Hæstiréttur íslands
Mál nr. 239/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
Föstudaginn 16. apríl 2010. |
|
|
Nr. 239/2010. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Karl Georg Sigurbjörnsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. apríl 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 11. apríl 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 23. apríl 2010 klukkan 16 og sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurður verður hann staðfestur. Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 11. apríl 2010.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 23. apríl nk. kl. 16. Þá er þess krafist að kærða verði gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu segir að í gærkvöldi, um kl. 23:00, hafi lögreglan fundið og lagt hald á mikið magn hættulegra fíkniefna, sem flutt hafi verið til landsins með flugi frá Alicante á Spáni fyrr um daginn. Efnin, sem hafi verið kyrfilega falin í ferðatöskum, hafi reynst vera kókaín og við frumathugun tæknideildar lögreglu virðist vera um að ræða mjög sterk efni, sem hafi verið tæp 1.600 grömm.
Kærði sé sterklega grunaður um aðild að fíkniefnainnflutningnum, enda hafi lögreglan fylgst með honum í gærkvöldi fara að heimili meðkærða Y, sem hafi flutt efnin til landsins, þar sem hann hafi sótt efnin og flutt þau í bifreið að húsi við [...] í [...]. Í framhaldi hafi kærði sótt meðkærða Z á heimili hans að [...] og ekið með honum að efnunum, þar sem hann hafi sýnt Z töskurnar með efnunum í. Nánar um málavexti vísast til meðfylgjandi rannsóknarskýrslu.
Í nótt, um kl. 05.00, hafi lögregluyfirvöld á Keflavíkurflugvelli stöðvað ungt par við komu sína frá Alicante. Parið hafi verið með í fórum sínum samskonar töskur og kærði Y og efnunum verið komið fyrir í töskunum með sama hætti. Lögreglan telji fullvíst að málin tengist.
Lögreglan, í samstarfi við Europol á Spáni, leiti nú Íslendings sem búsettur sé á Spáni. Það sé ætlun lögreglu að sá aðili standi að ofangreindum fíkniefnainnflutningum til landsins, sbr. meðfylgjandi upplýsingaskýrsla lögreglu.
Þá leiti lögreglan sömuleiðis ungs Íslendings, sem nú sé staddur erlendis, en sá aðili sé talinn tengjast fíkniefnainnflutningunum, sbr. meðfylgjandi lögregluskýrsla, og eigi hann pantað flug til landsins nú í næstu viku.
Rannsókn málsins sé á frumstigi, en málið sé talið tengjast vel skipulögðum og umfangsmiklum innflutningi á fíkniefnum hingað til lands.
Ljóst sé að taka þurfi frekari skýrslur af kærða, meðkærðu og hugsanlegum vitnum málsins og öðrum sem kunni að tengjast málinu. Þá sé nauðsynlegt í þágu rannsóknar að hafa upp á ofangreindum aðilum sem nú séu staddir erlendis. Málið sé mjög umfangsmikið og hafi lögreglan handtekið og yfirheyrt sjö aðila vegna þess.
Í ljósi þess að rannsókn málsins sé á viðkvæmu stigi sé afar brýnt að krafa lögreglustjóra verði tekin til greina, þannig að kærði fái ekki tækifæri til að torvelda rannsóknina, s.s. með því að koma undan munum, hafa áhrif á aðra samseka eða vitni.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Samkvæmt rannsóknargögnum málsins er kærði undir rökstuddum grun um að aðild að innflutningi á miklu magni hættulegra fíkniefna. Rannsókn málsins er umfangsmikil og á frumstigi. Haldi kærði óskertu frelsi sínu gæti hann torveldað rannsókn málsins með því að koma sönnunargögnum undan eða hafa áhrif á samseka og vitni. Með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. og b-liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, er því fallist á kröfur lögreglustjóra, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 23. apríl 2010, kl. 16.00.
Kærða er gert að vera í einangrun meðan á gæslu stendur.