Hæstiréttur íslands

Mál nr. 147/2003


Lykilorð

  • Börn
  • Forsjá
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 30

 

Fimmtudaginn 30. október 2003.

Nr. 147/2003.

K

(Dögg Pálsdóttir hrl.)

gegn

M

(Helgi Birgisson hrl.)

 

Börn. Forsjá. Gjafsókn.

Í héraðsdómi, sem skipaður var sérfróðum meðdómendum, var M fengin forsjá beggja barna málsaðila. Byggðist niðurstaðan meðal annars á matsgerð dómkvadds matsmanns. Eftir uppkvaðningu héraðsdóms aflaði K einhliða álits sérfræðings um álitaefnið og lagði fyrir Hæstarétt. Var talið að þótt vissar ályktanir héraðsdóms um atriði, sem vörðuðu heilsufar K, kynnu að virtu fyrrnefndu áliti sérfræðingsins að orka tvímælis, fengi það ekki breytt þeirri heildarniðurstöðu um forsjá barnanna, sem þar væri komist að með ítarlegum rökum.  Niðurstaða héraðsdóms var því staðfest.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason, Markús Sigurbjörnsson og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. apríl 2003. Hún krefst þess aðallega að sér verði dæmd forsjá beggja barna aðilanna, Y og X, en til vara forsjá síðarnefnda barnsins. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt hér fyrir dómi.

Stefndi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti.

Eins og nánar greinir í héraðsdómi gengu aðilar málsins í hjúskap 1993 og fæddust áðurnefnd börn þeirra á árunum 1995 og 1997. Stefndi flutti af heimilinu 21. júní 2002 og tók börnin með sér, en mál þetta höfðaði hann 22. sama mánaðar til að fá sér dæmda forsjá þeirra. Undir rekstri málsins fyrir héraðsdómi var tekin ákvörðun 5. júlí 2002 um að stefndi skyldi fara með forsjá barnanna til bráðabirgða. Þá kvaddi héraðsdómari Álfheiði Steinþórsdóttur sálfræðing til að gera sérfræðilega álitsgerð um persónulega eiginleika og hagi aðilanna, tengsl þeirra við börn sín og hæfni þeirra sem uppalenda. Álitsgerð sálfræðingsins var lögð fram á dómþingi 5. desember 2002.

Áfrýjandi hefur meðal annars lagt fram í Hæstarétti greinargerð Tómasar Zoëga geðlæknis frá 16. maí 2003, en í henni kemur fram að hann hafi að tilhlutan lögmanns áfrýjanda átt fjögur viðtöl við áfrýjanda eftir uppkvaðningu héraðsdóms, ásamt því að kynna sér nákvæmlega áðurnefnda álitsgerð Álfheiðar Steinþórsdóttur og forsendur hins áfrýjaða dóms. Í niðurstöðum þessarar greinargerðar lætur læknirinn það álit uppi að áfrýjandi sé viðkvæm og næm, börn aðilanna séu henni mjög kær og hún virðist vera í traustu sambandi við fjölskyldu sína, sem hún fái stuðning frá. Harkalegar aðgerðir stefnda, þegar hann tók börnin af heimili þeirra, hafi haft mikil áhrif á áfrýjanda. Þrátt fyrir mikið andstreymi hafi hún náð sér vel á strik og sé komin í fasta vinnu. Telur læknirinn að niðurstöður sálfræðiprófa séu oftúlkaðar í hinum áfrýjaða dómi, en slík próf geti ekki, þótt þau séu vandlega gerð eins og í þessu tilviki, staðið ein án þess að jafnframt sé gert svokallað klínískt mat á viðkomandi einstaklingum. Hafi ekkert annað komið fram í viðtölum hans við áfrýjanda en að hún sé mjög vel hæf til að fara með forsjá barnanna, en um það sé hann sammála áliti fyrrnefnds sálfræðings. Að tilhlutan áfrýjanda kom læknirinn fyrir héraðsdóm 20. október 2003 og staðfesti þar greinargerð þessa, auk þess að svara frekari spurningum, sem bornar voru fram af hálfu aðilanna.

Greinargerð sú, sem að framan getur, var unnin af sérfræðingi, sem ekki var kvaddur til þess verks af dómara, heldur fenginn til þess af öðrum aðila málsins. Eins og ráðið verður af áðursögðu átti læknirinn viðtöl við áfrýjanda í tengslum við þetta, en hvorki við stefnda né börn aðilanna, og virðist hann aðeins hafa haft undir höndum hluta af gögnum málsins. Verður að meta gildi þessarar greinargerðar, sem að auki tekur ekki til allra þátta í álitsgerð Álfheiðar Steinþórsdóttur, með tilliti til alls þessa.

Héraðsdómur, sem skipaður var tveimur sérfróðum meðdómsmönnum, tók við aðalmeðferð málsins meðal annars umfangsmiklar skýrslur af báðum aðilum þess og sálfræðingnum, sem dómkvaddur hafði verið til álitsgerðar samkvæmt áðursögðu. Þótt vissar ályktanir dómsins um atriði, sem varða heilsufar áfrýjanda, kunni að virtri fyrrnefndri greinargerð Tómasar Zoëga að orka tvímælis, fær það ekki breytt þeirri heildarniðurstöðu um forsjá barnanna, sem þar var komist að með ítarlegum rökum. Með þessum athugasemdum verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur með vísan til forsendna hans.

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður. Um gjafsóknarkostnað áfrýjanda hér fyrir dómi fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, K, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 350.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykja­­ness 21. janúar 2003.

                Málið var höfðað 22. júní 2002 og dómtekið 7. janúar 2003.  Stefnandi er M, til heimilis að [...].  Stefnda er K, til heimilis að [...].

                Í málinu er deilt um forsjá tveggja barna málsaðila, Y, [kt.] og X, [kt.] .

                Stefnandi krefst þess að honum verði með dómi falin forsjá barnanna tveggja og að stefnda verði dæmd til greiðslu málskostnaðar.

                Stefnda krefst sýknu af dómkröfum stefnanda og að henni verði falin forsjá barnanna.  Falli dómur stefndu í vil er þess og krafist að ákveðið verði í dómi að áfrýjun málsins hindri ekki aðför eftir dóminum.  Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

I.

