Hæstiréttur íslands
Mál nr. 287/2011
Lykilorð
- Líkamstjón
- Ökutæki
- Slysatrygging ökumanns
- Fyrning
|
|
Fimmtudaginn 2. febrúar 2012. |
|
Nr. 287/2011.
|
Arnór Gunnarsson og Vátryggingafélag Íslands hf. (Ólafur Eiríksson hrl.) gegn Þorbergi Gíslasyni (Arnar Þór Stefánsson hrl.) |
Líkamstjón. Ökutæki. Slysatrygging ökumanns. Fyrning.
Þ krafði A og V hf. um bætur vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir er hann var að losa rúllugreip aftan úr dráttarvél í eigu A. Hæstiréttur sýknaði A og V hf. með vísan til þess að þar sem Þ hefði talist ökumaður dráttarvélarinnar umrætt sinn gæti hann ekki reist kröfu sína á 88. gr. umferðarlaga. Þá hefði varakrafa Þ um bætur úr slysatryggingu ökumanns verið fyrnd þegar málið var höfðað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 10. maí 2011. Þeir krefjast aðallega sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að kröfur stefnda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Svo sem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi slasaðist stefndi 13. júlí 1998, þá 13 ára gamall, þegar hann var að losa svonefnda rúllugreip aftan úr dráttarvél í eigu áfrýjandans Arnórs Gunnarssonar. Var vélin með lögskyldar vátryggingar samkvæmt XIII. kafla umferðarlaga nr. 50/1987 hjá áfrýjandanum Vátryggingafélagi Íslands hf. Í málinu krefst stefndi aðallega skaðabóta með vísan til 88. gr., sbr. 90. gr., umferðarlaga en til vara bóta úr slysatryggingu ökumanns samkvæmt 92. gr. sömu laga.
Samkvæmt gögnum málsins er vafalaust að stefndi stjórnaði dráttarvélinni sjálfur þegar slysið varð. Telst hann því hafa verið ökumaður hennar í skilningi 88. gr. umferðarlaga. Þegar af þessari ástæðu getur stefndi ekki reist kröfu sína á hendur áfrýjendum á þessu ákvæði laganna.
Stefndi höfðaði mál á hendur áfrýjendum 11. júlí 2008, en þá var tíu ára fyrningarfrestur samkvæmt 99. gr. umferðarlaga ekki liðinn. Það mál var fellt niður að ósk stefnda 30. mars 2010. Krafa stefnda í þessu fyrra dómsmáli var einungis reist á þeim sama grundvelli og lýst er að framan um aðalkröfu hans í þessu máli. Hún var hins vegar ekki reist á því að hann ætti bótarétt úr slysatryggingu ökumanns svo sem hann nú reisir varakröfu sína á. Stefndi heldur því fram að hann hafi með fyrri málsókn rofið fyrningu á varakröfu sinni. Byggir hann þetta aðallega á því að um sömu kröfu sé að ræða og þar var höfð uppi, en til vara á því að fyrri málsóknin geti talist tilkynning til áfrýjenda samkvæmt 14. gr. þágildandi laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Á þetta er ekki unnt að fallast. Varakrafa stefnda er krafa um greiðslu úr slysatryggingu sem eiganda ökutækis er lögskylt að kaupa. Sú krafa er reist á öðrum lagagrundvelli en skaðabótakrafa sem byggð er á hinni víðtæku reglu um skaðabótaábyrgð sem kveðið er á um í 88. gr. laganna. Fyrri málsókn stefnda rauf því ekki fyrningu varakröfu hans. Þá eru ekki efni til að fallast á með honum að fyrri málsóknin geti talist tilkynning til áfrýjenda sem jafnað verði til tilkynningar samkvæmt 14. gr. laga nr. 14/1905. Var varakrafa stefnda því fyrnd þegar mál þetta var höfðað. Þegar af þeirri ástæðu verður heldur ekki fallist á hana.
Samkvæmt framansögðu verða áfrýjendur sýknaðir af kröfum stefnda í málinu en rétt þykir að málskostnaður í héraði og Hæstarétti falli niður.
Dómsorð:
Áfrýjendur, Arnór Gunnarsson og Vátryggingafélag Íslands hf., eru sýknir af kröfum stefnda, Þorbergs Gíslasonar.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. febrúar 2011.
Mál þetta, sem dómtekið var 14. janúar 2011, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Þorbergi Gíslasyni, kt. [...], [...], [...], gegn Arnóri Gunnarssyni, kt. [...], [...], [...], og Vátryggingafélagi Íslands hf., kt. [...], Ármúla 3, Reykjavík, með stefnu sem birt var 26. apríl 2010.
Dómkröfur stefnanda eru aðallega að stefndu, Vátryggingafélag Íslands hf. og Arnór Gunnarsson, verði dæmd til að greiða stefnanda óskipt 11.256.953 krónur með 2% ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 7.744.953 krónum frá 13. júlí 1998 til 12. nóvember 2009, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 11.256.953 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi þess að stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., verði dæmt til að greiða stefnanda 11.256.953 krónur með 2% ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 7.744.953 krónum frá 13. júlí 1998 til 12. nóvember 2009, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 11.256.953 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefndu, þ.á m. kostnaðar af öflun matsgerðar og lögmannskostnaðar að teknu tilliti til greiðslu virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
Dómkröfur stefndu eru aðallega að þau verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda. Til vara er þess krafist að stefnukröfur verði lækkaðar verulega. Í báðum tilvikum er þess krafist að stefndu verði tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að skaðlausu að mati dómsins.
Stutt yfirlit um atvik að baki máli og ágreiningsefni í því: Hinn 13. júlí 1998 slasaðist stefnandi við að aftengja rúllugreip aftan úr dráttarvél í eigu stefnda Arnórs. Af hálfu stefnanda er málsatvikum lýst á þann veg að rúllugreipin hafi verið tengd við dráttarvélina með þrítengi að ofan og tveimur örmun að neðan. „Þeir armar eru tengdir við vélbúnað dráttarvélarinnar (glussadrif), og eru notaðir til að lyfta rúllugreipinni og láta hana síga. Til þess þarf vélin að vera í gangi. Oft háttar svo til að lyfta þarf eða slaka nefndum örmum aftan í dráttarvélinni til að auðveldara sé að taka tæki eins og rúllugreip aftan úr vélinni. Þegar slysið varð var stefnandi að vinna að því að losa þrítengið, eins og áður segir. Yfirleitt dugar að rykkja í það svo það losni, en það dugði ekki í þetta sinnið. Stefnandi ákvað þá að nota vélbúnað vélarinnar til að lyfta örmunum svo losna myndi um þrítengið. Til þess teygði hann sig inn um afturglugga dráttarvélarinnar, tók í stöng þar inni, sem tengd er við vélbúnað hennar, sem knúði armana og leiddi til þess að þeir lyftust. Við þessa lyftu var þrítengið enn fast í rúllugreipinni og myndaðist þá spenna sem leiddi til þess að þegar tengið losnaði spýttist það á hlífina fyrir neðan tengið á vélinni, yfir aflúrtaki vélarinnar, og endurkastaðist þaðan upp og í andlit stefnanda af miklu afli, með þeim afleiðingum að tennur brotnuðu og losnuðu í framgómi og gómur rifnaði.“
Hinn 11. júlí 2008 höfðaði stefnandi mál á hendur stefndu til heimtu bóta vegna slyssins og með bréfi, hinn 1. september 2008, fór hann þess á leit við héraðsdóm að dómkvaddur yrði matsmaður til að meta:
