Hæstiréttur íslands
Mál nr. 519/2007
Lykilorð
- Kaupsamningur
|
|
Fimmtudaginn 5. júní 2008. |
|
Nr. 519/2007. |
Gústav Bergmann Sverrisson(Sigurður Sigurjónsson hrl.) gegn Hvítu myllunni ehf. Moulin Rouge ehf. og Anthony Mihoubi (Ragnar Halldór Hall hrl.) |
Kaupsamningur.
H ehf., M ehf. og A kröfðust þess að G yrði gert að greiða þeim efndabætur vegna vanefnda á kaupsamningi aðila. Með kaupsamningi dags. 21. apríl 2006 festi G kaup á öllum rekstri bakarísins H ehf., þar með talið öllum áhöldum, tækjum og viðskiptavild H ehf., auk þess sem G keypti steinofn og stikkofn í eigu M ehf. Þá var ákvæði þess efnis í samningnum að G yfirtæki leigusamning um húsnæði að Kaplahrauni í Hafnarfirði undir reksturinn frá afhendingardegi. Samkvæmt 2. gr. kaupsamningsins var kaupverð ákveðið 5.000.000 krónur auk yfirtöku láns við Glitni hf. Í 5. gr. samningsins var G jafnframt falið að ganga frá skilmálabreytingu við Glitni hf. vegna lánsins þar sem sjálfsskuldarábyrgð A og R yrði felld niður innan 5 daga frá undirritun kaupsamningsins. G gekk ekki frá skilmálabreytingunni og yfirtók ekki lánið eins og honum bar samkvæmt samningnum. Í dómi Hæstaréttar kom fram að G hefði ekki lagt fram gögn um að hann hefði greitt húsaleigu fyrir önnur tímabil en þau sem honum bar réttilega að greiða samkvæmt samningnum. Þar sem G hafði skuldbundið sig til þess að ganga frá skilmálabreytingunni við Glitni hf. innan 5 daga, bar honum að láta seljendur vita ef einhver vandkvæði yrðu þar að lútandi. Þá var jafnframt talið að vætti starfsmanns bankans styddi hvorki þá fullyrðingu G að honum hafi verið neitað að uppfylla þetta samningsskilyrði, né að honum hafi verið meinað að greiða lánið eins og hann kvaðst hafa ætlað sér að gera. Var fallist á niðurstöðu héraðsdóms um að G skyldi greiða H ehf., M ehf. og A umkrafðar efndabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Hrafn Bragason fyrrverandi hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. október 2007. Hann krefst aðallega
sýknu af dómkröfu stefndu og að honum verði dæmdur málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, til vara að dómkrafa stefndu verði lækkuð og að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti verði látinn niður falla.
Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst efndabóta úr hendi áfrýjanda vegna vanefnda á kaupsamningi. Að öðru leyti er málsatvikum, málsástæðum og lagarökum rétt lýst í hinum áfrýjaða dómi.
Áfrýjandi hefur ekki lagt fram gögn um að hann hafi greitt húsaleigu fyrir önnur tímabil en þau sem honum bar samkvæmt samningnum. Leigusalinn, sem gaf vitnaskýrslu eftir að héraðsdómur var kveðinn upp, staðfesti að hann hefði samþykkt að áfrýjandi gengi inn í leigusamning þann sem stefndu leiddu rétt sinn af.
Áfrýjandi skuldbatt sig til þess að ganga frá skilmálabreytingu við Glitni hf. „innan 5 daga“ vegna þess sem hann skyldi yfirtaka samkvæmt samningnum. Bar honum því að gera stefndu viðvart ef einhver vandkvæði yrðu þar að lútandi. Vætti starfsmanns bankans, sem gefið var eftir að héraðsdómur gekk, styður hvorki þá fullyrðingu áfrýjanda að honum hafi verið neitað um að uppfylla þetta samningsskilyrði né að honum hafi verið meinað að greiða lánið eins og hann kveðst hafa ætlað að gera.
Báðir aðilar nutu aðstoðar lögmanna, bæði á mótunartíma samningsins og við undirritun hans. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms er hann staðfestur.
