Hæstiréttur íslands
Mál nr. 254/2005
Lykilorð
- Kröfugerð
- Lögvarðir hagsmunir
- Vinnusamningur
- Samkeppni
- Lögbann
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 1. desember 2005. |
|
Nr. 254/2005. |
Iceland Seafood International ehf. (Ragnar Halldór Hall hrl.) gegn Ingvari Eyfjörð(Kristinn Bjarnason hrl.) |
Kröfugerð. Lögvarðir hagsmunir. Vinnusamningur. Samkeppni. Lögbann. Sératkvæði.
I réðist í stöðu „vörustjóra saltfisksviðs S á Íslandi “ samkvæmt ráðningarsamningi 18. mars 2004, en sérstök samkeppnisákvæði voru í samningnum. Á síðari hluta árs 2004 voru teknar ákvarðanir um verulegar skipulagsbreytingar hjá S og sagði S starfi sínu lausu með bréfi 28. desember það ár. Fallist var á með IS að fyrirtækið hefði lögvarða hagsmuni af úrlausn um kröfu sína um viðurkenningu á því, að I hafi verið óheimilt að ráða sig í þjónustu keppinautar IS á tilteknu tímabili. Talið var, að með því að taka athugasemdalaust við launagreiðslum frá IS í nóvember og desember 2004 og eiga síðan í bréfaskiptum varðandi starfslokin við forsvarsmann IS á þann hátt sem hann gerði, hafi I fyrir sitt leyti fallist á að IS kæmi í stað S sem gagnaðili hans að ráðningarsamningnum. Þá þótti sýnt að meðan I var enn starfsmaður IS hafi hann tekið þátt í starfsemi hjá keppinauti og brotið þar með gegn ráðningarsamningnum. Samkvæmt orðalagi samkeppnisákvæðisins var skylda I samkvæmt ákvæðinu berum orðum tengd við launagreiðslur til hans. IS greiddi I ekki laun 15. janúar 2005 vegna ætlaðra brota hans á ákvæðinu, en þann dag gjaldféllu laun hans fyrir janúarmánuð. Skýra varð skuldbindingu I um að taka ekki þátt í starfsemi samkeppnisaðila IS svo, að hún hafi aðeins gilt þar til ljóst yrði að IS hefði tekið ákvörðun um að fella niður launagreiðslur til hans. Taldist I því hafa brotið gegn umræddu ákvæði með störfum sínum í þágu keppinautar IS fram til 15. janúar 2005. Var því fallist á fyrrnefnda viðurkenningarkröfu IS. Kröfu IS um staðfestingu á lögbanni vegna þeirrar kröfu var hins vegar vísað frá Hæstarétti, þar sem liðinn var sá tími sem dómkrafan laut að. Þá var krafa IS um dómsviðurkenningu á að B væri óheimilt að nýta sér atvinnuleyndarmál eða trúnaðarupplýsingar í eigu IS vísað frá héraðsdómi með vísan til 80. gr. laga um meðferð einkamála. Af þeirri niðurstöðu leiddi að synjað var kröfu IS um staðfestingu lögbanns er varðaði efni þeirrar kröfu. Sératkvæði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 16. júní 2005. Hann gerir eftirfarandi dómkröfur:
1. Að viðurkennt verði með dómi að stefnda hafi verið óheimilt að ráða sig í þjónustu Seafood Union ehf., eða halda við slíkri ráðningu, hvort heldur sem launþegi, ráðgjafi, stjórnarmaður eða sjálfstæður verktaki, eða taka á nokkurn annan hátt þátt í starfsemi þess félags frá 1. janúar 2005 til 30. júní 2005.
2. Að viðurkennt verði með dómi að stefnda sé óheimilt að nýta sér á nokkurn hátt atvinnuleyndarmál eða trúnaðarupplýsingar í eigu áfrýjanda, sem vera kynnu í vörslum stefnda eða kynnu að komast í hans vörslur.
3. Að staðfest verði með dómi lögbann er sýslumaðurinn í Reykjavík lagði á 24. janúar 2005 við því að stefndi réði sig í þjónustu Seafood Union ehf., eða héldi við slíkri ráðningu, hvort heldur sem launþegi, ráðgjafi, stjórnarmaður, eða sjálfstæður verktaki, eða tæki á nokkurn annan hátt þátt í starfsemi þess félags til 30. júní 2005.
4. Að staðfest verði með dómi lögbann er sýslumaðurinn í Reykjavík lagði á 24. janúar 2005 við því að stefndi hagnýtti sér á nokkurn hátt atvinnuleyndarmál og/eða trúnaðarupplýsingar í eigu áfrýjanda, sem vera kynnu í vörslum stefnda eða kynnu að komast í hans vörslur.
Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Dómkrafa áfrýjanda í 2. tölulið kröfugerðar hans lýtur að dómsviðurkenningu á að stefnda sé óheimilt að nýta sér atvinnuleyndarmál eða trúnaðarupplýsingar í eigu áfrýjanda. Áfrýjandi hefur ekki tilgreint hvaða atvinnuleyndarmál eða trúnaðarupplýsingar það séu sem krafa hans beinist að og þá hvort slík leyndarmál eða upplýsingar hafi komist í vörslur stefnda. Uppfyllir málatilbúnaður áfrýjanda því ekki skilyrði 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er lúta að kröfugerð og reifun máls og verður þessari dómkröfu því sjálfkrafa vísað frá héraðsdómi. Af þessari niðurstöðu leiðir að synja ber kröfu áfrýjanda í 4. tölulið kröfugerðar hans um staðfestingu lögbanns er sýslumaðurinn í Reykjavík lagði á 24. janúar 2005 og varðar efni umræddrar dómkröfu.
