Hæstiréttur íslands
Mál nr. 170/2004
Lykilorð
- Líkamsárás
- Skilorð
- Miskabætur
|
|
Fimmtudaginn 14. október 2004. |
|
Nr. 170/2004. |
Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari) gegn Arnari Haukssyni (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Líkamsárás. Skilorð. Miskabætur.
A var sakfelldur fyrir að slá Ó með glerflösku í höfuðið með þeim afleiðingum að hann hlaut 7 sentimetra langan skurð á höfði. Var brotið talið sérlega hættulegt þar sem A beitti við árásina glerflösku sem splundraðist við höggið. Var brotið heimfært til 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var refsing A ákveðin sex mánaða skilorðsbundið fangelsi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Ingibjörg Benediktsdóttir og Viðar Már Matthíasson prófessor.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 26. apríl 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar héraðsdóms um sakfellingu ákærða og að refsing verði þyngd. Þá krefst hann staðfestingar héraðsdóms um skaðabætur úr hendi ákærða að öðru leyti en því að honum verði gert að greiða Ómari Davíðssyni miskabætur að fjárhæð 500.000 krónur.
Ákærði krefst aðallega ómerkingar héraðsdóms, til vara sýknu en að því frágengnu að refsing verði milduð. Jafnframt krefst hann þess aðallega að skaðabótakröfu Ómars Davíðssonar verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hún verði lækkuð.
Með vísan til forsenda hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 120.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. mars 2004.
Mál þetta var höfðað með ákæru Lögreglustjórans í Reykjavík dagsettri 15. september 2003 á hendur Arnari Haukssyni, kt. [...], [...], „fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás og líkamstjón af gáleysi, aðfaranótt sunnudagsins 14. júlí 2002, í stiga á skemmtistaðnum Diablo við Austurstræti 6 í Reykjavík, með því að hafa slegið X, með glerflösku í höfuðið, en við höggið þeyttist glerbrot í andlit Z sem þar stóð nærri. Afleiðingar árásar ákærða voru að X hlaut 7 sentimetra langan skurð á höfði og Z 1 sentimetra langan skurð vinstra megin á enni.
Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981 og 219. gr. almennra hegningarlaga.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Af hálfu X, kennitala [...], er krafist skaðabóta að fjárhæð 880.171 krónur auk hæstu lögleyfðu vaxta frá 14. júlí 2002.
Af hálfu Z, kennitala [...], er krafist skaðabóta að fjárhæð 142.180 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 14. júlí til 22. nóvember 2002 en eftir það dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sbr. 9. gr. sömu laga til greiðsludags.”
Af hálfu ákærða er aðallega krafist sýknu af öllum kröfum ákæruvalds en til vara er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa og að hún verði skilorðsbundin. Þá er krafist frávísunar á framkomnum skaðabótakröfum en til vara er krafist lækkunar þeirra. Að lokum er þess krafist að sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða.
Samkvæmt frumskýrslu lögreglu dags. 14. júlí 2002 barst fjarskiptamiðstöð lögreglu kl. 01.54 tilkynning um að tveir menn hefðu fengið flösku í höfuðið og skorist á skemmtistaðnum Diablo. Lögregla hefði farið á vettvang og haft tal af Z, X, A, B og C. Z hefði greint svo frá að hún hefði staðið fyrir framan stiga á veitingastaðnum þegar hún hefði skyndilega fengið högg á ennið. Ekki hefði hún vitað nákvæmlega hvað gerðist en hún hefði heyrt að brot úr flösku hefði kastast í ennið á sér. Var Z með um það bil 1 cm langan skurð á miðju enni.
Í skýrslunni segir að B hefði staðið við hliðina á Z og séð er ungur maður sló flösku aftan í hnakkann á öðrum ungum manni og flaskan brotnað. Hefði brot úr flöskunni endað í enni Z.
X hefði sagt frá því að hann hefði verið að reyna að ganga framhjá þeim B og Z þegar hann hefði skyndilega fundið mikið högg aftan á hnakkann og hnigið niður. Hann hefði heyrt frá öðrum að hann hefði verið sleginn í hnakkann með flösku.
A hefði sagst hafa verið ásamt X og C að fara að ganga upp stigann þegar hann hefði séð hvar ungur maður sló X í höfuðið með flösku. Flaskan hefði við þetta brotnað og eitt brotið kastast í enni Z. Hefði A ekki vitað hver maðurinn væri en hann vissi að hann héti [...].
C sagðist hafa verið ásamt X og A að fara að ganga upp stigann þegar hann hefði séð hvar ungur maður hefði slegið X í höfuðið með flösku. Flaskan hefði við þetta brotnað og eitt brotið hefði kastast í enni Z. Hefði C sagst ekki vita hver maðurinn væri en hann vissi að hann héti [...].
Ekki hefði reynst unnt að ná tali af Ingvari þar sem hann hefði verið farinn en C og A hefðu ætlað að komast að því hvað hann héti fullu nafni og koma nafninu til lögreglunnar.
