Hæstiréttur íslands
Mál nr. 239/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Lögbann
- Samlagsaðild
- Kröfugerð
- Höfundarréttur
- Málsóknarumboð
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi að hluta
|
|
Þriðjudaginn 29. apríl 2014. |
|
Nr. 239/2014.
|
Samtök myndréttarhafa á Íslandi Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar og Félag hljómplötuframleiðenda (Tómas Jónsson hrl.) gegn Fjarskiptum hf. (Erla S. Árnadóttir hrl.) |
Kærumál. Lögbann. Samlagsaðild. Kröfugerð. Höfundarréttur. Málsóknarumboð. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi að hluta.
SM, SÍ, ST og FH beiddust þess að lagt yrði lögbann við því að F hf. veitti viðskiptamönnum sínum aðgang að nánar tilgreindum vefsíðum, lagt yrði fyrir F hf. að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að hindra að viðskiptamenn hans gætu farið inn á sömu vefsíður og lagt yrði fyrir F hf. að hindra allan gagnaflutning að og frá svonefndum IP-tölum sem vísuðu á vefsíðurnar. Með ákvörðun sýslumanns var lögbannskröfunni hafnað, en SM, SÍ, ST og FH báru ágreining um ákvörðunina undir héraðsdóm, sem vísaði málinu frá með hinum kærða úrskurði. Hæstiréttur staðfesti hinn kærða úrskurð að því er varðaði SM, SÍ og FH sökum þess að þau hefðu ekki löggildingu mennta- og menningarmálaráðuneytis samkvæmt 23. gr. og 23. gr. a. höfundalaga nr. 73/1972, þar sem líta yrði svo á að einungis höfundarréttarsamtök sem hlotið hefðu slíka löggildingu gætu fengið lögbann lagt á eftir fyrirmælum 59. gr. a. sömu laga. ST hafði á hinn bóginn hlotið slíka löggildingu, en í hinum kærða úrskurði hafði málinu einnig verið vísað frá hvað hann varðaði sökum þess að krafa ST í málinu, sem ST hafði upphaflega staðið að með SM, SÍ og FH, takmarkaðist ekki við flutning eða önnur not þeirra verka sem löggilding ST næði til og væri honum því ekki heimil. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að þótt ST stæði orðið einn eftir sem gerðarbeiðandi gæti það, með hliðsjón af 1. málslið 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, ekki eitt út af fyrir sig talist annmarki á kröfugerð hans að hún væri orðuð á sama hátt og upphaflega var gert sameiginlega fyrir SM, SÍ, ST og FH. Þá taldi rétturinn, að virtum skilyrðum IV. kafla laga nr. 31/1990 fyrir því að lagt yrði lögbann við háttsemi eftir heimild í 2. mgr. 59. gr. a. höfundalaga og eins og atvikum málsins var háttað, að ekki yrði séð að ST hefði þurft að haga orðalagi kröfugerðar sinnar í lögbannsbeiðni á annan veg en gert var þótt hann hefði frá öndverðu einn átt aðild að henni. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi að því er varðaði ST og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar að því leyti.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Helgi I. Jónsson og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 1. apríl 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. mars 2014, þar sem vísað var frá dómi máli, sem sóknaraðilar beindu að varnaraðila til að fá hnekkt ákvörðun sýslumanns um að hafna kröfu þeirra um lögbann. Kæruheimild er í 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, aðallega gagnvart öllum sóknaraðilum en til vara gagnvart sóknaraðilanum Sambandi tónskálda og eigenda flutningsréttar, og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Í báðum tilvikum krefjast sóknaraðilar málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar. Til vara krefst hann staðfestingar hins kærða úrskurða varðandi sóknaraðilana Samtök myndréttarhafa á Íslandi, Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda og Félag hljómplötuframleiðenda, svo og að „vísað verði frá dómi kröfum sóknaraðila, þeirra er taldir verða geta haft aðild að málinu, er lúta að því að sýslumaður kveði á um að: 1) loka fyrir þann möguleika að viðskiptavinir varnaraðila notfæri sér staðgengilsþjónustur „þegar slíkar leiðir eru kunnar annað hvort samkvæmt ábendingum sóknaraðila eða annarra aðila“ og 2) verði hinar umdeildu vefsíður gerðar aðgengilegar á öðrum síðum nái krafa sóknaraðila einnig til þess að varnaraðili geri nauðsynlegar ráðstafanir til lokunar aðgengis að þessum síðum.