II.
Með 3. tölulið dómkrafna sinna krefst áfrýjandi þess að staðfest verði með dómi lögbann er sýslumaðurinn í Reykjavík lagði á 24. janúar 2005 við því að stefndi réði sig í þjónustu Seafood Union ehf., héldi við slíkri ráðningu, eða tæki þátt í starfsemi félagsins til 30. júní 2005. Nú er liðinn sá tími sem dómkrafa þessi lýtur að og hefur áfrýjandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um hana. Verður henni því vísað frá Hæstarétti.
III.
Fallist er á með áfrýjanda að hann hafi lögvarða hagsmuni af úrslausn um þá kröfu sem getur í 1. tölulið kröfugerðar hans þó að sá tími sé liðinn sem krafa hans tekur til. Málavöxtum og málsástæðum aðila er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar kemur fram réðist stefndi í stöðu „vörustjóra saltfisksviðs SÍF hf. á Íslandi“ samkvæmt ráðningarsamningi 18. mars 2004, er tók gildi 1. maí það ár. Í 3. gr. samningsins voru sérstök ákvæði „um viðskiptaleyndarmál og samkeppnishömlur“ og eru þau ákvæði tekin orðrétt upp í héraðsdómi, auk þess sem þar eru rakin ýmis önnur ákvæði hans. Fram er komið að á síðari hluta árs 2004 voru teknar ákvarðanir um verulegar skipulagsbreytingar hjá SÍF hf. er fólust meðal annars í að hefðbundin sölustarfsemi með sjávarafurðir skyldi verða sjálfstæð rekstrareining innan samstæðunnar og var áfrýjanda, sem var dótturfélag SÍF hf., ætlað að sinna því hlutverki. Stefndi þáði laun frá áfrýjanda fyrir nóvember og desember 2004 án þess að gera við það athugasemdir.
Stefndi sagði starfi sínu lausu „sem forstöðumaður saltfisksviðs“ með bréfi 28. desember 2004. Bréfið var ekki stílað á tiltekinn viðtakanda en afhent Erni Viðari Skúlasyni fyrirsvarsmanni áfrýjanda sem ritaði undir móttöku þess daginn eftir. Í kjölfar uppsagnar stefnda áttu sér stað bréfaskipti er lutu að starfslokum hans og rakin eru í héraðsdómi. Voru bréfin til stefnda rituð af Erni Viðari fyrir hönd áfrýjanda, án þess að stefndi hafi gert sérstakar athugasemdir við það í bréfum sínum, sem hann stílaði á „SÍF.../Iceland Seafood“.
Með því að taka fyrst athugasemdalaust við framangreindum launagreiðslum frá áfrýjanda og eiga síðan í bréfaskiptum varðandi starfslokin við forsvarsmann hans á þann hátt sem lýst var telst stefndi fyrir sitt leyti hafa fallist á að áfrýjandi kæmi í stað SÍF hf. sem gagnaðili hans að ráðningarsamningnum. Samkvæmt þessu verður fallist á niðurstöðu héraðsdóms um þetta atriði.
Upplýst er að stefndi var skráður prókúruhafi fyrir fyrirtækið Seafood Union ehf. frá 3. til 5. janúar 2005. Þótt prókúra hans hafi verið afturkölluð síðarnefndan dag ber þetta órækt vitni þess að meðan stefndi var enn starfsmaður áfrýjanda tók hann þátt í starfsemi hjá þessu fyrirtæki og braut þar með gegn skyldum sínum samkvæmt ráðningarsamningnum.
Í upphafsákvæði 3. gr. ráðningarsamningsins var tekið fram að samkeppnishömlur greinarinnar giltu á meðan stefndi væri í starfi og meðan uppsagnarfrestur stæði yfir. Í D lið greinarinnar sagði svo: „Með því að láta af störfum, er átt við þá stund er vörustjóri saltfisksviðs hættir að taka laun hjá fyrirtækinu, án tillits til þess hvort hann hættir störfum áður.“ Áfrýjandi greiddi stefnda ekki laun 15. janúar 2005, en þann dag féllu laun hans fyrir janúarmánuð í gjalddaga. Skýra verður skuldbindingu stefnda um að taka ekki þátt í starfsemi samkeppnisaðila áfrýjanda svo að hún hafi samkvæmt þessu aðeins gilt þar til ljóst varð að áfrýjandi hafði tekið ákvörðun um að fella niður launagreiðslur til hans. Samkvæmt þessu telst stefndi hafa brotið gegn umræddri samningsskuldbindingu sinni með störfum sínum í þágu Seafood Union ehf. fram til 15. janúar 2005. Verður því fallist á dómkröfu áfrýjanda samkvæmt 1. tölulið kröfugerðar hans fram til þess tíma á þann hátt sem í dómsorði greinir.
Miðað við úrslit málsins verður hvor aðili um sig látinn bera sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Vísað er frá héraðsdómi kröfu áfrýjanda, Iceland Seafood International ehf., um að viðurkennt verði að stefnda, Ingvari Eyfjörð, sé óheimilt að hagnýta sér á nokkurn hátt atvinnuleyndarmál eða trúnaðarupplýsingar í eigu áfrýjanda, sem vera kynnu í vörslum stefnda eða kynnu að komast í hans vörslur.
