Hæstiréttur íslands
Mál nr. 270/2001
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarsala
- Veðskuldabréf
- Aðild
- Lögvarðir hagsmunir
- Meðalganga
- Frávísun frá Hæstarétti að hluta
|
|
Mánudaginn 20. ágúst 2001: |
|
Nr. 270/2001. |
Helgi Jónsson hdl. (Jón Einar Jakobsson hdl.) Flugskóli Helga Jónssonar ehf. (Jytte Marcher Jónsson) gegn Sigurði I. Halldórssyni (Þorsteinn Júlíusson hrl.) |
Kærumál. Nauðungarsala. Veðskuldabréf.
Aðild. Lögvarðir hagsmunir. Meðalganga. Frávísun frá Hæstarétti að hluta.
Með beiðni til sýslumanns 22. nóvember 2000 leitaði S nauðungarsölu á eign, sem þar var nefnd ,,Flugskóli Helga Jónssonar, Reykjavíkurflugvelli“, til fullnustu veðskuldabréfi frá 1994. Við fyrirtöku sýslumanns 8. janúar 2001 var mætt af hálfu gerðarþolans H og færð fram mótmæli en á þau var ekki fallist, heldur ákveðið uppboð á eigninni. Við framhald uppboðs 22. febrúar 2001 voru enn færð fram mótmæli H gegn nauðungarsölunni og þeim aftur hafnað. Við þetta uppboð átti S næst hæsta boðið og var það samþykkt 15. mars s.á. eftir að hæstbjóðandi, Flugskóli H ehf. (F), hafði ekki staðið við sitt boð. Með bréfi til héraðsdóms 27. febrúar 2001 leitaði H úrlausnar um gildi nauðungarsölunnar. Með úrskurði héraðsdóms 22. júní s.á. var staðfest nauðungarsala sýslumanns á eign H, en jafnframt ákveðið að H og F yrði ekki vikið af eigninni fyrr en máli þessu um gildi nauðungarsölunnar yrði lokið. F og H kærðu úrskurð þennan. Kröfum F, sem ekki átti aðild að málinu fyrir héraðsdómi, var vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti, enda hafði F ekki sýnt fram á hagsmuni af úrlausn málsins, sem staðið gætu til þess að honum yrði heimilað að ganga inn í það til meðalgöngu. Ekki var talið að það gæti orðið H til réttarspjalla að sýslumaður hafði talið nauðungarsöluna taka til frekari réttinda en efni stóðu til. Hafði hæstbjóðandinn S og lýst því yfir að hann teldi sig ekki hafa orðið fyrir tjóni með því að tiltekin hugsanleg réttindi fylgdu ekki með í kaupum hans. Þóttu samkvæmt þessu ekki efni til að hrinda nauðungarsölunni í heild vegna annmarka á framkvæmd hennar, heldur látið við það sitja að fella hana úr gildi að því er þessi hugsanlegu réttindi varðaði, en staðfesta hana að öðru leyti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar hvor fyrir sitt leyti með kærum 4. júlí 2001, sem bárust réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. júní 2001, þar sem staðfest var nauðungarsala sýslumannsins í Reykjavík á eign sóknaraðilans Helga Jónssonar, sem auðkennd var sem skóli og verksmiðjuhús á Reykjavíkurflugvelli, en jafnframt ákveðið að sóknaraðilanum yrði ekki vikið af þeirri eign fyrr en fengnar yrðu „lyktir í héraðsdómsmáli nr. E-1458/2001.” Kæruheimild er í 85. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðilinn Helgi Jónsson krefst þess aðallega að nauðungarsalan verði ógilt, en til vara að allar aðgerðir sýslumannsins í Reykjavík varðandi hana eftir lok uppboðs á eigninni 22. febrúar 2001 verði felldar úr gildi. Þá krefst sóknaraðilinn þess jafnframt að varnaraðili verði dæmdur til að greiða málskostnað í héraði og kærumálskostnað. Sóknaraðilinn Flugskóli Helga Jónssonar ehf. krefst þess að felldar verði úr gildi allar aðgerðir sýslumannsins í Reykjavík varðandi nauðungarsöluna eftir lok uppboðs á eigninni 22. febrúar 2001. Hann krefst einnig kærumálskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur að öðru leyti en því að leiðrétt verði misritun í úrskurðarorði, þar sem ranglega hafi verið vísað til héraðsdómsmáls nr. E-1458/2001 í stað máls nr. Z-2/2001. Þá krefst varnaraðili kærumálskostnaðar.
I.
