Hæstiréttur íslands

Mál nr. 263/2010


Lykilorð

  • Líkamsárás


Fimmtudaginn 16. september 2010.

Nr. 263/2010.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Benediktsdóttir settur saksóknari)

gegn

Steinþóri Júlíussyni

(Brynjar Níelsson hrl.)

Líkamsárás.

S var sakfelldur fyrir að hafa slegið A í andlitið með glerglasi, með þeim afleiðingum að hann hlaut rof á vinstra auga, tap á augnvef, sjónhimnulos, opið sár á augnloki og augnsvæði, skurði á gagnauga og skurði og mar á enni. Var háttsemin talin varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við ákvörðun refsingar S var litið til 1., 2. og 3. tl. 70. gr. laganna en ekki var talið að ákvæði 3. mgr. 218. gr. b. sömu laga ætti við í málinu. Þá þótti það horfa til refsiþyngingar að ekkert hafði komið fram í málinu sem réttlætti hina fyrirvaralausu og harkalegu líkamsárás S. Á hinn bóginn hafði það einnig áhrif á ákvörðun refsingar að S hafði ekki áður hlotið refsingu fyrir hegningarlagabrot. Þegar litið var til þess hversu háskaleg atlaga S var og þess alvarlega skaða sem sannað þótti í málinu að varð á vinstra auga A, svo og þess að S hafði ekki leitast við að bæta fyrir brot sitt, þótti ekki fært að skilorðsbinda refsinguna hans að öllu leyti. Var refsing S ákveðin fangelsi í 8 mánuði, en fullnustu 6 mánaða af refsingunni frestað skilorðsbundið í þrjú ár. 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Benedikt Bogason dómstjóri.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 30. mars 2010 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist þyngingar á refsingu.

Ákærði krefst þess að refsing samkvæmt hinum áfrýjaða dómi verði milduð og skilorðsbundin.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Steinþór Júlíusson, greiði áfrýjunarkostnað málsins, samtals 257.661 krónu, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 225.900 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 3. mars 2010.

Mál þetta, sem dómtekið var 3. f.m., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 6. nóvember 2009, á hendur Steinþóri Júlíussyni, kt. 140386-2789, Efrahópi 14 í Grindavík.

Ákærða er gefin að sök sérstaklega hættuleg líkamsárás „með því að hafa, aðfaranótt laugardagsins 11. apríl 2009, á veitingastaðnum Salthúsinu við Höskuldarvelli í Grindavík, slegið A í andlitið með glerglasi, með þeim afleiðingum að hann hlaut rof á vinstra auga, tap á augnvef, sjónhimnulos, opið sár á augnloki og augnsvæði, skurði á gagnauga og skurði og mar á enni.

Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.“

Í ákærunni er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þar er jafnframt getið bótakröfu, sem A gerir á hendur ákærða. Krefst hann þess að ákærða verði gert að greiða honum skaðabætur að fjárhæð 1.805.786 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 1.666.981 krónu frá 11. apríl 2009 til 16. júlí 2009, en dráttavöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga af 1.783.476 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og að hún verði skilorðsbundin. Þá er þess aðallega krafist að bótakröfu verði vísað frá dómi, en til vara að hún sæti verulegri lækkun.

I

Ákærði hefur fyrir dómi skýlaust játað að hafa aðfaranótt laugardagsins 11. apríl 2009, á veitingastaðnum Salthúsinu í Grindavík, veist að A með þeim hætti sem lýst er í ákæru og með þeim afleiðingum sem þar greinir. Af hans hálfu hefur því á hinn bóginn verið borið við að ekki hafi verið um tilefnislausa árás að ræða og að atvik hafi verið með þeim hætti að líta verði til ákvæðis 3. mgr. 218. gr. b. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 við ákvörðun refsingar hans. Ákæruvaldið hafnar þessu og sætti málið aðalmeðferð að kröfu þess, sbr. 1. mgr. 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Tilgreining í ákæru á þeim áverkum sem A hlaut styðst við framlögð læknisvottorð. Í skýrslu Óskars Jónssonar augnlæknis fyrir dómi kom fram að A hafi nú þegar gengist undir þrjár augnaðgerðir, síðast í október 2009 þar sem augasteinn var fjarlægður. Þótt notað sé sjóngler upp á +13 búi A við mjög skerta sjón á hinu skaddaða auga. Fyrir dyrum standi ein eða tvær aðgerðir. Gangi þær að óskum megi A vænta þess að komast af með sjóngler með umtalsvert minni styrkleika. Varanleg og umtalsverð sjónskerðing verði hins vegar ekki umflúin.