Í lögregluskýrslu dags. 15. júlí 2002 kemur fram að X lagði fram kæru á hendur ákærða þann dag. Sagðist kæranda svo frá að hann hefði verið á skemmtistaðnum umrætt sinn og verið á leiðinni af neðri hæðinni upp stiga á leiðinni út. Nokkur örtröð hefði verið í stiganum en hann hefði þó ekki lent í stympingum eða deilum við nokkurn mann. Skyndilega og án fyrirvara hefði hann verið sleginn með flösku vinstra megin á höfuðið ofarlega. Hefði mikið blætt úr höfði hans og blóð farið í föt hans. Útilokaði X ekki að árásarmaðurinn hefði einnig slegið hann. Kvaðst X hvorki þekkja árásarmanninn né hafa rætt við hann fyrir árásina. X hefði síðan kallað til lögreglu en árásarmaðurinn verið horfinn þegar lögregla leitaði hans á staðnum. Hins vegar hefði C, félagi kæranda, komist að nafni árásarmannsins þar sem hann ræddi við hann og fólk sem þekkti hann auk þess sem C hefði hirt greiðslukortastrimil hans. Lögregla hefði farið með X á slysadeild þar sem saumuð hefðu verið 15 spor í höfuð hans.
Í málinu liggja frammi tvö læknisvottorð Guðjóns Baldurssonar, læknis á slysa- og bráðadeild Landspítala háskólasjúkrahúss, annað er dagsett 1. ágúst 2002 um áverka X en hitt er dagsett 15. ágúst 2002 vegna áverka Z. Í fyrrnefndu vottorði kemur fram að X hafi leitað til slysadeildar 14. júlí 2002 kl. 02.33 vegna líkamsárásar sem hann hefði sagst hafa orðið fyrir um kl. 01.30 sama dag en hann hefði verið að koma út af skemmtistað þegar flaska hefði verið brotin á höfðinu á honum. Hefði hann sagst ekki þekkja til mannsins og ekkert rætt við hann. Mikill skurður hefði komið á höfuð hans og blætt á öll föt hans.
Síðan segir í læknisvottorðinu: „Á höfðinu er 7 sm langur skurður og annar stjörnulaga þar fyrir ofan. Önnur áverkamerki eru ekki tilgreind. Greining vaktlæknis: Sár í hársverði S01.0 áverki af hendi annars manns T14.9 Meðferð: Í staðdeyfingu eru saumuð 15 spor í sárið. Saumataka ráðgerð á heilsugæslustöð. Sj. fer heim að skoðun lokinni. Fleiri atriði eða komur eru ekki skráðar um tiltekinn atburð í gögnum Slysadeildar, Landspítala, Fossvogi. Álit: Sár á höfði sem gert er að með hefðbundnum hætti. Þau taka 1-2 vikur að gróa en munu skilja eftir sig ör. Áverkarnir geta vel komið heim og saman við sögu sjúklings.”
Samkvæmt síðarnefndu vottorði leitaði Z til slysadeildar 14. júlí 2002 kl. 02.28 vegna líkamsárásar sem hún kvaðst hafa orðið fyrir um kl. 01.30 sama dag. Hún hefði sagst hafa verið á skemmtistað í Reykjavík og verið barin með flösku í ennið. Síðan segir: „Skoðun: Það er 1 sm skurður vinstra megin á enni. Ekki önnur áverkamerki að sjá eða þreifa. Greining vaktlæknis: Árás af hendi annars manns T14.9. Yfirborðsáverkar í andliti S00.0. Meðferð: Í staðdeyfingu er skurðsár saumað með 3 sporum af gerviþræði. Settar umbúðir. Gert ráð fyrir saumatöku að viku liðinni. Sj. fer heim að skoðun lokinni. Fleiri atriði eða komur eru ekki skráðar um tiltekinn atburð í gögnum Slysadeildar, Landspítala, Fossvogi. Álit: Sár í andliti. Áverki þessi getur vel komið heim og saman við sögu sjúklings. Sárið kemur til með að gróa vel en skilur eftir sig ör í andlitinu.”
Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dóminum.
Ákærði kvaðst hafa verið á skemmtistaðnum Diablo aðfaranótt 14. júlí 2002 með þremur félögum sínum, D, E og F. Hann hefði drukkið nokkra bjóra en ekki verið drukkinn. Lýsti ákærði atvikum þannig að allt í einu hefði „allt orðið vitlaust” fyrir neðan stigann, allir hefðu hrúgast að stiganum og um það bil 10 mínútum síðar hefðu lögreglumenn komið á staðinn og gengið einn hring í fylgd einhverra manna og farið síðan út. Hefðu lögreglumennirnir ekki rætt við ákærða þegar þeir gengu framhjá borði hans. Dyraverðirnir hefðu heldur ekki talað við hann. Ástandið á staðnum hefði síðan róast fljótlega. Ákærði kvaðst hafa setið við borð skammt frá stiganum og ekki hreyft sig þaðan. Hefði hann ekkert skipt sér af átökunum. Eftir hálftíma til klukkutíma hefði hann farið ásamt félögum sínum yfir á Glaumbar. Kvað hann einhvern mann hafa komið til sín á Glaumbar og hefði sá borið upp á ákærða að hann hefði slegið einhvern í höfuðið með flösku. Er framburður ákærða fyrir dóminum í meginatriðum í samræmi við skýrslu hans hjá lögreglu.
