Hæstiréttur íslands
Mál nr. 780/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarsala
- Veðskuldabréf
- Gjaldþrotaskipti
- Fyrning
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. desember 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. nóvember 2017, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að felld yrði úr gildi ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 6. febrúar sama ár um að stöðva nauðungarsölu á fasteigninni Sóleyjarima 47 í Reykjavík. Kæruheimild var í 1. mgr. 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst þess að framangreindri kröfu varnaraðila verði hafnað. Þá krefst hún aðallega málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar, en til vara að málkostnaður verði felldur niður.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Samkvæmt gögnum málsins gerðu sóknaraðili og maki hennar, Ásgeir Örn Ásgeirsson, samning 1. desember 2004 um kaup á fasteigninni Sóleyjarima 47. Í samningnum, sem var þinglýst 3. sama mánaðar, var tiltekið að hvort þeirra yrði eigandi fasteignarinnar að helmingi. Þau fengu síðan afsal fyrir henni 17. október 2006, sem þinglýst var 27. sama mánaðar.
Ásgeir gaf út til Landsbanka Íslands hf. skuldabréf 6. febrúar 2008, sem óumdeilt er að tilheyri nú varnaraðila. Þar var kveðið á um að jafnvirði fjárhæðar skuldabréfsins, sem var 17.100.000 krónur, yrði í tilteknum hlutföllum í fjórum erlendum gjaldmiðlum og skyldi skuldin endurgreidd með 360 jöfnum mánaðarlegum afborgunum. Til tryggingar skuldinni var fasteignin Sóleyjarimi 47 sett að veði. Ekki kom fram í skuldabréfinu að hún tilheyrði útgefanda þess aðeins að helmingi, en sóknaraðili áritaði það um samþykki sem maki hans.
Sóknaraðili og Ásgeir gerðu 26. apríl 2008 kaupmála, þar sem fasteignin Sóleyjarimi 47 var að öllu leyti gerð séreign hennar. Þar var einnig tekið fram að sóknaraðili tæki að sér að greiða tvær nánar tilteknar veðskuldir við Landsbanka Íslands hf., sem hvíldu á eigninni, þar á meðal skuld samkvæmt áðurnefndu skuldabréfi frá 6. febrúar 2008. Kaupmáli þessi var skráður í kaupmálabók sýslumanns 30. maí 2008 og var honum þinglýst 24. júní sama ár.
Skilmálum skuldabréfsins frá 6. febrúar 2008 var breytt með yfirlýsingu 29. október sama ár, sem undirrituð var af Ásgeiri sem „greiðanda“ þess og varnaraðila sem kröfuhafa, en í henni var mælt fyrir um nánar tilteknar breytingar á lánstíma og gjalddögum afborgana af skuldinni. Sóknaraðili undirritaði jafnframt þessa yfirlýsingu neðan við orðin: „Samþykki maka eða þinglýsts eiganda ef annar en greiðandi“. Af gögnum málsins verður ráðið að skilmálum skuldabréfsins hafi aftur verið breytt 1. apríl 2011 og þá á þann hátt að upphaflegur höfuðstóll þess hafi verið látinn standa í íslenskum krónum án gengistryggingar.
Fyrir liggur að bú Ásgeirs var tekið til gjaldþrotaskipta 7. febrúar 2012, svo og að skiptunum hafi lokið 30. apríl sama ár án þess að greiðsla fengist upp í lýstar kröfur, sem hafi alls verið að fjárhæð 180.010.804 krónur. Við skiptin lýsti varnaraðili 2. apríl 2012 kröfum, sem námu samtals 110.319.709 krónum, og var meðal þeirra krafa samkvæmt skuldabréfinu frá 6. febrúar 2008, sem var sögð vera að fjárhæð 22.640.991 króna. Samkvæmt gögnum málsins beindi varnaraðili í tengslum við þetta tilkynningu til sóknaraðila 14. febrúar 2012, sem varðaði Ásgeir eftir yfirskrift tilkynningarinnar, og sagði þar meðal annars eftirfarandi: „Í samræmi við lög nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn tilkynnist hér með að bú ofangreinds aðila sem þú ert í ábyrgðum fyrir hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta. Við gjaldþrot falla allar skuldir og skuldbindingar þrotamanns í gjalddaga ... Vinsamlegast hafið samband við lögfræðiinnheimtu Landsbankans ... vegna ábyrgðarskuldbindinga þinna á skuldum ofangreinds aðila.“ Í tilkynningunni kom að öðru leyti fram að skuldbindingin, sem hún laut að, væri samkvæmt skuldabréfinu frá 6. febrúar 2008, fjárhæð hennar næmi 22.661.622 krónum og væru þar af 1.680.750 krónur í vanskilum.
