Hæstiréttur íslands
Mál nr. 589/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarvistun
|
|
Fimmtudaginn 11. september 2014. |
|
Nr. 589/2014. |
A (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) gegn Velferðarsviði
Reykjavíkurborgar (Kristbjörg Stephensen hrl.) |
Kærumál. Nauðungarvistun.
Staðfest var
niðurstaða héraðsdóms um nauðungarvistun A á sjúkrahúsi, sem ákveðin hafði
verið af innanríkisráðuneytinu.
Dómur
Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. september 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. september 2014 þar sem staðfest var ákvörðun innanríkisráðuneytisins 22. ágúst 2014 um að sóknaraðili skyldi vistast á sjúkrahúsi í allt að 21 dag. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að ákvörðun innanríkisráðuneytisins verði felld úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr., sbr. 4. mgr. 31. gr., lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun talsmanns sóknaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 125.500 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3.
september 2014.
Með
beiðni dags. 1. september 2014 hefur A, kt. [...], , [...],
farið þess á leit að felld verði úr gildi ákvörðun innanríkisráðuneytisins frá
22. ágúst 2014 um að hann skuli vistast á sjúkrahúsi í allt að 21 dag.
Í
málinu liggur fyrir læknisvottorð B geðlæknis á geðdeild Landspítala
háskólasjúkrahúss, dags. 22. ágúst 2014. Fram kemur að sóknaraðili hafi verið
lagður inn á bráðageðdeild 32C þann 21. ágúst 2014 vegna geðrofseinkenna. Hann
hafi komið í lögreglufylgd á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi. Sóknaraðili
hafi verið eftirlýstur vegna sjálfsvígsskilaboða á Facebook
og hafi fundist á hóteli í [...]. Sóknaraðili hafi verið með greininguna
geðhvörf og hafi síðast legið inni á geðdeild Landspítalans á árinu 2006,
nauðungarvistaður vegna oflætis. Sóknaraðili hafi verið í eftirliti og meðferð
hjá C geðlækni, en hætt á lyfjameðferð í nóvember 2013 og verið í vaxandi
örlyndi síðastliðna mánuði. Hann hafi farið á mikið flug við undirbúning [...]
og verið kominn í hvíldarinnlögn á [...], en farið þaðan á hótel í [...] eftir
sólarhring. Við komu á bráðageðdeildina hafi sóknaraðili verið örlyndur, með
mikinn talþrýsting og ekkert sofið fyrstu nóttina þar.
Í
vottorði B, sem skoðaði sóknaraðila og átti viðtal við hann þann 22. ágúst sl.
kemur fram að þá hafi sóknaraðili verið vakandi og áttaður, verið ósáttur við
dvöl sína á geðdeildinni og talið á sér brotið. Sóknaraðili hafi talað
viðstöðulaust allan þann tíma sem viðtalið hafi varað eða í rúmlega eina
klukkustund. Hann hafi ekki svarað spurningum en haldið langa tölu um heimspeki,
trúarbrögð og ljóðlist og næmi sitt fyrir umhverfinu, m.a. skjálftavirkni í
Bárðarbungu. Sóknaraðili hafi haft takmarkað sjúkdómsinnsæi og talið alla lækna
vera á villigötum. Sjálfur hafi hann sagst vera klofinn í tvo menn, A [...] og D
[...], og verið með samsæriskenningar varðandi innlögn sína.
Niðurstaða
læknisins skv. framlögðu vottorði er að sóknaraðili sé með þekktan
geðhvarfasjúkdóm, en hafi ekki verið á lyfjameðferð frá því í nóvember 2013.
Hann hafi verið lagður inn vegna oflætisástands og sjálfsvígshættu. Við
geðskoðun sé sóknaraðili greinilega í oflæti, tali viðstöðulaust og
samhengislítið með tengingar í allar áttir, með takmarkað sjúkdómsinnsæi og
telji innlögn sína vera hluta af samsæri. Mat sitt sé að áframhaldandi vistum
sóknaraðila á sjúkrahúsi sé óhjákvæmileg vegna oflætisástands með geðrofi.
Hegðun sóknaraðila sé óútreiknanleg og hann sé fyrst og fremst metinn
hættulegur sjálfum sér. Af þessari ástæðu hafi verið óskað eftir
nauðungarvistun samkvæmt 19. gr. lögræðislaga. Greining sóknaraðila sé: [...].
B
geðlæknir gaf símaskýrslu fyrir dómi, staðfesti vottorð sítt og gerði frekari
grein fyrir veikindum sóknaraðila. Fram kom hjá honum að E yfirlæknir á
geðdeild hafi annast sóknaraðila í innlögninni.