                Málsaðilar hófu óvígða sambúð 1989 eftir náin kynni um nokkurra ára skeið og gengu í hjónaband 1993.  Á hjúskapartímanum fæddust þeim börnin Y [...] 1995 og X [...] 1997.  Stefnda, sem er [...], var heimavinnandi húsmóðir fyrstu æviár barnanna og bar hitann og þungann af dag­legri umönnun og upp­eldi þeirra á meðan stefnandi sá fjölskyldunni farborða, en hann er [...].  Gögn málsins bera með sér að verulegir brestir hafi verið komnir í hjónaband aðila veturinn 2000/2001 og virðist sem þau hafi ekki reynt að vinna sameiginlega úr þeim vanda­.  Stefnda hneigðist æ meira að trúmálum og hóf nám í [...] haustið 2001.  Á sama tíma vann stefnandi langan vinnudag og var að auki virkur í félagsmálum á vegum [...].  Vegna náms stefndu kom stefnandi í ríkari mæli að umönnun barnanna, en óumdeilt er að hann hafi einnig fyrir þann tíma sinnt upp­eldi þeirra af kostgæfni eftir því sem tími gafst til. 

Að sögn stefnanda mun hann hafa áttað sig á því veturinn 2001/2002 að hann og börnin væru betur sett án stefndu, en hún hefði verið orðin gagntekin af trúaráhuga og meðal annars séð eldglæringar standa út úr enni fólks og heilagan anda milli handa þess.  Að sama skapi hefði hún van­rækt stefnanda og börn þeirra, [...].  Sagði stefnandi fyrir dómi að sig hefði verið farið að gruna þegar á árinu 1994 að stefnda væri ekki heil á geðsmunum.  Hún hefði um árabil þjáðst af miklum rang­­hug­myndum, ofsóknarkennd, sjúk­legri fælni og kvíða.  Stefnda bar á móti þessu fyrir dómi og sagði trúaráhuga sinn aldrei hafa komið niður á umönnun og upp­eldi barnanna.  Hvað sem þessu líður er ljóst af gögnum málsins að síðustu misseri mun sam­­bandi aðila hafi verið orðið þannig háttað að náið samneyti hafi verið svo gott sem búið milli þeirra og svaf stefnda á tímabili á dýnu í stofu á sameiginlegu heimili þeirra að [...].

Föstudaginn 21. júní 2002 kom stefnandi heim úr vinnu, en ráðgert var að fjöl­skyldan færi saman í útilegu þann dag eða morguninn eftir.  Þess í stað tók stefnandi saman fatnað sinn og barnanna og fór með þau út af heimilinu, án vitundar stefndu að því er virðist og skildi eftir vélritað bréf til hennar, þar sem hann gerði henni grein fyrir að samvistum þeirra væri lokið og að börnin myndu fylgja honum.  Í bréfinu rakti stefnandi helstu ástæður fyrir ákvörðun sinni, nefndi þar til sögunnar óeðli­legt heimilislíf þeirra hjóna, sem bitnað hefði á börnunum og sagðist telja að hagsmunum þeirra væri best borgið á þennan hátt.  Hann kvaðst myndu setja fram ósk um skilnað og höfða dómsmál á hendur stefndu til heimtu forsjár barnanna.  Stefna í máli þessu var birt fyrir stefndu morguninn eftir.

Meðal dómkrafna stefnanda var krafa um bráðabirgðaforsjá barnanna tveggja.  Var ágreiningur um þetta atriði tekinn fyrir í þinghaldi 5. júlí síðastliðinn.  Sama dag var stefnanda falin forsjá barnanna til bráðabirgða á grundvelli 36. gr. barnalaga nr. 20/1992.  Stefnandi hefur síðan annast daglega umönnun og uppeldi barnanna og býr þeim nú heimili að [...], en stefnda hefur reglulega umgengni við þau aðra hvora helgi frá fimmtudagseftirmiðdegi til mánudagsmorguns, auk eins sólarhrings í þeirri viku, sem hún hefur börnin ekki hjá sér til helgardvalar.  Hjónaskilnaðarmál aðila er til meðferðar hjá sýslumanninum [...] og er enn óleyst úr fjárskiptum milli þeirra.      

                Í þágu meðferðar málsins fól héraðsdómari Álfheiði Steinþórsdóttur sál­fræðingi að kanna persónu­lega eiginleika og hagi hvors aðila um sig, tengsl þeirra við börnin Y og X og hæfni þeirra sem uppalenda, allt með tilliti til þess hvaða for­sjár­skipan henti best högum og þörfum barnanna.  Sálfræðingurinn skilaði matsgerð 25. nóvember 2002.  Verður vikið að niðurstöðum matsmanns í II. kafla hér á eftir.

Forsjárdeila aðila er hörð.  Eins og gjarnan vill verða við slíkar kringum­stæður hafa þau borið hvort annað þungum sökum, einkum þó stefnandi, sem dregið hefur for­sjárhæfni stefndu í efa af fyrrgreindum ástæðum.  Stefnda kveðst á hinn bóginn hafa búið við ofríki stefnanda og andlega kúgun í hjónabandi þeirra þar sem hann hafi engan skilning sýnt á þörfum hennar og óttist hún að hann muni haga sér með líkum hætti gagnvart börnunum.  Þá vinni hann langan vinnu­dag sem [...] og sé jafn­framt á kafi í félagsmálum.  Hann hafi því lítinn tíma til að sinna daglegu uppeldi og umönnun barnanna.  Stefnda telur því að hún sé mun betur í stakk búin til að fara með forsjá þeirra.

II.

Í áðurnefndri matsgerð Álfheiðar Steinþórsdóttur sálfræðings, sem hún stað­festi fyrir dómi, kemur fram að Álfheiður hafi rætt við báða aðila í október og nóvember 2002 og lagt fyrir þau greindarpróf og tvenns konar persónuleikapróf.  Þá hafi hún farið í heimsókn til þeirra og hitt börnin Y og X í því umhverfi hjá hvorum aðila um sig.  Matsmaður ræddi einnig sér­stak­lega við börnin á skrif­stofu sinni og lagði fyrir þau svokallað CAT frávarpspróf og Bene-Anthony fjöl­skyldu­tengslapróf.  Loks átti Álfheiður samtöl við umsjónar­­kennara Y í [...] og kennara X í [...].  [Y er á áttunda ári en X er á sjötta ári]. 

