Hæstiréttur íslands

Mál nr. 246/2009


Lykilorð

  • Ráðningarsamningur
  • Laun
  • Málflutningur
  • Sakarefni


                                                        

Fimmtudaginn 4. mars 2010.

Nr. 246/2009.

Ingvar Helgason ehf.

(Anton B. Markússon hrl.)

gegn

Ólafi Steinarssyni

(Árni Ármann Árnason hrl.)

Ráðningarsamningur. Laun. Málflutningur. Sakarefni.

Ó réð sig til starfa hjá I ehf. árið 2004 en tæplega ári síðar var honum sagt upp störfum hjá félaginu. Árið 2008 höfðaði Ó mál og krafðist þess að I ehf. yrði gert að greiða sér tæplega níu milljónir króna. Byggði Ó kröfu sína á ákvæði í ráðningasamningi aðila þar sem kveðið var á um launaauka að nánar uppfylltum skilyrðum sem miða ætti við EBITA ársins 2004 hjá I ehf. Ekki var fallist á þá málsástæðu I ehf. að Ó hefði glatað kröfu sinni fyrir sakir tómlætis. Við útreikning á launaauka Ó var talið rétt að miðað við önnur mörk en Ó gerði. Fallist var á kröfu Ó um greiðslu launaauka sem nam tæplega einni milljón króna. 

           

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. maí 2009. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda en til vara að fjárhæð hennar verði lækkuð. Þá krefst hann  málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Málavöxtum og málsástæðum aðila er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Áfrýjandi hefur meðal annars byggt sýknukröfu sína á því að stefndi hafi glatað kröfu sinni fyrir sakir tómlætis. Er gerð grein fyrir sjónarmiðum hans sem að þessu lúta í hinum áfrýjaða dómi. Stefndi hefur að því er þetta varðar borið því við að áfrýjanda hafi verið skylt, eftir að aðalfundur vegna rekstrarársins 2004 var haldinn 20. maí 2005, að hafa frumkvæði að því að gera upp hinn umsamda launaauka sem um er deilt í málinu. Með samþykki aðalfundarins á ársreikningnum fyrir árið 2004 hafi svonefnt EBITDA ársins 2004 verið endanlega staðfest. Í stað þess að hafa þá frumkvæði að uppgjöri hafi áfrýjandi haldið niðurstöðunni leyndri fyrir stefnda. Kveðst stefndi hafa ítrekað reynt að fá upplýsingar um efni ársreikningsins frá ársreikningaskrá samkvæmt 69. gr. laga nr. 144/1994 um ársreikninga og síðar 109. gr. laga nr. 3/2006 um sama efni sem leystu fyrrnefndu lögin af hólmi. Áfrýjandi hafi ekki sinnt lagaskyldu til að skila inn ársreikningi sínum. Hafi þetta valdið stefnda erfiðleikum við að nálgast upplýsingar sem hafi verið nauðsynleg forsenda kröfugerðar um hinn umdeilda launaauka. Geti áfrýjandi ekki átt að hafa hag af því að hlíta ekki lagafyrirmælum í þessu efni. 

Við úrlausn um þessa málsástæðu áfrýjanda verður litið til þess hvort hann hafi haft réttmæta ástæðu til að ætla að stefndi hygðist ekki hafa uppi kröfu á hendur honum fyrst hann hafði ekki sett hana fram fyrr en raun ber vitni. Þó að fallast megi á með áfrýjanda að stefndi hafi átt þess kost að leita beint til hans með ósk um upplýsingar úr ársreikningnum mun fyrr en raun ber vitni þykir mega fallast á að fyrrgreindar aðstæður valdi því að ekki sé unnt að líta svo á að tómlæti stefnda geti talist jafngilda viljayfirlýsingu af hans hálfu um að hann myndi ekki hafa uppi kröfu sína. Verður þessari málsástæðu áfrýjanda því hafnað.

