Hæstiréttur íslands

Mál nr. 539/2002


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Húsbrot
  • Miskabætur


Fimmtudaginn 3

 

Fimmtudaginn 3. apríl 2003.

Nr. 539/2002.

Ákæruvaldið

(Ragnheiður Harðardóttir saksóknari)

gegn

X

(Kristján Stefánsson hrl.)

 

Kynferðisbrot. Húsbrot. Miskabætur.

X var ákærður fyrir kynferðisbrot og húsbrot með því að hafa ruðst heimildarlaust inn í íbúð Z, lagst ofan á hana þar sem hún svaf í rúmi sínu og haft samræði við hana á meðan þannig var ástatt um Z að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum svefndrunga. Í héraðsdómi var talið sannað með vitnisburði Z, sem fékk stuðning í skýrslu vitna fyrir dómi og öðrum gögnum málsins, að atburðirnir hefðu verið með fyrrnefndum hætti. Var X því sakfelldur fyrir að brjóta gegn friðhelgi heimilis Z og kynfrelsi hennar, sbr. 231. gr. og 196. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þóttu brot hans gróf. Var dómur héraðsdóms um 15 mánaða fangelsi staðfestur um annað en skaðabætur sem þóttu hæfilega ákveðnar 500.000 krónur. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 27. nóvember 2002 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu ákærða og greiðslu skaðabóta en þyngingar á refsingu.

Ákærði krefst aðallega sýknu og frávísunar á bótakröfu en til vara, að refsing verði milduð og skilorðsbundin og fjárhæð skaðabótakröfu lækkuð.

Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en skaðabætur, sem þykja hæfilega ákveðnar 500.000 krónur.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en skaðabætur, sem vera skulu 500.000 krónur.

Ákærði, X, greiði allan áfrýjunarkostnað sakarinnar, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. nóvember 2002.

Málið er höfðað með ákæru, útgefinni 8. apríl 2002, á hendur:  ,,[X] fyrir kynferðisbrot og húsbrot með því að hafa, aðfaranótt laugardagsins 12. janúar 2002 ruðst heimildarlaust  inn í íbúð [Z], lagst ofan á hana þar sem hún svaf í rúmi sínu og komið getnaðarlimi sínum fyrir í fæðingarvegi hennar og hafið samræðishreyfingar, á meðan þannig var ástatt um [Z] að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum svefndrunga.

Telst þetta varða við 231. gr. og 196. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 140, sbr. 4. gr. laga nr. 40/1992.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Af hálfu [Z] er þess krafist að ákærði verði dæmdur til greiðslu miskabóta að fjárhæð kr. 700.000, auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 12. janúar til greiðsludags og til að greiða lögmannsþóknun að mati dómsins eða síðar framlögðum reikningi, að viðbættum virðisaukaskatti.  Jafnframt er gerð krafa um að dráttarvextir leggist við höfuðstól miskabóta á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 12 mánuðum eftir upphafsdag vaxta, í samræmi við 12. gr. laga nr. 38/2001.”

Verjandi ákærða krefst sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins og til vara vægustu refsingar sem lög leyfa.  Verði dæmd refsivist er þess krafist að hún verði skilorðsbundin.  Þess er krafist að skaðabótakröfu Z verði vísað frá dómi.  Málsvarnarlauna er krafist að mati dómsins.

Hinn 15. janúar sl. kom Z til lögreglu og lagði fram kæru á hendur ákærða vegna háttsemi þeirrar sem lýst er í ákærunni.  Í kæruskýrslu sem tekin var af Z sama dag lýsti hún ferðum sínum að kvöldi föstudagsins 11. janúar sl. og er hún hélt heim á leið af veitingastað um kl. 01.30 aðfaranótt 12. janúar.  Hún kvaðst hafa lagst til svefns, en vaknað um nóttina við það að ákærði lá ofan á henni og hvíslaði í eyra hennar.  Hún kvaðst hafa sofið djúpum svefni og verið dálitla stund að átta sig, en sér hafi brugðið og hún hafi fundið fyrir hræðslu.  Hún kvaðst hafa ýtt manninum ofan af sér og spurt hann hvað væri að gerast, en maðurinn hafi haldið áfram að ávarpa hana fullu nafni og segjast elska hana og fleira.  Hún kvaðst hafa verið staðin upp úr rúminu og komin fram í eldhús er hún áttaði sig á því hver maðurinn var, sem brotist hafði inn til hennar og beitt hana kynferðislegu ofbeldi. Hún lýsti því að sér hafi brugðið og hún hafi orðið undrandi þegar hún sá að ákærði var þarna á ferð.  Hún kvaðst hafa verið klædd nærbuxum er hún sofnaði, en ákærði hefði klætt hana úr þeim.  Hún lýsti kynnum sínum af ákærða, en þau hafi verið í sambúð fyrir um 15 árum.  Þá lýsti hún því hvernig hún kom ákærða út úr íbúðinni en hún kvaðst hafa fundið nærbuxur hans á svefnherbergisgólfinu, en þær afhenti hún lögreglunni.