Samkvæmt gögnum málsins fékk sóknaraðilinn Helgi Jónsson afsal 2. maí 1973 fyrir nánar tilgreindri flugvél og eignum við Reykjavíkurflugvöll, sem lýst var sem skólastofu með húsgögnum, „linkt trainer”, skrifstofuherbergi með tilteknum innanstokksmunum, verkstæðisherbergi ásamt nánar greindum áhöldum og teppi á gólfi húsnæðisins, auk aðstöðu í flugskýli og afnotaréttar af bensíntanki. Sagði í afsalinu að þetta væri „m.ö.o. húsnæði, sem flugskólinn Þytur hf. hafði á Reykjavíkurflugvelli og afnot af flugskýli í eigu Flugmálastjórnar og rétt til afnota af benzíntanki í eigu Olíufél. hf. (ESSO), auk framangreindra fylgihluta.” Afsalinu var þinglýst 7. maí 1973 með þeirri athugasemd að „um þingl. eignarheimild eða lóðarréttindi að umræddu húsnæði á Reykjavíkurflugvelli er ekki að ræða”. Í málinu liggur fyrir þinglýsingarvottorð sýslumannsins í Reykjavík 22. febrúar 2001, þar sem eignin, sem afsalið tók til, er nefnt „skóla og verksm.hús á Reykjavíkurflugvelli”.
Varnaraðili, sem er starfandi héraðsdómslögmaður, mun á árunum 1992 og 1993 hafa sinnt ýmsum lögfræðilegum verkefnum fyrir Flugfélagið Óðin hf., sem sóknaraðilinn Helgi stóð meðal annarra að, svo og fyrir sóknaraðilann sjálfan og eiginkonu hans. Af gögnum málsins verður ráðið að dregist hafi að varnaraðili fengi að fullu greitt fyrir þessi störf, en að endingu hafi verið gert upp við hann með skuldabréfi, sem sóknaraðilinn Helgi hafi gefið út til hans 12. febrúar 1996, að fjárhæð 1.750.000 krónur. Hafi skuldabréfið verið tryggt með 3. veðrétti í áðurnefndri eign. Vanskil hafi orðið á greiðslu skuldarinnar, sem urðu til þess að varnaraðili krafðist nauðungarsölu á veðinu í byrjun árs 1999. Hafi staðið til að það yrði selt við uppboð 30. september 1999, en sóknaraðilinn Helgi greitt varnaraðila skuldina daginn áður og komið þannig í veg fyrir nauðungarsölu.
Fyrir liggur í málinu að í fyrrnefndum störfum kom varnaraðili meðal annars að samningsgerð um uppgjör á skuld Flugfélagsins Óðins hf. við Olíuverzlun Íslands hf. Í tengslum við það uppgjör gaf fyrrnefnda félagið út verðtryggt skuldabréf til þess síðarnefnda 15. ágúst 1994 að fjárhæð 3.000.000 krónur. Átti skuldin að bera nánar tilgreinda vexti og greiðast með sextán jöfnum afborgunum á þriggja mánaða fresti, í fyrsta sinn 1. júní 1994. Gengust sóknaraðilinn Helgi og eiginkona hans í sjálfskuldarábyrgð fyrir skuldinni, sem var jafnframt tryggð með 2. veðrétti í fasteigninni „Flugskóli Helga Jónssonar, RVK-flugvelli Skóli og verksmiðjuhús”. Skuldabréfi þessu var þinglýst 18. ágúst 1994. Vanskil urðu á greiðslum af því allt frá upphafi. Fram kemur í gögnum málsins að á fyrri hluta árs 1998 hafi Olíuverzlun Íslands hf. fallist á ósk eiginkonu sóknaraðilans Helga um að fá að gera skuldina upp með nýju skuldabréfi að fjárhæð 2.000.000 krónur, sem yrðu greiddar á sex árum með mánaðarlegum afborgunum. Af slíku uppgjöri mun aldrei hafa orðið og ekkert greiðst upp í skuldina. Olíuverzlun Íslands hf. framseldi skuldabréfið 22. september 1999 nafngreindum manni, sem áritaði það síðan um framsal til varnaraðila 20. desember sama árs. Er óumdeilt í málinu að í raun hafi varnaraðili staðið að kaupum á skuldabréfinu 22. september 1999 og greitt fyrir það 1.900.000 krónur til Olíuverzlunar Íslands hf. Kveðst varnaraðili hafa gert þetta í tengslum við fyrirhugað uppboð á veðinu 30. september 1999, sem áður er getið, til að tryggja frekar greiðslu á kröfu sinni samkvæmt skuldabréfinu frá 12. febrúar 1996, sem hafi staðið að baki skuldabréfi Olíuverzlunar Íslands hf. í veðröð, en alls hafi verið óvíst um verðmæti veðsins.
Með beiðni til sýslumannsins í Reykjavík 22. nóvember 2000 leitaði varnaraðili nauðungarsölu á eign, sem þar var nefnd „Flugskóli Helga Jónssonar, Reykjavíkurflugvelli”, til fullnustu á kröfu samkvæmt skuldabréfinu frá 15. ágúst 1994. Var krafan þar sögð nema alls 9.603.777 krónum. Á grundvelli þessarar beiðni tók sýslumaður fyrir 8. janúar 2001 nauðungarsölu „á eigninni: Skóli og verksmiðjuhús á Reykjavíkurflugvelli”, þar sem sóknaraðilinn Helgi var gerðarþoli. Var mætt af hans hálfu og mótmæli færð fram gegn nauðungarsölunni, en á þau féllst sýslumaður ekki og ákvað samkvæmt kröfu varnaraðila að uppboð á eigninni myndi byrja 29. janúar 2001. Við það uppboð mun varnaraðili hafa boðið 100.000 krónur í eignina og með því orðið hæstbjóðandi í hana, en ákveðið var að uppboði yrði fram haldið 22. febrúar 2001.
