Hæstiréttur íslands
Mál nr. 35/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
- Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi
|
|
Fimmtudaginn 24. janúar 2008. |
|
Nr. 35/2008. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu(Jón H. B. Snorrason, saksóknari) gegn X (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Kærumál. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi.
Úrskurður héraðsdóms um að X sætti áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var felldur úr gildi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. janúar 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. janúar 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 25. janúar 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili kærði úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 22. janúar 2008 og krefst þess aðallega að varnaraðila verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 29. janúar 2008 kl. 16, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Með dómi Hæstaréttar 16. janúar 2008 í máli nr. 20/2008 var varnaraðila gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til 22. janúar 2008. Sóknaraðili hefur ekki á fullnægjandi hátt skýrt ástæðu þess að sá tími hefur ekki dugað til rannsóknar á þeim atriðum málsins, sem hætta var talin á að varnaraðili gæti torveldað rannsókn á. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. janúar 2008.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur lagt fram kröfu þess efnis að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi með vísan til a. liðar 103. gr. laga nr. 19/1991, allt til þriðjudagsins 29. janúar nk. kl. 16:00.
Í greinargerð kemur fram að hinn 10. janúar sl. A, kt. [...], kært X sambýlismann sinn fyrir ítrekuð kynferðisbrot sem hún kvað hafa staðið yfir frá vorinu 2005. Hafi síðasta brot átt sér stað aðfaranótt 5. janúar 2008. Kæran lýtur að því að X hafi ítrekað frá vorinu 2005 fengið ókunna karlmenn, sem hann komst í samband við á netinu eða annan hátt, til þess að eiga kynferðislegt samneyti við A, stundum fleiri saman. Þetta hafi verið andstætt vilja hennar. Auk þess greindi A frá því að kærði hafi oft haft við hana kynmök gegn vilja hennar. Hafi fjölmörg brot átt sér stað á sameiginlegu heimili þeirra að Y.
A lýsti því að mennirnir hafi átt við hana kynmök með því að setja lim í leggöng hennar og endaþarm og að hún hafi m.a. þurft að veita þeim munnmök. Kærði hafi stundum verið þátttakandi í hinum kynferðislegu athöfnum. Hann hafi lagt bann við því að verjur yrðu notaðar.
Kvaðst hún hafa orðið að láta að vilja kærða ellegar hafi hún verið beitt líkamlegu ofbeldi af hans hálfu. Fram kom að hann hafi myndað kynferðislegar athafnir mannanna með A. Hún kvað kærða m.a. hafa sett inn auglýsingu á Þ til þess að komast í samband við karlmenn sem voru reiðubúnir til að taka þátt í kynferðislegum athöfnum með þeim.
Í skýrslutöku af kærða hinn 11. janúar sl. staðfesti hann frásögn A um kynmök með ókunnugum mönnum og upptökur af þeim en kvað hann og A hafa tekið sameiginlega ákvörðun um hinar kynferðislegu athafnir. Þá hafi A oft átt frumkvæði af samskiptum við hina ókunnugu karlmenn. Hann kvað þessa menn hafa svarað auglýsingu hans og A á Þ og í framhaldinu mælt sér mót við þau og átt kynmök við A. Á meðal gagna málsins er myndefni og ljósmyndir þar sem m.a. má sjá óþekkta karlmenn eiga kynmök við A. Þar sést kærði ýmist stýra því sem þar fer fram eða taka þátt í kynferðislegum athöfnum. Á sumum myndum má sjá á henni áverka. Þá er einnig á meðal gagna málsins mikið myndefni sem sýnir A stunda sjálfsfróun, m.a. með hjálpartækjum.
Kærði var úrskurðaður í gæsluvarðhald hinn 11. janúar sl. vegna meintra kynferðisafbrota og var það staðfest af Hæstarétti allt til 22. janúar nk. Hætta þótti á því að hann gæti torveldað rannsókn á málsatvikum gengi hann laus, sbr. a. liður 103. gr. laga nr. 19/1991.