Ákærði lýsti því hjá lögreglunni er hann kom á heimili Z þessa nótt.  Hann hafi bankað á útidyrnar, en enginn hafi svarað.  Hann hafi þá farið að glugga sem veit út í garðinn til að athuga hvort hann sæi Z.  Hann kvaðst þá  hafa veitt því athygli að stofugluggi var ekki festur og kvaðst ákærði hafa talið sig velkominn til Z þótt hann færi inn um gluggann, sem hann hafi gert.  Hann kvað Z hafa verið hálfvaknaða er hann kom að henni í svefnherberginu og hafi hún verið glöð að sjá hann og spurt hvort hann ætlaði ekki að koma upp í rúm til hennar.  Hann kvaðst hafa flýtt sér að afklæðast og farið upp í rúm til hennar.  Ákærði kvað þau Z hafa verið í keleríi og ástaratlotum ,,sem fór ekki alla leið”, þar sem ákærði hafi verið frekar drukkinn og Z hafi ekki haft mikinn áhuga, en bara viljað faðma hann eins og ákærði lýsti.

Nú verður rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.

Ákærði neitar sök.  Hann lýsti erjun við barnsmóður sína 11. janúar sl. og ferð sinni í miðbæinn um nóttina. Hann hafi munað eftir Z er hann fór fram hjá gömlum vinnustað hennar um nóttina en hann kvað þau Z hafi verið í sambúð á árunum 1984 til 1987.  Hann kvað bróður sinn hafa verið kvæntan systur Z og vegna þeirra tengsla kvaðst ákærði stöku sinnum hafa hitt Z eftir að sambúð þeirra lauk.  Hann kvaðst síðast hafa hitt Z í ágústmánuði síðastliðnum. Eftir að muna eftir Z við að ganga fram hjá fyrrum vinnustað hennar um nóttina kvaðst hann hafa ákveðið að hitta hana og tekið leigubifreið heim til hennar upp úr klukkan 3 um nóttina. Hann kvaðst hafa verið frekar drukkinn.  Hann kvaðst hafa séð ljós loga í íbúðinni. Ekki hafi verið svarað er hann bankaði og hringdi dyrabjöllu, sem hann kvaðst telja að ekki  hafi heyrst í.  Hann kvaðst hafa verið á leiðinni í burtu er hann sá opinn glugga.  Fyrir dómgreindarleysi og sökum ölvunar kvaðst hann hafa farið inn um gluggann, en það kvaðst hann hafa talið sjálfsagt, þar sem þau Z þekktust.  Við að fara inn um gluggann kvaðst hann hafa brotið stórt leirker sem stóð á gólfinu og hafi honum brugðið mikið við hávaðann sem af því hlaust. Hann kvaðst hafa fundið Z inni í sínu herbergi og hafi hún horft á hann og heilsað honum er hann kom þar inn.  Hann kvað hana ekki hafa verið hissa að sjá sig og kvaðst hann hafa klætt sig úr fötum eftir að hún heilsaði honum og sagði honum að koma eða eitthvað í þá áttina, eins og ákærði bar.  Án mikilla orðaskipta hafi hann þessu næst farið upp í rúm til hennar, þar sem hann kvað þau hafa verið í ,,einhverju keleríi”.  Hann kvaðst ekki hafa verið í ásigkomulagi til að hafa við hana samfarir.  Hafi hann sett lim sinn inn í Z hafi það ekki verið það sem ákærði kalli samfarir eða samfarahreyfingar og skýrði hann það af ástandi sínu.  Hann kvað hugsanlegt að hann hafi sett lim sinn inn í Z, en það væri óljóst.  Hann kvað Z hafa verið vakandi allan tímann sem þau voru upp í rúminu og lýsingin í ákærunni um að hún hafi ekki getað spornað við verknaðinum sökum svefndrunga geti ekki passað og það sem fram fór hafi farið fram með hennar samþykki.  Ákærði kvað Z hafa verið rólega. Eftir um 5 mínútur í rúminu hafi Z staðið á fætur, klætt sig og haldið fram í eldhús. Hann kvaðst einnig hafa klætt sig og haldið fram í eldhús, en hann kvaðst ekki hafa fundið nærbuxur sínar. Í eldhúsinu hafi Z spurt hann að því hvernig hann hefði komist inn í íbúðina til hennar.  Hann lýsti samræðum þeirra í eldhúsinu.  Ákærði kvaðst hafa farið í góðu eftir að Z hefði hringt í leigubíl fyrir hann.  Hann kvaðst hafa ætlað að hringja í Z daginn eftir, sem ekki hafi orðið úr.  Þá lýsti hann því er bróðir hans hringdi í hann og tilkynnti honum að Z ætlaði að kæra hann.  Hann kvaðst ekki hafa rætt við Z eftir þetta.