1. Hverjar væru líkamlegar og andlegar afleiðingar slyssins 13. júlí 1998 fyrir matsbeiðanda.
2. Hver væru þjáningartímabil matsbeiðanda skv. 3. gr. skaðabótalaga vegna þeirra áverka sem hann hlaut í slysinu.
3. Hver væri varanlegur miski matsbeiðanda vegna slyssins, skv. 4. gr. skaðabótalaga, þar sem bæði væri metin læknisfræðileg örorka og þeir erfiðleikar sem líkamstjónið hefði í för með sér fyrir matsbeiðanda í lífinu almennt.
4. Hvenær stöðugleikapunkti hefði verið náð eftir slysið.
5. Hver yrði kostnaður matsbeiðanda við viðhald tannplanta og króna í gómi hans í framtíðinni umfram þann kostnað sem hann hefði orðið fyrir við hefðbundið viðhald óbrotinna tanna.
Á dómþingi 10. október 2008 var Ásgeir Sigurðsson tannlæknir kvaddur til að framkvæma hið umbeðna mat. Matsgerð hans er ódagsett, en þar segir:
„1. Hverjar eru líkamlegar og andlegar afleiðingar slyssins 13. júlí 1998 fyrir matsbeiðanda?
Líkamlegar afleiðingar slyssins sem tjónþoli lenti í eru ævilangt tap á öllum framtönnum efrigóms sem og fremri forjaxla vinstramegin uppi. Tennur 12, 11, 21, 22, 23 og 24 eru tapaðar. Hann hefur varanlega og mikla örvefs myndun og samgróninga á efrigómi framanvert vegna slyssins. Einnig hlaut hann þó nokkuð bein tap þar sem rætur tanna voru áður. Reynt hefur verið að bæta það að hluta með [því að] færa til bein á svæðið en enn vantar mikið á að bein sé eins og ætla megi að það hafi verið fyrir slysið.
Líkamlega hefur tanntapið, örvefsmyndunin og beintapið víðtæk áhrif á útlit og andlitsfall neðri miðhluta andlits tjónþola, sérstaklega þar sem fyllingu vantar undir nef og efrivör. Í slysinu sködduðust einnig varir hans og er nokkur örvefsmyndun í mjúkvefjum sem bæði sjást og valda nokkrum óþægindum við tal, ákveðnar hreyfingar og athafnir. Vegna beintanntapsins sem og örvefsmyndunarinnar í gómi eru plantar ekki allir í góðri stöðu og húsir því víða undir milli postulínskróna og tannboga(góms). Veldur þetta því að matur festist alltaf þar á milli. Er þessi matarsöfnun mun meira en búast mætti við ef tennur væri til staðar. Þetta bil milli króna og góms veldur einnig nokkru og áberandi blásturshljóði við tal.
Varðandi verki og önnur bein óþægindi kveðst tjónþoli ekki finna mikið til en þó kvartar hann um eymsli við bitálag á plantana og hann geti því ekki bitið í neitt hart með þeim.
Telja verður að andlegar afleiðingar slyssins séu þó nokkrar. Neðri miðhluti andlits, frá nefi og niður á neðrikjálka er nokkuð innfallið og hefur það augljós áhrif á útlit. Hann er lítið eitt blægstur á máli og matur festist stöðugt á milli tanna sem gerir hann óöruggan í fjölmenni. Og vegna örvefsmyndana í vörum á hann að sögn vont með að beita þeim við og sjálfsögð athöfn eins og að gera stút á munn til að kyssa er óþægilegt.
Allt veldur þetta því að fullyrða má að Þorbergur hefur orðið fyrir þó nokkrum líkamlegum sem og andlegum áhrifum vegna slyssins. Eru þær líkamlegu varanlegar og gera verður ráð fyrir að þær andlegu minnki lítið sem ekkert þar sem víst er að hann muni ekki hljót neinn frekari bata. Benda má einnig á að óvissa er um endingu og framtíð tannviðgerða tjónþola og veldur sú staðreynd honum einnig nokkrum kvíða og þar með enn frekari andlegu álagi.
2. Hver voru þjáningartímabil matsbeiðanda skv. 3. grein skaðabótalag, vegna þeirra áverka sem hann hlaut í slysinu?
Telja verður að þjáningartímabil hans sé frá tíma slyssins, 13. júlí 1998, þar til hann var full gróinn eftir planta í setningu og krónu smíði í september 2007. Þorbergur var vinnufær að hluta á þessu tímabili og gat hann stundað skóla og vinnu. En vegna fjölda ferða til lækna og tannlækna, er flest allir voru staðsettir í Reykjavík, sem og þjáninga fyrstu mánuði eftir slysið og síðar þegar tennur voru dregnar og plantar settir í verður að telja að hann hafi haft skerta starfsorku þó nokkuð mikinn hluta þess tíma.
3. Hver er varanlegur miski matsbeiðanda vegna slyssins, skv. 4. gr. skaðabótalaga, þar sem bæði er metin læknisfræðileg örorka og þeir erfiðleikar sem líkamstjónið hefur í för með sér fyrir matsbeiðanda í lífinu almennt?
Ljóst er að miski tjónþola veldur erfiðleikum í lífi hans vegna útlits, erfiðleika og óþæginda við að matast, tjá sig og gera aðrar eðlilegar athafnir með munni og vörum. Er þetta vegna taps á tönnum, kjálkabeini og örvefja myndunar í munnholi og vörum, allt skaðar sem ekki munu gróa eða batna frekar hér eftir. Er varanlegur miski metinn sem 15% af algjörum miska.
4. Hvenær var stöðugleikapunkti náð eftir slysið?
Stöðugleikapunktur, eins mikið og hægt er að tala um stöðugleika, var náð í september 2007, við lok tannsmíða á síðasta plantan.
5. Hver verður kostnaður matsbeiðanda við viðhald tannplanta og króna í gómi hans í framtíðinni umfram þann kostnað sem hann hefði orðið fyrir við hefðbundið viðhald óbrotinna tanna?