Meginniðurstaða matsmanns er sú að báðir aðilar séu hæfir til að fara með forsjá barnanna tveggja.  Í samantekt hans um hvorn aðila fyrir sig kemur meðal annars fram að stefnandi, sem er [...] ára gamall, hafi góða greind samkvæmt niður­stöðum sálfræðiprófana og að hann nálgist verkefni á skipulagðan og einbeittan hátt.  Ekki hafi komið fram merki um geðræn frávik, svo sem geðsjúkdóma eða persónu­leika­röskun. Sálrænar varnir séu all sterkar og haldgóðar og nýtist honum að líkindum vel undir álagi.  Hann virðist mynda eðlileg og náin tilfinningatengsl, en sé frekar var­kár og forðist ágreining og deilur ef hann getur.  Viss einkenni komi fram um depurð, áhyggjur og kvíða undir niðri á þeim tíma er prófun fór fram.  Hann hafi góð raun­veru­­leikatengsl, sé jarðbundinn og fylginn sér.  Sálrænar varnir séu fyrst og fremst rétt­­­læting, bæling og afneitun. 

Um stefndu, sem er tæplega [...] ára gömul, segir í mats­gerð að hún mælist með eðlilega greind samkvæmt sálfræðiprófum.  Persónu­leika­próf sýni konu, sem sé ofur­næm og viðkvæm gagnvart umhverfi sínu og öðru fólki.  Hún mælist með djúpstæða tortryggni og aðsóknarkennd, sem hafi efalaust áhrif á líf hennar.  Hún finni til van­máttar og leiti skilnings, en sé um leið afar kvíðin og á verði.  Einstaklingar með þennan persónuleikaprófíl eigi yfirleitt í viðvarandi tengsla­­vanda, þar sem þeir eru ýmist vonsviknir og ásakandi í garð annarra og/eða þeim finnst þeir vera þolendur gagn­­­vart ósanngjörnum kröfum.  Raunveruleikatengsl stefndu séu frekar veik og varnir haldlitlar þannig að kvíði getur oft tekið yfir.  Hún reyni á ýmsan hátt að ráða við þessa líðan og koma skipulagi og stjórn á líf sitt og umhverfi.  Við ýmsar aðstæður geti það gengið all vel, en þegar kröfur aukast, skyndi­legar breytingar verða eða álag eykst telur matsmaður vandséð að stefnda standist slíkt án stuðnings fólks, sem hún treystir.  Í öryggi og vernduðu umhverfi, þar sem kröfur eru jafnar og vel þekktar, geta góðir eiginleikar stefndu, hlýja, ástúð og natni notið sín mun betur en nú er.  Matsmaður telur stefndu augljóslega hafa verið börnum sínum natin og góð móðir frá fæðingu þeirra og hafa annast þau eftir bestu getu innan þess ramma, sem hjóna­band og heimili hefur verið.  Erfitt sé að meta hvernig hún komi til með að ráða við það flókna hlutverk að vera einstæð móðir og fyrirvinna, einkum þegar kröfur barnanna aukast frá því sem nú er.

Aðrar niðurstöður dregur sálfræðingurinn saman í lok mats­gerðar og tekur í því sambandi mið af 2. mgr. 34. gr. barnalaga og þeim ellefu atriðum, sem tilgreind eru um þá lagagrein í athugasemdum er fylgdu frum­varpi til barnalaga á sínum tíma.  Fara niðurstöðurnar hér á eftir, en samhliða verður rakinn vitnisburður matsmanns fyrir dómi um sömu atriði:

                1. Tengsl barnanna við hvort foreldri um sig. 

Við athugun matsmanns kom fram að stefnda hefur mestmegnis verið heima­vinnandi frá fæðingu barnanna og að þau hafi bæði byrjað í leikskóla hálfan daginn þegar þau voru þriggja ára.  Frá 21. júní 2002 hafi börnin fyrst og fremst verið í umsjá stefnanda, en haft umgengni við stefndu tíu daga í mánuði hverjum.  Fram hafi komið að báðir aðilar eigi góð og eðlileg samskipti við börnin og séu næm á þarfir þeirra og tilfinningar.  Börnin, einkum Y, sé tvíbentari í viðmóti gagnvart stefndu og sé stríðari við hana en stefnanda, en sýni henni einnig blíðu, sem sé endur­goldin af stefndu.  Telpan gefi einnig skýrari yfirlýsingar um að vilja vera návistum við stefnanda og dveljast hjá honum.  Stefnandi virðist setja skýrari mörk fyrir telpuna hvað varðar hegðun, en sýni henni einnig blíðu.  X sé rólegri, en hann sé talsvert ákveðinn um tengsl sín við aðila.  Hann samsami sig sérstaklega við stefnanda og taki hann sér til fyrirmyndar.  Hann vilji hafa sömu áhugamál og stefnandi og fram komi að hann vilji vera meira einn með stefnanda en nú er.  Á fjölskyldutengslaprófi hafi komið fram hjá báðum börnunum að þau tengi öryggi og traust við stefnanda fremur en stefndu.  Fyrir dómi sagði matsmaður að þrátt fyrir að stefnandi hefði löngum stundum verið að heiman vegna atvinnu sinnar þá væri áberandi hvað börnin tengdust honum sterkum böndum og benti það til jákvæðra samskipta, einkum milli Y og föður síns.  Ólíklegt væri að þessi tengsl hafi myndast á þeim skamma tíma, sem liðinn væri frá samvistaslitum aðila.