Sóknaraðili og Ásgeir gerðu 5. ágúst 2015 svonefndan viðbótarkaupmála um „leiðréttingu“ á kaupmála sínum frá 26. apríl 2008, sem var lýst á eftirfarandi hátt: „Fyrir mistök greinir í nefndum kaupmála hjónanna, að Drífa taki að sér að greiða áhvílandi veðskuldir á 1. og 2. veðr. við Landsbanka Íslands skv. veðskuldabréfum dags. 6.2. 2008 og 1.3. 2006 að tilgreindum eftirstöðvum miðað við 21.4. 2008, samtals kr. 41.553.241. Þessa yfirlýsingu eða tilgreiningu ber að fella úr kaupmálanum. Hún er samkvæmt því afturkölluð og er hún því ógild og ómarktæk, enda hefur hún aldrei verið samþykkt af kröfuhafa. Að öðu leyti eru ákvæði kaupmálans frá 26. apríl 2008 óbreytt.“ Nýi kaupmálinn var skráður hjá sýslumanni 6. ágúst 2015 og honum þinglýst sama dag.
Í málinu liggja ekki fyrir gögn um að varnaraðili hafi beint kröfu eða orðsendingum til sóknaraðila vegna skuldabréfsins frá 6. febrúar 2008 eftir að áðurnefnd tilkynning var send 14. febrúar 2012 fyrr en greiðsluáskorun var birt fyrir sóknaraðila 20. janúar 2016. Í áskoruninni var þess ekki sérstaklega getið á hvaða grundvelli henni væri beint að sóknaraðila, en fram kom að áskorunin sneri að kröfu samkvæmt skuldabréfinu, sem væri alls að fjárhæð 28.076.790 krónur. Var skorað á sóknaraðila að greiða kröfuna eða semja um hana innan tiltekins frests að því viðlögðu að krafist yrði nauðungarsölu á fasteigninni Sóleyjarima 47 til fullnustu á skuldinni. Ekkert liggur fyrir um hvort sóknaraðili hafi brugðist við þessari áskorun, en í framhaldi af henni sendi varnaraðili sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu beiðni 1. júlí 2016 um nauðungarsölu á fasteigninni. Þegar nauðungarsalan var tekin fyrir 6. febrúar 2017 til að byrja uppboð á eigninni krafðist sóknaraðili þess að nauðungarsalan yrði stöðvuð og varð sýslumaður við þeirri kröfu. Mál þetta, sem var þingfest í héraði 24. mars sama ár, snýst um réttmæti þessarar ákvörðunar sýslumanns.
II
Fyrir Hæstarétti hefur sóknaraðili fallið frá málsástæðu um að veðsetning samkvæmt skuldabréfinu frá 6. febrúar 2008 hafi aðeins tekið til þess helmings fasteignarinnar Sóleyjarima 47, sem á þeim tíma tilheyrði Ásgeiri Erni Ásgeirssyni.