Vitnið X kvaðst hafa farið á Diablo ásamt félögum sínum C, Halldóri Jakobssyni og A. Hefðu þeir verið á leiðinni á Nasa en ákveðið að kíkja inn á Diablo. Þegar þeir hefðu verið á leiðinni upp stigann aftur og vitnið staðið í neðsta þrepinu hefði hann allt í einu fengið flösku í höfuðið. Hefði hann ekki vitað af sér um stund en rankað við sér aftur skömmu síðar liggjandi á gólfinu með einhverja tvo menn ofan á sér sem hann telur að hafi verið árásarmaðurinn og A. Kvaðst vitnið hafa dottið út í skamman tíma og dottið í gólfið. Aðspurður kvaðst vitnið ekki hafa séð hver veitti honum áverkann. Hann hefði varla séð út úr augunum fyrir blóði sem lagaði úr höfði hans. Einhver áflog hefðu orðið í kjölfarið en síðan hefðu A og dyravörður á staðnum hjálpað honum upp stigann. Kvaðst vitnið í raun hafa staðið kyrr í stiganum þegar þetta gerðist því mannþröngin hefði verið svo mikil. Vitnið kvaðst hafa drukkið tvo bjóra allt kvöldið og hefði ekki verið ölvaður. Árásin hefði verið algjörlega tilefnislaus enda hefðu hvorki hann né félagar hans talað við nokkurn mann inni á staðnum. Hann kvaðst aðspurður aldrei hafa hitt ákærða áður og ekki þekkja hann.
Vitnið kvaðst ekki hafa tekið eftir því hvort einhver annar slasaðist þarna en hann hefði síðan hitt stúlkuna, sem meiddist, á slysadeildinni. Aðspurður um áverka sína, kvaðst vitnið hafa fengið tvo skurði á höfuðið og þurfti að sauma 15 spor samtals vegna þeirra. Hann kvaðst ekki bera menjar þeirra nú og hefði verið orðinn jafngóður að mánuði liðnum. Hann hefði hins vegar haft mikla verki vegna áverkanna fyrstu tvær vikurnar og hefði læknir ráðlagt honum að taka sér nokkurra daga frí frá vinnu sem hann hefði gert. Hann kvaðst þó einungis krefjast bóta vegna þriggja daga frá vinnu þótt þeir hefðu í raun verið fleiri. Er skýrsla vitnisins í meginatriðum í samræmi við framburð hans í kæruskýrslu hjá lögreglu dags. 15. júlí 2002.
Z kom fyrir dóminn sem vitni og lýsti því hvernig hún hefði umrætt sinn verið að ganga niður hringstigann á skemmtistaðnum Diablo á leið á snyrtinguna. Þegar hún hefði verið komin í neðstu tröppuna hefðu brotist út hópslagsmál og hún verið fljót að forða sér og því ekki séð hver gerði hvað. Hefði hún ekki tekið eftir neinu fyrr en hún var komin hálfa leið upp stigann en þá fundið að hún gat varla gengið lengur vegna svima og jafnframt hefði hún verið orðin alblóðug. Frænka hennar, B, hefði síðan aðstoðað hana upp stigann.
Sérstaklega aðspurð kvaðst vitnið ekki hafa séð neinn sleginn með flösku. Hún hefði séð einhvern með óbrotna flösku á lofti eftir að hún slasaðist. Kvaðst vitnið ekki muna hver það var sem hélt á flöskunni. Vitnið sagðist hafa séð hóp af strákum ráðast allir á sama punktinn en kvaðst ekki vita hvaða menn þetta voru. Allt í einu hefðu allir hoppað upp úr sætum sínum og að einum manni en síðan hefði hún ekki séð meira. Kannaðist vitnið ekki við að hafa séð nokkurn blóðugan eða slasaðan mann á staðnum. Aðspurð um hvort áflogin hefðu brotist út áður en vitnið fékk högg á ennið, kvaðst húnnið ekki geta sagt til um það þar sem hún hefði ekki vitað af skurðinum á enninu fyrr en frænka hennar sagði henni frá honum. Kvaðst vitnið ekki hafa gert sér grein fyrir því að hún hefði fengið flöskubrot í höfuðið fyrr en X hefði sagt henni frá því á slysadeildinni. Hann hefði lýst því þannig að einhver hefði kastað flösku í höfuðið á honum og flaskan brotnað og brot úr henni farið í ennið á vitninu. Kvaðst vitnið útiloka að hún hefði fengið áverkana með því að vera slegin í höfuðið. Aðspurð um þann framburð sinn hjá lögreglu að hún hefði fyrst haldið að maður fyrir framan hana í stiganum hefði skallað hana, þá kvaðst hún síðar hafa áttað sig á því að það gat ekki verið rétt því maðurinn hefði staðið fyrir neðan hana.