Synjað er kröfu áfrýjanda um staðfestingu lögbanns er sýslumaðurinn í Reykjavík lagði á 24. janúar 2005 við því að stefndi hagnýtti sér á nokkurn hátt atvinnuleyndarmál og/eða trúnaðarupplýsingar í eigu áfrýjanda, sem vera kynnu í vörslum stefnda eða kynnu að komast í hans vörslur.
Vísað er frá Hæstarétti kröfu áfrýjanda um að staðfest verði með dómi lögbann er sýslumaðurinn í Reykjavík lagði á 24. janúar 2005 við að stefndi réði sig í þjónustu Seafood Union ehf., eða héldi við slíkri ráðningu, hvort heldur sem launþegi, ráðgjafi, stjórnarmaður, eða sjálfstæður verktaki, eða tæki á nokkurn annan hátt þátt í starfsemi þess félags til 30. júní 2005.
Viðurkennt er að stefnda hafi verið óheimilt að taka þátt í starfsemi Seafood Union ehf. frá 1. janúar 2005 til 15. janúar 2005.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Sératkvæði
Ólafs Barkar Þorvaldssonar
Ég er sammála rökstuðningi og niðurstöðu meirihluta dómara samkvæmt I. og II. kafla atkvæðis þeirra. Þá er ég sammála meirihlutanum um að áfrýjandi hafi lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um þá kröfu sem getur í 1. tölulið kröfugerðar hans þótt sá tími sé liðinn sem krafa hans tekur til. Ég er hins vegar ósammála niðurstöðu meirihlutans að öðru leyti.
Eins og rakið er í atkvæði meirihlutans var stefndi ráðinn í stöðu „vörustjóra saltfisksviðs SÍF hf. á Íslandi“ samkvæmt ráðningarsamningi 18. mars 2004, er tók gildi 1. maí það ár. Eins og þar greinir voru í 3. gr. samningsins sérstök ákvæði „um viðskiptaleyndarmál og samkeppnishömlur“ sem tekin voru orðrétt upp í hinum áfrýjaða dómi, auk þess sem þar eru rakin ýmis önnur ákvæði samningsins. Í 2. gr. hans kom meðal annars fram að stefndi væri ábyrgur gagnvart framkvæmdastjóra markaðs- og sölusviðs SÍF hf. og bæri ábyrgð á uppbyggingu, þróun og framkvæmd markaðs- og sölumála fyrirtækisins á sviði saltfisksafurða. Jafnframt skyldi hann vinna náið með „öllum dótturfélögum SÍF samstæðunnar.“ Undir samninginn ritaði Örn Viðar Skúlason „framkvæmdastjóri markaðs- og sölusviðs SÍF hf.“ og stefndi sem „vörustjóri saltfisksviðs SÍF hf.“ Síðari hluta árs 2004 munu hafa verið teknar ákvarðanir um verulegar skipulagsbreytingar hjá SÍF hf. er fólust meðal annars í flutningi innkaupa- og sölustarfsemi félagsins til áfrýjanda sem var dótturfélag SÍF hf. Stefndi kveður að sér hafi ekki hugnast þær breytingar. Því hafi hann sagt upp störfum hjá SÍF hf. Byggir hann á því að ráðningarsamband hafi ekki stofnast milli hans og áfrýjanda. Hinn 28. desember 2004 ritaði stefndi bréf þar sem hann sagði lausu starfi sínu „sem forstöðumaður saltfisksviðs“ frá og með þeim degi. Bréfið var ekki stílað á tiltekinn viðtakanda, en afhent nefndum Erni Viðari sem ritaði undir móttöku þess. Í kjölfar uppsagnar stefnda urðu bréfaskipti sem lutu að ýmsum þáttum varðandi starfslok hans og rakin eru í héraðsdómi. Voru bréfin til stefnda rituð af Erni Viðari fyrir hönd áfrýjanda, án þess að stefndi hafi gert sérstakar athugasemdir við það í bréfum sínum, sem hann stílaði á „SÍF.../Iceland Seafood“. Eins og undirritun ráðningarsamnings stefnda við SÍF hf. 18. mars 2004 var háttað og með hliðsjón af efni 2. gr. hans verður ekki ráðið af bréfaskiptum þessum að stefndi hafi samkvæmt þeim viðurkennt að hann væri starfsmaður áfrýjanda. Hins vegar er fram komið að stefndi þáði athugasemdalaust launagreiðslur frá áfrýjanda fyrir nóvember og desember 2004. Af þeirri ástæðu fellst ég á með meirihluta dómsins að stefndi hafi viðurkennt að ráðningarsamband hafi komist á milli málsaðila.
Áfrýjandi reisir dómkröfu sína samkvæmt 1. tölulið kröfugerðar sinnar á framangreindum ákvæðum 3. gr. í ráðningarsamningi stefnda og SÍF hf. 18. mars 2004. Þótt telja beri að stofnast hafi til ráðningarsambands milli málsaðila með þeim hætti sem áður er nefnt, leiðir það ekki sjálfkrafa til þess að áfrýjandi geti, sem nýr vinnuveitandi stefnda, byggt rétt sinn á hinum sérstöku íþyngjandi ákvæðum 3. gr. ráðningarsamnings stefnda og SÍF hf. Stefndi hefur andmælt þeirri fullyrðingu áfrýjanda að hann hafi undirgengist slík samkeppnisákvæði gagnvart áfrýjanda. Í gögnum málsins er að finna samhljóða skriflegar yfirlýsingar, gefnar í desember 2004, frá tveimur öðrum tilgreindum starfsmönnum SÍF hf., sem svipað var ástatt um og hjá stefnda, þar sem þeir staðfesta sérstaklega að þeir hafi verið upplýstir „um að innkaupa- og sölustarfsemi SÍF hf. hafi verið færð til Iceland Seafood International ehf.,“ og jafnframt að þeim hafi verið „gerð grein fyrir því að við þessa breytingu færðust ráðningarsamningar við starfsfólk SÍF hf. til Iceland Seafood International ehf.“ Fram er komið að stefndi ritaði hins vegar ekki undir sams konar yfirlýsingu og kveður hann ástæðuna hafa verið þá að hann hafi neitað að gera það er farið var fram á það. Þegar litið er til síðastgreindra atriða verður ekki talið að áfrýjandi hafi sýnt nægilega fram á að stefndi hafi undirgengist gagnvart honum þau sérstöku ákvæði um samkeppnishömlur sem voru í ráðningarsamningi áfrýjanda og fyrri vinnuveitanda hans. Af þeirri ástæðu ber að sýkna stefnda af kröfu áfrýjanda samkvæmt 1. tölulið kröfugerðar hans.