II

Með bréfi til áfrýjanda 22. janúar 2008 óskaði lögmaður stefnda fyrir hans hönd eftir ársreikningi áfrýjanda vegna ársins 2004. Eftir að erindið hafði verið ítrekað 29. febrúar 2008 sendi þáverandi lögmaður áfrýjanda lögmanni stefnda eitt blað, sem hafði að geyma rekstrarreikning 2004. Stefndi aflaði álits nafngreinds löggilts endurskoðanda á því hver hin svonefnda EBITDA væri samkvæmt þeim upplýsingum sem fram kæmu á þessu blaði. Svar endurskoðandans 4. apríl 2008 hljóðaði svo: „Þú sendir til mín afrit af rekstrarreikningi Ingvars Helgasonar ehf. árið 2004. Samkvæmt honum er hagnaður fyrir árið 2004 kr. 311.826.997. Fjármunatekjur og (fjármagnsgjöld) eru kr. (256.697.205) og afskriftir eru kr. (27.066.538). Samkvæmt ársreikningi Ingvars Helgasonar ehf. 2004 er EBITDA því kr. 595.590.740. Við höfum ekki aðrar forsendur að ganga út frá en að ársreikningur félagsins og þar með rekstrarreikningurinn sé í samræmi við viðurkenndar reikningsskilavenjur. Niðurstaða okkar getur því ekki orðið önnur en sú að EBITDA ársins 2004 sé kr. 595.590.740 eins og áður segir.“ Stefndi byggir kröfu sína á þessari niðurstöðu svo sem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi og nemur krafa hans níföldum mánaðarlaunum miðað við fjárhæð þeirra árið 2005.

Í stefnu til héraðsdóms skoraði stefndi á áfrýjanda að leggja fram ársreikning sinn fyrir árið 2004. Við fyrirtöku málsins í héraði 14. nóvember 2009 lét lögmaður stefnda bóka að áfrýjandi hefði ekki orðið við ítrekaðri áskorun um að leggja þennan ársreikning fram. Af því tilefni var af hálfu áfrýjanda gerð svofelld bókun: „Lögmaður stefnda óskar bókað að í málinu liggi þegar fyrir nægilegar upplýsingar úr ársreikningi ársins 2004 fyrir stefnanda til að hafa uppi dómkröfur í málinu.“ Við þessa yfirlýsingu er áfrýjandi bundinn samkvæmt 45. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Af þessu leiðir að málið verður dæmt á grundvelli þeirra skjala sem höfðu að geyma upplýsingar um ársreikning áfrýjanda fyrir árið 2004 og lágu fyrir þegar yfirlýsingin var gefin.

Í hinn áfrýjaða dómi er tekin upp skilgreining á skammstöfuninni EBITDA sem sögð er fengin á „Vísindavefnum“. Ekki virðist vera ágreiningur með aðilum málsins um þessa skilgreiningu og vísaði stefndi meðal annars sérstaklega til hennar í gögnum sem hann hafði til hliðsjónar við flutning málsins fyrir Hæstarétti. Áfrýjandi hefur frá byrjun byggt á því í málinu að frá fyrrgreindri niðurstöðu endurskoðandans hafi borið að draga 444.045.787 krónur en þá fjárhæð er að finna í rekstrarreikningnum sem áfrýjandi sendi stefnda og endurskoðandinn miðaði útreikning sinn við. Eru tekjur hækkaðar sem fjárhæðinni nemur. Í reikningnum er liðnum lýst með svofelldum orðunum: „Afskr. og eftirgefnar kröfur og gjaldfært vegna fyrri ára.“ Í skýrslu stefnda fyrir dómi kom fram að hann hefði, áður en hann réðst til starfa hjá áfrýjanda, tekið þátt í viðræðum við kröfuhafa um eftirgjöf skulda félagsins. Var hann meðal annars spurður hvort þessi tala í rekstrarreikningnum gæti haft að geyma árangurinn af þessum viðræðum. Svaraði hann meðal annars svo: „Þetta getur verið nálægt þeirri tölu sem að menn náðu árangri um, milli 400 og 500 milljónir.“

Af lýsingu nefndrar færslu í ársreikningnum er nægilega ljóst að hér var um að ræða leiðréttingu frá fyrri árum til hækkunar á tekjum félagsins. Fær þetta sérstaka stoð í fyrrgreindum framburði stefnda fyrir dómi. Samkvæmt ráðningarsamningi stefnda skyldi miða launabónus til hans við rekstrarárangur í EBITDA umfram tilgreind mörk. Miðað við þá skilgreiningu sem að framan greinir þykir liggja fyrir að ekki hafi átt að telja þennan umdeilda lið til tekna hjá félaginu árið 2004 við útreikning á launaauka stefnda. Hefði átt að leiðrétta fyrir honum á sama hátt og niðurstaða rekstrarreikningsins var leiðrétt fyrir öðrum liðum eins og fram kemur í fyrrgreindum útreikningi endurskoðandans sem stefndi miðar kröfu sína við. Samkvæmt þessu verður fallist á með áfrýjanda að talan sem miða skuli launaauka stefnda við nemi 151.544.953 krónum. Samkvæmt því átti hann samkvæmt ráðningarsamningnum rétt á einum mánaðarlaunum af þessu tilefni.