Samkvæmt erlendum rannsóknum er meðal ending framtanna postulínskrónu 10 til 13 ár, en eftir þann tíma má búast við óásættanlegum útlitsbreytingum í postulíninu, bæði vegna litbreytinga og/eða að þær springi, kvarnist úr þeim eða þær brotna. Reikna má með að karlmaður á Íslandi sem hefur náð 25 ár aldri mun eiga eftir að lifa í rúmlega 56 ár. Samkvæmt því má því fullyrða að endurnýja þurfi krónur þessara sex tanna a.m.k. fjórum sinnum á þeim tíma sem tjónþoli á eftir að lifa (samtals 24 postulíns krónur, meðalverð á hverri krónu haustið 2009 um 90.000 kr.) og er þá reiknað með að sú tannsmíði sem hann er með í munni nú, muni endast í nokkur ár enn.
Til að plantar þeir sem settir voru í tjónþola haldist einkenna litlir og endist þarf hann reglubundið eftirlit. Í flestum langtíma rannsóknum um endingu planta hafa sjúklingar verið undir stöðugu og ströngu eftirliti sérfræðinga og/eða stofnanna vegna plantanna. Kallar þetta því á aukið eftirlit og þar með fleiri tannlæknaheimsóknir hjá tjónþola, með tilheyrandi auka kostnaði, samanborið við jafnaldra hans. Mælt er með að tjónþoli láti hreinsa tannsýklu og tannstein af plönunum í það minnsta 2 til 3 á ári og verður sú vinna að vera gerða af tannlækni eða sérfræðingi en eðlilegt er að sjúklingar með venjulega tannskemmdartíðni fari til tannlæknis 1 til 2 á ári.
Varðandi hve margar af þeim plöntum er settir voru í bein tjónþola munu endast í 56 ár er nokkur óvissa um. Rannsóknir er fylgt hafa eftir planta sjúklingum í fimm til tíu ár sýna að ending þeirra á þeim tíma er milli 93 og 97%, þ.e. 3 til 7% af ísettum plöntum þarf að fjarlægja eða endurnýja á rannsóknartímanum. Lítið sem ekkert er vitað um endingu eftir 10 ár. Þar sem tjónþoli hefur sex planta í allt en bein og vefur umhverfis þá planta er ekki eins og best verður á kosið vegna slysins verður að gera ráð fyrir að endurnýja þurfi a.m.k. tvo planta á næstu 50 árum. Þessi endurnýjun er í tilfelli tjónþola ekki á færi neins nema sérfræðings í tannholdslækningum eða kjálkaskurðlæknis vegna ástands beins eftir slysið. Kostnaður er því vegna endurnýjunar þessara planta varlega áætlaður 300.000 miðað við verðlag 2009.
Umfram kostnaður tjónþola, umfram það sem eðlilegt mætti telja við hefðbundið viðhald óbrotinna tanna (miðað við verð á tannlækningum haustið 2009):
|
24 postulínskrónur |
@85.000 |
Kr. 2.040.000 |
|
56 auka heimsóknir vegna planta |
@12.000 |
Kr. 672.000 |
|
2 plantar |
@150.000 |
Kr. 300.000 |
|
Samtals |
|
Kr. 3.012.000 |
Athuga ber að ekki er tekið tillit til vinnutaps, né ferðakostnaðar tjónþola en reikna má með að mest ef ekki öll þessi vinna verði að vera gerð í Reykjavík.“
Ágreiningur aðila er um hvort stefndu sé skylt að bæta skaða stefnanda vegna slyssins eða ekki.
Helstu málsástæður stefnanda og réttarheimildir er hann byggir á: Stefnandi byggir aðalkröfu sína á því að slys hans 13. júlí 1998 sé að rekja til notkunar dráttarvélarinnar OD-254. Stefndu beri því að bæta tjón hans af slysinu á grundvelli 88. gr., sbr. 90. gr. umferðalaga nr. 50/1987. Kröfufjárhæð sundurliðar stefnandi þannig:
1. Sjúkrakostnaður og annað fjártjón, sbr. 1. gr. skaðbótalaga kr. 3.512.000,-
Tannlæknakostnaður (skv. matsgerð): 3.012.000 kr.
Ferðakostnaður og vinnutap (að álitum): 500.000 kr.
2. Þjáningarbætur, skv. 3. gr. skaðabótalaga kr. 4.864.720,-
3.332 dagar x 1.460 kr. (700 x 6.850/3.282) = 4.864.720
3. Bætur fyrir varanlegan miska, skv. 4. gr. skaðabótalaga kr. 1.252.275,-
15% x 8.348.500 (4.000.000 x 6.850/3.282)
4. Bætur fyrir varanlega örorku, skv. 8. gr. eldri skaðbótalaga kr. 1.627.958,-
130% x 1.252.275
Alls kr. 11.256.953,-
Stefnandi krefst 2% vaxta samkvæmt 16. gr. eldri skaðabótalaga af þjáningarbótum, bótum fyrir varanlegan miska og varanlega örorku frá 13. júlí 1998 til 12. október 2009 er mánuður var liðinn frá því að matsgerð lá fyrir. Frá þeim tíma er krafist dráttarvaxta af öllum bótum, þ.á m. sjúkrakostnaði og öðru fjártjóni, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 9. gr. laganna.
Verði talið að stefnandi hafi verið við stjórn dráttarvélarinnar er slysið varð er til vara krafist að stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiði stefnanda slysabætur úr slysatryggingu ökumanns, sbr. 92. gr. umferðarlaga, en óumdeilt sé að stefnandi hafi verið tryggður slíkri tryggingu hjá tryggingafélaginu á slysdegi. Slík vátrygging bæti samkvæmt skilmálum og 2. mgr. 92. gr. umferðarlaga tjón af völdum slyss „sem ökumaður verður fyrir við stjórn ökutækis, enda verði slysið rakið til notkunar ökutækis í merkingu 88. gr.“. Vísað sé því um röksemdir fyrir bótakröfunni til þeirra röksemda sem færðar voru til stuðnings aðalkröfu eftir því sem við eigi.
Þá segir að fjárhæð bóta úr slysatryggingu séu reiknuð út með sama hætti og fjárkröfur sem reistar séu á grundvelli 88. og 90 gr. umferðarlaga. Af þeim sökum sé vísað um sundurliðun fjárhæðar varakröfu alfarið til sundurliðunar fjárhæðar aðalkröfu sem áður var rakin.
Um réttarheimildir vísar stefnandi til 88. gr., 90. gr. og 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og skilmála slysatryggingar ökumanns hjá stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf. Kröfufjárhæðir séu reistar á efnisákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993 eins og þau voru á slysdegi 13. júlí 1998. Um vexti er vísað til 16. gr. skaðabótalaga og um dráttarvexti til laga nr. 38/2001. Um málskostnað er vísað til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og um varnarþing til 1. mgr. 33. gr., sbr. 1. mgr. 42. gr. sömu laga.