Áfrýjandi skal greiða stefndu sameiginlega málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Gústav Bergmann Sverrisson, greiði stefndu, Hvítu myllunni ehf., Moulin Rouge ehf. og Anthony Mihoubi, óskipt 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 11. júlí 2007.
Mál þetta, sem dómtekið var 13. júní sl., er höfðað 12. mars 2007 af Hvítu Millunni ehf., Moulin Rouge ehf. og Abdelaziz Mihoubi, öllum til heimilis að Skólavörðustíg 14, Reykjavík, á hendur Gústav Bergmann Sverrissyni, Fögrubrekku 1, Kópavogi.
Stefnendur krefjast þess að stefndi verði dæmdur til að greiða þeim 2.485.162 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 22. desember 2006 til greiðsludags. Þá krefjast þeir málskostnaðar. Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar.
I.
Í máli þessu krefjast stefnendur greiðslu vangildisbóta úr hendi stefnda vegna ætlaðra vanefnda á kaupsamningi.
Við aðalmeðferð gaf stefnandi Abdelaziz Mihoubi aðilaskýrslu en hann er einnig fyrirsvarsmaður og eigandi stefnenda Hvítu Millunnar ehf. (nafn félagsins er svo stafsett í hlutafélagaskrá) og Moulin Rouge ehf. Þá gaf stefndi aðilaskýrslu.
Í stefnu eru málavextir sagðir þeir að stefnendur málsins séu einstaklingur og tvö einkahlutafélög í hans eigu. Stefnandi Hvíta Millan ehf. hafi rekið bakarí að Kaplahrauni 9 í Hafnarfirði. Með kaupsamningi 21. apríl 2006 hafi stefndi fest kaup á öllum rekstri stefnanda Hvítu Millunnar ehf., þar með talið öllum áhöldum, tækjum og viðskiptavild hans vegna bakarísins. Þá hafi komið fram í samningnum að stefndi keypti einnig steinofn og stikkofn í eigu stefnanda Moulin Rouge ehf.
Samkvæmt 2. gr. kaupsamningsins hafi kaupverðið verið ákveðið í einu lagi fyrir allt hið selda, 5.000.000 krónur, auk yfirtöku láns við Glitni hf., sem sé kaupleigusamningur nr. 610770-001, dags. 30. september 2004. Til frádráttar kaupverði hafi komið greiðslur sem stefndi hafi þegar innt af hendi.
Leigutaki samkvæmt framangreindum kaupleigusamningi hafi verið stefnandi Hvíta Millan ehf. Þá hafi stefnandi Abdelaziz Mihoubi verið annar tveggja sjálfskuldarábyrgðaraðila á samningnum.
Í 2. mgr. 4. gr. kaupsamningsins hafi verið nánar kveðið á um ofangreint lán. Þar segi: „Kaupandi yfirtekur lán Glitnis hf. til félagsins sem tryggt er með veði í öllum tækjum og eignum félagsins, sbr. fylgiskjal 1, en eftirstöðvar þess eru ca. 4.100.000 krónur við undirritun samnings þessa.“ Í 5. gr. samningsins hafi stefnda verið falið að ganga frá skilmálabreytingu við Glitni hf. vegna láns félagsins, þar sem sjálfskuldarábyrgðaraðilar yrðu leystir undan ábyrgð sinni, innan fimm daga frá undirritun kaupsamningsins.
Kaupsamningurinn hafi verið undirritaður 21. apríl 2006 og á samninginn hafi kaupandi jafnframt ritað: „Ég undirritaður, Gústav Bergmann, staðfesti hér með afhendingu á hinu keypta, sbr. ofangreindan samning, og að ég hef farið yfir staðinn og hin keyptu áhöld og tæki, og geri engar athugasemdir við.“
Stefndi hafi ekki gengið frá skilmálabreytingu sem honum hafi verið skylt að gera samkvæmt 5. gr. samningsins og hafi þar með ekki yfirtekið lánið eins og honum hafi borið samkvæmt samningnum. Afborganir af láninu hafi ekki verið greiddar og hafi farið svo að lokum að lánið hafi verið gjaldfellt og stefnandi Hvíta Millan ehf. hafi verið krafinn um greiðslu eftirstöðva kröfunnar. Sé nú svo komið að hafið sé innheimtumál gegn stefnanda Hvítu Millunni ehf.