C gaf skýrslu fyrir dóminum sem vitni. Hann kvaðst hafa farið á skemmtistaðinn Diablo umrætt sinn með X, A og öðrum félaga sínum. Hefðu þeir staðið stutt við, farið niður á neðri hæðina og síðan upp aftur. Á leiðinni upp hringstigann hefði verið mikill fjöldi fólks og þröng á þingi. Hefði vitnið verið að tala við X, sem var fyrir neðan hann neðst í stiganum, þegar ákærði kom og sló flöskunni af tilefnislausu í höfuð X svo flaskan brotnaði. A hefði verið fyrir aftan X og hefði hann gripið í ákærða og allt endað í þvögu á gólfinu. Dyraverðir hefðu komið að og stíað mönnum í sundur og gripið ákærða. Kvaðst vitnið þekkja ákærða í gegnum sameiginlegan kunningja úr hestamennsku og því hefði hann leitað hans og fundið á Glaumbar og rætt um það við hann hvort ekki væri hægt að leysa þetta mál og hvers vegna hann hefði verið að þessu. Hefði ákærði játað að hafa gert þetta en sagðist koma með vitni á móti ef málið yrði kært. Ákærði hefði gefið þá skýringu á gerðum sínum að X hefði hrint kærustu hans og potað í hana. Kvað vitnið ákærða hafa verið farinn út um neyðarútganginn þegar lögreglan kom á vettvang.
Aðspurður um það hvers vegna vitnið hefði talið árásarmanninn heita Ingvar þegar hann gaf skýrslu hjá lögreglu, kvaðst vitnið ekki hafa vitað nákvæmlega hvað hann hét en kvaðst þekkja vin ákærða, Róbert, mjög vel úr hestamennskunni. Kvaðst hann ekki muna hvort hann hefði síðar leiðrétt nafn ákærða hjá lögreglu. Þá kvaðst vitnið fyrir misskilning hafa borið hjá lögreglu að hann hefði hitt ákærða á Gauki á Stöng en hins vegar væri hann alveg viss um að þeir hefðu hist á Glaumbar. Er skýrsla vitnisins fyrir dóminum í aðalatriðum á sama veg og skýrsla hans hjá lögreglu 27. ágúst 2002.
A gaf skýrslu sem vitni fyrir dóminum. Hann kvaðst hafa farið út að skemmta sér með þremur félögum sínum þetta kvöld og hefðu þeir verið á leiðinni á skemmtistaðinn Nasa þegar þeir ákváðu að kíkja á Diablo stutta stund. Þeir hefðu farið þar inn og farið niður stiga og gengið inn í eitthvert skot og snúið síðan við. Hefði verið mikil mannþröng þarna og þeir verið á leiðinni til baka að stiganum þegar þeir heyrðu mikla háreysti. Hefðu þeir félagarnir þá verið staddir rétt við stigann en ákærði og félagar hans setið við borð alveg við stigann. Vitnið kvaðst hafa séð ákærða koma askvaðandi með flösku í hendi og lemja með flöskunni inn í miðjan hópinn. Hefði höggið lent á X og flaskan brotnað við höggið. Kvaðst vitnið hafa séð þetta greinilega og hefði X orðið eitt blóðflak á eftir. Sérstaklega aðspurður um það, hvers konar flaska þetta hefði verið, kvaðst vitnið ekki vita það.
Vitnið kvað X hafa verið rétt við stigann og hann sjálfur verið nokkrum skrefum fyrir aftan hann. C hefði farið fyrstur og verið kominn upp í stigann þegar þetta var. Aðspurður kvaðst vitnið ekki hafa séð aðra verða fyrir skaða en hefði síðar frétt að einhver stúlka hefði slasast. Vitnið kvað allsherjar slagsmál hafa brotist þarna út í framhaldi af þessu og hefðu vitnið og félagar hans blandast inn í þau og reynt að stöðva þau. Vitnið hefði m.a. gripið í ákærða og reynt að ná honum niður. Dyraverðirnir hefðu komið að vörmu spori og vísað þeim út. Kvaðst vitnið hafa hringt á lögreglu en dyraverðirnir brugðist ókvæða við og fannst vitninu eins og um einhvern kunningsskap væri að ræða á milli dyravarðanna og ákærða og félaga hans. Síðan hefði lögregla komið þarna að og þeir leitað að ákærða án árangurs. Aðspurður um það hvers vegna vitnið hefði á vettvangi sagt árásarmanninn heita Ingvar, kvaðst vitnið ekki muna til þess að hann hefði gefið það nafn upp en hins vegar hefði hann heyrt að ákærði ætti vin sem héti Ingvar. Vitnið kvaðst ekki hafa vitað nafn árásarmannsins á þeirri stundu og ekki þekkt hann fyrir. Eftir að lögreglan var farin hefðu vitnið og félagar hans ákveðið að fara aftur niður á neðri hæðina og þá rekist á ákærða þar sem hann sagðist aldrei myndu viðurkenna þetta fyrir rétti og að hann kæmi með ljúgvitni ef þess þyrfti. Stuttu síðar hefðu vitnið og félagar hans hitt ákærða á Glaumbar og þá hefði mesti æsingurinn verið runninn af ákærða og hann viðurkennt að hafa gert þetta og jafnframt sagt að hann vildi gjarnan ná sáttum við X. Vissi vitnið ekki hvað gerðist frekar. Framburður vitnisins fyrir dóminum er í aðalatriðum á sama veg og í skýrslu hans hjá lögreglu 22. október 2002.