Z kvaðst hafa búið með ákærða á árunum 1984-1987.  Hún kvaðst hafa vitað af ákærða síðan sökum þess að systir hennar var gift bróður hans og fyrir hafi komið að hún hafi hitt ákærða í fjölskylduboðum.  Hún kvaðst engin önnur samskipti hafa haft við ákærða, utan ef til vill að hafa hitt hann einu sinni á ári fyrir tilviljun.  Þá lýstu hún stuttu sambandi þeirra fyrir 9 til 10 árum.  Hún kvaðst telja að hún hafi hitt ákærða fyrir tilviljun einu til einu og hálfu ári á undan atburði þeim sem í ákæru greinir.  Hún kvað engan vinskap hafa verið milli þeirra ákærða, en hann hafi hins vegar átt það til að hringja í hana ölvaður. 

Z kvaðst að kvöldi 11. janúar síðastliðinn hafi farið út að skemmta sér ásamt hópi af fólki.  Hún kvaðst hafa verið mjög þreytt eftir mikla vinnu og verið illa upplögð.  Eftir að hafa drukkið þrjá til fjóra bjóra á skemmtistaðnum kvaðst hún hafa tekið leigubíl heim til sín um kl. 01.30.  Eftir heimkomu kvaðst hún hafa ,,steinrotast” uns hún vaknaði með ákærða ofan á sér, þar sem hann hafi verið að hafa við hana samfarir og viðhaft hreyfingar eins og þær sem lýst er í ákærunni.  Hún kvaðst ekki hafa orðið hans vör áður og ekki hafa heyrt neitt, hvorki bank, þrusk né læti í íbúðinni.  Hún hafi vaknað við það að ákærði hvíslaði nafn hennar í eyra henni auk þess sem hann hafi sagst elska hana.  Hún kvaðst ekki hafa áttað sig strax á hvað var að gerast, en dimmt hafi verið inni.  Henni hafi brugðið mjög, en tekist að hrinda ákærða ofan af sér.  Hún kvaðst hafa stokkið fram úr rúminu, klætt sig í peysu og haldið fram í eldhús, en þá kvaðst hún hafa áttað sig á því hver var þarna á ferðinni.  Ákærði hafi komið á eftir henni, en hann hafi verið rólegur, og sest nakinn á stól.  Ekki hafi verið hægt að ná neinu sambandi við hann. Hann hafi talað endalaust og sagt henni hvað hann elskaði hana mikið.  Hún kvaðst hafa farið inn í svefnherbergið aftur til að sækja föt hans og kvaðst hún þá hafa séð ummerki í stofunni og áttað sig á því að ákærði hefði komið inn um stofugluggann.  Hún kvaðst hafa verið hrædd við ákærða en fært honum fötin, hringt á leigubíl og skipað honum út.  Hann hafi verið mjög lengi og kvaðst hún þá hafa hringt á annan leigubíl.  Hann hafi síðan farið.  Hún kvað hann hafa hringt daginn eftir eða á mánudeginum, og kvaðst hún hafa svarað en lagt á.  Eftir að hann fór kvaðst hún ítrekað hafa reynt að ná símsambandi við vinkonu sína uns hún sendi henni símaskilaboð og bað hana um að hafa við sig samband.  Z kvaðst hafa ákveðið að leggja fram kæru á hendur ákærða eftir að hún hafi farið á neyðarmóttöku og náð að átta sig á því sem hafði gerst, en hún lýsti því að sér hafi fundist þessi atburðarás mjög óraunveruleg í fyrstu.  Hún kvaðst hvorki hafa gefið ákærða né öðrum neitt það til kynna að hún vildi hafa við ákærða eitthvert kynferðislegt samband.  Hún lýsti þeim slæmu áhrifum sem atburðurinn hefði haft á hana.