“ Í öllum tilvikum krefst varnaraðili kærumálskostnaðar óskipt úr hendi sóknaraðila.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði beiddust sóknaraðilar þess 6. september 2013 að lagt yrði lögbann við því að varnaraðili veitti viðskiptamönnum sínum aðgang að nánar tilgreindum vefsíðum, lagt yrði fyrir varnaraðila að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að hindra að viðskiptamenn hans gætu farið inn á sömu vefsíður og lagt yrði fyrir varnaraðila að hindra allan gagnaflutning að og frá svonefndum IP-tölum sem vísuðu á vefsíðurnar. Með ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 11. október 2013 var beiðni sóknaraðila hafnað. Samkvæmt endurriti úr gerðabók sýslumanns lýstu sóknaraðilar því yfir þegar þessi ákvörðun hafði verið kynnt að þeir krefðust úrlausnar héraðsdóms um hana og sendu þeir í framhaldi af því gögn vegna gerðarinnar til Héraðsdóms Reykjavíkur með bréfi 21. október 2013. Mál þetta var þingfest af því tilefni 18. nóvember sama ár.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður að líta svo á að einungis þau höfundarréttarsamtök, sem hlotið hafa löggildingu mennta- og menningarmálaráðuneytis samkvæmt 23. gr. og 23. gr. a. höfundalaga nr. 73/1972 með áorðnum breytingum, geti fengið lagt lögbann við byrjuðum eða yfirvofandi flutningi eða öðrum notum allra þeirra verka, sem löggildingin nær til og verndar njóta samkvæmt lögunum eftir fyrirmælum 59. gr. a. sömu laga. Verður þannig staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar um frávísun málsins frá héraðsdómi að því er varðar sóknaraðilana Samtök myndréttarhafa á Íslandi, Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda og Félag hljómplötuframleiðenda.
Í beiðni um lögbann kom fram að sóknaraðilar stæðu saman að henni og var þar sett fram í einu lagi kröfugerð þeirra. Í fyrrnefndu bréfi sóknaraðilanna til héraðsdóms 21. október 2013 var á sama hátt tekið fram að þeir krefðust þess að ákvörðun sýslumanns 11. sama mánaðar yrði hnekkt og honum gert að „leggja á lögbann í samræmi við beiðni gerðarbeiðenda.“ Í bókun, sem sóknaraðilar lögðu fram við munnlegan flutning málsins í héraði 19. febrúar 2014, var kröfugerð með sama hætti, en tekið fram að þetta væru dómkröfur þeirra „hvers um sig“ og var það síðan áréttað með þeim orðum að þeir gerðu „sjálfstætt ofangreindar kröfur hver um sig, þó að kröfurnar séu samhljóða.“
Samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er fleiri en einum heimilt að sækja mál í félagi ef dómkröfur þeirra eiga rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings. Af orðalagi ákvæðisins er ljóst að þegar þessarar heimildar er neytt til aðilasamlags verða þeir, sem það gera, hver að gera dómkröfu fyrir sitt leyti. Til þess verður þó að líta að þegar tveir eða fleiri standa saman að máli eftir þessari heimild og kröfur hvors þeirra eða hvers eru samhljóða er ástæðulaust að tiltaka sérstaklega hvers krafist sé af hendi þeirra með endurtekningu sömu orða, heldur nægir að þetta sé gert í eitt skipti fyrir báða aðilana eða alla. Þegar sóknaraðilinn Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar stendur orðið einn eftir sem gerðarbeiðandi getur það því ekki eitt út af fyrir sig talist annmarki á kröfugerð hans að hún sé nú orðuð á sama hátt og upphaflega var gert fyrir sóknaraðilana alla.