Helstu málsástæður stefndu og réttarheimildir er þau byggja á: Stefndu byggja á því að reglur 88. gr. og 90. gr. umferðarlaga kveði á um ábyrgð á því tjóni sem notandi vélknúins ökutækis valdi öðrum eða munum í eigu annarra, en ljóst sé að það var stefnandi sjálfur sem var að nota dráttarvélina þegar hann slasaðist. Þá er byggt á því að krafa stefnanda sé fyrnd samkvæmt 99. gr. umferðarlaga og að batahvörf í matsgerðinni séu miðuð við tímamark sem eigi ekkert skylt við það tímabil þegar heilsufar stefnanda var orðið stöðugt eftir slysið.
Stefndu telja hefðbundið að unnt sé að meta afleiðingar slyss u.þ.b. ári eftir að tjónsatvik á sér stað. Þar sem hvorki haldbærri matsgerð né öðrum gögnum sé til að dreifa til stuðnings annarri niðurstöðu sé byggt á því, að stefnandi hefði mátt fá varanlegar afleiðingar slyssins metnar ári eftir slysið, eða hinn 13. júlí 1999.
Stefndu byggja á því að liðin séu meira en fjögur ár frá lokum þess almanaksárs, sem stefnandi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Þannig hafi fyrningarfrestur hafist um áramótin 1999/2000 og krafan fyrnst 1. janúar 2004, eða rúmum fjórum árum áður en fyrri stefnur vegna sakarefnisins voru birtar stefndu hinn 11. júlí 2008. Málsástæða fyrningar eigi enn frekar við um varakröfu stefnanda þar sem fyrri málsókn stefnanda rauf ekki fyrningu varakröfunnar. Meira en tíu ár voru liðin frá tjónsatburðinum er stefna var birt hinn 26. apríl 2010, sbr. dskj. nr. 1.
Stefndu byggja einnig á því að ekki sé sannað að orsök þess að stefnandi slasaðist hefði einungis verið sú að spenna varð við notkun vélarafls dráttarvélarinnar við að losa umrætt þrítengi frá dráttarvélinni. Verklag stefnanda við að losa þrítengið í þetta sinn hefði hvorki verið hefðbundið né eðlilegt.
Vísað er til þess að samkvæmt 88. gr. umferðarlaga skuli sá sem ábyrgð ber á skráningarskyldu vélknúins ökutækis bæta tjón sem hlýst af notkun þess. Bent er á að dráttarvélin var kyrrstæð og stefnandi utan hennar þegar hann slasaðist. Hætta við að fjarlægja aukabúnað af dráttarvél verði ekki jafnað við hættu við að nota dráttarvél sem ökutæki. Að losa umræddan aukabúnað af dráttarvélinni megi jafna við að losa kerru aftan úr bifreið. Þó að stefnandi hafi slasast við að notað vélarafl dráttarvélarinnar við tilraun sína við „að losa rúllugreipina aftan úr henni“ hafi hann ekki þar með öðlast rétt til bóta úr hendi stefndu samkvæmt 88. gr. umferðarlaga.
Stefndu byggja einnig á því að ætluð ábyrgð þeirra hafi fallið niður sökum stórkostlegs gáleysis stefnanda. Ógætilegt hafi verið að nota vélarafl dráttarvélarinnar til að losa rúllugreipina. Ljóst hefði verið að mikil spenna gæti orðið og mikið afl losnað úr læðingi þegar spennan losnaði við að nota vélarafl dráttarvélar til að losa tengi úr festu eins og hér var stefnt að. Auk þess hafi hætta aukist við að stefnandi hallaði sér yfir tengið. Það sé raunar stórkostlegt gáleysi að virða þessa hættu að vettugi. Jafnvel þótt stefnandi hefði nýverið náð aldri til að mega stjórna dráttarvél við landbúnaðarstörf utan alfaravegar er hann slasaðist, verði að telja, að líklega megi rekja slysið að mestu leyti til reynsluleysis hans. Auk þess að ætla megi að ökuleyfið hafi aðeins náð til hefðbundins aksturs dráttarvélar og stjórnunar hefðbundinna tækja, sem tengdar eru við dráttarvél, en ekki til óvenjulegrar og óþarfar notkunar dráttarvélar eins og hér er um að ræða.
Um réttarheimildir í þessu sambandi vísa stefndu til almennra reglna skaðabótaréttar um fulla eigin sök, sbr. 3. mgr. 90 gr. umferðarlaga og einnig er vísað til 13. gr. skilmála stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., fyrir lögboðnum ábyrgðartryggingum ökutækja, 5. gr. skilmála stefnda fyrir slysatryggingu ökumanns og eiganda og 2. mgr. 18. gr. laga nr. 20/1954, sbr. 124. gr. sömu laga.
Stefndu byggja á því að matsgerð, sem stefnandi byggir á, hafi slíka annmarka að ekki sé unnt að leggja hana til grundvallar niðurstöðu um bótaskyldu stefnu. Einn matsmaður, tannlæknir að mennt, hafi verið dómkvaddur. Niðurstöður matsins séu illa rökstuddar og ekki byggðar á hefðbundnum sjónarmiðum er lögð séu til grundvallar mati á bótum samkvæmt skaðabótalögum. Megi þar nefna fjarstæðukennda lengd þjáningartímabils, órökstuddan og illa grundaðan stöðugleikatímapunkt og miskastig, sem ekki er heimfært til miskataflna.
Varakröfu sína um lækkun dómkröfu stefnanda byggja stefndu á sömu málsástæðum og lagarökum og kröfu um sýknu. Varkröfu sína reisa stefndu einnig á því að dómkröfur stefnanda séu ekki nægilega rökstuddar og skorti sönnun til að unnt sé að greiða umkrafða fjárhæð að fullu. Ósannað sé að slysið hafi leitt til varanlega skertrar getu stefnanda til að afla atvinnutekna. Krafa um slíka greiðslu eigi sér enga stoð í gögnum málsins. Hvorki séu því lagaskilyrði né gild ástæða að öðru leyti til að dæma stefndu til greiðslu bóta vegna örorku skv. 8. gr. þágildandi skaðabótalaga. Þrátt fyrir að þar sé mælt fyrir um að miða skuli örorkubætur barna við miskastig þeirra, verði því skilyrði einnig að vera fullnægt, að sannað sé að geta tjónþola til að afla tekna hafi skerst verulega. Það hafi stefnandi ekki gert.
Vísað er til þess að þjáningarbætur skuli einungis greiða fyrir tímabilið frá því að tjón varð og þar til ekki er að vænta frekari bata. Að jafnaði teljist veikindi í skilningi 3. gr. skaðabótalaga ekki vera til staðar nema tjónþoli sé óvinnufær. Ósannað sé, að stefnandi hafi verið óvinnufær í 3.332 daga vegna slyssins, svo sem stefnandi heldur fram. Sönnun þess að tjónþoli hafi verið veikur verði að byggja á mati sem grundvallað er á læknisskoðun á veikindatímabilinu. Mat á þeim grundvelli hafi ekki farið fram.
