Hæstiréttur íslands

Mál nr. 4/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Miðvikudaginn 4

 

Miðvikudaginn 4. janúar 2006.

Nr. 4/2006.

Sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum

(Karl Gauti Hjaltason sýslumaður)

gegn

X

(Helgi Bragason hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar  1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála  var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 31. desember 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. janúar 2006. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 31. desember 2005, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi til laugardagsins 7. janúar 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Fyrir Hæstarétt hefur verið lögð lögregluskýrsla 3. janúar 2006, þar sem fram kemur að þann dag hafi meðal annars fundist í húsakynnum varnaraðila pakkningar sem lögreglan telur að hafi inni að halda meira en eitt kg af hassi. Með vísan til þess en að öðru leyti til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 31. desember 2005.

Sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum hefur gert þá kröfu að úrskurðað verði að X, [kt.], til heimilis að [...], Vestmannaeyjum, með dvalarstað að [...], Vestmannaeyjum, nú í haldi lögreglunnar í Vestmannaeyjum, verði á grundvelli a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, gert að sæta gæsluvarðhaldi til laugardagsins 7. janúar 2006 kl. 16:00. Um lagaheimildir er vísað til 103. gr. a liðar laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Af hálfu kærða er þess krafist að kröfu um gæsluvarðhald verði hafnað, en til vara að því markaður skemmri tími.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að lögreglan hafi í morgun, laugardaginn 31. desember, kl. 09:30, handtekið X, á dvalarstað sínum að [...], Vestmannaeyjum, í kjölfar þess að mikið magn fíkniefna fannst við leit í bifreiðinni [...] í eigu A, [kt.], og að heimili hennar að [...], Vestmannaeyjum, en efnin hafi hún sagt vera í eigu kærða. Um var að ræða 96 grömm af meintu hassi, auk þess sem haldlagðar voru kr. 52.500 í peningum.

Í framburði A hjá lögreglu kom fram að hún hafi byrjað að selja efni fyrir kærða s.l. sumar og hafi það byrjað fyrir alvöru í júlí eða ágústmánuði. Alls kvaðst A vera búin að selja fyrir kærða um eitt kíló af hassi á þessu tímabili.

Lögregla fann um 80 grömm af meintu hassi á dvalarstað kærða að [...] og að [...] fyrr í dag, auk þess sem þar fundust um 300.000 krónur og jafnvirði 500.000 króna í dollurum. Kærði hefur viðurkennt að vera eigandi þeirra fíkniefna og peninga sem fundust á [...] og að [...]. Kærði neitar að stunda sölu og dreifingu fíkniefna og segir efnin vera til eigin nota, en peningarnir séu tilkomnir sem laun og einnig hafi verið þarna peningar sem hann átti fyrir.

Lögregla kveður misræmi vera á framburði X og A og að miðað við magn fíkniefna og peninga sem fundist hafi verði framburður X að teljast ótrúverðugur. Lögreglu sé nauðsynlegt að staðreyna framburð hans, eftir því sem unnt sé, rannsaka hver sé frumkvöðull og skipuleggjandi brotsins, hvernig fjármögnun efnisins sé háttað og hver standi þar á bak við. Þá sé ekki fullljóst á þessari stundi hvort fleiri kunni að tengjast málinu sem sakborningar eða vitni, en sé svo sé hætta á að X kunni að reyna að hafa áhrif á þá sem og aðra sem handteknir hafa verið. Nauðsynlegt sé að fara yfir bankareikninga X í ljósi þess fjármagns sem fannst við leit hjá honum og verði það í fyrsta lagi mögulegt þann 2. janúar n.k. Þá sé einnig eftir að yfirheyra aðila sem séu á meintum skuldalist sem fannst við leit hjá X. 

Lögregla kveður rökstuddan grun vera til staðar um að X hafi stundað dreifingu og sölu fíkniefna að undanförnu. Nauðsynlegt sé því að krafa þessi nái fram að ganga svo unnt sé að rannsaka málið án þess að aðilar nái að tala sig saman og hugsanlega að spilla sakargögnum eða hafa áhrif á vitni.

Verið sé að rannsaka ætluð brot X á lögum nr. 65/1974 um ávana og fíkniefni sem geti varðað allt að 6 ára fangelsisrefsingu ef sannast. Rannsóknin sé skammt á veg komin.

Gæsluvarðhalds sé krafist með vísan til ofanritaðra rannsóknarhagsmuna, svo og með vísan til a liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Kærði er grunaður um brot gegn fíkniefnalöggjöf og geta brot þessi varðað fangelsisrefsingu allt að 6 árum ef sök sannast. Hann hefur gengist við að vera eigandi  fíkniefna sem fundust á dvalarstað hans og einnig gengist við að eiga  peninga sem haldlagðir hafa verið, alls um 800.000 krónur. Hér fyrir dómi skýrði kærði frá því að dollarana, jafnvirði um 500.000 króna, hefði hann tekið út af gjaldeyrisreikningi hjá Íslandsbanka og þeir hafi verið ætlaðir til kaupa á fjölskyldubíl frá Bandaríkjunum. Kærði hefur alfarið neitað að stunda sölu og dreifingu á fíkniefnum. Mikið ber í milli framburðar kærða og A og miðað við magn fíkniefna sem fundist hefur og þá fjárhæð sem haldlögð hefur verið, verður framburður kærða að teljast ótrúverðugur.  Verulegar líkur eru fyrir því að kærði hafi stundað sölu og dreifingu fíkniefna þó hann neiti því. Brot þau sem kærði er grunaður um geta varðað við lög nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni og liggur fangelsisrefsing við slíkum brotum, allt að 6 árum.

Með hliðjsón af því að rannsókn málsins er á frumstigi, það er umfangsmikið og skýringar kærða þykja ekki fyllilega trúverðugar, verður að fallast á það með lögreglustjóra að hætta sé á því að kærði geti torveldað rannsókn málsins, fari hann frjáls ferða sinna, meðal annars með því að hafa samband við aðra sem kunna að tengjast meintum brotum, einnig að hann gæti komið hugsanlegum sönnunargögnum undan og haft áhrif á vitni. Rannsóknarhagsmunir styðja þannig kröfu lögreglustjóra um að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Er því fallist á að skilyrði a liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála séu uppfyllt og er krafa lögreglustjórans í Vestmannaeyjum tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði, enda þykir tímalengd í hóf stillt.

Úrskurðinn kveður upp Ásta Stefánsdóttir, settur héraðsdómari.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærði, X, [kt.], skal sæta gæsluvarðhaldi til laugardagsins 7. janúar 2006, kl. 16:00.