Hæstiréttur íslands
Mál nr. 30/2012
Lykilorð
- Skaðabætur
- Vinnuslys
- Líkamstjón
- Sakarskipting
- Gjafsókn
Skaðabætur. Vinnuslys. Líkamstjón. Sakarskipting. Gjafsókn.
A krafði H hf. um bætur vegna líkamstjóns er hann varð fyrir er hann féll úr tröppu við vinnu sína í kæli í einni af verslunum H hf. Í málinu lá fyrir að slysið var ekki tilkynnt til V fyrr en þremur vikum eftir að það átti sér stað og var því ekki rannsakað af eftirlitsmönnum þess. Talið var að trappa sú sem A notaði hafi ekki hentað til þess hlutverks sem henni var ætlað en A stóð ekki annað tæki til boða við verkið. Var fallist á að H hf. bæri bótaábyrgð á tjóni hans en A var látinn bera tjón sitt að hálfu leyti sjálfur þar sem hann gætti ekki þeirrar varúðar sem ætlast mátti til af honum.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. janúar 2012 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst þess aðallega að viðurkennd verði skaðabótaskylda gagnáfrýjanda vegna líkamstjóns sem aðaláfrýjandi varð fyrir í starfi sínu hjá gagnáfrýjanda í versluninni Hagkaup í […] 12. desember 2002. Til vara krefst hann staðfestingar hins áfrýjaða dóms. Í báðum tilvikum krefst aðaláfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt vegna reksturs málsins fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 12. mars 2012. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu aðaláfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst gagnáfrýjandi þess að hann verði aðeins talinn skaðabótaskyldur að hluta vegna slyss aðaláfrýjanda og málskostnaður verði látinn niður falla.
Aðaláfrýjandi hefur stefnt Sjóvá-Almennum tryggingum hf. til réttargæslu fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Samkvæmt 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þykir rétt að hvor málsaðila beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti. Gjafsóknarkostnaður aðaláfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður aðaláfrýjanda, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 500.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. september 2011.
I
Mál þetta, sem dómtekið var föstudaginn 2. september sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af A, kt. […], […], með stefnu, birtri 15. nóvember 2010, á hendur Högum hf., kt. […], […].
Dómkröfur stefnanda eru þær, að viðurkennd verði með dómi skaðabótaskylda stefnda úr ábyrgðartryggingu vegna líkamstjóns stefnanda sökum slyss, sem stefnandi varð fyrir í starfi hjá Hagkaupum, kt. […], þann 12. desember 2002, í […]. Þá er krafizt málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda samkvæmt málskostnaðarreikningi, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, ásamt virðisaukaskatti.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að félagið verði sýknað af kröfum stefnanda og stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins. Til vara krefst stefndi þess, að félagið verði aðeins talið skaðabótaskylt að hluta vegna þess slyss, sem stefnandi lenti í þann 12. desember 2002, og málskostnaður verði felldur niður.
II
Málavextir
Stefnandi var starfsmaður Hagkaupa í […], lengst af sem aðstoðarmaður […], en hann hóf þar störf hinn 1. apríl 2002. Kveður hann starf sitt m.a. hafa falizt í því að fylla á kjötvörur af lager og leysa kjötiðnaðarmann af við að panta vörur. Þann 12. desember 2002 kveðst hann hafa þurft að ná í pappakassa, sem voru staðsettir ofan á kælisamstæðu í tveggja metra hæð. Pappakassana hafi átt að nota til að skrifa út kjöt af afgreiðsluborðinu og setja það í kassana, sem hafi síðan farið í kæli. Til þess að fara upp á kælinn hafi stefnandi notað frístandandi stiga (tröppu), sem hafi verið töluvert lægri en 2 metrar. Þessi trappa hafi verið mikið notuð og slitin. Efst á henni hafi verið plata og tröppur öðrum megin. Trappan hafi staðið á tveimur örmum og á öðrum þeirra hafi verið hjól en á hinum gúmmí, og hafi gúmmíið verið orðið lélegt vegna mikillar notkunar stigans. Er stefnandi var að fara niður af kælinum, hafi hann stigið öðrum fæti á plötuna efst á tröppunni og ætlað með hinn fótinn á plötuna líka, þegar stiginn hafi runnið undan honum með þeim afleiðingum, að stefnandi féll niður á gólf og lenti á sitjanda. Á þessum stað á vinnustaðnum hafi oft myndazt mikill raki, sökum þess, að kalt loft hafi leitað út úr kælinum og frysti við hliðina. Gólfið hafi því oft verið rakt og þar af leiðandi hált.
Samkvæmt stefnu kveðst stefnandi hafa legið á gólfinu í hálftíma, áður en samstarfsmenn hans komu á vettvang. Hann hafi slasazt á baki, höndum og fótum. Sama kvöld hafi hann leitað til Slysadeildar Háskólasjúkrahúss í Fossvogi og kvartað þá aðallega undan verkjum í sitjanda og neðst í baki. Einnig hafi hann kvartað um verki, sem leiddu niður í hægra læri. Hafi hann verið með talsvert mar á hægri olnboga. Fjórum dögum seinna hafi hann aftur leitað á slysadeild og kvartað þá undan vaxandi óþægindum í brjóstbaki og hálsi og verkjum undir rifjabarði hægra megin. Jafnframt hafi hann sagzt eiga erfitt með svefn, m.a. vegna óþæginda í hálsi.
Stefnandi leitaði til B læknis, sérfræðings í krabbameins- og heimilislækningum, og fól honum að meta afleiðingar slyssins. Er matsgerð hans dagsett 24. september 2004. Kemur fram í niðurstöðu matsgerðar, að skoðun á stefnanda hafi leitt í ljós hreyfiskerðingu í lendhrygg og eymsli við þreifingu, auk þess sem stefnandi hafi kvartað undan sársauka í endastöðu hreyfinga. Greindi matsmaðurinn stefnanda með „tognunaráverka á lendhrygg með hreyfiskerðingu og verkjum, sem valdi tjónþola nokkurri skerðingu á almennri færni og lífsgæðum“. Taldi matsmaður eðlilegt, að stefnandi hefði verið frá vinnu í þrjá mánuði og varanleg læknisfræðileg örorka var metin 7%.
Stefnandi kveðst eiga erfitt með að bera þunga hluti, bogra og fara í skemmri og lengri göngur. Þá fái hann einnig stingverki í brjóstkassa.
