Hæstiréttur íslands

Mál nr. 50/2000


Lykilorð

  • Bifreið
  • Slysatrygging ökumanns


Fimmtudaginn 15

 

Fimmtudaginn 15. júní 2000.

Nr. 50/2000.

Jóhann Jóhannsson

(Örn Höskuldsson hrl.)

gegn

Vátryggingafélagi Íslands hf.

(Hákon Árnason hrl.)

                                                

Bifreiðir. Slysatrygging ökumanns.

J, sem var ökumaður sendibifreiðar, varð fyrir slysi þegar hann vann að því að ferma bifreiðina. Krafði hann vátryggjanda hennar, V, um bætur í skjóli slysatryggingar ökumanns samkvæmt 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Þótt vél bifreiðarinnar væri í gangi á meðan J vann að því að ferma hana var hún kyrrstæð og verkið ekki leyst af hendi með sérstökum búnaði hennar. Þótti slysið hvorki hafa hlotist af akstri bifreiðarinnar né sérstökum búnaði hennar eða eiginleikum sem ökutækis eða flutningabifreiðar. Með því að slysið átti samkvæmt þessu ekki rætur að rekja til vélknúins ökutækis í notkun féll tjón J utan gildissviðs vátryggingar eftir 92. gr. umferðarlaga og var V sýknað af kröfum J.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. febrúar 2000. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér aðallega 5.128.965 krónur, en til vara aðra lægri fjárhæð, með 2% ársvöxtum frá 7. febrúar 1996 til 23. mars 1999, en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur og áfrýjanda gert að greiða sér málskostnað fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður falli niður.

Eins og greinir í héraðsdómi vann áfrýjandi að morgni 7. febrúar 1996 sem ökumaður sendiferðabifreiðarinnar BM 542 við að ferma hana við skipaafgreiðslu á Stöðvarfirði, en bifreiðin var í eigu vinnuveitanda hans, J.G. Matvæla ehf. Kveðst áfrýjandi þá hafa orðið fyrir slysi þegar hann hafi haldið á þremur kössum, fremur þungum, og ætlað að ýta með þeim léttri kassastæðu framar á pall bifreiðarinnar. Hafi kassastæðan ekki runnið fram eftir pallinum, eins og áfrýjandi hafi búist við, heldur staðið þar kyrr á gúmmímottu. Við það hafi myndast mikið álag á handleggi áfrýjanda með þeim afleiðingum að axlarsin í hægri öxl hafi rifnað og rifa komið á axlarvöðva. Áfrýjandi gekkst undir aðgerð á öxlinni í október 1996 og dvaldist í kjölfarið á sjúkrastofnun til endurhæfingar. Samkvæmt álitsgerð 30. júlí 1998 frá sérfræðingi í bæklunarskurðlækningum varð áfrýjandi fyrir tímabundnu atvinnutjóni eftir slysið og hlaut af því 12% varanlega örorku og miska. Í málinu krefst áfrýjandi greiðslu í skjóli slysatryggingar ökumanns samkvæmt 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Fyrir Hæstarétti hefur áfrýjandi með samþykki stefnda hækkað dómkröfu sína úr 4.955.026 krónum í fyrrgreinda fjárhæð, 5.128.965 krónur. Þessi nýja krafa áfrýjanda er sundurliðuð á sama veg og upphafleg krafa hans, sem greint er frá í héraðsdómi, að frátalinni kröfu um tímabundið atvinnutjón, sem nú er að fjárhæð 1.559.390 krónur í stað 1.385.451 krónu áður.

Áfrýjandi var sem fyrr segir að ferma kyrrstæða sendiferðabifreið þegar hann varð fyrir slysinu, sem um ræðir í málinu. Þótt vél hennar hafi samkvæmt frásögn áfrýjanda verið í gangi meðan á verkinu stóð var það ekki leyst af hendi með sérstökum búnaði bifreiðarinnar, heldur beitti áfrýjandi handafli. Slysið hlaust þannig hvorki af akstri bifreiðarinnar né sérstökum búnaði hennar eða eiginleikum sem ökutækis eða flutningabifreiðar. Með því að slysið átti samkvæmt þessu ekki rætur að rekja til vélknúins ökutækis í notkun fellur tjón áfrýjanda utan gildissviðs vátryggingar eftir 92. gr. umferðarlaga. Verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms því staðfest.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. desember 2000.