Áður en kom að framhaldi uppboðs höfðaði sóknaraðilinn Helgi mál á hendur varnaraðila með stefnu 1. febrúar 2001, þar sem sá fyrrnefndi krafðist þess aðallega að varnaraðila yrði gert að afhenda sér til aflýsingar veðskuldabréfið frá 15. ágúst 1994, til vara að varnaraðili yrði dæmdur til að greiða sér nánar tiltekið andvirði bréfsins, en til þrautavara að önnur hvor þessara krafna yrði tekin til greina gegn greiðslu úr hendi sóknaraðilans á 1.900.000 krónum með dráttarvöxtum frá 22. september 1999 til greiðsludags. Mál þetta var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 15. febrúar 2001 og mun vera auðkennt þar sem mál nr. E-1458/2001. Varnaraðili tók til varna í því. Verður ekki ráðið af fyrirliggjandi gögnum að því hafi verið lokið.
Við framhald uppboðs 22. febrúar 2001 voru enn færð fram mótmæli sóknaraðilans Helga gegn nauðungarsölunni, en á þau var ekki fallist. Var í því sambandi meðal annars tekið fram í gerðabók sýslumanns að sóknaraðilinn hafi látið í ljós að hann teldi nauðungarsöluna ekki geta náð til aðstöðu í flugskýli og afnota af bensíntanki, sem um ræddi í fyrrnefndu afsali til hans 2. maí 1973, en því hafi sýslumaður hafnað. Við þetta uppboð komu fram alls níu boð í eignina. Varnaraðili átti þar næst hæsta boðið, að fjárhæð 9.500.000 krónur, en hæstbjóðandi var eiginkona sóknaraðilans Helga „f.h. Flugskóla Helga Jónssonar”, sem bauð 10.000.000 krónur í eignina. Við lok uppboðsins kynnti sýslumaður hæstbjóðandanum að boð hans yrði samþykkt ef greiðsla samkvæmt því bærist í samræmi við uppboðskilmála á nánar tilteknum tíma 8. mars 2001. Með bréfi 15. þess mánaðar tilkynnti sýslumaður varnaraðila að hæstbjóðandinn hefði ekki staðið við boð sitt og yrði áðurnefnt boð varnaraðila samþykkt ef greiðsla samkvæmt því bærist fyrir kl. 15 þann dag. Verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að sú greiðsla hafi verið innt af hendi.
Með bréfi, sem barst Héraðsdómi Reykjavíkur 27. febrúar 2001, leitaði sóknaraðilinn Helgi úrlausnar um gildi nauðungarsölunnar. Var mál þetta þingfest af því tilefni 23. mars 2001, en af hálfu Tollstjórans í Reykjavík, Sjóvá-Almennra trygginga hf. og Landsbanka Íslands hf., sem höfðu auk varnaraðila krafist úthlutunar af söluverði við nauðungarsöluna, var sótt þing og því lýst yfir að þeir myndu ekki halda uppi vörnum í málinu.
II.
Sóknaraðilinn Flugskóli Helga Jónssonar ehf. kærði sem áður segir úrskurð héraðsdómara fyrir sitt leyti 4. júlí 2001. Þótt hann hafi verið hæstbjóðandi við framhald uppboðs 22. febrúar 2001 með boði, sem hann síðan stóð ekki við, gat hann ekki að réttu lagi gerst aðili að málinu fyrir héraðsdómi, sbr. 3. mgr. 82. gr. laga nr. 90/1991, enda reyndi hann heldur ekki að láta það til sín taka þar. Hann hefur í engu sýnt fram á hagsmuni af úrlausn málsins, sem staðið gætu til þess að honum yrði heimilað að ganga inn í það til meðalgöngu með málskoti til Hæstaréttar. Þegar af þeirri ástæðu verður kröfum hans vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti. Af ummælum í greinargerð varnaraðila fyrir Hæstarétti verður ekki ráðið að kröfu hans um kærumálskostnað „úr hendi sóknaraðila” sé beint að þessum málsaðila, enda tekið þar fram að ekki væri sérstök ástæða til athugasemda vegna kæru hans, þar sem „fyrirtækið á enga aðild að máli þessu.” Samkvæmt því verður sóknaraðilinn Flugskóli Helga Jónssonar ehf. ekki dæmdur til að greiða kærumálskostnað.
Sóknaraðilinn Helgi Jónsson gerir þá varakröfu fyrir Hæstarétti að „framvinda gerðarinnar og allar aðgerðir af hálfu sýslumannsins í Reykjavík í málinu eftir lok nauðungarsölunnar h. 22. febrúar 2001 verði dæmdar ógildar og ólögmætar”. Krafa þessi var ekki höfð uppi fyrir héraðsdómi. Þegar af þeirri ástæðu verður henni vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti.
III.
