Hæstiréttur íslands
Mál nr. 286/2009
Lykilorð
- Vinnuslys
- Líkamstjón
- Skaðabætur
- Dráttarvextir
- Sakarskipting
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 4. febrúar 2010. |
|
Nr. 286/2009. |
Bjarni Thorarensen Jóhannsson (Þorsteinn Hjaltason hdl.) gegn Fossvirki Sultartanga sf. (Kristín Edwald hrl.) |
Vinnuslys. Líkamstjón. Skaðabætur. Dráttarvextir. Sakarskipting. Gjafsókn.
B krafði F sf. um bætur vegna slyss sem hann hafði orðið fyrir við vinnu sína er hann féll af palli við íbúðarskála á vinnusvæði við Sultartangavirkjun. Deilt var um atvik að slysinu, m.a. um stærð pallsins og hæð hans frá jörðu. Í málinu lá fyrir að Vinnueftirlit ríkisins hefði ekki sinnt skyldu sinni með því að skoða vettvang slyssins. Var F sf. látinn bera hallann af því að hafa ekki tryggt sér sönnun um þessi umdeildu atvik þegar hann fjarlægði síðar mannvirki sín af svæðinu. Þá var talið að F sf. hefði sýnt af sér gáleysi með því að hafa ekki komið fyrir handriði á brúnum pallsins og við stigann niður af honum. Fallist var á skaðabótaskyldu F sf. á tjóni B en B látinn bera þriðjung tjóns síns sjálfur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. maí 2009. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 4.470.078 krónur með 2% ársvöxtum frá 25. apríl 2004 til 9. apríl 2007, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum var veitt vegna meðferðar málsins fyrir héraðsdómi.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.
Áfrýjandi hefur stefnt Sjóvá-Almennum tryggingum hf. til réttargæslu fyrir Hæstarétti.
Aðila greinir ekki á um að áfrýjandi hafi orðið fyrir slysi 18. desember 1998 við íbúðarskála á vinnusvæði við Sultartangavirkjun, þar sem hann var við vinnu hjá stefnda. Stefndi hefur heldur ekki borið brigður á að áfrýjandi hafi slasast við fall á palli sem mun hafa verið framan við útgöngudyr skálans. Hins vegar telur stefndi að áfrýjandi hafi fallið uppi á pallinum en ekki í tröppum niður af honum eins og áfrýjandi heldur fram. Í málflutningi áfrýjanda kom fram að hann taldi pallinn hafa verið lítinn, ekki nema um það bil einn metra á hverja hlið. Stefndi taldi pallinn hafa verið stærri. Þá greindi aðila einnig á um hæð pallsins frá jörðu og um fjölda þrepa í stiganum niður á jafnsléttu. Ekki liggja fyrir í málinu aðrar upplýsingar um pall þennan en stefndi fjarlægði mannvirki þessi af svæðinu tæpu ári eftir slysið án þess að tryggja sönnun um stærð og gerð pallsins, meðal annars um hæð hans frá jörðu og umbúnað við tröppurnar niður af honum.
Stefndi tilkynnti slysið til Vinnueftirlits ríkisins 8. janúar 1999. Fyrir liggur að Vinnueftirlitið sinnti ekki skyldu sinni samkvæmt 81. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum til að fara á staðinn og kanna vettvang slyssins. Stefnda hlaut að hafa verið ljóst að slík könnun hafði ekki farið fram þegar hann fjarlægði mannvirki sín af svæðinu. Verður hann því látinn bera áhættuna af því að hafa ekki tryggt sönnun um gerð pallsins og hæð að því leyti sem aðila greinir á um hana samkvæmt því sem að framan segir. Verður lýsing áfrýjanda því lögð til grundvallar.
Ágreiningslaust er að ekki var handrið á pallinum eða við stigann sem áfrýjandi kveðst hafa fallið í. Umræddur pallur var við íbúðarskála á hálendissvæði þar sem alltaf mátti búast við snjó og hálku. Verður það talið til gáleysis af hálfu stefnda að hafa ekki komið fyrir handriði á brúnum pallsins og við stigann niður af honum. Telja verður að áfrýjandi hefði getað forðast slysið ef slíku handriði hefði verið til að dreifa. Verður því fallist á með áfrýjanda að stefndi beri skaðabótaábyrgð á því tjóni sem áfrýjandi varð fyrir umrætt sinn.
Áfrýjandi var 27 ára á slysdegi og hafði aflað sér menntunar sem trésmiður. Hann hafði unnið hjá stefnda á þessu vinnusvæði í tæpa fjóra mánuði, þegar slysið varð, og var því vel kunnugur staðháttum við umræddan pall. Ekkert liggur fyrir í málinu um að áfrýjandi hafi sinnt þeim skyldum vegna umbúnaðar við pallinn, sem um getur í 26. gr. laga nr. 46/1980. Verður hann af þessum ástæðum látinn bera þriðjung tjóns síns sjálfur.