III

Aðila greinir á um hvort miða eigi fjárhæð launaaukans við mánaðarlaun stefnda árið 2004 eða 2005, eins og hann miðar kröfu sína við. Ekki verður leyst úr þessu á óyggjandi hátt með skýringu á texta samningsákvæðisins. Þykir eins og á stendur rétt að láta áfrýjanda sem vinnuveitanda við gerð samningsins bera hallann af þessu enda hefði honum verið í lófa lagið að orða ákvæðið með skýrum hætti ef hann taldi að miða ætti við laun fyrra ársins. Stefnda verða því dæmdar 957.128 krónur að viðbættum 16% vegna lífeyrisiðgjalds samkvæmt ráðningarsamningnum, 153.140 krónum. Samkvæmt þessu verður tekin til greina krafa stefnda um greiðslu úr hendi áfrýjanda á 1.110.268 krónum. Sá upphafsdagur dráttarvaxta sem greinir í dómsorði héraðsdóms hefur ekki sætt ágreiningi fyrir Hæstarétti og verður við hann miðað.

Samkvæmt þessum úrslitum málsins verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðst í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Ingvar Helgason ehf., greiði stefnda, Ólafi Steinarssyni, 1.110.268 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 22. febrúar 2008 til greiðsludags og samtals 600.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. febrúar 2009.

I

Mál þetta, sem dómtekið var miðvikudaginn 11. febrúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Ólafi Steinarssyni, kt. 050466-3459, Logafold 76, Reykjavík, með stefnu birtri 28. apríl 2008, á hendur Ingvari Helgasyni ehf., kt. 681077-0739, Sævarhöfða 2, Reykjavík.

        Dómkröfur stefnanda eru þær, að hið stefnda félag verði dæmt til að greiða honum kr. 9.992.416 með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 20. maí 2005 til greiðsludags.  Að auki er þess krafizt, að heimilað verði, að dráttarvextir skuli lagðir við höfuðstól á tólf mánaða fresti og nýir vextir reiknaðir af samanlagðri fjárhæð.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu að mati dómsins og að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til kostnaðar stefnanda af virðisaukaskatti af lögmannsþjónustu.

        Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda, en til vara, að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega.  Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.

II

Málavextir

Stefnandi réð sig til starfa hjá stefnda á grundvelli ráðningarsamnings, dags. 29. marz 2004. Upphaf starfstíma var 17. febrúar sama ár.  Starfsheiti var framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs félagsins.  Í 6. gr. ráðningarsamningsins var eftirfarandi ákvæði:

Ef félagið nær 150 milljónir í EBITDA á árinu 2004 greiðist launabónus sem nemur einum mánaðarlaunum, ef félagið nær kr. 200 milljón í EBITDA greiðist launabónus sem nemur tveimur mánaðarlaunum og við hverjar 50 milljónir sem bætast við EBITDA eftir það þá bætast við ein mánaðarlaun í bónus.

Með bréfi, dags. 14. janúar 2005, var stefnanda sagt upp starfi sínu hjá félaginu.  Tekið var fram í bréfinu, að uppsagnarákvæði væru í samræmi við ákvæði ráðningarsamnings og ekki væri gert ráð fyrir frekara vinnuframlagi af hálfu stefnanda.  Í framhaldi af uppsögninni fékk stefnandi greidd laun í uppsagnarfresti, en framangreindur launabónus skv. 6. gr. ráðningarsamningsins var ekki greiddur.  Á uppsagnarfresti var stefnandi kominn í annað starf, og var stefnda um það kunnugt.

Hinn 22. jan. 2008 skrifaði lögmaður stefnanda bréf til stefnda og óskaði eftir eintaki af ársreikningi félagsins fyrir það ár, sem launabónusinn tók til, þannig að hægt væri að sjá, hver EBITDA félagsins hefði verið það ár.  Tekið var fram í bréfinu, að ef EBITDA félagsins hefði verið hærri en tilgreind mörk í ráðningarsamningnum, væri óskað eftir uppgjöri í samræmi við það.