Stefnandi kveður þáverandi vinnuveitanda sinn, Hagkaup, hafa verið með slysatryggingu launþega og ábyrgðartryggingu í gildi hjá stefnda, þegar slysið varð. (Hér mun vera átt við réttargæzlustefnda). Hafi félagið hafnað bótaskyldu úr ábyrgðartryggingu og Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum hafi staðfest þá niðurstöðu.
Stefndi kveður stefnanda lengst af hafa starfað sem aðstoðarmaður […] í Hagkaupum í […], en þann 12. desember 2002 muni honum þó hafa verið falið að vinna á mjólkurtorgi.
Stefnandi skaut málinu til Úrskurðarnefndar í vátryggingamálum með bréfi, dags. 17. apríl 2007 og krafðist bóta úr frjálsri ábyrgðartryggingu Hagkaupa á þeim grundvelli, að aðstaða til að geyma pappakassa hafi verið vanbúin, leiðin þangað verið ólögleg og stiginn, sem notaður hafi verið, hafi ekki verið löglegur miðað við aðstæður. Úrskurðarnefndin komst að þeirri niðurstöðu, að ekki hefði verið sýnt fram á sök, sem leitt gæti til bótaskyldu vinnuveitanda og ætti stefnandi þegar af þeim sökum ekki rétt á bótum úr umræddri vátryggingu.
III
Málsástæður stefnanda
Stefnandi
byggir kröfur sínar á því, að vinnuaðstaðan, sem honum hafi verið búin, hafi
verið ófullnægjandi og ekki í samræmi við fyrirmæli laga nr. 46/1980 um
aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Til dæmis hafi verið
nauðsynlegt að hafa fastan stiga í stað hættulegrar og óhentugrar tröppu, sem
hafi þar að auki verið á hjólum. Trappan hafi þannig ekki fullnægt því
hlutverki, sem hún hafi verið notuð til og hafi verið stórhættuleg, einkum með
tilliti til rakans á gólfinu. Þá sjáist greinilega af ljósmyndum, að trappan sé
allt of stutt til verksins. Ekkert annað og hentugra tæki hafi verið fyrir
hendi fyrir starfsmenn.
Samkvæmt
13. gr. laga nr. 46/1980 skuli atvinnurekandi tryggja, að gætt sé fyllsta
öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta á vinnustað. Í 37. gr. sömu laga,
sbr. einnig 42. gr., segi, að vinnu skuli haga og framkvæma þannig, að gætt sé
fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta. Fylgja skuli viðurkenndum
stöðlum, ákvæðum laga og reglugerða, svo og fyrirmælum Vinnueftirlits ríkisins,
að því er varði aðbúnað, hollustuhætti og öryggi. Verði því að telja, að
vinnuveitanda stefnanda hafi borið skylda til að gera starfsmönnum sínum ljósa
slysahættu vegna starfs þeirra, sbr. 14. gr. laganna. Atvinnurekandi skuli að
auki sjá um, að starfsmenn fái nauðsynlega kennslu og þjálfun í að framkvæma
störf sín á þann hátt, að ekki stafi hætta af. Þá sé kveðið á um það í 46. gr.
laganna, að áhöld og tæki og annar búnaður skuli þannig úr garði gerður, að
gætt sé fyllsta öryggis.
Engin
verkstjórn hafi verið við verkið, en vinnuveitanda hafi borið að tryggja, að
eftirlit væri með starfsmönnum við vinnu. Verkstjóri beri einnig mikilvægar
skyldur samkvæmt lögum nr. 46/1980. Samkvæmt 21. gr. laganna sé verkstjóri
fulltrúi atvinnurekanda og beri honum að sjá til þess, að allur búnaður sé
góður og öruggt skipulag sé ríkjandi á þeim vinnustað, sem hann hafi umsjón
með. Í 1. mgr. 23. gr. sé einnig kveðið á um, að verkstjóri skuli beita sér
fyrir því, að starfsskilyrði innan þess starfssviðs, sem hann stjórni, séu
fullnægjandi, að því er varði aðbúnað, hollustuhætti og öryggi. Hann skuli sjá
um, að þeim ráðstöfunum, sem gerðar séu til þess að auka öryggi og bæta aðbúnað
og hollustuhætti, sé framfylgt. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar skuli verkstjóri
jafnframt tryggja, að hættu sé afstýrt, verði hann var við einhver þau atriði,
sem leitt geti til hættu á slysum eða sjúkdómum. Ekki verði betur séð en að
verkstjóri á vettvangi hafi einnig með öllu brugðizt þeim skyldum, sem á honum
hafi hvílt samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum laga nr. 46/1980.
Stefnandi
telji, að slysið megi rekja til vanbúnaðar á vinnustað og þar með saknæmrar
háttsemi yfirmanna Hagkaupa, auk þess sem verkstjórn hafi verið áfátt. Hlutum
hafi verið komið fyrir uppi á kæli í mikilli hæð. Kælirinn hafi ekki verið
forsvaranlegur staður fyrir geymslu, enda hafi skort fastan stiga, handrið og
nægilega lofthæð. Óforsvaranlegt hafi verið af forsvarsmönnum vinnuveitanda
stefnanda að fela honum að vinna verkið með þeirri tröppu, sem honum hafi verið
fengin, en stefnandi telji, að hún hafi með engum hætti verið boðleg til þeirra
nota, sem henni hafi verið ætluð. Meðal annars hafi hún verið á hjólum öðrum
megin og með lélegu gúmmíi hinum megin, og því hafi ekki þurft mikið átak til
þess að trappan rynni. Hafi átt að nota kælinn sem geymslu, hefði þurft að vera
stigi, sem unnt hefði verið að festa við kælinn. Hvað sem því líði hefði þurft
að útvega stefnanda stiga eða tröppu, sem ekki hafi verið hætta á að rynni til
á sleipu gólfi. Unnt hefði verið að koma í veg fyrir slysið með því að útvega
stefnanda stiga, sem hentaði til verksins. Sé á því byggt, að vinnuveitandi
stefnanda beri ábyrgð á þeirri ákvörðun yfirmanna stefnanda að nota loftið á
kælinum sem geymslu, á útbúnaði stigans og skorti á verkstjórn við verkið.