Samkvæmt öllu framanrituðu er ég sammála niðurstöðum sem fram koma í I. og II. kafla atkvæðis meirihluta dómara, auk þess sem ég tel að sýkna beri stefnda af kröfu áfrýjanda samkvæmt 1. tölulið kröfugerðar hans og staðfesta ákvæði héraðsdóms um málskostnað, en fella málskostnað fyrir Hæstarétti á áfrýjanda.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. maí 2005.
Mál þetta var höfðað 31. janúar 2005 og dómtekið 13. þ. m.
Stefnandi er Iceland Seafood International ehf., Fornubúðum 5, Hafnarfirði. Stefndi er Ingvar Eyfjörð, Þrastarási 26, Hafnarfirði.
Stefnandi gerir eftirtaldar dómkröfur:
1. Að viðurkennt verði með dómi að stefnda sé óheimilt að ráða sig í þjónustu Seafood Union ehf., kt. 450771-1479, eða halda við slíkri ráðningu, hvort heldur sem launþegi, ráðgjafi, stjórnarmaður eða sjálfstæður verktaki, eða taka á nokkurn annan hátt þátt í starfsemi þess til 30. júní 2005.
2. Að viðurkennt verði með dómi að stefnda sé óheimilt að hagnýta sér á nokkurn hátt atvinnuleyndarmál og/eða trúnaðarupplýsingar í eigu stefnanda sem vera kunna í vörslu stefnda eða kunna að komast í hans vörslur.
3. Að staðfest verði með dómi lögbann er sýslumaðurinn í Reykjavík lagði hinn 24. janúar 2005 við því að stefndi réði sig í þjónustu Seafood Union ehf., kt. 450771-1479, eða héldi við slíkri ráðningu, hvort heldur sem launþegi, ráðgjafi stjórnarmaður eða sjálfstæður verktaki, eða tæki á nokkurn annan hátt þátt í starfsemi þess til 30. júní 2005.
4. Að staðfest verði með dómi lögbann er sýslumaðurinn í Reykjavík lagði hinn 24. janúar 2005 við því að stefndi hagnýtti sér á nokkurn hátt atvinnuleyndarmál og/eða trúnaðarupplýsingar í eigu stefnanda sem kynnu að vera í vörslu stefnda eða kynnu að komast í hans vörslur.
5. Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað.
Stefndi krefst þess að viðurkenningarkröfum stefnanda og kröfu um staðfestingu lögbanns verði hafnað og að stefnanda verði gert að greiða sér málskostnað.
Í upphafi krafðist stefndi þess að sakarefni málsins yrði skipt upp þannig að það yrði fyrst í stað aðeins sótt og varið um atriði sem varða kröfu stefnanda um staðfestingu lögbanns þess sem lagt var á stefnda. Í þinghaldi 15. mars sl. kunngerði dómari þá ákvörðun sína að beita ekki heimild til að skipta sakarefni. Stefndi krafðist þess einnig að viðurkenningarkröfum stefnanda yrði vísað frá dómi. Af hálfu stefnanda var þeirri kröfu mótmælt. Munnlegur málflutningur um ágreiningsefni þetta fór fram 15. apríl sl. og var kröfunni hafnað með úrskurði 28. s.m.
Í stefnu segir að stefnandi reki starfsemi sem falin sé í inn- og útflutningi á sjávarafurðum. Stefndi hafi gegnt stöðu vörustjóra saltfisksviðs fyrir stefnanda fyrir stefnanda og hafi ráðningarsamningar hans og annarra einstaklinga, sem störfuðu við sölu- og útflutningsdeild SÍF hf., verið fluttir yfir til stefnanda.
Frammi liggur ráðningarsamningur dags. 18. mars 2004. Þar segir í 1. gr. að SÍF ráði stefnda í stöðu vörustjóra saltfisksviðs SÍF hf. á Íslandi og sé aðalvinnustaður starfsmanns nú Fornubúðir 5, Hafnarfirði.
Í 3. gr. ráðningarsamningsins “um viðskiptaleyndarmál og samkeppnishömlur”:
“Meðan vörustjóri frystisviðs er í starfi og á meðan uppsagnarfrestur varir gilda eftirfarandi samkeppnishömlur:
A. Vörustjóra saltfisksviðs er óheimilt án skriflegs samþykkis frá stjórn SÍF hf. að taka þátt í starfsemi sem rekin er í sama tilgangi og SÍF eða í beinni samkeppni við SÍF hf.