Byggt er á því að tjónþoli verði að sanna tjón sitt samkvæmt íslenskum skaðabótarétti. Stefnandi hafi ekki sannað framtíðarkostnað sinn vegna tannlækninga. Stefnandi hafi ekki tekið tillit til eðlilegra frádráttarliða svo sem þátttöku ríkisins í þeim kostnaði og hagræðis af því að fá kostnaðinn greiddan fyrir fram með eingreiðslu. Hann hafi auk þess enga tilraun gert til að sanna umfang tjóns vegna ferðakostnaðar og vinnutaps í framtíðinni. Þegar af þeirri ástæður sé ekki unnt að dæma honum bætur í þá veru að álitum.
Vísað er til þess að stefnandi krefjist bóta vegna sjúkrakostnaðar samkvæmt 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga. Í greinargerð, sem lögð var fram með frumvarpi að lögunum, segi í umfjöllun um sjúkrakostnað samkvæmt 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins: Með sjúkrakostnaði er í fyrsta lagi átt við útgjöld vegna eðlilegra og nauðsynlegra ráðstafana við lækningu tjónþola. Hér kemur einkum til kostnaður við læknishjálp, dvöl á sjúkrahúsi og sjúkraflutning. Lækningu tjónþola og endurhæfingu ljúki eðli málsins samkvæmt við batahvörf enda sé ekki frekari bata að vænta eftir það. Útgjöld stefnanda vegna slyssins, sem fellur til eftir batahvörf, sé því ekki sjúkrakostnaður í skilningi skaðabótalaga.
Þá er byggt á því að matsgerðin sé ófullnægjandi sönnun fyrir miskabótakröfu stefnanda.
Stefndu mótmæla kröfu stefnanda um dráttarvexti frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi. Vextir eldri en fjögurra ára frá 12. nóvember 2009 séu fyrndir samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda nr. 14/1905.
Matsmaður, Ásgeir Sigurðsson, tannlæknir og sérfræðingur í tannholdslækningum, bar símleiðis fyrir rétti m.a. að hann hefði verið útskrifaður tannlæknir á Íslandi 1988. Hann hefði síðan farið til Bandaríkjanna og sérmenntað sig í rótfyllingum eða tannholsfræðum eins og það heitir á íslensku. Síðan hefði hann í fimmtán ár kennt við háskóla í Bandaríkjunum og sérmenntað sig í áverkum á tönnum og kjálkum, undirsérgrein hans væri tannáverkar og meðferð þeirra.
Vísað var til matsgerðar er liggur fyrir í málinu og hann mun hafa skilað sem dómkvaddur matsmaður í nóvember 2009. Ásgeir staðfesti að hann hefði unnið þessa matsgerð eftir bestu þekkingu og samvisku.
Ásgeir sagði að til grundvallar matsgerðinni hefðu legið sjúkraskýrslur stefnanda frá tannlæknum og einnig mat á slysinu í lögregluskýrslu eftir slysið og síðan öll gögn frá Sævari Péturssyni, meðferð Sævars á stefnanda, sem og frá [óskýrt]. Ásgeir kvaðst hafa eitthvað af þessum gögnum hjá sér.
Spurt var hvort hann sæi af þessum gögnum hvenær legið hefði fyrir hvaða meðferðar væri þörf. Ásgeir sagði að það væri ekki ljóst vegna þess að stefnandi hefði ekki tapað öllum tönnunum strax eftir slysið. Fyrsta árið eftir slysið hefði hann smátt og smátt tapað þessum tönnum. Ásgeir kvaðst ekki hafa gögn um þetta fyrir framan sig nú.
Spurt var hvort allar þær tennur sem töpuðust hefðu tapast innan tveggja ára frá slysinu. Ásgeir játaði því. Þær hefðu byrjað að sýna merki rótareyðingar strax í kjölfar slyssins sem klárlega tengdist því og þær hefðu tapast á þessu tímabili.
Ásgeir kvaðst hafa byggt mat sitt á 15% miska stefnanda af völdum slyssins, annars vegar á viðtali við stefnanda; hann væri mjög blestur á máli og ætti erfitt með að sætta sig við ástand sitt eins og berlega væri ljóst. Og síðan væri sálfræðihlutinn af þessu þó nokkuð mikill sem og náttúrlega það, að stefnandi gæti ekki sinnt hvaða vinnu sem væri, þar sem hann ætti erfitt með að tala. Í þriðja lagi væri örvefsmyndun, sem hann hefur í góminum, varanleg og myndi aldrei hverfa.
Vísað var til miskatöflu örorkunefndar þar sem segir að algjör tannmissir í neðri gómi bættur með fölskum gómi væri metinn allt að 10% miski. Spurt var að hvað leyti mat hans á því, að þetta væri meira en algjör tannmissir í neðri góm. Ásgeir sagði að hann hefði byggt það fyrst og fremst á örvefsmyndun o.fl. Fengi maður heilgóm, tapaði öllum tönnum, þá gæti hann áfram fúnkerað, hann gæti tuggið og hann gæti talað nokkuð eðlilega án þess að vera blestur á máli eða annað slíkt. En vegna bæði örvefsmyndunar og beintaps í framgómi efri góms væru áhrifin miklu víðtækari en bara tanntapið eitt og sér.
Ásgeir kvaðst vinna með fimm íslenskum tannlæknum. Hann hefi tekið meðaltalstölur frá þeim um hvað postulínskrónur kostuðu á þessum tíma; nota bene þetta væri meira en árs gamalt.
Ásgeir sagði varðandi aðgerðir, sem voru gerðar frekar á stefnanda síðar á árinu 2007, að þörf hefði verið á einum planti til viðbótar vegna tannar sem tapaðist seinna. Svo hafi þurft að endurvinna beinfesti á plöntunum því að hann hefði tapað svo miklu beini; slysið hefði farið svo illa með beinið.
Vísað var til þess að í matsgerðinni segi að þjáningartímabil stefnanda sé frá 13. júlí 1998 „þar til hann var full gróinn eftir planta í setningu og krónu smíði í september 2007“. Ásgeir sagði að þá hefði verið talið að þessir plantar væru stapílir samkvæmt upplýsingum frá Sævari eða hans gögnum og krónusmíðin væri komin með varanlegar krónur á alla plantana. Þá hafi stöðugleikapunkti verið náð. Það hafi ekki orðið fyrr vegna ítrekaðra vandræða með beinin sem vildu ekki gróa svo vel væri.
Ásgeir sagði að stefnandi hefði liðið fyrir það að vera blestur í máli, hann liði fyrir að geta ekki almennilega tuggið, þ.e.a.s. þegar hann borði þá festist matur inni á milli plantanna sem stæðu berir og þetta hefði áhrif á líf hans, hann veigraði sér við að gera ákveðna hluti vegna þess; það væri alveg klárt að honum liði illa andlega vegna slyssins bæði vegna útlits sem og „vöntunar á fönksjón“.