Stefndi hafi vanefnt kaupsamning aðila þar sem hann hafi ekki greitt kaupverðið til fulls. Stefnendur hafi margsinnis skorað á hann að yfirtaka lánið og efna þar með samningsskuldbindingar sínar, en stefnandi hafi ekki sinnt þeim áskorunum. Stefnendur hafi leitað til lögmanns í nóvember síðastliðnum og hafi sent stefnda kröfubréf þar sem skorað hafi verið á hann að efna samninginn. Það hafi heldur ekki borið árangur og höfði stefnendur því mál til heimtu bóta vegna vanefnda á kaupsamningi aðila.
Stefndi lýsir málavöxtum þannig í greinargerð sinni að í desemberbyrjun 2005 hafi hann talið sig vera að kaupa af stefnanda Abdelaziz helmings eignarhlut í stefnanda Hvítu Millunni ehf. og hafi greitt fyrir þann hlut 2.300.000 krónur inn á bankareikning. Hann hafi einnig greitt reikninga fyrir Hvítu Milluna ehf. að fjárhæð 200.000 krónur. Þá hafi stefndi sett ýmis tæki og verkfæri inn í bakaríið og hafi síðan unnið við fyrirtækið fram yfir jól. Strax eftir jól hafi stefnandi Abdelaziz skipt um skrár og meinað stefnda aðgang að húsnæðinu. Ítrekaðar tilraunir hafi verið gerðar til að fá niðurstöðu í málið, annað hvort með því að stefndi keypti hinn helming fyrirtækisins eða að honum væri greitt til baka það sem hann hafi greitt inn í það og honum þá afhent þau tæki og verkfæri sem hann hefði sett inn í reksturinn. Slíkar tilraunir hafi lengi vel engan árangur borið. Hafi stefnanda verið hótað kæru en að endingu hafi náðst það samkomulag sem fram komi í kaupsamningi 21. apríl 2006. Samkvæmt samningnum hafi stefndi keypt allan rekstur félagsins Hvítu Millunar ehf., þar með talin áhöld, tæki og viðskiptavild félagsins vegna bakarís sem staðsett sé á Kaplahrauni 9 Hafnarfirði. Einnig hafi stefndi keypt sérstaklega steinofn og stikkofn í eigu félagsins, staðsetta í Kaplahrauni 9 í Hafnarfirði. Þá hafi stefndi átt að yfirtaka lán hjá Glitni hf. sem Hvíta Millan ehf. hafi átt að vera lántaki að og hafi það verið talið vera rúmar þrjár milljónir króna á meðan á samningaviðræðum hafi staðið en yfir fjórar milljónir þegar til samninga hafi verið gengið. Þá hafi stefndi yfirtekið leigusamning um húsnæðið að Kaplahrauni 9 undir reksturinn frá afhendingardegi.
Stefndi hafi yfirfarið staðinn og hin keyptu tæki og áhöld og kvittað undir að hann hefði engar athugasemdir við þetta áður en hann hafi tekið við en að stefnandi hafi eftir það farið og tekið með sér öll smááhöld og verkfæri burt af staðnum. Þá hafi verið vanskil á húsaleigu þegar stefndi hafi átt að taka við alls að fjárhæð 470.000 krónur og hafi stefndi orðið að greiða þau til að fá nýjan leigusamning. Þegar stefndi hafi farið til Glitnis hf. til að huga að láni til að yfirtaka hafi komið í ljós að „lán“ þetta hafi verið eignaleigusamningur sem færður hafi verið af Fjölhæfi ehf. yfir á Hvítu Milluna ehf. skömmu fyrir kaupin. Samkvæmt þeim samningi hafi Glitnir hf. verið eigandi að öllum tækjum og áhöldum samkvæmt lista sem lagður sé fram í málinu. Á þeim lista séu meðal annars steinofn og stikkofn sem stefndi hafi keypt sérstaklega samkvæmt kaupsamningi og einnig séu þar á lista fjöldinn allur af áhöldum og tækjum sem ekki hafi verið í rekstri Hvítu Millunnar ehf. heldur séu staðsett að Skólavörðustíg 14 í rekstri Moulin Rouge ehf. Þegar þetta hafi allt legið fyrir þá hafi stefndi samið við Glitni hf. um kaup á öllum áhöldum og tækjum sem tilgreind hafi verið á eignaleigusamningnum og hafi greitt fyrir það 2.500.000 krónur og hafi þau kaup verið gerð í nafni Þórsbakarís ehf. sem stefndi reki. Áður hafi Glitnir hf. boðið stefnendum að ganga inn í það boð.