2. Persónulegir eiginleikar foreldra og hagir þeirra.

Hér lýsir matsmaður því að báðir aðilar hafi búið með börnunum frá fæðingu þeirra og annast þau, en stefnda hafi að mestu verið heimavinnandi á meðan stefnandi hafi séð fjölskyldunni farborða.  Báðir aðilar hafi tengst börnunum og geti boðið upp á þær aðstæður og umhverfi, sem börnin þurfi, en aðstæður stefnanda séu þó skýrari og öruggari en stefndu, sem sé enn heimavinnandi.  Samkvæmt persónu­leika­prófum standi stefnandi sterkar að vígi en stefnda hvað varðar sálrænan styrk og varnir og þol gagnvart álagi.  Nánar aðspurður um niðurstöður MMPI2 persónuleikaprófunar á stefndu bar matsmaður fyrir dómi að þær sýndu mjög sterk kvíðaeinkenni og mjög sterka aðsóknarkennd, en í henni fælist djúpstæð tortryggni, ofurnæmi og jafnvel ofsóknarbrjálæði eða „paranoia“.  Samkvæmt prófinu upplifi stefnda sig mjög van­máttuga og sýni lítil raunveruleikatengsl.  Virtist matsmanni hér vera um langvarandi vanda­mál að ræða, ótengt skilnaði aðila og sagðist aðspurður telja að hinn mikli trúaráhugi stefndu væri líklega afleiðing af þessum vanda fremur en orsök hans.  Matsmaður tók þó sérstaklega fram í þessu sambandi að ekki hefði verið gerð klinisk greining á þessum þáttum og því væri óvarlegt að setja fram einhverja sjúkdóms­greiningu á stefndu.  Ef hún fengi forsjá barnanna þyrfti hún talsverðan stuðning og þá meiri en almennt gengur fyrir einstæða foreldra.  Hún hefði til skamms tíma lifað í öruggu og vernduðu umhverfi hjónabands, en án þess konar ramma væri erfitt að meta hvernig henni myndi ganga með forsjá barnanna tveggja.  Nánar aðspurður um síðastgreind ummæli sagði matsmaður að þótt stefnda hefði verið heimavinnandi og annast meira um börnin virtist sem stefnandi hefði tryggt rammann í uppeldi barnanna og öryggi þeirra og stefndu.  Henni væri engu að síður treystandi fyrir börnunum.

3. Óskir barna.

Matsmaður telur athuganir sýna að börnin séu nátengd báðum aðilum.  Y finni fyrir vissri togstreitu og ábyrgð á því að öðru foreldrinu geti liðið illa og finnist það erfitt, en hún sé þó ákveðin í að gera eins og hún vill og segir matsmaður engan vafa leika á því samkvæmt fjölskyldutengslaprófi að Y sjái stefnanda sem það foreldri sem hún bindur sterkastar tilfinningar til og treystir á þegar próf er tekið.  X lýsi jafnari tilfinningum og tengslum við báða foreldra og tjái eigin tilfinningar sterkt til þeirra beggja og finni sömuleiðis svörun þeirra við sig.  Hann gefi fleiri og sterkari yfirlýsingar um tilfinningar og óskir um samvistir við stefnanda en stefndu þegar próf er tekið.  Fyrir dómi sagði matsmaður að bæði börnin hefðu sett fram óskir um að vera meira ein með stefnanda og benti það til ákveðins rígs milli þeirra.  Þetta mætti alls ekki skilja sem merki um að skilja ætti börnin að við forsjár­ákvörðun heldur bæri þetta vott um að börnin þrái bæði meiri einstaklingsathygli frá stefnanda en nú er. 

4. Breyting á umhverfi.

Hvorugur aðila hyggst breyta um núverandi umhverfi, sem börnin þekkja, heldur ætla þau að búa áfram í [...], með aðgang að sama leikskóla og grunnskóla fyrir börnin.  Stefnda búi í íbúð þeirri, sem börnin hafi alist upp í síðast­liðin þrjú ár, en þegar athugun matsmanns hafi farið fram hefði ekki verið ljóst hvort svo yrði áfram eða hvort stefnda myndi færa sig um set innan sama hverfis.  Stefnandi hafi keypt íbúð í hverfinu og búi þar með börnunum.  Þannig virðist matsmanni sem báðir aðilar hafi kappkostað að hlúa að börnunum í því umhverfi, sem þau þekkja.

5. Systkinahópur.

Matsmaður bendir á að Y og X hafi alist upp saman frá fæðingu og séu mikið saman.  Ef til vill mættu þau fá meiri einstaklingsathygli hvort um sig en nú er.  Þau þrátti og kvarti undan hvort öðru á þann hátt sem systkinum einum er lagið, en séu augljóslega afar náin, leiti stöðugt til hvors annars og þekkist vel.  Þau fái líka útrás fyrir ýmis konar spennu og óöryggi, svo sem vegna skilnaðar aðila, í innbyrðis samskiptum sín á milli.  Slíkt sé vanalegt að sjá á milli systkina, sem eru viss um að þau eigi hvort annað að.  Því telur matsmaður að ekki verði séð að það þjóni hags­munum barnanna á nokkurn hátt að þau verði aðskilin vegna skilnaðar foreldra sinna.

6. Dagleg umönnun og umsjá.

Matsmaður segir stefndu hafa verið heimavinnandi meirihluta af ævi barnanna og því hafi hún haft veg og vanda af daglegri umönnun þeirra og þekki börnin vel.  Stefnandi hafi yfirleitt unnið langan vinnudag, en virðist hafa tengst börnum sínum vel og haft umsjón með þeim.  Börnin beri það bæði með sér að vel hefur verið um þau hugsað, þau komi eðlilega fyrir í hegðun og tengslum, en séu bæði með kvíðaein­kenni.  Þau virðast hafa þroskast eðlilega og aðlagast leikskólakennurum og grunn­skóla­­kennara, sem matsmaður hafi rætt við.

7. Húsnæðismál.

Hér vísar matsmaður til þeirra ályktana, sem um ræðir í 4. tölulið að framan.

8. Liðsinni vandamanna hvors um sig.

Matsmaður bendir á að stefnda hafi liðsinni af foreldrum sínum og systkinum, en þau tengsl hafi ekki verið mjög náin við börnin þegar aðilar hafi slitið samvistum.  Fjölskylda stefnanda sé mjög náin börnunum, einkum föðurforeldrar, tvíburasystur hans og fjölskyldur þeirra.  Bæði börnin tali mikið um föðurfjölskyldu og virðast tals­vert náin henni.

9. Kyn og aldur.

Matsmaður telur að kyn og aldur barnanna skipti ekki máli varðandi ákvörðun um forsjá þeirra.