Orsök
slyssins sé umfram allt sú, að trappan hafi verið of stutt og óstöðug, og hafi
þ.a.l. ekki hentað til verksins, en hún hafi ekki verið með þeim búnaði, sem
hefði getað komið í veg fyrir, að hún rynni til. Til dæmis hefði þurft að hafa
á henni búnað til að festa hana við brúnina á kælinum. Stefnandi hafi engan
annan kost haft en að nota tröppuna, vegna þess að þetta hafi verið eina
áhaldið, sem honum hafi staðið til boða.
Í 5. gr. reglugerðar nr. 367/2006 um notkun
tækja segi:
Atvinnurekandi skal gera nauðsynlegar
ráðstafanir til að tryggja að tæki sem starfsmönnum er ætlað að nota innan
fyrirtækisins hæfi verkinu sem inna skal af hendi eða sé hæfilega lagað að
verkinu, þannig að starfsmenn geti notað tækið án þess að öryggi þeirra eða
heilsu sé hætta búin.
Við val á tæki skal atvinnurekandi hafa til
hliðsjónar þau sérstöku vinnuskilyrði, aðstæður og áhættu sem fyrir hendi er
innan vinnustaðar, þar á meðal áhættu á vinnusvæði og þá áhættu sem notkun
viðkomandi tækis hefur í för með sér.
Þegar ekki er að fullu unnt að tryggja að
starfsmenn geti notað tæki án þess að öryggi og heilsu þeirra sé hætta búin,
skal atvinnurekandi gera nauðsynlegar ráðstafanir til að draga úr áhættunni
eins og kostur er.
Í grein 2.6. I. viðauka reglugerðarinnar segi
þar að auki:
Þegar öryggi og heilbrigði starfsmanna krefst
þess skal tryggja stöðugleika tækja eða hluta þeirra með festingum eða á annan
viðeigandi hátt.
Stefnandi
vísi til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 21. marz 2006 í máli nr. E-3580/2005,
þar sem […] hafi verið starfsmaður Hagkaupa í Kringlunni. Hann hafi staðið í
álstiga við kæliklefa í u.þ.b. tveggja metra hæð og hafi verið að leiðbeina
samstarfsmanni sínum. Álstiginn hafi hins vegar fallið skyndilega, og […] hafi
fallið á gólfið. Málsatvik í þessum dómi séu sambærileg tilviki stefnanda. Í
þessum dómi hafi verið fallizt á helmingsbótaskyldu.
Slys stefnanda hafi verið tilkynnt til Vinnueftirlits ríkisins u.þ.b. mánuði síðar, þannig að engin rannsókn hafi farið fram af hálfu eftirlitsins. Vinnuveitanda hafi borið skylda til að hlutast til um að framkvæmd væri rannsókn á atvikum slyssins. Verði að telja þessa vanrækslu á tilkynningarskyldu afar ámælisverða. Sinnuleysi gagnvart lögbundinni tilkynningarskyldu hafi því komið í veg fyrir, að Vinnueftirlit ríkisins eða lögregla könnuðu tildrög slyssins. Hafi slíkt hlotið að vera afar mikilvægt í ljósi þess, hvernig slysið atvikaðist, þ.e. vegna vanbúnaðar á vinnustað og þess, að um gæti verið að ræða slysagildru fyrir fleiri starfsmenn á vinnustaðnum. Í samræmi við dómafordæmi Hæstaréttar, sbr. t.d. dóm í máli nr. 272/2008 og máli nr. 481/2008, beri vinnuveitandi halla af skorti á sönnun um málsatvik, sem telja verði að leiða hefði mátt í ljós við rannsókn Vinnueftirlits ríkisins eða lögreglu. Í þessu sambandi beri til þess að líta, að Vinnueftirliti ríkisins sé ætlað að rannsaka orsakir slysa, sbr. 81. gr. laga nr. 46/1980, með síðari breytingum. Þar sem engin tilkynning hafi borizt stofnuninni, þrátt fyrir lagaskyldu, sbr. 79. gr. sömu laga, hafi engin slík rannsókn farið fram. Til hliðsjónar megi nefna eftirfarandi ummæli Hæstaréttar í Hrd. frá 5. febrúar 2009, í máli nr. 272/2008:
Fallist er á það með héraðsdómi að þar sem engin rannsókn fór fram af hálfu Vinnueftirlits ríkisins, sökum þess að stefndi lét hjá líða að tilkynna eftirlitinu um slysið, verði frásögn áfrýjanda af atvikum lögð til grundvallar sem og þær upplýsingar sem liggja fyrir í málinu.
Sé það því alfarið á ábyrgð vinnuveitanda að tilkynna viðkomandi yfirvöldum, þegar slys beri að höndum á vinnustað, og beri vinnuveitandi stefnanda allan halla af því, að slysið hafi ekki verið rannsakað. Í 79. gr. laga nr. 46/1980 komi skýrlega fram, að atvinnurekandi skuli án ástæðulausrar tafar tilkynna til Vinnueftirlits ríkisins öll slys, þar sem starfsmaður deyi eða verði óvinnufær í einn eða fleiri daga.
Af framangreindu telji stefnandi ljóst, að atvinnurekandi hans hafi vanrækt þær skyldur, sem á honum hvíli varðandi öryggi á vinnustöðum. Sé um afar skýr brot á framangreindum hátternisreglum að ræða, enda hafi verið viðhöfð saknæm háttsemi, bæði af vinnuveitanda sjálfum og verkstjóra. Á grundvelli hinnar ólögfestu meginreglu íslenzks skaðabótaréttar um vinnuveitandaábyrgð telji stefnandi, að um sé að ræða bótaskylda háttsemi, og því eigi hann rétt á greiðslu úr frjálsri ábyrgðartryggingu Hagkaupa.
Afleiðingar slyssins, þ.e. tjón stefnanda hafi verið staðfest með matsgerð læknis.
Kröfur stefnanda styðjist við skaðabótalög nr. 50/1993 með síðari breytingum og almennar ólögfestar reglur íslenzks réttar um skaðabætur, þ.á.m. sakarregluna og regluna um vinnuveitandaábyrgð. Einnig vísi stefnandi, kröfum sínum til stuðnings, til laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglugerðar nr. 367/2006 um notkun tækja. Um heimild til að leita viðurkenningardóms vísist til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um málskostnað sé vísað til XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr. þeirra. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili skv. lögum nr. 50/1988 og beri því nauðsyn til, að tekið verði tillit til skattsins við ákvörðun málskostnaðar.