Ásgeir var samkvæmt áðursögðu útgefandi skuldabréfsins 6. febrúar 2008 og bar hann á þeim grunni einn greiðsluskyldu gagnvart eiganda þess. Þótt mælt hafi verið svo fyrir í kaupmála Ásgeirs og sóknaraðila 26. apríl 2008 að hún tæki að sér að greiða skuldir, sem tryggðar voru með veði í fasteigninni Sóleyjarima 47, þar á meðal samkvæmt þessu skuldabréfi, er þess að gæta að ekkert liggur fyrir um að sóknaraðili hafi á nokkru stigi beint til Landsbanka Íslands hf. eða varnaraðila yfirlýsingu um að hún tæki slíka greiðsluskyldu á sínar herðar. Er þess einnig að geta að eftir gögnum málsins leit varnaraðili eftir gerð kaupmálans svo á að Ásgeir bæri sem fyrr greiðsluskyldu samkvæmt skuldabréfinu, enda var hann nefndur greiðandi í áðurnefndri yfirlýsingu 29. október 2008 um breytingu á skilmálum þess, rætt var í tilkynningu varnaraðila 14. febrúar 2012 til sóknaraðila um að hún stæði í ábyrgð fyrir skuld Ásgeirs samkvæmt bréfinu og lýsti varnaraðili 2. apríl sama ár kröfu í þrotabú Ásgeirs á grundvelli skuldabréfsins. Verður samkvæmt þessu að byggja á því við úrlausn málsins að varnaraðili hafi aldrei öðlast kröfuréttindi eftir skuldabréfinu á hendur sóknaraðila, hvorki henni einni né sem samskuldara Ásgeirs.
Gjaldþrotaskiptum á búi Ásgeirs lauk eins og fyrr segir 30. apríl 2012 án þess að greiðsla fengist upp í kröfu, sem varnaraðili lýsti á grundvelli skuldabréfsins. Þann dag hófst því nýr tveggja ára fyrningarfrestur á þeirri kröfu samkvæmt 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 1. gr. laga nr. 142/2010. Á þeim fyrningarfresti höfðaði varnaraðili hvorki mál til viðurkenningar á fyrningarslitum né fékk hann tryggingarréttindi fyrir kröfunni í eign Ásgeirs, sbr. 3. mgr. 165. gr. fyrrnefndu laganna. Hann gerði heldur ekkert annað á því tímabili, sem að lögum hefði getað rofið fyrningu kröfunnar þannig að áhrif hefði gagnvart sóknaraðila. Vegna þessa féll krafa varnaraðila samkvæmt skuldabréfinu niður fyrir fyrningu 30. apríl 2014. Hann átti af þessum sökum ekki lengur peningakröfu til að leita fullnustu á með nauðungarsölu á fasteigninni Sóleyjarima 47 í skjóli veðréttinda í henni þegar hann krafðist nauðungarsölunnar með beiðni 1. júlí 2016. Samkvæmt þessu verður hafnað kröfu varnaraðila um að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 6. febrúar 2017 um að stöðva nauðungarsölu á fasteigninni.
Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hafnað er kröfu varnaraðila, Landsbankans hf., um að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 6. febrúar 2017 um að stöðva nauðungarsölu á fasteigninni Sóleyjarima 47 í Reykjavík.
Varnaraðili greiði sóknaraðila, Drífu Viðarsdóttur, samtals 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur föstudaginn 24. nóvember 2017
Mál þetta barst dóminum 23. febrúar 2017 með málskoti sóknaraðila samkvæmt XIII. kafla laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu.