A, systir Z, lýsti því er hún ræddi í síma við Z um hádegið á sunnudeginum eftir atburðinn.  Hún kvað Z í fyrstu hafa verið mjög skrýtna, en hún hafi síðan greint sér frá því sem gerðist og að hún hafi vaknað með ákærða ofan á sér og að hafa við sig samræði.  Hún hafi náð að komast undan honum og fram í eldhús, en ákærði hafi komið nakinn á eftir henni.  Z hafi síðan komið ákærða út eftir að hafa hringt á leigubíl fyrir hann. 

A kvað ákærða hafa hringt í sig eftir að hún hafi rætt við systur sína um þessa atburði.  Fram hafi komið hjá ákærða að hann hafi viljað fá hana til að ræða við Z fyrir sig og hann vildi bæta fyrir þetta. 

B, vinkona Z, kvaðst hafa séð skilaboð á síma sínum og þá hringt í Z 12. janúar, en þær hafi verið saman að skemmta sér kvöldið áður.  Z hafi þá greint henni frá því að hún hafi vaknað með ákærða ofan á sér og inni í sér.  Z hafi sagt henni frá því að hún hafi verið lengi að vakna og átta sig á því hvað var að gerast.  Hún hafi síðan náð að átta sig og tekist að ýta honum ofan af sér. Þessu næst hafi hún klætt sig í peysu og haldið fram í eldhús, en ákærði hafi komið nakinn á eftir henni.  B hafði síðan eftir Z að henni hafi tekist að koma ákærða í burtu eftir að hafa hringt á leigubíl fyrir hann.  Hún kvaðst hafa spurt Z hvernig ákærði hefði komist inn til hennar og hún þá sagt að hann hefði komið inn um glugga.  Hún kvað Z hafa verið mjög ólíka sjálfri sér er hún greindi henni frá þessu, en hún kvaðst hafa þekkt Z frá 10 til 12 ára aldri.  Þóra kvaðst hafa fylgt Z á neyðarmóttöku.

C, vinkona Z, lýsti því er hún hringdi í Z laugardaginn 12. janúar til að fá fréttir af skemmtuninni sem hún vissi að Z sótti kvöldið áður.  C kvaðst hafa heyrt á Z að eitthvað var að.  Í símtali einum til tveimur tímum síðar hafi Z greint sér frá því að hún hafi vaknað um nóttina með ákærða ofan á sér hafandi við hana samræði. Z hafi lýst því er hún klæddist peysu og hélt fram í eldhús og ákærði hafi komið nakinn á eftir henni.  Hún hafi lýst atburðum inni í eldhúsi uns hún hafi hringt á leigubíl í tvígang og komið ákærða út.  Z hafi verið í losti, en hún hafi greint vitninu frá því að ákærði hafi brotist inn til hennar.

D, bróðir ákærða, lýsti vitneskju sinni um málið.  Hann lýsti því er Z hringdi í hann á sunnudeginum eða mánudeginum eftir atburðinn sem í ákærunni greinir.  Z hafi greint honum frá því að hún hafi vaknað með ákærða ofan á sér um nóttina.  Hún hafi velt ákærða ofan af sér og hafi hún þá farið fram í eldhús, en ákærði fylgt henni nakinn.  Þá hafi hún farið inn í svefnherbergi sitt, sótt föt ákærða, hringt á leigubíl og sagt ákærða að koma sér heim.  Ekki er ástæða til að rekja vitnisburð D frekar.

Guðbjörg Ragna Ragnarsdóttir sálfræðingur staðfesti vottorð sem hún ritaði vegna fimmtán viðtala við Z vegna þessa máls.

Niðurstaða

Sannað er með skýlausri játningu ákærða og með öðrum gögnum málsins að hann fór heimildarlaust inn í íbúð Z eins og lýst er í ákærunni og varðar sú háttsemi hans við 231. gr. almennra hegningarlaga.