Vitnið E kom fyrir dóminn og lýsti atvikum þannig að hann hefði setið á neðri hæð skemmtistaðarins Diablo umrætt sinn með þeim ákærða, Ragga og Didda og fleira fólki að því er hann minni. Þeir félagarnir hefðu setið undir tröppunum þegar slagsmál hefðu brotist út og hann hefði séð einhverjar kýtingar á milli fólks. Ekki kvaðst vitnið þó hafa séð nokkurn slasast. Kvaðst vitnið hafa setið við borðið allan tímann og það sama ætti við um félaga hans. Enginn þeirra hefði farið frá borðinu og hefðu þeir allir setið við borðið þegar lögreglan kom en hún hefði ekkert rætt við þá. Hefðu þeir félagarnir setið við borðið og ekki farið út af staðnum fyrr en eftir dágóðan tíma og þá gengið út um aðaldyr skemmtistaðarins og farið yfir á Glaumbar. Kvaðst vitnið hafa verið inni á Glaumbar í stutta stund en farið svo heim til sín svo hann vissi ekki hvort félagar hans hittu einhverja aðra þar. Sérstaklega aðspurður kvaðst vitnið ekki hafa séð ákærða lenda í átökum umrædda nótt. Framburður vitnisins fyrir dóminum er í flestum atriðum á sama veg og í skýrslu sem lögregla tók af honum í gegnum síma 14. maí 2003 að öðru leyti en því að vitnið kvaðst þá ekki vera viss um það hvort Arnar hefði brugðið sér eitthvað frá í smá stund, s.s. á salernið, en að hann hefði þá ekki verið lengi í burtu hefði svo verið.
Vitnið Daði Gunnarsson lögreglumaður kvaðst hafa gert frumskýrslu málsins. Hann hefði komið á vettvang umrætt sinn ásamt Unnari og Jóni Má lögreglumönnum og þar hefðu verið tveir slasaðir einstaklingar. Hefði þeim skilist að flaska hefði verið brotin á höfðinu á öðrum þeirra og glerbrot skotist á hinn. Kvaðst vitnið halda að hann hefði talað við báða tjónþolana. Gerandinn hefði verið farinn af staðnum og hefðu viðstaddir nefnt eitthvert „fyrsta nafn” á honum en ekki fullt nafn og ekki hefði annað verið vitað um hann en hverjir vinir hans væru. Hefðu þeir lögreglumennirnir rölt nokkra hringi á staðnum ásamt manni, sem vissi hver árásarmaðurinn var, og gengið úr skugga um að gerandinn væri farinn af staðnum. Staðfesti vitnið að hann hefði gert frumskýrslu lögreglunnar dags. 14. júlí 2002 og undirritað hana.
B kom fyrir dóminn sem vitni. Hún kvaðst hafa farið inn á skemmtistaðinn Diablo með Z. Þær hefðu farið niður stigann áleiðis að snyrtingunni á neðri hæðinni en mikil mannþröng hefði verið í stiganum og á neðri hæðinni og þær því orðið að stoppa um stund í stiganum. Kvaðst vitnið þá hafa séð að einhverjar ryskingar hefðu hafist á neðri hæðinni og því ætlað að snúa við. Hún hefði hætt við það þegar hún sá að ryskingunum var lokið og því hefðu þær haldið áfram niður stigann. Síðan hefðu þær þurft að stoppa aftur þegar þær voru komnar neðst í stigann, vitnið í neðstu tröppunni og Z fyrir framan hana. Þegar vitnið hefði litið í aðra átt hefði hún tekið eftir því að hún fékk einhvern úða framan í sig og því litið við aftur og séð að aftur hefðu brotist út slagsmál og því hefði hún gripið í öxl Z og snúið henni á undan sér upp stigann. Hefði hún ekki tekið eftir meiðslum Z fyrr en þær voru komnar upp stigann og þá séð að Z var alblóðug í framan. Kvaðst vitnið þá hafa farið með Z út og beðið um að hringt yrði á sjúkrabíl. Síðan hefðu þær Z farið á slysavarðstofuna og Z verið saumuð í andlitinu.
Aðspurð kvaðst vitnið hvorki hafa séð hvernig Z slasaðist né heldur hverjir voru að slást enda hefði hún viljað forða sér áður en eitthvað kæmi fyrir. Þá kvaðst hún aðspurð hvorki hafa séð flösku né flöskubrot en á slysavarðstofunni hefðu þær hitt alblóðugan mann sem sagðist hafa fengið flösku í höfuðið þarna á staðnum og að vinur hans hefði séð hver kastaði henni. Hefði þó ekkert nafn verið nefnt. Hefðu þær Z dregið þá ályktun að Z hefði fengið glerbrot úr þeirri flösku framan í sig. Framburður vitnisins fyrir dóminum er í samræmi við það sem haft er eftir henni í skýrslu lögreglu af símtali við vitnið 10. febrúar 2003 að öðru leyti en því að þá er haft eftir henni að hún hafði útundan sér að eitthvað kom fljúgandi og lent framan á höfði Z.