Stefnandi, Þorbergur Gíslason, bar fyrir rétti m.a. að hann hefði fæðst 1984 að Glaumbæ í Skagafirði og verið alinn þar upp við sveitastörf; faðir hans væri prestur þar. Búið væri ekki stórt, búið væri með kindur og hross. Faðir hans sinnti einnig bústörfum. Þorbergur kvaðst hafa alist upp við umgengni og vinnu við dráttarvélar.
Lagt var fyrir Þorberg dskj. nr. 7, sem er lýsing hans á slysinu 13. júlí 1998 með myndum. Þorbergur sagði að þetta væri sjálfsagt fyrir menn sem vissu hvernig þetta virkaði. Hann hefði reynt að mynda þetta svo að menn sæju hvernig þetta hefði gerst. Þarna væri að sjá rúllugreip og þrítengi er væri efsta stöngin. Armarnir, sem væru fyrir neðan, væru lyfturnar á vélinni, sem sjái um að lyfta tækinu sem er aftan í, en þrístöngin væri bara til að halda balans eða jafnvægi á því tæki sem væri aftan í. Hann hefði verið að taka þetta tæki aftan úr og eins og sæist neðst á fyrstu blaðsíðu [dskj. nr. 7] eins og þetta er fest í tækið, það væri frekar þröngt þarna á milli en virkaði alveg. Það hefði staðið á sér þegar hann hefði látið það síga niður. Á myndum á þriðju blaðsíðu sæist hvernig hann hefð teygt sig inn í vélina. Þar sæist hvað stutt væri í stöngina sem sér um lyftibúnaðinn. Maður hreyfði oft aðeins við þessu til að losnaði um og yfirleitt dytti þrítengið niður, en þarna hefði einhver þrýstingur komið í veg fyrir það.
Þótt halda mætti að glæfralegt væri að vinna með þessu lagi, kvað Þorbergur að svona verklag væri ekki óvanalegt. Á nýjum dráttarvélum væri búið að setja takka á brettið á vélinni, en þá væri auðveldara að gera þetta. Þannig hefði þetta verið eðlileg vinnubrögð hjá honum, menn gerðu þetta svona. Eftir slysið hefði ekki verið brýnt fyrir honum að teygja sig ekki inn í vélina heldur aðeins að fara varlega að þessu. Slysið hefði átt sér stað þegar hann var að fikta í þessu og lyfta upp og niður. Við það hefði myndast spenna og auðvitað hefði þetta gerst hratt og hann hefði verið yfir þessu þegar loksins losnaði. Þá hefði verið kominn svo mikill þrýstingur að [tengið] spýttist niður á vélarhlífina yfir aflúrtakið og endurkastaðist upp í munninn á honum.
Þorbergur sagði að dráttararmarnir væru tengdir aflvél dráttarvélarinnar. Þeir væru almennt notaðir til að lyfta öllum tækjum. Allt væri sett þarna aftan í nema það sem væri á hjólum, en þá dragi vélin það. Rúllugreipin væri einfaldasta tækið, sem sett væri aftan í dráttarvél; sáningarvélar, sláttuvélar og allt þetta væri oft með einhverjar lappir á þeim þannig að maður værir að alltaf að lyfta þessum tækjum upp og taka lappirnar; alltaf að vinna þarna aftan í vélinni þegar maður værir að tengja eða aftengja tæki. Armarnir og þrítengið væru hluti af staðalbúnaði vélarinnar.
Leiðinlegasta tímann, kvað Þorgrímur hafa verið, þegar tennurnar voru teknar úr honum og gómurinn, sem var í honum nokkur ár og var alltaf að brotna, en þá hafi hann verið tannlaus. Það hafi verið erfiðasti tíminn fyrir hann. Í rauninni væri það eins í dag. Það væri ekki hægt að gera þetta betur. Það væri frekar pirrandi. Það vendist enginn því að vera með eitthvað í tönnunum. Hann gengi alltaf með tannstöngla á sér. Í aðgerðum, sem hann hefði farið í 2004 og 2007, hefði plantar verið settir í, borað í beinið og krónurnar settar í. Það hefði verið síðustu stóru aðgerðirnar.
Þorgrímur sagði að eftir slysið hefði fyrsta aðgerðin falist í að setja aftur í hann tennurnar sem hann hefði misst. Þær hefðu gróið við beinið. Á árinu 2004 hafi hann náð þroska til að hægt að gera eitthvað [varanlegt] og þær verið brotnar úr honum aftur. Þá hafi komið í ljós að beinið hafi verið ónýtt, en tennurnar væru allar grónar við það. Þá hafi fljótlega verið smíðaður gómur og hann verið með þann góm um tíma. Byrjað hafi verið að græða bein vegna þess hve það var illa farið og þá hafi hann aftur verið með góminn. Svo hafi skort svo mikið tannhold þannig að næsta aðgerð hafi falist í að skera úr gómnum og reyna að setja upp í til að bæta um; það hafi verið gert tvisvar sinnum en mistekist í bæði skiptin. Bitinn, sem settur hafi verið upp í hann, væri þar svona aukalega. Reynt hafi verið að græða þarna bein til að setja í skrúfganga. Gómurinn yrði þarna þar til að búið væri að gera þetta klárt, en þá yrðu tennurnar settar upp í sem eru þarna núna.
Þorgrímur kvaðst hafa unnið við tamningar og við Blönduvirkjun, en nú ynni hann við smíðar.
Gísli Gunnarsson bar símleiðis fyrir rétti m.a. að hann hefði verið skammt frá er Þorgrímur sonur hans slasaðist. Drengurinn hefði verið að taka baggagreip aftan úr dráttarvélinni og verið að baxa við að losa greipina frá vélinni þegar hann slasaðist. Þessu væri nákvæmara lýst í lögregluskýrslunni [dskj. 17]. Vélin hefði verið í gangi þegar slysið varð.
Gísli kvaðst hafa beðið Þorgrím um að taka baggagreipina aftan úr dráttarvélinni.
Vísað var til dskj. nr. 5, sem er umsögn frá Vinnueftirliti ríkisins um slysið, þar sem segir: Hann byrjar á að taka boltann úr yfirtenginu við greipina úr sambandi, en þá kemur í ljós að ekki er hægt að lyfta tenginu beint úr klofinu á greipinni þar sem það þrengist ofan við festinguna á yfirtenginu. Gísli kvað þetta vera rétta lýsingu á því sem gerðist.
Guðmundur Óli Pálsson bar símleiðis fyrir rétti að hafa ritað lögregluskýrsluna um slysið, sem fram kemur á dskj. nr. 17, eftir bestu vitund.
Stefán Páll Stefánsson bar símleiðis fyrir rétti að hafa ritað umsögn Vinnueftirlits ríkisins um slysið sem fram kemur á dskj. nr. 5, samkvæmt bestu samvisku og þekkingu.