Með tölvupósti til lögmanns stefnda ítrekaði lögmaður stefnanda beiðni sína um umbeðnar upplýsingar og kvartaði yfir því, hve illa gengi að fá upplýsingar, sem stefnandi ætti kröfu á að fá á grundvelli ráðningarsamningsins.

Lögmaður stefnda sendi lögmanni stefnanda tölvupóst þann 7. marz 2008 með viðhengi, sem innihélt þá blaðsíðu úr ársreikningnum, sem hefur að geyma rekstrarreikning félagsins.

Ítrekaðar kröfur lögmanns stefnanda um að fá umræddan ársreikning báru ekki árangur.  Þá varð ekki orðið við kröfu stefnanda um að ganga frá bónusgreiðslum við hann í samræmi við ákvæði ráðningarsamningsins.

Eftir að mál þetta var höfðað fór stefnandi ítrekað fram á það við stefnda, að hann legði fram ársreikning stefnda vegna ársins 2004.  Var þeirri málaleitan hafnað og var bókað eftir lögmanni stefnda í þinghaldi 14. nóvember 2008, að nægar upplýsingar lægju þegar fyrir úr ársreikningi ársins 2004 fyrir stefnanda til að hafa uppi dómkröfur í málinu.  Var gagnaöflun því næst lýst lokið.  Við aðalmeðferð óskaði stefndi þess loks að fá að leggja ársreikninginn fram, en því var þá hafnað af hálfu stefnanda.  Var krafizt úrskurðar um það atriði, og var framlagningunni hafnað á þessu stigi með úrskurði dómara. 

Ágreiningur aðila snýst um bónusgreiðslur stefnanda samkvæmt ráðningarsamningi, sem miðaðar skyldu við EBIDTA ársins 2004.

III

Málsástæður stefnanda

Krafa stefnanda er byggð á 6. gr. ráðningarsamningsins, þar sem skýrt ákvæði sé um bónusgreiðslu, að nánar uppfylltum skilyrðum.  Skilyrðin séu uppfyllt, eins og sýnt sé fram á í kaflanum um sundurliðun stefnukröfunnar í stefnu.  Byggt sé á EBITDA útkomu ársins 2004, eins og hún komi fram í rekstrarreikningi, sem stefndi hafi nýlega sent stefnanda.  Þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir af hálfu stefnanda hafi stefndi ekki enn fengizt til að afhenda stefnanda ársreikninginn vegna ársins í heild áritaðan af stjórn og endurskoðanda.  Réttur EBITDA útreikningur sé staðfestur af löggiltum endurskoðanda, sbr. dskj. nr.  10.  Hvað varði 16% lífeyrisiðgjald ofan á bónusgreiðsluna, þá byggist sú krafa á 4. mgr. 7. gr. ráðningarsamningsins.  Stefnandi vísi einnig til þeirrar meginreglu íslenzks samningaréttar, að samninga beri að halda.

Dráttarvaxtakrafan byggist á 1. mgr., 5. gr. laga nr. 38/2001 og 1. mgr., 6. gr. sömu laga.  Vaxtaviðlagning styðjist við 12. gr. sömu laga.  Gjalddagi kröfunnar hafi verið þann sama dag og ársreikningur var samþykktur af stjórn stefnda.  Samkvæmt upplýsingum, sem stefnandi hafi aflað sér frá fyrirtækjaskrá, hafi aðalfundur stefnda vegna ársins 2004 verið haldinn þann 20. maí 2005, og miðist upphafstími vaxtakröfunnar því við þá dagsetningu, sbr. dskj. nr. 12.  Með samþykki aðalfundar á ársreikningnum hafi EBITDA ársins 2004 verið endanlega staðfest, og hafi stefnda þá borið að greiða stefnanda umsaminn launabónus þegar í stað.  Það sé meginregla í vinnurétti, að vinnuveitandi eigi að hafa frumkvæði að því að greiða launþega öll umsamin laun, þ.m.t. bónusa, þegar skilyrði séu komin fram.  Stefndi hafi augljóslega vanefnt skyldur sínar samkvæmt þessu.

Varðandi kröfu um málskostnað vísi stefnandi til 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991 og ákvæða 21. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Stefnukrafan sundurliðist á eftirfarandi hátt:

         Mánaðarlaun Ólafs hafi verið kr. 957.128, sbr. dskj. nr. 4.

EBITDA sé kr. 595.590.740, sbr. útreikning á dskj. nr. 10.

Margfeldi mánaðarlauna sé 9, sbr. gr. 6 í ráðningarsamningnum.