Um aðild
vísar stefnandi til þess, að hann hafi verið launþegi hjá Hagkaupum, kt. […], […],
en um sé að ræða einkafirma, sem nú sé í eigu stefnda, Haga hf. Einkafirmað
Hagkaup njóti sem slíkt ekki aðildarhæfis, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr.
91/1991 um meðferð einkamála, og af þeim sökum sé aðildinni þannig háttað, að
Högum hf. sé stefnt, sbr. til hliðsjónar Hrd. frá 19. desember 2006 í máli nr.
269/2006. Hagkaup séu eitt þeirra félaga, sem séu í eigu Haga og séu þau rekin
sem sjálfstæð eining.
Málsástæður stefnda
Aðalkrafa um sýknu
Stefndi byggir sýknukröfu sína annars vegar á því, að ósannað sé, að tjón stefnanda megi rekja til saknæmrar háttsemi stefnda eða starfsmanna hans eða annarra atvika sem stefndi beri skaðabótaábyrgð á að lögum, og hins vegar á því, að stefnandi verði að bera tjón sitt að fullu sjálfur vegna eigin sakar.
Stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir orsök tjóns síns, en
hann hafi ekki sannað, að tjónið megi rekja til atvika, sem stefndi ber
skaðabótaábyrgð á að lögum. Um ábyrgð stefnda fari samkvæmt sakarreglu
skaðabótaréttar, ásamt reglunni um vinnuveitandaábyrgð. Stefndi byggir á því,
að slysið verði ekki rakið til ófullnægjandi vinnuaðstöðu stefnanda, gáleysis stjórnenda
Hagkaupa eða brots á þeim skyldum, sem á félaginu hvíli samkvæmt lögum nr.
46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglum, sem settar
séu með stoð í þeim lögum.
Stefndi telji fyrir það fyrsta
verulegan vafa leika á, að slysið hafi borið að með þeim hætti, sem stefnandi
lýsi. Stefnandi hafi verið að vinna á mjólkurtorgi umræddan dag en ekki á
kjötborði, sbr. dskj. nr. 16. Það hafi því ekki verið hans hlutverk að sækja
kassa undir kjöt, og yfirmenn hans kannist ekki við að hafa beðið hann um að
sækja þá umrætt kvöld. Kjötpantanir hafi auk þess verið afgreiddar að morgni
til en ekki að kvöldi. Því verði ekki séð, að stefnandi hafi, starfs sín vegna,
átt erindi upp á kælinn. Hafi hann samt sem áður af einhverjum ástæðum þurft að
sækja þangað kassa, sé ólíklegt, að honum hafi borið nokkur nauðsyn til að fara
alla leið upp á kælinn. Alla jafna sé, og hafi verið, hægt að teygja sig úr
stiganum eftir þeim kössum, sem séu uppi á kælinum. Hafi stefnandi allt að einu
farið upp á kælinn, sé vandséð, að stiginn hefði getað skroppið frá honum með
þeim hætti, sem hann lýsi. Stiginn sé nokkuð fyrirferðarmikill, og alla jafna
hafi vörubretti verið staðsett gegnt þeim stað, þar sem stiganum hafi verið
komið fyrir við kælinn. Stiginn hefði því vart getað runnið lengra frá kælinum
en að brettunum. Stefnandi hefði þá tæplega getað fallið beint á gólfið, heldur
hefði stiginn væntanlega verið fyrir og stefnandi lent á honum, sjá m.a. dskj.
nr. 16. Þá sé nánast útilokað, að stefnandi hefði getað legið í hálftíma á
gólfinu, án þess að aðrir starfsmenn yrðu hans varir, en 14 starfsmenn hafi
verið á vakt umrætt kvöld, sbr. dskj. nr. 16. Kælirinn sé þannig staðsettur, að
starfsmenn þurfi iðulega að ganga fram hjá honum vegna starfa sinna, svo þar sé
nánast stöðugur umgangur.
Í tilkynningum stefnda til
Vinnueftirlits ríkisins, dskj. nr. 3, Tryggingastofnunar ríkisins, dskj. nr. 4,
og réttargæslustefnda, dskj. nr. 5 og 17, komi fram varðandi atvikalýsingu, að
þar sé um að ræða endursögn á frásögn stefnanda af atvikinu, samanber orðin „að
hans sögn“ og „að eigin sögn“. Tilkynningarnar feli því ekki með neinum hætti í
sér viðurkenningu stefnda að atvikalýsingunum, sem þar komi fram.
Tekið skuli fram, að stefndi hafi
tilkynnt Vinnueftirliti ríkisins um slysið með bréfi, dags. 2. janúar 2003,
dskj. nr. 3. Þar sé atvikinu lýst svo:
„Að hans sögn féll hann úr tröppum í grænmetisgangi. Engin vitni að óhappinu og
tilkynnti óhappið klukkutíma eftir að það átti sér stað.“ Af hálfu stefnda hafi þannig strax
verið settir skýrir fyrirvarar við atvikalýsinguna. Stefnandi byggi
málatilbúnað sinn m.a. á því, að engin tilkynning hafi borist Vinnueftirlitinu
„þrátt fyrir lagaskyldu, sbr. 79. gr.“ laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi
á vinnustöðum, nr. 46/1980. Því sé hafnað, að stefndi hafi brugðizt þeirri
lagaskyldu, enda hafi ákvæði 79. gr. laganna ekki tekið gildi fyrr en 15. marz
2003, sbr. 37. gr. laga nr. 68/2003, en byggt sé á því, að slysið hafi átt sér
stað 12. desember 2002. Hafi stefndi samt sem áður brugðizt skyldum sínum,
samkvæmt þágildandi ákvæðum laga nr. 46/1980 og reglum settum með stoð í þeim,
byggi stefndi á því, að atvik máls þessa séu allt að einu nægilega upplýst til
að unnt sé að slá því föstu, að slys stefnanda verði ekki rakið til sakar af
hálfu stefnda. Hér skuli einnig á það bent, að yfirmenn stefnanda hafi vart
haft ástæðu til að ætla, að slysið hefði valdið honum langvinnu eða varanlegu
heilsutjóni. Læknarnir, sem skoðuðu stefnda, virðist heldur ekki hafa litið svo
á, samanber læknisvottorð C, dskj. nr. 6, dags. 14. desember 2003, sem byggt sé
á sjúkraskýrslum Slysa- og bráðadeildar LSH í Fossvogi, en þar segi meðal
annars: „Öll þessi einkenni ættu að hafa jafnað sig á örfáum vikum og er það
ekki [svo] útlit fyrir varanleg óþægindi eða mein af völdum áverkans.“
Hafi stefnandi samt sem áður orðið
fyrir því slysi, sem hann haldi fram, og tjón hans sé að rekja til þess, sé því
alfarið hafnað, að stefndi beri skaðabótaábyrgð á tjóninu.