10. Umgengni barns og forsjárlauss foreldris.

Matsmaður segir að þegar athugun fór fram hafi börnin verið aðra hvora helgi til langrar dvalar í umgengni við stefndu, auk einnar nætur í vikunni á milli.  Þannig hafi þau verið tíu daga hjá henni í mánuði en tuttugu daga hjá stefnanda.  Vilji stefnandi gjarnan halda þeirri reglu fái hann forsjá barnanna.  Stefnda telur þessa umgengni vera of litla fyrir sig og börnin.  Bent er á að togstreita hafi verið milli aðila um umgengnina og stefnda verið afar ósátt við að stefnandi stýrði henni einráður.  Hún telji sig hafa verið hlunnfarna í þessu sambandi og óttist að fái stefnandi forsjána muni hann áfram taka sér slíkt vald.  Sjálf segist hún myndu verða mjög sveigjanleg við stefnanda fái hún forsjá barnanna.  Hún segist hafa lagt sig fram um að gera börnunum þetta eins auðvelt og framast væri kostur, þó svo að hún væri ósátt við tilhögun umgengninnar.  Stefnandi segi slíkt hið sama, þ.e. að hann hafi aldrei hallað á stefndu við börnin.  Matsmaður telur aðila hafa hér nokkuð ólík sjónarmið gagnvart umgengni og telur líklegt að gera verði fremur skýran samning um umgengnina þegar forsjá hefur verið ákveðin.  Þó væri greinilegt að báðir aðilar vilji leggja sig fram til þess að umgengni barnanna geti verið góð við hitt foreldrið og hafi matsmaður trú á því að þau muni finna farsæla lausn á umgengnismálum eftir lausn forsjárdeilunnar.

11. Ólögmæt sjálftaka foreldris á barni.

Matsmaður bendir hér á að stefnandi hafi tekið börnin út af sameiginlegu heimili aðila síðastliðið sumar, án vitneskju eða samþykkis stefndu og í framhaldi tilkynnt henni um skilnaðaráform sín.  Stefnda lýsi því að hún hafi svo ekki fengið að sjá börnin fyrr en að liðnu níu daga ferðalagi barnanna innanlands og að á þeim tíma hafi hún ekki vitað hvar þau væru niður komin.  Upplýst sé að áður en stefnandi fékk bráðabirgðaforsjá barnanna hafi stefnda fengið að umgangast þau á stað og stund, sem hann hafi ákveðið.  Þannig sé ljóst að áliti matsmanns að stefnda hafi að þessu leyti verið beitt ofríki af hálfu stefnanda.  Sjálfur telji stefnandi að hann hafi aðeins gert það sem hann hefði talið nauðsynlegt til að skilnaður aðila gæti farið fram án of mikils álags fyrir börnin.  Nánar aðspurður um þessa atburði fyrir dómi bar matsmaður að svo virtist sem þetta framferði stefnanda hefði ekki komið illa við börnin og virtist ekki birtast sem vantraust eða á annan neikvæðan hátt í tengslum þeirra við hann.

III.

Stefnandi og stefnda gáfu aðilaskýrslur fyrir dómi, en auk þeirra báru vitni Álfheiður Steinþórsdóttir sálfræðingur og A nágranna­kona stefndu, sem býr að [...].  Vitnisburði sálfræðingsins voru gerð skil í II. kafla hér að framan.  Verður nú vikið að framburði annarra skýrslugjafa að svo miklu leyti, sem þýðingu getur haft fyrir málsúrslit.

Stefnandi lýsti því yfir fyrir dómi að hann gerði ekki athugasemdir við niður­stöður mats­gerðar í málinu og umfjöllun matsmanns um aðila og börn þeirra í mats­gerðinni nema að því leyti sem frásögn stefndu um fjölskyldusögu þeirra stangaðist á við hans eigin frásögn.  Stefnandi sagði að hann hefði undirbúið sig vel undir skilnað aðila og meðal annars ráðfært sig við sálfræðing um það hvernig best væri að standa að honum þannig að börnin finndu sem minnst fyrir uppgjöri þeirra hjóna.  Skilnaður hefði verið óumflýjanlegur og þar sem hann hefði ekki treyst stefndu til að fara ein með forsjá barnanna vegna persónulegra veikleika og andlegra veikinda um árabil hefði hann séð sig knúinn til að taka þau með sér út af heimilinu.  Aðspurður kvaðst stefnandi hafa verið meðvitaður um að sú ákvörðun myndi styrkja stöðu hans við ákvörðun bráðabirgðaforsjár í málinu, en þó hefði hann fyrst og fremst haft að leiðar­ljósi hvað væri börnunum fyrir bestu í stöðunni.  Hann kvaðst enn í dag greiða heimilis­reikninga fyrir stefndu og allar afborganir af áhvílandi lánum á fasteigninni [...], en að auki legði hann 100.000 krónur á mánuði inn á persónulegan banka­reikning hennar.  Þess utan kvaðst stefnandi ekki vita hvernig framfærslu hennar væri háttað.

Stefnda lýsti því yfir fyrir dómi að henni hefðu ekki komið á óvart niðurstöður matsgerðar í málinu og kvaðst ekki gera sérstakar athugasemdir við umfjöllun mats­manns þótt sumt væri ekki rétt, sem stefnandi héldi þar fram.  Aðspurð kvaðst hún treysta stefnanda fyrir uppeldi barnanna, en sagðist þó viss um að þeim liði betur hjá sér, en hún vildi vernda þau betur en stefnandi fyrir töktum, sem fólk noti almennt til að meiða aðra og brjóta á þeim.  Hún kvaðst hafa verið ósátt við skilnað aðila á sínum tíma og hefði sjálf vilja bíða með skilnað í 3-4 ár í viðbót, en þá hefðu börnin verið orðin eldri og betur í stakk búin til að takast á við meðfylgjandi erfiðleika.  Stefnda dró ekki fjöður yfir það að hún væri afar trúuð og sagðist skynja líðan fólks á líkan hátt og þegar prestar væru að störfum.  Hún líkti þessum eiginleika við miðilshæfi­leika og kvaðst upplifa og sjá ljós og krafta hjá trúuðu fólki og eitthvað í líkingu við geislabaug í kringum það, eins og þekkt hafi verið í gegnum aldirnar.  Aðspurð kvaðst stefnda nýlega vera búin að fá vinnu hjá [...] og fengi hún um 108.-120.000 krónur í laun á mánuði.  Hún mótmælti því að stefnandi hefði séð meira og minna um daglega umönnun barnanna eftir að hún hefði [hafið nám] haustið 2001, en vissulega hefði hann komið í ríkari mæli að uppeldinu þótt hún bæri áfram hitann og þungann af því.    

