Hæstiréttur íslands

Mál nr. 376/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gagn
  • Verjandi


                                                                                                                 

Mánudaginn 27. september 1999.

Nr. 376/1999.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Helgi Jóhannesson hrl.)

Kærumál. Gögn. Verjandi.

Kærður var úrskurður héraðsdómara um að framlengja í þrjár vikur, á grundvelli b. liðar 1. mgr. 74. gr. a. laga nr. 19/1991, frest til að synja verjanda X um aðgang að gögnum varðandi rannsókn opinbers máls sem beinist að honum. Í ákvæðinu eru fyrirmæli um töku skýrslu fyrir dómi af sakborningi eða vitni á meðan á rannsókn opinbers máls stendur. Samkvæmt því getur dómari framlengt frest til að synja verjanda um aðgang að rannsóknargögnum þegar lögregla hefur leitað eftir töku slíkrar skýrslu. Ekki var upplýst að leitað hefði verið eftir því að skýrsla samkvæmt heimild í umræddu ákvæði hefði verð tekin né að slík skýrslutaka væri áformuð og var því talið að ekki væri heimilt að synja verjanda X um aðgang að gögnum á grundvelli

ákvæðisins.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. september 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. september 1999, þar sem fallist var með nánar tilgreindum undantekningum á kröfu sóknaraðila um að framlengdur yrði í þrjár vikur frestur hans til að synja verjanda varnaraðila um aðgang að gögnum varðandi rannsókn opinbers máls, sem beinist að honum. Kæruheimild er í 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að sóknaraðila verði gert að afhenda verjanda hans afrit af öllum rannsóknargögnum málsins, sem séu viku gömul eða eldri.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði reisir sóknaraðili fyrrgreinda kröfu sína á ákvæði b. liðar 1. mgr. 74. gr. a. laga nr. 19/1991, sbr. 23. gr. laga nr. 36/1999. Í þeirri lagagrein eru fyrirmæli um töku skýrslu fyrir dómi af sakborningi eða vitni á meðan rannsókn opinbers máls stendur yfir hjá lögreglu, en áður en ákæra er gefin út. Í b. lið 1. mgr. greinarinnar er kveðið sérstaklega á um töku slíkrar skýrslu áður en verjandi sakaðs manns fær aðgang að skjölum eða öðrum gögnum máls samkvæmt ákvæði 1. mgr. 43. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 12. gr. laga nr. 36/1999. Þegar lögregla hefur leitað eftir skýrslu samkvæmt þessari heimild getur dómari framlengt einnar viku frest, sem mælt er fyrir um í síðastnefndu lagaákvæði, í allt að þrjár vikur „svo að hægt verði að ljúka skýrslutöku innan hans“, eins og segir í niðurlagi b. liðar 1. mgr. 74. gr. a. laga nr. 19/1991. Er ljóst af framanröktu efni ákvæðisins að með tilvitnuðum ummælum sé átt við að lengja megi frest til að ljúka skýrslutöku fyrir dómi.

Af gögnum málsins verður ekki séð að sóknaraðili hafi leitað eftir því að skýrsla verði tekin vegna rannsóknar málsins fyrir dómi af varnaraðila eða öðrum samkvæmt fyrrnefndri heimild í b. lið 1. mgr. 74. gr. a. laga nr. 19/1991. Í málatilbúnaði sóknaraðila er áðurgreind krafa hans heldur ekki tengd slíkri ráðagerð á nokkurn hátt. Brestur því heimild til að synja verjanda varnaraðila um aðgang að gögnum á grundvelli umrædds ákvæðis. Verður kröfu sóknaraðila þannig hafnað.

Dómsorð:

Hafnað er kröfu sóknaraðila, lögreglustjórans í Reykjavík, um að verjanda varnaraðila, X, verði um þriggja vikna skeið synjað um aðgang að gögnum um rannsókn opinbers máls, sem beinist að honum.

Úrskurður Héraðsdóms Reykja­víkur 22. september 1999.

Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að héraðsdómur framlengi í þrjár vikur frest sem lögregla hefur til að synja verjanda X [...], um aðgang að gögnum er varða rannsókn máls nr. 10-1999-21479. Krafan kom fram í gær, þriðjudaginn 21. september.