II.
Í stefnu er krafa stefnenda sögð krafa um efndabætur og kveðast þeir byggja kröfuna á grundvallarreglu íslensks réttar um skuldbindingargildi samninga. Þá vísi stefnendur ennfremur til 57. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Aðilar máls þessa hafi gert með sér kaupsamning þar sem kaupverð og greiðslutilhögun þess hafi komið fram með skýrum hætti. Stefndi hafi áritað kaupsamninginn og með áritun sinni staðfest skyldu sína til þess að yfirtaka kaupleigusamning við Glitni hf. Af því hafi ekki orðið og með aðgerðarleysi sínu hafi stefndi vanefnt áðurnefndan kaupsamning. Vanefnd stefnda leiði til tjóns fyrir stefnendur, enda séu þeir ábyrgir fyrir kaupleigusamningi við Glitni hf. Kaupleigusamningur þessi hafi verið gjaldfelldur, auk þess sem innheimtumál sé hafið gegn stefnendum á grundvelli hans. Allt frá undirritun kaupsamnings hafi stefnendur beint fjölda áskorana til stefnda um að greiða gjaldfallnar greiðslur og hlutast til um skilmálabreytingu á kaupleigusamningnum en því hafi ekki verið sinnt.
Þá vísi stefnendur til yfirlýsingar stefnda sem fyrir liggi í málinu um staðfestingu hans á því að hafa fengið hið selda afhent og að hann hafi farið yfir staðinn og hin keyptu áhöld og tæki og geri engar athugasemdir við. Ljóst sé því að stefnendur hafi staðið við sinn hluta samningsins.
Samkvæmt framansögðu geri stefnendur kröfu um að stefndi bæti þeim það tjón sem þeir hafi orðið fyrir vegna vanefnda hans á margnefndum kaupsamningi. Fjárhæð þess sé 2.485.162 krónur, sem séu eftirstöðvar kaupleigusamningsins og jafnframt stefnukrafa málsins. Höfðustóll við gjaldfellingu kaupleigusamningsins 26. september 2006 hafi verið 3.028.454 krónur. Glitnir hafi endurheimt hin leigðu tæki sama dag og hafi þau nú verið seld. Matsverð tækjanna hafi verið 2.500.000 krónur, en sölukostnaður og kostnaður lögmanna vegna endurheimtu þeirra verið 560.163 krónur. Til lækkunar vanskilum hafi því komið 1.939.837 krónur. Þá hafi bæst við dráttarvextir, innheimtuþóknum og fleira. Staða kröfunnar nú sé því 2.485.162 krónur.
Stefnendur telji einnig að stefnda beri skylda til að greiða dráttarvexti vegna vanefndanna skv. III. kafla laga nr. 38/2001. Skorað hafi verið á stefnda að ganga frá skilmálabreytingu og greiða kröfuna með bréfi dags. 22. nóvember 2006. Telji stefnendur að reikna beri dráttarvexti frá þeim degi þegar mánuður var liðinn frá því stefnda hafi verið sent umrætt bréf.
Um málskostnaðarkröfu kveðast stefnendur vísa til 130. gr. laga nr. 91/1991.
III.