Millisumma:  kr. 957.128 x 9 = kr. 8.614.152

Lífeyrissjóðsiðgjald sé 16%, sbr. 7. gr. 4. mgr. ráðningarsamnings.

Fjárhæð iðgjalds sé kr. 8.614.152 x 16% = kr. 1.378.264

Heildarstefnukrafa sé þá kr. 8.614.152 + kr. 1.378.264 =  kr. 9.992.416

Málsástæður stefnda

Aðalkröfu sína um sýknu styður stefndi við þá málsástæðu, að kröfur stefnanda séu fallnar niður fyrir tómlæti.  Í málinu liggi fyrir, að stefnandi hafi látið af störfum hjá stefnda hinn 14. janúar 2005, þegar honum var sagt upp störfum, en hafi þegið laun hjá stefnda út júlí s.á., enda þótt hann hefði nokkru áður hafið störf á öðrum vettvangi.  Stefndi hafi því greitt stefnanda laun umfram skyldu á uppsagnarfresti, án þess að gerðar væru athugasemdir við það fyrirkomulag af hálfu stefnanda, sem hafi jafnframt látið hjá líða að krefja stefnda um bónusgreiðslur.  Þegar stefndi hafði innt síðustu launagreiðsluna af hendi til stefnanda, hafi honum því verið rétt að líta svo á, að stefnandi hygðist engar frekari kröfur gera á hendur honum.  Stefnandi hafi fyrst sett fram formlega kröfu um uppgjör bónusgreiðslnanna rúmlega þremur árum eftir að hann lét af störfum hjá stefnda, og telji stefndi því, að hann hafi fyrirgert rétti sínum til kröfunnar vegna tómlætis, enda sé viðurkennt sjónarmið í kröfurétti, að kröfuhafa beri að halda kröfum sínum til haga, og að vanræksla á þeirri skyldu geti leitt til loka kröfuréttinda.

Til stuðnings varakröfu sinni um verulega lækkun dómkrafna vísi stefndi einkum til þess, að kröfugerð stefnanda sé í miklu ósamræmi við tilgang ráðningarsamnings aðila og sé í eðli sínu afar ósanngjörn í garð stefnda.  Verði á annað borð fallizt á, að stefnandi geti átt kröfu á hendur stefnda, telji stefndi, að túlka eigi ákvæði ráðningarsamningsins, sem kveði á um rétt stefnanda til bónusgreiðslna, á þann veg, að stefnandi fái notið viðurkenningar fyrir störf sín í þágu félagsins, en annars ekki.  Af ráðningarsamningi aðila sé ljóst, að stefnandi hafi gegnt stöðu framkvæmdastjóra sölu- og  markaðssviðs og hafi hann því haft daglega umsjá með helztu tekjuöflun stefnda.  Það sé því ekki óeðlilegt, að stefnanda hafi verið ætlað að njóta viðurkenningar fyrir störf sín í þágu stefnda, ef svo vel tækist til á sölu- og markaðssviði að endurspeglaðist í afkomu félagsins.  Það sé hins vegar með öllu óeðlilegt, að stefnandi njóti bónusgreiðslna vegna samninga forsvarsmanna félagsins við lánardrottna þess um eftirgjöf skulda, sem stefnandi hafi ekki komið að, og hafi að mestu eða öllu leyti verið lokið, þegar stefnandi hóf störf hjá stefnda.  Stefndi leggi því áherzlu á, að stefnandi fái aðeins notið bónusgreiðslna, sem taki mið af raunverulegum tekjum frá rekstri félagsins á árinu 2004, og sem stefnandi hafi átt þá í að gera að veruleika með störfum sínum.  Telji stefndi, að hvorugum aðila geti hafa dulizt, að þetta hafi verið raunverulegur tilgangur samningsákvæðisins við samningsgerðina, og að ekki hafi staðið til, að tekið yrði tillit til afskrifaðra skulda og eftirgjafar lánardrottna við útreikning bónusgreiðslna til stefnanda.