Stefnandi
byggi á því, að stefndi beri ábyrgð á tjóni stefnanda af þremur ástæðum. Í
fyrsta lagi á því, að óforsvaranlegt hafi verið að nota loftið á kælinum sem
geymslu, í öðru lagi vegna vanbúnaðar umrædds stiga og í þriðja lagi vegna
skorts á verkstjórn við verkið. Stefndi mótmæli þessum málsástæðum alfarið með
eftirfarandi rökum.
Kælirinn
Stefndi mótmæli því, að loft kælisins
hafi verið óforsvaranleg geymsla, en þar hafi verið geymdir hlutir, sem sjaldan
hafi verið notaðir. Hvergi sé að finna í lögum eða reglum bann við því, að
hlutir séu geymdir á stöðum, sem séu í nokkurri hæð, enda t.d. alsiða í
lagerhúsnæði að koma hlutum fyrir hátt uppi í því skyni að ná fram betri
nýtingu á geymslurými. Þá sé hvergi í reglum kveðið á um skyldu til að hafa í
slíkum tilvikum fasta stiga eða handrið. Þá hafi stefndi með engum hætti sýnt
fram á orsakasamband milli slyssins og lágrar lofthæðar uppi á kælinum. Stefndi mótmæli því öllum málsástæðum
stefnanda, sem byggist á því, að kælirinn hafi verið óforsvaranlegur geymslustaður.
Meintur vanbúnaður stigans
Stefndi mótmæli því, að nauðsynlegt
hafi verið að hafa fastan stiga og handrið, eða stiga, sem unnt hefði verið að
festa við kælinn. Byggi stefndi á því, að öryggi hafi verið nægilega tryggt með
því að nota stóran og stöðugan A-stiga til að komast upp á loftið. Ekkert sé
fram komið um, að nokkuð hafi verið að stiganum.
Þá sé því sérstaklega mótmælt, að
trappan hafi verið óstöðug eða of stutt. Í umsögn Vinnueftirlits ríkisins,
dags. 7. nóvember 2006, sbr. dskj. nr. 9, sé ekki að finna neinar vísbendingar
um, að stiginn hafi á nokkurn hátt verið vanbúinn. Þar sé vísað í tiltekin
ákvæði í leiðbeiningum um vinnuvernd, útgefnum af Vinnueftirlitinu, nr. 1.
1991, þar sem segi m.a. um notkun A-tröppu: „-Ekki skal fara hærra upp í tröppu
en svo að ávallt sé nægur stuðningur við hné nema trappan sé sérstaklega hönnuð
fyrir notkun í efsta þrepi. –Velja tröppu sem hæfir því verki sem á að
vinna.“ Sú trappa, sem hér um ræði, sé
hönnuð fyrir notkun í efsta þrepi. Enga nauðsyn hafi þó borið til að fara upp í
efsta þrepið til að teygja sig eftir kössum ofan af kælinum eða til að komast
úr stiganum upp á kælinn. Næstefsta þrep stigans sé í raun pallur, sem hannaður
sé til að standa á. Sé staðið þar, sé nægur stuðningur fyrir hné, auk þess sem
hægt sé að styðja sig með höndum við handrið stigans. Sé stiginn reistur við
kælinn, sé einnig hægt að styðja sig með höndum við brún kælisins og stíga svo
úr stiganum upp á kælinn. Stiginn sé stöðugur, þegar hann
stendur á gólfi og staðið sé í honum. Því beri enga nauðsyn til að hafa á honum
búnað til að festa við kælinn, enda tíðkist almennt ekki að hafa á A-stigum
búnað til að festa við þann stað, sem komast á upp á eða að. Ætti fullyrðing
stefnanda um nauðsyn slíks búnaðar við rök að styðjast, væru líklega flestir
A-stigar vanbúnir og ónothæfir til þeirra verka, sem þeir séu notaðir við. Eðli
málsins samkvæmt séu slíkir stigar alla jafna notaðir við hin ýmsu verk og til
að komast að stöðum, sem séu í mismikilli hæð. Því verði ekki séð, að raunhæft sé
að hafa á þeim búnað til að festa við brúnir þeirra staða, sem þeir séu reistir
við. Engar reglur kveði heldur á um skyldu til slíks.
Stefnandi haldi því fram, að trappan
hafi verið á hjólum öðrum megin og með lélegu gúmmíi hinum megin, og því hafi
ekki þurft mikið átak til að trappan rynni. Stefndi mótmæli því. Stiginn sé
þannig útbúinn, að á honum séu hjól í þeim tilgangi að hægt sé að renna honum
eftir gólfi, þegar enginn stendur í honum. Þegar stigið sé upp í stigann, gefi
hjólabúnaðurinn hins vegar eftir svo fætur stigans nemi við gólf og hann standi
á fjórum fótum. Stiginn hafi verið keyptur nýr til stefnanda árið 2000. Hann sé
með upprunalegu gúmmíi á fótum, og það sé enn í góðu lagi, þegar greinargerð er
rituð. Stefndi mótmæli því þeirri fullyrðingu stefnanda sem fjarstæðukenndri,
að gúmmíin hafi verið það léleg í desember árið 2002, að stiginn hafi af þeim
sökum verið óstöðugri en ella.