Sóknaraðili krefst þess að ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 6. febrúar 2017 um að stöðva nauðungarsölu á fasteigninni Sóleyjarima 47, Reykjavík, fastanúmer 224-4859, verði ómerkt og nauðungarsölumeðferð verði fram haldið. Jafnframt krefst hann málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað og að staðfest verði sú ákvörðun sýslumanns að stöðva nauðungarsölumeðferð á framangreindri fasteign. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
Málsatvik
Með afsali 17. október 2006, sem þinglýst var 27. október sama ár eignaðist varnaraðili fasteignina að Sóleyjarima 47 með eiginmanni sínum Ásgeiri Erni Ásgeirssyni. Hinn 6. febrúar 2008 gaf hann út veðskuldabréf til handa Landsbanka Íslands hf. að fjárhæð 17.100.000 krónur í myntunum evru, svissneskum franka, japönsku jeni og kanadískum dollara, í ákveðnum hlutföllum. Lánstími var 30 ár og gjalddagi fyrstu afborgunar 1. mars 2008. Bréfinu var þinglýst á fasteignina 8. febrúar 2008. Varnaraðili skrifaði undir skuldabréfið sem maki útgefanda. Í tilgreiningu veðs, sem standa skyldi til tryggingar greiðslu lánsins var sagt að það væri Sóleyjarimi 47, raðhús 08-0101 og bílskúr 08-0102. Varnaraðili og eiginmaður hennar gerðu með sér kaupmála 26. apríl 2008 þar sem fram kom að raðhúsið að Sóleyjarima 47 í Reykjavík skyldi ásamt öllu sem eigninni fylgdi og fylgja bæri vera séreign varnaraðila og hjúskapareignum þeirra óviðkomandi. Þá kom fram í kaupmálanum að varnaraðili tæki að sér að greiða áhvílandi veðskuldir á 1. og 2. veðrétti við Landsbanka Íslands, en þar á meðal var veðskuldabréf það sem málið lýtur að. Einnig sagði í kaupmálanum að yrði eignin seld skyldi það sem fyrir hana kæmi verða séreign varnaraðila. Sama gilti um arð eignarinnar og verðmætisaukningu. Önnur ákvæði kaupmálans skipta ekki máli varðandi úrlausn þessa máls, en kaupmálann undirrituðu varnaraðili og eiginmaður hennar og var hann vottaður af héraðsdómslögmanni, skráður í kaupmálabók sýslumannsembættisins í Reykjavík 30. maí 2008 og þinglýst á fasteignina.
Gerð var skilmálabreyting á fyrrgreindu láni 29. október 2008 og skrifaði varnaraðili undir skilmálabreytinguna í reit með yfirskriftinni ,,samþykki maka eða þinglýsts eiganda ef annar en greiðandi“. Skilmálabreytingunni var þinglýst á fasteignina 14. janúar 2009. Veðandlag var í skilmálabreytingunni sagt vera Sóleyjarimi 47. Fyrrgreint lán mun hafa verið leiðrétt og endurútreiknað 1. apríl 2011 í samræmi við dómafordæmi Hæstaréttar um sambærileg lán og fært yfir í íslenskar krónur. Varð nýr höfuðstóll lánsins 19.880.42 krónur.
Bú eiginmanns varnaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði héraðsdóms 7. febrúar 2012 og lýsti sóknaraðili kröfu vegna fyrrgreinds veðskuldabréfs í búið. Engar eignir fundust í búinu og var skiptum lokið 30. apríl 2012 samkvæmt 155. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti.
Hinn 5. ágúst 2015 gerðu varnaraðili og eiginmaður hennar með sér viðbótarkaupmála. Í honum greinir að þau geri þá leiðréttingu á kaupmála er þau undirrituðu 26. apríl 2008 að fyrir mistök hafi í nefndum kaupmála verið greint að varnaraðili tæki að sér áhvílandi veðskuldir á 1. og 2. veðrétti við Landsbanka Íslands samkvæmt veðskuldabréfum 6. febrúar 2008 og 1. mars 2006. Þar segir að ,,þessa yfirlýsingu eða tilgreiningu ber að fella úr kaupmálanum. Hún er samkvæmt því afturkölluð og er hún ógild og ómarktæk, enda hefur hún aldrei verið samþykkt af kröfuhafa. Að öðru leyti eru ákvæði kaupmálans frá 26. apríl 2008 óbreytt“.
Með beiðni 1. júlí 2016 krafðist sóknaraðili nauðungarsölu á fasteign varnaraðila að Sóleyjarima 47, Reykjavík. Er krafa sóknaraðila reist á fyrrgreindu veðskuldabréfi.
Beiðni sóknaraðila var tekin fyrir hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu 17. nóvember 2016 og frestað til 6. febrúar 2017 til að byrja uppboð á eigninni. Við þá fyrirtöku mætti lögmaður varnaraðila og krafðist þess að nauðungarsalan yrði stöðvuð og varð sýslumaður við þeirri beiðni. Lýsti lögmaður sóknaraðila því yfir að hann myndi bera þá ákvörðun undir héraðsdóm, sem hann og gerði með bréfi til dómsins 23. febrúar sama ár.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila, Landsbankans hf.
