Hæstiréttur íslands
Mál nr. 84/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 9. febrúar 2012. |
|
Nr. 84/2012. |
Ákæruvaldið (Stefanía G. Sæmundsdóttir settur saksóknari) gegn X (Eiríkur S. Svavarsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Sératkvæði.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Greta Baldursdóttir og Þorgeir Örlygsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. febrúar 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 4. febrúar 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til föstudagsins 2. mars 2012 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar, en til vara þess að fallist verði á kröfu um gæsluvarðhald á grundvelli c. og d. liða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sératkvæði
Jóns Steinars Gunnlaugssonar
Varnaraðili hefur frá upphafi rannsóknar málsins neitað þeim sökum sem hann er borinn. Sönnunarfærsla gegn honum byggist á framburði sem dóttir hans gaf fyrir dómi 30. nóvember 2011 við upphaf rannsóknarinnar. Samkvæmt skýrslu A sálfræðings 17. janúar 2012, þar sem meðal annars er greint frá viðtölum sálfræðingsins við dóttur varnaraðila í desember 2011 og janúar 2012, kemur fram að stúlkan hafi í viðtali 28. desember sagst „ekkert vita hvort þetta hefði verið satt eða hvort þetta væri draumur.“ Í frásögn af viðtali 6. janúar segir svo í skýrslu sálfræðingsins: „B segist enn hugsa mikið um hvort þetta hefði gerst eða ekki og sagði að sig langaði bara til að segja satt. Sagðist hún halda að kannski hefði hún sagt vinum sínum þetta vegna þess að hún hefði ekki þorað að segja þeim frá Skype-samskiptunum af því að það hefðu verið konur. Áður hafði komið fram hjá B að hún teldi að konurnar sem hún talaði við á Skype gætu líka hafa verið karlmenn. Hún gæti ekki vitað það því konurnar hefðu aldrei sýnt sig í vefmyndavélinni.“ Sálfræðingurinn getur þess í samantekt og áliti í lok skýrslunnar að stúlkan hafi nefnt að „það gæti verið að þetta hefði ekki gerst heldur hefði hún verið að segja þetta út af konunum á Skypinu.“ Í upplýsingaskýrslu lögreglu 6. janúar 2012 kemur fram að rannsókn hafi verið gerð á tölvu stúlkunnar og samskipti hennar á Skype skoðuð. Í greinargerð um rannsóknina komi fram staðfesting á að stúlkan hafi átt í „kynferðissamskiptum“ við erlenda aðila á samskiptaforritinu Skype. Eru þar nefnd tvö dæmi um samskipti við konur í nóvember 2011. Í skýrslunni segir: „Samskiptin við báðar þessar konur eru af kynferðislegum toga þar sem þær biðja um að fá að sjá kynfæri B og skrifa um sjálfsfróun og virðast senda B myndir af sér þar sem þær eru að fróa sér og hvetja B til að prófa að fróa sér fyrir framan vefmyndavél.“
Hinn 6. janúar 2012 munu barnaverndaryfirvöld á [...] hafa tekið ákvörðun um að taka dótturina af heimili móður hennar og vista hana annars staðar meðan málið væri til meðferðar fyrir dómstólum. Tilefnið hafi verið áhyggjur ákæruvalds og lögreglu um að móðir stúlkunnar væri að reyna að hafa áhrif á framburð hennar og beitti hana þrýstingi. Í gögnum málsins kemur fram, án þess að þess sé getið í hinum kærða úrskurði, að dóttir varnaraðila hafi haft samband við móður sína 21. janúar 2012 á svonefndri fésbók á internetinu. Í útskrift af samtalinu kemur fram að stúlkan hafði orð á því að móðir hennar hafi ekki reynt að fá hana til að breyta frásögn sinni af hinum meintu sökum varnaraðila.
Sakargiftir á hendur varnaraðila byggja í raun eingöngu á framburði dóttur hans. Þegar fyrir liggur að dóttirin hefur sjálf ítrekað látið í ljósi efasemdir um réttmæti sakargifta sinna á hendur varnaraðila er augljóst að vafi er á því að hann hafi framið umrædd brot gegn henni. Samkvæmt 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 er það meðal annars skilyrði gæsluvarðhalds samkvæmt ákvæðinu að „sterkur grunur“ leiki á að sakborningur hafi framið það afbrot sem hann er sakaður um. Lætur nærri að í þessu felist að sök þurfi að vera sönnuð til þess að unnt sé að beita ákvæðinu, enda er í 2. mgr. 6. gr. sömu laga kveðið á um að dómari sem fallist hefur á kröfu um gæsluvarðhald á grundvelli þessa ákvæðis skuli víkja sæti í máli eftir útgáfu ákæru. Að mínum dómi er í þessu máli fjarri öllu lagi að uppfyllt sé skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um að sterkur grunur teljist leika á að varnaraðili hafi framið brotin. Tel ég því óheimilt að staðfesta hinn kærða úrskurð með vísan til þessa lagaákvæðis.