Eftir 2. mgr. 59. gr. a. höfundalaga getur sóknaraðilinn Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar fengið lagt lögbann við flutningi eða öðrum notum verka, sem löggilding hans nær til og verndar njóta samkvæmt sömu lögum. Að virtum skilyrðum IV. kafla laga nr. 31/1990 fyrir því að lagt verði lögbann við háttsemi eftir heimild í 2. mgr. 59. gr. a. höfundalaga og eins og atvikum málsins er háttað verður ekki séð að þessi sóknaraðili hefði þurft að haga orðalagi kröfugerðar í lögbannsbeiðni á annan veg en gert var þótt hann hefði frá öndverðu einn átt aðild að henni.
Samkvæmt öllu framangreindu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi varðandi sóknaraðilann Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið að því leyti til efnismeðferðar.
Rétt er að hver aðili beri sinn kostnað af kærumáli þessu.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur að því er varðar sóknaraðilana Samtök myndréttarhafa á Íslandi, Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda og Félag hljómplötuframleiðenda.
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi að því er varðar sóknaraðilann Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar að því leyti.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. mars 2014.
Mál þetta var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 19. febrúar sl. um frávísunarkröfu varnaraðila.
Sóknaraðilar eru SMÁÍS - Samtök myndrétthafa á Íslandi, Síðumúla 29, Reykjavík, SÍK - Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda, Borgartúni 35, Reykjavík, STEF - Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar, Laufásvegi 40, Reykjavík og Félag hljómplötuframleiðenda, Eiðistorgi 17, Seltjarnarnesi.
Varnaraðili er Fjarskipti hf., Skútuvogi 2, Reykjavík.
Sóknaraðilar krefjast þess hver um sig að synjun sýslumannsins í Reykjavík 11. október 2013 í lögbannsmáli nr. L-26/2013 verði ógilt og lagt verði fyrir sýslumann að leggja á lögbann í samræmi við beiðni sóknaraðila. Þá krefjast sóknaraðilar þess að varnaraðila verði gert að greiða hverjum og einum þeirra málskostnað.
Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi hvað varði sóknaraðilana SMÁÍS - Samtök myndrétthafa á Íslandi, SÍK - Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda og Félag hljómplötuframleiðenda. Þá er þess krafist að vísað verði frá dómi kröfum sóknaraðila, er taldir verði geta haft aðild að málinu, er lúti að því að sýslumaður kveði á um annars vegar að loka fyrir þann möguleika að viðskiptavinir varnaraðila notfæri sér staðgengilsþjónustur „þegar slíkar leiðir eru kunnar annað hvort samkvæmt ábendingum sóknaraðila eða annarra aðila“ og hins vegar verði hinar umdeildu vefsíður gerðar aðgengilegar á öðrum síðum nái krafa sóknaraðila einnig til þess að varnaraðili geri nauðsynlegar ráðstafanir til lokunar aðgengis að þessum síðum. Þá krefst varnaraðili þess að ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík frá 11. október 2013 í lögbannsmáli nr. L-26/2013, verði staðfest. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
Í þessum þætti málsins krefst varnaraðili frávísunar málsins í samræmi við framangreinda frávísunarkröfu og málskostnaðar. Sóknaraðilar krefjast þess hver um sig að frávísunarkröfu varnaraðila verði hafnað. Þá krefjast þeir einnig málskostnaðar.
I
Með beiðni, dags. 6. september 2013, kröfðust sóknaraðilar lögbanns hjá varnaraðila. Samdægurs voru lagðar fram beiðnir á hendur fjórum öðrum stærstu netþjónustuaðilum landsins. Var gerð sú krafa að lagt yrði lögbann við því að varnaraðili veitti viðskiptamönnum sínum aðgang að vefsíðunum www.deildu.net, www.deildu.com, www.thepiratebay.se, www.thepiratebay.sx og www.thepiratebay.org. Þá var þess farið á leit að lagt yrði fyrir varnaraðila að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til þess að hindra að viðskiptamenn hans geti heimsótt framangreindar vefsíður. Í þeim tilgangi var þess einnig farið á leit að lagt yrði fyrir varnaraðila að hindra allan gagnaflutning að og frá IP-tölum sem vísa á fyrrnefndar vefsíður, undirsíður og undirlén, sem og að hindra allan gagnaflutning að og frá nafnaþjónum sem vísa á fyrrnefndar vefsíður, undirsíður og undirlén þeirra.