Sóknaraðili bendir á að títtnefnt veðskuldabréf sé í vanskilum, en í bréfinu sé bein nauðungarsöluheimild. Heimild sóknaraðila til að krefjast nauðungarsölu á fasteigninni sé í 2. tölulið 6. gr. laga nr. 90/1991. Sóknaraðili kveður kröfu samkvæmt veðskuldabréfinu ekki fyrnda. Veðskuldabréfinu hafi verið þinglýst á alla fasteignina að Sóleyjarima 47 og hafi varnaraðili ekki mótmælt veðsetningu í eigninni fyrr en á árinu 2016. Veðkrafan hafi verið til áður en bú útgefanda bréfsins hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta. Sóknaraðili bendir á að í 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 sé ákvæði um að hafi kröfuhafi fengið tryggingu í eign þrotamanns áður en frestur samkvæmt 2. mgr. 165. gr. sé á enda, fyrnist krafan ekki.
Þá mótmælir sóknaraðili því að eignarhlutur varnaraðila hafi ekki verið veðsettur. Veðskuldabréfið hafi verið tekið til að greiða upp eldri veðskuldir þeirra hjóna, en fasteignina hafi varnaraðili og eiginmaður hennar átt að jöfnu. Þau skrifi bæði á skuldabréfið og á skilmálabreytinguna frá árinu 2008. Í bréfinu sé tekið fram að það sé fasteignin, raðhúsið, Sóleyjarimi 47 ásamt bílskúr sem sé sett að veði. Það sé einungis fyrirsláttur af hálfu varnaraðila að halda því fram að varnaraðili hafi ekki samþykkt veðsetningu síns eignarhluta. Bendir sóknaraðili einnig á kaupmála sem varnaraðili og eiginmaður hennar gerðu árið 2008, sem sýni að varnaraðila var ekki einungis ljóst að öll eignin hafi verið veðsett, heldur hafi hún einnig lýst því yfir að hún tæki yfir skuldirnar. Sameiginlegur skilningur aðila hafi frá öndverðu verið að öll fasteignin væri til tryggingar skuldbindingum samkvæmt skuldabréfinu.
Þeirri málsástæðu varnaraðila að sýslumaður hafi stöðvað nauðungarsölu frá sóknaraðila vegna sömu kröfu er mótmælt sem rangri. Jafnframt er því mótmælt að vegna væntinga varnaraðila eigi að fella kröfuna niður.
Málsástæður og lagarök varnaraðila, Drífu Viðarsdóttur
Varnaraðili kveður í fyrsta lagi að sú krafa sem sóknaraðili telji sig eiga á hendur varnaraðila sé fyrnd. Skuldari að veðskuldabréfinu hafi verið eiginmaður varnaraðila og hafi bú hans verið tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði héraðsdóms 7. febrúar 2012. Skiptum hafi lokið 30. apríl 2012 og engar eignir fundist í búinu. Sóknaraðili hafi lýst kröfu á grundvelli veðskuldabréfsins í búið. Krafa samkvæmt veðskuldabréfinu hafi fyrnst tveimur árum eftir skiptalok, samkvæmt 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991, sbr. lög nr. 142/2010. Sú undantekning sem felist í 3. mgr. 165. gr. laganna, að kröfuhafa sé gefinn kostur á að höfða mál til viðurkenningar á kröfu sinni, áður en tveggja ára frestur líði, hafi ekki verið nýtt. Sóknaraðili hafi ekki fengið ný tryggingarréttindi í veðandlaginu á tveggja ára fyrningartíma frá skiptalokum. Ekkert hafi orðið til að slíta þeirri fyrningu. Einnig bendir varnaraðili á að þótt veðréttur fyrnist ekki, geti krafan að baki veðrétti fyrnst sjálfstætt engu að síður. Krafan sé grundvöllur nauðungarsölunnar. Sé engin krafa, verði ekki komið fram nauðungarsölu. Með því að engin krafa sé að baki veðréttindum samkvæmt bréfinu beri að staðfesta ákvörðun sýslumanns um stöðvun nauðungarsölu á fasteigninni. Þá bendir varnaraðili á að með breytingum sem lögleiddar voru með 1. gr. laga nr. 142/2010 og fólu í sér styttingu fyrningarfrests krafna á hendur þrotamanni og þrengri rétt kröfuhafa til þess að rjúfa fyrningu, var miðað að því að auðvelda þeim einstaklingum sem sætt hefðu gjaldþrotaskiptum að koma fjármálum sínum á réttan kjöl.
