Hæstiréttur íslands

Mál nr. 185/2005


Lykilorð

  • Kaupgjaldsmál
  • Uppsögn
  • Varnarsamningur


Fimmtudaginn 3

 

Fimmtudaginn 3. nóvember 2005.

Nr. 185/2005.

Íslenska ríkið

(Óskar Thorarensen hrl. )

gegn

Landssambandi slökkviliðs- og

sjúkraflutningamanna

(Guðni Á. Haraldsson hrl.)

 

Kaupgjaldsmál. Uppsögn. Varnarsamningur.

Deilt var um hvort varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli hefði verið heimilt að segja upp greiðslu dagslegs rútufargjalds til slökkviliðsmanna á Keflavíkurflugvelli. Upplýst var að þessum greiðslum hafði verið komið á með ákvörðun kaupskrárnefndar árið 1955. Með vísan til 6. gr. laga nr. 82/2000 um framkvæmd tiltekinna þátta í varnarsamstarfi Íslands og Bandaríkjanna, sem mælir fyrir um að kaupskrárnefnd úrskurði um starfskjör íslenskra starfsmanna varnarliðsins, var fallist á að varnarliðinu hefði ekki verið unnt að fella þessar greiðslur niður einhliða. Voru uppsagnirnar því dæmdar ógildar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason og Hrafn Bragason.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 2. maí 2005 og krefst þess að hann verði sýknaður af kröfu stefnda. Hann krefst og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Svo sem í héraðsdómi greinir tók kaupskrárnefnd ákvörðun um greiðslu ferðapeninga, svokallaðs rútugjalds, í bréfi til starfsmannahalds varnarliðsins 24. maí 1955. Samkvæmt 6. gr. laga nr. 82/2000 um framkvæmd tiltekinna þátta í varnarsamstarfi Íslands og Bandaríkjanna er það hlutverk kaupskrárnefndar að úrskurða um starfskjör íslenskra starfsmanna varnarliðsins þar sem varnarliðið er ekki aðili að kjarasamningum. Að þessu virtu skiptir ekki máli með hvaða hætti greiðslur þessar komust á í upphafi. Með þessari athugasemd og með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, íslenska ríkið, greiði stefnda, Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. febrúar 2005.

Mál þetta, sem dómtekið var 16. desember sl. er höfðað með stefnu birtri 29. mars sl.

Stefnandi er Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Tjarnargötu 10, Reykjavík.

Stefndi er íslenska ríkið.

Dómkröfur stefnanda eru þær að er viðurkennt verði að uppsagnir varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli á greiðslu daglegs rútugjalds til slökkviliðsmanna á Keffavíkurflugvelli, er fram fóru 28. október 2003, séu ógildar.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honunm dæmdur málskostnaður.

Með bréfi dagsettu 28. október 2003 sagði starfsmannahald varnarliðsins upp þeim starfstengdu kjörum félagsmanna í stefnanda, sem starfa á vegum varnarliðsins, að greiða þeim daglegt rútufargjald. Uppsögnin var með þriggja mánaða fyrirvara frá 1. nóvember 2003.

Í bréfi dagsettu 24. maí 1955 frá kaupskrárnefnd segir m. a: „Með vísun til bréfs yðar dags. 3. febr. s.ls. vill kaupskrárnefnd hér með tjá yður, að hún hefur samþykkt að heimila yður að greiða þeim íslensku starfsmönnum yðar, sem eiga heima eða búa í Reykjavík eða á leiðinni frá Njarðvíkum til Reykjavíkur kr. 30.00 á dag fyrir hvern vinnudag í ferðapeninga.

Ákvörðun þessi gildir frá og með 1. febr. 1955.”

Greiðsla þessi hefur frá og með desember 2001 numið 1.600 krónum á dag fyrir starfsmenn er búa í Reykjavík.

Slökkviliðsmenn sem félagsmenn í Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna hafa notið þessara greiðslna frá þessum tíma líkt og aðrir starfsmenn varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli.

Stefnandi fyrir hönd félagsmanna þess mótmælti uppsögninni með bréfi dagsettu 3. nóvember 2003. Þau mótmæli voru ítrekuð með bréfi lögmanns stefnanda dags. 18. febrúar 2004.

Því er haldið fram af stefnanda að ákvörðun um greiðslu svokallaðs rútugjalds, hafi verið tekin af kaupskrárnefnd. Starfsmannahald varnarliðsins geti ekki einhliða sagt upp þessum greiðslum sem nefndin hafi úrskurðað um.