                Mál þetta, sem dómtekið var 22. nóvember sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Erni Höskuldssyni hrl. f.h. Jóhanns Jóhannessonar, kt. 060948-7719, Hólalandi 20, Stöðvarfirði, gegn Vátryggingafélagi Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 5, Reykjavík, með stefnu sem birt var 16. mars 1999.

                Endanlegar dómkröfur stefnanda eru að stefnda félag verði dæmt til þess að greiða stefnanda 4.955.026 krónur með vöxtum skv. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, frá slysadegi 7. febrúar 1996 til 23. mars sl. en með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags.  Þess er krafist að vöxtum verði bætt við höfuðstól á 12 mánaða fresti.  Til vara er þess krafist að stefnda verði dæmt til þess að greiða stefnanda lægri fjárhæð með sömu vöxtum og í aðalkröfu.  Í báðum tilvikum er þess krafist að stefnda verði dæmt til þess að greiða stefnanda málskostnað skv. gjaldskrá að viðbættum virðisaukaskatti.

                Dómkröfur stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., eru aðallega að verða sýknað af öllum kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður úr hans hendi að mati dóms­ins að teknu tilliti til virðisaukaskatts, en til vara að stefnukröfur verði stórlækk­aðar og málskostnaður felldur niður.

                Stefnandi lýsir málavöxtum þannig:  Stefnandi var starfsmaður JG. Matvæla á Stöðvarfirði og sem slíkur ökumaður bifreiðarinnar BM-542 sem er vöruflutninga­bifreið.  Snemma morguns þ. 7. febrúar 1996 var stefnandi að ferma bifreiðina.  Var vél bifreiðarinnar í gangi.  Hélt stefnandi á þremur kössum fremur þungum og ætlaði að ýta stæðu með léttum kössum fram á pall bifreiðarinnar með kössum þeim sem hann hafði í fanginu.  Hafði stefnandi margoft viðhaft slík vinnubrögð og gengið vel þar sem léttir kassar runnu auðveldlega eftir hálu járn- eða trégólfi.  Er stefnandi ýtti kassastæðunni til varð fyrirstaða sem hann átti ekki von á þar sem kassastæðan lá á stamri gúmmímottu sem lá yfir allt flutningsrými bifreiðarinnar.  Varð mikið álag á hendur stefnanda einkum þá hægri en stefnandi er rétthendur.  Fann stefnandi smell í hægri öxl sinni og varð handleggur hans máttlaus.

                Afleiðing slyss þessa var sú að axlarsin í hægri öxl hans rifnaði algjörlega auk þess sem rifa kom í axlarvöðva.  Var gerð aðgerð á öxl stefnanda þ. 17.10.1996 og lá stefnandi á Landspítalanum í fjóra daga og síðar á heilsustofnun NFLÍ í Hveragerði í 28 daga.

                Með bréfi, dags. 23. júní 1998, óskaði lögmaður stefnanda eftir því að Atli Þór Ólason læknir mæti örorku stefnanda vegna vinnuslyss 18. júní 1992 og vegna þess sem hann kallar umferðarslys 7. febrúar 1996.  Niðurstaða læknisins var þessi:

 

„Við vinnuslysið 18.07.1992 varð Jóhann Jóhannsson fyrir eftirfarandi skaða:

 

                Tímabundin örorka:

Þrjár vikur.........................     100%

Varanleg örorka......................  5%

 

Við umferðarslysið 07.02.1996 varð Jóhann Jóhannsson fyrir eftirfarandi skaða með hliðsjón af skaðabótalögum nr. 50/1993:

 

1.             Tímabundið atvinnutjón skv. 2. gr: 14 mánuðir ...... 100%

2.             Þjáningabætur skv. 3. grein: Rúmliggjandi: Frá 17.10.1996 til 21.10.1996 og Frá 18.11.1996 til 16.12.1996. Batnandi, með fótaferð, alls 14 mánuðir að frádregnu tímabili því sem hann var rúmliggjandi.