Aðila greinir hvorki á um afleiðingar slyssins fyrir starfsorku áfrýjanda né útreikning á tjóni hans. Verður því lagt til grundvallar að tjón hans nemi þeirri fjárhæð sem hann krefst, 4.470.078 krónum. Verður stefndi dæmdur til að greiða honum 2/3 hluta þessarar fjárhæðar eða 2.980.052 krónur. Stefndi hefur ekki mótmælt vaxtakröfu áfrýjanda fram að upphafsdegi kröfu hans um dráttarvexti og verður hún tekin til greina. Upphafsdagur dráttarvaxtakröfu áfrýjanda er 9. apríl 2007, sem er einum mánuði eftir að áfrýjandi sendi útreiknaða kröfu sína til réttargæslustefnda. Stefndi hefur mótmælt þessu og telur að dráttarvextir eigi að dæmast frá dómsuppsögu. Með vísan til 9. gr. laga nr. 38/2001 verður krafa áfrýjanda um upphafsdag dráttarvaxta tekin til greina.
Um gjafsóknarkostnað í héraði fer sem í dómsorði greinir. Með vísan til 1. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefndi dæmdur til að greiða málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Stefndi, Fossvirki - Sultartangi sf., greiði áfrýjanda, Bjarna Thorarensen Jóhannssyni, 2.980.052 krónur með 2% ársvöxtum frá 25. apríl 2004 til 9. apríl 2007, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um gjafsóknarkostnað skulu vera óröskuð að öðru leyti en því að þóknun lögmanns áfrýjanda fyrir flutning málsins í héraði ákveðst 500.000 krónur.
Stefndi greiði í ríkissjóð 1.340. 391 krónu vegna málskostnaðar í héraði.
Stefndi greiði áfrýjanda 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. mars 2009.
Mál þetta, sem dómtekið var 10. febrúar 2009, er höfðað 22. apríl 2008
Stefnandi er Bjarni Thorarensen Jóhannsson, Hafnarstræti 100, Akureyri.
Stefndi er Fossvirki-Sultartangi sf., Engjateigi 7, Reykjavík.
Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringlunni5, Reykjavík, er stefnt til réttargæslu.
Dómkröfur
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 4.470.078 krónur, ásamt vöxtum samkvæmt. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1988 frá 25. apríl 2004 til 9. apríl 2007, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda, eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál, samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Stefndi krefst þess aðallega að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati dómsins.
Til vara gerir stefndi þá kröfu að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að málskostnaður verði felldur niður.
Engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefnda og hann gerir engar kröfur á hendur stefnanda, en styður kröfur og málflutning stefnda.
Málavextir
Málsatvik eru þau að stefnandi kveðst hafa lent í slysi hinn 18. desember 1998 er hann féll í tröppu við íbúðarskála við Sultartangavirkjun í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Stefnandi er menntaður trésmiður og starfaði hjá stefnda í tæpa fjóra mánuði við byggingu Sultartangavirkjunar. Stefndi er verktakafyrirtæki og sá um ýmsa þætti í byggingu virkjunarinnar sem reist var á árunum 1997 til 2000. Þegar óhappið átti sér stað hafði stefnanda verið sagt upp störfum hjá stefnda og átti hann að ljúka störfum sama dag, þ.e. hinn 18. desember 1998.
Stefnandi lýsir slysinu þannig að 18. desember 1998, um kl. 6:45 hafi hann gengið út úr svefnskála fyrir trésmiði, sem voru að vinna hjá Fossvirki við Sultartangavirkjun. Hann hafi þurft að ganga niður um það bil 10 tröppur. Kalt hafi verið í veðri og hafi snjór og hálka verið á tröppunum því þær höfðu ekki verið mokaðar eftir nóttina. Ekkert handrið hafi verið á stiganum. Stefnandi kveðst hafa runnið til og hafi ekki getað gripið í neitt til að styðja sig og hafi fallið illa niður tröppurnar. Hann hafi reynt að harka af sér, en um hádegi hafi hann verið orðinn viðþolslaus og hafi þá leitað til hjúkrunarfræðings, sem starfaði við heilsugæsluna, sem rekin var í tengslum við virkjunarbygginguna. Fram kemur í greinargerð stefnda að umrædd hjúkrunarkona hafi starfað á virkjanasvæðinu á vegum Landsvirkjunar og hafi ekki haft nein tengsl við stefnda. Stefnandi kveður hjúkrunarfræðinginn hafa sagt sér að hann væri óvinnufær og hefði ráðlagt honum hætta að vinna og sjá til hvernig þetta þróaðist. Stefnandi kveðst hafa verið sárþjáður. Hann hafi fengið bólgueyðandi lyf og hafi farið í koju við svo búið.
Stefnandi kveðst, á þessum tíma, ekki hafa verið að hugsa um bótarétt sinn eða aðstæður á slysstað. Hann telur hins vegar að stefndi, Fossvirki, hefði átt að gera það, sbr. 79. gr. laga nr. 46/1980 en það hafi stefndi ekki gert.
Stefndi Fossvirki tilkynnti ekki slysið til Vinnueftirlits ríkisins fyrr en 8. janúar 1999, eða 21 degi eftir að slysið varð. Vegna þessa dráttar á tilkynningu rannsakaði Vinnueftirlitið ekki slysið, eins og kemur fram í bréfi Vinnueftirlitsins frá 17. nóvember 2000. Lögreglu var ekki tilkynnt um slysið og fór engin rannsókn fram af hennar hálfu. Kemur fram í bréfi lögreglunnar í Árnessýslu, dags. 27. febrúar 2001, að ekki væri hægt að framkvæma rannsókn þar sem öll hús hefðu verið fjarlægð af staðnum enda framkvæmdum á svæðinu löngu lokið.