Vitnið A bar fyrir dómi að hún hefði kynnst máls­aðilum fyrir um þremur árum síðan þegar þau hefðu flutt að [...].  Náin kynni hefðu tekist milli barna þeirra og mikill samgangur verið á milli heimilanna.  A kvað börn aðila vera „fyrirmyndarbörn“, sem væru í góðu jafn­vægi og væri greinilega vel um þau hugsað.  Henni fyndist hún sjá örlitla breytingu á börnunum síðast­­liðna sex mánuði, sem birtist í því að þau væru ekki jafn frjálsleg og áður, en taldi það ósköp skiljanlegt í ljósi skilnaðar aðila.

IV.

                Stefnandi byggir kröfu sína um forsjá barnanna á 34. gr. barnalaga nr. 20/1992, en hagsmunir barnanna krefjist þess að honum verði falin forsjá þeirra.  Telur stefnandi að persónulegir eiginleikar hans muni nýtast börnunum betur en eigin­leikar stefndu við uppeldi þeirra.  Náin tengsl séu á milli hans og barnanna og þau finni öryggi sitt hjá honum.  Hann hafi tekið virkan þátt í uppeldi barnanna og heimilis­haldi frá fæðingu þeirra, samhliða því að stunda atvinnu sína og afla fjöl­skyldunni tekna.  Þá hafi hann frá hausti 2001 séð að mestu um daglega umönnun barnanna og heimilishald á meðan stefnda hafi verið í [námi] og annast þau einn frá því í júní 2002, þótt stefnda hafi frá sama tíma haft reglulega umgengni við börnin.  Telur stefnandi að það muni hafa minnsta röskun í för með sér fyrir börnin að hann fari eftirleiðis með forsjá þeirra.  Ytra umhverfi hans sé honum hagstætt og geri það að verkum að hann eigi alla möguleika á því að skapa börnunum þroskavænleg upp­eldisskilyrði.  Félagslega hafi hann sterkari stöðu en stefnda og betri möguleika til tekjuöflunar en hún.  Þá geti hann aðlagað vinnutíma sinn að þörfum barnanna, án þess að það hafi veruleg áhrif á tekjur hans.  Hann njóti einnig ríkulegs stuðnings fjöl­skyldu sinnar við uppeldi barnanna og muni ekki verða breyting á því, en börnin séu nákomin foreldrum hans og systkinum.  Fái stefnandi dæmda forsjá barnanna kveðst hann munu leggja sig allan fram um að umgengnisréttur þeirra við stefndu verði eins rúmur og kostur er og skyn­sam­legt geti talist með tilliti til hagsmuna barnanna.

                Framangreindu til stuðnings vísar stefnandi til mats­gerðar Álfheiðar Steinþórs­dóttur sálfræðings og niðurstaðna hennar í ellefu liðum um for­sjár­hæfni aðila.  Hann bendir sérstaklega á að matsgerðin staðreyni að börnin hafi afgerandi sterkust tilfinningatengsl við hann og að hann hafi tekið virkan þátt í grunnuppeldi barnanna frá fæðingu þeirra.  Þau bindi því traust sitt og öryggi við hann mun fremur en við stefndu.  Þá sýni niðurstöður matsgerðarinnar ótvírætt að persónulegir eiginleikar stefnanda séu mun ákjósanlegri fyrir uppeldi barnanna og að hagir þeirra séu betur tryggðir hjá honum.  Matsgerðin staðreyni einnig á móti að stefnda eigi við alvarleg andleg vandamál að stríða; hún hafi lítinn sjálfsstyrk, takmörkuð raunveruleikatengsl og þjáist af djúpstæðri tortryggni og aðsóknarkennd. Í því sambandi hafi matsmaður bent á að hinn óeðlilegi trúaráhugi hennar væri að öllum líkindum ekki orsök fyrir and­­­legum vandamálum hennar heldur afleiðing af þeim.  Matsgerðin sýni enn fremur að börnin óski eindregið eftir því að fá að búa hjá stefnanda og að framtíðaráform hans, atvinnuhagir og heimilisaðstæður séu mun tryggari en stefndu með tilliti til þarfa barnanna.  Stefnandi hafi einnig mun þéttara stuðningsnet nánustu fjölskyldu.  Telur stefnandi samkvæmt öllu þessu ljóst að öryggi barnanna krefjist þess að honum verði áfram falin forsjá þeirra.

V.