Skv. 6.gr. laga nr. 82/2000 um framkvæmd tiltekinna þátta í varnarsamstarfi Íslands og Bandaríkjanna skuli kaupskrárnefnd úrskurða um ráðningarkjör, launakjör og önnur starfskjör starfsmanna varnarliðsins. Þessum úrskurðum nefndarinnar um greiðslu rútugjalds eða ferðatíma hafi hvorki verið hnekkt né hafi þess verið óskað að nefndin fjallaði um greiðslur þessar. Ákvörðun starfsmannahalds varnarliðsins sé því lögleysa ein og tekin án lagaheimildar og sé í andstöðu við 6. gr. laga nr. 82/2000.

Greiðsla þessi hafi verið greidd til félagsmanna stefnanda allt frá þeim tíma er ákvörðun var tekin um þær eða frá árinu 1955. Þannig sé ekki um að ræða ráðningarbundin réttindi sem um sé samið í ráðningarsamningi.

Þá sé greiðsla þessi í raun hluti af lágmarkslaunum i skilningi l. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launþega sbr. og 7. gr. laga nr. 80/1938, enda viðgengist í áratugi. Þannig sé óheimilt að greiða lakari laun eða semja um lakari kjör er um getur í úrskurðum kaupskrárnefndar. Þannig brjóti uppsögn starfsmannahalds varnarliðsins í bága við ákvæði þessi.

Þá vitnar stefnandi einnig til 1. gr. rgj. nr. 284/1999 um kaupskrárnefnd varnarsvæða sbr. og 3. og 12. gr. sömu reglugerðar.

Stefnandi sé stéttarfélag í skilningi laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur og laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Skv. lögum félagsins skuli það semja um kaup og kjör félagsmanna sinna. Þannig gæti það hagsmuna slökkviliðsmanna á Keflavíkurflugvelli er starfa hjá varnarliðinu og hafi átt aðild að málum þeirra fyrir kaupskrárnefnd.

Um heimild sína til málshöfðunar vísar stefnandi til 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Félagið og félagsmenn þess hafi lögvarða hagsmuni af því að fá úr því skorið hvort ákvörðun starfsmannahalds varnarliðsins sé lögmæt þar sem um verulega kjaraskerðingu sé að ræða. Þá sé málshöfðunin fram komin í beinu framhaldi af uppsögn starfsmannahalds varnarliðsins á þeim réttindum er um ræði.

Kröfum sínum beinir stefnandi að íslenska ríkinu og vísar um það til 4. tl. 6.gr. viðbætis við varnarsamning milli Íslands og Bandaríkja Norður Ameríku, sbr. lög nr. 110/19951. Einnig vísar hann til 5. og 6. gr. laga nr. 82/2000 um framkvæmd tiltekinna, þátta í varnarsamstarfi Íslands og Bandaríkjanna.

Af hálfu stefnda er því borið við að í bréfi Kaupskrárnefndar til yfirmanns starfsmannamála Varnarliðsins, dagsettu 24. maí 1955 komi fram, að nefndin hafi heimilað Varnarliðinu að greiða starfsmönnum búsettum í Reykjavik eða á leiðinni frá Njarðvíkum til Reykjavíkur 30 krónur á vinnudag í ferðapeninga (í fyrirsögn komi fram, að hér sé um greiðslu fargjalda að tefla). Þessar greiðslur hafi síðan verið hækkaðar með ákvörðun Kaupskrárnefndar 16. maí 1960.

Af bréfinu 24. maí 1955 sé ljóst, að ákvörðun um greiðslu fargjalda hafi verið tekin af Varnarliðinu, ekki Kaupskrár- eða Varnarmálanefnd. Af gögnum frá 1953, sem liggi fyrir í þessu máli, sé jafnframt ljóst, að fargjöld hafi komið í stað ferða sem Varnarliðið lagði starfsmönnum búsettum á Keflavíkur/Njarðvíkursvæðinu.

Þar sem hvorki Kaupskrár- né Varnarmálanefnd hafi tekið ákvörðun um skyldu Varnarliðsins til greiðslu þessara fargjalda, hafði Varnarliðið heimild til þess að fella slíkar greiðslur niður, eða skerða þær, að gættum ákvæðum um uppsagnarfrest, sem gert hafi verið.