Stefndi bendir á að stefnandi hafi ekki tilkynnt stefnda um óhappið fyrr en 8. janúar 1999. Sama dag hafi stefndi tilkynnt um óhappið til Vinnueftirlits ríkisins. Hafi efni tilkynningarinnar verið byggt á frásögn stefnanda um óhappið. Samkvæmt tilkynningunni átti óhappið sér stað kl. 16.00 þegar stefnandi var á heimleið. Í lýsingu á áverkum stefnanda komi fram að hann hafi orðið fyrir tognun eða liðhlaupi. Þá segi að stefnandi hafi áfram verið vinnufær eftir slysið.
Með bréfi, dags. 30. júní 2000, hafnaði tryggingarfélag stefnda, réttargæslustefndi, greiðslu úr frjálsri ábyrgðartryggingu stefnda á þeirri forsendu að ekki yrði séð á gögnum málsins að slysið yrði rakið til atvika sem stefndi bæri ábyrgð á. Stefnandi er ekki sammála þessari niðurstöðu og kveðst eiga þann kost einan að höfða mál þetta.
Eftir óhappið á fyrri hluta árs 1999 hóf stefnandi að vinna sjálfstætt við trésmíðar. Um haustið réð hann sig hjá byggingarmeistara á Akureyri. Starfaði hann þar allt til hann lenti í vinnuslysi við Hrafnagil í Eyjafirði hinn 16. nóvember árið 2000.
Með matsbeiðni til Héraðsdóms Norðurlands eystra, dags. 27. maí 2004, fór stefnandi fram á að dómkvaddir yrðu tveir matsmenn til að skoða og meta afleiðingar af völdum slyssins við Sultartanga hinn 18. desember 1998 og slyss sem stefnandi varð fyrir í Hrafnagili hinn 16. nóvember 2000. Matsgerðin lá fyrir hinn 4. ágúst 2005 en stefnandi sætti sig ekki við niðurstöðu þess og óskaði eftir yfirmati.
Yfirmatsgerð lá fyrir 13. desember 2006 en þar kom m.a. fram að stefnandi hefði aftur orðið vinnufær eftir óhappið við Sultartanga og hefði unnið tæpa 10 tíma dag eða allt þar til hann lenti í vinnuslysinu árið 2000. Í niðurstöðu yfirmatsmanna sagði að slysið við Sultartanga hefði ekki komið í veg fyrir að stefnandi starfaði áfram við smíðar. Engu að síður komust yfirmatsmenn að þeirri niðurstöðu að stefnandi hefði við fyrra slysið orðið fyrir varanlegri örorku. Niðurstöður yfirmatsmanna vegna slyssins hinn 18. desember 1998 voru að öðru leyti eftirfarandi:
1. Tímabundin óvinnufærni taldist vera 100% frá slysdegi til og með 16. aprí1 1999.
2. Stöðugleikapunktur var ákveðinn 16. aprí1 1999 en þá hafi ekki verið að vænta
frekari bata hjá stefnanda.
3. Stefnandi hafi verið veikur án þess að vera rúmliggjandi frá slysdegi til og með 16. aprí1 1999.
4. Varanlegur miski samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga væri 8 stig.
5. Tímabundin varanleg örorka stefnanda væri 100% frá slysdegi til og með 16. aprí1 1999. Varanleg læknisfræðileg örorka stefnanda teldist vera 8%.
6. Varanleg örorka stefnanda samkvæmt 5. gr. skaðabótalaga væri 12%.
Stefnandi kveður langan tíma hafa tekið að sjá fyrir endanlegar afleiðingar slyssins og margar matsgerðir hafi verið gerðar. Afleiðingar slyssins hafi endanlega verið staðfestar með yfirmatsgerð dómkvaddra matsmanna, sem lá fyrir í byrjun árs 2007. Á þessu mati byggir stefnandi kröfur sínar í málinu.
Málsástæður stefnanda og lagarök
Stefnandi byggir kröfur sína á því að stiginn sem lá frá vistarverum starfsmanna hafi ekki verið forsvaranlegur og sé stefndi því ábyrgur samkvæmt sakarreglunni. Ekkert handrið hafi verið á stiganum og á honum hafi verið snjór og hálka. Stiginn hafi því verið hættulegur. Slysið hafi átt sér stað um hávetur og hafi bæði verið snjór og klaki á stiganum. Stiginn hafi verið úr timbri. Stefndi virðist ekki hafa fengið neinn til að sjá um að ekki væri hálka í stiganum eða þá að sá sem átti að sjá um það sinnti ekki sínu starfi nægilega vel. Af þeim sökum hafi verið mikil hálka í stiganum þennan morgun þegar stefnandi kom úr svefnskálanum og hugðist fara niður stigann.
Stefndi hafi fallið í stiganum og meiðst vegna þess að ekkert handrið var á stiganum og hafði myndast þar mikil hálka.
Góður og gegn atvinnurekandi hefði ekki látið það afskiptalaust að klaki og snjór söfnuðust í stiga sem hann vissi að starfsmenn hans notuðu nývaknaðir eldsnemma á morgnana. Hins vegar sé meginástæða slyssins sú að ekkert handrið var á stiganum. Starfsmenn höfðu litla möguleika á því að varast hálkuna vegna þess að þeir höfðu ekkert til að styðjast við í stiganum.