Sýslumaðurinn í Reykjavík tók málið fyrir 3. október sl. Varnaraðili andmælti kröfu sóknaraðila og lagði fram greinargerð. Sýslumaður tók málið aftur fyrir 11. október og hafnaði þá kröfum sóknaraðila.
Með bréfi, dags. 21. október 2013, sem barst héraðsdómi sama dag, kröfðust sóknaraðilar úrlausnar héraðsdóms, sbr. 33. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Var þar gerð sú krafa að synjun sýslumannsins í Reykjavík 11. október 2013 í lögbannsmáli nr. L-26/2013 yrði ógilt. Í upphafi munnlegs málflutnings um frávísunarkröfu í málinu lagði lögmaður sóknaraðila fram bókun um að sóknaraðilar gerðu sjálfstætt ofangreindar kröfur hver um sig, þó að kröfurnar væru samhljóða. Þá gerði hver sóknaraðila þá kröfu að frávísunarkröfu yrði hafnað.
II
Varnaraðili byggir kröfur sínar um frávísun annars vegar á því að sóknaraðilarnir, SMÁÍS - Samtök myndrétthafa á Íslandi, SÍK - Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda og Félag hljómplötuframleiðenda, geti ekki verið aðilar að kröfu er varði umkrafin réttindi kvikmyndaframleiðenda og hljómplötuframleiðenda og hins vegar á því að í málinu sé krafist víðtækari athafnaskyldu en krafist hafi verið í lögbannsbeiðni.
Lögbannsmál þetta sé grundvallað á 59. gr. a höfundalaga nr. 73/1972. Í 1. mgr. ákvæðisins segi meðal annars að þau samtök sem hlotið hafi löggildingu ráðuneytisins, samkvæmt 23. gr. og 23. gr. a laganna, geti fengið lagt lögbann við tilteknum athöfnum. Í 2. mgr. ákvæðisins segi meðal annars að, að því tilskildu að fullnægt sé öðrum þeim skilyrðum lögbanns, sem greind séu í lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl., geti einstakir rétthafar eða samtök þeirra fengið lagt lögbann við nánar tilgreindum athöfnum. Ljóst sé að sóknaraðili, STEF, sé einu samtökin sem hlotið hafi slíka viðurkenningu ráðuneytisins sem um ræði í 1. mgr. 59. gr. a. Aðrir sóknaraðilar málsins hafi ekki slíka viðurkenningu. Varnaraðili telji engum vafa undirorpið að skilja verði 2. mgr. 59. gr. a á þann veg að með orðunum „samtök rétthafa“ sé átt við samtök sem hlotið hafi viðurkenningu, sbr. 1. mgr. ákvæðisins. Af þessu leiði að sóknaraðilarnir, SMÁÍS - Samtök myndrétthafa á Íslandi, SÍK - Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda og Félag hljómplötuframleiðenda, geti ekki óskað lögbanns til að vernda hagsmuni kvikmyndaframleiðenda og hljómplötuframleiðenda. Verði því að vísa kröfum þeirra frá dómi.
Yrði talið að ákvæði 2. mgr. 59. gr. a beri að skilja svo að ekki sé nauðsynlegt að samtök rétthafa hafi hlotið löggildingu ráðherra til að eiga aðild að lögbanni telji varnaraðili að framangreind þrjú samtök geti ekki farið með tilskilið málsóknarumboð í skilningi ákvæðisins og að setning þessa ákvæðis hafi ekki breytt eldri rétti að þessu leyti. Tilvísun sóknaraðila til II. kafla laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga sé óskýr og verði aðild þessara aðila ekki studd við ákvæði í þeim lögum. Þrátt fyrir að sóknaraðilar hafi ekki stutt aðild sína með vísun til ákvæða einkamálalaga eða ólögfestra reglna um málsóknarumboð taki varnaraðili fram að aðild yrði ekki talin heimil á þeim grundvelli. Þessi samtök hafi ekki sýnt fram á að aðildarfélög þeirra hafi veitt samtökunum sams konar umboð og félagsmenn í aðildarfélögum sóknaraðila, STEFS, veiti þeim. Verði því að vísa málinu frá dómi að því er þessa sóknaraðila varði.
