Hæstiréttur íslands
Mál nr. 426/2006
Lykilorð
- Gjafsókn
- Kærumál
|
|
Fimmtudaginn 17. ágúst 2006. |
|
Nr. 426/2006. |
Olly Sveinbjörg Aðalgeirsdóttir(Guðjón Ármann Jónsson hrl.) gegn Fabio Chino Quaradeghini (enginn) |
Kærumál. Gjafsóknarkostnaður.
Kærður var úrskurður héraðsdómara um gjafsóknarkostnað eftir að máli hafði lokið með dómsátt. Krafðist O hækkunar á honum til samræmis við málskostnaðarreikning lögmanns hennar. Ekki var talið að nauðsyn hafi borið til svo verulegs vinnuframlags, sem reikningurinn tók mið af, og var hæfileg þóknun ákveðin 600.000 krónur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. júlí 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. ágúst sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 6. júlí 2006, þar sem kveðið var á um málskostnað í máli varnaraðila á hendur sóknaraðila og gjafsóknarkostnað hennar, en að öðru leyti var því lokið með dómsátt. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að ákvæði úrskurðarins um gjafsóknarkostnað verði breytt til hækkunar „til samræmis við framlagðan málskostnaðarreikning lögmanns kæranda.“ Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Mál þetta var höfðað 21. september 2005 af varnaraðila, sem krafðist þess að sóknaraðila yrði gert að greiða sér skuld að fjárhæð 2.000.000 krónur með dráttarvöxtum af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. september 2002 til greiðsludags, auk málskostnaðar. Sóknaraðili sótti ekki þing við þingfestingu málsins og var stefna árituð um aðfararhæfi 4. október 2005. Varnaraðili höfðaði annað mál gegn sóknaraðila 1. nóvember 2005 til staðfestingar kyrrsetningu, sem sýslumaðurinn á Akureyri gerði hjá henni 28. september sama ár til tryggingar kröfunni, sem fyrra málið varðaði. Sóknaraðili tók til varna í þessu síðara máli og fékk jafnframt það fyrra endurupptekið eftir ákvæðum XXIII. kafla laga nr. 91/1991, en að því búnu voru málin sameinuð í þinghaldi 5. desember 2005. Aðilarnir gerðu síðan dómsátt í málinu 29. júní 2006, þar sem sóknaraðili hét að greiða varnaraðila 1.125.000 krónur ekki síðar en 10. júlí sama ár, jafnframt því sem staðfest var kyrrsetning fyrir þeirri fjárhæð í nánar tilgreindri eign sóknaraðila. Ágreiningur stóð eftir um málskostnað, sem lagður var í úrskurð héraðsdómara ásamt ákvörðun um gjafsóknarkostnað sóknaraðila. Úr þessu var leyst með hinum kærða úrskurði, þar sem málskostnaður var felldur niður milli aðilanna, en gjafsóknarkostnaður sóknaraðila ákveðinn samtals 638.372 krónur, þar á meðal málflutningsþóknun lögmanns hennar, 543.286 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Kæra sóknaraðila lýtur ekki að ákvörðun málskostnaðar í héraði og er ákvæði hins kærða úrskurðar um það efni því ekki til endurskoðunar.
Í þinghaldinu, þar sem sátt var gerð í málinu, var lagður fram málskostnaðarreikningur lögmanns sóknaraðila. Samkvæmt honum hafði lögmaðurinn varið 74 vinnustundum í málið og fylgdi sundurliðun þeirra í sérstakri tímaskýrslu, en fyrir hverja klukkustund áskildi hann sér 12.000 krónur, þannig að þóknun nam 888.000 krónum. Við þá fjárhæð lögðust 217.560 krónur í virðisaukaskatt. Að auki var útlagður kostnaður, sem lagðar voru fram kvittanir fyrir og nam 95.086 krónum, og var því heildarfjárhæð reikningsins 1.200.646 krónur. Þegar gætt er að umfangi málsins og þeim hagsmunum, sem í húfi voru, er ekki unnt að líta svo á að nauðsyn hafi borið til svo verulegs vinnuframlags, sem reikningur lögmannsins tekur mið af. Með tilliti til þessa er þóknunin hæfilega ákveðin 600.000 krónur og hefur þá ekki verið lagður virðisaukaskattur við fjárhæð hennar. Samkvæmt 2. mgr. 127. gr. laga nr. 91/1991 kemur aðeins í hlut dómstóla að ákveða þóknun handa lögmanni gjafsóknarhafa og á því ekki að réttu lagi að taka afstöðu til útlagðs kostnaðar hans í dómi eða úrskurði.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað skal vera óraskað.
Allur gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, Ollyjar Sveinbjargar Aðalgeirsdóttur, fyrir héraðsdómi greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 600.000 krónur.
Kærumálskostnaður fellur niður.