Stefndi hafi ekki sinnt þeim skyldum sínum að draga úr hættu á slysum með því að hafa stigann með handriði og halda honum hálkulausum og sé það gáleysi og beri hann því ábyrgð á grundvelli almennra reglna skaðabótaréttar. Ábyrgðin sé byggð á sakarreglunni og reglum um ábyrgð atvinnurekanda á skaðaverkum starfsmanna sinna, vinnuveitandaábyrgðarreglu.Við gáleysismatið séu þessi atriði oft höfð til hliðsjónar:
a. Hve mikil hætta sé á tjóni, sbr. H.1977:646.
Augljóst sé að mikil hætta sé á tjóni þar sem að stórvarasamt sé að fara niður fljúgandi hálan handriðslausan stiga. Leiði það til þess að um gáleysi sé að ræða og sem leiði til bótaábyrgðar á öllu tjóni sem hlýst af því.
b. Hve mikið tjón líklegt.
Ennfremur sé augljóst að hætta sé á miklu tjóni, því ef menn detta í hálum stiga þá geti fallið haft mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér. Leiði það til þess að um gáleysi sé að ræða og sem leiði til bótaábyrgðar á öllu tjóni sem af því hlýst.
e. Hve auðvelt er að gera sér grein fyrir hættu á tjóni.
Það liggi í augum uppi að fljúgandi háll handriðslaus stigi sé stórvarasamt fyrirbæri. Leiði það til þess að um gáleysi sé að ræða sem leiði til bótaábyrgðar á öllu tjóni sem af því hlýst.
d. Hvaða ráðstafanir er hægt að gera til að koma í veg fyrir tjón.
Mjög auðvelt og ódýrt sé að koma í veg fyrir hættuna og þar með tjónið. Það sé einfalt að koma í veg fyrir hálku með því að fela starfsmanni að halda stiganum klakalausum, með því að moka hann, berja klakkann af honum, setja á hann salt og/eða sand. Ennfremur hefði verið einfalt og ódýrt að setja handrið á stigann. Þetta hafi ekki verið gert og leiði það til þess að um gáleysi sé að ræða sem leiði til bótaábyrgðar á öllu tjóni sem af því hlýst.
Reglufest saknæmi.
Sök stefnda sé ljós eflir almennu sakarmati, sbr. ofangreint, en auk þess hafi hann ekki fylgt settum öryggisreglum og sé saknæmið því alveg ljóst, sbr. reglur um reglufest saknæmi, sem komið hafi fram í Hæstaréttardómum í seinni tíð, t.d. H 1995:1052 og H 1997:1388.
Í reglum nr. 547/1996 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð segi í 1. tl. 8.gr.:
„Til að tryggja öryggi og heilsu starfsmanna á byggingarvinnustöðum skulu atvinnurekendur/verktakar gera ráðstafanir sem samræmast kröfunum sem settar eru fram í IV. viðauka og hafa hliðsjón af leiðbeiningum samræmingaraðila.“
Í 21. gr. B-hluta IV viðauka segi að á „vinnuflötum, verkpöllum, tröppum, göngubrúm o.s.frv. skal vera handrið.“
Í byggingarreglugerð nr. 441/1998 segi í grein 202.14: „Handrið skal að jafnaði setja báðum megin á útidyratröppum, kjallaratröppum og öðrum tröppum í aðkomuleiðum að húsum. Slík handrið skulu að jafnaði ekki vera lægri en 0,90 m á hæð.“
Fyrrnefnd ljósmynd sýni að ekkert handrið var á stiganum sem lá út úr svefnskálanum. Stefndi hafi því hvorki farið eftir umræddum reglum nr. 547/1996 né fyrrgreindum ákvæðum í byggingarreglugerð og beri skaðabótaábyrgð á því og því ætti að vera greiðsluskylda úr frjálsri ábyrgðartryggingu stefnda hjá réttargæslustefnda vegna slyssins.
Stefndi sé með ábyrgðartryggingar sínar hjá réttargæslustefnda.
Sönnunarbyrði snýst við
Þau gögn sem liggi fyrir séu skýrsla sem stefnandi gaf hjá lögreglu og ljósmynd af svefnskála. Réttargæslustefndi segi í bréfi sínu, þar sem bótaskyldu var hafnað, að af gögnum málsins verði ekki séð að slysið verði rakið til atvika sem Fossvirki Sultartangi sf. beri skaðabótaábyrgð á. Gögn málsins séu af afar skornum skammti vegna þess að stefndi hafi ekki sinnt lögboðnum skyldum sínum samkvæmt 79. gr. laga nr. 46/1980 um að tilkynna slysið til Vinnueftirlits ríkisins. Þá hafi stefndi ekki tilkynnt lögreglu um slysið og hafi því engin rannsókn farið fram samkvæmt 3. mgr. 66. gr. laga nr. 19/1991. Engin rannsókn hafi því fram á vettvangi. Ef upp komi deila um málsatvik eða um aðstæður á slysstað og skortur sé á sönnunargögnum verði stefndi af þessum sökum að bera hallann af slíku. Fjöldi dóma hafi verið kveðinn upp í Hæstarétti um svipuð mál þar sem að tjónvaldar hafa verið látnir bera hallann af skorti á sönnunum um málsatvik ef þeir hafa vanrækt tilkynningarskyldu sína, svo sem Hæstaréttardómur nr. 662/2006.