Í málinu hafa ekki verið bornar brigður á að veðskuldabréfið frá 15. ágúst 1994, sem varnaraðili studdist við þegar hann krafðist nauðungarsölu á eign sóknaraðilans Helga Jónssonar, fullnægi skilyrðum 2. töluliðar 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991 til að verða heimild til nauðungarsölu án undangengins dóms, sáttar eða fjárnáms. Því hefur ekki verið borið við að skuld samkvæmt veðskuldabréfinu hafi verið greidd að nokkru eða öllu. Bréfið er áritað um framsöl í óslitinni röð frá upphaflegum eiganda þess til varnaraðila. Í framlagðri yfirlýsingu 7. nóvember 2000 frá framkvæmdastjóra fjármálasviðs Olíuverzlunar Íslands hf. er tekið fram að honum hafi verið ljóst að varnaraðili hafi falast eftir umræddu veðskuldabréfi fyrir sjálfan sig og ekki rekið í því sambandi erindi sóknaraðilans Helga. Þessu hefur ekki verið hnekkt. Eru því engin efni til að líta svo á að félagið hafi í raun talið sig vera að framselja veðskuldabréfið sóknaraðilanum Helga, svo sem hann hefur borið við í málinu. Var varnaraðili því réttur eigandi að veðskuldabréfinu þegar hann krafðist nauðungarsölu á grundvelli þess 22. nóvember 2000 og naut hann þá sem slíkur þeirra réttinda, sem því fylgja að lögum. Engu varðar fyrir sóknaraðilann Helga sem gerðarþola við nauðungarsöluna hvað varnaraðili kann að hafa látið af hendi sem endurgjald fyrir veðskuldabréfið. Verður því hafnað málsástæðum sóknaraðilans Helga, sem lúta að því að heimild varnaraðila til nauðungarsölu hafi verið áfátt.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður ekki fallist á með sóknaraðilanum Helga að efni geti hafa staðið til þess að sýslumaðurinn í Reykjavík stöðvaði aðgerðir við nauðungarsölu á eign hans vegna áðurnefnds dómsmáls, sem sóknaraðilinn höfðaði á hendur varnaraðila og þingfest var 15. febrúar 2001.
Þegar sýslumaður hélt áfram uppboði á eign sóknaraðilans Helga 22. febrúar 2001 var fært í gerðabók að um væri að ræða „Skóla- og verksmiðjuhús á Reykjavíkurflugvelli”. Þar hélt sóknaraðilinn Helgi fram mótmælum sem áður segir gegn því að nauðungarsalan tæki til aðstöðu í flugskýli og afnota af bensíntanki. Þeim mótmælum hafnaði sýslumaður. Verður að ætla samkvæmt því að sýslumaður hafi litið svo á að hugsanleg réttindi, sem að þessu lutu, hafi fylgt við sölu eignarinnar. Þótt fallast megi á með sóknaraðilanum Helga að þessi hugsanlegu réttindi hafi ekki skýrlega verið sett að veði í skuldabréfi varnaraðila frá 15. ágúst 1994 og nauðungarsalan því ekki réttilega getað náð til þeirra, verður ekki horft fram hjá því að í greinargerð varnaraðila fyrir héraðsdómi var því lýst yfir að hann liti ekki svo á að hér væri um að ræða nein eiginleg réttindi eða að þau tengdust hinni seldu fasteign og teldi hann sig ekki hafa keypt þau við nauðungarsöluna. Í því ljósi gat það ekki orðið sóknaraðilanum Helga til réttarspjalla að sýslumaður hafi talið nauðungarsöluna taka til frekari réttinda en efni stóðu til, enda gæti það aðeins hafa orðið til þess að boð á uppboðinu 22. febrúar 2001 hafi orðið hærri en ella hefði verið. Varnaraðili hefur með framangreindu látið í ljós að hann telji sig ekki hafa orðið fyrir tjóni með því að þessi hugsanlegu réttindi fylgi ekki í kaupum hans. Samkvæmt þessu er ekki tilefni til að hrinda nauðungarsölunni í heild vegna þessa annmarka á framkvæmd hennar, heldur er nægilegt að láta við það sitja að fella hana úr gildi að því er varðar þessi hugsanlegu réttindi.
Samkvæmt þessu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar um gildi nauðungarsölunnar staðfest með þeirri breytingu, sem hér síðast var getið og nánar greinir í dómsorði.
