Hæstiréttur íslands
Mál nr. 492/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Frestur
|
|
Föstudaginn 30. ágúst 2013. |
|
Nr. 492/2013.
|
Þorsteinn Helgi Ingason (sjálfur) gegn Arion banka hf. (Karl Óttar Pétursson hrl.) |
Kærumál. Frestur.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem A hf. var veittur frestur til að skila greinargerð í máli Þ á hendur bankanum. Við þingfestingu málsins krafðist A hf. þess að Þ setti tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar, samkvæmt b. lið 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Héraðsdómari hafnaði þeirri kröfu með úrskurði. Við næstu fyrirtöku málsins óskaði A hf. eftir fresti til að skila greinargerð á grundvelli 1. mgr. 99. gr. laganna. Krafðist Þ þess að málið yrði dómtekið þar sem A hf. hefði ekki þegar við þingfestingu málsins óskað eftir slíkum fresti. Í dómi Hæstaréttar sagði m.a. að ef stefnandi sækti þing við þingfestingu máls ætti hann samkvæmt 1. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991 rétt á hæfilegum fresti til að taka afstöðu til krafna stefnanda og kanna framkomin gögn. Þá gæti hann samkvæmt 1. mgr. 133. gr. laganna krafist þess við þingfestingu máls að stefnandi setti tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar áður en frekari aðgerðir gætu farið fram í máli. A hf. hafi því ekki borið þegar við þingfestingu málsins að óska jafnframt sérstaklega eftir fresti til framlagningar greinargerðar. Staðfesti Hæstiréttur því niðurstöðu hins kærða úrskurðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með ódagsettri kæru sem barst héraðsdómi 15. júlí 2013 en Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júlí 2013, þar sem varnaraðila var veittur frestur til fimmtudagsins 5. september 2013 til að skila greinargerð í máli sem sóknaraðili rekur á hendur varnaraðila fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Kæruheimild er í h. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að dómtaka málið án þess að greinargerð komi fram í málinu af hálfu varnaraðila. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili höfðaði má þetta á hendur varnaraðila með stefnu birtri 15. janúar 2013 þar sem krafist er skaðabóta að fjárhæð 500.000.000 krónur, en til vara annarrar lægri fjárhæðar. Eins og greinir í hinum kærða úrskurði krafðist varnaraðili þess við þingfestingu málsins 12. mars 2013 að sóknaraðili setti tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar samkvæmt b. lið 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991, en gert hafði verið árangurslaust fjárnám hjá sóknaraðila. Krafa varnaraðila var tekin til úrskurðar 8. apríl 2013 og hafnaði héraðsdómur henni með úrskurði 22. maí sama ár. Við næstu fyrirtöku málsins óskað varnaraðili eftir fresti til að skila greinargerð, en sóknaraðili krafðist þess að málið yrði dómtekið þar sem varnaraðili hefði ekki þegar við þingfestingu óskað eftir slíkum fresti. Með hinum kærða úrskurði var varnaraðila veittur fresturinn til 5. september 2013.
Sæki stefndi þing við þingfestingu máls á hann samkvæmt 1. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991 rétt á hæfilegum fresti til að taka afstöðu til krafna stefnanda og kanna framkomin gögn. Haldi stefndi uppi vörnum í máli skal hann leggja fram skriflega greinargerð um þær við lok frestsins en dómari getur veitt stefnda frekari frest til að leggja fram greinargerð telji hann réttmæta ástæðu til þess, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Samkvæmt 1. mgr. 133. gr. laganna getur stefndi krafist þess við þingfestingu máls að stefnandi setji tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar áður en frekari aðgerðir geta farið fram í máli. Því þurfti varnaraðili ekki þegar við þingfestingu málsins að óska jafnframt sérstaklega eftir fresti til framlagningar greinargerðar. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Þorsteinn Helgi Ingason, greiði varnaraðila, Arion banka hf., 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur þriðjudaginn 2. júlí 2013.
Við þingfestingu máls þessa 12. mars sl. gerði stefndi kröfu um málskostnaðartryggingu úr hendi stefnanda með vísan til b. liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991.
Sú krafa var tekin til úrskurðar 8. apríl sl. og var henni hafnað með úrskurði dómsins 22. maí sl.
Samkvæmt 1. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991 á stefndi rétt á hæfilegum fresti til að taka til afstöðu krafna stefnanda ef hann sækir þing við þingfestingu máls.
Ef stefndi vill hafa uppi kröfu um málskostnaðartryggingu úr hendi stefnanda ber að hafa slíka kröfu uppi við þingfestingu máls eins og gert var, sbr. 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991. Þótt stefndi hafi ekki formlega sett fram kröfu um frest til greinargerðar við þingfestingu málsins hinn 12. mars sl. haggar það ekki lögbundnum rétti hans samkvæmt 1. mgr. 99. gr. laganna til að halda uppi vörnum í málinu og fá til þess hæfilegan frest.
Samkvæmt framansögðu er hafnað þeim sjónarmiðum sem fram koma í bókun stefnanda og er stefnda veittur frestur til að skila greinargerð í málinu til fimmtudagsins 5. september nk. kl. 09.30 í dómsal 102 er mál þetta verður næst tekið fyrir.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Stefnda Arion banka hf. er veittur frestur til fimmtudagsins 5. september nk. til að skila greinargerð í málinu.