Réttargæslustefndi segir einnig í bréfi sínu að Fossvirki Sultartanga hafi ekki verið tilkynnt um slysið fyrr en 8. janúar 1999. Staðfest sé bæði í lögregluskýrslu og í tilkynningu stefnda til Tryggingastofnunar ríkisins að stefnandi leitaði strax til hjúkrunarfræðings sem starfaði við heilsugæsluna sem starfrækt var á virkjunarsvæðinu. Að ráðum hennar hætti stefnandi vinnu um hádegi og tilkynnti það yfirmönnum sínum. Það sé því rangt sem tryggingafélagið haldi fram að stefnda hafi ekki verið kunnugt um slysið fyrr en 21 degi síðar. Einnig sé vert að taka fram að ef lögreglurannsókn hefði farið fram hefði vitnisburður hjúkrunarkonunnar hugsanlega getað leitt í ljós hvort hún tilkynnti slysið til stefnda eður ei. Aftur komi að því að stefndi verði að bera hallann af því að engin lögreglurannsókn fór fram vegna þess að lögreglu var ekki tilkynnt um slysið.
Sundurliðun dómkrafna
Höfuðstóll skaðabótakröfu:
Stefnandi kveður bætur reiknaðar samkvæmt yfirmatsgerð, dags. 13. desember 2006, á grundvelli skaðabótalaga nr. 50/1993. Miðað sé við lögin eins og þau voru eftir breytingu 1996 en fyrir breytingu árið 1999.
Þjáningar, samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993:
Samkvæmt yfirmatsgerðinni hafi stefnandi verið veikur í 119 daga án þess að vera rúmliggjandi. Samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga sé grunnfjárhæð bótafjárhæðar 700 kr. fyrir hvern dag sem tjónþoli er veikur án þess að vera rúmliggjandi en upphæðir skulu uppfærast eftir lánskjaravísitölu til þess dags er bótafjárhæðin er ákveðin, sbr. 15. gr. sömu laga. Þegar lögin tóku gildi, 1. júlí 1993, hafi lánskjaravísitala verið 3282 stig en í mars 2007, þegar bótafjárhæðin var ákveðin, hafi hún verið 5292 stig. Þegar búið sé að uppfæra grunnfjárhæðina standi hún í 1129 kr., en samkvæmt 15. gr. s.l. skal upphæðin standa á heilum tug króna og verði því 1130 kr. og sé það sú upphæð sem miðað er við. Krafa um þjáningabætur sé því 134.470 kr. (700*5292/3282 = 1129 --- 1130* 119=134.470 kr.)
Miskabætur, samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993:
Samkvæmt yfirmatsgerðinni sé varanlegur miski 8%. Samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga sé grunnfjárhæð miska miðað við aldur á tjónsdegi 4.000.000 kr. en skal uppfærast eftir lánskjaravísitölu, sbr. 15. gr. sömu laga, með sama hætti og með sömu vísitölustigum og þjáningabæturnar og vísist til þess. Þegar grunnfjárhæðin hefur verið uppfærð stendur grunnfjárhæðin í 6.449.726 kr. en samkvæmt 15. gr. s.l. skal upphæðin færð í næsta heila eða hálfa þúsund. Fjárhæðin verði því 6.450.000 kr. 8% af þessari fjárhæð sé 516.000 kr.
Varanleg örorka samkvæmt 5. gr. skaðabótalaga:
Bætur séu metnar til fjárhæðar sem nemi tíföldum árslaunum samkvæmt 7. gr. skaðabótalaganna margfölduðum með örorkustiginu, sbr. 6. gr. skaðabótalaganna. Varanleg örorka stefnanda sé metin 12%, samkvæmt yfirmatsgerð.
Í 7. gr. skaðabótalaganna segi að miða skuli við heildarvinnutekjur tjónþola á næstliðnu ári fyrir þann dag er tjón varð. Árslaun stefnanda 1998 hafi verið 2.248.931 kr. Við þessa fjárhæð beri að leggja 6% framlag atvinnurekanda í lífeyrissjóð og standi þá fjárhæðin í 2.383.867 kr. Uppfærð með vísitölu verði launin 3.470.543 kr. (sbr. skýringar í kaflanum um þjáningar hér að framan).
Stefnandi var 27 ára þegar slysið varð. Samkvæmt 9. gr. skaðabótalaganna þá lækka bætur um 1% við hvert æviár umfram 25 ára fram að 45 ára. Útreikningurinn, sbr. 6. gr. skaðabótalaganna, verði því 3.470.543*12= 34.705.429* 12%=4.164.651-83.293=4.081.358 kr.