Við rannsókn málsins hjá lögreglu og við meðferð þess fyrir dómi kom fram að ákærði og A voru staddir í hópi fólks á dansgólfi veitingastaðarins þá er umrætt atvik átti sér stað. Þar á meðal voru B, C, D, E og F, sem er unnusta A. Í skýrslum hjá lögreglu báru ákærði og B með hliðstæðum hætti um málsatvik og þá á þann veg að fyrst hafi A kýlt B og síðan slegið ákærða með flösku í höfuðið. Strax í kjölfar þess höggs sem ákærði hafi orðið fyrir hafi hann slegið A í andlitið með bjórglasi. Við lögreglurannsóknina voru þeir einir um þessa frásögn og einstaka þætti hennar. Fyrir liggur í málinu að bróðir B er fósturfaðir ákærða.

II

Í skýrslu sinni við aðalmeðferð málsins kvaðst ákærði hafa séð A kýla félaga sinn B. Kvaðst ákærði hafa farið að skipta sér af þessu og hann og A þá rifið hvor í annan. Skyndilega hafi hann fengið þungt högg aftarlega á höfuðið. Staðhæfði ákærði að A hafi verið þar að verki og byggði það á því að enginn annar kæmi þar til greina. Þá hafi hann síðar frétt það að A hefði slegið hann með flösku. Strax í kjölfar höggsins sem honum hafi verið veitt hafi hann svo slegið A í andlitið með glasinu. Vitnisburður B var mjög á sama veg. Þetta hafi þannig byrjað með því að A hafi kýlt hann. Hann hafi reyndar ekki séð hver það var sem var þar að verki en honum hafi síðar verið sagt að það hafi verið A. Strax eftir þetta hafi komið til deilna á milli ákærði og A og A slegið ákærða í höfuðið með flösku. Ákærði hafi svo slegið A með glasi í andlitið. Í fyrstu var B ekki viss um hvar höggið sem A á að hafa veitt ákærða lenti, en þegar borin var undir hann frásögn hans að þessu leyti við skýrslugjöf hjá lögreglu 27. apríl 2009 staðfesti hann hana, en þar er haft eftir honum að höggið hafi lent „á öðru hvoru kinnbeininu“.

Fyrir dómi skýrði A svo frá að B hafi verið með mikinn fyrirgang á dansgólfinu og hann hafi beinlínis verið háskalegur með því að hann hafi rekist utan í fólk sem þar var. Kvaðst A hafa verið að dansa við kærustu sína og sett báðar hendur út til að varna því að B rækist á hana. Allt í einu hafi verið ýtt í síðuna á honum. Við því hafi hann brugðist með því að slá frá sér og þá þannig, ef marka má lýsingu hans, að slá niður á hendur þess sem ýtt hafi við honum. Hann hafi því næst snúið sér við og að þeim sem hafi verið að ýta við honum og þá séð ákærða sem hafi umsvifalaust slegið hann. Kvaðst A ekkert tækifæri hafa haft til að verjast atlögu ákærða. Þá hafnaði A því alfarið að hafa veist að ákærða og B með einum eða öðrum hætti, hvað þá að hann hafi slegið ákærða með flösku. Hann hafi í mesta lagi ýtt við ákærða og þar hafi verið um að ræða viðbrögð af hans hálfu við því að stuggað hafi verið við honum.