Fyrir héraðsdómi gerði sóknaraðilinn Helgi varakröfu um að frekari aðgerðir við nauðungarsölu á eign hans yrðu stöðvaðar þar til fullnaðarúrlausn hefði fengist í áðurgreindu máli hans á hendur varnaraðila, sem rekið var fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur sem mál nr. E-1458/2001. Héraðsdómari hafnaði þeirri kröfu sóknaraðilans réttilega með hinum kærða úrskurði. Verður kæra sóknaraðilans Helga ekki skilin svo að hann leiti fyrir Hæstarétti endurskoðunar á þeirri niðurstöðu. Auk þessarar kröfu leitaði sóknaraðilinn Helgi þó jafnframt eftir því fyrir héraðsdómi að kveðið yrði á um að sér yrði ekki vikið af eigninni, sem seld var nauðungarsölu, fyrr en máli þessu um gildi hennar yrði lokið. Varnaraðili lýst sig samþykkan þessari kröfu og féllst héraðsdómari á hana með hinum kærða úrskurði. Í bréfi héraðsdómarans í málinu til Hæstaréttar 11. júlí 2001 var tekið fram að í úrskurðinum hafi í þessu sambandi ranglega verið vitnað til máls nr. E-1458/2001 í stað númers þessa máls, Z-2/2001, bæði í forsendum úrskurðarins og úrskurðarorði. Varnaraðili hefur sem áður segir krafist þess fyrir Hæstarétti að þessi misritun verði leiðrétt. Sóknaraðilinn Helgi lýsti því jafnframt yfir í kæru að hér væri um að ræða augljós mistök, sem „ber að leiðrétta án frekari umsvifa.” Málinu, sem auðkennt var fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur sem mál Z-2/2001, lýkur með þessum dómi Hæstaréttar. Eru því ekki efni til frekari leiðréttingar á umræddri misritun en að fella ákvæði, sem að þessu laut, úr ályktunarorði hins kærða úrskurðar með dómi þessum.
Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað, sem varnaraðili hefur ekki kært fyrir sitt leyti, verður staðfest. Dæma verður sóknaraðilann Helga til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Kröfum sóknaraðila, Flugskóla Helga Jónssonar ehf., er vísað frá Hæstarétti.
Nauðungarsala sýslumannsins í Reykjavík á svonefndu skóla- og verksmiðjuhúsi á Reykjavíkurflugvelli, eign sóknaraðila, Helga Jónssonar, er staðfest, en þó þannig að hún taki ekki til aðstöðu í flugskýli eða afnota af bensíntanki.
Varakröfu sóknaraðila, Helga Jónssonar, er vísað frá Hæstarétti.
Sóknaraðili, Helgi Jónsson, greiði varnaraðila, Sigurði I. Halldórssyni, 100.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. júní 2001.
Mál þetta var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 23. mars sl.
Sóknaraðili er Helgi Jónsson, kt. 110238-2239, Bauganesi 44, Reykjavík.
Varnaraðili er Sigurður I. Halldórsson, kt. 020352-4699, Borgartúni 33,Reykjavík.
Sóknaraðili gerir þær dómkröfur :
1. Aðallega, að nauðungarsala, sem framkvæmd var af sýslumanninum í
Reykjavík 22.2.2001 á skóla- og verksmiðjuhúsi ásamt aðstöðu og afnotum af flugskýli og bensíntanki verði dæmd ógild og ólögmæt.
2. Til vara að frekari aðgerðir vegna nauðungarsölunnar verði stöðvaðar uns
fullnaðardómsúrlausn er fengin á ágreiningi í máli sóknar- og varnaraðila, Sigurðar I. Halldórssonar, sem þingfest var 15.2. 2001 og rekið er fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í máli nr. E-1458/2001.
3. Að héraðsdómur skeri úr undir rekstri þessa máls að sóknaraðila og umráðamanni
hinna seldu eigna verði ekki vikið af eignunum fyrr en lyktir þess eru fengnar.
4. Að sér verði dæmdur málskostnaður að viðbættum virðisaukaskatti úr hendi
varnaraðila, Sigurðar I. Halldórssonar.
Varnaraðili gerir þær dómkröfur :
1. Að nauðungarsala, sem framkvæmd var af sýslumanninum í Reykjavík
22.02.2001 á Skóla og verksmiðjuhúsi á Reykjavíkurflugvelli, verði staðfest.
2. Að vísað verði frá dómi varakröfu sóknaraðila um frestun aðgerða vegna
nauðungarsölunnar, þar til dómsúrlausn er fengin í héraðsdómsmálinu nr. E-1458/2001.
3.Að varnaraðila verði dæmdur málskostnaður að viðbættum virðisaukaskatti úr hendi sóknaraðila, Helga Jónssonar.
Málið var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 1l. maí sl. Gætt var ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 77. gr. laga nr. 90/1991, áður en úrskurður var kveðinn upp.
I
Málsatvik
Hinn 22. febrúar sl. fór fram nauðungarsala á uppboði á eigninni Skóla- og verksmiðjuhúsi á Reykjavíkurflugvelli. Nauðungarsölunnar var krafist á grundvelli skuldabréfs, upphaflega að fjárhæð 3.000.000 kr., útgefnu af Óðni hf., flugfélagi, Reykjavíkurflugvelli, 15. ágúst 1994, sem tryggt var með veði í í fasteigninni: Flugskóli Helga Jónssonar, RVK-flugvelli, Skóli og verksmiðjuhús, svo og með sjálfskuldarábyrgð sóknaraðila, Helga Jónssonar og Jytte Marcher, Bauganesi 44, Reykjavík. Upphaflegur kröfuhafi skuldabréfsins var Olíuverslun Íslands hf., en samkvæmt framsali dags. 20. desember 1999 er varnaraðili eigandi bréfsins. Nauðungarsalan fór fram gegn mótmælum sóknaraðila og átti Jytte Jónsson hæsta boð í eignina, 10.000.000 kr. Næsthæsta boð átti varnaraðili, 9.500.000 kr. Með því að hæstbjóðandi stóð ekki við boð sitt í eignina var samþykkt boð varnaraðila í eignina.