Í málatilbúnaði sínum vísi stefnandi
til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. 3580/2005, þar sem fallizt hafi verið
á helmingsbótaskyldu Hagkaupa vegna falls tjónþola úr álstiga. Stefnandi haldi
því fram, að málsatvik í þeim dómi séu sambærileg við tilvik hans. Stefndi
mótmæli því alfarið, að málsatvikin séu sambærileg. Í því tilviki, sem var til
úrlausnar í dómnum, hafi verið notazt við lausan stiga, en ekki A-stiga, en
A-stigar séu jafnan taldir öruggari og stöðugri. Auk þess hafi Vinnueftirlitið
í því tilviki gert verulegar athugasemdir við stigann, sem þar hafi verið
notaður og slegið því raunar föstu, að orsök slyssins hefði verið sú, að
„stiginn hentaði ekki til verksins (of stuttur) og var ekki með þeim búnaði sem
komið hefði í veg fyrir að hann rann til“. Engar sambærilegar athugasemdir sé
að finna í umsögn vinnueftirlitsins um það atvik, sem hér sé til umfjöllunar.
Málsatvik séu því öldungis ósambærileg.
Stefndi mótmæli því öllum málsástæðum
stefnanda, sem byggist á því, að stiginn hafi með einhverjum hætti verið
vanbúinn.
Meintur skortur á verkstjórn eða leiðbeiningum
Stefnandi
haldi því fram, að slysið megi með einhverjum hætti rekja til þess, að
verkstjóri hafi brugðizt þeim skyldum, sem á honum hafi hvílt samkvæmt lögum um
aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980. Þó skorti á
rökstuðning stefnanda um, hvað skort hafi á verkstjórnina, og að hann bendi á,
með hvaða hætti önnur verkstjórn hefði getað afstýrt slysinu. Varnir gegn
þessum málsástæðum hljóti því að einhverju leyti að byggjast á ágizkunum um,
hvað stefnandi eigi við.
Stefnandi
virðist ekki byggja á því, að yfirmönnum hafi láðst að kenna stefnanda að nota
þann stiga, sem um ræði. Hér verði einnig að hafa í huga, að stigar sem þessi
séu einfaldir í notkun og flestum ljóst, hvernig henni skuli haga. Stefnanda
hafi heldur ekki getað dulizt, að þar sem stiginn væri á hjólum, gæti hann
runnið til, og því þyrfti að sýna aðgát, ef stigið væri niður í hann úr mikilli
hæð. Í því samhengi skuli einnig ítrekað, að almennt hafi enga nauðsyn borið
til að stíga úr stiganum upp á kælinn, heldur hafi nægt að teygja sig úr
næstefsta þrepi stigans í þá kassa, sem voru uppi á kælinum. Það hafi því alls
ekki verið venjulegur hluti af starfsskyldum stefnanda að fara upp á kælinn.
Því hafi yfirmenn hjá stefnda ekki haft sérstaka ástæðu til að veita
leiðbeiningar um slíkt. Þá hafi stefnanda að sjálfsögðu verið í lófa lagið að
afla sér leiðbeininga þar um, ef óvænt hafi komið upp sú staða, að fara þyrfti
alla leið upp á kælinn.
Skilja
megi málatilbúnað stefnanda svo, að hann byggi á því, að yfirmenn hefðu átt að
veita honum tilsögn samtímis því, sem hann fór um stigann upp á kælinn. Um það
sé í fyrsta lagi það að segja, að stefnandi hafi ekki verið sendur upp á kælinn
af yfirmönnum sínum og ekkert liggi fyrir um, að þeim hafi verið kunnugt um, að
hann ætlaði sér þangað upp. Þeir hafi því engan kost átt á að mæta inn að
kælinum til að veita stefnanda leiðbeiningar. Auk þess blasi við, að ekki sé
tækt að skýra lagaákvæði um skyldur verkstjóra svo rúmt að ætlast sé til, að
þeir fylgist á hverjum tíma með sérhverju verki starfsmanna sinna til að stýra
framkvæmd þeirra.
Stefnandi virðist byggja á því, að stefndi hafi brugðizt skyldu sinni til að gera starfsmönnum ljósa slysahættu við starfið, auk skyldu til að sjá til þess, að starfsmenn fengju nauðsynlega kennslu og þjálfun í að framkvæma störf sín á þann hátt, að ekki stafaði hætta af. Stefndi mótmæli öllum slíkum fullyrðingum sem ósönnuðum. Ekkert liggi fyrir um, að leiðbeiningum um slysahættu hafi verið áfátt. Þá verði að ætla, að öllum sé ljós sú hætta, sem fylgi því að falla úr mikilli hæð niður á steingólf, hvort sem sé úr stiga eða með öðrum hætti. Þá liggi heldur ekkert fyrir um, að skort hafi á kennslu og þjálfun varðandi notkun stigans eða starfið að öðru leyti. Í því sambandi skuli einnig áréttað, að sá stigi, sem um ræði, sé einfaldur í notkun, svo ekki virðist vera þörf á ítarlegum leiðbeiningum eða þjálfun í notkun hans, a.m.k. ef sú notkun sé einskorðuð við þau verk, sem ætlazt sé til.
Ekkert
liggi fyrir um, að stefndi hafi vanrækt leiðbeiningarskyldu eða að tjón
stefnanda megi rekja til slíks. Hér sé einnig rétt að líta til þess, að notkun
A-stiga sé í eðli sínu einföld. Þegar um einföld verk sé að ræða, sé takmörkuð
þörf á leiðbeiningum og verkstjórn. Enn fremur virðist ekki hafa verið hluti af
starfsskyldum stefnanda að fara upp á kælinn og sækja kassa í umrætt sinn.
Stefndi mótmæli því öllum málsástæðum
stefnanda, sem byggist á, að skort hafi á verkstjórn eða leiðbeiningar.
Að öllu
framangreindu virtu sé því harðlega mótmælt, að stefndi geti borið
skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda. Einfaldlega hafi verið um óhappatilviljun að
ræða, sem stefndi geti ekki borið ábyrgð á.
Eigin sök stefnanda.
Telji héraðsdómur, að ekki hafi verið um óhappatilviljun að ræða, byggi stefndi á því, að stefnandi verði sjálfur að bera fulla ábyrgð á tjóni sínu vegna eigin sakar. Hafi röksemdir því til stuðnings verið raktar hér að framan, en rétt sé að árétta nokkur atriði.
