Hæstiréttur íslands
Mál nr. 425/2001
Lykilorð
- Kærumál
- Vitni
|
|
Mánudaginn 26. nóvember 2001. |
|
Nr. 425/2001. |
Sigurborg M. Guðmundsdóttir(Björn S. Ásgeirsson hrl.) gegn Degi Hilmarssyni og Þórdísi Þórsdóttur (Valgarður Sigurðsson hrl.) |
Kærumál. Vitni.
Gegn mótmælum S var fallist á beiðni D og Þ um að tilteknir menn yrðu leiddir fyrir dóm sem vitni við aðalmeðferð máls, enda var það ekki ætlun D og Þ að inna þá eftir áliti á atriðum sem dómkvaddur matsmaður hafði metið, heldur að leita eftir svörum þeirra um það hvað þeir sáu og hvernig þeir upplifðu málsatvik af eigin raun.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. nóvember 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 30. október 2001, þar sem varnaraðilum var heimilað að leiða þrjá nafngreinda menn fyrir dóm sem vitni til skýrslugjafar við aðalmeðferð í máli, sem varnaraðilar hafa höfðað gegn sóknaraðila. Kæruheimild er í b. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að synjað verði um heimild til framangreindrar skýrslugjafar og að varnaraðilum verði gert að greiða kærumálskostnað.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar, svo og að þeim verði dæmdur málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður.
Úrskurður héraðsdóms hefur ekki sætt kæru af hálfu varnaraðila. Kemur því ekki til álita að þeim verði dæmdur málskostnaður í héraði eins og þau krefjast.
Í málinu krefjast varnaraðilar skaðabóta eða afsláttar úr hendi sóknaraðila vegna kaupa hinna fyrrnefndu á fasteigninni nr. 17 við Stekkjarhvamm í Hafnarfirði 16. desember 1997. Telja þau eignina hafa verið haldna leyndum göllum vegna raka, sem komið hafi í ljós í mörgum veggjum hússins, gólfi og þaki. Ekki hafi orðið uppvíst um alla þessa galla strax eftir að þeim var afhent húsið, heldur hafi það gerst í nokkrum áföngum þegar klæðning var tekin frá, þakið opnað og gólf rifið upp. Sé nú lokið við að lagfæra gallana að miklu leyti. Þeir menn, sem til standi að leiða fyrir dóm og nefndir séu í úrskurði héraðsdóms, geti allir borið um ástand einstakra húshluta, eins eða fleiri, eftir að þeir höfðu verið opnaðir í tengslum við viðgerð á þeim. Einn þeirra hafi jafnframt aðstoðað varnaraðila við leit að göllum, sem megn fúkkalykt í húsinu hafi eindregið bent til að væru til staðar. Þessu er ekki andmælt af hálfu sóknaraðila, en samkvæmt úrskurði héraðsdóms sýnist á því byggt af hans hálfu að mennirnir séu ekki vitni þar eð þeir „hafi ekki séð rakann myndast í húsinu“. Í kæru til Hæstaréttar er það skýrt svo að „þeir upplifðu ekki orsök meintra galla, heldur urðu vitni að afleiðingum þeirra“.
Af hálfu varnaraðila er fram komið að ekki sé ætlun þeirra að inna mennina þrjá fyrir dómi eftir áliti þeirra á orsökum gallanna eða spyrja um önnur atriði, sem dómkvaddur matsmaður hefur metið, heldur að leita eftir svörum þeirra um hvað þeir sáu sjálfir við skoðun og hvernig þeir upplifðu málsatvik af eigin raun. Er fallist á með varnaraðilum að mennirnir hafi stöðu vitna í málinu. Að því virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdómara verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Sóknaraðili skal greiða varnaraðilum kærumálskostnað, eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Sigurborg M. Guðmundsdóttir, greiði varnaraðilum, Degi Hilmarssyni og Þórdísi Þórsdóttur, samtals 75.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 30. október 2001.