                Stefnda byggir kröfugerð sína á því að hagsmunir barnanna séu best tryggðir með því að henni verði falin forsjá þeirra, sbr. 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 20/1992.  Hún hafi verið heimavinnandi allt frá fæðingu barnanna og líf hennar og tilvera snúist um umönnun og uppeldi þeirra og að koma til móts við þarfir þeirra og öryggi.  Hún hafi því verið aðal umönnunaraðili barnanna, svo sem staðfest sé í matsgerð Álfheiðar Stein­þórsdóttur sálfræðings og sé betur til þess fallin en stefnandi að skapa þeim festu, ró og öryggi í uppvextinum, á því heimili, sem þau hafi alist upp á undanfarin ár.  Njóti hún þar einnig stuðnings nánustu fjölskyldu sinnar, sem sé síst minni en stefnandi geti búist við að njóta.  Að því er varðar persónulega eiginleika kveður stefnda að hún eigi ekki síður en stefnandi alla möguleika á að skapa börnunum þroska­vænlegt atlæti og umhverfi.  Hún sé vel menntuð, með listræna hæfileika og búi yfir góðum kostum sem uppalandi.  Skapferli hennar sé ljúfara en skapferli stefnanda; hún sé hlý, umburðarlynd og kærleiksrík, en stefnandi afar kröfuharður og vilji hafi stjórn á hugsunum og athöfnum barnanna, eins og hann hafi gert gagnvart henni og börnunum í hjóna­bandi aðila.  Hann þykist ávallt vita hvað sé öðrum fyrir bestu, vilji drottna og hafi engan skilning á líðan og tilfinningum barnanna, eins og stað­fest sé í mats­gerðinni, en þar bendi matsmaður á að stefnandi sé kröfuharður, sjálf­miðaður og vilji fara eigin leiðir.  Telur stefnda að framferði stefnanda í for­sjár­málinu hafi allt frá upphafi einkennst af þessu og sýni ótrúlega grimmd hans í garð hennar og barnanna.  Þannig hafi stefnandi viðurkennt fyrir dómi að hafa vísvitandi ætlað að bæta stöðu sína í málinu með því að nema börn aðila brott af sam­eigin­legu heimili þeirra í júní 2002 og komið í veg fyrir að þau sæu móður sína í tíu daga þar á eftir.  Í framhaldi hafi hann gert kröfu um bráðabirgðaforsjá barnanna og fengið hana á röngum forsendum með því að ausa stefndu auri.  Telur stefnda að þessi aðdragandi forsjármálsins skipti verulegu máli við mat á því hvor aðila teljist hæfari forsjáraðili með tilliti til velferðar og öryggis barna þeirra.  Stefnda mótmælir í því sambandi harð­lega þeirri mynd, sem stefnandi hafi dregið upp af henni og öllum ávirðingum um andlega hagi hennar, en niður­stöður matsgerðarinnar sýni að þær ávirðingar eigi ekki við rök að styðjast.  Matsgerðin og vitnisburður matsmanns fyrir dómi sýni þvert á móti að hún hafi góða forsjárhæfni og að hún hafi sýnt góðan styrk og staðist vel það álag, sem fylgt hafi í kjölfar aðgerða stefnanda í júní 2002.  Stefnda bendir á að við úrlausn málsins verði að líta til allra málsatvika og meta heild­stætt hjá hvorum aðila hagsmunir barnanna séu betur tryggðir.  Ekki megi þar gera of mikið úr ætluðum vilja barnanna vegna ungs aldurs þeirra.  Þá mótmælir stefnda þeirri niður­stöðu matsmanns að börnin séu bundin stefnanda sterkari tilfinningatengslum og telur að skoða verði slíka niðurstöðu í ljósi umrædds framferðis stefnanda og með þeim fyrir­vara, sem matsmaður geri varðandi aðstæður á þeim tíma er tengslin voru könnuð.  Stefnda telur enn fremur að ekki megi leggja of mikið upp úr atvinnuhögum aðila, enda hafi hún hingað til verið heimavinnandi vegna uppeldis barnanna á meðan stefnandi hafi getað sinnt starfi sínu af fullum krafti.  Stefnda sé nú að hefja störf á vinnu­markaði og breytist sú staða því henni til batnaðar, en fái hún forsjá barnanna þá muni hún einnig njóta barnabóta, meðlagsgreiðslna og annarra fjárhagslegra ívilnana.  Loks telur stefnda að henni sé mun betur treystandi en stefnanda til að tryggja vin­sam­leg sam­skipti og samvinnu aðila um umgengnisrétt samkvæmt 37. gr. barnalaga, enda hafi stefnandi sýnt með framferði sínu undanfarna mánuði að hann vilji vera einráður um umgengni hennar við börnin og stjórna því hvað sé henni og börnunum fyrir bestu í því sambandi.  Falli dómur stefndu í vil telur hún nauðsynlegt með tilliti til þarfa og öryggis barnanna að í dóminum verði kveðið svo á um að áfrýjun fresti ekki aðför eftir dóminum, sbr. 5. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einka­mála.   

VI.

Eins og áður er rakið slitu aðilar samvistum 21. júní 2002 og flutti stefnandi þá út af sameiginlegu heimili þeirra og tók með sér börnin Y og X.  Í framhaldi krafðist stefnandi skilnaðar að borði og sæng og er það mál til með­­ferðar hjá Sýslumanninum [...], en óleyst er úr fjárskiptum milli aðila.  Sam­hliða höfðun þessa forsjármáls krafðist stefnandi forsjár barnanna til bráða­birgða á grund­velli 36. gr. barnalaga nr. 20/1992 og varð héraðsdómur við þeirri kröfu í þing­haldi 5. júlí 2002.  Í málinu krefjast báðir aðilar nú forsjár barnanna til frambúðar og fer um lausn málsins einkum eftir reglum 32. og 34. gr. barnalaganna.  Segir í 2. mgr. 34. gr. að dómstóll skuli kveða á um hjá hvoru foreldri forsjá barns skuli vera „eftir því sem barni er fyrir bestu.“

Í þágu meðferðar málsins var aflað matsgerðar Álfheiðar Steinþórsdóttur sál­fræðings um forsjárhæfni aðila og tengsl þeirra við börnin, svo og aðstæður þeirra.  Sálfræðingurinn komst að þeirri niðurstöðu að báðir aðilar væru hæfir til að fara með forsjá barnanna.  Aðrar niðurstöður sálfræðingsins eru raktar í II. kafla að framan.  Komu þar til skoðunar helstu atriði, sem almennt eru talin skipta máli við forsjár­skipan og var í því sambandi tekið mið af 2. mgr. 34. gr. barnalaga og þeim ellefu atriðum, sem tilgreind eru um þá lagagrein í athugasemdum er fylgdu frum­varpi til barnalaga á sínum tíma.  Dómurinn telur að þær niðurstöður sálfræðingsins verði ekki túlkaðar á annan veg en þann að stefnandi teljist bersýnilega hæfari en stefnda til að fara með forsjá barna þeirra.  Má í því sambandi fyrst nefna að tengsl stefnanda við börnin eru greinilega sterkari og kom fram hjá báðum börnunum að þau tengi öryggi og traust við hann fremur en stefndu.  Ljóst er að börnunum þykir engu að síður afar vænt um stefndu og að þeim líði vel hjá báðum foreldrum sínum.  Samkvæmt Bene-Anthony fjölskyldu­tengsla­prófi, sem lagt var fyrir börnin, komu fram sterk jákvæð tengsl við stefnanda, einkum milli hans og Y, en stefnandi fékk samtals 16 jákvæð skilaboð frá telpunni, sem endurspegla ást hennar til hans og þörf fyrir náin tengsl og öryggi, á móti 3 jákvæðum skilaboðum til stefndu.  Jákvæð skilaboð frá X skiptust jafnar á báða aðila, en þó fékk stefnandi fleiri slík skilaboð en stefnda.