Þá bendi stefndi á, að EBIDTA sé hvorki skilgreind í samningi aðila, lögum né reikningsskilareglum eða stöðlum, og hafi því ýmsar leiðir verið farnar við útreikning á henni.  Stefndi mótmæli því alfarið, að byggt verði á hinum svokallaða „rétta EBITDA útreikningi“ stefnanda, dskj. nr. 10, enda sé í sjálfu sér ekkert til, sem heiti réttur útreikningur á þessari viðmiðun.  Viðmiðuninni sé í raun ætlað að varpa ljósi á getu fyrirtækja til að skila hagnaði, greiða út arð og til að standa undir greiðslum af lánum og sköttum.  Að mati stefnda gefi útreikningur stefnanda á EBIDTA ekki rétta mynd af afkomu félagsins, þar sem ekki sé tekið tillit til þess, að drjúgur hlutur af tekjum ársins sé afskrifaðar skuldir stefnda hjá lánardrottnum félagins, en ekki eiginlegar tekjur af rekstrinum.

Krefjist stefndi þess því, að horft verði framhjá liðnum „Afskr. og eftirgefnar kröfur og gjaldfært vegna fyrri ára“ við útreikning á EBIDTA stefnda vegna ársins 2004.  Með því yrði niðurstaðan sú, að EBIDTA yrði kr. 151.544.953, þ.e. 311.826.997 (hagnaður) + 256.697.205 (fjármagnsgjöld) + 27.066.538 (afskriftir) – kr. 444.045.787 (Afskr. og eftirgefnar kröfur ...).   Samkvæmt því geti stefnandi að hámarki átt rétt til einna mánaðarlauna í bónusgreiðslu samkvæmt 6. gr. ráðningarsamnings aðila, en stefndi telji sig raunar hafa fullnægt þeim rétti stefnanda, með því að greiða honum umfram skyldu á uppsagnarfresti.

Stefndi geri sérstaka athugasemd við sundurliðun og útreikning stefnanda á dómkröfunni, að því er varði mánaðarlaun stefnanda.  Verði fallizt á kröfur stefnanda, hljóti, eðli málsins samkvæmt, að eiga að miða við laun stefnanda á því ári, sem málið varði, en ekki þau mánaðarlaun, sem stefnandi hafði á árinu 2005, svo sem gert sé ráð fyrir í útreikningum stefnanda.  Telji stefndi eðlilegt, að tekið verði tillit til meðalmánaðarlauna stefnanda á árinu 2004, en grunnlaun hans hafi numið kr. 750.000 á mánuði hverjum, og hafi sú fjárhæð tekið breytingum í samræmi við almennar launabreytingar samkvæmt kjarasamningi VR.  Þá mótmæli stefndi alfarið kröfu stefnanda um lífeyrissjóðsiðgjald á bónusgreiðslurnar, enda eigi sú krafa sér enga stoð í ráðningarsamningi aðila.

Dráttarvaxtakröfu stefnanda sé mótmælt sérstaklega.  Engin skylda hafi hvílt á stefnda til að hafa frumkvæði að því að greiða stefnanda, ekki sízt þegar tekið sé tillit til þess, að stefndi hafi á sama tíma greitt stefnanda laun í uppsagnarfresti umfram skyldu, þar sem stefnandi hafði þegar hafið störf á öðrum vettvangi.  Þá hafi ekki verið samið sérstaklega um gjalddaga kröfunnar og því ekkert, sem gefi tilefni til þess að miða gjalddaga kröfunnar við 20. maí 2005.  Að mati stefnda sé jafnframt útilokað að miða upphafsdag dráttarvaxta við þá dagsetningu, í ljósi þess mikla dráttar, sem orðið hafi á því, að stefnandi beindi kröfu sinni að stefnda.  Telji stefndi því útilokað, að honum verði gert að greiða dráttarvexti eftir kröfu stefnanda, verði á annað borð fallizt á dómkröfur hans í heild eða að hluta.

Stefndi vísi einkum til almennra reglna kröfuréttarins um lok kröfuréttinda vegna tómlætis og meginreglna samningaréttarins um þýðingu forsendna við samningsgerð við túlkun á inntaki samningsákvæða.  Þá vísi stefndi til 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu til stuðnings mótmælum sínum við dráttarvaxtakröfu stefnanda.  Krafa stefnda um málskostnað grundvallist á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. 

IV

Forsendur og niðurstaða

Stefnandi gaf skýrslu fyrir dómi, sem og Haukur Guðjónsson, framkvæmdastjóri stefnda.

Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á tómlæti stefnanda við að halda uppi kröfunni.