Þann 3. apríl 2003 greiddi stefndi 261.750 kr. úr slysatryggingu launþega og eigi að draga þá fjárhæð frá varanlegri örorku, sbr. 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaganna. Heildarfjárhæð bótakröfu samkvæmt 5.-7. gr. sé því 4.081.358 kr.-261.750 kr. = 3.819.608 kr.
|
Samantekt kröfu: |
|
|
Þjáningar: |
kr. 134.470 |
|
Miskabætur: |
kr. 516.000 |
|
Varanleg örorka skv. 5. gr. |
kr. 3.819.608 |
|
Höfuðstóll stefnukrafna |
kr. 4.470.078 |
Vextir
Bætur fyrir þjáningar, varanlegan miska og varanlega örorku beri vexti frá því að tjón varð. Vextirnir skulu nema 2% á ári, sbr. 16. gr. skaðabótalaganna. Slysið varð 18. desember 1998. Málshöfðun hafi hins vegar dregist af ýmsum ástæðum. Vextir fyrnist á 4 árum og sé krafa því gerð um vexti síðustu 4 árin en aðrir vextir séu fyrndir og ekki gerð krafa um þá í þessu máli. Því sé gerð krafa um vexti samkvæmt skaðabótalögum frá 25. aprí1 2004 til 9. apríl 2007 og dráttarvexti frá þeim tíma til greiðsludags. Yfirmatsgerð og krafa samkvæmt henni hafi verið send stefnda 9. mars 2007 og mánuði síðar fari krafan að bera dráttarvexti, sbr. 9. gr. vaxtalaga nr. 38/2001.
Kröfu um bætur styður stefnandi við almennar reglur skaðabótaréttar, almennu skaðabótaregluna og reglur um ábyrgð vinnuveitanda á skaðaverkum starfsmanna sinna og hvað fjárhæðir snertir á skaðabótalögum nr. 50/1993 með síðari breytingum. Ennfremur styður stefnandi kröfur sínar um skaðabótaskyldu á reglum nr. 547/1996 sbr. 38. gr. laga nr. 46/1980 og byggingarreglugerð nr. 441/1998. Hvað tilkynningarskyldu og ábyrgð þess varðar vísar stefnandi til 79. gr. laga nr. 46/1980, og einnig til 3. mgr. 66. gr. laga nr. 19/1991. Kröfu um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Varðandi varnarþing er vísað til 33. gr. laga nr. 91/1991. Um virðisaukaskatt er vísað til laga 50/1988.
Málsástæður stefnda og lagarök
Sýknukröfu sína byggir stefndi annars vegar á því að ósannað sé að tjónið megi rekja til saknæmrar háttsemi stefnda eða starfsmanna hans eða annarra atvika sem stefndi beri skaðabótaábyrgð á að lögum og hins vegar á því að stefnandi verði sjálfur að bera tjón sitt að fullu sjálfur vegna eigin sakar.
Um ábyrgð stefnda fari samkvæmt sakarreglunni. Sé því mótmælt að beita skuli ströngu sakarmati gagnvart stefnda, eins og stefnandi virðist byggja á.
Byggir stefndi á því að orsök tjóns stefnanda hafi verið óhappatilviljun og/eða óaðgæsla hans sjálfs.
Ósannað sé að tjónið megi rekja til atvika sem stefndi ber skaðabótaábyrgð á að lögum.
Samkvæmt meginreglu skaðabótaréttar beri stefnandi sönnunarbyrðina fyrir orsök tjóns síns. Mótmæli stefndi því að skilyrði séu til að víkja frá þessari meginreglu og draga úr sönnunarkröfum gagnvart stefnanda.
Í máli þessu sé uppi nær alger sönnunarskortur um hvernig óhapp stefnanda atvikaðist og við hvaða aðstæður. Engin vitni hafi verið að óhappinu en nú sé liðinn heill áratugur síðan atvikið varð. Slysið hafi hvorki verið rannsakað af lögreglu né Vinnueftirliti ríkisins og langt sé síðan umræddir íbúðarskálar voru fjarlægðir af staðnum. Einnig séu fyrirliggjandi gögn ósamhljóða um það hvenær slysið varð þ.e. hvort það gerðist í upphafi eða lok vinnudags hinn 18. desember 1998. Þá sé algerlega ósannað að tröppur íbúðarskálans hafi verið hálar í umrætt sinn eða að lýsingu hafi þar verið ábótavant.
Byggt er á því að engin rök séu til þess að leggja sönnunarbyrði um ofangreind atriði á stefnda. Rétt sé að taka skýrt fram að stefnandi hafi ekki látið stefnda vita af óhappinu fyrr en tæpum þremur vikum eftir að það átti sér stað. Fyrir það tímamark hafði stefndi ekki nokkuð tilefni til að ætla að stefnandi hefði slasast á vinnusvæðinu við Sultartanga. Eins og áður sé rakið sé ósannað að óhappið hafi átt sér stað um morguninn áður en stefnandi mætti til vinnu. Í tilkynningu til Vinnueftirlitsins, sem m.a. sé undirritað af öryggistrúnaðarmanni, komi fram að slysið hafi átt sér stað hinn 18. desember 1998 kl. 16.00 en stefnandi hafi þá verið á heimleið. Hafi það verið síðasti vinnudagur stefnanda og hafi stefndi því haft litla möguleika til að átta sig á að stefnandi hefði orðið fyrir óhappi. Þaðan af síður gat stefndi vitað að afleiðingar óhappsins væru þær sem nú sé haldið fram.