F skýrði svo frá í skýrslu sinni að mikið hafi farið fyrir ákærða á dansgólfinu og hann hafi verið talsvert ölvaður. Þá hafi B verið að ýta þar við fólki og tekið því illa þegar A hafi reynt að stemma stigu við því. Ekki hafi þó komið til átaka á milli þeirra og A hafi ekki slegið B. Ákærði hafi svo komið þarna að og slegið A í andlitið með glasi. Enginn aðdragandi hafi verið að þessari árás ákærða, það er engin samskipti höfðu átt sér stað á milli hans og A áður en til hennar kom. Ákærði hafi haldið glasinu fyrir aftan bak og algerlega upp úr þurru slegið A í andlitið með því. Útilokað væri að A hafi áður slegið ákærða með flösku, hann hafi ekki haldið á glasi eða bjórflösku á þessum tíma.

C skýrði svo frá atvikum í skýrslu sinni fyrir dómi að A hafi ýtt aðeins við ákærða þar sem þeir voru staddir á dansgólfinu. Eftir þetta hafi í fyrstu virst sem ákærði hafi ætlað að hafa sig á brott. Hann hafi hins vegar skyndilega snúið sér að A og slegið hann í andlitið með glasi. Kvaðst C ekki hafa séð að átök hefðu átt sér stað í undanfara atvika samkvæmt framansögðu og sagði að hún hefði örugglega veitt þeim athygli ef til þeirra hafi komið.

Í skýrslu E kom fram að nokkur skref hafi verið á milli hennar og ákærða þá er hann sló A með glasinu. Áður en það gerðist hefðu þeir ýtt hvor við öðrum eða togað hvor í annan. Þetta hafi nánast ekkert verið.

Auk þeirra vitna sem að framan er getið kom fyrir dóm við aðalmeðferð málsins vitnið G, en hann var einn af meðlimum hljómsveitar sem lék fyrir dansi á Salthúsinu umrædda nótt og stóð á sviði veitingastaðarins þegar ákærði sló A með glasinu. Skýrði G svo frá að ekkert stórvægilegt hafi gerst áður en ákærði lamdi A með flösku eða glasi, í mesta lagi hafi verið um einhverjar stimpingar að ræða. Kvaðst hann ekki minnast þess að flösku hafi áður verið beitt og að hann hlyti að hafa séð það ef svo hafi verið. Hljómsveitin hafi hætt að spila um leið og A varð fyrir högginu, en fram að því hafi engin ástæða verið til slíkra viðbragða.

Tveir dyraverðir sem voru við störf á Salthúsinu þessa nótt, þeir H og I, gáfu skýrslu fyrir dómi. Báru þeir báðir um samtal sem þeir áttu við B stuttu eftir það atvik sem hér er til umfjöllunar, en þeir urðu ekki vitni að atvikinu sjálfu. Fram kom hjá H að B hafi sagt að A hefði rekið flösku í hann eða slegið hann með henni og að þá hafi ákærði komið þar að og slegið A með glasi. Frásögn I af því sem fram kom í samtali hans við B var hins vegar á þann veg að fyrst hafi A kýlt B, síðan hafi hann „sett“ bjórflösku í höfuðið á ákærða, sem við það hafi „sett“ glasið í andlitið á A.

III

Með játningu ákærða, sem samrýmist framlögðum sakargögnum, þar á meðal vottorðum lækna, og skýrslum vitna fyrir dómi, teljast sönnur hafa verið færðar fyrir sakargiftum á hendur ákærða samkvæmt ákæru. Er brot hans þar réttilega heimfært til 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Eitt vitni hefur svo sem fram er komið staðfest frásögn ákærða af aðdraganda þess að hann sló A með glasinu. Á milli þeirra eru náin fjölskyldutengsl. Í ljósi þessa og að virtum framburði annarra vitna, sem rakinn er í kafla II hér að framan, þykja ekki vera efni til að fallast á að atvik hafi verið með þessum hætti og að við það verði að miða að A hafi í mesta lagi stuggað lítillega við ákærða áður en ákærði sló hann og þá að gefnu tilefni. Kemur því ekki til álita að horfa til ákvæðis 3. mgr. 218. gr. b. almennra hegningarlaga þegar refsing ákærða er ákveðin.