Niðurstaða sýslumanns í lögbannsmálinu hafi meðal annars byggt á því að ekki væri unnt að leggja svo miklar athafnaskyldur á varnaraðila sem farið væri fram á til að halda uppi lögbanni. Athafnir sem varnaraðili hefði þurft að viðhafa til að fullnægja kröfum í lögbannsbeiðni hafi verið eftirfarandi: Lokun á DNS uppkall gegnum notendanafnaþjóna og viðhald á henni, lokun á IP tölu tiltekins vefþjóns og viðhald á henni, öflun upplýsinga um aðrar IP tölur er kynnu að hýsa undirlén og lokun á umferð frá hýsingarnafnaþjóni og viðhald á henni.
Í kröfugerð sóknaraðila felist krafa um tvenns konar athafnir sem ekki hafi falist í lögbannsbeiðninni. Annars vegar lokun aðgangs að vefsíðum þar sem boðið sé upp á staðgengilsþjónustur. Hins vegar lokun aðgangs að hinum tilteknu vefsíðum sem væru gerðar aðgengilegar á öðrum IP tölum. Varnaraðili krefjist frávísunar á dómkröfum hvað þetta snerti.
Í greinargerð sóknaraðila komi fram að krafa um lögbann nái til þess að loka fyrir þann möguleika að viðskiptavinir varnaraðila notfæri sér staðgengilsþjónustur „þegar slíkar leiðir eru kunnar annað hvort samkvæmt ábendingum sóknaraðilar eða annarra aðila“. Því sé alfarið mótmælt að lögbannsbeiðni hafi tekið til slíkra aðgerða. Ekkert slíkt hafi komið fram í lögbannsbeiðninni. Heimild sóknaraðila til að bera fram kröfur í málinu nái aðeins til þess að fá úr því skorið hvort sýslumaður hafi tekið rétta afstöðu til þeirra krafna er hafi verið lagðar fyrir hann. Sóknaraðilar geti ekki borið fram frekari kröfur í málinu. Sé þess því krafist að framangreindri kröfu verði vísað frá dómi. Varnaraðili fái ekki betur séð en að með því að loka fyrir að viðskiptamenn noti staðgengilsþjónustur sé verið að biðja um lokun á nýjum vefsvæðum sem upprunaleg lögbannsbeiðni hafi ekki náð til. Geti vart verið nokkrum vafa undirorpið að vísa beri slíkri kröfu frá. Jafnvel þótt unnt væri að fella ofangreinda kröfu undir orðalag upprunalegrar kröfu sóknaraðila um að „grípa til nauðsynlegra ráðstafana“ liggi ekki í augum uppi að þessi þáttur kröfunnar hafi verið hafður uppi fyrir sýslumanni, en engin umfjöllun hafi verið um þessi sjónarmið þar. Allt að einu beri því að vísa þessari kröfu frá dómi.
Í öðru lagi komi fram í beiðni sóknaraðila að verði hinar umdeildu vefsíður gerðar aðgengilegar á öðrum síðum nái krafa þeirra einnig til þess að varnaraðili geri nauðsynlegar ráðstafanir til lokunar aðgengis að þeim síðum. Þessi krafa komi ekki fram í lögbannsbeiðni, enda myndi slík krafa vera allt of óákveðin og óskýr til að geta komið til álita. Sérstaklega sé tekið fram að þessi krafa felist ekki í þeirri kröfugerð sóknaraðila að lagt verði fyrir varnaraðila að hindra allan gagnaflutning að og frá IP tölum sem vísi á fyrrgreindar vefsíður, undirsíður og undirlén, sem og að hindra allan gagnaflutning að og frá nafnaþjónum sem vísi á fyrrnefndar vefsíður, undirsíður þeirra og undirlén. Með vísan til þess er greini að framan um kröfu um að loka fyrir þann möguleika að viðskiptamenn nýti sér staðgengilsþjónustur sé þess krafist að framangreindri kröfu verði vísað frá dómi.
III
Sóknaraðilar byggja aðild sína á 59. gr. a höfundalaga nr. 73/1972. Þar sé að finna skýra lagaheimild fyrir höfundasamtök til að krefjast lögbanns. Ákvæðið hafi verið sett í lög til að uppfylla skyldur samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/29/EB, en aðildarríki hafi frjálsar hendur um hvernig þau geri það.