B. Vörustjóra saltfisksviðs er óheimilt að ráða sig í vinnu hjá eða vinna fyrir samkeppnisfyrirtæki, hvort heldur er sem stjórnarmaður eða ráðgefandi starfsmaður.
C. Vörustjóri saltfisksviðs lýsir því yfir og gefur um það drengskaparloforð að þegar hann lætur af störfum muni hann ekki taka með sér nein umboð eða viðskiptatengsl sem tengjast fyrirtækinu eða SÍF hf. á þeim tíma er hann lætur af störfum.
D. Með því að láta af störfum er átt við þá stund er vörustjóri saltfisksviðs hættir að taka laun hjá fyrirtækinu, án tillits til þess hvort hann hættir störfum áður.”
Í 4. gr. segir að ráðningarsamningurinn taki gildi 1. maí 2004. Hann sé ótímabundinn og gagnkvæmur uppsagnarfrestur sé 6 mánuðir. Aðilum samningsins sé heimilt að segja honum fyrirvaralaust upp brjóti annar hvor aðilinn samninginn í verulegum atriðum.
Í 6. gr. ráðningarsamningsins er kveðið á um launakjör og m.a. að laun skuli greiðast 15. hvers mánaðar.
Í 11. gr. samningsins er kveðið á um gerðardóm og segir þar að sérhver ágreiningur vegna hans skuli lagður fyrir Gerðardóm Verslunarráðs Íslands.
Samkvæmt framlögðum launaseðlum greiddi stefnandi stefnda laun fyrir mánuðina nóvember og desember 2004.
Með bréfum, öllum dags. 28. desember 2004, sögðu stefndi, Björgvin Gestsson, Kristján Jóhannesson og Sigurður Jóhannsson ásamt þremur öðrum starfsmönnum stefnanda, upp störfum sínum frá og með dagsetningu bréfanna. Mál stefnanda gegn öllum framangreindum mönnum eru rekin samhliða fyrir dóminum og eru atvik hin sömu að undanskildu því er tekur að nokkru til grundvallar samningssambands og stöku ákvæða ráðningarsamninga. Því er haldið fram af hálfu stefnanda, ómótmælt af hálfu hinna stefndu, að þeir hafi haft í hyggju að ráðast til starfa hjá nýju fyrirtæki, Seafood Union ehf. Samkvæmt hlutafélagaskrá er dagsetning samþykkta félagsins 4. janúar 2005. Um tilgang félagsins segir að hann sé “inn- og útflutningur sjávarafurða, kaup og sala sjávarafurðir, umboðsviðskipti með sjávarafurðir, umboðsviðskipti með sjávarafurðir, rekstur fasteigna og lánastarfsemi.” Engra framangreindra manna er getið sem stofnenda, stjórnarmanna, framkvæmdastjóra eða prókúruhafa. Þó var stefndi tilkynntur sem prókúruhafi 3. janúar 2005 til fyrirtækjaskrár RSK en afturköllun prókúru hans var síðan tilkynnt 5. s.m.
Uppsagnarbréf stefnda ber ekki með sér að hverjum það beinist en auk undirritunar stefnda er það undirritað af Erni Viðari Skúlasyni, sem á þeim tíma var framkvæmdastjóri stefnanda, og þar undir dagsetningin 29.12.2004.
Í bréfi stefnanda, dags. 3. janúar 2005, til SÍF hf./Iceland Seafood, segir:
“Með bréfi sem móttekið var þann 28. desember sl. var tilkynnt að ég segði upp starfi mínu. Á fundi með þér sem haldinn var þann 30. desember sl. tilkynntir þú að breytingar yrðu á starfi mínu og starfsaðstöðu á uppsagnarfresti sem hófst þann 1. sl. Þar á meðal var þess krafist að ég skilaði þeim búnaði sem fyrirtækið hafði látið mér í té til þess að sinna starfi mínu og hef ég þegar orðið við þeirri kröfu.
Á almennum starfsmannafundi þann 29.12.04 tilkynntir þú að mér væri ekki heimill aðgangur að starfstöðvum SIF/Iceland Seafood. Þá hefur þú ásamt Jakob Sigurðssyni forstjóra Sif hf. komið á framfæri gegnum fjölmiðla að starfskrafta minna sé ekki óskað.
Ég lít svo á að með framangreindri háttsemi hafi fyrirtækið í raun rift ráðningarsamningi við mig.
Í samræmi við ofangreint tilkynnist að ég lít svo á að vinnuskyldu minni við SIF hf./Iceland Seafood sé lokið.”