Með beiðni dags. 27. febrúar 2001 óskaði sóknaraðili úrlausnar Héraðsdóms Reykjavíkur um gildi nauðungarsölu á ofangreindri eign með skírskotun til 80. og 81. gr. laga nr. 90/1990 um nauðungarsölu og var málið þingfest 23. mars s.á.
II
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili byggir kröfur sínar á eftirfarandi málsástæðum.
1. Að nauðungarsöluheimild hafi verið áfátt, þar sem varnaraðili hafi komist að henni á óréttmætan og ólöglegan hátt. Um málsatvik, málsástæður og lagarök í því efni er vísað til stefnu til Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-1458/2001 milli sömu aðila. Er þar vísað til þess að varnaraðili hafi notfært sér vitneskju sem hann hafi öðlast við lögmannsstörf í þágu sóknaraðila til þess að afla sér ólögmæts ávinnings með kaupum á umræddu skuldabréfi af Olíuverslun Íslands hf. Enn fremur að varnaraðili hafi vakið og notfært sér þann skilning viðsemjenda sinna hjá Olíuverslun Íslands hf. að með kaupum á bréfinu væri hann að starfa í þágu sóknaraðila. Hafi varnaraðili ætlað sér að hagnast óhæfilega á kostnað sóknaraðila.
2. Að framkvæmd og undanfari nauðungarsölu hafi verið áfátt, þar eð seld hafi verið
réttindi í eigu sóknaraðila, sem hvorki nauðungarsöluheimild né nauðungarsölubeiðni hafi náð til né heldur auglýsingar eða tilkynningar sýslumanns um nauðungarsöluna. Seldar hafi því verið fleiri eignir við sömu gerð en rétt var. Endurrit úr gerðabók sýslumanns á bls. 1 í akti beri með sér að í einu lagi og jafnframt fasteign væru seld réttindi samkvæmt. 6. tölulið í afsali eins og það komi fram á bls. 37 í akti, þ.e. "aðstaða í flugskýli og afnotaréttur af benzíntaki" með nánari skilgreiningu þar. Hafi verið kallað eftir boðum í þessar eignir og þær seldar, þrátt fyrir eindregin mótmæli lögmanns gerðarþola við gerðina.
Nauðungarsöluheimild sé á bls. 4 í akti. Tilgreint veð í skuldabréfinu sé fasteignin Flugskóli Helga Jónssonar, Rvk-flugvelli, skóli og verksmiðjuhús. Í nauðungarsölubeiðni sé beiðst sölu á "flugskóla Helga Jónssonar, Reykjavíkurflugvelli" án nánari skilgreiningar, en vísað til skuldabréfsins síðar í beiðninni sem söluheimildar. Sýslumanni hafi borið að vísa slíkri beiðni frá vegna vanreifunar, sbr. 1. mgr. 11. gr. nsl. nr. 90/1991.
Tilkynning sýslumanns um nauðungarsölu sé lögð fram í málinu. Þar sé tilkynnt sala á "skóla- og verksmiðjuhúsi á Reykjavíkurflugvelli", en ekki frekari réttindum. Auglýsingar sýslumanns um nauðungarsöluna hafi verið á sömu lund og aldrei auglýst sala á frekari eða öðrum réttindum. Vísað er til 16.-19. gr. og 26. gr. nsl. nr. 90/1991.
Af framangreindu sé ljóst að boðið hafi verið í og seld í einu lagi eignarréttindi, sem nauðungarsalan hafi ekki náð til nema að hluta og telur sóknaraðili einsýnt, að þegar af þeirri ástæðu beri að ógilda nauðungarsöluna.
3.Enn fremur er byggt á því, að sýslumanni hafi borið að stöðva gerðina strax við fyrirtekt þegar mótmæli komu fram af hálfu gerðarþola, sem byggðust á að óvíst væri að gerðarbeiðandinn, þ.e. varnaraðili ætti rétt á að salan færi fram svo og að mótmælin vörðuðu atriði, sem sýslumanni hafi borið að gæta af sjálfsdáðum, sbr. 2. mgr. 22. gr. nsl. nr. 90/1991, svo og 73. gr. sömu laga.
4. Varakrafa byggist á litis pendens áhrifum þess að ágreiningsefni um rétta og lögmæta handhöfn varnaraðila sé rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í sérstöku dómsmáli. Enn fremur á því að sýslumanni hafi borið að stöðva söluna ex officio. Vísað er m.a. til 4. mgr. 94. gr. eml. nr. 91/1991 sbr. 2. mgr. 77. gr. nsl. nr. 90/1991.