Sóknaraðilar telji 2. mgr. 59. gr. a fela í sér sjálfstæða reglu. Ekki sé minnst á löggildingu í þeirri málsgrein. Hvergi sé minnst á það í lögunum eða greinargerð að samtökin þurfi löggildingu og ekki sé heldur gerð krafa um málsóknarumboð. Þá sé ekki minnst á slíkt í lögum nr. 30/2002 um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu. Samanburður við 1. mgr. ákvæðisins sé rangur. Lagaákvæðin eigi sér ólíka forsögu, en séu af einhverri ástæðu sett í sömu lagagrein. Um sé að ræða sjálfstæða og skýra lagareglu. Réttur skilningur sé sá að reglan tryggi samtökum rétthafa, eins og rétthöfum sjálfum, án frekari skilyrða, sérstaka heimild til að krefjast lögbanns gagnvart miðlurum við miðlun gagna. Í þessu felist sjálfstæður og mjög rúmur málsóknarréttur. Þessi túlkun sóknaraðila eigi sér stoð í skýru orðalagi og lögskýringargögnum.
Þar sem allir sóknaraðilar geti krafist lögbanns á grundvelli 2. mgr. 59. gr. a höfundalaga séu skilyrði samlagsaðildar uppfyllt í málinu. Með þeirri breytingu sem sóknaraðilar hafi nú gert á kröfugerð sinni geri þeir allir sjálfstæðar kröfur, en enginn vafi sé á að slík breyting sé sóknaraðilum heimil. Ekkert ósamræmi sé við kröfugerð hjá sýslumanni. Samlagsaðild byggist á hagkvæmnissjónarmiðum og komi í veg fyrir að höfundaréttarsamtök þurfi að höfða mörg mál um sama atvik.
Þá hafni sóknaraðilar því að í málinu séu gerðar aðrar og víðtækari kröfur en fyrir sýslumanni. Engar aðrar kröfur séu gerðar í málinu en að synjun sýslumanns verði ógilt og lagt verði fyrir sýslumann að leggja á lögbann í samræmi við beiðni sóknaraðila. Það sem varnaraðili vísi til sem kröfugerðar séu atriði sem sóknaraðilar telji felast í kröfu sinni um nauðsynlegar ráðstafanir.
IV
Krafa sóknaraðila, um að lagt verði lögbann við því að varnaraðili veiti viðskiptamönnum sínum aðgang að tilteknum vefsíðunum og honum verði gert að grípa til ráðstafana til þess að hindra að viðskiptamenn hans geti heimsótt þær vefsíður, byggist á 2. mgr. 59. gr. a höfundalaga nr. 73/1972. Samkvæmt því ákvæði geta einstakir rétthafar eða samtök þeirra fengið lagt lögbann við því að þjónustuveitandi miðli gögnum sem þjónustuþegi lætur í té um fjarskiptanet, óháð því hvort þjónustuveitandi beri ábyrgð vegna miðlunar eða sjálfvirkrar, millistigs- eða skammtímageymslu gagna, að því tilskildu að fullnægt sé öðrum þeim skilyrðum lögbanns, sem greind eru í lögum nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Enn fremur verður lögbann lagt við því að þjónustuveitandi hýsi gögn sem látin eru í té af þjónustuþega, óháð því hvort þjónustuveitandi beri ábyrgð á gögnunum.
Samkvæmt 1. mgr. framangreinds ákvæðis geta þau samtök, sem hlotið hafa löggildingu mennta- og menningarmálaráðuneytisins, samkvæmt 23. gr. og 23. gr. a laganna, fengið lagt lögbann við byrjuðum eða yfirvofandi flutningi eða öðrum notum allra þeirra verka, sem löggildingin nær til og verndar njóta samkvæmt lögunum, án þess að hafa fengið umboð til þess frá höfundum eða öðrum rétthöfum verkanna, enda sé fullnægt öðrum skilyrðum lögbanns samkvæmt lögum nr. 31/1990.