Skipaður verjandi kærða hefur krafist þess með bréfi til lögreglustjórans, dagsettu sama dag, að honum verði þegar í stað afhent afrit allra rannsóknargagna í málinu, þ.m.t. afrit símahlerana, afrit skýrslan sem fyrir liggi o.fl. Bréfið lagði hann fram í þinghaldi þegar ofangreind krafa lögreglustjórans um frest var lögð fram. Verjandinn mótmælti frestbeiðninni og krafðist þess jafnframt að honum yrði afhent afrit af öllum gögnum málsins sem væru orðin vikugömul en hann vísaði í því sambandi til 43. gr. laga um meðferð opinberra mála.

[...]

Kærða var með úrskurði dómsins þann 11. september sl. gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 10. nóvember 1999 kl. 16. Úrskurðurinn er studdur þeim rökum að verið sé að rannsaka meint brot gegn fíkniefnalöggjöfinni en háttsemi kærða, ef sönnuð væri, varðaði við 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þar sem hámarksrefsing sé 10 ára fangelsi. Rökstuddur grunur væri fram kominn um aðild kærða að málinu. Rannsókn málsins væri á frumstigi og ráða mætti af rannsóknargögnum að rannsóknin verði bæði flókin og tímafrek og teygi anga sína út fyrir landsteinana. Enn ætti eftir að yfirheyra fjölmarga grunaða og vitni og því nauðsynlegt í þágu rannsóknar málsins, sbr. a lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, að kærði sæti gæsluvarðhaldi eins og að ofan greinir. Úrskurðurinn var staðfestur með dómi Hæstaréttar þann 20. september sl. með vísan til forsendna hans.

Samkvæmt síðari málslið 1. mgr. b-liðar 74. gr. a laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, sbr. 23. gr. laga nr. 36/1999, getur dómari framlengt frest sem lögregla hefur til að veita verjanda sakbornings aðgang að gögnum samkvæmt 1. mgr. 43. gr. laganna í allt að þrjár vikur ef þörf er á til að unnt sé að ljúka skýrslutökum. Meðal rannsóknargagna málsins eru skýrsla rannsóknarlögreglu um handtöku og vistun kærða í fangageymslu, dagsett 10. september sl., skýrsla um afhendingu bifreiðar, dagsett 13. sama mánaðar, handtökuskýrsla, dagsett 10. s.m., tvær skýrslur um húsleit, dagsettar sama dag, skýrsla um haldlagningu, dagsett sama dag, skýrsla um húsleit, dagsett 11. september sl., skýrsla um haldlagningu, dagsett sama dag, rannsóknarbeiðni til tæknideildar, dagsett sama dag, upplýsingaskýrsla og skýrsla um haldlagningu, dagsettar 13. september sl., kæra til Hæstaréttar, krafa um gæsluvarðhald og gæsluvarðhaldsúrskurður. Engin rök hafa verið færð fyrir því af hálfu lögreglustjóra að það myndi skaða rannsókn málsins ef verjandi kærða fengi endurrit af þessu skjölum sem öll eru orðin viku gömul. Með vísan til þess og þar sem ekki þykir þörf á að fresta frekar að verjanda kærða verði fengið í hendur endurrit af þeim samkvæmt 1. mgr. 43. gr. laga um meðferð opinberra mála, sbr. 12. gr. laga nr. 36/1999, er kröfu lögreglustjórans um frekari frest hvað þessi gögn varðar hafnað. Hins vegar er ljóst með vísan til þess sem fyrir liggur í málinu að þörf er á því að frestur samkvæmt lagagreininni verði framlengdur hvað varðar önnur rannsóknargögn í málinu í allt að þrjár vikur til að unnt verði að ljúka skýrslutökum. Er því fallist á kröfu lögreglustjórans að þessu leyti um frest samkvæmt síðari málslið b-liðar 1. mgr. 74. gr. a sömu laga.

Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Framlengdur er í þrjár vikur frestur sem lögregla hefur til að synja verjanda X um aðgang að öllum öðrum rannsóknargögnum máls nr. 10-1999-21479 en að skýrslu rannsóknarlögreglu um handtöku og vistun kærða í fangageymslu, dagsettri 10. september sl., skýrslu um afhendingu bifreiðar, dagsettri 13. sama mánaðar, handtökuskýrslu, dagsettri 10. s.m., skýrslum um húsleit, dagsettum sama dag, skýrslu um haldlagningu, dagsettri sama dag, skýrslu um húsleit, dagsettri 11. september sl., skýrslu um haldlagningu, dagsettri sama dag, rannsóknarbeiðni til tæknideildar, dagsettri sama dag, upplýsingaskýrslu og skýrslu um haldlagningu, dagsettum 13. september sl., kæru til Hæstaréttar, kröfu um gæsluvarðhald og gæsluvarðhaldsúrskurði.