Sóknaraðili hefur til vara vísað til c. og d. liða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til stuðnings kröfu sinni. Hann hefur ekki fært fram rök fyrir því að skilyrði þessara ákvæða séu uppfyllt. Verður krafa hans því ekki heldur tekin til greina á þeim grundvelli.
Samkvæmt þessu tel ég að fella beri hinn kærða úrskurð úr gildi.
Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 4. febrúar 2012.
Ríkissaksóknari hefur gert þá kröfu að ákærða, X, kt. [...], [...], [...], verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til föstudagsins 2. mars 2012, kl. 16:00, aðallega á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála en til vara með vísan til c- og d-liða 1. mgr. 95. gr. sömu laga. Ákærði mótmælir kröfunni og krefst þess aðallega að henni verði hafnað en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Krafan var tekin fyrir á dómþingi í gær en dómari tók sér frest til dagsins í dag til að úrskurða um kröfuna.
Með úrskurði dómsins upp kveðnum 1. desember sl. var ákærða gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála allt til laugardagsins 10. desember sl. kl. 16:00 en hann hafði verið handtekinn 30. nóvember sl. grunaður um kynferðisbrot gagnvart 11 ára gamalli dóttur sinni, B, kt. [...]. Úrskurðurinn var staðfestur með dómi Hæstaréttar Íslands upp kveðnum 5. desember sl. Með úrskurði dómsins upp kveðnum 11. desember sl. var ákærða gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til 6. janúar sl. kl. 16:00 á grundvelli 2. mgr. 95. gr. sömu laga og var úrskurðurinn staðfestur með dómi Hæstaréttar upp kveðnum 14. desember sl. Gæsluvarðhald ákærða var enn framlengt á grundvelli sama lagaákvæðis með úrskurði upp kveðnum 6. janúar sl. og var honum gert að sæta gæsluvarðhaldi til dagsins í dag kl. 16:00. Úrskurðurinn var staðfestur með dómi Hæstaréttar upp kveðnum 11. janúar sl.
Í greinargerð ríkissaksóknara kemur fram að rannsókn málsins hafi hafist er lögreglunni á [...] hafi borist bréf barnaverndarnefndar [...] 29. nóvember sl. Í bréfinu hafi verið tilkynnt um ætlað kynferðisbrot ákærða gegn dóttur sinni, B. Í kæru barnaverndarnefndar hafi verið vísað til bréfs námsráðgjafa [...]skóla á [...] 28. nóvember sl. þar sem vísað hafi verið til upplýsinga sem námsráðgjafa hafi borist um ætlað brot ákærða. Tekin hafi verið dómskýrsla af brotaþola í Barnahúsi 1. desember sl., (svo) en þar hafi komið fram trúverðugur, nákvæmur, skýr og einlægur framburður brotaþola um hin ætluðu brot. Þau hafi verið endurtekin, gróf og framin innan vébanda heimilisins í fjarveru móður, einkum á tímabili er hún hafi verið á ferðalagi erlendis. Teknar hafi verið skýrslur af fjórum vitnum í Barnahúsi, þeim C, D, E og F, ellefu og tólf ára, þann 5. desember sl. Hafi vitnin borið um frásagnir brotaþola af hinum ætluðu brotum sem þau hafi áður greint frá og leitt hafi til tilkynningar til barnaverndarnefndar. Framburður þeirra þyki nægjanlega skýr og nákvæmur og styðji framburð brotaþola. Hinu sama gegni um framburð vitnisins G á dómþingi í Barnahúsi 7. desember sl. Þá hafi lögregla aflað upplýsinga frá þremur vitnum, H, I og J, sem getið er í fyrrgreindu bréfi námsráðgjafa. Framburður þeirra um tildrög tilkynninga til skóla- og barnaverndaryfirvalda þyki til þess fallinn að styðja framburð brotaþola og vitnanna, F, E og D. Lögreglan hafi einnig aflað upplýsinga frá þremur vitnum sem komið hafi að máli í upphafi, K, skólastjóra, L, námsráðgjafa, og M, umsjónarkennara. Framburður þessara vitna um fyrri hegðun, andlega vanlíðan og breytingar á námsgetu o.fl. þyki mjög til þess fallinn að styðja framburð brotaþola. Móðir brotaþola, N, hafi tvívegis gefið skýrslu hjá lögreglu, 1. og 14. desember sl. Meðal annars hafi komið fram hjá vitninu að ákærði hafi gætt brotaþola o.fl. á heimili þeirra á tímabili er það var erlendis. Eftir að rannsókn hafi byrjað hafi orðið vart við viðhorfsbreytingu vitnisins og virtist það fremur taka undir framburð ákærða en útiloka eða vefengja framburð brotaþola. Ríkissaksóknari telur að þessi viðhorfsbreyting vitnisins kunni að skýrast af álagi og róti á henni og fjölskyldunni eftir að rannsókn lögreglu hófst. Sálfræðilegir þættir kunni að skýra breytt viðhorf vitnisins (afneitun). Einnig þyki vera vísbendingar um að vitnið kunni að vera háð ákærða, bæði félagslega og fjárhagslega, en vitnið sé erlendur ríkisborgari og einstætt fjögurra barna foreldri.
