Hæstiréttur íslands
Mál nr. 385/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Sjálfræðissvipting
|
|
Þriðjudaginn 21. júní 2011. |
|
Nr. 385/2011. |
A (Ingvar Þóroddsson hdl.) gegn Akureyrarbæ(Margrét Gunnlaugsdóttir hrl.) |
Kærumál. Sjálfræðissvipting.
Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að A yrði sviptur sjálfræði í sex mánuði á grundvelli a. liðar 4. gr., sbr. 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru sem barst Héraðsdómi Norðurlands eystra 15. júní 2011 og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 11. júní 2011, þar sem sóknaraðili var sviptur sjálfræði í sex mánuði frá og með úrskurðardegi. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar úr ríkissjóði.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar að öðru leyti en því að tímabil sjálfræðissviptingar sóknaraðila verði 12 mánuðir.
Varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti og kemur krafa hans um lengingu á tímabili sjálfræðissviptingar sóknaraðila því ekki til meðferðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila úr ríkissjóði og ákveðst hún að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Ingvars Þóroddssonar héraðsdómslögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 94.150 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra laugardaginn 11. júní 2011 í máli.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar föstudaginn 10. júní sl. er tilkomið vegna kröfu [...] [...], sem með bréfi dagsettu 8. júní sl., krefst þess að A, kt. [...], [...], [...] [...], verði sviptur sjálfræði með vísan til a-liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71, 1997, þar sem hann sé ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum vegna geðsjúkdóms.
Við þingfestingu málsins þann 10. júní sl. mætti varnaraðili í dóminn ásamt skipuðum verjanda sínum Ingvari Þóroddssyni hdl., en fyrir hönd sóknaraðila var mættur bæjarlögmaðurinn Inga Þöll Þórgnýsdóttir héraðsdómslögmaður.
Í nefndu þinghaldi var lagt fram læknisvottorð B yfirlæknis geðdeildar Sjúkrahússins á [...], sem dagsett er 10. júní, en dómurinn hafði óskað álits hans hvort að högum varnaraðila væri svo komið að hann væri ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum vegna geðsjúkdóms samkvæmt a-lið 4. gr. lögræðislaga nr. 71, 1997. Ennfremur var í þinghaldinu lagt fram læknisvottorð sama læknis, sem dagsett er 24. maí sl., en það var ritað vegna kæru varnaraðila um nauðungarvistun.
Við munnlegan flutning krafðist talsmaður sóknaraðila að varnaraðili yrði sviptur sjálfræði sínu í tólf mánuði.
Skipaður verjandi varnaraðila krafðist þess að kröfu sóknaraðila við sviptingu sjálfræðis yrði hafnað. Þá mótmælti hann því sérstaklega að varnaraðili yrði sviptur sjálfræði í tólf mánuði þar sem sú krafa væri of seint fram komin. Loks krafðist hann hæfilegrar þóknunar úr ríkissjóði vegna starfa sinna.
Í nefndu læknisvottorði B yfirlæknis, sem dagsett er 10. júní 2011, er vísað til fyrra vottorðs um varnaraðila frá 24. maí sl., þar sem segir m.a. að varnaraðili eigi langa sögu um [...] og hann hafi af þeim sökum margsinnis verið lagður inn á geðdeildir sjúkrahúsa í [...] og á [...]. Fram Þá hafi hann verið meðhöndlaður með [...]lyfjum. Fram kemur í vottorðunum að varnaraðili hafi verið fluttur á geðdeild Sjúkrahússins á [...] þann 17. maí sl. en hann hafi þá verið metinn í [...]. Lýst er læknismeðhöndlun á geðdeildinni fram til þessa, en í niðurstöðukafla vottorðsins frá 10. júní sl. segir:
„Geðskoðun: [...]
Álit:
A er án vafa með [...] eins og áður segir. Þegar litið er yfir hans sjúkrasögu sem nú spannar meira en 10 ár þá á hann sennilega a.m.k. 10 innlagnir að baki og virðist ferlið hafa verið þannig að hann hafi fengið lyf inni á geðdeild, orðið betri, en síðan hætt að taka lyfin þegar heim er komið og versnað aftur sem hefur leitt til fleiri innlagna. Út frá hans ástandi nú og fyrri sögu þykir mér allt benda til þess að ef hann verði ekki sjálfræðissviptur þá muni hann hætta að taka öll [...]lyf. Við þetta mun honum án vafa versna. Hann hefur reyndar sagt í viðtölum að hann vilji fá heilbrigðisvottorð frá sínum geðlækni hér á deildinni um að hann sé ekki haldinn [...] og hefur jafnvel sagt að hann muni ekki yfirgefa sjúkrahúsið fyrr en það liggi fyrir. Á sama tíma hafnar hann allri lyfjatöku. Frekari dvöl hér á geðdeild þjónar ekki tilgangi án lyfjameðferðar. Ef ætlunin er að meðhöndla hans geðsjúkdóm sé ég því ekki aðra leið en þá að hann fái [...]lyf í forðasprautuformi áfram. Þetta verður aðeins gert án hans vilja. Ef hann fær viðhlítandi meðferð með þessum hætti tel ég ágætis líkur á því að hann geti komist aftur til síns heima innan ekki langs tíma. Það er einnig ákveðið áhyggjuefni að hann hefur neitað að taka [...] og verulegar líkur á því að hann muni fá einkenni um [...] ef hann tekur ekki lyfin næstu vikur eða mánuði.“
Nefndur læknir staðfesti læknisvottorð sín fyrir dómi og svaraði spurningum um hagi og heilsufar varnaraðila. Hann lét m.a. það álit í ljós að með hliðsjón af árangursríkri lyfjameðferð varnaraðila væri svipting til sex mánaða tæplega nægjanlega langur tími, og nefndi í því sambandi tólf mánuði.
Álit dómsins:
Með vísan til þess sem að framan er rakið telur dómurinn að fullu sannað að högum varnaraðila sé svo komið svo sem um getur í a-lið 4. gr. lögræðislaga nr. 71, 1997, þannig að hann sé ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum vegna geðsjúkdóms og fellst því dómurinn á að varnaraðili verið sviptur sjálfræði. Dómurinn telur rétt með vísan til 1. mgr. 5. gr. sbr. 1. mgr. 12. gr. lögræðislaganna að sviptingin standi að þessu sinni í sex mánuði frá uppkvaðningu úrskurðar þessa að telja.
Allur málskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Ingvars Þóroddssonar hdl., 75.300 kr. og er þá virðisaukaskattur meðtalinn.
Úrskurð þennan kveður upp Ólafur Ólafsson héraðsdómari.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Varnaraðili, A, kt. [...], [...], [...], er sviptur sjálfræði í sex mánuði frá og með 11. júní 2011 að telja.
Allur málskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Ingvars Þóroddssonar hdl., 75.300 krónur.