Á því er byggt af hálfu stefnda að uppsögn Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli á hluta starfstengdra kjara félagsmanna hjá stefnanda, Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, sem eru eða voru í starfi hjá Varnarliðinu, sem um er deilt í þessu máli, haft verið lögmætar. Starfsmannahaldi Varnarliðsins hafi verið heimilt að segja þessum ákvæðum upp með uppsagnarfresti viðkomandi einstaklinga og sé öðru mótmælt sem röngu.

Ákvarðanir um greiðslu framangreindra gjalda hafi í upphafi verið teknar einhliða af Varnarliðinu, þær hafi því ekki verið ígildi kjarasamningsákvæða, eins og sé um ákvarðanir eða úrskurði Kaupskrárnefndar. Jafnframt sé ljóst, að ákvarðanir um hvorutveggja hafi verið börn síns tíma og miðast við allt aðra atvinnu- og ferðahætti en nú tíðkist. Framangreinda ákvörðun hafi verið tekin með löglegum hætti í alla staði.

Á því er byggt að þeim kröfum sem einstakir félagsmenn stefnanda haft átt til greiðslnanna haft lokið við gildistöku uppsagna með bréfum 28. október 2003 og að þeir eigi ekki frekari kröfur vegna þessa.

Stefndi mótmælir öllum rökum og málsástæðum stefnanda sem röngum. Sérstaklega er því mótmælt sem röngu: að ákvörðun um greiðslu hinna umdeildu starfstengdu kjara haft verið teknar af Kaupskrárnefnd; að Kaupskrárnefndin hafi úrskurðað um þær; að Starfsmannahald Varnarliðsins geti ekki einhliða sagt upp þessum greiðslum; að ákvörðun starfsmannahalds varnarliðsins hafi verið lögleysa og tekin án lagaheimildar og verið í andstöðu við 6. gr. laga nr. 82/2000; að ekki haft verið um að ræða ráðningarbundin réttindi; að uppsögn haft brotið gegn 1. gr. laga nr. 55/1980 og 7. gr. laga nr. 80/1938 eða öðrum réttarheimildum.

Auk framangreinds vísar stefndi til meginreglna vinnuréttar. Um málskostnaðarkröfu er vísað til 130. gr. laga nr. 91/1991.

 

NIÐURSTAÐA

Í 6. gr. laga nr. 82/2000 um framkvæmd tiltekinna þátta í varnarsamstarfi Íslands og Bandaríkjanna er ákvæði um rétt íslenskra starfsmanna varnarliðsins til sambærilegra kjara og aðrir íslenskir launamenn njóta. Samkvæmt ákvæðinu skal utanríkisráðherra skipa kaupskrárnefnd sem úrskurði um starfskjör íslenskra starfsmanna varnarliðsins. Ákvæði sama efnis var að finna í 4. tl. 6. gr. viðbætis við varnarsamning Íslands og Bandaríkjanna um réttarstöðu liðs Bandaríkjamanna og eignir þeirra, sem hlaut lagagildi með lögum nr. 110/1951.  Var kaupskrárnefnd sett á stofn skömmu eftir komu varnarliðsins hingað til lands og hefur verið farið eftir fyrirmælum hennar um kjör starfsmanna, er starfa í þágu varnarliðsins síðan.

Með ákvörðun 24. maí 1955 ákvað kaupskrárnefnd að greiða skyldi þeim starfsmönnum varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli sem áttu heima í Reykjavík eða á leiðinni frá Njarðvíkum til Reykjavíkur 30 krónur á dag í ferðapeninga. Óumdeilt er að greiðsla þessi hafi frá og með desember 2001 miðað við 1.600 krónur á dag.  Eftir ákvörðun þessari var farið í áratugi eða þar til starfsmannahald varnarliðsins sagði greiðslunum upp með bréfi sínu 28. október 2003. Eins og háttar til um kjarsamninga starfsmanna varnarliðsins verður litið á framangreinda ákvöðrun kaupskrárnefndar sem ígildi kjarasamnings og gat starfsmannahald varnarliðsins ekki fellt umræddar greiðslur niður einhliða. Verður því fallist á það með stefnanda að sú ákvörðun starfsmannahalds varnarliðsins að fella greiðslurnar niður sé ógild.

Eftir úrslitum málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 300.000 krónur í málskostnað.

Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ

Framangreindar uppsagnir varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli á greiðslu daglegs rútugjalds til slökkviliðsmanna á Keflavíkurflugvelli, er fram fóru 28. október 2003, eru ógildar.

Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda Landssamabandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna 300.000 krónur í málskostnað.