Ákærði hafi tvívegis gefið skýrslu hjá lögreglu, 30. nóvember sl. og 8. desember sl. Hann hafi staðfastlega neitað sök og staðhæft að framburður brotaþola sé ósannur. Ákærði hafi talið að framburður telpunnar skýrist af tilteknum neikvæðum persónuþáttum og hegðunarvandamálum hjá henni og erfiðleikum í sambandi þeirra. Ákærði hafi staðfest að hafa verið á heimili brotaþola og gætt hennar á því tímabili er móðir var erlendis. Skýringar ákærða þyki ekki sennilegar eða trúverðugar.
Meðal gagna sé skýrsla O, sálfræðings, um könnun á sálrænu heilbrigðisástandi ákærða o.fl. Meðal þess sem þar komi fram sé að nokkur hætta sé talin vera á að ákærði muni reyna að nálgast brotaþola eða fjölskylduna til að fá hana til að breyta framburði. Lítið hafi komið fram sem bendi til að ákærði hafi sérstaklega kynferðislegan áhuga á börnum en hann útiloki það ekki.
Meðal gagna sé skýrsla sálfræðings Barnahúss til lögreglu 13. desember sl., um stöðumat brotaþola fram til þess tíma o.fl. Í skýrslunni komi meðal annars fram mikilvægar upplýsingar um líðan brotaþola og viðhorf hennar til ákærða. Þá komi þar einnig fram mikilvægar upplýsingar sem skýrt geti líðan og viðhorf móður brotaþola. Svipaðar upplýsingar komi fram í skýrslu sama sálfræðings til lögreglu 28. desember sl. Ríkissaksóknari telur að þessi gögn styðji mjög framburð brotaþola um ætluð brot ákærða og skýri mjög viðhorf móður og þær erfiðu aðstæður sem telpan búi við eftir að rannsókn hófst hjá lögreglu. Þá sé meðal gagna málsins læknisvottorð P, barnalæknis, og Q, kvensjúkdómalæknis, útgefið 21. desember sl. Læknisskoðun hvorki styðji né útiloki að brotaþoli kunni að hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi af hálfu ákærða.
Ríkissaksóknari vísar til þess að með kröfu lögreglustjórans á [...] dagsettri 28. desember sl. hafi verið krafist afturköllunar á skipun verjanda með vísan til 2. mgr. 34. gr. laga nr. 88/2008. Krafan hafi verið tekin fyrir í Héraðsdómi Vesturlands 4. janúar sl. og úrskurður kveðinn upp daginn eftir. Kröfunni hafi verið synjað en þann 9. janúar sl. hafi skipaður verjandi óskað eftir því að verða leystur frá verjandastörfum og hafi ákærða verið skipaður nýr verjandi sama dag.
Ríkissaksóknari segist hafa fylgst með framvindu rannsóknarinnar eftir að hún hafi hafist uns henni hafi lokið 28. desember og 5. janúar sl. (viðbótargagnaöflun). Leitast hafi verið við að hraða rannsókn og ákvörðunartöku um saksókn. Ákæra á hendur ákærða hafi verið gefin út 5. janúar sl. og gögn send Héraðsdómi Vesturlands sama dag. Málið hafi verið þingfest 17. janúar sl. og hafi ákærði lýst sig saklausan af ákæru. Í þinghaldi þann 20. janúar sl. hafi verjandi ákærða krafist úrskurðar dómara um að brotaþoli yrði yfirheyrð á ný. Dómari hafi beint því til saksóknara að kanna afstöðu barnaverndaryfirvalda til endurtekinnar skýrslu af brotaþola fyrir dómi. Saksóknari hafi aflað upplýsinga um afstöðu barnaverndaryfirvalda og hafi þau gögn verið lögð fram í þinghaldi 23. janúar sl. Þann 1. febrúar sl. hafi kröfu verjanda ákærða um að brotaþoli kæmi fyrir dóm að nýju verið hafnað. Verjandi hafi nýtt sér kærufrest við uppkvaðningu úrskurðarins.