Stefnandi hafi verið að vinna á mjólkurtorgi þann dag, sem slysið varð, og það hafi því ekki verið í hans verkahring að sækja kassa upp á kælinn til að nota fyrir kjöt. Hann virðist ekki hafa verið sendur þangað af yfirmönnum sínum, heldur ákveðið sjálfur að sækja þangað kassa. Það hafi heldur ekki verið hluti af starfskyldum stefnanda, eða annarra starfsmanna verzlunarinnar, að fara upp á kælinn. Stefnandi virðist hafa ákveðið það upp á sitt eindæmi. Stefnanda hljóti að hafa verið ljóst, að það gæti væri óvarlegt að fara úr stiganum upp á kælinn og ætla síðan sömu leið til baka. Honum hafi því borið að sýna fulla aðgát. Stefnanda hafi einnig hlotið að vera ljóst, að þar sem stiginn var á hjólum, sem hafi einungis gefið eftir, ef staðið var í stiganum, gæti stiginn verið óstöðugur, meðan enginn stóð í honum. Af þeirri ástæðu hafi honum borið að sýna sérstaka aðgát, þegar hann steig ofan af kælinum og niður á stigann. Vitandi um það, hefði honum einnig verið í lófa lagið að kalla til aðstoð, svo sem til að styðja við stigann, þegar honum varð ljóst að hann þyrfti að fara alla leið upp á kælinn til að sækja kassana, en næði ekki til þeirra úr tröppunni.
Enn fremur hefði stefnanda verið í lófa lagið að gera athugasemdir við stigann, hafi hann talið, að hann væri í ólagi eða á einhvern hátt vanbúinn. Einnig hefði hann getað þurrkað upp bleytu af gólfinu, hafi hann orðið hennar var eða talið, að búast mætti við henni.
Loks skuli á það bent, að samkvæmt atvikalýsingum stefnanda í málskoti sínu til Úrskurðarnefndar í vátryggingamálum, dskj. nr. 20, hafi hann setið uppi á kælisamstæðunni og rennt sér þaðan út á pall stigans. Við blasi, að sú aðferð sé stórhættuleg, burtséð frá því, hvernig stiginn sé útbúinn. Telja verði, að stefnandi hafi með þessari aðferð sýnt af sér stórfellt gáleysi, sem leiði til þess, að hann beri einn ábyrgð á slysi sínu. Miklum mun öruggara hefði verið að snúa að veggnum og fikra sig af kælisamstæðunni út á pall stigans (næstefsta þrep) og nota um leið hendur til að styðja sig við kælisamstæðuna og arma hans.
Varakrafa
Til vara byggi stefndi á því, að aðeins sé unnt að dæma hann skaðabótaskyldan að hluta. Sé sú krafa byggð á því, að tjón stefnanda sé að mestu leyti að rekja til gáleysis hans sjálfs. Stefnandi eigi því að bera stærstan hluta tjóns síns sjálfur, þar sem eigin sök hans upphefji bótaskylduna að mestu leyti.
Hvað varði eigin sök stefnanda vísist til þeirra röksemda, sem hafi verið raktar að framan til stuðnings aðalkröfu.
Um lagarök vísi stefndi einkum til reglna skaðabótaréttar um sönnun tjóns og sönnunarbyrði, óhappatilviljunar, gáleysis, orsakatengsla og sennilegrar afleiðingar og eigin sakar tjónþola, auk skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999. Þá vísist til laga nr. 46/1980 um aðbúnað, öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum. Um málskostnað sé vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
IV
Forsendur og niðurstaða
Í upphafi aðalmeðferðar var gengið á vettvang og aðstæður á slysstað skoðaðar.
Fyrir dóminn komu til skýrslugjafar stefnandi og vitnin, D verkstjóri, sem var deildarstjóri hjá Hagkaupum á slysdegi, og E smiður, sem var verzlunarstjóri hjá Hagkaupum […] á slysdegi.
Stefnandi skýrði svo frá m.a., að hann hefði starfað í kjötdeild hjá Hagkaupum. Á slysdegi hafi hann jafnframt þurft að vinna á svokölluðu mjólkurtorgi vegna forfalla starfsmanns þar. Hann kvaðst hafa verið eini starfsmaðurinn í kjötdeild umrætt kvöld, en yfirmaður hans, D, hafi ekki verið að vinna þetta kvöld. Hann kvaðst hafa verið að vinna við að taka kjöt, sem átti að fara í rýrnun, en rútínan sé sú, að hluti þess sé settur í kæli og hinn hlutinn í frysti. Hann hafi þurft að ná í pappakassa undir kjötið, sem átti að fara í frystinn, en þeir kassar hafi verið geymdir uppi á kælinum. Hann hafi þurft að fara upp á kælinn, þar sem kassarnir hafi verið svo innarlega, að hann gat ekki teygt sig í þá af tröppunni. Hafi hann notað til þess tröppu, sem var á staðnum. Til þess að fara niður af kælinum hafi hann fyrst þurft að stíga á efri brík kælishurðarinnar til þess að komast á efsta þrep tröppunnar. Hann kvaðst hafa farið beint áfram niður af kælinum en ekki aftur á bak. Hann hafi fyrst stigið á kælishurðina, og síðan hafi hann stigið vinstri fæti á efstu tröppuna, en við það hafi trappan rúllað í burtu með þeim afleiðingum, að hann hafi fallið niður á gólfið. Hann kvaðst hafa legið í allt að klukkustund á gólfinu og hugsanlega misst meðvitund um tíma, en rangt sé haft eftir honum í stefnu, að hann hafi legið þar í um hálftíma, þar til starfsfólk kom að honum. Það hafi enginn komið að honum. Hann kvað E verzlunarstjóra hafa verið á vakt þetta kvöld. Hann kvaðst hafa farið fyrst til öryggisvarðarins, þegar hann gat staðið upp, og látið hann vita af slysinu. Hann hafi reynt að halda áfram að vinna en ekki getað það. Þá hafi hann tilkynnt E, að hann gæti ekki unnið, þar sem hann hefði dottið í stiganum. E hafi skráð tímasetninguna og síðan hafi stefnandi stimplað sig út, en E hafi spurt hann hvort hann vildi ekki fara heim. Hann kvað gólfið oft hafa verið rakt eða blautt við kælinn. Sjálfur hafi hann ekki vitað af rakanum umrætt sinn.
D skýrði svo frá m.a., að hann myndi ekki hvort hann hefði verið á vakt umrætt sinn, en hann hafi ekki vitað af slysinu fyrr en eftir á. Hann kvað stefnanda hafa verið kominn í mjólkurdeildina á þessu tímabili, og hafi hann verið algerlega hættur í kjötdeildinni. Hann kvaðst þó ekki geta fullyrt, að hann hafi ekki verið að vinna í kjötdeild þetta kvöld. Hann viti ekki hver hafi verið að vinna í kjötdeildinni um kvöldið.