 

3.             Varanlegur miski skv. 4. grein: 12%

4.             Varanleg örorka skv. 5. grein: 12%

5.             Hefðbundin, varanleg læknisfræðileg örorka: 12%".

                Við munnlegan flutning málsins sundurliðaði stefnandi skaðabótakröfuna þannig: 

             Vinnutekjutap kr. 173.939.-x 8=1.565.451.-,-180.000.-                                       kr.               1.385.451.-

             Þjáningabætur með rúmlegu kr. 1.440.- x 32 dagar                                           kr.                    46.080.-

             Þjáningabætur án rúmlegu kr. 780.- x393 dagar                                                kr.                  305.760.-

             Varanlegur miski kr. 4.443.000.-x 12%                                                                 kr.                  537.160.-

             Vegna varanlegrar örorku kr. 3.504.318.-x 6%=3.714.577.-

             ÷ 3453x3643= 3.918.970.-x 7.5% x 12%                                                                kr.               3.527.073.-

             Frádráttur vegna aldurs 24%                                                                               kr.                  846.498.-

             Samtals                                                                                                                   kr.               4.955.026.-

 

                Stefnandi kveðst byggja á því að hafa slasast við starfa sinn sem ökumaður bifreiðarinnar BM-542 þegar hann var að ferma bifreiðina.  Hafi bifreiðin verið í venju­legri og eðlilegri notkun sem vöruflutningabifreið þegar slysið varð en losun og lestun vöruflutningabifreiðar sé þáttur í notkun hennar í skilningi 92. gr. umferðar­laga.  Hann hafi orðið fyrir tjóni vegna vinnutaps, þjáninga, varanlegs miska og varan­legrar örorku.  Sé stefndi bótaskyldur gagnvart honum þar sem bifreiðin BM-542 hafi verið tryggð hjá stefnda lögboðinni ábyrgðartryggingu og hafi ökumaður og verið tryggður skv. 92. gr. umferðarlaga.

                Stefndi kveðst ekki bera bótaábyrgð á tjóni stefnanda enda hafi óhappið ekki orðið við stjórnun bifreiðarinnar BM-542 og verði ekki rakið til notkunar hennar í skiln­ingi 88. og 92. gr. umferðalaga nr. 50/1987.  Af því leiði að ökumannstrygging bifreiðarinnar nái ekki til tjóns stefnanda.  Bætur séu ákveðnar eftir umferðarlögum nr. 50/1987, skaðabótalögum nr. 50/1993 og almennum sönnunarreglum skaðabóta-réttarins.  Á því sé byggt að stefnandi hafi verið að ýta til kössum í farangursgeymslu bifreiðarinnar BM-542 er óhappið varð, en sú háttsemi tengist ekki neinu því er varði stjórnun bifreiðarinnar.  Bifreiðin hafi verið kyrrstæð og hafi stefnandi ekki sýnt fram á að aflvél hennar hafi verið í gangi.  Þar sem slysið hafi þannig ekki hlotist af vél­knúnu ökutæki í notkun falli það utan gildissviðs vátryggingar 92. gr. umferðarlaga.

                Verði komist að þeirri niðurstöðu að stefndi beri bótaábyrgð vegna tjóns stefnanda krefst stefndi þess að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega.  Stefndi mótmælir matsgerð Atla Þórs Ólasonar læknis sem rangri og sérlega vilhallri.  Stefndi bendi á að stefnandi hafi slasast á sama stað þremur og hálfu ári áður og megi því ætla að hluti þess tjóns sem hann búi við hafi orðið til þá en stefndi ekki gerður ábyrgur fyrir því.  Að öðru leyti gerir stefndi eftirfarandi athugasemdir við einstaka kröfuliði í stefnu:

„1.           Tímabundið atvinnutjón skv. 2. gr. skaðabótalaga.

Stefnandi gerir kröfu um bætur að fjárhæð kr. 1.399.600 vegna tímabundins atvinnutjóns í 8 mánuði er leitt hafi af þeim áverkum sem stefnandi hlaut á öxl við óhappið.  Í vottorðum lækna kemur hins vegar fram að á sama tímabili hafi stefnandi þjáðst af bakverkjum (dskj. 4) og í kjölfarið farið í aðgerð á baki (dskj. 6).  Bakverkir stefnanda stöfuðu ekki af því óhappi sem um er deilt í máli þessu (dskj. 6) og á því atvinnutjóni sem stefnandi kann að hafa orðið fyrir vegna þeirra ber stefnda ekki ábyrgð.  Er kröfu stefnanda um bætur vegna atvinnutjóns því mótmælt sem ósönnuðum.