5. Krafa sóknaraðila samkvæmt lið 3 í kröfugerð að framan sé gerð með skírskotun til 3. mgr. 55. gr. nsl. Sóknaraðili og fjölskylda hans hafi um áratugaskeið notað hinar seldu eignir sér til lífsframfæris við flugkennslu og flugrekstur og sé svo enn, hvað varðar sóknaraðila og eiginkonu hans. Aðra kunnáttu hafi þau ekki, sem gæti nýst þeim til framfæris og m.a. vegna eðlis slíkra starfa gætu þau ekki fengið starfa annars staðar á sama eða svipuðu sviði vegna aldurs, en þau munu bæði vera á sjötugsaldri. Truflun á starfseminni og stöðvun hefði örlagaríkar afleiðingar í för með sér fyrir hag þeirra og stöðu.
6. Málskostnaðarkrafa er byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991, sbr. 77. gr. nsl.
III
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Krafa varnaraðila í fyrsta lagi, um staðfestingu nauðungarsölu er fram fór þann 22.02.2001 á Skóla og verksmiðjuhúsi á Reykjavíkurflugvelli, er rökstudd með eftirfarandi málsástæðum:
a. Varnaraðili sé sannanlega réttmætur rétthafi umrædds skuldabréfs sbr. framsalsáritun á bréfið sjálft þann 20.12.1999.
b. Um heimild til nauðungarsölunnar er að öðru leyti vísað til 11. kafla laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu einkum 6. og 9. gr. laganna.
Mótmælt er, sem röngum og með öllu órökstuddum, fullyrðingum sóknaraðila um að varnaraðili hafi komist yfir umrætt skuldabréf með óréttmætum og ólöglegum hætti. Í því sambandi er vísað til framlagðrar yfirlýsingu Kristjáns B. Ólafssonar framkvæmdastjóra fjármálasviðs Olíuverslunar Íslands hf.
Mótmælt er þeirri fullyrðingu sóknaraðila, að með nauðungarsölunni hafi verið seld réttindi í eigu sóknaraðila, sem hvorki nauðungarsöluheimild né nauðungarsölubeiðni hafi náð til né heldur auglýsingar eða tilkynningar sýslumanns um nauðungarsöluna.
Í þessu sambandi vísar sóknaraðili til réttinda samkvæmt. 6. tölulið í afsali á bls. 37 í akti "aðstaða í flugskýli og afnotaréttur af benzíntanki". Mótmæli varnaraðila byggjast á því að ekki sé um að ræða raunveruleg eignarréttindi sóknaraðila, heldur fjalli skjalið (afsalið) um tiltekin réttindi, sem tilheyri þriðja manni. Ekki liggi fyrir neinar staðfestingar né samningar um framsal þeirra réttinda til sóknaraðila af hálfu Flugmálastjórnar og ESSO. Ef talið væri að sóknaraðili ætti eitthvert ígildi réttinda, þá sé ljóst að þau tengist á engan hátt hinni seldu fasteign.
Varnaraðili telur sig ekki hafa beðið um uppboð á nefndum "réttindum" né keypt þau á nauðungaruppboðinu, en varnaraðili hafi orðið að ganga inn í kaup eignarinnar, þar sem hæstbjóðandi, félag í eigu sóknaraðila, hafi ekki staðið við hæsta boð innan lögmælts frests.
Nauðungarsöluheimildin, nauðungarsölubeiðnin og framkvæmd nauðungarsölunnar sé í einu og öllu í samræmi við ákvæði laga um nauðungarsölu nr. 90/1991.
Í öðru lagi krefst varnaraðili að varakröfu sóknaraðila um frestun aðgerða vegna nauðungarsölunnar, þar til dómsúrlausn er fengin í héraðsdómsmálinu nr. E-1458/2001, verði vísað frá dómi. Frávísunarkrafa varnaraðila styðjist við skýr ákvæði 83. gr. laga nr. 90/1991 um það hvaða kröfur megi hafa uppi samkvæmt greininni og falli varakrafa sóknaraðila þar ekki undir og beri því að vísa henni frá. Sérstaklega er mótmælt rökstuðningi sóknaraðila um litis pendens áhrif af rekstri máls fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur nr. E-1458/2001. Hafa verði í huga ákveðinn tilgang laga um nauðungarsölu um málskot til Héraðsdóms. Ef sjónarmið sóknaraðila ættu við í tilviki sem þessu væri varnaraðila/gerðarþola í uppboðsmáli í lófa lagið að stefna máli fyrir Héraðsdóm og fá þar með niðurstöðu uppboðsmáls frestað ótiltekið en sá sé ekki tilgangur þeirra lagasjónarmiða sem að framan sé vitnað til. Í þessu sambandi er vakin athygli á að sóknaraðili hafi fyrst gefið út stefnu í nefndu héraðsdómsmáli þann 1. febrúar 2001 þó innheimtutilraunir varnaraðila á nefndu veðskuldabréfi hafi staðið frá ársbyrjun 2000.
Í þriðja lagi krefst varnaraðili greiðslu málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti úr hendi sóknaraðila, að mati dómsins.
Um lagarök er vísað til meginreglna laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu og laga um meðferð einkamála.
