Hæstiréttur íslands
Nr. 2020-219
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Umboðssvik
- Fjármálafyrirtæki
- Ásetningur
- Hlutdeild
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari Ása Ólafsdóttir hæstaréttardómari og Helgi I. Jónsson og Þorgeir Örlygsson fyrrverandi hæstaréttardómarar.
Með beiðnum 14. og 23. júlí 2020 leita Lárus Welding og Jóhannes Baldursson leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 26. júní sama ár í máli nr. 140/2018: Ákæruvaldið gegn Lárusi Welding, Jóhannesi Baldurssyni og Þorvaldi Lúðvík Sigurjónssyni, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Með beiðni 20. ágúst 2020 leitaði jafnframt Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson leyfis til að áfrýja dóminum fyrir sitt leyti, en dómurinn var birtur honum 12. sama mánaðar. Ákæruvaldið telur ekki efni til að fallast á framangreindar beiðnir.
Í málinu voru leyfisbeiðandanum Lárusi gefin að sök umboðssvik samkvæmt 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 vegna lánveitinga Glitnis banka hf. til FS37 ehf., síðar Stím ehf., annars vegar 16. nóvember 2007 og hins vegar 4. janúar 2008. Lárus var á umræddum tíma forstjóri bankans ásamt því að vera formaður áhættunefndar hans. Leyfisbeiðandanum Jóhannesi, þáverandi framkvæmdastjóra markaðsviðskipta Glitnis banka hf., voru gefin að sök umboðssvik vegna kaupa GLB FX fagfjárfestasjóðs á víkjandi skuldabréfi af Sögu Capital fjárfestingabanka hf. í ágúst 2008. Þá voru leyfisbeiðandanum Þorvaldi Lúðvík, forstjóra og hluthafa í Sögu Capital fjárfestingabanka hf., gefin að sök hlutdeild í umboðssvikum Jóhannesar.
Með fyrrgreindum dómi Landsréttar var Lárus sakfelldur fyrir brot gegn 249. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa misnotað þá aðstöðu sem hann hefði haft til að skuldbinda Glitni banka hf. með áðurnefndum lánveitingum án fullnægjandi trygginga og í andstöðu við reglur stjórnar og lánareglur bankans. Taldi Landsréttur ásetning Lárusar hafa staðið til misnotkunar og hann hafa framið brotin í auðgunarskyni, sbr. 243. gr. almennra hegningarlaga. Þá var hann með háttsemi sinni talinn hafa valdið verulegri fjártjónshættu og verið eða hlotið að hafa verið það ljóst.
Með dóminum var Jóhannes sakfelldur fyrir brot gegn 249. gr. almennra hegningarlaga vegna áðurnefndra kaupa GLB FX fagfjárfestasjóðs á víkjandi skuldabréfi af Sögu Capital fjárfestingabanka hf. Taldi Landsréttur Jóhannes hafa misnotað aðstöðu sína og stefnt fjármunum sjóðsins í verulega hættu þegar hann hlutaðist til um kaup GLB FX fagfjárfestasjóðs á bréfinu sem hefði leitt til verulegrar fjártjónshættu. Þegar gögn málsins væru virt í heild yrði að telja, þrátt fyrir staðfasta neitun Jóhannesar og þótt ekki lægju fyrir bein gögn um fyrirmæli af hans hálfu, að fram væri komin nægileg sönnun um að hann hefði hlutast til um að sjóðurinn keypti skuldabréfið og að með því hefði Saga Capital fjárfestingabanki hf. fengið efndir kröfu sinnar. Var talið að Jóhannes hefði lagt að undirmanni sínum og látið hann kaupa bréfið og þar með komið því til leiðar að af viðskiptunum yrði. Þorvaldur Lúðvík var sakfelldur fyrir hlutdeild í umboðssvikum Jóhannesar en hann var talinn hafa átt þátt í því að brot hins síðarnefnda var framið.
Leyfisbeiðandinn Lárus telur að skilyrðum 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 fyrir veitingu áfrýjunarleyfis sé fullnægt. Verulega almenna þýðingu hafi að Hæstiréttur endurskoði beitingu Landsréttar á fortakslausu huglægu skilyrði umboðssvika um verulega fjártjónshættu, sbr. 243. gr. og 249. gr. almennra hegningarlaga, sem sé í engu samræmi við dóma Hæstaréttar í sambærilegum málum. Auk þess sé dómur Landsréttar bersýnilega rangur að efni, einkum um mat á fjárhagslegri áhættu Glitnis banka hf. fyrir og eftir hinar umþrættu ráðstafanir. Telur Lárus meðal annars ótækt að leggja jafn formbundinn mælikvarða til grundvallar og Landsréttur geri við mat á áðurnefndum lánveitingum, enda þrengi dómurinn með því óhóflega svigrúm stjórnenda í atvinnurekstri til viðskiptalegs mats. Þá sé mat Landsréttar á tryggingaráðstöfunum Glitnis banka hf. vegna lánsins ósannfærandi og geti það haft veruleg áhrif í bankastarfsemi til framtíðar og þrengt mjög að útlánastarfsemi eins og hún er framkvæmd í dag. Hann vísar einnig til þess að engin heimild hafi staðið til þess að lögum að höfða og reka eitt mál um tvö eða fleiri sakarefni gegn sakborningum. Niðurstaða Landsréttar um þetta atriði sé því réttarskapandi.
Leyfisbeiðandinn Jóhannes telur að öllum skilyrðum 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 fyrir veitingu áfrýjunarleyfis sé fullnægt. Byggir hann meðal annars á því að málið sé fordæmalaust auk þess sem úrlausn Landsréttar sé bersýnilega röng bæði hvað varðar málsmeðferð og niðurstöðu. Skortur á beinum sönnunargögnum í málinu hafi átt að leiða til sýknu. Auk þess hafi rétturinn litið fram hjá margvíslegum óbeinum sönnunargögnum sem rennt hafi stoðum undir sakleysi hans. Telur Jóhannes að úrlausn málsins myndi hafa mikil fordæmisáhrif til frambúðar um stjórnskipuleg réttindi, málsmeðferð fyrir dómi, starfshætti lögreglu og ákæruvalds og þær skorður sem löggjafanum eru settar á umræddu sviði.
Leyfisbeiðandinn Þorvaldur Lúðvík byggir á því að skilyrðum 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 fyrir veitingu áfrýjunarleyfis sé fullnægt. Hann telur sig hafa verulega hagsmuni af því að fá dóm Landsréttar endurskoðaðan, enda séu yfirgnæfandi líkur á því að dóminum verði hrundið, einkum vegna þess að sönnunarmat Landsréttar sé byggt á afar hæpnum forsendum. Jafnframt byggir hann á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi, enda hafi ekki reynt áður á sambærileg álitaefni fyrir innlendum dómstólum. Loks sé niðurstaða Landsréttar um sakarkostnað röng og í andstöðu við lög.
Að virtum gögnum málsins verður ekki litið svo á að leyfisbeiðnirnar lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu umfram dómsúrlausnir sem áður hafa gengið eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar. Því er beiðnum leyfisbeiðenda hafnað.