Í bréfi Arnar Viðars Skúlasonar, f.h. stefnanda til stefnda, dags. 4. janúar 2005, er vísað til uppsagnarbréfs hans og framangreinds bréfs dags. 3. janúar 2005. Í bréfinu er því hafnað að forsvarsmenn félagsins hafi rift ráðningarsamningi við stefnda. Vísað er til 4. gr. um að uppsagnarfrestur sé sex mánuðir og hafi byrjað að líða 1. janúar. Vakin er athygli á því að samkvæmt meginreglum vinnuréttar haldi ráðningarsamningur stefnda við stefnanda fullu gildi meðan uppsagnarfrestur vari, þ.m.t. skyldur hans um trúnað við félagið og bann við að taka þátt í starfsemi sem teljist í samkeppni við það. Þá er bent á að samkvæmt 3. gr. ráðningarsamningsins gefi stefndi drengskaparloforð um að taka ekki með sé nein umboð eða viðskiptatengsl, sem tengist félaginu eða dótturfélögum, er hann láti af starfi sínu svo og að samkvæmt sömu grein sé honum óheimilt að taka þátt í starfsemi sem teljist í samkeppni við félagið og gildi samkeppnisbannið meðan uppsagnarfrestur vari. Uppsögn stefnda, ásamt uppsögnum annarra starfsmanna félagsins sem borist hafi á sama tíma, komi félaginu í opna skjöldu og sé til þess fallin að valda því tjóni. Fjölmiðlar hafi flutt fréttir um að stefndi hafi í hyggju, ásamt öðrum starfsmönnum félagsins, að hefja störf í beinni samkeppni við félagið en slíkt mundi brjóta gegn samnings- og trúnaðarskyldum hans við félagið. Að lokum segir í bréfinu: “Þess er óskað, með tilliti til alls ofangreinds, að þér komið til fundar við forsvarsmenn félagsins á skrifstofu þess miðvikudaginn 5. janúar kl. 15.30 til að ræða fyrirkomulag vinnuframlags yðar í uppsagnarfresti svo og aðra þætti starfsloka yðar. Óskar félagið þess að samkomulag náist um þessa þætti svo ekki komi til ágreinings sem hvorugum aðilanum er til framdráttar. Tekið skal fram að, þar til samkomulag hefur náðst um annað, mun félagið ekki óska eftir vinnuframlagi yðar í uppsagnarfresti.”
Í svarbréfi stefnda, til SÍF/Iceland Seafood, dags. 5. janúar 2005, segir að eins og atvikum sé háttað telji hann rétt að forsvarsmenn félagsins geri skriflega grein fyrir tillögum að samkomulagi um starfslok sín og þar á meðal um hugsanlegt vinnuframlag.
Framangreindu bréfi svarar framkvæmdastjóri stefnanda, Örn Viðar Skúlason, með bréfi 5. janúar 2005. Þar er ítrekað að ráðningarsamningur stefnda við félagið sé enn í fullu gildi. Félagið lýsi því yfir að það sé tilbúið að greiða stefnda laun samkvæmt ráðningarsamningi út uppsagnarfrest án þess að farið verði fram á vinnuframlag hans að öðru leyti en því er varðar eðlilegan frágang á þeim verkefnum sem hann hafi sinnt hjá félaginu að því tilskyldu að yfirlýsing berist frá honum um að hann muni ekki taka á neinn hátt þátt í starfsemi sem teljist vera í samkeppni við félagið á uppsagnarfresti. Ennfremur að því tilskyldu að hann lýsi yfir að hann virðið að fullu ákvæði ráðningarsamnings um trúnað. Berist slík yfirlýsing frá stefnda fyrir kl. 10 föstudaginn 7. janúar telji félagið að málinu geti orðið lokið með samkomulagi um ofangreind atriði og um önnur atriði sem varða starfslok stefnda. Berist slík yfirlýsing ekki líti félagið svo á að stefndi hafi þegar, eða hafi í hyggju á uppsagnarfresti, að taka þátt í starfsemi sem teljist vera í samkeppni við félagið í trássi við ráðningarsamning stefnda.
Í frétt Morgunblaðsins 6. janúar 2005 er sagt frá fréttatilkynningu SÍF. Þar segir m.a. að SÍF hafi ákveðið að leggja fram lögbannsbeiðni vegna starfsemi nýs fisksölufyrirtækis sem átta fyrrverandi starfsmenn hafi stofnað en þeir hafi hætt störfum hjá félaginu rétt fyrir áramót. Í tilkynningunni segir að SÍF og Iceland Seafood telji að tímasetning og umgjörð uppsagna starfsmanna sé með þeim hætti að markmiðið hafi verið að reyna að skaða félögin. Í ljósi þeirra skuldbindinga, sem viðkomandi starfsmenn hafi gagnvart félaginu, hafi verið ákveðið að fara fram á lögbann við því að starfsmenn félagsins brjóti gegn ráðningarsamningum sínum með því að hefja samkeppni við félagið. Ennfremur hafi verið ákveðið að óska eftir lögreglurannsókn vegna rökstudds gruns um að eigur og trúnaðarupplýsingar félagsins hafi verið misnotaðar í þessu ferli.
Stefnandi krafðist þess við sýslumanninn í Reykjavík 17. janúar 2005 að hann legði lögbann við því að stefndi réði sig í þjónustu Seafood Union ehf., kt. 450771-1479, eða héldi við slíkri ráðningu, hvort heldur sem launþegi, ráðgjafi, stjórnarmaður eða sjálfstæður verktaki eða tæki á nokkur annan hátt þátt í starfsemi þess til 30. júní 2005; einnig við því að hann hagnýtti sér á nokkurn hátt atvinnuleyndarmál og/eða trúnaðarupplýsingar í eigu gerðarbeiðanda sem vera kunni í vörslu gerðarþola eð kunni að komast í hans vörslur. Sýslumaðurinn í Reykjavík tók beiðnina fyrir og var stefnanda gert að setja tryggingu að upphæð 1.000.000 króna fyrir hugsanlegu tjóni af gerðinni. Af hálfu gerðarþola voru lögð fram skrifleg mótmæli við lögbannsbeiðninni. Sýslumaður féllst á lögbannsbeiðni stefnanda þann 24. janúar 2005. Í rökstuðningi hans segir m.a. að gögn, sem lögð hafi verið fram í málinu, bendi til þess að gerðarþoli hafi litið svo á að hann væri starfsmaður gerðarbeiðanda enda þótt bein yfirlýsing frá honum um það liggi ekki fyrir. Þau gögn, sem lögð hafi verið fram um að gerðarþoli hafi í hyggju að hefja störf hjá samkeppnisaðila gerðarbeiðanda, þyki gera það sennilegt að svo sé og muni þannig brjóta gegn lögvörðum rétti gerðarbeiðanda þann tíma sem samkeppnisbann vari samkvæmt ráðningarsamningi. Ekki var talið liggja ljóst fyrir að hagsmunir gerðarbeiðanda væru nægilega tryggðir með refsingu eða skaðabótum. Þá var ekki talið að ákvæði í ráðningarsamningi um gerðardóm kæmi í veg fyrir að gerðarbeiðandi gæti nýtt sér lögbannsúrræðið.