Af hálfu stefnanda er byggt á því að vegna óhappsins hafi hann leitað til hjúkrunarkonu sem unnið hafi á virkjunarsvæðinu. Sé sú fullyrðing ekki studd neinum gögnum. Umrædd hjúkrunarkona hafi verið starfsmaður Landsvirkjunar og þannig ótengd stefnda. Liggi fyrir að hún hafi ekki tilkynnt stefnda um óhapp stefnanda.
Samkvæmt framansögðu hafi stefnda því ekki strax verið kunnugt um að stefnandi hefði orðið fyrir óhappi á virkjunarsvæðinu. Hafi stefndi ekki fengið vitneskju um óhappið fyrr en rúmum þremur vikum síðar. Hafi Vinnueftirliti ríkisins þá strax verið tilkynnt um óhappið. Mótmæli stefndi því harðlega að félagið hafi vanrækt tilkynningaskyldu sína samkvæmt reglum nr. 612/1989 um tilkynningu vinnuslysa, sem settar hafi verið á grundvelli laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Stefndi geti eðli máls samkvæmt ekki tilkynnt um óhapp sem félaginu sé ekki kunnugt um. Þá geti stefndi ekki borið ábyrgð á því að Vinnueftirlitið hafi ekki mætt á vettvang og skoðað aðstæður eftir að því hafði verið tilkynnt um óhappið.
Að öllu framangreindu virtu séu engin efni til að láta stefnda bera hallann af því að Vinnueftirlit ríkisins rannsakaði ekki aðdraganda og orsök slyssins og ástand tröppunnar við umræddan íbúðarskála í Sultartanga. Verði stefnandi sjálfur að bera hallann af þessum sönnunarskorti, enda hafi hann ekki strax gert stefnda grein fyrir slysinu. Stefndi mótmæli því sem ósönnuðu að aðbúnaður á vinnustaðnum hafi verið óforsvaranlegur og að hann hafi brotið gegn lögum nr. 46/1980, reglum nr. 547/1996 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og byggingarreglugerð nr. 441/1998.
Jafnvel þótt lagt væri til grundvallar að handrið hefði vantað á tröppurnar í íbúðarskálanum þá sé því mótmælt að sá meinti vanbúnaður hafi leitt til þess að óhappið átti sér stað. Í yfirmatsgerðinni sé haft eftir stefnanda að óhappið hafi orðið með þeim hætti að hann hafi stigið út á pall og runnið á svelli sem hafi verið á pallinum og fallið niður í miðjan stiga u.þ.b. einn og hálfan metra. Samkvæmt þessari lýsingu hafi það ekki verið vöntun á handriði sem olli fallinu heldur hálka á pallinum fyrir ofan tröppuna. Skorti því skilyrði um orsakasamhengi milli hins áætlaða vanbúnaðar trappanna og tjóns stefnanda.
Minnt sé á að óhappið átti sér stað utandyra um hávetur við virkjunarframkvæmdir á miðhálendi Íslands þar sem allra veðra sé von. Stefndi hafi enga möguleika haft á því að koma í veg fyrir að umræddar tröppur kynnu að verða hálar eða þar safnaðist snjór.
Eigin sök stefnanda.
Telji dómurinn að ekki hafi verið um óhappatilviljun að ræða, byggir stefndi á því að stefnandi verði sjálfur að bera fulla ábyrgð á tjóni sínu vegna eigin sakar.
Stefnandi hafi verið rúmlega 27 ára og menntaður trésmiður þegar slysið átti sér stað. Hann hafði unnið hjá stefnda í tæpa fjóra mánuði á virkjunarsvæðinu á Sultartanga. Í ljósi aldurs stefnanda, þekkingar hans og reynslu hafi honum mátt vera fullkunnugt um aðstæður og að hann þyrfti að sýna aðgát við ferðir milli staða á vinnusvæðinu. Í því sambandi skuli aftur bent á að stefnandi hafi augljóslega mátt eiga von á að pallurinn fyrir ofan tröppurnar kynni að vera háll vegna þeirra aðstæðna sem uppi eru á hálendinu á þessum tíma árs. Hafi ofangreind atriði gefið stefnanda tilefni til að gæta sérstakrar varúðar á leið sinni um svæðið.
Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnda um sýknu sé gerð krafa um verulega lækkun bóta.
Í fyrsta lagi byggir stefndi á því að bætur beri að lækka verulega vegna eigin sakar stefnanda. Hafi röksemdir þessu til stuðnings verið raktar hér að framan og vísist til þeirra.
Í öðru lagi mótmælir stefndi dráttarvaxtakröfu stefnanda frá fyrra tímamarki en dómsuppsögudegi.
Um lagarök vísar stefndi til almennra reglna skaðabótaréttar, einkum um sönnun tjóns og sönnunarbyrði, orsakatengsl og eigin sök tjónþola. Þá er vísað til skaðabótalaga nr. 50/1993 og 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Jafnframt vísar stefndi til 2. tölul. 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Málskostnaðarkrafa stefnda er byggð á XXI. kafla laga nr. 9111991 um meðferð einkamála.
Niðurstaða
Stefnandi ber sönnunarbyrðina fyrir því að hann hafi orðið fyrir slysi við vinnu sína hjá stefnda 18. desember 1999 og að hann hafi við slysið orðið fyrir líkamstjóni sem stefndi beri skaðabótaábyrgð á.