Í öðru lagi bendir varnaraðili á að hún hafi aðeins undirritað veðskuldabréfið sem maki veðsala, en ekki ábyrgðarmaður. Á sömu lund sé undirritun aðila á breytingu á greiðsluskilmálum bréfsins. Þannig geti nauðungarsala á eigninni aldrei náð til hennar allrar. Varnaraðili kveðst ekki hafa yfirtekið áhvílandi veðskuldir eiginmanns síns, þótt hún hafi síðar eignast alla eignina.
Í þriðja lagi kveður varnaraðili að sýslumaður hafi þegar tekið þá afstöðu til nauðungarsölunnar, að hún megi ekki fara fram. Hafi sóknaraðili sent inn beiðni um nauðungarsölu fyrir sömu kröfu í febrúar 2015. Þegar beiðnin var tekin fyrir 10. ágúst 2015 hafi varnaraðili krafist þess að nauðungarsala yrði stöðvuð vegna fyrningar. Hafi sýslumaður ákveðið að stöðva nauðungarsöluna. Hafi sóknaraðili ekki neytt þess úrræðis að leita eftir úrskurði dómstóla um ágreiningsefnið og beri því að líta svo á að sóknaraðili hafi fallist á stöðvun nauðungarsölunnar, enda hafi varnaraðili réttmætar væntingar til að telja að sóknaraðili hafi fallist á rök sín.
Þá kveður varnaraðili að túlka beri skuldabréfið varnaraðila í hag, sbr. meðal annars b. lið 36. gr. laga nr. 7/1937 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og telur að ósanngjarnt sé og andstætt góðri viðskiptavenju að bera það fyrir sig, sbr. 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Þá byggir varnaraðili einnig á 33. gr. laga nr. 7/1936.
Niðurstaða
Varnaraðili undirritaði veðskuldabréf það sem mál þetta lýtur að 6. febrúar 2008, í reit á veðskuldabréfinu sem ber yfirskriftina undirritun maka útgefanda. Í meginmáli veðskuldabréfsins er feitletrað í ramma að veðsett sé eignin Sóleyjarimi 47, raðhús 08-0101 og bílskúr 08-102. Styður það þá skýringu að veðréttinum hafi ekki aðeins verið ætlað að ná til eignarhluta eiginmanns hennar heldur til allrar eignarinnar og þar með hluta varnaraðila. Jafnframt gerðu varnaraðili og eiginmaður hennar kaupmála 26. apríl 2008 eins og fyrr er rakið, þar sem raðhúsið að Sóleyjarima var gert að séreign varnaraðila og tók hún jafnhliða að sér að greiða áhvílandi veðskuldir á fasteigninni, þar á meðal veðskuld þá sem mál þetta lýtur að. Þá var gerð breyting á skilmálum veðskuldabréfsins 29. október 2008 sem varnaraðili ritaði undir í reit sem bar yfirskriftina ,,samþykki maka eða þinglýsts eiganda ef annar en greiðandi“. Á þeim tíma var hún orðin ein eigandi eignarinnar samkvæmt framangreindum kaupmála og ber allt framangreint þess vott að skilningur varnaraðila hafi frá öndverðu verið sá að hún samþykkti að öll eignin að Sóleyjarima 47 stæði til tryggingar greiðslu veðskuldabréfsins.
Af hálfu varnaraðila er því haldið fram að krafa sóknaraðila á hendur henni sé fyrnd, þar sem bú eiginmanns hennar hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta 7. febrúar 2012 og skiptum lokið 30. apríl 2012 sem eignalausu búi. Krafa samkvæmt veðskuldabréfi því sem mál þetta lýtur að, hafi fyrnst tveimur árum síðar samkvæmt 2. mgr. 165. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti, sbr. lög nr. 142/2010.