EBIDTA félags er hvergi skilgreind í lögum, reikningsskilareglum eða stöðlum.  Á Vísindavefnum svarar Gylfi Magnússon, þáverandi dósent í hagfræði við Háskóla Íslands, spurningunni um, hvað sé EBIDTA fyrirtækja og hvernig hún sé reiknuð út, svo:

        EBIDTA er ensk skammstöfun og stendur fyrir Earnings Before Interest, Taxes, Depreciation and Amortization.  Með EBIDTA er því átt við afkomu fyrirtækja, áður en tekið er tillit til vaxtagreiðslna og vaxtatekna, skattgreiðslna og afskrifta.  ... Á ensku er gerður sá greinarmunur, að depreciation er notað um áþreifanlegar eignir, en amortization um óáþreifanlegar, svo sem viðskiptavild. ...

EBIDTA fyrirtækisins tengist þannig afkomu fyrirtækis.  Er því ljóst, að til þess að glöggva sig á því, hver EBIDTA fyrirtækis er, þarf ársreikningur fyrirtækisins að liggja fyrir. 

Stefnandi bar fyrir dómi, að hann hefði haft samband, bæði við ríkisskattstjóra og fyrirtækjaskrá til að freista þess að fá aðgang að ársreikningi fyrirtækisins vegna ársins 2004. og hefði hann ítrekað haft samband við ársreikningaskrá, til að vita hvort reikningurinn væri kominn inn, þar sem hann hefði talið hugsanlegt, að hann ætti kröfu á fyrirtækið.  Að ráði lögmanns á árinu 2006 hafi hann afráðið að bíða með að setja fram kröfur á hendur stefnda, þar til reikningurinn kæmi inn.

Fyrirsvarsmaður stefnda bar fyrir dómi, að vegna mistaka hjá endurskoðunarfyrirtæki stefnda hafi dregizt að skila ársreikningi vegna ársins 2004.  Þá bar hann, að stefnandi hefði getað fengið að skoða ársreikninginn hjá fyrirtækinu, hefði hann borið sig eftir því, enda þótt fyrirtækið hefði ekki verið reiðubúið að afhenda hann stefnda.

Með því að stefnandi átti ekki aðgang að ársreikningi félagsins, og með vísan til þess, að stefndi hefur, þrátt fyrir áskoranir stefnanda í máli þessu, hafnað því, þar til við aðalmeðferð málsins, að leggja ársreikninginn fram í málinu og einungis afhent stefnanda það blað ársreikningsins, sem inniheldur rekstrarreikning ársins 2004, er ekki fallizt á, að stefnandi hafi sýnt slíkt tómlæti við að halda uppi kröfum sínum um bónusgreiðslur á hendur stefnda að valdi honum réttarspjöllum.  Gildir þá einu, þótt stefndi haldi því fram, að stefnandi hefði átt þess kost að skoða ársreikninginn hjá fyrirtækinu.  Er því ekki fallizt á þessa sýknumálsástæðu stefnda.

Aðila greinir á um, hvort afskriftir og eftirgefnar kröfur vegna fyrri ára, samtals kr. 444.045,787 á árinu 2004, skuli reiknast inn í EBIDTA félagsins. 

Eins og að framan er rakið, er hvergi til lögbundin skilgreining á því, hvernig EBIDTA fyrirtækis skuli reiknuð.  Þá kom fram í framburði fyrirsvarsmanns stefnda fyrir dómi, að engin föst venja sé heldur fyrir því, hvernig EBIDTA er reiknuð.  Spurður fyrir dómi, hvort það sé valkostur hjá félaginu, hvort afskriftir og eftirgefnar kröfur teljist með, þegar EBIDTA er reiknuð út, eða hvort þeim sé haldið utan við útreikninginn, svaraði fyrirsvarsmaður stefnda því svo, að hann teldi það vera hlutverk endurskoðenda félagsins að ákveða það og bætti við:  „Hann hefur klárlega valkost, vegna þess að hugtakið er ekki skýrt“.  Hann kvað það koma skýrt fram í ársreikningi félagsins, að skoðun endurskoðenda þess sé sú, að þessi fjárhæð reiknist ekki með.  Hins vegar sé rekstrarhagnaður í ársreikningi samtala fyrir rekstrarhagnað EBIDTA og niðurfelldar kröfur.

Það ákvæði í ráðningarsamningi aðila, sem lýtur að bónusgreiðslu, byggðri á EBIDTA fyrirtækisins, hljóðar svo:

Ef félagið nær 150 milljónir í EBIDTA á árinu 2004 greiðist launabónus sem nemur einum mánaðarlaunum, ef félagið nær kr. 200 milljón í EBIDTA greiðist launabónus sem nemur tveimur mánaðarlaunum og við hverjar 50 milljónir sem bætast við EBIDTA eftir það þá bætast við ein mánaðarlaun í bónus.