E skýrði svo frá m.a., að hann hefði ekki verið á vakt umrætt kvöld og hefði fyrst frétt af slysinu næsta morgun, en hann kvaðst ekki muna, hver hefði sagt sér frá því. Hann kvað stefnanda hafa verið að vinna á mjólkurtorgi umrætt kvöld, en kvaðst ekki geta fullyrt, að hann hefði ekki þurft að hlaupa í skarðið inni í kjötdeild ásamt því að vera á mjólkurtorginu. Hann kvað stefnanda aldrei hafa tilkynnt sér um slysið eða haft samband við sig eftir það. Hann kvaðst hafa skoðað aðstæður strax daginn eftir slysið og talað við alla, sem tengdust málinu nema stefnanda sjálfan, þar sem stefnandi hefði aldrei talað sjálfur við hann.
Sú fullyrðing stefnanda, að hann hafi verið að vinna í kjötdeild umrætt kvöld hefur ekki verið hrakin með vitnisburði vitnanna, D og E, sem minnast þess hvorugur að hafa verið á vakt umrætt kvöld. Verður því ekkert byggt á framburði þeirra hvað það varðar. Þá verður ekkert byggt á þeirri rannsókn á slysinu, sem vitnið E kveðst hafa framkvæmt, en hvorki fékk hann lýsingu stefnanda sjálfs á atvikinu, né gat hann greint frá því, hverjir það voru, sem hann talaði við. Er framburður stefnanda enda trúverðugur varðandi aðdraganda slyssins og hvernig það atvikaðist.
Stefnandi byggir sönnun fyrir því, að hann hafi orðið fyrir líkamstjóni við umrætt slys, á matsgerð B læknis, dags. 24. september 2004, sem ekki hefur verið mótmælt. Verður hún því lögð til grundvallar því, að stefnandi hafi hlotið líkamstjón við umrætt atvik.
Sú trappa, sem stefnandi notaði til að fara upp á og af kælinum, var, eftir því sem gögn málsins bera með sér, eina tækið, sem stóð til boða að nota í þessum tilgangi, en ekki var til hentugur stigi til að reisa upp við kælinn. Til þess að komast upp á kælinn þurfti trappan að vera með aðra hliðina að kælinum, en trappan er svokölluð A-trappa, sem var, eftir því sem næst verður komizt, með hjólum tröppu megin, en þau urðu óvirk, þegar stigið var á tröppuna.
Slysið var ekki tilkynnt til vinnueftirlitsins fyrr en um þremur vikum eftir að það átti sér stað og var því ekki rannsakað af eftirlitsmönnum þess.
Í leiðbeiningum um vinnuvernd, sem útgefnar voru af Vinnueftirlitinu nr. 1/1991 segir svo m.a. um notkun A-tröppu: „Ekki skal fara hærra upp í tröppu en svo, að ávallt sé nægur stuðningur við hné, nema trappan sé sérstaklega hönnuð fyrir notkun í efsta þrepi. Velja tröppu sem hæfir því verki sem á að vinna.“
Eins og trappa sú, sem stefnandi notaði við verkið, var útbúin, má fallast á, að hún hafi ekki hentað til þess hlutverks, sem henni var ætlað, og hafi í þeim skilningi verið vanbúin til þeirra nota, en hjólabúnaður hennar varð ekki óvirkur nema ákveðið farg kæmi á tröppuna, þannig að ljóst verður að telja, að hætta gat stafað af því að nota tröppuna til þess að fara upp á kælinn eða af honum. Þá varð trappan að standa þannig, að hlið hennar var upp við kælinn, og er ósannað, að hún hafi verið skorðuð þar af með vörubrettum eða öðru, svo sem haldið hefur verið fram af hálfu stefnda. Var því veruleg hætta á, að hún rynni til, þegar farið var á hana af kælinum, kæmi ekki nægilegt farg á hana, þegar stigið var niður á hana. Annað tæki stóð stefnanda ekki til boða á þeim tíma, svo hann gæti sinnt þeirri vinnuskyldu sinni að ná í umbúðir undir kjöt umrætt kvöld, en svo sem að framan greinir, verður að leggja framburð stefnanda til grundvallar varðandi störf hans umrætt kvöld, sem og aðdraganda slyssins og slysið sjálft. Er því fallizt á, að stefndi Hagar hf., beri bótaábyrgð á tjóni stefnanda, en ekki er ágreiningur um aðild félagsins.
Stefnanda var kunnugt um hjólabúnað stigans og þann eiginleika hans, að hjólin urðu ekki óvik, nema nokkurt farg kæmi á stigann. Þá vissi stefnandi af því, að gólfið gat verið blautt og hált vegna raka, sem kom frá kælinum, þegar hann var opnaður, en stefnandi hafði, samkvæmt framburði hans fyrir dómi, sjálfur verið að vinna í kælinum eða frystinum fyrr um kvöldið, en við það að hafa þá opna gat rakinn myndazt á gólfinu. Með því að renna sér áfram niður af kælinum, eins og stefnandi gerði, mátti honum vera ljóst, að meiri hætta væri á, að trappan rynni undan honum, þegar hann tyllti fæti á efsta þrepið, en ef hann hefði farið aftur á bak. Með þessu gætti stefnandi ekki þeirrar varúðar, sem ætlast mátti til af honum, og verður hann því að bera tjón sitt að hluta sjálfur. Þykir eftir atvikum rétt að hann beri helming sakar.
Eftir atvikum ber að dæma stefnda til að greiða málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn kr. 690.250 og rennur í ríkissjóð. Við ákvörðun málskostnaðar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði og ákveðst kr. 550.000. Við ákvörðun gjafsóknarkostnaðar hefur ekki verið litið til virðisaukaskatts.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð
Viðurkennd er skaðabótaskylda stefnda, Haga hf., á helmingi líkamstjóns stefnanda, A, sem hann varð fyrir við slys í starfi hjá Hagkaupum í […] þann 12. desember 2002.
Stefndi, Hagar hf. greiði kr. 690.250 í málskostnað, sem rennur í ríkissjóð, þ.m.t. virðisaukaskattur.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, kr. 550.000, greiðist úr ríkissjóði.