Hæstiréttur íslands

Mál nr. 539/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                                         

föstudaginn 10. ágúst 2012.

Nr. 539/2012.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Stefán Eiríksson lögreglustjóri)

gegn

X

(Brynjólfur Eyvindsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

                                                             

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. ágúst 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. ágúst 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 6. september 2012 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Fallist er á með héraðsdómi að varnaraðili sé undir sterkum grun um að hafa framið afbrot, sem að lögum getur varðað 10 ára fangelsi og að öðrum skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 sé einnig fullnægt. Með þessum athugasemdum verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. ágúst 2012.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði kærða, X, kt. [...], til að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 6. september 2012 kl. 16.00.

Í greinargerð lögreglu er því lýst að A hafi verið stunginn með hníf í bak og síðu við [...] í Reykjavík þann 28. júlí sl. var. Árásarmaður og mennirnir á vettvangi hafi hlaupið á brott en lögreglan hafi síðar veitt athygli tveimur mönnum við [...] en annar þeirra, þ.e. kærði, hafi reynst blóðugur. Hann hafi verið með djúpan skurð á hendi sem talsvert hafi blætt úr og hafi mátt rekja blóðslóð hans frá árásarvettvangi norður [...] og að [...].

Kærði hvorki neitar né játar sök en man eftir átökum. Því er lýst í greinargerð lögreglu að hann segist ekki muna atburðarrásina vel enda hafi hann verið mjög ölvaður og verið í gleðskap að [...]. Hann hafi síðan farið út og lent þar í slagsmálum við brotaþola. Hann hafi sagt annan hvorn þeirra hafa dregið upp hníf í slagsmálunum en sjálfur segðist hann almennt ekki ganga um með hníf á sér. Kærði hafi sagt að hann hafi flúið af vettvangi en muni ekki hvað hann hafi gert við hnífinn. Kærði hafi sagst hafa farið að [...] og hitt þar kunningja sína sem hafi ætlað að keyra hann á sjúkrahús til aðhlynningar. Lögreglan hafi hins vegar komið áður og hann reynt að hlaupa undan henni. Aðspurður hafi hann ekki getað skýrt hvers vegna hann hafi reynt að komast undan lögreglu.

Þá er því lýst í greinargerð lögreglu að í skýrslu sem tekin hafi verið af brotaþola meðan hann lá á sjúkrahúsi þann 29. júlí sl. hafi brotaþoli lítið sagst muna hvað hefði gerst. Hann hafi þó munað að einhver hefði allt í einu ráðist á sig og hann hefði fundið mikinn sársauka í vinstri síðu og dottið í jörðina. Í skýrslutöku hjá lögreglu þann 7. ágúst sl. hafi brotaþoli skýrt frá því að kærði hefði ráðist á sig með hnífi og fyrst lagt hnífinn að hálsi hans en síðan ráðist á hann og stungið. Brotaþoli hafi sagt að kærði hafi sagst ætla að drepa sig.

Í greinargerð lögreglu er einnig rakinn framburður móður brotaþola. Hún hafi óvænt verið stödd í námunda við [...] þegar hún hafi séð brotaþola koma gangandi. Hún hafi séð annan strák hinum megin við götuna, sem öskrað hafi á brotaþola að koma til sín. Strákurinn hafi síðan hlaupið yfir til brotaþola og slegið og sparkað í hann og hafi hann dottið í jörðina. Þá hafi hún orðið vör við að strákurinn væri með stóran hníf í hendinni. Segðist vitnið hafa öskrað á strákinn að láta brotaþola í friði en strákurinn hafi þá hlaupið í burtu. Brotaþoli hafi allur verið blóðugur og vitnið séð að hann væri skorinn á bakinu.

Loks greinir lögreglan frá framburði tveggja vitna sem hafi sagst hafa farið í partý í [...], en þar hafi verið fyrir brotaþoli og kærði ásamt tveimur öðrum mönnum. Þeir hafi allir verið farnir út nema einn en stuttu síðar hafi kærði komið hlaupandi inn alblóðugur á hendi og annar á eftir honum. Kærði hafi hlaupið inn á klósett án þess að segja neitt en þar hafi annað vitnið skömmu síðar fundið 20 cm hníf í vaskinum sem hún hafi sagt lögreglu að kærði hefði skilið eftir þar. Vitnið hafi síðar viðurkennt í skýrslutöku hjá lögreglu að hafa þrifið blóð á vettvangi. Hitt vitnið hafi hins vegar ætlað að keyra kærða á sjúkrahús en þau hafi verið stöðvuð af lögreglu. Kærði hafi þá hlaupið undan lögreglunni.

Lögreglan kveðst hafa lagt hald á tvö hnífa vegna rannsóknar málsins. Annars vegar hníf sem fannst á baðherbergi [...] og hins vegar hníf sem fannst úti í garði sunnanmegin við [...]. Við rannsókn tæknideildar lögreglu vegna þessara hnífa hafi aftur á móti engin lífsýni fundist sem nothæf geti talist til DNA-kennslagreiningar og því ekki upplýst hvort annar hnífana hafi verið notaður við árásina.

Þá tekur lögregla fram að í áverkavottorði yfirlæknis á LSH, sé því líst að brotaþoli hafi hlotið opið sár á brjósti eftir hnífstungu, blæðingu í vinstra brjóstholi og loftbrjóst. Þá hafi hann verið með yfirborðsskurð langsum eftir hryggsúlunni vinstra megin og skrámur á hálsi vinstra megin. Í vottorði B sé tekið fram að stunga yfir hjarta í gegnum lunga sé lífshættulegur áverki þótt í þessu tilviki hafi stungan ekki náð svo djúpt að valda skaða á hjarta eða ósæð.

Í framhaldi af handtöku kærða var hann úrskurðaður í gæsluvarðahald á grundvelli a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008 og b-liðar 1. mgr. 99. gr. sömu laga með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur nr. 386/2012 sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar nr. 523/2012.

Að mati lögreglu liggur kærði nú undir sterkum grun um að hafa ráðist á brotaþola án nokkurrar ástæðu og veitt honum áverka sem hefðu hæglega geta dregið brotaþola til dauða. Af öllu framangreindu sé ljóst að kærði sé hættulegur umhverfi sínu og sé það mat lögreglu að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Myndi það jafnframt særa réttarvitund almennings yrði kærði látinn laus. Brot kærða telji lögreglan varða við 211. gr. sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga eða 2. mgr. 218. gr. sömu laga og kunni því að varða 16 ára fangelsi eða allt að ævilöngu. Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamálamála krefst lögreglan þess að krafan nái fram að ganga.

Með vísan til framanritaðs og gagna málsins, einkum fyrrgreinds læknisvottorðs, er það niðurstaða dómsins að kærði sé undir sterkum grun um sérstaklega hættulega líkamsárás sem varðað getur við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga og jafnvel talist tilraun til manndráps, sbr. 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 20. gr. sömu laga.  Verður því að fallast á það með lögreglunni að brotið sé þess eðlis að telja verður gæsluvarðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Krafan er því tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Áslaug Björgvinsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærði, X, kt. [...], skal sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 6. september 2012 kl. 16.00.