II
Málsástæður stefnanda:
Stefndi var starfsmaður stefnanda og er um það einkum vísað til þess að af bréfaskriftum aðila og að stefndi ræddi starfslok sín við framkvæmdastjóra stefnanda megi sjá að hann taldi sig sjálfur vera starfsmann stefnanda.
Þegar stefndi lét skyndilega af störfum hjá stefnanda lýsti hann því yfir við forsvarsmenn stefnanda að hann hygðist taka þátt í starfsemi í samkeppni við stefnanda og í fjölmiðlum hafi verið sagt frá því að stefndi hygðist hefja störf hjá einkahlutafélaginu Seafood Union sem starfi í beinni samkeppni við stefnanda. Þá hafi stefndi ekið um í bifreiðinni EB-998 sem nefnt fyrirtæki hafi tekið á rekstrarleigu.
Athafnir stefnda, sem miða að því að hefja eða halda áfram starfsemi sem telst í samkeppni við stefnanda feli í sér skýlaus brot á ákvæðum um samkeppnisbann í ráðningarsamningi milli stefnanda og stefnda.
Stefnandi hefur upplýsingar um að í einhverjum tilfellum hafi atvinnuleyndarmál og trúnaðarupplýsingar í eigu stefnanda verið sendar af tölvupóstföngum ofangreindra einstaklinga hjá stefnanda, í tölvupóstföng í einkaeigu einstaklinganna, gagngert í því skyni að þær megi nýta í þágu samkeppnisaðilans Seafood Union ehf. Stefnda sé, samkvæmt 27. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993, óheimilt að veita upplýsingar um eða hagnýta sér á nokkurn hátt atvinnuleyndarmál stefnanda án hans samþykkis. Stefnandi telur einnig að framferði stefnda feli í sér gagnvart stefnanda gróf brot á góðum viðskiptaháttum og stangist þannig á við 20. gr. samkeppnislaga. Stefndi hafi, á þeim tíma er hann starfaði hjá SÍF hf. og stefnanda, viðað að sér mikilli sérþekkingu og sé óþolandi fyrir stefnanda að vera settur í þá stöðu að hann geti komið allri þeirri sérþekkingu til Seafood Union ehf. án þess að það félag þurfi að kosta öðru til en að ráða stefnda og fáeina aðra starfsmenn til starfs.
Augljóst er að sú þekking, sem fór frá stefnanda þegar umræddir starfsmenn gegnu þar út, varðar stefnanda afar miklu. Þar eru í húfi mikilsverð viðskiptasambönd, upplýsingar um gerða samninga við seljendur sjávarfangs og kaupendur svo og þekking á gangi mála í þessari grein atvinnulífsins. Yfirvofandi tjón stefnanda af starfi stefnda fyrir Seafood Union ehf. er svo umfangsmikið að reglur um skaðabætur og refsiviðurlög samkeppnislaga tryggja hagsmuni hans engan veginn fyrir því tjóni sem stefnandi verður fyrirsjáanlega fyrir vegna réttarbrota stefnda gagnvart honum.
Með vísun til ofangreinds telur stefnandi sýnt að það séu mikilsverðir lögvarðir hagsmunir hans að athöfnum stefnda, sem miði að því að hefja eða halda áfram samkeppnisrekstri við stefnanda svo og að nýta sér atvinnuleyndarmál og trúnaðarupplýsingar í eigu hans, verði afstýrt og að dómurinn staðfesti því lögbann það sem lagt hefur verið við umræddum athöfnum, sbr. 1. mgr. 36. gr., sbr. 1. mgr. 24. gr., laga nr. 31/1990.
Um lagastoð fyrir viðurkenningarkröfum sínum vísar stefnandi til meginreglna samningaréttar og vinnuréttar um að gerða samninga beri að efna, 37. gr. laga nr. 7/1936 og 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991.
III
Málsástæður stefnda:
Á því er byggt að allan vafa um efnisinnihald bannákvæða sem þeirra er um ræðir í málinu og feli í sér skerðingu á atvinnufrelsi manna beri að túlka starfsmanni í hag og ekki sé hægt að túlka efni þeirra víðtækar en beint orðalag veiti efni til.
Stefndi tók aldrei á sig neinar skyldur gagnvart stefnanda. Hann var ráðinn til starfa hjá SÍF hf. Hann samþykkti ekki að skyldur samkvæmt ráðningarsamningi yfirfærðust til stefnanda og honum barst engin tilkynning um að stefnandi hefði tekið við ráðningarsamningi hans þannig að hann væri laus undan skyldum við SÍF hf. Þegar af þessari ástæðu bar að synja um umbeðið lögbann.
