Hæstiréttur íslands

Mál nr. 29/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Aðild
  • Frávísun frá héraðsdómi


Föstudaginn 12

 

Föstudaginn 12. janúar 2007.

Nr. 29/2007.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Kærumál. Aðild. Frávísun frá héraðsdómi.

Ekki var talið að L væri bær til að krefjast gæsluvarðhalds yfir X, þar sem forræði á rekstri málsins hafði færst til ríkissaksóknara eftir að hann gaf út áfrýjunarstefnu í því. Samkvæmt þessu var málinu er laut að áframhaldandi gæsluvarðhaldi yfir X vísað frá héraðsdómi. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. janúar 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. janúar 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðahaldi á meðan mál hans er til meðferðar fyrir Hæstarétti, þó ekki lengur en til miðvikudagsins 2. maí 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Svo sem greinir í hinum kærða úrskurði gaf ríkissaksóknari út áfrýjunarstefnu 9. janúar 2007 í máli ákæruvaldsins gegn varnaraðila. Krafa sóknaraðila um áframhaldandi gæsluvarðhald yfir varnaraðila var lögð fram í héraðsdómi degi síðar. Með útgáfu áfrýjunarstefnunnar færðist forræði á rekstri málsins til ríkissaksóknara, sbr. 153. gr. laga nr. 19/1991. Var lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu því ekki bær til að krefjast gæsluvarðhalds yfir varnaraðila, sbr. einnig til hliðsjónar 1. mgr. 74. gr. laga nr. 19/1991. Er því óhjákvæmilegt að vísa málinu af sjálfsdáðum frá héraðsdómi.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykja­víkur 10. janúar 2007.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur lagt fram kröfu þess efnis að X, [kt. og heimilisfang], sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til meðferðar fyrir æðra dómi, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 2. maí 2007, kl. 16:00.

Í greinargerð kemur fram að dómfelldi hafi með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. S-1919/2006, sem kveðinn hafi verin upp þann 13. desember sl., sakfelldur og dæmdur í 5 ára fangelsi fyrir nytjastuldi, skjalafals, þjófnaði, fjársvik, fíkniefnalagabrot og umferðarlagabrot.

Dómfelldi hafi sætt gæsluvarðhaldi frá 15. september sl. til uppkvaðningar dómsins á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991, en frá þeim tíma til dagsins í dag á sama grundvelli og með vísan til 1. mgr. 106. gr. sömu laga, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands frá 15. desember sl. í máli nr. 641/2006. 

Dómfelldi sé síbrotamaður og hafi langan sakarferil að baki, allt aftur til ársins 1982.  Hann hafi undanfarin ár verið í mikilli brotastarfsemi og margsinnis afplánað refsidóma en ávallt brotið af sér að nýju að lokinni afplánun.  Dómfelldi hafi sýnt af sér einbeittan brotavilja og hafi ítrekað rofið skilyrði reynslulausnar með brotum sínum sem urðu m.a. tilefni síbrotagæslu þann 15. september sl.  Lögregla telji yfirgnæfandi líkur á því að kærði muni halda brotastarfsemi áfram verði hann látinn laus úr gæsluvarðhaldi áður en máli hans lýkur fyrir hinum æðra dómi.

Áfrýjunarstefna hafi verið gefin út í máli dómfellda þann 9. þ.m.

Sakarefnið sé talið varða við 1. mgr. 155. gr., 244. gr., 248. gr. og 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, 37., 44., 45. og 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50, 1987, og 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65, 1974.  Um heimild til gæsluvarðhalds er vísað til c-liðar 1. mgr. 103. gr. og 106. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19, 1991.

Samkvæmt gögnum málsins hefur dómfelldi sætt gæsluvarðhaldi frá 15. september sl. til 13. desember sl. á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 og frá síðast nefnda deginum og til dagsins í dag, einnig með vísan til 1. mgr. 106. gr. sömu laga.  Í ljós sakaferils dómfellda þykir mega ætla að dómfelldi muni halda áfram afbrotum verði hann látinn laus meðan mál hans er til meðferðar í Hæstarétti Íslands.  Með vísan til c- liðar 1. mgr. 103. gr. og 106. gr. laga nr. 19/1991 er fallist á að skilyrði séu til að taka kröfu lögreglunnar til greina. Verður dómfellda því gert að sæta gæsluvarðhaldi með meðan mál hans er til meðferðar fyrir æðra dómi, en ekki þó lengur en til miðvikudagsins 2. maí 2007, kl. 16.00.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Dómfelldi, X, [kt. og heimilisfang], skal sæta áfram gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til meðferðar fyrir æðra dómi, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 2. maí 2007, kl. 16:00.