Tekin var skýrsla gegnum síma af vitninu F sem búsettur er í Danmörku og staddur var á lögreglustöð þegar skýrslan var tekin. Kvaðst hann ekki hafa verið beint vitni að líkamsárásinni heldur hefði hann séð átök umrætt sinn. Hefðu vitnið og félagar hans setið við borðið á meðan á átökunum stóð og minnti vitnið að enginn þeirra hefði staðið upp á meðan þeir voru þarna. Hann hefði enga líkamsárás séð en hins vegar séð þegar lögregla kom á staðinn og gekk um inni á staðnum í fylgd einhvers manns sem vitnið vissi ekki deili á. Kvaðst vitnið hafa setið við stigann ásamt D, E og ákærða þegar lögreglan kom en lögreglan hefði ekki yrt á þá félaga. Minnti vitnið að ákærði hefði setið við hliðina á sér. Hefðu þeir verið saman allt kvöldið þarna inni og síðan farið saman út. Aðspurður kvað vitnið þá félaga hafa farið út um bakdyr skemmtistaðarins. Aðspurður um það hvort honum væri þetta kvöld minnisstætt kvað hann svo ekki vera nema að því leyti að hann hefði fyrr um kvöldið haldið ágætis gleðskap og svo væri honum minnisstætt að ákærði hefði verið ásakaður um þessa tilteknu líkamsárás en það hefði verið gert þegar þeir voru staddir á Glaumbar. Á Glaumbar hefði vitnið brugðið sér á snyrtinguna en þegar hann hefði komið þaðan hefði ákærði sagt honum að einhver stelpa hefði komið til ákærða og ásakað hann um líkamsárás inni á Diablo. Aðspurður um það hvenær vitnið hefði heyrt næst um ásakanirnar á hendur ákærða kvað hann það hafa verið tveimur til þremur vikum síðar. Aðspurður kvaðst vitnið hafa neytt áfengis þetta kvöld en hefði ekki verið mjög ölvaður.
Vitnið D kvaðst hafa verið á skemmtistaðnum Diablo umrætt sinn ásamt félögum sínum þeim Arnari, F og E. Fyrr um kvöldið hefðu þeir hist heima hjá F en farið síðan niður í bæ. Hefðu þeir setið að drykkju við borð á neðri hæð Diablo og síðan hefðu þar byrjað einhver læti. Aðspurður kvaðst vitnið hafa séð slasaðan mann á staðnum en hann hefði ekki séð neinn slá annan með flösku. Mundi vitnið ekki nákvæmlega eftir því hvernig átökin hefðu verið enda langt síðan. Aðspurður kvað vitnið þá félaga hafa staðið á fætur þegar átökin byrjuðu enda hefði hellst úr glösum yfir allt. Ekki hefðu þeir þó blandað sér í slagsmálin. Kvaðst vitnið hafa rifjað upp atburðarásina með F í fyrrasumar eftir að lögreglan hafði haft samband við vitnið.
Aðspurður um þann framburð sinn hjá lögreglu í gegnum síma 8. maí 2003 um að hann myndi ekki sérstaklega eftir að hafa verið að skemmta sér með félögum sínum umrætt sinn, kvaðst hann muna eftir skýrslutökunni og kvað ekki vera um breyttan framburð sinn að ræða núna. Vitnið kvaðst muna þetta óljóst en hann hefði ekki séð hvað gerðist heldur myndi hann einungis eftir því að þeir félagarnir hefðu fylgst með einhverjum látum. Gat vitnið ekki gefið skýringu á því hvers vegna hann myndi núna það sem hann mundi ekki 8. maí 2003.
Vitnið kvað lögregluna ekki hafa talað við vitnið þegar hún kom á staðinn og minnti hann að hún hefði heldur ekki talað við aðra við borðið. Aðspurður kvaðst vitnið geta staðfest að hann var á staðnum um kvöldið þótt ekki myndi hann dagsetninguna. Vitnið sagði þá félaga hafa farið út af Diablo eftir að lögregla kom á staðinn og hefðu þeir farið út um framdyr veitingastaðarins og yfir á Glaumbar en þar hefði vitnið orðið viðskila við félaga sína og því stoppað þar stutt. Aðspurður kvaðst vitnið hafa verið undir áhrifum áfengis umrætt sinn en taldi sig þó ekki hafa verið mjög ölvaðan.
Ekki voru teknar skýrslur af dyravörðum á skemmtistaðnum Diablo og er skýring þess samkvæmt gögnum málsins sú, að þar sem skemmtistaðurinn hefði hætt störfum og ekki hefði tekist að komast að því hverjir ráku staðinn hefði reynst ógerlegt að upplýsa hverjir dyraverðirnir voru.
Niðurstaða.
Ákærði hefur játað að hafa verið á skemmtistaðnum Diablo umrætt sinn og að hafa setið við hringstiga á neðri hæð þegar átök brutust út við stigann. Hins vegar hefur ákærði neitað að hafa slegið X í höfuðið með flösku og jafnframt neitað því að vera valdur að sárum Z. Í ljós er leitt að þau X og Z fengu þá áverka, sem lýst er í framlögðum læknisvottorðum, aðfaranótt 14. júlí 2002 þar sem þau stóðu í og við hringstiga framangreinds skemmtistaðar. Hins vegar ber framburðum vitna ekki saman um það hver hafi orðið valdur að áverkum X og ekkert vitni var að því hvernig áverkar Z eru til komnir.
Vitnin A og C, félagar X, hafa borið fyrir dóminum að ákærði hafi slegið flösku að tilefnislausu í höfðu X og að flaskan hafi við það brotnað. Eru lýsingar vitnanna allnákvæmar og í samræmi við framburði þeirra í lögregluskýrslum í öllum meginatriðum. Í frumskýrslu lögreglu er haft eftir A og C að nafn árásarmannsins sé G. A bar fyrir dóminum að hann myndi ekki til að hafa gefið þetta nafn upp við lögreglu en hann hefði heyrt að árásarmaðurinn ætti vin sem héti G. Hins vegar hefði hann ekki vitað nafn hans þegar þetta gerðist og ekki þekkt hann áður. C kvaðst ekki hafa vitað nafn árásarmannsins en hann þekkti vin hans, H, mjög vel og hefði hann oft hitt þá félaga við hestamennsku. Þykja dóminum skýringar vitnanna að þessu leyti trúverðugar.