Stefnandi er að áliti sálfræðingsins með góða greind og bera niðurstöður sál­fræði­prófana ekki merki um geðræn frávik, svo sem geðsjúkdóma eða persónu­leika­röskun.  Sálrænar varnir eru all sterkar og haldgóðar og nýtast honum að líkindum vel undir álagi.  Hann virðist mynda eðlileg og náin tilfinningatengsl og vera næmur á þarfir og tilfinningar barnanna, sem hann sýnir hlýju í samskiptum, en setur þeim þó skýr mörk varðandi hegðun.  Hann hefur að áliti sálfræðingsins góð raun­veruleika­tengsl og er jarðbundinn og fylginn sér.  Í áliti sálfræðingsins segir um stefndu að hún mælist með eðlilega greind samkvæmt sálfræðiprófum, en persónu­leika­próf sýni konu, sem er ofur­næm og viðkvæm gagnvart umhverfi sínu og öðru fólki.  Hún mælist með djúpstæða tortryggni og aðsóknarkennd og sýni prófanir að auki sterk kvíða­­einkenni, veik raunveruleikatengsl og haldlitlar varnir gegn álagi, sem óljóst sé hvernig henni muni takast að vinna úr ef skyndilegar breytingar verða í lífi hennar eða álag og kröfur aukast, þar á meðal frá börnunum þegar þau verða eldri.  Tengsl stefndu og barnanna eru góð að áliti sálfræðingsins og er hún næm á þarfir og til­finningar þeirra þótt hún eigi erfiðara en stefnandi með að setja þeim skýr mörk.

Fallist er á framangreindar niðurstöður sálfræðingsins, sem samrýmast niður­stöðum sálfræðiprófana.  Samkvæmt þeim og öðrum gögnum málsins er ekkert fram komið í málinu, sem gefur tilefni til að ætla að stefnandi sé ekki ágætum kostum búinn til að fara með forsjá barnanna.  Vega þar þungt hin jákvæðu sterku tengsl hans og barnanna og skilningur hans á þörfum þeirra, enda hafa bæði börnin lýst vilja sínum til að búa fremur hjá honum en stefndu, einkum Y.  Þótt ekki megi leggja of mikið upp úr ætluðum vilja barnanna vegna aldurs þeirra verður ekki horft framhjá þessu atriði við úrlausn málsins.  Sálfræðingurinn lýsir á hinn bóginn ákveðnum efasemdum um andlegt heilbrigði stefndu, sem dómurinn telur einnig fyllstu ástæðu til að hafa áhyggjur af.  Hún mælist með sterk kvíðaeinkenni, djúp­stæða tor­tryggni og aðsóknarkennd og lítil raunveruleikatengsl og hefur ekki leitað sér hjálpar vegna þeirra vandamála.  Hún telur sig geta skynjað hugsanir fólks og sjá geislabaug eða annars konar ljós stafa frá því.  Þótt engu verði slegið föstu um andlegt heil­brigði stefndu án frekari greiningar eru framangreind atriði til þess fallin að draga veru­lega úr forsjárhæfni hennar samanborið við hæfni stefnanda.  Hún virðist hafa einangrað sig að miklu leyti, bæði frá fjölskyldu og umhverfi, þótt tengsl hennar við foreldra og systkini hafi aukist eftir skilnað aðila.  Varnir stefndu eru enn fremur hald­litlar og virðist hún hafa verið lítt hvetjandi í uppeldi barnanna, þótt hún hafi sýnt þeim natni og mikla ástúð í því verndaða umhverfi, sem hjónaband hennar og stefnanda hefur búið henni til skamms tíma.     

Þegar framangreind atriði eru öll virt heildstætt og litið er til þess, að stefnandi er heilbrigður og vel starfhæfur einstaklingur, sem hefur eðlilegar varnir og ágætar forsendur til að fullnægja tilfinningalegum og líkamlegum þörfum barnanna, að fjár­hags­­staða hans er mun betri en stefndu, að líf hans og dagleg umönnun barnanna virðist einkennast af stöðugleika og góðum stuðningi frá nánustu fjölskyldu, að hann hefur nú búið börnunum öruggt skjól á nýju heimili þar sem þeim virðist líða vel og loks þess að stefnandi virðist hafa ágætt innsæi í þarfir barnanna, þar á meðal fyrir rúma umgengni við móður sína, er það álit dómsins að hagsmunir barnanna séu best tryggðir með því að stefnandi fari einn með forsjá þeirra.  Dæmist því svo.  

Dómurinn telur jafnsýnt að mikilvægt sé fyrir börnin að eiga mikil og góð samskipti við stefndu og tekur undir það álit sálfræðingsins að gerður verði skýr samningur um inntak og tilhögun umgengnisréttar stefndu við börnin.  Er ekkert fram komið í málinu, sem bendir til annars en að stefnandi hafi hér fullan vilja til að koma til móts við þarfir stefndu og barnanna þannig að börnin njóti þess besta, sem aðilar hafa upp á að bjóða, svo sem börnin eiga rétt á. 

Samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skal sá er tapar máli í öllu verulegu að jafnaði dæmdur til að greiða gagnaðila sínum máls­kostnað.  Frá þessu má víkja ef veruleg vafaatriði eru í máli eða ef aðili vinnur mál að nokkru og tapar því að nokkru eða ef þeim sem tapar máli hvorki var né mátti vera kunnugt um þau atvik sem réðu úrslitum fyrr en eftir að mál var höfðað, sbr. 3. mgr. 130. gr.  Má þá dæma annan aðilann til að greiða hluta málskostnaðar hins eða láta hvorn þeirra bera sinn kostnað af málinu.  Þrátt fyrir framangreind málsúrslit er það álit dómsins að svo sé statt fyrir málsaðilum, sem um ræðir í nefndri 3. mgr.  Þykir því rétt að málskostnaður falli niður. 

Stefnda fékk gjafsóknarleyfi með bréfi dómsmálaráðherra 28. nóvember 2002.  Því greiðist gjafsóknarkostnaður hennar úr ríkissjóði, þar með talinn útlagður kostnaður, krónur 252.113, vegna þjónustu Ingibjargar Bjarnardóttur héraðsdómslög­manns á fyrri stigum málsins og þóknun lögmanns stefndu, Daggar Páls­dóttur hæsta­réttar­­lögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin krónur 500.000, að meðtöldum virðis­auka­skatti.

Útlagður kostnaður vegna öflunar matsgerðar Álfheiðar Steinþórsdóttur sál­fræðings, krónur 360.500, greiðist úr ríkissjóði, sbr. 3. mgr. 60. gr. barnalaga.

Dómurinn er kveðinn upp af Jónasi Jóhannssyni héraðsdómara og sál­fræðingunum Helga Viborg og Sólveigu Jónsdóttur.

DÓMSORÐ:

Stefnandi, M, skal fara með forsjá Y, fæddrar [...] 1995 og X, fædds [...] 1997, barna hans og stefndu, K.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði, þar með talin 500.000 króna þóknun lög­­manns hennar, Daggar Pálsdóttur hæstaréttarlögmanns.