Vísað var til orða í umsögninni þar sem segir: Til að losa tengið ætlaði slasaði að lyfta dráttarörmunum upp og halla greipinni frá vélinni og láta yfirtengið ganga úr tengiklofinu á greipinni. Hann stendur aftan við vélina, væntanlega upp á dráttarörmunum og teygir sig inn í vélina í gegnum gluggann sem stóð opinn og náði þannig í stjórnstöngina sem hann gat lyft með. Spurt var hvort nauðsynlegt væri að nota vélarafl til að losa rúllugreip aftan úr dráttarvél af þeirri tegund sem hér um ræðir. Stefán kvað svo vera „til að láta hana fara úr öllum átökum“. Ekki væri hægt að gera það með handafli. Þetta þyrfti að gera þannig að greipin lægi laus á jörðinni og síðan þyrfti að taka boltana úr sem tengja hana við [dráttarvélina].
Niðurstaða: Stefnandi krefst þess aðallega að stefndu, Vátryggingafélag Íslands hf. og Arnór Gunnarsson, verði dæmd til að greiða óskipt stefnanda skaðabætur vegna slyss, sem stefnandi varð fyrir, hinn 13. júlí 1998, er hann var að losa svokallaða rúllugreip eða baggagreip aftan úr dráttarvél, sem Arnór var skráður eigandi að, en tryggð var hjá Vátryggingafélag Íslands hf.
Stefndu beri að bæta tjón hans af slysinu á grundvelli 88. gr., sbr. 90. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Til vara krefst stefnandi vátryggingabóta úr slysatryggingu ökumanns hjá Vátryggingafélag Íslands hf. með vísun til 92. gr. umferðarlaga og slysatryggingar ökumanns hjá tryggingafélaginu.
Aðalkröfu sína um sýknu byggja stefndu m.a. á því að hafi dráttarvélin verið í notkun, er stefnandi slasaðist, hafi hann sjálfur stjórnað dráttarvélinni. Reglur 88. gr. og 90. gr. umferðarlaga eigi við um ábyrgð á tjóni, sem notandi vélknúins ökutækis veldur öðrum aðilum eða munum í eigu annarra en eigi ekki við um líkamstjón sem stjórnandi ökutækisins veldur sjálfum sér af gáleysi.
Aðalkröfu sína um sýknu byggja stefndu einnig á því að liðin séu meira en fjögur ár frá lokum þess almanaksárs, sem stefnandi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Fyrningarfrestur samkvæmt 99. gr. umferðarlaga hafi byrjað að líða um áramótin 1999/2000 og krafa stefnanda því verið fyrnd 1. janúar 2004 eða rúmum fjórum árum áður en fyrri stefna vegna sakarefnis þessa var birt stefndu. Yrði aðeins byggt á varakröfu stefnanda væri krafan einnig fyrnd samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda nr. 14/2005, þar sem kröfu hefði hvorki verið beint að stefndu né studd við 92. gr. umferðarlaga fyrr en með birtingu stefnu þessa máls.
Í 1. mgr. 90. gr. umferðarlaga segir, að skráður eða skráningaskyldur eigandi eða umráðamaður vélknúins ökutækis beri ábyrgð á því og sé fébótaskyldur skv. 88. og 89. gr. laganna. Í 3. mgr. 90 gr. umferðarlaga segir, að auk ábyrgðar skv. 1. og 2. mgr. 90 gr. laganna fari um bótaábyrgð eftir almennum skaðabótareglum. Af þessum lagaákvæðum og umræddri slysatryggingu verður ráðið að stefndu hafi orðið fébótaskyldir er stefnandi slasaðist.
Stefnandi slasaðist 13. júlí 1998. Af gögnum málsins verður ekki ráðið með vissu hvenær ekki var að vænta frekari bata. Í læknisvottorði varðandi stefnanda er Sævar Pétursson tannlæknir, sérmenntaður í munn- og kjálkaskurðlækningum, ritar hinn 22 október 2001, segir: Ofangreindur sjúklingur lenti í slysi 13. júlí 1998 en hann fékk yfirdráttarbeisli á dráttarvél í andlitið. Hlaut hann áverka á höku, varir og tennur efri góms ( sjá fylgiskjal frá Slysadeild). Tennur sem losnuðu og féllu úr voru settar á sinn stað og festar. Í kjölfarið hófst rótfyllingarmeðferð (sjá fylgiskjal Ingimundar). Í dag eru tennur 11, 21, 22, 23, og 24 ónýtar, þær eru ekki í biti, beinfastar og sumar byrjaðar að eyðast. Meðferðaráætlun er sú að fjarlægja ofangreindar tennur [og] láta sjúkling fá bráðabirgðapart. Síðar verða tannplantar græddir í stæðin og krónur svo smíðar á. Tryggingastofnun mun greiða lítinn hluta kostnaðar. Heildarmeðferðarkostnaður er ca 700.000. 900.0000 kr. Undirritaður mun framkvæma skurðhluta meðferðar en Guðjón Kristleifsson tanngerva hluta.
Í áverkavottorði Sævars Péturssonar varðandi stefnanda, dags. 1. júlí 2008 segir: Ofangreindur sjúklingur lenti í slysi 13. júlí 1998 en hann fékk yfirdráttarbeisli á dráttarvél í andlitið. Hlaut hann áverka á höku, varir og tennur efri góms. Tennur sem losnuðu og féllu úr voru settar á sinn stað og festar. Aðgerðir framkvæmdar af Jóni Viðari Arnórssyni munn- og kjálkaskurðlæknis á Borgarspítalanum. Eftir að sjúklingur útskrifaðist af sjúkrahúsi hófst meðferð sem fólst í því að reyna að bjarga tönnunum með rótfyllingarmeðferð. Í október 2003 var ljóst að tennur 24, 23, 22, 21 og 11 voru ónýtar, þær voru ekki í biti, beinfastar og sumar byrjaðar að eyðast. Ákveðið var í framhaldi og samráði við Guðjón Kristleifsson tannlæknir að fjarlæga ofangreindar tennur og sjúklingi afhendur bráðabirgðapartur sem hann þurfti að nota þar til tannplanta ígræðsla gæti farið fram. Tannplantar voru græddir þann 18. desember 2003 í tannstæði 24, 23, 22, 21 og 11 ásamt meiriháttar beinmótun. Sjúklingur kom í reglulegt eftirlit eftir að og var óvinnufær af þeim sökum í u.þ.b. 7 daga. Þar sem bein og tannhold var illa farið þurfti að framkvæma tannholdsaðgerðir á svæðinu til þess að lagfæra útlit. Síðan kom í ljós að tönn 12 var ónýt og var hún fjarlægð og sjúklingur fékk bráðabirgðapart. Í kjölfarið smíðaði Guðjón Kristleifsson tennur í sjúkling. Meðferð minni lauk í febrúar 2007.