Í greinargerð stefnda kveður hann sýknukröfu sína byggða á þeim rökum í fyrsta lagi að stefnendur hafi verið að selja áhöld og tæki sem þeir hafi ekki átt neitt í þegar kaupsamningur hafi verið gerður. Öll tæki og tól hafi verið í eigu Glitnis hf. og hafi stefnendur enga heimild haft til að selja þau. Eignaleigusaminngurinn hafi verið í verulegum vanskilum og aldrei hefði fengist heimild hjá Glitni hf. til sölu nema því aðeins að greiðslur samkvæmt kaupsamningi rynnu beint til félagsins. Stefnendur hafi því verið að selja og hirða peninga fyrir hluti sem þeir hafi ekki átt og því um hrein svik af þeirra hálfu að ræða. Hafi stefnendur því í raun svikið út úr stefnda peninga að fjárhæð 5.000.000 krónur fyrir hluti sem þeir hafi ekki átt. Inni í þeirri fjárhæð sem stefnda hafi verið ætlað að greiða sem kaupverð séu áhöld og tæki sem stefnendur hafi sjálfir verið með í sínum rekstri og séu enn og einnig tæki sem stefndi hafi keypt sérstaklega, eins og stikkofn og steinofn, sem metnir séu samtals á 1.810.000 krónur auk virðisaukaskatts á listanum hjá Glitni hf.
Viðskiptavild hins selda hafi verið þannig að reksturinn hafi verið lokaður frá jólum og vanskil á húsaleigu að fjárhæð 470.000 krónur, sem stefndi hafi orðið að greiða til að fá að vera áfram í húsnæðinu. Skuld á eignaleigusamningnum hafi verið orðin um 5.800.000 þegar stefndi hafi farið að semja um lausn á þessum tækjum og áhöldum, sem hann hafi verið að „kaupa“ af stefnendum. Stefnendum hafi staðið til boða að leysa þennan eignaleigusamning til sín með greiðslu 2.500.000 króna hjá Glitni hf., en það hafi ekki verið þegið af þeirra hálfu að sögn og hafi því stefndi „keypt samninginn til sín“ (sic) fyrir þá fjárhæð, eins og áður greini, í nafni Þórsbakarís ehf. og sé það félag nú eigandi að öllum tækjum og áhöldum sem verið hafi í eignaleigusamningnum.
Með hliðsjón af framanrituðu sé ljóst að stefnendur eigi engar kröfur á hendur stefnda vegna þessarra viðskipta. Samningurinn hljóði upp á sölu á eignum sem seljandi hafi ekki átt og viðskiptavild sem ekki hafi verið til staðar. Sé því um hrein svik að ræða.
Kröfu um málskostnað kveðst stefndi styðja við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Stefndi kveður loks í greinargerð sinni að við aðalmeðferð hyggist hann meðal annars leiða sem vitni lögmann Glitnis hf. og aðra sem varpað geti ljósi á viðskiptin.
IV.
Í málinu liggur fyrir kaupsamningur milli aðila dagsettur 21. apríl 2006 þar sem stefnendur, Abdelaziz Mihoubi og Hvíta Millan ehf., selja stefnda allan rekstur félagsins Hvítu Millunnar ehf., þar með talið öll áhöld, tæki og viðskiptavild félagsins vegna bakarís sem rekið hafi verið að Kaplahrauni 9 í Hafnarfirði, eins og hann sé á afhendingardegi. Þá lofar lofar stefndi að kaupa og stefnandi Moulin Rouge ehf. að selja steinofn og stikkofn í eigu félagsins, en þeir séu staðsettir að Kaplahrauni 9.
Kaupverð er sagt 5.000.000 króna auk yfirtöku láns við Glitni hf. sbr. grein 4 í samningnum. Kaupverðið skuli greiðast að fullu við undirritun að frádregnum nánar tilgreindum greiðslum sem stefndi hafi áður innt af hendi. Um framangreint lán segir að það sé tryggt með veði í öllum eignum félagsins sbr. meðfylgjandi tækjalista en eftirstöðvar lánsins séu ca. 4.100.000 krónur við undirritun samningsins. Þá kemur fram að stefndi skuli yfirtaka leigusamning um húsnæðið að Kaplahrauni 9 frá afhendingardegi, sem sagður er 1. apríl 2006.
Í 5. gr. samingsins er kveðið á um að stefndi skuli ganga frá skilmálabreytingu við Glitni hf. vegna láns félagsins þar sem sjálfskuldarábyrgð núverandi sjálfskuldarábyrgðaraðila sé felld niður, innan fimm daga frá undirritun kaupsamningsins. Þá er í 6. gr. kveðið á um það að með undirritun sinni á kaupsamninginn staðfesti aðilar að hvorugur eigi frekari kröfur á hendur hinum og að um fullnaðaruppgjör á milli beggja aðila sé að ræða varðandi öll viðskipti þeirra á milli hingað til.