Með vísan til rannsóknargagna og þess sem að framan er rakið þyki ákærði vera undir sterkum rökstuddum grun um að hafa brotið gróflega gegn dóttur sinni, kynferðislega. Ríkissaksóknari telur gæsluvarðhald vera nauðsynlegt áfram vegna almannahagsmuna af sömu ástæðum og lagðar voru til grundvallar með fyrrgreindum hæstaréttardómum 14. desember og 11. janúar sl. Um sé að ræða ætluð gróf og endurtekin kynferðisbrot föður gegn dóttur. Ríkissaksóknari telur að það særi réttarvitund almennings og valdi almennri hneykslan í samfélaginu ef ákærði, sem liggi undir sterkum rökstuddum grun um svo alvarleg kynferðisbrot gegn dóttur, gangi laus á meðan máli hans er ólokið. Þá mæli hagsmunir brotaþola einnig gegn því að ákærði gangi laus en almannahagsmunir þyki meðal annars vera fólgnir í því að tryggja vernd brotaþola sem barns. Til hliðsjónar sé vísað til dóms Hæstaréttar frá 29. júní sl., í máli nr. 403/2011.
Til vara, ef dómurinn telur skilyrði gæsluvarðhalds vegna almannahagsmuna ekki vera lengur uppfyllt, þá telur ríkissaksóknari, eins og málið er vaxið, að áframhaldandi gæsluvarðhald sé nauðsynlegt til að tryggja öryggi brotaþola og koma í veg fyrir frekari brot.
Eins og rakið hefur verið hér að framan hefur ákærði setið í gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, fyrst samkvæmt úrskurði dómsins frá 11. desember sl. og staðfestur var í Hæstarétti Íslands 14. desember sl. og síðan samkvæmt úrskurði dómsins frá 6. janúar sl. sem staðfestur var í Hæstarétti 11. janúar sl. Var fallist á með héraðsdómi að álykta megi af gögnum málsins að sterkur grunur leiki á um að varnaraðili hafi framið afbrot, sem að lögum geti varðað 10 ára fangelsi og að öðrum skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 sé fullnægt. Ríkissaksóknari krefst nú framlengingar gæsluvarðhaldsins allt til föstudagsins 2. mars nk. kl. 16:00 á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála en til vara með vísan til c- og d-liða 1. mgr. 95. gr. sömu laga. Ákærði mótmælir kröfunni og krefst þess aðallega að henni verði hafnað en til vara að gæsluvarðhaldi, verði á það fallist, verði markaður skemmri tími.
Í framangreindum úrskurðum dómsins kemur fram að brotaþoli hafi gefið ítarlega skýrslu fyrir dómi í Barnahúsi og lýst með óhugnanlega nákvæmum hætti ætluðum brotum ákærða gagnvart henni. Lýsi brotaþoli atvikum með orðfæri sem hæpið verði að telja að 11 ára gamalt barn hafi á takteinum og leiki sterkur grunur á því að frásögnin byggist á eigin reynslu hennar. Fyrir liggi að brotaþoli hafi greint jafnöldrum sínum frá atvikum og hafi börnin gefið skýrslur í Barnahúsi og staðfest frásögn brotaþola.
