestun málsins er vísað frá Hæstarétti.
Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað er staðfest.
Sóknaraðilar greiði óskipt varnaraðila, N.V. Electriciteits Produktiemaatschappij Zuid-Nederland, 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. febrúar 2012.
Í þinghaldi í máli þessu hinn 19. janúar sl. lagði lögmaður sóknaraðilanna CIG & Co. o.fl. fram bókun þar sem fram kemur að þeir krefjist þess, með vísan til laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið, að dómurinn leiti ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í málinu. Til vara sé þess krafist að málinu verði frestað á grundvelli 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 þar til ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins í máli Hæstaréttar nr. 169/2011 hefur verið birt. Lýsti lögmaður sóknaraðilanna Bayerische Landesbank o.fl. því og yfir að umbjóðendur hans tækju undir framangreindar kröfur. Varnaraðili mótmælir kröfum þessum. Krefst hann þess að þeim verði hafnað og að honum verði úrskurðaður málskostnaður úr hendi sóknaraðila vegna þessa þáttar málsins. Var ágreiningur þessi tekinn til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi hinn 6. febrúar sl.
Sóknaraðilar benda á að Hæstiréttur hafi með úrskurði hinn 15. desember 2011, í málinu nr. 169/2011, Aresbank S.A. gegn Landsbankanum hf. o.fl., ákveðið að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um það hvort viðskiptin sem liggi til grundvallar kröfu Aresbank S.A. í málinu geti talist innstæða samkvæmt skilgreiningu í lögum nr. 98/1999 um innstæðutryggingar. Líkt og í því máli sé meginúrlausnarefni þessa máls hvort viðskiptin sem liggi til grundvallar kröfu varnaraðila geti talist innstæða. Hæstiréttur hafi ákveðið að leita álitsins í framangreindu máli þrátt fyrir að hafa komist að þeirri niðurstöðu hinn 28. október sl., í málum nokkurra erlendra sveitarfélaga og háskóla, að kröfur þessara aðila í málunum skyldu teljast innstæður. Af dómum í þeim málum verði ráðið að máli skipti við mat á því hvort um innstæðu sé að ræða hverjir séu aðilar máls og hvert hafi verið markmið viðskiptanna. Virðist sem Hæstiréttur hafi litið svo á að tilgreint mál Aresbank S.A. væri frábrugðið þeim málum sem rétturinn hafi dæmt hinn 28. október sl. að því leyti að Aresbank væri ekki sveitarfélag og því væri nauðsynlegt að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á tilteknum atriðum varðandi reglur EES-réttar. Sóknaraðilar séu þeirrar skoðunar að sambærileg sjónarmið eigi við í máli þessu og í tilvitnuðu máli Hæstaréttar nr. 169/2011. Séu nákvæmlega sömu álitaefni til umfjöllunar í báðum málunum og eðli varnaraðilans N.V. Eletriciteits Produktiemaatschappij sem einkarekins orkufyrirtækis sé einnig ólíkt sveitarfélögum.
Sóknaraðilar kveðast óska eftir að héraðsdómur leggi eftirfarandi spurningar fyrir EFTA-dómstólinn verði fallist á að leita álits hans í málinu:
1. Geta fjármunir sem aðilinn A afhendir bankanum B og B ber að endurgreiða A á fyrirfram umsömdum degi ásamt fyrirfram ákveðnum vöxtum sem sérstaklega hefur verið samið um, talist innstæða í skilningi 1. mgr. 1. gr. tilskipunar nr. 94/19/EB um innlánatryggingakerfi, þótt: fjármunirnir hafi hjá B ekki verið lagðir inn á sérstakan reikning á nafni A; og/eða B hafi ekki gefið út reikningsyfirlit til A; og/eða A hafi ekki haft nein bein samskipti við B heldur einungis átt samskipti í gegnum peningamarkaðsmiðlara (e. money market broker); og/eða fjármunirnir hafi ekki verið færðir sem innstæða í bókum A?