Þá liggur fyrir í málinu yfirlýsing stefnda dagsett 21. apríl 2006, sem handrituð hefur verið á eintak kaupsamnings um að hann staðfesti að honum hafi verið afhent hið keypta og að hann hafi farið yfir staðinn og hin keyptu áhöld og tæki og geri engar athugasemdir við.
Einnig er meðal málskjala blað frá Glitni hf. sem sýnir stöðu vanskila á kaupleigusamningi þeim sem um ræðir í málinu þann 26. september 2006. Má af skjalinu ráða að fyrsti gjalddagi í vanskilum sé 15. apríl 2006. Þá má sjá að höfuðstóll samkvæmt kaupleigusamningnum þann dag hafi verið 4.064.746 krónur. Heildarvanskil með vöxtum og kostnaði er sögð nema 4.127.879 krónum en til lækkunar er fært söluandvirði þeirra tækja sem um ræðir, sem munu hafa verið seld stefnda þennan dag, sem að frádregnum sölukostnaði og kostnaði lögmanna nam 1.939.837 krónur. Eftirstöðvar eru því sagðar 2.180.469 krónur. Þá liggur fyrir innheimtubréf 16. nóvember 2006 stílað á stefnanda Hvítu Milluna ehf. þar sem félagið er krafið um greiðslu framangreindrar skuldar, sem með vöxtum og kostnaði er sögð nema 2.432.033 krónum. Stefnendur rituðu stefnda bréf þann 22. nóvember 2006 og kröfðu hann um greiðslu þeirrar fjárhæðar. Einnig liggur fyrir skjal er sýnir að krafan er sögð 2.485.162 krónur 21. desember 2006 og er það stefnukrafa málsins.
Stefndi hefur lagt fram kvittun dagsetta 8. maí 2006 fyrir greiðslu húsaleigu að Kaplahrauni 9, Hafnarfirði að fjárhæð 470.000 krónur vegna mánaðanna apríl og maí sama ár.
Aðilar gerðu samkvæmt framansögðu með sér kaupsamning þar sem kveðið var á um kaupverð annars vegar með greiðslu peninga og hins vegar með yfirtöku á tiltekinni fjárhagsskuldbindingu og nutu þeir lögmannsaðstoðar við gerð samningsins. Gekkst stefndi með samningnum undir skuldbindingu um yfirtöku samnings við Glitni hf. sem í kaupsamningnum er kallaður lán, en reyndist vera kaupleigusamningur. Stefndi gekk ekki frá yfirtöku á samningnum og hefur borið því við að Glitnir hf. hafi ekki samþykkt slíkt. Fyrir síðastnefndri fullyrðingu ber stefndi sönnunarbyrði og hefur slík sönnun ekki tekist. Boðaði lögmaður stefnda að hann hyggðist leiða sem vitni starfsmann Glitnis hf. við aðalmeðferð en þegar til kom var það ekki gert. Teljast því ósannaðar fullyrðingar stefnda um að vandkvæði hafi verið á yfirtöku hans á kaupleigusamningnum. Er þá einnig haft í huga að það lá stefnda næst að kanna fyrir undirritun kaupsamningsins hvers konar skuldbindingar hann var að gangast undir með undirritun hans og jafnframt að ganga úr skugga um að Glitnir hf. samþykkti hann sem nýjan skuldara. Þá verður ekki fallist á með stefnda að það að um var að ræða kaupleigusamning en ekki lán leysi hann undan því að greiða þann hluta kaupverðsins sem fólst í yfirtöku skuldbindingarinnar gagnvart Glitni hf. Breytir engu hér um þó Glitnir hf. teljist eigandi einhverra þeirra muna sem notaðir voru í umræddum rekstri þar til kaupleigusamningurinn er að fullu greiddur, en meginmálsástæða stefnda lýtur að því að stefnendur hafi ekki haft heimild til að selja þá muni sem kaupleigusamningurinn tók til án samþykkis Glitnis hf. Ósannaðar er þær fullyrðingar stefnda að vanskil hafi verið á húsaleigu, sem hann hafi þurft að greiða og að umræddur kaupleigusamningur hafi verið í vanskilum. Kvittun sú sem stefndi hefur lagt fram um greiðslu húsaleigu er fyrir mánuðina apríl og maí 2006 en samkvæmt samningi aðila bar stefnda að greiða húsaleigu frá 1. apríl það ár. Þá er ekkert í gögnum málsins sem styður fullyrðingar stefnda um að vanskil hafi verið á kaupleigusamningnum fyrir undirritun kaupsamningsins, sbr. fyrrnefnt skjal um stöðu vanskila 26. september 2006. Þá telst einnig ósönnuð sú staðhæfing stefnda að stefnendur hafi fjarlægt einhverja hluti úr húsnæðinu að Kaplahrauni 9 eftir að stefndi skrifaði undir þá yfirlýsingu um viðtöku hins selda, sem áður er rakin.