Z kom á neyðarmóttöku 12. janúar kl. 16.00. Frásögn hennar þar af atburðum er efnislega á sama veg og hún greindi frá bæði hjá lögreglu og fyrir dómi. Í skýrslu neyðarmóttöku segir að frásögn Z hafi verið skýr en hún hafi ekki verið fyllilega áttuð á því hvernig hún ætti að taka á málinu. Þá segir m.a. að óraunveruleikakenndar hafi orðið vart hjá henni.

Ákærði reyndi bæði að hringja dyrabjöllu og banka áður en hann fór inn um gluggann.  Sannað er með framburði ákærða og vitnisburði Z og með ljósmyndum af vettvangi að ákærði braut við þetta leirker á gólfinu, sem af hefur hlotist hávaði, enda bar ákærði að sér hafi brugðið.  Ákærði bar að Z  hafi verið vakandi er hann kom í svefnherbergi hennar og að hún hafi boðið honum umsvifalaust upp í rúmið til sín og allt sem þar gerðist hafi verið með hennar samþykki. Þessi framburður ákærða og framburður hans í heild um það sem gerðist eftir að hann kom í húsið inn um gluggann um hánótt þykir svo ótrúverðugur að hann sé að engu hafandi, enda í ósamræmi við allt annað sem fram er komið í málinu. 

Ákærði bar hjá lögreglu að hann hafi vænst þess að hann væri velkominn til Z þótt hann færi inn um gluggann.  Ekkert er fram komið í málinu sem bendir til þess að Z hafi nokkurn tíma gefið til kynna að hún bæri einhverjar þær tilfinningar í garð ákærða, að hann hafi þess vegna mátt vænta þess að hann væri velkominn inn til hennar, inn um glugga um hánótt meðan hún svaf.  Þvert á móti hefur Z borið að hún hafi aldrei gefið í skyn að hún hefði einhverjar slíkar tilfinningar í garð ákærða.  Z hefur borið að hún hafi vaknað með ákærða ofan á sér hafandi við sig samræði.  Hún viti ekki hversu lengi þetta hafi staðið yfir, en hún hafi verið þreytt og sofið fast og því verið lengi að átta sig. 

Samkvæmt öllu því sem nú hefur verið rakið telur dómurinn sannað með vitnisburði Z, sem fær stuðning af vitnisburði þeirra vitna sem komu fyrir dóminn og öðrum gögnum málsins, að atburðir hafi verið með þeim hætti sem í ákæru greinir og að Z hafi sökum svefndrunga ekki getað spornað við verknaðinum.  Þessi háttsemi ákærða varðar við 196. gr. almennra hegningarlaga, svo sem í ákæru greinir.

Ákærði hefur ekki áður hlotið refsingu.  Hann er sakfelldur fyrir að brjóta gegn friðhelgi heimilis Z  og að brjóta gegn kynfrelsi hennar. Brot hans eru gróf. Refsing hans er ákvörðuð með hliðsjón af  77. gr. almennra hegningarlaga og þykir þannig hæfilega ákvörðuð fangelsi í 15 mánuði.

Z á rétt miskabótum úr hendi ákærða sbr. 26. gr. skaðabótalaga.  Þykja bæturnar hæfilega ákvarðaðar 700.000 krónur auk dráttarvaxta frá 19. mars 2002 en þá var mánuður liðinn frá því ákærða var birt krafan.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með taldar 200.000 krónur í málsvarnarlaun til Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns og 100.000 krónur í réttargæsluþóknun til Þórdísar Bjarnadóttur héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns Z.

 Kolbrún Sævarsdóttir fulltrúi flutti málið fyrir ákæruvaldið.

 Dóminn kveða upp héraðsdómararnir Guðjón St. Marteinsson sem dómsformaður, Sigríður Ingvarsdóttir og Sigríður Ólafsdóttir.

DÓMSORÐ

Ákærði, X, sæti fangelsi í 15 mánuði.

Ákærði greiði Z 700.000 krónur í miskabætur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 19. mars 2002 að telja og til greiðsludags.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með taldar 200.000 krónur í málsvarnarlaun til Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns og 100.000 krónur í réttargæsluþóknun til Þórdísar Bjarnadóttur héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns Z.