2. Skiptir máli þegar fyrstu spurningunni er svarað hvort
a) aðili A sé einkaréttarlegt félag af þeirri stærð að honum er ekki heimilt að semja styttan efnahagsreikning samkvæmt 11. gr. fjórðu tilskipunar ráðsins (78/660/EBE) frá 25. júlí 1978 sem er byggð á g-lið 3. mgr. 54. gr. sáttmálans, um ársreikninga félaga af tiltekinni gerð?
b) heimaríki bankans B hefur nýtt heimild í 2. mgr. 7. gr. tilskipunar 94/19/EB um innlánatryggingakerfi, sbr. 14. tl. I. viðauka tilskipunarinnar, til að undanþiggja innstæður félaga af þeirri stærð að þeim er ekki heimilt að semja styttan efnahagsreikning samkvæmt 11. gr. fjórðu tilskipunar ráðsins (78/660/EBE) frá 25. júlí 1978 sem er byggð á g-lið 3. mgr. 54. gr. sáttmálans, um ársreikninga félaga af tiltekinni gerð, innstæðutryggingavernd?
Varnaraðili vísar til þess að engin þörf sé á að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í þessu máli. Fyrir liggi skýr fordæmi í fyrrgreindum dómum Hæstaréttar frá 28. október sl. en í þeim málum hafi rétturinn ekki talið neina þörf á að leita ráðgefandi álits. Ljóst sé að kröfur varnaraðila byggist á sams konar grunni og þær kröfur sem þar hafi verið staðfest að nytu forgangsréttar. Sú sérstaða sem verið hafi uppi í tilvitnuðu máli Aresbank S.A., miðað við þau mál, sé ekki til staðar í þessu máli, þar sem eigandi kröfunnar í því máli sé erlendur banki. Þá sé mál þetta um margt ólíkt tilvitnuðu máli Hæstaréttar nr. 169/2011 og svör við þeim spurningum sem Hæstiréttur hafi þar lagt fyrir EFTA-dómstólinn geti því ekki haft hér neina þýðingu.
Niðurstaða
Eins og áður hefur verið vikið að voru hinn 28. október sl. kveðnir upp í Hæstarétti dómar í málum þar sem um það var deilt hvort tilteknar kröfur gætu talist innstæða samkvæmt lögum nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Þannig var meðal annars í málum nr. 310-314/2011, sem snerust um kröfur breskra sveitarfélaga og háskóla á hendur Landsbanka Íslands hf., komist að þeirri niðurstöðu að viðskipti kröfueigendanna við bankann væru innstæðuviðskipti í skilningi 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 og kröfurnar nytu því forgangs við slitameðferð bankans skv. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, eins og þeim lögum var breytt með 6. gr. laga nr. 125/2008 og síðar 6. gr. laga nr. 44/2009.
Ljóst er að í máli þessu er deilt um viðskipti sem virðast mjög af sama toga og þau viðskipti sem um var deilt í ofangreindum málum Hæstaréttar nr. 310-314/2011. Verður ekki fallist á með sóknaraðilum að sú staðreynd að varnaraðilinn N.V. Eletriciteits Produktiemaatschappij er ekki sveitarfélag eða háskóli heldur hollenskt hlutafélag á sviði orkuframframleiðslu feli með einhverjum hætti í sér þá sérstöðu miðað við eigendur krafna í framangreindum málum að nauðsynlegt sé að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um tiltekin atriði þar að lútandi. Verður aðalkröfu sóknaraðilanna um öflun slíks álits í málinu því hafnað. Ekki þykja heldur nein efni til að fallast á varakröfu sóknaraðilanna um að fresta máli þessu þar til birt hefur verið ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins í máli Hæstaréttar nr. 169/2011, enda var í því máli um að ræða viðskipti milli tveggja bankastofnana.
Ákvörðun um málskostnað bíður endanlegrar niðurstöðu í málinu.
Ásgeir Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu sóknaraðila, CIG & Co. o.fl. og Bayerische Landesbank o.fl., um að leitað verði álits EFTA-dómstólsins í máli þessu.
Hafnað er kröfu sóknaraðila um að máli þessu verði frestað þar til birt hefur verið ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins, sem ákveðið var að leita með úrskurði Hæstaréttar í máli nr. 169/2011.
Ákvörðun um málskostnað bíður endanlegrar niðurstöðu í málinu.