Af hálfu lögreglustjóra er á það bent að til meðferðar sé hjá Héraðsdómi Reykjavíkur mál á hendur kærða, þar sem hann er ákærður fyrir líkamsárás á hendur A og föður sínum, en kærði er ákærður fyrir að hafa beitt hann ofbeldi þegar hann hugðist koma A til aðstoðar. Samkvæmt áverkavottorði, sem er á meðal gagna málsins, voru afleiðingar árásar kærða á A m.a. rifbeinsbrot og sprungin hljóðhimna, auk þess sem hún var með fjölda marbletta víðsvegar um líkamann. Þá er þess getið að hún hafi verið með gamla áverka á efri og neðri útlimum. Hún hefur nú lagt fram kæru vegna annars ofbeldisbrots kærða gagnvart henni sem átti sér stað í desember sl.
Unnið hefur verið sleitulaust að rannsókn málsins frá því að kæra brotaþola barst og stendur hún enn yfir. Hinn 16. janúar sl. úrskurðaði Héraðsdómur Reykjavíkur, að beiðni lögreglustjórans, að Z., sem heldur úti vefsíðunni Þ væri skylt að afhenda upplýsingar um IP. tölur að baki notendanafna sem fram höfðu komið í skýrslutökum af kærða og brotaþola. Upplýsingar frá Z lágu fyrir föstudaginn 18. janúar sl. auk þriggja annarra IP-talna. Óskað var eftir því í gærmorgun að Síminn hf. veitti upplýsingar um nöfn að baki þessara IP talna. Upplýsingarnar liggja ekki enn fyrir.
Eins og fram kemur í gögnum málsins var lagt hald á talsvert magn mynda og tölvugagna á heimili kærða þegar hann var handtekinn. Lauk rannsókn tæknideildar 18. janúar sl. Þann sama dag úrskurðaði Héraðsdómur Reykjavíkur, að beiðni lögreglustjóra, um afhendingu símagagna í þágu rannsóknar málsins.
Við skýrslutöku af A í morgun komu fram upplýsingar um gróft kynferðisbrot kærða gegn dóttur sinni. Samtal við barnaverndaryfirvöld staðfesti frásögn hennar að vissu leyti. Verður þetta rannsakað sérstaklega.
Eins og rakið hefur verið beinist rannsókn máls þessa m.a. að því að rannsaka þátt hinna ókunnu manna en upplýsingar um nöfn sex manna munu liggja fyrir innan skamms. Afar mikilvægt er að skýrslur verði teknar af þeim á meðan kærði situr í gæsluvarðhaldi til þess að koma í veg fyrir að kærði geti haft áhrif á framburð þeirra.
Að mati lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er rökstuddur grunur um að kærði hafi framið verknað sem fangelsisrefsing er lögð við, sbr. 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá telur lögreglan skilyrði a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 uppfyllt þar sem talið er að kærði geti torveldað rannsókn málsins gangi hann laus. Ekki er talin þörf á því að kærði sæti áfram í einangrun verði á gæsluvarðhaldsvistina fallist.
Með vísan til greinargerðar lögreglustjóra og fyrirliggjandi gagna er á það fallist að fram sé kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi framið brot sem varðað geti fangelsisrefsingu allt að 16 árum. Rannsókn beinist nú m.a. að því að afla upplýsinga frá sex einstaklingum um þátt þeirra í meintu ólögmætu athæfi kærða, en nöfn þeirra einstaklinga liggi fyrir innan skamms. Þá kemur fram að brotaþoli hafi við skýrslutöku í morgun komið fram með upplýsingar um gróft kynferðisbrot kærða gegn 11 ára dóttur sinni og beinist rannsóknin nú einnig að meintu broti kærða gagnvart dóttur sinni.
Fallast má á að kærði geti torveldað rannsókn málsins með því að hafa áhrif á vitni og eða hugsanlega vitorðsmenn, gangi hann laus. Eru því uppfyllt skilyrði a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, til þess að verða við kröfu lögreglustjóra um áframhaldandi gæsluvarðahald yfir kærða, en rétt þykir að gæsluvarðhaldinu verði markaður sá tími sem í úrskurðarorði greinir.
Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærða, X, er gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 25. janúar nk. kl. 16:00.