Stefnandi gaf ekki aðilaskýrslu fyrir dómi.
Hermann Sigurðsson verkfræðingur, sem var staðarstjóri á svæðinu á umræddum tíma, gaf skýrslu fyrir dómi. Lýsti hann aðstæðum við umræddan skála þannig að þegar gengið væri út úr skálanum væri komið út á malarpúða og til þess að komast út af þessum malarpúða væri um þrjá valmöguleika að ræða. Að ganga eftir malarpúðanum eftir aflíðandi brekku, ganga niður malarfláa, sem væri brattur kantur eða ganga niður nokkrar tröppur. Bar hann að malarkanturinn hefði ekki verið mjög hár. Kvað hann Vinnueftirlitið ekki hafa gert athugasemdir við aðbúnað á svæðinu. Bar Hermann einnig að stefnandi hefði verið aðstoðartrúnaðarmaður trésmiða og hefði sem slíkur, átt að vera kunnugt um skyldu sína að tilkynna vinnuveitanda um slysið.
Í stefnu er aðdraganda slyssins lýst þannig að stefnandi hafi verið að koma út úr svefnskála trésmiða. Hafi hann þurft að ganga niður um það bil 10 tröppur og hafi snjór og hálka verið á þeim. Staðfest er, sbr. framburð Hermanns Sigurðssonar, staðarstjóra að Sultartanga fyrir dómi, að ekkert handrið var á stiganum sem lá að húsi trésmiða á svæðinu. Í stefnu segir að stefnandi hafi runnið til og fallið illa niður tröppurnar. Í yfirmatsgerð er slysinu lýst þannig að hann hafi runnið á svelli sem var á pallinum og hann fallið niður í miðjan stigann.
Engin vitni voru að atburðinum og því enginn sem staðfest getur frásögn stefnanda af slysinu. Í framlagðri matsgerð, dags. 4. ágúst 2005, segir að stefnandi hafi unnið eftir slysið til hádegis en þá hafi hann verið orðinn stífur og það slæmur af verkjum að hann hætti. Hafi hann látið verkstjóra sinn vita en farið síðan til hjúkrunarfræðings sem var á svæðinu. Umræddur verkstjóri hefur ekki komið fyrir dóminn og liggur ekkert fyrir í málinu um að verkstjóra stefnanda hafi verið tilkynnt um slysið.
Staðhæfingar stefnanda um hvar og hvernig slysið varð fá enga stoð í læknisfræðilegum gögnum frá þeim tíma sem það á að hafa gerst. Engin læknisfræðileg gögn liggja fyrir í málinu sem staðfest geta að stefnandi hafi hlotið áverka við umrætt slys eða gögn um læknismeðferð sem hann kann að hafa hlotið eftir slysið.
Stefnandi tilkynnti vinnuveitanda sínum ekki um slysið fyrr en 8. janúar 2000, en slysið var þá strax tilkynnt til Vinnueftirlits ríkisins. Þykir ekki sýnt fram á að stefndi hefði getað fengið vitneskju um slysið fyrr en stefnandi tilkynnti um það. Því er haldið fram af hálfu stefnda að tilkynning um slysið hafi verið byggð á frásögn stefnanda en í tilkynningunni kemur fram að slysið hafi orðið kl. 16.00 en ekki um morguninn eins og segir í stefnu.
Stefnandi heldur því fram að slysið hafi gerst 18. desember árið 1998, eða fyrir 10 árum. Enda þótt telja megi að snjór og hálka hafi verið á svæðinu á þessum árstíma eru engin gögn í málinu er styðja það.
Þegar virt er það sem fram hefur komið í málinu verður að fallast á það með stefnda að sönnun skorti algerlega fyrir því hvernig umrætt slys atvikaðist. Því síður hefur stefnandi fært fram sönnur fyrir því að hann hafi orðið fyrir slysi er fellt geti bótaábyrgð á stefnda.
Samkvæmt framansögðu ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu.
Eftir atvikum ber að dæma stefnanda til þess að greiða stefnda málskostnað sem ákveðst 300.000 krónur.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.e. matskostnaður 805.000 krónur, kostnaður vegna gagnaöflunar og mætinga í Héraðsdómi Reykjavíkur, 35.391 króna og þóknun lögmanns stefnanda, Þorsteins Hjaltasonar hdl., 300.000 krónur, eða samtals 1.140.391 króna, greiðist úr ríkissjóði.
Við ákvörðun kostnaðar vegna matsgerða er tekið tillit til þess að í matsgerðum sínum fjalla dómkvaddir matsmenn einnig um slys sem stefnandi varð fyrir 16. nóvember 2000 og er máli þessu óviðkomandi. Við ákvörðun málflutningsþóknunar er ekki tekið tillit til virðisaukaskatts.
Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Fossvirki-Sultartangi sf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Bjarna Thorarensen Jóhannssonar.
Stefnandi greiði stefnda 300.000 krónur í málskostnað.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.e. matskostnaður, 805.000 krónur, kostnaður vegna gagnaöflunar og mætinga í Héraðsdómi Reykjavíkur, 35.391 króna, og þóknun lögmanns stefnanda, Þorsteins Hjaltasonar hdl., 300.000 krónur, eða samtals 1.140.391 króna, greiðist úr ríkissjóði.