2.             Krafa um þjáningabætur skv. 3. gr. skaðabótalaga.

Stefnandi gerir kröfu um greiðslu kr. 351.840 vegna þjáninga, í samræmi við 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Frá því slysið varð í febrúar 1996 og fram í ágúst sama ár þáði stefnandi hins vegar full vinnulaun og hefur stefnandi ekki lagt fram sjálfstæð vottorð lækna um  að hann hafi verið óvinnufær á því tímabili heldur stafar sú fullyrðing alfarið frá stefnanda sjálfum (dskj. 6).  Er fullyrðingum um að stefnandi hafi verið óvinnufær á því tímabili því mótmælt sem ósönnuðum.  Í álitsgerð Atla Þórs Ólasonar er komist að þeirri niðurstöðu að stefnandi eigi rétt á bótum samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga frá slysadegi og þar til "lokið [var] allri meðferð og rannsókn" (dskj. 7).  Ljóst er að fyrrgreind fullyrðing er röng þar sem stefnandi á aðeins rétt til bóta á þeim tíma sem hann var sannanlega veikur en um það nýtur ekki gagna.  Er kröfum stefnanda um þjáningabætur því mótmælt í heild sinni sem ósönnuðum.

3.             Krafa um bætur vegna varanlegs miska skv. 4. gr. skaðabótalaga.

Stefnandi gerir kröfu um greiðslu kr. 537.160 vegna varanlegs miska og er þar miðað við 12% varanlegan miska samkvæmt mati Atla Þórs Ólasonar, læknis (dskj. 7).  Með vísan til þess sem fyrr er getið er fyrrgreindu mati mótmælt sem röngu og vilhöllu ...

4.             Krafa um bætur vegna varanlegrar örorku skv. 5.-7. gr. skaðabótalaga.

Stefnandi gerir kröfu um bætur að fjárhæð kr. 3.527.073 vegna varanlegrar örorku er hann telur sig hafa orðið fyrir.  Byggir stefnandi þar á álitsgerð Atla Þórs Ólasonar, læknis (dskj. 7).  Með vísan til þess sem fyrr er getið er fyrrgreindu mati mótmælt sem röngu og vilhöllu ...

5.             Krafa um dráttarvexti.

Kröfu um dráttarvexti er mótmælt frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi eins, og málið er vaxið.   Hefur stefndi haft réttmæta ástæðu til að draga í efa að það beri bótaábyrgð á tjóni stefnanda og er óeðlilegt að dráttarvextir verði dæmdir fyrr en úr þeim vafa hefur verið skorið."

 

Niðurstaða:

 

                Ekki er deilt um að stefnandi stóð fyrir utan bifreiðina BM-542, sem er lítil flutningabifreið (sendiferðabíll), og var að ferma hana, þegar hann varð fyrir því slysi, sem hér um ræðir.  Hann var einnig ökumaður bifreiðarinnar í það sinn.

                Stefnandi byggir á því að lestun og losun slíkrar bifreiðar sé þáttur í notkun hennar í skilningi 92. gr. umferðalaga.  Stefndi telur hins vegar að slys við fermingu bifreiðar með handafli, eins og hér um ræðir, falli utan við notkunarhugtak 88. gr. umferðalaga og hugtakið „stjórn ökutækis" í 92. gr. sömu laga.

                Bifreiðin BM-542 var kyrrstæð þegar slysið varð.  Við fermingu bifreiðarinnar var ekki notaður neinn aukabúnaður, sem fylgir oft flutningabifreiðum til lestunar eða losunar.  Og enda þótt gúmmímotta, sem lá yfir flutningsrými bifreiðarinnar, hafi reynst stamari en stefnandi gerði ráð fyrir, getur sá eiginleiki mottunnar hvorki flokkast undir bilun né galla.  Slys stefnanda fellur þannig utan gildissviðs vátrygg­ingar 92. gr. umferðalaga og verður stefnda félag því sýknað af kröfum stefnanda.

                Rétt er að málskostnaður falli niður.

                Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

 

DÓMSORÐ:

 

                Stefnda, Vátryggingafélag Íslands hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Jóhanns Jóhannssonar.

                Málskostnaður fellur niður.