Mál þetta var tekið til úrskurðar 29. október sl. vegna ágreinings aðila máls þessa um það, hvort Sigurður Þorvarðarson, byggingafræðingur, Héðinn Hákonarson, tæknifræðingur og Guðbjörn Ólafsson, húsasmíðameistari verði að kröfu stefnenda leiddir fyrir dóminn sem vitni við aðalmeðferð málsins, þriðjudaginn 4. desember n.k.
Af hálfu stefnenda er á því byggt að þessir aðilar geti allir borið um ástand fasteignarinnar á ýmsum tímum, þar sem þeir hafi verið kvaddir til og skoðað vettvang. Sigurður Þorvarðarson, byggingafræðingur, var kallaður til og getur borið vitni um ástand fasteignarinnar, þegar fjarlægðar voru plötur af klæðningu á stofuveggjum haustið 2000. Héðinn Hákonarson, tæknifræðingur, getur einnig borið vitni um ástand fasteignarinnar frá þessum tíma, en hann kynnti sér ástand fasteignarinnar að beiðni stefndu. Guðbjörn Ólafsson, húsasmíðameistari, var sá maður sem annaðist lagfæringar fasteignarinnar og geti því einnig borið vitni um ástand hennar áður en endurbætur fóru fram.
Af hálfu stefndu er því mótmælt að ofangreindir aðilar séu vitni í skilningi laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Þessir aðilar hafi ekki séð rakann myndast í húsinu og geti því ekki borið vitni um tjónsatburðinn. Dómkvaddur hafi verið matsmaður sem geti borið vitni um orsakir gallans og sé ekkert því til fyrirstöðu að hann verði kvaddur fyrir dóm til að svari munnlega spurningum, sbr. 65. gr. ofangreindra laga. Ekki sé þörf á skýrslugjöf annarra sérfræðinga fyrir dómi um orsakir hinna meintu galla. Máli sínu til stuðnings vísar stefnda til hæstaréttardóms frá 1996 : 1785.
Af 1. mgr. 44. gr. og 1. mgr. 51. gr. laga nr. 91/1991 verður ályktað, að aðili að einkamáli megi færa þar sönnur fyrir umdeildu atviki með því að leiða fyrir dóm vitni, sem svari munnlega spurningum um slík atvik af eigin raun.
Stefnendur hyggjast leiða þá Sigurð Þorvarðarson, Héðinn Hákonarson og Guðbjörn Ólafsson sem vitni fyrir dóm til þess að bera vitni um það sem fyrir augum bar er þeir komu á vettvang. Skipti þetta máli, þar sem viðgerðum er að mestu lokið og vettvangsganga myndi ekki varpa ljósi á það hverjar voru aðstæður áður en endurbætur fóru fram. Er þeim ætlað að lýsa hvað þeir sáu á vettvangi, en stefnendur hafa ekki haldið því fram að það sé ætlun þeirra að láta umrædda menn bera vitni um orsakir hinna meintu galla.
Dómari telur að ofangreindir aðilar geti allir borið vitni um málsatvik í máli þessu og verði stefnendum því eigi meinað að kalla þá fyrir dóm til að bera vitni um málsatvik.
Niðurstaðan er því sú að stefnendum er heimilað að leiða fyrir dóm sem vitni þá Sigurð Þorvarðarson, byggingafræðing, Héðinn Hákonarson, tæknifræðing og Guðbjörn Ólafsson, húsasmíðameistara, við aðalmeðferð máls þessa, hinn 4. desember n.k.
Ólöf Pétursdóttir dómstjóri kvað upp úrskurðinn.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Stefnendum er heimilt að leiða Sigurð Þorvarðarson, byggingafræðing, Héðinn Hákonarson, tæknifræðing og Guðbjörn Ólafsson, húsasmíðameistara, sem vitni fyrir dómi við aðalmeðferð málsins nr. E-1591/2001 þann 4. desember n.k.