Ráðningarsamningurinn er undirritaður 29. marz 2004.  Enginn fyrirvari er gerður um útreikning EBIDTA félagsins í samningnum eða skýringar á því, hvernig með þann útreikning skuli farið.

Stefnandi fékk Dofra Pétursson, löggiltan endurskoðanda, til að reikna út EBIDTA ársins 2004 með hliðsjón af rekstrarreikningi ársins 2004, sem liggur fyrir í máli þessu á dskj. nr. 8.  Í svari endurskoðandans segir svo:

 Samkvæmt ársreikningi Ingvars Helgasonar ehf. 2004 er EBIDTA því kr. 595.590.740.

Við höfum ekki aðrar forsendur að ganga útfrá en að ársreikningur félagsins og þar með rekstrarreikningurinn sé í samræmi við viðurkenndar reikningsskilavenjur.  Niðurstaða okkar getur því ekki orðið önnur en sú að EBIDTA ársins 2004 sé kr. 595.590.740 eins og áður segir.

Stefndi ber hallann af því að hafa ekki lagt fram ársreikning félagsins á fyrri stigum málsins, þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir stefnanda. 

Þegar litið er til framburðar fyrirsvarsmanns stefnda fyrir dómi, þar sem hann kvað útreikning EBIDTA félagsins vera valkost endurskoðenda fyrirtækisins, og þegar jafnframt er litið til þess, að enginn fyrirvari var gerður í ráðningarsamningi aðila um útreikning EBIDTA félagsins, er fallizt á, að stefnandi eigi kröfu á bónusgreiðslum í samræmi við EBIDTA félagsins, eins og hún er reiknuð í niðurstöðu Dofra Péturssonar endurskoðanda.  Stefnda hefði átt að vera í lófa lagið að setja fyrirvara í ráðningarsamninginn, hefði hann viljað halda afskriftum og niðurfelldum kröfum utan við EBIDTA félagsins, enda mátti honum vera ljóst á þeim tíma, sem samningurinn var gerður, að stór hluti af hagnaði félagsins ársins 2004 myndi byggjast á þessum liðum, sbr. þar sem segir í greinargerð stefnda, að samningum um eftirgjöf skulda hafi að mestu verið lokið, þegar stefnandi hóf störf. 

Þar sem ekki liggur annað fyrir samkvæmt ráðningarsamningi er fallizt á með stefnanda, að fjárhæð bónusgreiðslunnar miðist við mánaðarlaun, eins og þau voru, þegar stefnandi lét af störfum. 

Stefndi byggir á því, að stefnandi hafi þegar fengið ofgreidd laun, þar sem hann hafi fengið greiddan allan uppsagnarfrestinn, enda þótt hann hefði verið kominn í annað starf fyrir lok frestsins.

Í ráðningarsamningi er skýrt ákvæði þess efnis, að uppsagnarfrestur sé 6 mánuðir, án vinnuskyldu, segi félagið framkvæmdastjóra upp.  Enginn fyrirvari er gerður um, að laun fyrir annað starf á uppsagnarfresti skuli dragast frá launagreiðslum.  Í samræmi við þetta ákvæði greiddi stefndi stefnanda laun í uppsagnarfresti, án nokkurs fyrirvara, enda þótt fyrir hafi legið, að stefnandi væri kominn í annað starf.  Er því ekki fallizt á þessa mótbáru stefnda.

Stefndi hefur ekki mótmælt sérstaklega kröfu um 16% lífeyrisiðgjald ofan á bónusgreiðsluna, sem byggð er á 4. mgr. 7. gr. ráðningarsamningsins, og er sú krafa því tekin til greina.

Rétt þykir að dæma dráttarvexti frá 22. febrúar 2008, sbr. 3. mgr. 5. gr. l. nr. 38/2001, en þá var liðinn mánuður frá því að stefnandi setti fyrst fram kröfu á hendur stefnda. 

Með hliðsjón af þessari niðurstöðu ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir eftir atvikum hæfilega ákveðinn kr. 900.000, þ.m.t. virðisaukaskattur.

Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Ingvar Helgason ehf., greiði stefnanda, Ólafi Steinarssyni, kr. 9.992.416 með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 12. gr. s.l., frá 22. febrúar 2008 til greiðsludags og kr. 900.000 í málskostnað.