Stefndi hefur ekki sýnt fram á að hinu selda hafi á einhvern hátt verið áfátt þannig að honum hafi verið heimilt að efna ekki skuldbindingar þær er hann tókst á herðar með undirritun margnefnds kaupsamnings, en ráða má af þeirri forsögu samningsgerðarinnar, sem stefndi hefur gert grein fyrir og rakið er hér að framan, að honum hafi mátt vera kunnugt um í hvaða horfi umræddur rekstur var þegar til samningsgerðarinnar var gengið. Þá liggja engin gögn fyrir í málinu er sýna að stefndi hafi reynt að grípa til einhverra þeirra vanefndaúrræða sem honum voru tæk teldi hann stefnendur hafa vanefnt samninginn með einhverjum hætti.
Liggur því ekki annað fyrir í máli þessu en að stefndi hafi vanefnt þá skyldu sína að yfirtaka nefnda skuldbindingu gagnvart Glitni hf., sem við samningsgerðina var talin að fjárhæð ca. 4.100.000 krónur. Hins vegar hefur stefnda ekki tekist sönnun þess að hann hafi ekki fengið afhent það sem hann keypti samkvæmt samningnum og ber því að leggja til grundvallar að afhending hafi farið fram í samræmi við samninginn. Stefnendur hafa lagt fram útreikning á tjóni sínu vegna þessarra vanefnda stefnda og hefur sá útreikningur ekki sætt tölulegum andmælum. Liggur fyrir að umræddur kaupleigusamningur var gjaldfelldur vegna vanskila sem komu til eftir að stefndi átti samkvæmt kaupsamningi að yfirtaka hann og hefur kröfu um greiðslu eftirstöðva hans verið beint að stefnanda Hvítu Millunni ehf. og er stefnufjárhæð málsins í samræmi við þá kröfu. Óumdeilt er að aðalskuldari samkvæmt kaupleigusamningnum er stefnandi Hvíta Millan ehf. og því sýnt að krafan hvílir endanlega á því félagi. Þykja stefnendur því hafa sýnt nægilega fram á að fyrir liggi að vanefndir stefnda hafi valdið tjóni sem nemi fjárhæð umræddrar kröfu og skipti ekki máli í því samhengi að stefnendur hafi ekki enn greitt kröfuna.
Stefnendur stóðu sem seljendur sameiginlega að gerð kaupsamnings við stefnda og verður málatilbúnaður þeirra ekki skilinn á annan veg en að krafa þeirra um vangildisbætur úr hendi stefnda sé óskipt, sbr. 1. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991. Verður stefnda því gert að greiða stefnendum sameiginlega stefnufjárhæðina með dráttarvöxtum, eins og nánar greinir í dómsorði, en stefndi hefur ekki mótmælt upphafsdegi dráttarvaxta.
Eftir framangreindum málsúrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr., sbr, 1, mgr. 132. gr. laga nr. 91/1991 verður stefndi dæmdur til að greiða stefnendum málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 350.000 krónur.
Dómurinn er kveðinn upp af Halldóri Björnssyni, settum héraðsdómara.
D ó m s o r ð :
Stefndi, Gústav Bergmann Sverrisson, greiði stefnendum, Hvítu Millunni ehf., Moulin Rouge ehf. og Abdelaziz Mihoubi, sameiginlega 2.485.162 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 22. desember 2006 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnendum sameiginlega 350.000 krónur í málskostnað.