Þá var haft eftir C hjá lögreglu að hann hefði hitt ákærða síðar um nóttina inni á veitingastaðnum Gauki á Stöng en ekki á Glaumbar eins og hann bar fyrir dóminum. Segir C þetta misræmi byggjast á misskilningi sem þykir trúlegt þegar litið er til þess að frásögn hans fær stoð í framburði ákærða sjálfs fyrir dóminum þar sem hann bar að einhver maður hefði komið til sín á Glaumbar og ásakað hann um árásina á Diablo. Hjá lögreglu kannaðist ákærði við að umræddur maður væri C.
Þeir A og C hafa báðir borið að ákærði hafi verið farinn út af skemmtistaðnum þegar lögregla kom á vettvang og fær framburður þeirra að þessu leyti stoð í framburði Daða Gunnarssonar lögreglumanns.
Framburðir félaga ákærða, E, F og D styðja framburð ákærða en þeir hafa allir borið að þeir hafi setið saman ásamt ákærða við hringstigann á neðri hæð skemmtistaðarins Diablo umrætt sinn og að enginn þeirra hafi blandað sér í umrædd átök. Framburður þeirra er þó ekki ítarlegur og ekki samhljóma að öllu leyti. Vitnin E og D segja þá félaga hafa gengið út um aðaldyr eða framdyr skemmtistaðarins þegar þeir yfirgáfu staðinn um nóttina en vitnið F kvað þá hafa gengið út um bakdyrnar. Vitnið D gaf símaskýrslu hjá lögreglu 8. maí 2003 þar sem hann kvaðst ekki muna sérstaklega eftir að hafa verið að skemmta sér með félögum sínum umrætt sinn og sérstaklega aðspurður fyrir dóminum gat hann ekki gefið skýringu á því hvers vegna hann mundi núna það sem hann mundi ekki við skýrslutöku hjá lögreglu 8. maí 2003. Kom fram að hann hefði rifjað málið upp í fyrrasumar með F skömmu eftir að hann gaf lögregluskýrsluna.
Þegar framangreindir framburðir vitna eru metnir í heild þykja framburðir þeirra A og C trúverðugir enda hefur frásögn þeirra verið ítarleg og staðföst, bæði hjá lögreglu og hér fyrir dóminum. Hafa þeir báðir fullyrt að þeir hafi séð ákærða slá X með flösku í höfuðið og að flaskan hafi brotnað við höggið. Kemur sá framburður heim og saman við önnur gögn málsins. Verður því að telja sannað að ákærði hafi gerst sekur um að hafa slegið X í höfuðið með flösku umrætt sinn og valdið honum þeim áverkum sem lýst er í framlögðu læknisvottorði eins og honum er gefið að sök í ákæru. Verður að telja brot ákærða sérlega hættulegt þar sem hann beitti við árásina glerflösku sem splundraðist við höggið. Þykir brotið því réttilega heimfært til ákvæða 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Að því er varðar þann þátt málsins sem snýr að áverkum Z liggur fyrir að hvorki sáu vitni Z fá glerbrot í andlitið né sáu þau hvort það kom úr brotnu flöskunni. Ljóst er að Z var skammt frá X þegar ráðist var á hann. Hins vegar kemur hvorki fram í framlögðu læknisvottorði né öðrum gögnum málsins að glerbrot hafi fundist í sárum Z eða á vettvangi. Í læknisvottorðinu segir einungis að áverkinn geti vel komið heim og saman við sögu sjúklings um að hún hafi verið barin með flösku í ennið.
Vitnin Z og B báru báðar fyrir dóminum að þær hefðu ekki séð hvernig Z fékk áverkann. B, sem stóð hjá Z í hringstiganum, kvaðst hvorki hafa séð flösku né séð að Z hefði fengið einhvers konar glerbrot framan í sig. Hins vegar hefðu þær hitt tvo stráka á slysadeildinni um nóttina og annar þeirra, sem sjálfur var greinilega slasaður, hefði sagt þeim að hann hefði fengið flösku í höfuðið á Diablo fyrr um nóttina. Hefðu þau því ályktað á þann veg að Z hefði fengið hluta úr flöskunni í andlitið. Að þessu virtu þykir ekki nægjanlega í ljós leitt hvernig áverkar Z eru til komnir. Ákærði er því sýknaður af því að hafa veitt Z áverka á þann hátt að glerbrot úr flösku sem hann sló í höfuð annars manns þeyttist í andlit hennar en brotið er í ákæru heimfært til 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Refsing.
Frá 18 ára aldri hefur ákærði fimm sinnum gengist undir sáttir. Þá hefur ákærði áður hlotið dóm fyrir líkamsárás en þann 14. desember 2001 var hann dæmdur til greiðslu 70.000 króna sektar vegna brots gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Refsing ákærða þykir, með hliðsjón af framanrituðu, hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar skilorðsbundið í 2 ár frá birtingu dómsins að telja og skal refsingin falla niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Skaðabótakröfur.