Gefin hefur verið út ákæra á hendur ákærða og eru ætluð brot hans talin varða við 1. og 2. mgr. 200. gr. og 1. og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 8. og 10. gr. laga nr. 40/1992, 2. og 4. gr. laga nr. 40/2003 og 9. og 11. gr. laga nr. 61/2007. Brot gegn 1. mgr. 200. gr. almennra hegningarlaga varða fangelsi allt að 8 árum og allt að 12 árum ef barnið er yngra en 16 ára og brot gegn 1. mgr. 202. gr. laganna varða fangelsi allt að 16 árum ef barn er yngra en 15 ára. Dómsmeðferð málsins er hafin og hefur dómari hafnað kröfu verjanda ákærða um að brotaþoli verði yfirheyrð á ný. Verjandi hefur kært þann úrskurð til Hæstaréttar. Verjandi bendir á að af nýlegum samskiptum brotaþola við móður sína megi ráða að móðir hennar hafi ekki reynt að fá hana til að breyta framburði sínum. Þá bendir verjandinn á að brotaþoli hafi sýnt frábæran námsárangur á þeim tíma sem ákærði eigi að hafa brotið á henni og bendi það ekki til þess að hún hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi. Þá bendir verjandinn á að í vottorði A sálfræðings komi fram að framburður brotaþola hafi verið misvísandi og hafi hún gefið skýringar sem gefi vísbendingar um að hana hafi dreymt umrædda atburði en hún hafi einnig gefið aðrar skýringar sem bendi ekki til þess að um drauma hafi verið að ræða.
Samkvæmt síðastgreindu vottorði hefur brotaþoli ekki með afgerandi hætti dregið frásögn sína til baka í viðtölum við sálfræðinginn. Hún hafi hins vegar velt því fyrir sér, að tilstuðlan móður hennar að því er sálfræðingnum virðist, hvort hana gæti hafa dreymt þetta. Sálfræðingurinn telur að sjaldgæft sé að börn dragi frásagnir sínar af kynferðisofbeldi til baka og eigi það enn fremur við þegar faglega sé staðið að skýrslutöku og framburður barns sé metinn trúverðugur. Þau börn sem dragi framburð sinn til baka séu líklegri til að vera yngri, hafa sætt ofbeldi af hálfu foreldris og njóti ekki stuðnings frá hinu foreldrinu. Í þeim tilvikum hafi ekki verið um rangar ásakanir um kynferðislegt ofbeldi að ræða.
Með bréfi ríkissaksóknara til barnaverndarnefndar [...] dags. 6. janúar sl. var nefndinni bent á að svo virtist að móðir brotaþola leitaðist við að hafa áhrif á að barnið drægi framburð sinn til baka. Væru vísbendingar um að barninu væri talin trú um að ætluð atvik kynnu að hafa verið draumur eða að lagt væri fyrir barnið að það hafi greint rangt frá og framburður skýrðist af kynrænum samskiptum við óþekkt fólk á internetinu. Fór ríkissaksóknari fram á að viðeigandi aðgerðir yrðu gerðar í þágu barnsins og það tekið út af heimilinu, a.m.k. meðan umrætt ástand varði. Með úrskurði barnaverndarnefndarinnar upp kveðnum 19. janúar sl. var tekin sú ákvörðun að brotaþoli skyldi vistuð utan heimilis á vegum nefndarinnar í allt að tvo mánuði frá þeim degi að telja.
Skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 um alvarleika brota sem sterkur grunur er um að ákærði hafi framið er því uppfyllt í máli þessu. Samkvæmt framangreindu lagaákvæði er það skilyrði þess að gæsluvarðhaldi verði beitt að brot sé þess eðlis að ætla megi gæsluvarðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Ákærði er grunaður um alvarleg kynferðisbrot gegn dóttur sinni og standa ríkir almannahagsmunir til þess að menn sem sterklega eru grunaðir um svo alvarleg brot gegn ungum börnum, gangi ekki lausir. Þá ber að líta til nýlegra fordæma Hæstaréttar Íslands í sambærilegum málum og jafnframt fyrri dóma réttarins í máli ákærða.
Upplýst var við meðferð máls þessa að aðalmeðferð þess hefur verið ákveðin 15. febrúar nk. Þá liggur enn ekki fyrir hvort fallist verði á þá kröfu verjanda ákærða að brotaþoli verði yfirheyrð aftur fyrir dómi.
Samkvæmt öllu framansögðu og með vísan til rannsóknargagna verður því að telja að ákærði sé undir sterkum grun um að hafa brotið kynferðislega gegn dóttur sinni og hefur að mati dómsins enn ekkert komið fram sem breytt getur þessu mati.
Með vísan til þess sem að framan er rakið, atvika máls þessa og rannsóknargagna málsins verður með tilliti til almannahagsmuna fallist á það með ríkissaksóknara að ætluð brot þau sem sterkur grunur er um að ákærði hafi framið séu þess eðlis að nauðsynlegt sé að tryggja að hann gangi ekki laus á meðan mál hans er til meðferðar fyrir dómi, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Er því fallist á kröfuna eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Hjörtur O Aðalsteinsson dómstjóri kvað upp þennan úrskurð.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Ákærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans, en þó eigi lengur en til föstudagsins 2. mars 2012 kl. 16:00.