E
gaf símaskýrslu fyrir dómi og gerði grein fyrir því hvernig meðferð sóknaraðila
hefði gengið á þeim tíma sem liðinn er frá því hann var lagður inn. Við komu
hafi hann verið í maníu og með ranghugmyndir og í miklu örlyndisástandi. Hún
kvað sóknaraðila hafa verið áður í meðferð hjá C geðlækni en sóknaraðili hafi
alfarið lagst gegn því að haft yrði samband við hann vegna veikinda sinna. Hún
kvað sóknaraðila ekki vera til samvinnu um lyfjagjöf og vegna örlyndisástands
hafa orðið að gefa honum lyf í sprautuformi gegn vilja hans. Þetta lyf hefði
verkun í um það bil 3-4 daga og sóknaraðili hafi náð umtalsverðum bata eftir
lyfjagjöfina. Hann neitaði hins vegar að fá lyfið aftur og væri bati hans á
miklu undanhaldi. Sóknaraðili væri óttasleginn og teldi að geislun væri á
deildinni og sér og öðrum væri hætta búin. Sóknaraðili teldi sig ekki þurfa á
neinum lyfjum að halda en væri að taka lyf í töfluformi, en of lítið. Sóknaraðili,
sem er [...], væri með aðrar hugmyndir um lyfjagjöf, en hann hefði ekki innsæi
í sjúkdóm sinn. E kvaðst ekki telja að sóknaraðili væri lengur í
sjálfsvígshættu, en hann væri alvarlega veikur, með geðhvarfasjúkdóm og í
örlyndisástandi. Hún kvað sóknaraðila í fyrstu ekki hafa kannast við Facebook færslur sínar sem vikið hefur verið að, en síðan
kannast við þær og sagt þær hafa verið rangtúlkaðar. Hún kvaðst telja óhjákvæmilegt
að sóknaraðili fengi áfram í bili þá lyfjagjöf sem honum var gefin 23. ágúst
sl., að öðrum kosti væri heilsu hans og batahorfum stefnt í hættu. Ef hann
fengi ekki þetta lyf væri mikil hætta á að hann færi aftur í sama ástand og
hann var þegar hann var lagður inn. Sóknaraðili bæri því hins vegar við að hann
hefði aukaverkanir af lyfinu en við þær bráðaaðstæður sem sóknaraðili væri í
væri nauðsynlegt að hann fengi viðeigandi lyfjagjöf. Það væri fyrst þegar
sóknaraðila hefði verið náð úr því örlyndisástandi sem hann hafi verið í sem
hægt væri að taka ákvarðanir um
áframhaldandi lyfjagjöf.
Sóknaraðili
kom fyrir dóminn og ítrekaði kröfu sína. Hann kvaðst algjörlega ósammála E um
það hvaða lyf hentuðu honum og um væri að ræða hugmyndafræðilegan ágreining
milli þeirra. Að öðru leyti væri hann fyrirmyndar sjúklingur. Hann mótmælti því
að hafa lagst gegn því að haft yrði samband við C geðlækni.
Talsmaður
sóknaraðila vísaði til úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur í lögræðismálinu nr. [...]
þar sem felld var úr gildi ákvörðun ráðuneytis um að hann skyldi vistaður
nauðugur á sjúkrahúsi og taldi að hér væri um sambærilega aðstöðu að ræða og
krafðist þess að fella bæri úr gildi ákvörðun
innanríkisráðuneytisins frá 22. ágúst sl. Þá gerði hann athugasemd við
að ekki hefði í læknisvottorði verið færð afstaða sóknaraðila til
nauðungarvistunar í til þess ætlaðan C
reit. Dómari vísar til þess að innanríkisráðuneyti hafi beint fyrirspurn þetta
varðandi til B geðlæknis sem kvaðst hafa gleymt að færa afstöðu sóknaraðila
þetta varðandi, en við innlögn hafi sóknaraðili ekki verið viðræðuhæfur, talað
viðstöðulaust og ekki verið mögulegt að leggja fyrir hann spurningar. Hins
vegar komi fram í vottorðinu að sóknaraðili hafi verið ósáttur við dvöl sína á
geðdeildinni og telji á sér brotið. Dómari telur því ekki að þessi ágalli á
læknisvottorðinu valdi því að fella beri úr gildi ákvörðun
innanríkisráðuneytisins frá 22. ágúst s.l.
Lögmaður
varnaraðila lagði áherslu á að hafnað yrði kröfu sóknaraðila og vísaði til
vottorðs og vitnisburðar B geðlæknis og vitnisburðar E geðlæknis.
Dómari
telur með vísan til fyrirliggjandi gagna, einkum læknisvottorðs og vitnisburðar
B geðlæknis, og vitnisburðar E geðlæknis að skilyrði 19. gr. lögræðislaga um
nauðungarvistun sé fullnægt. E geðlæknir, sem annast hefur meðferð sóknaraðila
í innlögn, gerði grein fyrir því að sóknaraðili væri ekki til samvinnu um
viðeigandi lyfjagjöf og án hennar sé heilsu hans stefnt í voða. Þá hafi hann
hafi ekki innsæi í sjúkdóm sinn. Fyrir liggi að sóknaraðila hafi hrakað og hann
gæti aftur farið í sama ástand og hann var í þegar hann var lagður inn ef hann
fengi ekki þessa lyfjameðferð Ber því að synja kröfu sóknaraðila og ákveða að
fyrrgreind ákvörðun innanríkisráðuneytisins skuli haldast.
Þóknun
til talsmanns sóknaraðila ber að greiða úr ríkissjóði, sbr. 17. gr. lögræðislaga
nr. 71/1971, eins og kveðið er á um í úrskurðarorði.
Þórður
Clausen Þórðarson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Staðfest
er ákvörðun innanríkisráðuneytisins, dags. 22. ágúst 2014, um að A, kt. [...], með lögheimili að [...], skuli vistast á
sjúkrahúsi til allt að 21 dags.
Kostnaður
af málinu, þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Sveins Andra Sveinssonar hrl.,
119.225 kr., greiðist úr ríkissjóði.