X hefur krafist skaðabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 880.171 krónur auk hæstu lögleyfðu vaxta frá 14. júlí 2002. Ákærði hefur mótmælt kröfunni. Er höfuðstóll bótakröfunnar sundurliðaður og rökstuddur þannig:
Tímabundið fjártjón:
a) Veikindaleyfi í þrjá daga, 15.-17. júlí 2002 55.500 kr.
b) Útlagður kostnaður, koma á slysadeild 3.000 kr.
Ákærði er í fullu starfi sem endurskoðandi og varð að taka sér veikindaleyfi í þrjá daga sem kostaði hann 55.500 krónur skv. framlögðum gögnum. Hann greiddi 3.000 krónur vegna komugjalds á slysa- og bráðamóttöku Landspítala háskólasjúkrahúss.
Eignatjón:
Ónothæf jakkaföt 112.000 kr.
Þegar bótakrefjandi varð fyrir árásinni var hann klæddur Armani jakkafötum sem hafa skv. framlögðum gögnum verið metin ónýt og myndu ný kosta 112.000 krónur.
Miskabætur:
Bætur skv. 26. gr. skaðabótalaga f. ólögmæta
meingerð. 500.000 kr.
Ákærði réðst á bótakrefjanda að tilefnislausu umrætt sinn og veitti honum 7 cm langan skurð á höfuð þannig að sauma þurfti 15 spor í hársvörð hans. Bótakrefjandi hefði verið með langvinnan höfuðverk eftir árásina og mjög kvalinn auk þess sem hann hefði átt erfitt um svefn og liðið af kvíða.
Þjáningabætur:
Þjáningabætur skv. 3. gr. skaðabótalaga
90 dagar x 700 kr. x 4437/3282 85.171 kr.
Lögmannsþóknun með vsk. 124.500 kr.
Samtals 880.171 kr.
Ákærði hefur með tilefnislausri árás sinni á bótakrefjanda bakað sér skaðabótaskyldu. Bótakrefjandi hefur lagt fram gögn sem staðfesta þriggja daga fjarvistir frá vinnu og tekjutap að fjárhæð 55.500 krónur vegna þess og er sú krafa tekin til greina eins og hún er fram sett. Þá liggur fyrir að bótakrefjandi leitaði til slysadeildar vegna áverka sinna og er því tekin til greina krafa um útlagðan kostnað vegna komugjalds að fjárhæð 3.000 krónur. Bótakrefjandi hefur lagt fram kvittun frá efnalauginni Björgu um að ekki hafi tekist að hreinsa föt hans og þau metin ónýt. Þá liggur fyrir yfirlýsing Sævars Karls Ólasonar dags. 21. febrúar 2003 um að jakkaföt, skyrta og bindi sem bótakrefjandi keypti hjá verslun Sævars Karls séu ónothæf. Sambærileg föt kosti nú 112.000 krónur. Ekki liggur fyrir hvaða verð bótakrefjandi greiddi fyrir fatnaðinn við kaup á honum. Verður því að telja tjón hans að þessu leyti ósannað og er þessum lið bótakröfunnar því vísað frá vegna ónógs rökstuðnings. Bótakrefjandi á rétt á miskabótum samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 úr hendi ákærða sem teljast hæfilega ákveðnar 100.000 krónur. Fyrir dóminum lýsti bótakrefjandi því að hann hefði orðið jafn góður á einum mánuði og verða þjáningabætur við það miðaðar og ákvarðast 14.000 krónur. Þá ber ákærða að greiða bótakrefjanda kostnað hans við að halda fram bótakröfu sinni og telst sú fjárhæð hæfilega ákveðin 70.000 krónur að viðbættum virðisaukaskatti 17.150 krónur. Ákærði greiði vexti og dráttarvexti af tildæmdum skaðabótum eins og nánar greinir í dómsorði.
Z hefur krafist skaðabóta að fjárhæð 142.180 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 14. júlí til 22. nóvember 2002 en eftir það dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sbr. 9. gr. sömu laga til greiðsludags. Er krafan sundurliðuð þannig að miskabætur eru að fjárhæð 100.000 krónur, þjáningabætur skv. 3. gr. skaðabótalaga í sex vikur 39.480 krónur og útlagður kostnaður vegna þriggja ferða á slysadeild 2.700 krónur. Ákærði hefur verið sýknaður af þessum þætti málsins þar sem ósannað þykir að hann hafi valdið bótakrefjanda áverkum og er bótakröfu hennar því vísað frá dómi.
Ákærði greiði allan sakarkostnað þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Hilmars Ingimundarsonar hrl., sem eru hæfilega ákvörðuð 150.000 krónur.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Katrín Hilmarsdóttir, fulltrúi lögreglustjóra.
Arnfríður Einarsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Ákærði, Arnar Hauksson, sæti fangelsi í 6 mánuði en fresta skal fullnustu refsivistarinnar skilorðsbundið í 2 ár frá birtingu dómsins að telja og skal refsingin falla niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði X, kt. [ ], 259.650 krónur með vöxtum skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 14. júlí 2002 til 3. janúar 2004 en dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sbr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hrl., 150.000 krónur.