Aðila málsins greinir á um það hvort þau höfundaréttarsamtök sem geti krafist lögbanns á grundvelli 2. mgr. 59. gr. a höfundalaga þurfi að hafa hlotið löggildingu, sem gerð er krafa um í 1. mgr. ákvæðisins. Í athugasemdum með frumvarpi til laganna kemur fram að í 2. mgr. sé fólgið nýmæli þar sem gert sé ráð fyrir sérstakri heimild til þess að leggja lögbann við athöfnum milliliða, fyrst og fremst fjarskiptafyrirtækja og sé tilgangur ákvæðisins fyrst og fremst sá að eyða mögulegum vafa um hvort lögbanni verði beint gegn fjarskiptafyrirtækjum vegna miðlunar, skyndivistunar og hýsingar gagna í þeim tilvikum þegar um er að ræða meint brot þjónustuþega á ákvæðum höfundalaga. Ekki er sérstaklega um það fjallað hvaða kröfur verði gerðar til höfundaréttarsamtaka samkvæmt 2. mgr. Í því ljósi þykir ekkert benda til þess að heimildin sé víðtækari samkvæmt 2. mgr. en 1. mgr., enda myndi það skjóta skökku við að fleiri gætu krafist lögbanns á hendur fjarskiptafyrirtækjum vegna miðlunar og hýsingar gagna, en á hendur þeim sem bera ábyrgð á gögnunum. Verður því talið að túlka verði 2. mgr. 59. gr. a með hliðsjón af 1. mgr. ákvæðisins, á þann hátt að einungis þeim höfundaréttarsamtökum sem hlotið hafa hafa löggildingu mennta- og menningarmálaráðuneytisins samkvæmt 23. gr. og 23. gr. a laganna sé heimilt að krefjast lögbanns á grundvelli þess ákvæðis.
Óumdeilt er að einungis einn sóknaraðila, STEF - Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar, hefur hlotið umrædda löggildingu. Verður því að telja að aðrir sóknaraðilar geti ekki verið aðilar að framangreindri lögbannskröfu.
Sóknaraðilar kröfðust í sameiningu lögbanns á hendur varnaraðila fyrir Sýslumanninum í Reykjavík. Með bréfi sem barst héraðsdómi 21. október 2013 kröfðust þeir ógilding á synjun sýslumanns á því að leggja á lögbannið. Við munnlegan málflutning vegna frávísunarkröfu varnaraðila lögðu sóknaraðilar fram bókun um að þeir gerðu kröfurnar hver fyrir sig, þótt þær væru samhljóða.
Sameiginleg aðild sóknaraðila í málinu byggist á samlagsaðild, sbr. 19. gr. laga nr. 91/1991. Þegar um samlagsaðild til sóknar er að ræða er sóknaraðilum rétt, hverjum fyrir sig, að gera sjálfstæða kröfu á hendur varnaraðila. Hins vegar hefur verið talið heimilt að bæta úr ágalla á kröfugerð að þessu leyti, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar Íslands frá 20. nóvember 2012 í málinu nr. 644/2012, svo sem sóknaraðilar hafa gert. Þegar um samlagsaðild er að ræða er staðan sú að hver aðila hefði allt eins getað höfðað sjálfstætt mál um kröfu sína. Af því leiðir að þrátt fyrir að einungis krafa sóknaraðila, STEFS - Sambands tónskálda og eigenda flutningsréttar, standi eftir í málinu leiðir það eitt ekki til frávísunar málsins að því er hann varðar, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands frá 20. febrúar 2010 í málinu nr. 214/2009. Krafa sóknaraðila, STEFS - Sambands tónskálda og eigenda flutningsréttar, takmarkast hins vegar ekki við flutning eða önnur not þeirra verka, sem löggilding hans nær til, heldur nær hún til lögbannskröfunnar í heild. Verður ekki talið að slík framsetning kröfugerðar sé honum heimil.
Með hliðsjón af öllu framansögðu verður máli þessu vísað frá dómi, að hluta til án kröfu.
Með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 1. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990, verður sóknaraðilum gert að greiða varnaraðila óskipt málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 300.000 krónur.
Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Sóknaraðilar, SMÁÍS - Samtök myndrétthafa á Íslandi, SÍK - Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda, STEF - Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar og Félag hljómplötuframleiðenda, greiði varnaraðila, Fjarskiptum hf., óskipt 300.000 krónur í málskostnað.