Stefndi fékk ekki greidd laun sem bar að greiða honum samkvæmt ráðningarsamningi þann 15. janúar 2005. Verður því að líta svo á að stefnandi hafi rift ráðningarsamningi sínum við stefnda og að stefndi hafi ekki verið lengur í starfi hjá stefnanda þegar lögbanns var krafist. Þar sem ráðningarslit höfðu orðið og stefnandi greiddi stefnda ekki laun giltu samkeppnishömlur 3. gr. ráðningarsamningsins ekki lengur. Af þessari ástæðu bar sýslumanni að synja um umbeðið lögbann enda gat stefnandi ekki viðhaldið skyldum stefnda samkvæmt 3. gr. nema efna ráðningarsamninginn að sínu leyti.
Ákvæði a-liðar 3. gr. ráðningarsamningsins verði ekki túlkað öðru vísi en þannig að með því sé lagt bann við því að stefndi megi eiga hlut í eða taka þátt í samkeppnisrekstri á þann hátt að hann njóti hagnaðar eða þoli tap af honum.
Ákvæði b-liðar 3. gr. ráðningarsamningsins verði ekki túlkað þannig að það leggi höft á heimild stefnda til að ráða sig sem almennan starfsmann, þ.e. launþega, hjá samkeppnisaðila, eða taka í verktöku að sér verkefni fyrir slíkan aðila.
Með 11. gr. ráðningarsamningsins hafi aðilar skuldbundið sig til að leggja sérhvern ágreining vegna samningsins fyrir Gerðardóm Verslunarráðs Íslands og því hafi sýslumann brostið heimild til að fjalla um þann ágreining sem lögbannskrafan varðaði.
Krafa stefnanda þess efnis að lagt yrði lögbann við því að stefndi hagnýtti sér á nokkurn hátt atvinnuleyndarmál og/eða trúnaðarupplýsingar í eigu stefnanda, sem kynnu að vera í vörslum stefnda eða kæmust í hans vörslur, án þess að skilgreint sé hvaða leyndarmál eða trúnaðarupplýsingar um sé að ræða, sé ekki nægilega skýr, sbr. 2. tl. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 31/1990. Í þessu sambandi verði einnig að hafa í huga að stefndi hafði ekki hafið störf vörustjóra frystisviðs og hafði ekki verið í því starfi áður hjá stefnanda eða SÍF hf. Vandséð sé því hvaða atvinnuleyndarmál eða trúnaðarupplýsingar hann ætti að hafa komist yfir í starfi sem þörf yrði á að leggja lögbann við að hann hagnýtti sér. Sú háttsemi, sem hér um ræði, fari gegn 20. gr. og 27. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993. Lögbann við slíkri háttsemi hafi því enga sjálfstæða þýðingu þar sem brot gegn lögbanninu og bannreglu samkeppnislaga hafi sömu réttarverkanir, þ.e. eftir atvikum refsingu og/eða skaðabótaskyldu. Reglur refsiréttar og skaðabótaréttar hafi veitt hagsmunum, sem stefnandi leitaði lögbanns við, nægilega vernd og því hafi borið að synja um hið umkrafða lögbann.
Það, hvenær stefndi hæfi störf hjá nýjum vinnuveitanda hafi átt að ráðast af því hvernig starfslokum hans hjá stefnanda yrði háttað. Engin marktæk gögn hafi verið lögð fram því til stuðnings að stefndi tæki þátt í starfsemi Seafood Union ehf. sem hluthafi eða að í fórum hans væru atvinnuleyndarmál eða trúnaðarupplýsingar í eigu stefnanda sem stefndi væri byrjaður að hagnýta sér eða sem yfirvofandi væri að hann hagnýtti sér.
Með vísun til framanritaðs er því haldið fram af hálfu stefnda að því fari fjarri að uppfyllt hafi verið skilyrði 24. gr. laga nr. 31/1990 til þess að fallist yrði á lögbannsbeiðni stefnanda á hendur stefnda.
Krafa um sýknu af viðurkenningarkröfum stefnanda er byggð á sömu meginsjónarmiðum og byggt er á varðandi þá kröfu að hafna beri staðfestingu lögbannsins.
IV
Það er ekki rétt, sem haldið er fram af hálfu stefnanda, að stefndi hafi látið skyndilega af störfum hjá stefnanda heldur sagði hann upp störfum eins og honum var heimilt.
Með því að beina uppsögn til stefnanda og með framangreindum bréfaskiptum í framhaldi af henni við framkvæmdastjóra stefnanda hefur stefndi viðurkennt samningssamband við stefnanda samkvæmt ráðningarsamningi frá 18. mars 2004.
Kröfugerð stefnanda í máli þessu grundvallast á ráðningarsamningnum, einkum ákvæði 3. gr. hans, þótt jafnframt sé að hluta til um rökstuðning vísað til ákvæða samkeppnislaga en á refsi- og bótaábyrgð stefnda á grundvelli þeirra kynni að reyna síðar ef efni yrði til. Engin ástæða verður fundin fyrir því að nú verði fengin viðurkenning á lögbundnum rétti stefnanda að því leyti.
Stefnandi greiddi stefnanda ekki laun 15. janúar sl. né heldur eftir það. Með því að efna ekki meginsamningsskyldu sína sleit stefnandi ráðningarsamninginn við stefnda og á ekki frá því tímamarki réttmæta kröfu til þess að hann efni skyldur samkvæmt samningnum.
Samkvæmt þessu er niðurstaða dómsins sú að sýkna beri stefnda af kröfum stefnanda. Dæma ber stefnanda til að greiða stefnda málskostnað sem er ákveðinn 230.000 krónur.
Mál þetta dæmir Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Stefndi, Ingvar Eyfjörð, er sýkn af kröfum stefnanda, Iceland Seafood International ehf.
Stefnandi greiði stefnda 230.000 krónur í málskostnað.