Með gerð og undirritun kaupmálans 26. apríl 2008 lýsti varnaraðili því yfir að hún gengist undir þá skuldbindingu sem í veðskuldabréfinu fólst. Þegar af þeirri ástæðu koma ekki til álita þau rök sem varnaraðili hefur teflt fram fyrir fyrningu kröfunnar á hendur eiginmanni hennar, sem útgefanda og greiðanda skuldabréfsins. Eins og hér stóð á var ekki þörf á sérstakri tilkynningu til sóknaraðila um að varnaraðili hefði tekið að sér greiðsluskyldu samkvæmt veðskuldabréfinu, enda var kaupmálinn skráður í kaupmálabók sýslumanns 30. maí 2008 og þinglýst á eignina, auk þess sem sóknaraðili stóð að gerð þeirrar skilmálabreytingar á veðskuldabréfinu sem fyrr er rakin og varnaraðili ritaði undir samþykki sitt. Viðbótarkaupmáli sem varnaraðili og eiginmaður hennar gerðu rúmum þremur árum eftir að búi eiginmanns hennar lauk sem eignalausu búi breytir engu um skuldbindingu varnaraðila samkvæmt fyrri kaupmála.
Samkvæmt framangreindu er ekki fallist á að krafa sóknaraðila á hendur varnaraðila sé fyrnd.
Af hálfu varnaraðila hefur því verið haldið fram að sýslumaður hafi þegar tekið þá afstöðu til nauðungarsölunnar, að hún megi ekki fara fram. Hafi sóknaraðili sent inn beiðni um nauðungarsölu fyrir sömu kröfu og um ræðir í máli þessu í febrúar 2015. Þegar beiðnin var tekin fyrir 10. ágúst 2015 hafi varnaraðili krafist þess að nauðungarsala yrði stöðvuð og hafi sýslumaður orðið við því. Hafi sóknaraðili ekki neytt þess úrræðis að leita eftir úrskurði dómstóla um ágreiningsefnið og beri því að líta svo á að sóknaraðili hafi fallist á stöðvun nauðungarsölunnar.
Samkvæmt 1. tölulið 2. mgr. 15. gr. laga nr. 90/1991 fellur beiðni um nauðungarsölu niður ef ekki er mætt af hálfu gerðarbeiðanda þegar sýslumaður tekur málefnið fyrir, enda hafi gerðarbeiðandi ekki tilkynnt sýslumanni um lögmæt forföll sem hamli því að mætt sé. Í endurriti gerðabókar sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að 10. ágúst 2015 hafi verið tekin fyrir beiðni sóknaraðila um nauðungarsölu á fasteigninni að Sóleyjarima 47. Ekki hafi verið mætt af hálfu sóknaraðila og hafi því nauðungarsala verið stöðvuð á grundvelli 1. töluliðar 2. mgr. 15. gr. laga nr. 90/1991.
Enda þótt beiðni sóknaraðila hafi samkvæmt framangreindu talist niður fallin, var ekkert því til fyrirstöðu að sóknaraðili setti fram nýja beiðni um nauðungarsölu, sem hann og gerði með beiðni sinni 1. júlí 2016.
Varnaraðili hefur ekki fært fram nein haldbær rök til stuðnings því að ógilda beri framangreint veðskuldabréf á grundvelli 33. gr. eða b. liðar 36. gr. laga nr. 7/1936 um umboð, samningsgerð og ógilda löggerninga og að ósanngjarnt sé og andstætt góðri viðskiptavenju að bera fyrir sig veðskuldabréfið.
Að öllu framanrituðu virtu er fallist á kröfu sóknaraðila um ómerkingu ákvörðunar sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu um stöðvun nauðungarsölu á fasteigninni að Sóleyjarima 47, Reykjavík.
Eftir þessum úrslitum greiði varnaraðili sóknaraðila málskostnað eins og greinir í úrskurðarorði.
Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 6. febrúar 2017, um að stöðva nauðungarsölu á fasteigninni Sóleyjarima 47, Reykjavík, fastanúmer 224-4859, er ómerkt.
Varnaraðili, Drífa Viðarsdóttir, geriði sóknaraðila, Landsbankanum hf. 400.000 krónur í málskostnað.