Við ákvörðun refsingar ákærða verður vísað til 1., 2. og 3. töluliðar 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Til refsiþyngingar horfir ennfremur að ekkert er fram komið í málinu sem réttlætir hina fyrirvaralausu og harkalegu líkamsárás ákærða. Á hinn bóginn er til þess að líta að ákærði hefur ekki áður hlotið refsingu fyrir hegningarlagabrot. Þykir refsing hans að framangreindu virtu hæfilega ákveðin fangelsi í 8 mánuði. Fyrir liggur að ákærði, sem er 23 ára gamall, er nú í sambúð og á von á barni. Þegar hins vegar er litið til þess hversu háskaleg atlaga hans var og þess alvarlega skaða sem sannað er að varð á vinstra auga tjónþola, svo og þess að ákærði hefur ekki leitast við að bæta fyrir brot sitt, þykir ekki fært að skilorðsbinda refsinguna að öllu leyti. Skal fresta fullnustu 6 mánaða hennar og binda almennu skilorði eins og nánar greinir í dómsorði.

IV

Skaðabótakrafa A nemur svo sem fram er komið 1.805.786 krónum. Gerð er krafa um miskabætur að fjárhæð 1.500.000 krónur, þjáningabætur að fjárhæð 2.630 krónur og bætur vegna tapaðra vinnutekna að fjárhæð 138.790 krónur. Þá er að auki gerð krafa um greiðslu á útlögðum læknis- og lyfjakostnaði að fjárhæð 47.871 króna, svo og krafa um greiðslu á kostnaði vegna aðstoðar lögmanns við að halda bótakröfunni fram fyrir dómi, en sá kröfuliður nemur 116.495 krónum. Ákærði hefur fallist á kröfu um þjáningabætur og greiðslu á útlögðum læknis- og lyfjakostnaði. Þá er sömuleiðis á það fallist að A eigi rétt til miskabóta, en þess krafist að sá kröfuliður sæti verulegri lækkun. Kröfu vegna tapaðra vinnulauna er hins vegar alfarið hafnað.

Með vísan til framanritaðs er krafa A um þjáningabætur og bætur vegna útlagðs læknis- og lyfjakostnaðar að fullu tekin til greina. Þá á A rétt til miskabóta úr hendi ákærða á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Fyrir liggur að hann hefur nú gengist undir þrjár skurðaðgerðir vegna þess áverka sem hann hlaut í umrætt sinn og þurft að þola margvísleg önnur óþægindi vegna hans. Þykja miskabætur hæfilega ákveðnar 600.000 krónur. Kröfu um bætur vegna lögmannsþóknunar þykir í hóf stillt og verður hún því tekin til greina.

Krafa um bætur vegna tekjutaps er byggð á 2. gr. skaðabótalaga. Er því haldið fram að vegna þeirra meiðsla sem A hlaut hafi hann orðið af 7 vinnudögum í maí og 4½ vinnudegi í júní. Að mati dómsins hafa ekki verið lögð fram viðhlítandi gögn til stuðnings þessari kröfu. Um hana verður því ekki dæmt í þessu máli.

Samkvæmt framansögðu verður ákærða gert að greiða A 766.996 krónur. Um vexti fer svo sem í dómsorði greinir, en upphafleg bótakrafa að fjárhæð 1.783.476 krónur var birt ákærða 16. júní 2009.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan sakarkostnað málsins samkvæmt yfirliti sækjanda um hann og ákvörðun dómsins um málsvarnarlaun skipaðs verjanda, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Þorgeir Ingi Njálsson dómstjóri kvað upp dóm þennan.

D ó m s o r ð :

Ákærði, Steinþór Júlíusson, sæti fangelsi í 8 mánuði, en fresta skal fullnustu 6 mánaða af refsingunni og sá hluti hennar falla niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þess að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði A 766.996 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 602.630 krónum frá 11. apríl 2009 til 16. júlí 2009, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga af 744.686 krónum frá þeim degi til 3. mars 2010, en af 766.996 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði 223.450 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 188.250 krónur.