Krafa um málskostnað er byggð á ákvæðum XXI. kafla laga nr. 91/1991 og 83. gr. laga nr. 90/1991.
IV
Niðurstaða
Úrlausn máls þessa á undir héraðsdómara samkvæmt 1. mgr. 80. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili byggir aðalkröfu sína í fyrsta lagi á því að nauðungarsöluheimild hafi verið áfátt, þar sem varnaraðili hafi komist að henni á óréttmætan og ólöglegan hátt. Er þar vísað til þess að varnaraðili hafi notfært sér vitneskju sem hann hafi öðlast við lögmannsstörf í þágu sóknaraðila til þess að hagnast óhæfilega á kostnað hans með kaupum á umræddu skuldabréfi af Olíuverslun Íslands hf. Enn fremur að varnaraðili hafi vakið og notfært sér þann skilning viðsemjenda sinna hjá Olíuverslun Íslands hf. að með kaupum á bréfinu væri hann að starfa í þágu sóknaraðila.
Samkvæmt gögnum máls liggur fyrir að varnaraðili starfaði í þágu sóknaraðila á tímabilinu frá því í september 1992 og til loka september 1993. Ekki liggur fyrir að varnaraðili hafi sinnt lögmannsstörfum fyrir sóknaraðila eftir það. Varnaraðili hefur gert grein fyrir ástæðum þess að hann festi kaup á skuldabréfinu og hafa engin rök verið að því leidd að með því hafi hann nýtt sér trúnaðarupplýsingar vegna starfa í þágu sóknaraðila sem lauk 6 árum áður. Samkvæmt yfirlýsingu Kristjáns B. Ólafssonar, framkvæmdastjóra fjármálasviðs Olíuverslunar Íslands, lá fyrir að varnaraðili falaðist eftir skuldabréfinu fyrir sjálfan sig en var ekki að reka erindi sóknaraðila, sem eiganda hinnar veðsettu eignar. Verður því ekki fallist á þá málsástæðu sóknaraðila að nauðungarsöluheimild hafi verið áfátt.
Í öðru lagi byggir sóknaraðili aðalkröfu sína á því að framkvæmd og undanfari nauðungarsölu hafi verið áfátt, þar sem seld hafi verið réttindi í eigu sóknaraðila, þ.e. "aðstaða í flugskýli og afnotaréttur af benzíntanki" sem hvorki nauðungarsöluheimild né nauðungarsölubeiðni hafi náð til. Er þar vísað til 6. tl. í afsali til sóknaraðila fyrir eigninni dags. 2. maí 1973. Þar kemur fram að um er að ræða afnotarétt af flugskýli í eigu Flugmálastjórnar og rétt til afnota af bensíntanki í eigu Olíufélagsins hf. Var því ekki um að ræða eignarréttindi sem tilheyri hinni seldu eign og er þessari málsástæðu sóknaraðila hafnað.
Þá hefur sóknaraðili ekki fært fram haldbær rök fyrir því að sýslumanni hafi borið að stöðva gerðina er fram komu mótmæli af hálfu sóknaraðila og er ekki fallist á þá málsástæðu hans.
Úrlausn um gildi nauðungarsölu fer eftir ákvæðum XIV. kafla laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Samkvæmt 2. mgr. 83. gr. laganna verða ekki hafðar uppi í slíku máli kröfur um annað en ógildingu nauðungarsölunnar eða viðurkenningu á gildi hennar að öllu leyti eða nánar tilteknu marki, svo og málskostnað, sbr. þó 3. mgr. 55. gr. Héraðsdómsmálið nr. E-1458/2001 milli sömu aðila raskar ekki þeirri málsmeðferð. Ber því að hafna varakröfu sóknaraðila um það að frekari aðgerðir vegna nauðungarsölunnar verði stöðvaðar uns fullnaðardómsúrlausn í því máli liggur fyrir.
Undir rekstri málsins féllst varnaraðili á kröfu sóknaraðila um það að honum sem umráðamanni hinna seldu eigna yrði ekki vikið af eignunum fyrr en lyktir í héraðsdómsmáli nr. E-1458/2001 væru fengnar. Samkvæmt því og með vísan til 3. mgr. 55. gr. laga nr. 90/1991 verður sú krafa sóknaraðila tekin til greina.
Samkvæmt framansögðu er kröfum sóknaraðila að öðru leyti hafnað og verður því fallist á kröfu varnaraðila um staðfestingu nauðungarsölunnar, eins og krafist er og nánar greinir í úrskurðarorði.
Rétt þykir að sóknaraðili greiði varnaraðila 50.000 kr. í málskostnað.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Nauðungarsala, sem framkvæmd var af sýslumanninum í Reykjavík, 22.febrúar 2001 á skóla og verksmiðjuhúsi á Reykjavíkurflugvelli, er staðfest.
Sóknaraðila og umráðamanni hinna seldu eigna verður ekki vikið af eignunum fyrr en lyktir í héraðsdómsmáli nr. E-1458/2001 eru fengnar.
Sóknaraðili, Helgi Jónsson, greiði varnaraðila, Sigurði I. Halldórssyni, 50.000 kr. í málskostnað.