Hæstiréttur íslands

Mál nr. 579/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                                                                               

Þriðjudaginn 3. september 2013.

Nr. 579/2013.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum

(Alda Hrönn Jóhannsdóttir fulltrúi)

gegn

X

(Björgvin Jónsson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, og einangrun meðan á því stæði var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. september 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 30. ágúst 2013, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 6. september sama ár klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að varnaraðila verði einungis gert að sæta farbanni, sbr. 1. mgr. 100. gr. laganna.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 30. ágúst 2013.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, kt. [...], sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 6. september 2013, kl. 16:00 og að á þeim tíma verði kærðu gert að sæta einangrun.

Í greinargerð lögreglustjóra segir að lögreglu hafi borist upplýsingar um að X væri á leið til Íslands þann 10. maí 2013 til þess að stunda vændi. Einnig hafi komið fram í þessum upplýsingum að með henni væri önnur kona sem væri hugsanlegt fórnarlamb mansals.

X hafi margsinnis áður komið til landsins og hafi lögregla upplýsingar um að hún hafi stundað vændi hér á landi. Um sé að ræða 31 ferð X til Íslands frá árinu 2008. Í þau skipti sem X hafi komið hingað til lands hafi í sumum tilvikum stúlkur komið með henni en yfirleitt ekki þær sömu.

Lögregla hafi hlustað síma X frá 10. maí 2013, á grundvelli úrskurða þar um, og gruni lögreglu að X reki vændisþjónustu, en í mörgum símtölum hafi lögreglan hlustað á X ræða við hugsanlega kaupendur vændis og meðal annars lýst þeirri þjónustu sem sé í boði.

Rannsókn lögreglu hafi leitt í ljós að X dvelji á landinu í tvær til þrjár vikur í hverri ferð. Í þeim þremur ferðum sem lögregla hafi haft hana til rannsóknar hafi hún komið til landsins þann 10. maí 2013 og farið af landinu 30. maí 2013. Síðan hafi hún komið 4. júlí 2013 og farið aftur 22. júlí 2013. Nú síðast hafi X komið 13. ágúst 2013 og dvalið að þessu sinni í íbúð að [...] í Reykjavík. Lögregla hafi veitt henni eftirför þegar hún kom til landsins og hún þá farið að [...], þar sem Y hafi tekið á móti henni og hleypt henni inn í íbúðina. Það sé grunur lögreglu að X noti þá íbúð undir vændisstarfsemi sína að þessu sinni, en vændisstarfsemi hennar sé mjög umfangsmikil, hún hafi mikil tengsl við aðrar vændiskonur bæði hér á landi og erlendis og hún stundi vændisstarfsemi annars staðar en á Íslandi.

Í þeim þremur ferðum sem lögregla hafi haft X til rannsóknar hafi hún dvalið í þremur mismunandi íbúðum. Rannsókn lögreglu hafi leitt í ljós að Y hafi séð um að útvega X íbúðirnar sem hún noti undir vændisstarfsemina auk þess sem hann aðstoði hana meðan á dvöl hennar standi.

Lögregla hafi hlustað og hljóðritað símtöl í síma Y á grundvelli úrskurða þar um, frá 23. maí 2013 til 19. júní 2013. Við þá hlustun hafi lögregla aflað gagna sem að mati lögreglu sýni fram á að Y taki þátt í vændisstarfsemi X. Við húsleit á heimili Y í gær hafi fundist mikið magn peninga. Það sé mat lögreglu að kærði hafi atvinnu og/eða viðurværi sitt af vændi X og hugsanlega af vændi annarra og hafi tekjur af vændisstarfseminni, s.s. með útleigu húsnæðis.

Rannsókn lögreglu á vændisstarfseminni og hugsanlegu mansali sé í fullum gangi. Lögregla hafi yfirheyrt fjölda aðila sem tengist málinu, þar með talið meinta vændiskaupendur. Enn eigi eftir að yfirheyra mikinn fjölda vændiskaupenda og rannsaka enn frekar þátt X og Y. Um sé að ræða marga tugi ætlaðra kaupenda vændis.

Lögregla rannsaki nú ætlað skipulagt vændi og mögulega mansal sem kærða og eftir atvikum fleiri aðilar kunni að vera viðriðnir. Rannsókn málsins sé í fullum gangi. Telur lögreglan að ætluð háttsemi kærðu kunni að varða við ákvæði 206. gr. og mögulega 227. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og megi ætla að ef þau sönnuðust, þá myndu þau geta varðað fangelsisrefsingu, allt að 12 árum. Telur lögregla að ætla megi að kærða kunni að torvelda rannsókn málsins og hafa áhrif á samseka gangi hún laus. Meðkærði, Y, hafi með úrskurði dómsins verið úrskurðaður til að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 6. september nk.

Þess er krafist að kærðu verði gert að sæta einangrun í gæsluvarðhaldi skv. b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.

Með vísan til alls framangreinds, rannsóknarhagsmuna, a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, 206. gr. og 227. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 telur lögreglustjóri brýna rannsóknarhagsmuni standa til þess að kærðu verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 6. september 2013 og að kærða sæti einangrun á þeim tíma.

Samkvæmt rannsóknargögnum málsins er kærða undir rökstuddum grun um brot sem fangelsisrefsing liggur við. Rannsókn málsins er í fullum gangi. Haldi kærða óskertu frelsi sínu gæti hún torveldað rannsókn málsins með því að koma sönnunargögnum undan eða hafa áhrif á samseka og vitni. Með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. og b-liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, er því fallist á kröfur lögreglustjóra, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.

Úrskurðarorð:

Kærða, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 6. september  2013 kl. 16:00. Kærða sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.