Hæstiréttur íslands

Mál nr. 219/2006


Lykilorð

  • Ölvunarakstur
  • Akstur sviptur ökurétti
  • Vanaafbrotamaður


Fimmtudaginn 26

 

Fimmtudaginn 26. október 2006.

Nr. 219/2006.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari)

gegn

Hirti Þórarni Sigurðssyni

(Kristján Stefánsson hrl.)

 

Ölvunarakstur. Akstur sviptur ökurétti. Vanaafbrotamaður.

H var gefið að sök að hafa ekið bifreið undir áhrifum áfengis og sviptur ökurétti í fimm skipti á tímabilinu frá 5. desember 2005 til 21. janúar 2006. Hann játaði brot sín og var í héraði dæmdur í 18 mánaða fangelsi. Var sú refsing staðfest í Hæstarétti. Við ákvörðun refsingarinnar var höfð hliðsjón af löngum sakaferli H, þess að áfengismagn í blóði hans var verulegt í öll skiptin og um hættubrot var að ræða, sem ákærði virtist leggja í vana sinn að fremja, en einnig til þess að hann gekkst við brotunum, sbr. 6. tölulið 1. mgr. 70. gr., 72. gr. og 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 .

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 7. apríl 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þyngingar á refsingu.

Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð.

Ákærða er gefið að sök að hafa ekið bifreið undir áhrifum áfengis og sviptur ökurétti í fimm skipti á tímabilinu frá 5. desember 2005 til 21. janúar 2006. Hann játaði brot sín. Ákærði á að baki samfelldan brotaferil frá árinu 1983. Hann hefur hlotið 25 refsidóma fyrir nytjastuldi, brot gegn valdstjórninni, þjófnaði, líkamsárásir, fíkniefnabrot, fjársvik, tékkalagabrot og ýmis umferðalagabrot, þar af 22 sinnum fyrir ölvun við akstur og 21 sinni fyrir akstur sviptur ökurétti eða án ökuréttinda. Hann var hins vegar síðast sakfelldur fyrir hegningarlagabrot í janúar 1998. Eftir að hinn áfrýjaði dómur gekk, var hann með dómi 22. mars 2006 sakfelldur í héraði fyrir óvarlegan akstur undir áhrifum áfengis og sviptur ökurétti, en var ekki gerð sérstök refsing í því máli þar sem um hegningarauka var að ræða við hinn áfrýjaða dóm auk 12 mánaða fangelsisdóms frá 17. október 2005 og tveggja mánaða fangelsisdóms frá 17. nóvember sama ár, í báðum tilvikum var um ölvunarakstur og akstur sviptur ökurétti að ræða. Brot þau sem hér eru til umfjöllunar voru öll framin eftir að þeir dómar féllu.

Við ákvörðun refsingar verður að líta til framangreinds sakaferils ákærða, þess að áfengismagn í blóði hans var verulegt í öll skiptin og um hættubrot var að ræða, sem ákærði virðist leggja í vana sinn að fremja, en einnig til þess að hann gekkst við brotunum, sbr. 6. tölulið 1. mgr. 70. gr., 72. gr. og 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Fyrir þeirri fullyrðingu verjanda, að ákærði hafi tekist á við áfengissýki sína og leitað til sálfræðings og geðlæknis í afplánun, sem hann hóf 16. mars sl., eru hins vegar engin gögn í málinu. Þegar allt þetta er virt og með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur. 

Ákærði skal greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun skipaðs verjanda, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Hjörtur Þórarinn Sigurðsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 136.844 krónur þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 124.500 krónur.

                            

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. mars 2006.

            Mál þetta var höfðað með ákærum lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettum 2. janúar sl., og 16. janúar sl., og 15. febrúar 2006 á hendur Hirti Þórarni Sigurðssyni.