Í matsgerð dómkvadds matsmanns er liggur fyrir í málinu segir m.a.: Stöðugleikapunkti, eins mikið og hægt er að tala um stöðugleika ( ), var náð í september 2007, við lok tannsmíði á síðasta plantan. Með öðrum orðum er óvíst hvenær heilsufar stefnanda varð stöðugt eftir áverka að völdum slyssins, hinn 13. júlí 1998, eða hvenær ekki var að vænta frekari bata hjá stefnanda eftir slysið. Sjálfur bar hann fyrir rétti að enn væri að vænta læknisaðgerða vegna slyssins. En jafnframt er ljóst að stefnandi hefur, frá því að hann slasaðist þrettán ára gamall, orðið að líða mikið vegna slyssins, bæði líkamlega og andlega, þótt hann hefði jafnan verið vinnufær þegar hann var ekki í læknismeðferð.
Samkvæmt 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og 29. gr. laga um vátryggingasamninga nr. 20/1954 fyrnast bótakröfur samkvæmt XIII. kafla umferðarlaga og 20. gr. laga um vátryggingasamninga á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs, sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Kröfurnar fyrnast þó í síðasta lagi á tíu árum frá tjónsatburði. Telja verður að stefnandi hafi fyrst átt kost á að leita fullnustu kröfu sinnar er dómkvaddur matsmaður skilaði matsgerð sinni, en stefnandi telur það hafi verið 12. október 2009. Hinn 12. október 2009 voru meira en tíu ár liðin frá slysinu, hinn 13. júlí 1998. Hinn 11. júlí 2008 voru fyrri stefnur í máli stefnanda um bótakröfur á hendur stefndu vegna slyssins 13. júlí 1998 birtar stefndu. Birtingin rauf fyrningu á bótakröfunni með þeim hætti sem þar greinir. Í stefnu þessa máls, er birt var 26. apríl 2010, er hins vegar varakrafa stefnanda byggð á því að stefnandi hafi, er hann slasaðist, verið við stjórn dráttarvélarinnar og vísar þá til 2. mgr. 92. gr. umferðarlaga. Verður að telja að varakrafan, sem reist er á ákvæði 2. mgr. 92. gr. laganna, hafi verið fyrnd 26. apríl 2010.
Stefnandi krefst bóta vegna sjúkrakostnaðar og jafnframt bóta vegna annars fjártjóns af völdum slyssins þ.e. tannlæknakostnaðar að fjárhæð 3.012.000 kr. sbr. matsgerð og ferðakostnaðar og vinnutaps að álitum að fjárhæð 500.000 kr. Í matsgerðinni er gerð ítarlega grein fyrir því hver ætlaður kostnaður stefnanda verður við viðhald tannplanta og króna í gómi hans í framtíðinni umfram þann kostnað sem hann hefði orðið fyrir við hefðbundið viðhald óbrotinna tanna. Þá liggur fyrir svo sem áður var rakið að stefnandi hefur þurft að leita til lækna í Reykjavík en sjálfur er hann búsettur í Skagafirði. Verður að telja að bótum vegna ferðakostnaðar og vinnutaps sé stillt í hóf með 500.000 kr. Samkvæmt framangreindu verður fallist á að dæma stefnanda bætur vegna sjúkrakostnaðar og jafnframt vegna annars fjártjóns af völdum slyssins svo sem krafist er samtals að fjárhæð 3.512.000 kr.
Stefnandi krefst þjáningarbóta samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga að fjárhæð 4.864.720 kr. Byggt er á niðurstöðu matsgerðarinnar þar sem segir að þjáningartímabil stefnanda sé frá 13. júlí 1998 og „þar til hann var full gróinn eftir planta í setningu og krónu smíði í september 2007“. Í 2. og 3. málsl. 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga segir: „Þegar sérstaklega stendur á er heimilt að greiða þjáningarbætur þótt tjónþoli sé ekki veikur [2. gr. laga nr. 37/1999 þótt tjónþoli sé vinnufær]. Nemi bætur meira en 200.000 kr. er heimilt að víkja frá fjárhæðum þeim sem greinir í 1. málsl.“ Í greinargerð frumvarps til skaðbótalaga um 3. gr. segir m.a. að undantekningarregla þessi veiti svigrúm til að ákveða að álitum lægri þjáningarbætur til tjónþola ef veikindatímabil eftir líkamstjón er langt. Ljóst er að veikindatímabil stefnanda er að mati dómkvadds matsmanns mjög langt. Rétt þykir að ákveða að álitum þjáningarbætur til stefnanda að fjárhæð 2.500.000 kr.
Stefnandi krefst bóta fyrir varanlegan miska samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga að fjárhæð 1.252.275 kr. Byggt er á niðurstöðu matsgerðarinnar þar sem segir: „Ljóst er að miski tjónþola veldur erfiðleikum í lífi hans vegna útlits, erfiðleika og óþæginda við að matast, tjá sig og gera aðrar eðlilegar athafnir með munni og vörum. Er þetta vegna taps á tönnum, kjálkabeini og örvefja myndunar í munnholi og vörum, allt skaðar sem ekki munu gróa eða batna frekar hér eftir. Er varanlegur miski metinn sem 15% af algjörum miska.“ Þessu mati hefur ekki verið hnekkt. Verða stefnanda dæmdar miskabætur í samræmi við það.
Stefnandi krefst bóta fyrir varanlegri örorku samkvæmt 8. gr. eldri skaðabótalaga að fjárhæð 1.627.958 kr. Þar segir í 1. mgr.: „Bætur til barna og tjónþola, sem að verulegu leyti nýta vinnugetu sína þannig að þeir hafa engar eða takmarkaðar vinnutekjur, skal ákvarða á grundvelli miskastigs skv. 4. gr. Bætur skulu ákveðnar sem hundraðshluti af bótum fyrir varanlegan miska eftir reglum 1. 4. gr. málsl. 1. mgr. 4. gr.“ Þá segir í 2. mgr.: „Þegar miskastig er minna en 15% greiðast engar örorkubætur. Þegar miskastig er 15%, 18% eða 20% skulu örorkubætur vera 130%, 135% eða 140% af bótum fyrir varanlegan miska.“ Stefnanda verða dæmdar 1.252.275 kr. í miskabætur. Örorkubætur verða því 1.627.958 kr.
Samkvæmt framangreindu verða stefndu dæmd til að greiða stefnanda óskipt samtals 8.892.233 kr. með vöxtum eins og í dómsorði greinir. Eftir þessum málsúrslitum er rétt að stefndu greiði stefnanda óskipt 600.000 kr. í málskostnað.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Stefndu, Arnór Gunnarsson og Vátryggingafélag Íslands hf., greiði stefnanda, Þorbergi Gíslasyni, óskipt samtals 8.892.233 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. maí 2010 til greiðsludags.
Stefndu greiði stefnanda óskipt 600.000 krónur í málskostnað.