                   Í ákæru frá 2. janúar 2006 er ákært fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa ekið bifreiðinni PY-539, aðfaranótt mánudagsins 5. desember 2005, undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði 2,33%) og sviptur ökurétti frá miðborg Reykjavíkur, uns lögregla stöðvaði aksturinn við gatnamót Miklubrautar og Grensásvegar.

            Þetta telst varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100 gr., umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997.

            Í ákæru frá 16. janúar 2006 er ákært fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa ekið bifreiðinni PY-530, aðfaranótt þriðjudagsins 20. desember 2005, undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði 2,23%) og sviptur ökurétti frá veitingahúsinu Mónakó við Laugavegi í Reykjavík, uns lögregla stöðvaði aksturinn við gatnamót Bústaðavegar og Efstaleitis.

            Þetta telst varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr., 45. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997.

            Í ákæru frá 15. febrúar 2006 er ákært fyrir umferðarlagabrot með því að hafa undir áhrifum áfengis og sviptur ökurétti ekið bifreiðum um götur í Reykjavík á árinu 2006 svo sem hér er rakið:

I

Bifreiðinni PY-530, að kvöldi þriðjudagsins 17. janúar (vínandamagn í blóði 1,88 o/oo) um Meðalholt.

II.

Bifreiðinni PY-530, að morgni miðvikudagsins 18. janúar (vínandamagn í blóði 1,98 o/oo) frá Meðalholti að gatnamótum Breiðholtsbrautar og Skógarsels, þar sem lögregla stöðvaði aksturinn.

III.

Bifreið án lögboðinna skráningarmerkja, aðfaranótt laugardagsins 21. janúar (vínandamagn í blóði 2,58 o/oo) frá Suðurfelli uns akstri lauk við Fannarfell 10 og reynt að aka henni þar eftir að bifreiðin hafi fest í snjóskafli.

            Framangreind brot teljast varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr. og brotið í lið III að auki við 1. mgr. 63. gr. , allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997.

Þess er krafist á ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993, 2. gr. laga nr. 23/1998 og 8. gr. laga nr. 84/2004 “.

            Ákærði hefur játað brot sín fyrir dóminum. Er játning hans í samræmi við gögn málsins og verður hann sakfelldur fyrir brot sín, en þau eru í ákærum réttilega fært til refsiákvæða. 

            Ákærði er fæddur í júní 1965. Hanni á að baki langan sakaferil, allt frá árinu 1983. Hefur hann frá því ári samtals 25 sinnum verið hlotið refsidóma, aðallega fyrir brot gegn ákvæðum umferðarlaga um akstur undir áhrifum áfengis og sviptur ökurétti. Hefur í tvígang verið leitað endurskoðunar dóma á hendur honum fyrir Hæstarétti Íslands. Síðast var ákærði dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur 17. nóvember 2005, en í þeim dómi var ákærði dæmdur í 2 mánaða fangelsi fyrir ölvunar- og sviptingarakstur og var um hegningarauki við 12 mánaða fangelsisdóm er ákærði hafði hlotið fyrir sams konar brot 17. október 2005.

            Brot þau sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir í máli þessu eru fimm talsins samkvæmt 3 ákæruskjölum og hefur ákærði, eins og að framan greinir margítrekað gerst sekur um sams konar brot og ákærur taka til. Við ákvörðun refsingar verður að líta til þessa sakaferils ákærða, sbr. 6. tölulið 1. mgr. 70. gr. og 72. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með hliðsjón af framangreindu er refsing ákærða ákveðin  fangelsi í 18 mánuði.

            Ákærði hefur margoft verið sviptur ökurétti ævilangt, síðast í dóminum frá 17. október 2005. Er óþarft að árétta þá sviptingu í þessum dómi.

Ákærði greiði 120.102 krónur í sakarkostnað og málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 74.700 krónur. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

                        Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð :

            Ákærði, Hjörtur Þórarinn Sigurðsson, sæti fangelsi í 18 mánuði.

            Ákærði greiði sakarkostnað málsins 120.102 krónur og málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 74.700 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.